M’Cheyne Bible Reading Plan
3 Þessir voru niðjar Arons og Móse, þá er Drottinn talaði við Móse á Sínaífjalli.
2 Þessi voru nöfn Arons sona: Nadab frumgetinn og Abíhú, Eleasar og Ítamar.
3 Þessi voru nöfn Arons sona, hinna smurðu presta, sem vígðir voru til prestsþjónustu,
4 en þeir Nadab og Abíhú dóu fyrir augliti Drottins, þá er þeir báru óvígðan eld fram fyrir Drottin í Sínaí-eyðimörk; en þeir áttu enga sonu. Þeir Eleasar og Ítamar þjónuðu því í prestsembætti frammi fyrir Aroni, föður sínum.
5 Drottinn talaði við Móse og sagði:
6 "Lát þú ættkvísl Leví koma og leið þú hana fyrir Aron prest, að þeir þjóni honum.
7 Þeir skulu annast það, sem annast þarf fyrir hann, og það, sem annast þarf fyrir allan söfnuðinn fyrir framan samfundatjaldið, og gegna þjónustu í búðinni.
8 Og þeir skulu sjá um öll áhöld samfundatjaldsins og það, sem annast þarf fyrir Ísraelsmenn, og gegna þjónustu í búðinni.
9 Og þú skalt gefa levítana Aroni og sonum hans. Þeir eru honum gefnir af Ísraelsmönnum til fullkominnar eignar.
10 En Aron og sonu hans skalt þú setja til þess að annast prestsembætti, og komi óvígður maður þar nærri, skal hann líflátinn verða."
11 Drottinn talaði við Móse og sagði:
12 "Sjá, ég hefi tekið levítana af Ísraelsmönnum í stað allra frumburða Ísraelsmanna, þá er opna móðurlíf, og skulu levítarnir vera mín eign.
13 Því að ég á alla frumburði. Á þeim degi, er ég laust alla frumburði í Egyptalandi, helgaði ég mér alla frumburði í Ísrael, bæði menn og skepnur. Mínir skulu þeir vera. Ég er Drottinn."
14 Drottinn talaði við Móse í Sínaí-eyðimörk og sagði:
15 "Tel þú sonu Leví eftir ættum þeirra og kynkvíslum. Alla karlmenn mánaðargamla og þaðan af eldri skalt þú telja."
16 Og Móse taldi þá að boði Drottins, eins og fyrir hann var lagt.
17 Þessir voru synir Leví eftir nöfnum þeirra: Gerson, Kahat og Merarí.
18 Þessi eru nöfn Gersons sona eftir kynkvíslum þeirra: Libní og Símeí.
19 Synir Kahats eftir kynkvíslum þeirra: Amram og Jísehar, Hebron og Ússíel.
20 Synir Merarí eftir kynkvíslum þeirra: Mahelí og Músí. Þessar eru kynkvíslir Leví eftir ættum þeirra.
21 Til Gersons telst kynkvísl Libníta og kynkvísl Símeíta. Þessar eru kynkvíslir Gersóníta.
22 Þeir er taldir voru af þeim _ eftir tölu á öllum karlkyns, mánaðargömlum og þaðan af eldri _ þeir er taldir voru af þeim, voru 7.500.
23 Kynkvíslir Gersóníta tjölduðu að baki búðarinnar, að vestanverðu.
24 Og höfuðsmaður yfir ætt Gersóníta var Eljasaf Laelsson.
25 Það sem Gersons synir áttu að annast í samfundatjaldinu, var búðin og tjaldið, þakið á því og dúkbreiðan fyrir dyrum samfundatjaldsins,
26 forgarðstjöldin og dúkbreiðan fyrir dyrum forgarðsins, sem liggur allt í kringum búðina og altarið, og stögin, sem þar til heyra _ allt sem að því þurfti að þjóna.
27 Til Kahats telst kynkvísl Amramíta, kynkvísl Jíseharíta, kynkvísl Hebróníta og kynkvísl Ússíelíta. Þessar eru kynkvíslir Kahatíta.
