M’Cheyne Bible Reading Plan
4 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:
2 "Takið tölu Kahats sona meðal Leví sona, eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra,
3 frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, alla herfæra menn, til þess að gegna störfum við samfundatjaldið.
4 Þetta er þjónusta Kahats sona við samfundatjaldið: Hið háheilaga.
5 Þegar herinn tekur sig upp, skulu þeir Aron og synir hans ganga inn og taka niður fortjaldsdúkbreiðuna og láta hana yfir sáttmálsörkina.
6 Og þeir skulu leggja þar yfir ábreiðu af höfrungaskinni og breiða yfir klæði, sem allt er gjört af bláum purpura, og setja stengurnar í.
7 Yfir skoðunarbrauðaborðið skulu þeir breiða klæði af bláum purpura og setja þar á fötin, bollana, kerin og dreypifórnarskálarnar, og hið ævarandi brauð skal vera á því.
8 Og yfir þetta skulu þeir breiða skarlatsklæði og leggja þar yfir ábreiðu af höfrungaskinnum og setja stengurnar í.
9 Þeir skulu taka klæði af bláum purpura og láta það yfir ljósastikuna, lampa hennar, ljósasöx og skarpönnur, og öll olíukerin, sem notuð eru við hana.
10 Og þeir skulu sveipa hana og öll áhöld hennar í ábreiðu af höfrungaskinnum og leggja á börur.
11 Yfir gullaltarið skulu þeir breiða klæði af bláum purpura og leggja þar yfir ábreiðu af höfrungaskinnum og setja stengurnar í.
12 Og þeir skulu taka öll áhöld þjónustugjörðarinnar, þau er höfð eru til þjónustugjörðar í helgidóminum, og sveipa þau í klæði af bláum purpura og leggja þar yfir ábreiðu af höfrungaskinnum og leggja á börurnar.
13 Og þeir skulu sópa öskunni af altarinu og breiða yfir það klæði af rauðum purpura.
14 Og þeir skulu leggja á það öll áhöld þess, sem höfð eru til þjónustu á því, eldpönnurnar, soðkrókana, eldspaðana og fórnarskálarnar, öll áhöld altarisins, og skulu þeir breiða yfir það ábreiðu af höfrungaskinnum og setja stengurnar í.
15 Er þeir Aron og synir hans hafa lokið því að breiða yfir helgidóminn og öll áhöld helgidómsins, þá er herinn tekur sig upp, skulu Kahats synir þessu næst koma og bera. En eigi skulu þeir koma við helgidóminn, svo að þeir deyi ekki. Þetta er það, sem Kahats synir eiga að bera við samfundatjaldið.
16 Eleasar, sonur Arons prests, skal hafa umsjón yfir olíunni til ljósastikunnar, ilmreykelsinu, hinni stöðugu matfórn og smurningarolíunni, umsjón yfir allri búðinni og öllum helgum hlutum, sem í henni eru, og áhöldum, er þar til heyra."
17 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:
18 "Látið ekki kynþátt Kahatítanna upprættan verða úr levítunum,
19 heldur farið með þá á þessa leið, að þeir haldi lífi og deyi ekki, er þeir nálgast Hið háheilaga: Aron og synir hans skulu ganga inn og skipa hverjum sína þjónustu og sinn burð.
20 En eigi skulu þeir sjálfir ganga inn og sjá helgidóminn, jafnvel eigi eitt augnablik, svo að þeir deyi ekki."
21 Drottinn talaði við Móse og sagði:
22 "Tak þú einnig tölu Gersons sona eftir ættum þeirra, eftir kynkvíslum þeirra.
23 Skalt þú telja þá frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, alla þá sem koma til þess að gegna herþjónustu og inna af hendi störf við samfundatjaldið.
24 Þetta er þjónusta Gersóníta kynkvíslanna, það sem þeir eiga að annast og bera:
25 Þeir skulu bera dúka búðarinnar og samfundatjaldið, þakið á því og ábreiðuna af höfrungaskinnum, sem utan yfir því er, og dúkbreiðuna fyrir dyrum samfundatjaldsins.
