M’Cheyne Bible Reading Plan
5 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 "Bjóð þú Ísraelsmönnum að láta burt fara úr herbúðunum alla menn líkþráa og alla, er rennsli hafa, svo og alla þá, er saurgaðir eru af líki.
3 Skuluð þér láta burt fara bæði karla og konur, þér skuluð láta þá fara út fyrir herbúðirnar, svo að þeir saurgi ekki herbúðir sínar, með því að ég bý á meðal þeirra."
4 Og Ísraelsmenn gjörðu svo og létu þá fara út fyrir herbúðirnar. Eins og Drottinn hafði boðið Móse, svo gjörðu Ísraelsmenn.
5 Drottinn talaði við Móse og sagði: "Tala þú til Ísraelsmanna:
6 Þá er karl eða kona drýgir einhverja þá synd, er menn hendir, með því að sýna sviksemi gegn Drottni, og sá hinn sami verður sekur,
7 þá skulu þau játa synd sína, er þau hafa drýgt, og bæta skulu þau sekt sína fullu verði og gjalda fimmtungi meira og greiða það þeim, er þau hafa orðið sek við.
8 En eigi maðurinn engan nákominn ættingja, er sektin verði greidd, þá skal sektin, er greiða skal, heyra Drottni og falla undir prest, auk friðþægingarhrútsins, sem friðþægt er með fyrir þau.
9 Sérhver fórnargjöf af öllum helgigjöfum Ísraelsmanna, sem þeir færa prestinum, skal vera hans eign,
10 og það sem sérhver helgar, skal vera hans eign. Það sem einhver gefur prestinum, skal vera hans eign."
11 Drottinn talaði við Móse og sagði:
12 "Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Nú gjörist kona marglát og reynist ótrú manni sínum.
13 Annar maður hefir samræði við hana, en maður hennar veit eigi af. Hún verður eigi uppvís að og hefir þó saurgað sig, og engin vitni eru mót henni og hún er eigi að því staðin.
14 En yfir manninn kemur afbrýðisandi, svo að hann verður hræddur um konu sína, og hún hefir saurgað sig. Eða afbrýðisandi kemur yfir mann, og hann verður hræddur um konu sína, þótt hún hafi eigi saurgað sig.
15 Þá fari maðurinn með konu sína til prestsins og færi honum fórnargjöfina fyrir hana: tíunda part úr efu af byggmjöli. Eigi skal hann hella yfir það olíu né leggja reykelsiskvoðu ofan á það, því að það er afbrýðismatfórn, minningarmatfórn, sem minnir á misgjörð.
16 Presturinn skal taka konuna og leiða hana fram fyrir Drottin.
17 Og prestur skal taka heilagt vatn í leirker, og prestur skal taka mold af gólfi búðarinnar og láta í vatnið.
18 Og prestur skal leiða konuna fram fyrir Drottin og leysa hár konunnar og fá henni í hendur minningarmatfórnina _ það er afbrýðismatfórn. En á beiskjuvatninu, er bölvan veldur, skal presturinn halda.
19 Prestur skal særa hana og segja við konuna: ,Hafi enginn maður hjá þér legið og hafir þú eigi saurgað þig með lauslæti í hjúskap þínum, þá verði þetta beiskjuvatn, sem bölvan veldur, þér ósaknæmt.
20 En hafir þú verið lauslát í hjúskapnum og hafir þú saurgast og einhver annar en maður þinn hefir haft samræði við þig,`
21 þá skal prestur láta konuna vinna bölvunarsæri, og prestur skal segja við konuna: ,Drottinn gjöri þig að bölvan og að særi meðal fólks þíns, er Drottinn lætur lendar þínar hjaðna og kvið þinn þrútna.
22 Og vatn þetta, er bölvan veldur, skal fara í innýfli þín, svo að kviðurinn þrútni og lendarnar hjaðni.` Og konan skal segja: ,Amen, amen!`
23 Síðan skal prestur rita formælingu þessa í bók og strjúka hana út í beiskjuvatnið,
24 og hann skal láta konuna drekka beiskjuvatnið, er bölvan veldur, svo að vatnið, sem bölvan veldur, fari ofan í hana og verði að beiskju.
25 Og presturinn skal taka við afbrýðismatfórninni úr hendi konunnar, og hann skal veifa matfórninni frammi fyrir Drottni og bera hana á altarið.
26 Og presturinn skal taka hnefafylli af matfórninni sem ilmhluta hennar og brenna á altarinu. Síðan skal hann láta konuna drekka vatnið.
27 Og þegar hann hefir látið hana drekka vatnið, þá skal svo fara, að hafi hún saurgað sig og verið manni sínum ótrú, þá skal vatnið, er bölvan veldur, fara ofan í hana og verða að beiskju, og kviður hennar þrútna og lendar hennar hjaðna, og konan skal verða að bölvan meðal fólks síns.
28 En hafi konan ekki saurgað sig og sé hún hrein, þá skal það ekki saka hana, og hún mun geta fengið getnað."
29 Þetta eru lögin um afbrýðisemi, þegar gift kona gjörist marglát og saurgar sig
30 eða þegar afbrýðisandi kemur yfir mann og hann verður hræddur um konu sína, þá skal hann leiða konuna fram fyrir Drottin, og prestur skal með hana fara í alla staði eftir lögum þessum.
31 Maðurinn skal vera sýkn saka, en konan skal bera sekt sína.
39 Til söngstjórans, eftir Jedútún. Davíðssálmur.
2 Ég sagði: "Ég vil gefa gætur að vegum mínum, að ég drýgi eigi synd með tungunni, ég vil leggja haft á munn minn, meðan hinn illgjarni er í nánd við mig."