28 Eftir tölu á öllum karlkyns, mánaðargömlum og þaðan af eldri, voru þeir 8.600 og höfðu á hendi að annast helgidóminn.
29 Kynkvíslir Kahats sona tjölduðu á hlið við búðina, að sunnanverðu.
30 Og ætthöfðingi yfir kynkvíslum Kahatíta var Elísafan Ússíelsson.
31 Það sem þeir áttu að annast, var örkin, borðið, ljósastikan, ölturun og hin helgu áhöld, er þeir hafa við þjónustugjörðina, og dúkbreiðan og allt, sem að því þurfti að þjóna.
32 Höfðingi yfir höfðingjum levítanna var Eleasar Aronsson prests. Hann hafði umsjón yfir þeim, er höfðu á hendi að annast helgidóminn.
33 Til Merarí telst kynkvísl Mahelíta og kynkvísl Músíta. Þessar eru kynkvíslir Merarí.
34 Og þeir er taldir voru af þeim, eftir tölu á öllum karlkyns, mánaðargömlum og þaðan af eldri, voru 6.200.
35 Ætthöfðingi yfir kynkvíslum Merarí var Súríel Abíhaílsson. Tjölduðu þeir á hlið við búðina, að norðanverðu.
36 Merarí sonum var falin hirðing á þiljuborðum búðarinnar, á slám hennar, stólpum og undirstöðum og öllum áhöldum hennar, og allt sem að því þurfti að þjóna,
37 á stólpum forgarðsins allt í kring og undirstöðum þeirra, hælum og stögum.
38 Fyrir framan búðina, að austanverðu, fyrir framan samfundatjaldið, móti upprás sólar, tjölduðu þeir Móse og Aron og synir hans, og höfðu á hendi að annast helgidóminn, það er annast þurfti fyrir Ísraelsmenn. En komi óvígður maður þar nærri, skal hann líflátinn verða.
39 Allir þeir er taldir voru af levítunum, sem þeir Móse og Aron töldu eftir boði Drottins, eftir kynkvíslum þeirra _ allir karlkyns, mánaðargamlir og þaðan af eldri, voru 22.000.
40 Drottinn sagði við Móse: "Tel þú alla frumburði karlkyns meðal Ísraelsmanna, mánaðargamla og þaðan af eldri, og haf þú tölu á nöfnum þeirra.
41 Og þú skalt taka levítana mér til handa _ ég er Drottinn _ í stað allra frumburða meðal Ísraelsmanna, og fénað levítanna í stað allra frumburða af fénaði Ísraelsmanna."
42 Móse taldi, svo sem Drottinn hafði boðið honum, alla frumburði meðal Ísraelsmanna.
43 Og allir frumburðir karlkyns, eftir nafnatölu, mánaðargamlir og þaðan af eldri, þeir er taldir voru af þeim, voru 22.273.
44 Drottinn talaði við Móse og sagði:
45 "Tak þú levítana í stað allra frumburða meðal Ísraelsmanna og fénað levítanna í stað fénaðar þeirra, og skulu levítarnir vera mín eign. Ég er Drottinn.
46 Og að því er snertir lausnargjald þeirra tvö hundruð sjötíu og þriggja, þeirra af frumburðum Ísraelsmanna, sem umfram eru levítana,
47 þá skalt þú taka fimm sikla fyrir hvert höfuð. Eftir helgidómssikli skalt þú taka, tuttugu gerur í sikli.
48 Og þú skalt fá Aroni og sonum hans féð til lausnar þeim, sem umfram eru meðal þeirra."
49 Og Móse tók lausnargjaldið af þeim, er umfram voru þá, er leystir voru fyrir levítana.
50 Tók hann féð af frumburðum Ísraelsmanna, eitt þúsund þrjú hundruð sextíu og fimm sikla, eftir helgidóms sikli.
51 Og Móse seldi lausnargjaldið Aroni og sonum hans í hendur eftir boði Drottins, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
37 Davíðssálmur. Ver eigi of bráður vegna illvirkjanna, öfunda eigi þá er ranglæti fremja,
2 því að þeir fölna skjótt sem grasið, visna sem grænar jurtir.
