Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fjórða bók Móse 6

Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Nú vill karl eða kona vinna heit nasírea til þess að helga sig Drottni,

þá skal hann halda sér frá víni og áfengum drykk. Hann skal hvorki drekka vínsýru né sýru úr áfengum drykk, né heldur skal hann drekka nokkurn vínberjalög, og vínber ný eða þurrkuð skal hann eigi eta.

Allan bindindistíma sinn skal hann eigi eta neitt það, sem búið er til af vínviði, hvorki kjarna né hýði.

Allan tíma bindindisheitis hans skal rakhnífur eigi koma á höfuð honum. Uns þeir dagar eru fullnaðir, er hann hefir helgað sig Drottni, skal hann vera heilagur. Skal hann láta höfuðhár sitt vaxa sítt.

Alla þá stund, er hann hefir helgað sig Drottni, skal hann ekki koma nærri líki.

Hann skal ekki saurga sig vegna föður síns, vegna móður sinnar, vegna bróður síns eða vegna systur sinnar, er þau deyja, því að helgun Guðs hans er á höfði honum.

Allan bindindistíma sinn er hann helgaður Drottni.

Og verði einhver maður bráðkvaddur hjá honum, svo að helgað höfuð hans saurgast, þá skal hann raka höfuð sitt á hreinsunardegi sínum. Á sjöunda degi skal hann raka það.

10 Og á áttunda degi skal hann færa prestinum tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur að dyrum samfundatjaldsins.

11 Og prestur skal fórna annarri í syndafórn, en hinni í brennifórn og friðþægja fyrir hann, vegna þess að hann hefir syndgast á líki. Og hann skal helga höfuð sitt samdægurs.

12 Og hann skal helga sig Drottni bindindistíma sinn og færa veturgamla kind í sektarfórn, en fyrri tíminn skal ónýttur, því að helgun hans var saurguð.

13 Þetta eru ákvæðin um nasíreann: Þegar bindindistími hans er liðinn, skal leiða hann að dyrum samfundatjaldsins.

14 Og hann skal færa Drottni fórn sína: veturgamalt hrútlamb gallalaust í brennifórn og veturgamla gimbur gallalausa í syndafórn og hrút gallalausan í heillafórn

15 og körfu með ósýrðu brauði úr fínu mjöli, kökur olíublandaðar og ósýrð flatbrauð olíusmurð, ásamt matfórninni og dreypifórnunum.

16 Og presturinn skal bera það fram fyrir Drottin og fórna syndafórn hans og brennifórn.

17 Og hann skal fórna Drottni hrútnum í heillafórn ásamt körfunni með ósýrða brauðinu, og presturinn skal fórna matfórn hans og dreypifórn.

18 Nasíreinn skal raka helgað höfuð sitt við dyr samfundatjaldsins og taka helgað höfuðhár sitt og kasta því á eldinn undir heillafórninni.

19 Og prestur skal taka soðna bóginn af hrútnum og eina ósýrða köku úr körfunni og eitt ósýrt flatbrauð og fá nasíreanum það í hendur, þá er hann hefir rakað helgað hár sitt.

20 Og prestur skal veifa því sem veififórn frammi fyrir Drottni. Það er heilagt og heyrir presti, ásamt bringunni, sem veifa skal, og lærinu, sem fórna skal. Upp frá því má nasíreinn drekka vín.

21 Þetta eru ákvæðin um nasírea, sem gjörir heit, um fórnargjöf hans Drottni til handa vegna helgunar hans, auk þess sem hann annars hefir efni á. Samkvæmt heitinu, sem hann hefir unnið, skal hann gjöra, eftir ákvæðunum um bindindi hans."

22 Drottinn talaði við Móse og sagði:

23 "Mæl þú til Arons og sona hans og seg: Með þessum orðum skuluð þér blessa Ísraelsmenn:

24 Drottinn blessi þig og varðveiti þig!

25 Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur!

26 Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið!

27 Þannig skulu þeir leggja nafn mitt yfir Ísraelsmenn, og ég mun blessa þá."

Sálmarnir 40-41

40 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Ég hefi sett alla von mína á Drottin, og hann laut niður að mér og heyrði kvein mitt.

Hann dró mig upp úr glötunargröfinni, upp úr hinni botnlausu leðju, og veitti mér fótfestu á kletti, gjörði mig styrkan í gangi.

Hann lagði mér ný ljóð í munn, lofsöng um Guð vorn. Margir sjá það og óttast og treysta Drottni.

