M’Cheyne Bible Reading Plan
26 Þér skuluð eigi gjöra yður falsguði, né heldur reisa yður skurðgoð eða merkissteina, og eigi setja upp myndasteina í landi yðar til þess að tilbiðja hjá þeim, því að ég er Drottinn, Guð yðar.
2 Mína hvíldardaga skuluð þér halda og fyrir mínum helgidómi lotningu bera. Ég er Drottinn.
3 Ef þér breytið eftir mínum setningum og varðveitið mínar skipanir og haldið þær,
4 þá skal ég jafnan senda yður regn á réttum tíma, og landið mun gefa ávöxt sinn og trén á mörkinni bera aldin sín.
5 Skal þá ná saman hjá yður þresking og vínberjatekja, og vínberjatekja og sáning, og þér skuluð eta yður sadda af brauði og búa öruggir í landi yðar.
6 Ég vil gefa frið í landinu, og þér skuluð leggjast til hvíldar og enginn skal hræða yður. Óargadýrum vil ég eyða úr landinu, og sverð skal ekki fara um land yðar.
7 Og þér skuluð elta óvini yðar, og frammi fyrir yður skulu þeir fyrir sverði hníga.
8 Og fimm af yður skulu elta hundrað, og hundrað af yður skulu elta tíu þúsundir, og óvinir yðar skulu frammi fyrir yður fyrir sverði hníga.
9 Ég vil snúa mér til yðar og gjöra yður frjósama og margfalda yður, og ég vil gjöra sáttmála minn við yður.
10 Og þér munuð eta fyrnt korn, gamlan forða, og þér munuð bera fyrnda kornið út fyrir hinu nýja.
11 Og ég mun reisa búð mína meðal yðar, og sál mín skal ekki hafa óbeit á yður.
12 Og ég mun ganga meðal yðar og vera Guð yðar, og þér skuluð vera mín þjóð.
13 Ég er Drottinn, Guð yðar, sem leiddi yður út af Egyptalandi, til þess að þér væruð eigi þrælar þeirra. Ég braut sundur ok-stengur yðar og lét yður ganga beina.
14 En ef þér hlýðið mér ekki og haldið ekki allar þessar skipanir,
15 og ef þér hafnið setningum mínum og sál yðar hefir óbeit á dómum mínum, svo að þér haldið ekki allar skipanir mínar, en rjúfið sáttmála minn,
16 þá vil ég gjöra yður þetta: Ég vil vitja yðar með skelfingu, tæringu og köldu, svo að augun slokkna og lífið fjarar út. Og þér skuluð sá sæði yðar til einskis, því að óvinir yðar skulu eta það.
17 Og ég vil snúa augliti mínu gegn yður, og þér skuluð bíða ósigur fyrir óvinum yðar, og fjandmenn yðar skulu drottna yfir yður, og þér skuluð flýja, þótt enginn elti yður.
18 En ef þér viljið þá enn ekki hlýða mér, þá vil ég enn refsa yður sjö sinnum fyrir syndir yðar.
19 Og ég vil brjóta ofurdramb yðar, og ég vil gjöra himininn yfir yður sem járn og land yðar sem eir.
20 Þá mun kraftur yðar eyðast til ónýtis, land yðar skal eigi gefa ávöxt sinn og trén á jörðinni eigi bera aldin sín.
21 Og ef þér gangið í gegn mér og viljið ekki hlýða mér, þá vil ég enn slá yður sjö sinnum, eins og syndir yðar eru til.
22 Og ég vil hleypa dýrum merkurinnar inn á meðal yðar, og þau skulu gjöra yður barnlausa, drepa fénað yðar og gjöra yður fámenna, og vegir yðar skulu verða auðir.
23 Og ef þér skipist ekki við þessa tyftun mína, heldur gangið í gegn mér,
24 þá vil ég einnig ganga gegn yður, þá vil ég einnig slá yður sjö sinnum fyrir syndir yðar.