26 Enn fremur forgarðstjöldin og dúkbreiðuna fyrir dyrum forgarðsins, sem liggur allt í kringum búðina og altarið, og stögin, sem þar til heyra, og öll áhöld við þjónustu þeirra. Allt sem við þetta þarf að gjöra, skulu þeir inna af hendi.
27 Eftir boði Arons og sona hans skal öll þjónusta sona Gersóníta fram fara, að því er snertir allt það, er þeir eiga að bera, og allt það, er þeir eiga að annast. Og þér skuluð vísa þeim á allt, sem þeir eiga að bera, með nafni.
28 Þetta er þjónusta kynkvísla Gersóníta sona við samfundatjaldið, og það, sem þeir eiga að annast, skal vera undir umsjón Ítamars, sonar Arons prests.
29 Sonu Merarí skalt þú telja eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra.
30 Skalt þú telja þá frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, alla þá er ganga í herþjónustu, til þess að inna af hendi störf við samfundatjaldið.
31 Og þetta er það, sem þeir eiga að sjá um að bera, allt það sem þeim ber að annast við samfundatjaldið: þiljuborð búðarinnar, slár hennar, stólpar og undirstöður,
32 enn fremur stólpar forgarðsins allt í kring og undirstöður þeirra, hælar og stög ásamt öllum áhöldum, er til þess heyra, og öllu því, er við þetta þarf að annast. Og þér skuluð vísa þeim á öll áhöld þau, er þeir eiga að bera, með nafni.
33 Þetta er þjónusta kynkvísla Merarí sona. Öll þjónusta þeirra við samfundatjaldið skal vera undir umsjón Ítamars, sonar Arons prests."
34 Móse og Aron og höfðingjar safnaðarins töldu nú sonu Kahatítanna eftir kynkvíslum þeirra og eftir ættum þeirra,
35 frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, alla þá sem ganga í herþjónustu, til þess að inna af hendi störf við samfundatjaldið.
36 Og þeir, er taldir voru af þeim eftir kynkvíslum þeirra, voru 2.750.
37 Þetta eru þeir, er taldir voru af kynkvíslum Kahatíta, allir þeir er þjónustu gegndu við samfundatjaldið og þeir Móse og Aron töldu að boði Drottins, er Móse flutti.
38 Þeir sem taldir voru af Gersons sonum eftir kynkvíslum þeirra og eftir ættum þeirra,
39 frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, allir þeir sem ganga í herþjónustu, til þess að inna af hendi störf við samfundatjaldið _
40 þeir er taldir voru af þeim eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra, voru 2.630.
41 Þetta eru þeir, er taldir voru af kynkvíslum Gersons sona, allir þeir er þjónustu gegndu við samfundatjaldið og þeir Móse og Aron töldu eftir boði Drottins.
42 Þeir sem taldir voru af kynkvíslum Merarí sona, eftir kynkvíslum þeirra, eftir ættum þeirra,
43 frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, allir þeir sem ganga í herþjónustu, til þess að inna af hendi störf við samfundatjaldið _
44 þeir er taldir voru af þeim eftir kynkvíslum þeirra, voru 3.200.
45 Þetta eru þeir, er taldir voru af kynkvíslum Merarí sona og þeir Móse og Aron töldu eftir boði Drottins, er Móse flutti.
46 Allir þeir er taldir voru af levítunum og þeir Móse og Aron og höfðingjar Ísraels töldu eftir kynkvíslum þeirra og eftir ættum þeirra,
47 frá þrítugs aldri og þaðan af eldri til fimmtugs aldurs, allir þeir sem komu til þess að inna af hendi þjónustustörf eða burðarstörf við samfundatjaldið _
48 þeir er taldir voru af þeim, voru 8.580.
