M’Cheyne Bible Reading Plan
9 Drottinn talaði við Móse í Sínaí-eyðimörk á öðru ári eftir brottför þeirra af Egyptalandi, í fyrsta mánuðinum, og sagði:
2 "Ísraelsmenn skulu halda páska á tilteknum tíma.
3 Á fjórtánda degi þessa mánaðar um sólsetur skuluð þér halda þá á hinum tiltekna tíma. Eftir öllum skipunum og öllum ákvæðum um þá skuluð þér halda þá."
4 Móse bauð Ísraelsmönnum að halda páskana.
5 Og þeir héldu páska í fyrsta mánuðinum, hinn fjórtánda dag mánaðarins, um sólsetur, í Sínaí-eyðimörk. Ísraelsmenn gjörðu að öllu leyti svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
6 En þar voru menn, er saurgast höfðu af líki framliðins manns og gátu því eigi haldið páska þennan dag. Gengu þeir fyrir Móse og Aron þennan dag
7 og sögðu við hann: "Vér erum óhreinir af líki framliðins manns; hví skulum vér verða út undan og eigi mega bera fram fórnargjöf Drottins meðal Ísraelsmanna á tilteknum tíma?"
8 Móse sagði við þá: "Bíðið þér, ég ætla að heyra, hvað Drottinn skipar fyrir um yður."
9 Drottinn talaði við Móse og sagði:
10 "Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Ef einhver meðal yðar eða meðal niðja yðar er óhreinn af líki eða hann er í langferð, þá skal hann þó halda Drottni páska.
11 Á fjórtánda degi hins annars mánaðar, um sólsetur, skulu þeir halda þá; með ósýrðu brauði og beiskum jurtum skulu þeir eta páskalambið.
12 Engu skulu þeir leifa af því til morguns, og ekkert bein í því skulu þeir brjóta; skulu þeir halda páska eftir öllum páskalögunum.
13 En hver sem er hreinn og ekki á ferð og vanrækir að halda páska, hann skal upprættur verða úr þjóð sinni, því að hann færði Drottni eigi fórnargjöf á tilteknum tíma. Sá maður skal bera synd sína.
14 Nú dvelur útlendur maður hjá yður, og vill hann halda Drottni páska, skal hann þá svo gjöra sem fyrir er mælt í páskalögunum og ákvæðunum um þá. Skulu vera ein lög hjá yður bæði fyrir útlenda menn og innborna."
15 Á þeim degi, sem búðin var reist, huldi skýið búðina _ sáttmálstjaldið _ og um kveldið var það yfir búðinni eins og eldbjarmi allt til morguns.
16 Svo var það ávallt: Skýið huldi hana um daga og eldbjarmi um nætur.
17 Og í hvert sinn, er skýið hófst upp frá tjaldinu, lögðu Ísraelsmenn upp, og þar sem skýið nam staðar, þar settu Ísraelsmenn herbúðir sínar.
18 Að boði Drottins lögðu Ísraelsmenn upp, og að boði Drottins settu þeir herbúðir sínar. Alla þá stund, er skýið hvíldi yfir búðinni, héldu þeir kyrru fyrir í herbúðunum.
19 Þegar skýið var yfir búðinni marga daga samfleytt, gættu Ísraelsmenn skipunar Drottins og lögðu ekki upp.
20 Stundum var skýið aðeins fáa daga yfir búðinni; að boði Drottins héldu þeir kyrru fyrir í herbúðunum og að boði Drottins lögðu þeir upp.
21 Stundum var skýið frá kveldi allt til morguns, og er skýið hófst upp með morgninum, lögðu þeir upp, eða það var daginn og nóttina: Þegar skýið hófst, þá lögðu þeir upp.
22 Eða að skýið var tvo daga eða mánuð eða lengri tíma: Þegar það var langdvölum yfir búðinni og hvíldi yfir henni, héldu Ísraelsmenn kyrru fyrir í herbúðunum og lögðu ekki upp, en er það hófst, lögðu þeir upp.
23 Að boði Drottins settu þeir herbúðir sínar, og að boði Drottins lögðu þeir upp. Skipunar Drottins gættu þeir að boði Drottins, er Móse flutti.