25 Og ég vil láta sverð koma yfir yður, er hefna skal sáttmálans. Munuð þér þá þyrpast inn í borgir yðar, en ég vil senda drepsótt meðal yðar, og þér skuluð seldir í óvina hendur.
26 Þá er ég brýt staf brauðsins fyrir yður, munu tíu konur baka yður brauð í einum ofni og færa yður brauðið aftur eftir vigt, og þér munuð eta og ekki verða mettir.
27 Og ef þér hlýðið mér eigi þrátt fyrir þetta og gangið í gegn mér,
28 þá vil ég einnig ganga í gegn yður með þungri reiði og refsa yður sjö sinnum fyrir syndir yðar.
29 Og þér skuluð eta hold sona yðar, og hold dætra yðar skuluð þér eta.
30 Og ég vil leggja fórnarhæðir yðar í eyði og kollvarpa sólsúlum yðar og kasta hræjum yðar ofan á búkana af skurðgoðum yðar, og sálu minni mun bjóða við yður.
31 Og ég vil leggja borgir yðar í rústir og eyða helgidóma yðar og ekki kenna þægilegan ilm af fórnum yðar.
32 Og ég vil eyða landið, svo að óvinum yðar, sem í því búa, skal ofbjóða.
33 En yður vil ég tvístra meðal þjóðanna og bregða sverði á eftir yður, og land yðar skal verða auðn og borgir yðar rústir.
34 Þá skal landið fá hvíldarár sín bætt upp alla þá stund, sem það er í eyði og þér eruð í landi óvina yðar. Þá skal landið hvílast og bæta upp hvíldarár sín.
35 Alla þá stund, sem það er í eyði, skal það njóta hvíldar, þeirrar hvíldar, sem það eigi naut á hvíldarárum yðar, er þér bjugguð í því.
36 Og þá af yður, sem eftir verða, vil ég gjöra svo huglausa í löndum óvina þeirra, að þyturinn af fjúkandi laufblaði skal reka þá á flótta og þeir flýja eins og menn flýja undan sverði, og þeir skulu falla, þó að enginn elti.
37 Og þeir skulu hrasa hver um annan, eins og flýja skyldi undan sverði, þó að enginn elti, og þér skuluð eigi fá staðist fyrir óvinum yðar.
38 Og þér skuluð farast meðal þjóðanna, og land óvina yðar skal upp eta yður.
39 Og þeir af yður, sem eftir verða, skulu fyrir sakir misgjörðar sinnar veslast upp í löndum óvina yðar, og þeir skulu veslast upp sakir misgjörða feðra sinna eins og þeir.
40 Þá munu þeir játa misgjörð sína og misgjörð feðra sinna, er þeir frömdu með því að rjúfa tryggðir við mig, og hversu þeir hafa gengið í gegn mér _
41 fyrir því gekk ég og í gegn þeim og flutti þá í land óvina þeirra _, já, þá mun óumskorið hjarta þeirra auðmýkja sig og þeir fá misgjörð sína bætta upp.
42 Og þá vil ég minnast sáttmála míns við Jakob, og sáttmála míns við Ísak og sáttmála míns við Abraham vil ég einnig minnast, og landsins vil ég minnast.
43 Og landið skal verða yfirgefið af þeim og fá hvíldarár sín bætt upp, meðan það er í eyði og þeir eru á brottu, og þeir skulu fá misgjörð sína bætta upp fyrir þá sök og vegna þess, að þeir höfnuðu lögum mínum og sál þeirra hafði óbeit á setningum mínum.
44 En jafnvel þá, er þeir eru í landi óvina sinna, hafna ég þeim ekki og býður mér ekki við þeim, svo að ég vilji aleyða þeim og rjúfa þannig sáttmála minn við þá, því að ég er Drottinn, Guð þeirra.
45 Og sökum þeirra vil ég minnast sáttmálans við forfeður þeirra, er ég leiddi út af Egyptalandi í augsýn þjóðanna til þess að vera Guð þeirra. Ég er Drottinn."