3 Ég var hljóður og þagði, en kvöl mín ýfðist.
4 Hjartað brann í brjósti mér, við andvörp mín logaði eldurinn upp, ég sagði:
5 "Lát mig, Drottinn, sjá afdrif mín og hvað mér er útmælt af dögum, lát mig sjá, hversu skammær ég er.
6 Sjá, örfáar þverhendur hefir þú gjört daga mína, og ævi mín er sem ekkert fyrir þér. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]
7 Sem tómur skuggi gengur maðurinn um, gjörir háreysti um hégómann einan, hann safnar í hrúgur, en veit eigi hver þær hlýtur."
8 Hvers vona ég þá, Drottinn? Von mín er öll á þér.
9 Frelsa mig frá öllum syndum mínum, lát mig eigi verða heimskingjum að spotti.
10 Ég þegi, ég opna eigi munninn, því að þú hefir talað.
11 Lát plágu þína víkja frá mér, ég verð að engu fyrir krafti handar þinnar.
12 Þá er þú beitir hirtingu við manninn fyrir misgjörð hans, lætur þú yndisleik hans eyðast, sem mölur væri. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]
13 Heyr bæn mína, Drottinn, og hlýð á kvein mitt, ver eigi hljóður við tárum mínum, því að ég er aðkomandi hjá þér, útlendingur eins og allir feður mínir.
14 Lít af mér, svo að hýrna megi yfir mér, áður en ég fer burt og er eigi til framar.
3 Í hvílu minni um nótt leitaði ég hans sem sál mín elskar, ég leitaði hans, en fann hann ekki.
2 Ég skal fara á fætur og ganga um borgina, um strætin og torgin. Ég skal leita hans, sem sál mín elskar! Ég leitaði hans, en fann hann ekki.
3 Verðirnir, sem ganga um borgina, hittu mig. "Hafið þér séð þann sem sál mín elskar?"
4 Óðara en ég var frá þeim gengin, fann ég þann sem sál mín elskar. Ég þreif í hann og sleppi honum ekki, fyrr en ég hefi leitt hann í hús móður minnar og í herbergi hennar er mig ól.
5 Ég særi yður, Jerúsalemdætur, við skógargeiturnar eða við hindirnar í haganum: Vekið ekki, vekið ekki elskuna, fyrr en hún sjálf vill.
6 Hvað er það, sem kemur úr heiðinni eins og reykjarsúlur, angandi af myrru og reykelsi, af alls konar kaupmannskryddi?
7 Það er burðarrekkja Salómons, sextíu kappar kringum hana af köppum Ísraels.
8 Allir með sverð í hendi, vanir hernaði, hver og einn með sverð við lend vegna næturóttans.
9 Burðarstól lét Salómon konungur gjöra sér úr viði frá Líbanon.
10 Stólpa hans lét hann gjöra af silfri, bakið úr gulli, sætið úr purpuradúk, lagt hægindum að innan af elsku Jerúsalemdætra.
11 Gangið út, Síonardætur, og horfið á Salómon konung, á sveiginn sem móðir hans hefir krýnt hann á brúðkaupsdegi hans og á gleðidegi hjarta hans.
3 Bræður heilagir! Þér eruð hluttakar himneskrar köllunar. Gefið því gætur að Jesú, postula og æðsta presti játningar vorrar.
2 Hann var trúr þeim, er hafði skipað hann, eins og Móse var það líka í öllu hans húsi.
3 En hann er verður meiri dýrðar en Móse, eins og sá, er húsið gjörði, á meiri heiður en húsið sjálft.
4 Sérhvert hús er gjört af einhverjum, en Guð er sá, sem allt hefur gjört.
5 Móse var að sönnu trúr í öllu hans húsi, eins og þjónn, til vitnisburðar um það, sem átti að verða talað,
6 en Kristur eins og sonur yfir húsi hans. Og hans hús erum vér, ef vér höldum djörfunginni og voninni, sem vér miklumst af.
7 Því er það, eins og heilagur andi segir: Ef þér heyrið raust hans í dag,
8 þá forherðið ekki hjörtu yðar, eins og í uppreisninni á degi freistingarinnar á eyðimörkinni;
9 þar sem feður yðar freistuðu mín og reyndu mig, þótt þeir fengju að sjá verkin mín í fjörutíu ár.
10 Þess vegna varð ég gramur kynslóð þessari og sagði: Án afláts villast þeir í hjörtum sínum. Þeir þekktu ekki vegu mína.
11 Og ég sór í bræði minni: Eigi skulu þeir inn ganga til hvíldar minnar.
12 Gætið þess, bræður, að enginn yðar búi yfir vondu vantrúar hjarta og falli frá lifanda Guði.
13 Áminnið heldur hver annan hvern dag, á meðan enn heitir "í dag", til þess að enginn yðar forherðist af táli syndarinnar.
14 Því að vér erum orðnir hluttakar Krists, svo framarlega sem vér höldum staðfastlega allt til enda trausti voru, eins og það var að upphafi.
15 Sagt er: "Ef þér heyrið raust hans í dag, þá forherðið ekki hjörtu yðar eins og í uppreisninni" _
16 Hverjir voru þá þeir, sem heyrt höfðu og gjörðu þó uppreisn? Voru það ekki einmitt allir þeir, sem út höfðu farið af Egyptalandi fyrir tilstilli Móse?
17 Og hverjum "var hann gramur í fjörutíu ár"? Var það ekki þeim, sem syndgað höfðu og báru beinin á eyðimörkinni?
18 Og hverjum "sór hann, að eigi skyldu þeir ganga inn til hvíldar hans," nema hinum óhlýðnu?
19 Vér sjáum, að sakir vantrúar fengu þeir eigi gengið inn.
by Icelandic Bible Society