3 Treyst Drottni og gjör gott, bú þú í landinu og iðka ráðvendni,
4 þá munt þú gleðjast yfir Drottni, og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.
5 Fel Drottni vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.
6 Hann mun láta réttlæti þitt renna upp sem ljós og rétt þinn sem hábjartan dag.
7 Ver hljóður fyrir Drottni og vona á hann. Ver eigi of bráður vegna þeirra er vel gengur, vegna þess manns er svik fremur.
8 Lát af reiði og slepp heiftinni, ver eigi of bráður, það leiðir til ills eins.
9 Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á Drottin, fá landið til eignar.
10 Innan stundar eru engir guðlausir til framar, þegar þú gefur gætur að stað þeirra, eru þeir horfnir.
11 En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.
12 Óguðlegur maður býr yfir illu gegn réttlátum, nístir tönnum gegn honum.
13 Drottinn hlær að honum, því að hann sér að dagur hans kemur.
14 Óguðlegir bregða sverðinu og benda boga sína til þess að fella hinn hrjáða og snauða, til þess að brytja niður hina ráðvöndu.
15 En sverð þeirra lendir í þeirra eigin hjörtum, og bogar þeirra munu brotnir verða.
16 Betri er lítil eign réttláts manns en auðlegð margra illgjarnra,
17 því að armleggur illgjarnra verður brotinn, en réttláta styður Drottinn.
18 Drottinn þekkir daga ráðvandra, og arfleifð þeirra varir að eilífu.
19 Á vondum tímum verða þeir eigi til skammar, á hallæristímum hljóta þeir saðning.
20 En óguðlegir farast, og óvinir Drottins eru sem skraut vallarins: þeir hverfa _ sem reykur hverfa þeir.
21 Guðlaus maður tekur lán og borgar eigi, en hinn réttláti er mildur og örlátur.
22 Því að þeir sem Drottinn blessar, fá landið til eignar, en hinum bannfærðu verður útrýmt.
23 Frá Drottni kemur skrefum mannsins festa, þegar hann hefir þóknun á breytni hans.
24 Þótt hann falli, þá liggur hann ekki flatur, því að Drottinn heldur í hönd hans.
25 Ungur var ég og gamall er ég orðinn, en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn né niðja hans biðja sér matar.
26 Ætíð er hann mildur og lánar, og niðjar hans verða öðrum til blessunar.
27 Forðastu illt og gjörðu gott, þá munt þú búa kyrr um aldur,
28 því að Drottinn hefir mætur á réttlæti og yfirgefur ekki sína trúuðu. Þeir verða eilíflega varðveittir, en niðjar óguðlegra upprætast.
29 Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.
30 Munnur réttláts manns mælir speki og tunga hans talar það sem rétt er.
31 Lögmál Guðs hans er í hjarta hans, eigi skriðnar honum fótur.
32 Hinn guðlausi skimar eftir hinum réttláta og situr um að drepa hann,
33 en Drottinn ofurselur hann honum ekki og lætur hann ekki ganga sekan frá dómi.
34 Vona á Drottin og gef gætur að vegi hans, þá mun hann hefja þig upp, að þú erfir landið, og þú skalt horfa á, þegar illvirkjum verður útrýmt.
35 Ég sá hinn óguðlega í ofstopa sínum og þenja sig út sem grænt tré á gróðrarstöðvum sínum,
36 og ég gekk fram hjá, og sjá, hann var þar ekki framar, ég leitaði hans, en hann fannst ekki.
37 Gef gætur að hinum ráðvanda og lít á hinn hreinskilna, því að friðsamir menn eiga framtíð fyrir höndum,
38 en afbrotamönnum verður útrýmt öllum samt, framtíðarvon óguðlegra bregst.
39 Hjálp réttlátra kemur frá Drottni, hann er hæli þeirra á neyðartímum.
40 Drottinn liðsinnir þeim og bjargar þeim, bjargar þeim undan hinum óguðlega og hjálpar þeim, af því að þeir leituðu hælis hjá honum.