49 Eftir boði Drottins var þeim hverjum einum undir umsjón Móse vísað á það, er þeir áttu að annast og þeir áttu að bera. Og þeir voru taldir, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
38 Davíðssálmur. Minningarljóð.
2 Drottinn, refsa mér ekki í reiði þinni og tyfta mig ekki í gremi þinni.
3 Örvar þínar standa fastar í mér, og hönd þín liggur þungt á mér.
4 Enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum sakir reiði þinnar, ekkert heilt í beinum mínum sakir syndar minnar.
5 Misgjörðir mínar ganga mér yfir höfuð, sem þung byrði eru þær mér of þungar orðnar.
6 Ódaun leggur af sárum mínum, rotnun er í þeim sakir heimsku minnar.
7 Ég er beygður og mjög bugaður, ráfa um harmandi daginn langan.
8 Lendar mínar eru fullar bruna, og enginn heilbrigður blettur er á líkama mínum.
9 Ég er lémagna og kraminn mjög, kveina af angist hjartans.
10 Drottinn, öll mín þrá er þér kunn og andvörp mín eru eigi hulin þér.
11 Hjarta mitt berst ákaft, kraftur minn er þrotinn, jafnvel ljós augna minna er horfið mér.
12 Ástvinir mínir og kunningjar hörfa burt fyrir kröm minni, og frændur mínir standa fjarri.
13 Þeir er sitja um líf mitt, leggja snörur fyrir mig, þeir er leita mér meins, mæla skaðræði og hyggja á svik allan liðlangan daginn.
14 En ég er sem daufur, ég heyri það ekki, og sem dumbur, er eigi opnar munninn,
15 ég er sem maður er eigi heyrir og engin andmæli eru í munni hans.
16 Því að á þig, Drottinn, vona ég, þú munt svara mér, Drottinn minn og Guð minn,
17 því að ég segi: "Lát þá eigi hlakka yfir mér, eigi hælast um af því, að mér skriðni fótur."
18 Því að ég er að falli kominn, og þjáningar mínar eru mér æ fyrir augum.
19 Ég játa misgjörð mína, harma synd mína,
20 og þeir sem án saka eru óvinir mínir, eru margir, fjölmargir þeir er hata mig að ástæðulausu.
21 Þeir gjalda mér gott með illu, sýna mér fjandskap, af því ég legg stund á það sem gott er.
22 Yfirgef mig ekki, Drottinn, Guð minn, ver ekki fjarri mér,
23 skunda til liðs við mig, Drottinn, þú hjálp mín.
2 Ég er narsissa á Saronvöllum, lilja í dölunum.
2 Eins og lilja meðal þyrna, svo er vina mín meðal meyjanna.
3 Eins og apaldur meðal skógartrjánna, svo er unnusti minn meðal sveinanna. Í skugga hans þrái ég að sitja, og ávextir hans eru mér gómsætir.
4 Hann leiddi mig í vínhúsið og merki hans yfir mér var elska.
5 Endurnærið mig með rúsínukökum, hressið mig á eplum, því að ég er sjúk af ást.
6 Vinstri hönd hans sé undir höfði mér, en hin hægri umfaðmi mig!
7 Ég særi yður, Jerúsalemdætur, við skógargeiturnar, eða við hindirnar í haganum: Vekið ekki, vekið ekki elskuna, fyrr en hún sjálf vill.
8 Heyr, það er unnusti minn! Sjá, þar kemur hann, stökkvandi yfir fjöllin, hlaupandi yfir hæðirnar.
9 Unnusti minn er líkur skógargeit eða hindarkálfi. Hann stendur þegar bak við húsvegginn, horfir inn um gluggann, gægist inn um grindurnar.
10 Unnusti minn tekur til máls og segir við mig: "Stattu upp, vina mín, fríða mín, æ kom þú!
11 Því sjá, veturinn er liðinn, rigningarnar um garð gengnar, _ á enda.
12 Blómin eru farin að sjást á jörðinni, tíminn til að sniðla vínviðinn er kominn, og kurr turtildúfunnar heyrist í landi voru.