Sæll er sá maður, er gjörir Drottin að athvarfi sínu og snýr sér eigi til hinna dramblátu né þeirra er snúist hafa afleiðis til lygi.

Mörg hefir þú, Drottinn, Guð minn, gjört dásemdarverk þín og áform þín oss til handa, ekkert kemst í samjöfnuð við þig. Ef ég ætti að boða þau og kunngjöra, eru þau fleiri en tölu verði á komið.

Á sláturfórnum og matfórnum hefir þú enga þóknun, _ þú hefir gefið mér opin eyru _ brennifórnir og syndafórnir heimtar þú eigi.

Þá mælti ég: "Sjá, ég kem, í bókrollunni eru mér reglur settar.

Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér."

10 Ég hefi boðað réttlætið í miklum söfnuði, ég hefi eigi haldið vörunum aftur, það veist þú, Drottinn!

11 Ég leyndi eigi réttlæti þínu í hjarta mér, ég kunngjörði trúfesti þína og hjálpræði og dró eigi dul á náð þína og tryggð í hinum mikla söfnuði.

12 Tak þá eigi miskunn þína frá mér, Drottinn, lát náð þína og trúfesti ætíð vernda mig.

13 Því að ótal hættur umkringja mig, misgjörðir mínar hafa náð mér, svo að ég má eigi sjá, þær eru fleiri en hárin á höfði mér, mér fellst hugur.

14 Lát þér, Drottinn, þóknast að frelsa mig, skunda, Drottinn, mér til hjálpar.

15 Lát þá verða til skammar og hljóta kinnroða, er sitja um líf mitt, lát þá hverfa aftur með skömm, er óska mér ógæfu.

16 Lát þá verða forviða yfir smán sinni, er hrópa háð og spé.

17 En allir þeir er leita þín skulu gleðjast og fagna yfir þér, þeir er unna hjálpræði þínu skulu sífellt segja: "Vegsamaður sé Drottinn!"

18 Ég er hrjáður og snauður, en Drottinn ber umhyggju fyrir mér. Þú ert fulltingi mitt og frelsari, tef eigi, Guð minn!

41 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Sæll er sá er gefur gaum að bágstöddum, á mæðudeginum bjargar Drottinn honum.

Drottinn varðveitir hann og lætur hann njóta lífs og sælu í landinu. Og eigi ofurselur þú hann græðgi óvina hans.

Drottinn styður hann á sóttarsænginni, þegar hann er sjúkur, breytir þú beð hans í hvílurúm.

Ég sagði: "Ver mér náðugur, Drottinn, lækna sál mína, því að ég hefi syndgað móti þér."

Óvinir mínir biðja mér óbæna: "Hvenær skyldi hann deyja og nafn hans hverfa?"

Og ef einhver kemur til þess að vitja mín, talar hann tál. Hjarta hans safnar að sér illsku, hann fer út og lætur dæluna ganga.

Allir hatursmenn mínir hvískra um mig, þeir hyggja á illt mér til handa:

"Hann er altekinn helsótt, hann er lagstur og rís eigi upp framar."

10 Jafnvel sá er ég lifði í sátt við, sá er ég treysti, sá er etið hefir af mat mínum, lyftir hæl sínum í móti mér.

11 En þú, Drottinn, ver mér náðugur og lát mig aftur rísa á fætur, að ég megi endurgjalda þeim.

12 Af því veit ég, að þú hefir þóknun á mér, að óvinur minn hlakkar ekki yfir mér.

13 Vegna sakleysis míns hélst þú mér uppi og lætur mig standa frammi fyrir augliti þínu að eilífu. _________

14 Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, frá eilífð til eilífðar. Amen. Amen.

Ljóðaljóðin 4

Já, fögur ertu, vina mín, já, fögur ertu. Augu þín eru dúfuaugu fyrir innan skýluraufina. Hár þitt er eins og geitahjörð, sem rennur niður Gíleaðfjall.

Tennur þínar eru eins og hópur af nýklipptum ám, sem koma af sundi, sem allar eru tvílembdar og engin lamblaus meðal þeirra.

Varir þínar eru eins og skarlatsband og munnur þinn yndislegur. Vangi þinn er eins og kinn á granatepli út um skýluraufina.

Háls þinn er eins og Davíðsturn, reistur fyrir hernumin vopn. Þúsund skildir hanga á honum, allar törgur kappanna.