45 Til söngstjórans. Lag: Liljur. Kóraítamaskíl. Brúðkaupskvæði.
2 Hjarta mitt svellur af ljúfum orðum, ég flyt konungi kvæði mitt, tunga mín er sem penni hraðritarans.
3 Fegurri ert þú en mannanna börn, yndisleik er úthellt yfir varir þínar, fyrir því hefir Guð blessað þig að eilífu.
4 Gyrð lendar þínar sverði, þú hetja, ljóma þínum og vegsemd.
5 Sæk fram sigursæll sakir tryggðar og réttlætis, hægri hönd þín mun sýna þér ógurlega hluti.
6 Örvar þínar eru hvesstar, þjóðir falla að fótum þér, fjandmenn konungs eru horfnir.
7 Hásæti þitt er Guðs hásæti um aldur og ævi, sproti ríkis þíns er réttlætis-sproti.
8 Þú elskar réttlæti og hatar ranglæti, fyrir því hefir Guð, þinn Guð, smurt þig með fagnaðarolíu framar félögum þínum.
9 Myrra og alóe og kassía eru öll þín klæði, frá fílabeinshöllinni gleður strengleikurinn þig.
10 Konungadætur eru meðal vildarkvenna þinna, konungsbrúðurin stendur þér til hægri handar í skrúða Ófír-gulls.
11 "Heyr, dóttir, og hneig eyra þitt! Gleym þjóð þinni og föðurlandi,
12 að konungi megi renna hugur til fegurðar þinnar, því að hann er herra þinn og honum átt þú að lúta.
13 Frá Týrus munu menn koma með gjafir, auðugustu menn lýðsins leita hylli þinnar."
14 Eintómt skraut er konungsdóttirin, perlum sett og gullsaumi eru klæði hennar.
15 Í glitofnum klæðum er hún leidd fyrir konung, meyjar fylgja henni, vinkonur hennar eru færðar fram fyrir þig.
16 Þær eru leiddar inn með fögnuði og gleði, þær fara inn í höll konungs.
17 Í stað feðra þinna komi synir þínir, þú munt gjöra þá að höfðingjum um land allt.
18 Ég vil gjöra nafn þitt minnisstætt öllum komandi kynslóðum, þess vegna skulu þjóðir lofa þig um aldur og ævi.
7 Hversu fagrir eru fætur þínir í ilskónum, þú höfðingjadóttir! Ávali mjaðma þinna er eins og hálsmen, handaverk listasmiðs,
2 skaut þitt kringlótt skál, er eigi má skorta vínblönduna, kviður þinn hveitibingur, kringsettur liljum,
3 brjóst þín eins og tveir rádýrskálfar, skóggeitar-tvíburar.
4 Háls þinn er eins og fílabeinsturn, augu þín sem tjarnir hjá Hesbon, við hlið Batrabbím, nef þitt eins og Líbanonsturninn, sem veit að Damaskus.
5 Höfuðið á þér er eins og Karmel og höfuðhár þitt sem purpuri, konungurinn er fjötraður af lokkunum.
6 Hversu fögur ertu og hversu yndisleg ertu, ástin mín, í yndisnautnunum.
7 Vöxtur þinn líkist pálmavið og brjóst þín vínberjum.
8 Ég hugsa: Ég verð að fara upp í pálmann, grípa í greinar hans. Ó, að brjóst þín mættu líkjast berjum vínviðarins og ilmurinn úr nefi þínu eplum,
9 og gómur þinn góðu víni, sem unnusta mínum rennur liðugt niður, líðandi yfir varir og tennur.
10 Ég heyri unnusta mínum, og til mín er löngun hans.
11 Kom, unnusti minn, við skulum fara út á víðan vang, hafast við meðal kypurblómanna.
12 Við skulum fara snemma upp í víngarðana, sjá, hvort vínviðurinn er farinn að bruma, hvort blómin eru farin að ljúkast upp, hvort granateplatrén eru farin að blómgast. Þar vil ég gefa þér ást mína.
13 Ástareplin anga og yfir dyrum okkar eru alls konar dýrir ávextir, nýir og gamlir, unnusti minn, ég hefi geymt þér þá.