13 Ávextir fíkjutrésins eru þegar farnir að þroskast, og ilminn leggur af blómstrandi vínviðnum. Stattu upp, vina mín, fríða mín, æ kom þú!
14 Dúfan mín í klettaskorunum, í fylgsni fjallhnúksins, lát mig sjá auglit þitt, lát mig heyra rödd þína! Því að rödd þín er sæt og auglit þitt yndislegt.
15 Náið fyrir oss refunum, yrðlingunum, sem skemma víngarðana, því að víngarðar vorir standa í blóma."
16 Unnusti minn er minn, og ég er hans, hans, sem heldur hjörð sinni til haga meðal liljanna.
17 Þangað til dagurinn verður svalur og skuggarnir flýja, snú þú aftur, unnusti minn, og líkst þú skógargeitinni eða hindarkálfi á anganfjöllum.
2 Þess vegna ber oss að gefa því enn betur gaum, er vér höfum heyrt, svo að eigi berumst vér afleiðis.
2 Því að hafi orðið af englum talað reynst stöðugt og hvert afbrot og óhlýðni hlotið réttlátt endurgjald,
3 hvernig fáum vér þá undan komist, ef vér vanrækjum slíkt hjálpræði sem Drottinn flutti fyrst og var staðfest fyrir oss af þeim, er heyrðu?
4 Guð bar jafnframt vitni með þeim með táknum og undrum og margs konar kraftaverkum og gjöfum heilags anda, sem hann útbýtti að vild sinni.
5 Því ekki lagði hann undir engla hinn komandi heim, sem vér tölum um.
6 Einhvers staðar er vitnað: Hvað er maður, að þú minnist hans? Eða mannssonur, að þú vitjir hans?
7 Skamma stund gjörðir þú hann englunum lægri. Þú hefur krýnt hann vegsemd og heiðri. Og þú hefur skipað hann yfir verk handa þinna.
8 Allt hefur þú lagt undir fætur hans. Með því að leggja allt undir hann, þá hefur hann ekkert það eftir skilið, er ekki sé undir hann lagt. Ennþá sjáum vér ekki, að allir hlutir séu undir hann lagðir.
9 En vér sjáum, að Jesús, sem "skamma stund var gjörður englunum lægri," er "krýndur vegsemd og heiðri" vegna dauðans sem hann þoldi. Af Guðs náð skyldi hann deyja fyrir alla.
10 Allt er til vegna Guðs og fyrir Guð. Því varð hann, er hann leiðir marga syni til dýrðar, að fullkomna með þjáningum þann, er leiðir þá til hjálpræðis.
11 Því að sá sem helgar og þeir sem helgaðir verða eru allir frá einum komnir. Þess vegna telur hann sér eigi vanvirðu að kalla þá bræður,
12 er hann segir: Ég mun kunnugt gjöra nafn þitt bræðrum mínum, ég mun syngja þér lof mitt í söfnuðinum.
13 Og aftur: Ég mun treysta á hann. Og enn fremur: Sjá, hér er ég og börnin, er Guð gaf mér.
14 Þar sem nú börnin eru af holdi og blóði, þá hefur hann og sjálfur fengið hlutdeild í mannlegu eðli á sama hátt, til þess að hann með dauða sínum gæti að engu gjört þann, sem hefur mátt dauðans, það er að segja djöfulinn,
15 og frelsað alla þá, sem af ótta við dauðann voru undir þrælkun seldir alla sína ævi.
16 Því að víst er um það, að ekki tekur hann að sér englana, en hann tekur að sér afsprengi Abrahams.
17 Því var það, að hann í öllum greinum átti að verða líkur bræðrum sínum, svo að hann yrði miskunnsamur og trúr æðsti prestur í þjónustu fyrir Guði, til þess að friðþægja fyrir syndir lýðsins.
18 Sjálfur hefur hann þjáðst og hans verið freistað. Þess vegna er hann fær um að hjálpa þeim, er verða fyrir freistingu.
by Icelandic Bible Society