Brjóst þín eru eins og tveir rádýrskálfar, skóggeitar-tvíburar, sem eru á beit meðal liljanna.

Þar til kular af degi og skuggarnir flýja, vil ég ganga til myrruhólsins og til reykelsishæðarinnar.

Öll ertu fögur, vina mín, og á þér eru engin lýti.

Með mér frá Líbanon, brúður, með mér skaltu koma frá Líbanon! Lít niður frá Amanatindi, frá Senír- og Hermontindi, frá bælum ljónanna, frá fjöllum pardusdýranna.

Þú hefir rænt hjarta mínu, systir mín, brúður, þú hefir rænt hjarta mínu með einu augnatilliti þínu, með einni festi af hálsskarti þínu.

10 Hversu ljúf er ást þín, systir mín, brúður, hversu miklu dýrmætari er ást þín en vín og angan smyrsla þinna heldur en öll ilmföng.

11 Hunangsseimur drýpur af vörum þínum, brúður, hunang og mjólk er undir tungu þinni, og ilmur klæða þinna er eins og Líbanonsilmur.

12 Lokaður garður er systir mín, brúður, lokuð lind, innsigluð uppspretta.

13 Frjóangar þínir eru lystirunnur af granateplatrjám með dýrum ávöxtum, kypurblóm og nardusgrös,

14 nardus og krókus, kalamus og kanel, ásamt alls konar reykelsisrunnum, myrra og alóe, ásamt alls konar ágætis ilmföngum.

15 Þú ert garðuppspretta, brunnur lifandi vatns og bunulækur ofan af Líbanon.

16 Vakna þú, norðanvindur, og kom þú, sunnanblær, blás þú um garð minn, svo að ilmur hans dreifist. Unnusti minn komi í garð sinn og neyti hinna dýru ávaxta hans.

Bréfið til Hebrea 4

Fyrirheitið um það að ganga inn til hvíldar hans stendur enn, vörumst því að nokkur yðar verði til þess að dragast aftur úr.

Fagnaðarerindið var oss boðað eigi síður en þeim. En orðið, sem þeir heyrðu, kom þeim eigi að haldi vegna þess, að þeir tóku ekki við því í trú.

En vér, sem trú höfum tekið, göngum inn til hvíldarinnar eins og hann hefur sagt: "Og ég sór í bræði minni: Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar." Þó voru verk Guðs fullgjör frá grundvöllun heims.

Því að einhvers staðar er svo að orði kveðið um hinn sjöunda dag: "Og Guð hvíldist hinn sjöunda dag eftir öll verk sín."

Og aftur á þessum stað: "Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar."

Enn stendur því til boða, að nokkrir gangi inn til hvíldar Guðs. Þeir, sem fagnaðarerindið var fyrr boðað, gengu ekki inn sakir óhlýðni.

Því ákveður Guð aftur dag einn, er hann segir löngu síðar fyrir munn Davíðs: "Í dag." Eins og fyrr hefur sagt verið: "Ef þér heyrið raust hans í dag, þá forherðið ekki hjörtu yðar."

Hefði Jósúa leitt þá til hvíldar, þá hefði Guð ekki síðar meir talað um annan dag.

Enn stendur þá til boða sabbatshvíld fyrir lýð Guðs.

10 Því að sá, sem gengur inn til hvíldar hans, fær hvíld frá verkum sínum, eins og Guð hvíldist eftir sín verk.

11 Kostum því kapps um að ganga inn til þessarar hvíldar, til þess að enginn óhlýðnist eins og þeir og falli.

12 Því að orð Guðs er lifandi og kröftugt og beittara hverju tvíeggjuðu sverði og smýgur inn í innstu fylgsni sálar og anda, liðamóta og mergjar, það dæmir hugsanir og hugrenningar hjartans.

13 Enginn skapaður hlutur er honum hulinn, allt er bert og öndvert augum hans. Honum eigum vér reikningsskil að gjöra.

14 Er vér þá höfum mikinn æðsta prest, sem farið hefur í gegnum himnana, Jesú Guðs son, skulum vér halda fast við játninguna.

15 Ekki höfum vér þann æðsta prest, er eigi geti séð aumur á veikleika vorum, heldur þann, sem freistað var á allan hátt eins og vor, en án syndar.

16 Göngum því með djörfung að hásæti náðarinnar, til þess að vér öðlumst miskunn og hljótum náð til hjálpar á hagkvæmum tíma.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society