46 Þetta eru setningar þær, ákvæði og lög, sem Drottinn setti milli sín og Ísraelsmanna á Sínaífjalli fyrir Móse.
33 Gleðjist, þér réttlátir, yfir Drottni! Hreinlyndum hæfir lofsöngur.
2 Lofið Drottin með gígjum, leikið fyrir honum á tístrengjaða hörpu.
3 Syngið honum nýjan söng, knýið strengina ákaft með fagnaðarópi.
4 Því að orð Drottins er áreiðanlegt, og öll verk hans eru í trúfesti gjörð.
5 Hann hefir mætur á réttlæti og rétti, jörðin er full af miskunn Drottins.
6 Fyrir orð Drottins voru himnarnir gjörðir og öll þeirra prýði fyrir anda munns hans.
7 Hann safnaði vatni hafsins sem í belg, lét straumana í forðabúr.
8 Öll jörðin óttist Drottin, allir heimsbúar hræðist hann,
9 því að hann talaði _ og það varð, hann bauð _ þá stóð það þar.
10 Drottinn ónýtir ráð þjóðanna, gjörir að engu áform lýðanna,
11 en ráð Drottins stendur stöðugt um aldur, áform hjarta hans frá kyni til kyns.
12 Sæl er sú þjóð er á Drottin að Guði, sá lýður er hann hefir kjörið sér til eignar.
13 Drottinn lítur niður af himni, sér öll mannanna börn,
14 frá bústað sínum virðir hann fyrir sér alla jarðarbúa,
15 hann sem myndað hefir hjörtu þeirra allra og gefur gætur að öllum athöfnum þeirra.
16 Eigi sigrar konungurinn fyrir gnótt herafla síns, eigi bjargast kappinn fyrir ofurafl sitt.
17 Svikull er víghestur til sigurs, með ofurafli sínu bjargar hann ekki.
18 En augu Drottins hvíla á þeim er óttast hann, á þeim er vona á miskunn hans.
19 Hann frelsar þá frá dauða og heldur lífinu í þeim í hallæri.
20 Sálir vorar vona á Drottin, hann er hjálp vor og skjöldur.
21 Já, yfir honum fagnar hjarta vort, hans heilaga nafni treystum vér.
22 Miskunn þín, Drottinn, sé yfir oss, svo sem vér vonum á þig.
9 Öllu þessu veitti ég athygli, og allt þetta reyndi ég að rannsaka: Að hinir réttlátu og vitru og verk þeirra eru í hendi Guðs. Hvorki elsku né hatur veit maðurinn fyrir, allt liggur fram undan þeim.
2 Allt getur alla hent, sömu örlög mæta réttlátum og óguðlegum, góðum og hreinum og óhreinum, þeim er fórnfærir og þeim er ekki fórnfærir. Hinum góða farnast eins og syndaranum, og þeim er sver eins og þeim er óttast svardaga.
3 Það er ókostur við allt, sem við ber undir sólinni, að sömu örlög mæta öllum, og því fyllist hjarta mannanna illsku, og heimska ríkir í hjörtum þeirra alla ævi þeirra, og síðan liggur leiðin til hinna dauðu.
4 Því að meðan maður er sameinaður öllum sem lifa, á meðan er von, því að lifandi hundur er betri en dautt ljón.
5 Því að þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt og hljóta engin laun framar, því að minning þeirra gleymist.
6 Bæði elska þeirra og hatur og öfund, það er fyrir löngu farið, og þeir eiga aldrei framar hlutdeild í neinu því, sem við ber undir sólinni.
7 Far því og et brauð þitt með ánægju og drekk vín þitt með glöðu hjarta, því að Guð hefir þegar lengi haft velþóknun á verkum þínum.
8 Klæði þín séu ætíð hvít og höfuð þitt skorti aldrei ilmsmyrsl.
9 Njót þú lífsins með þeirri konu, sem þú elskar, alla daga þíns fánýta lífs, sem hann hefir gefið þér undir sólinni, alla þína fánýtu daga, því að það er hlutdeild þín í lífinu og það sem þú fær fyrir strit þitt, sem þú streitist við undir sólinni.