1 Ljóðaljóðin, eftir Salómon.
2 Hann kyssi mig kossi munns síns, því að ást þín er betri en vín.
3 Yndislegur ilmur er af smyrslum þínum, nafn þitt eins og úthellt olía, þess vegna elska meyjarnar þig.
4 Drag mig á eftir þér! Við skulum flýta okkur! Konungurinn leiði mig í herbergi sín! Fögnum og gleðjumst yfir þér, vegsömum ást þína meir en vín _ með réttu elska þær þig!
5 Svört er ég, og þó yndisleg, þér Jerúsalemdætur, sem tjöld Kedars, sem tjalddúkar Salómons.
6 Takið ekki til þess, að ég er svartleit, því að sólin hefir brennt mig. Synir móður minnar reiddust mér, þeir settu mig til að gæta víngarða _ míns eigin víngarðs hefi ég eigi gætt.
7 Seg mér, þú sem sál mín elskar, hvar heldur þú hjörð þinni til haga, hvar bælir þú um hádegið? Því að hví skal ég vera eins og villuráfandi hjá hjörðum félaga þinna?
8 Ef þú veist það eigi, þú hin fegursta meðal kvenna, þá far þú og rek för hjarðarinnar og hald kiðum þínum til haga hjá kofum hirðanna.
9 Við hryssurnar fyrir vagni Faraós líki ég þér, vina mín.
10 Yndislegar eru kinnar þínar fléttum prýddar, háls þinn undir perluböndum.
11 Gullfestar viljum vér gjöra þér, settar silfurhnöppum.
12 Meðan konungurinn hvíldi á legubekk sínum, lagði ilminn af nardussmyrslum mínum.
13 Unnusti minn er sem myrrubelgur, sem hvílist milli brjósta mér.
14 Kypur-ber er unnusti minn mér, úr víngörðunum í Engedí.
15 Hversu fögur ertu, vina mín, hversu fögur ertu! Augu þín eru dúfuaugu.
16 Hversu fagur ertu, unnusti minn, já indæll. Já, iðgræn er hvíla okkar.
17 Bjálkarnir í húsi okkar eru sedrusviðir, þiljur okkar kýprestré.
1 Guð talaði fyrrum oftsinnis og með mörgu móti til feðranna fyrir munn spámannanna.
2 En nú í lok þessara daga hefur hann til vor talað í syni sínum, sem hann setti erfingja allra hluta. Fyrir hann hefur hann líka heimana gjört.
3 Hann, sem er ljómi dýrðar hans og ímynd veru hans og ber allt með orði máttar síns, hreinsaði oss af syndum vorum og settist til hægri handar hátigninni á hæðum.
4 Hann er orðinn englunum þeim mun meiri sem hann hefur að erfðum tekið ágætara nafn en þeir.
5 Því við hvern af englunum hefur hann nokkru sinni sagt: Þú ert sonur minn, í dag hef ég fætt þig. Eða: Ég vil vera honum faðir, og hann skal vera mér sonur!
6 Og aftur er hann leiðir hinn frumgetna inn í heimsbyggðina segir hann: Og allir englar Guðs skulu tilbiðja hann.
7 Og um englana segir hann: Hann sem gjörir engla sína að vindum og þjóna sína að eldslogum.
8 En um soninn: Hásæti þitt, ó Guð, er um aldir alda, og sproti réttvísinnar er sproti ríkis þíns.
9 Þú hefur elskað réttlæti og hatað ranglæti. Því hefur Guð, þinn Guð, smurt þig gleðinnar olíu fram yfir þína jafningja.
10 Og: Þú, Drottinn, hefur í upphafi grundvallað jörðina, og himnarnir eru verk handa þinna.
11 Þeir munu farast, en þú varir. Allir munu þeir fyrnast sem fat,
12 og þú munt þá saman vefja eins og möttul, um þá verður skipt sem klæði. En þú ert hinn sami, og þín ár taka aldrei enda.
13 En við hvern af englunum hefur hann nokkru sinni sagt: Set þig mér til hægri handar, uns ég gjöri óvini þína að fótskör þinni?
14 Eru þeir ekki allir þjónustubundnir andar, útsendir í þeirra þarfir, sem hjálpræðið eiga að erfa?
by Icelandic Bible Society