7 Melkísedek þessi var konungur í Salem og prestur Guðs hins hæsta. Hann gekk á móti Abraham og blessaði hann, þegar hann sneri heimleiðis eftir að hafa unnið sigur á konungunum.
2 Og honum lét Abraham í té tíund af öllu. Fyrst þýðir nafn hans "réttlætis konungur", en hann heitir enn fremur Salem-konungur, það er "friðar konungur".
3 Hann er föðurlaus, móðurlaus, ekki ættfærður, og hefur hvorki upphaf daga né endi lífs. Hann er líkur syni Guðs, hann heldur áfram að vera prestur um aldur.
4 Virðið nú fyrir yður, hvílíkur maður það var, sem Abraham, sjálfur forfaðirinn, gaf valda tíund af herfanginu.
5 Og víst er um það, að þeim Levísonum, er prestþjónustuna fá, er boðið að taka tíund af lýðnum eftir lögmálinu, það er að segja af bræðrum sínum, enda þótt þeir séu komnir af Abraham.
6 En sá, er eigi var ættfærður til þeirra, tók tíund af Abraham og blessaði þann, er fyrirheitin hafði.
7 En með öllu er það ómótmælanlegt, að sá sem er meiri blessar þann sem minni er.
8 Hér taka dauðlegir menn tíund, en þar tók sá er um var vitnað, að hann lifi áfram.
9 Og svo má að orði kveða, að enda Leví, hann sem tíund tekur, hafi greitt tíund, þar sem Abraham gjörði það,
10 því að enn þá var hann í lend forföður síns, þegar Melkísedek gekk á móti honum.
11 Hefði nú fullkomnun fengist með levíska prestdóminum, _ en hann var grundvöllur lögmálsins, sem lýðurinn fékk _, hver var þá framar þörf þess að segja að koma skyldi annars konar prestur að hætti Melkísedeks, en ekki að hætti Arons?
12 Þegar prestdómurinn breytist, þá verður og breyting á lögmálinu.
13 Sá sem þetta er sagt um var af annarri ætt, og af þeirri ætt hefur enginn innt þjónustu af hendi við altarið.
14 Því að alkunnugt er, að Drottinn vor er af Júda upp runninn, en Móse hefur ekkert um presta talað, að því er varðar þá ættkvísl.
15 Þetta er enn miklu bersýnilegra á því, að upp er kominn annar prestur, líkur Melkísedek.
16 Hann varð ekki prestur eftir mannlegum lögmálsboðum, heldur í krafti óhagganlegs lífs.
17 Því að um hann er vitnað: "Þú ert prestur að eilífu að hætti Melkísedeks."
18 Hið fyrra boðorð er þar með ógilt, af því að það var vanmáttugt og gagnslaust.
19 Lögmálið gjörði ekkert fullkomið. En jafnframt er leidd inn betri von. Fyrir hana nálgumst vér Guð.
20 Þetta varð ekki án eiðs. Hinir urðu prestar án eiðs,
21 en hann með eiði, þegar Guð sagði við hann: "Drottinn sór, og ekki mun hann iðra þess: Þú ert prestur að eilífu."
22 Þessi samanburður sýnir, að Jesús er orðinn ábyrgðarmaður betri sáttmála.
23 Enn fremur urðu hinir prestarnir margir af því að dauðinn meinaði þeim að vera áfram.
24 En hann er að eilífu og hefur prestdóm þar sem ekki verða mannaskipti.
25 Þess vegna getur hann og til fulls frelsað þá, sem fyrir hann ganga fram fyrir Guð, þar sem hann ávallt lifir til að biðja fyrir þeim.
26 Slíks æðsta prests höfðum vér þörf, sem er heilagur, svikalaus, óflekkaður, greindur frá syndurum og orðinn himnunum hærri.
27 Hann þarf ekki daglega, eins og hinir æðstu prestarnir, fyrst að bera fram fórnir fyrir eigin syndir, síðan fyrir syndir lýðsins. Það gjörði hann í eitt skipti fyrir öll, er hann fórnfærði sjálfum sér.
28 Lögmálið skipar menn æðstu presta, sem eru veikleika háðir, en eiðurinn, er kom á eftir lögmálinu, skipar son, fullkominn gjörðan að eilífu.
by Icelandic Bible Society