10 Allt, sem hönd þín megnar að gjöra með kröftum þínum, gjör þú það, því að í dánarheimum, þangað sem þú fer, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.
11 Enn sá ég undir sólinni, að hinir fljótu ráða ekki yfir hlaupinu, né kapparnir yfir stríðinu, né heldur spekingarnir yfir brauðinu, né hinir hyggnu yfir auðnum, né vitsmunamennirnir yfir vinsældinni, því að tími og tilviljun mætir þeim öllum.
12 Því að maðurinn þekkir ekki einu sinni sinn tíma: Eins og fiskarnir festast í hinu háskalega neti og eins og fuglarnir festast í snörunni _ á líkan hátt verða mennirnir fangnir á óheillatíð, þá er hún kemur skyndilega yfir þá.
13 Þetta sá ég einnig sem speki undir sólinni, og fannst mér mikið um:
14 Einu sinni var lítil borg og fáir menn í henni. Voldugur konungur fór í móti henni og settist um hana og reisti mikil hervirki gegn henni.
15 En í borginni var fátækur maður, en vitur, og hann bjargaði borginni með viturleik sínum. En enginn maður minntist þessa fátæka manns.
16 Þá hugsaði ég: Viska er betri en afl, en viska fátæks manns er fyrirlitin, og orðum hans er eigi gaumur gefinn.
17 Orð viturra manna, sem hlustað er á í ró, eru betri en óp valdhafans meðal heimskingjanna.
18 Viska er betri en hervopn, en einn syndari spillir mörgu góðu.
1 Frá Páli, þjóni Guðs, en postula Jesú Krists til að efla trú Guðs útvöldu og þekkingu á sannleikanum, sem leiðir til guðhræðslu
2 í von um eilíft líf. Því hefur Guð, sá er ekki lýgur, heitið frá eilífum tíðum,
3 en opinberað á settum tíma. Þetta orð hans var mér trúað fyrir að prédika eftir skipun Guðs, frelsara vors.
4 Til Títusar, skilgetins sonar míns í sameiginlegri trú. Náð og friður frá Guði föður og Kristi Jesú, frelsara vorum.
5 Ég lét þig eftir á Krít, til þess að þú færðir í lag það, sem ógjört var, og skipaðir öldunga í hverri borg, svo sem ég lagði fyrir þig.
6 Öldungur á að vera óaðfinnanlegur, einkvæntur, á að eiga trúuð börn, sem eigi eru sökuð um gjálífi eða óhlýðni.
7 Því að biskup á að vera óaðfinnanlegur, þar sem hann er ráðsmaður Guðs. Hann á ekki að vera sjálfbirgingur, ekki bráður, ekki drykkfelldur, ekki ofsafenginn, ekki sólginn í ljótan gróða.
8 Hann sé gestrisinn, góðgjarn, hóglátur, réttlátur, heilagur og hafi stjórn á sjálfum sér.
9 Hann á að vera maður fastheldinn við hið áreiðanlega orð, sem samkvæmt er kenningunni, til þess að hann sé fær um bæði að áminna með hinni heilnæmu kenningu og hrekja þá, sem móti mæla.
10 Því að margir eru þverbrotnir og fara með hégómamál og leiða í villu, allra helst eru það þeir sem halda fram umskurn,
11 og verður að þagga niður í þeim. Það eru mennirnir, sem kollvarpa heilum heimilum, er þeir kenna það, sem eigi á að kenna, fyrir svívirðilegs gróða sakir.
12 Einhver af þeim, eigin spámaður þeirra, hefur svo að orði komist: "Krítarmenn eru síljúgandi, óargadýr og letimagar."
13 Þessi vitnisburður er sannur. Fyrir þá sök skalt þú vanda harðlega um við þá, til þess að þeir verði heilbrigðir í trúnni,
14 og gefi sig ekki að gyðingaævintýrum og boðum manna, sem fráhverfir eru sannleikanum.
15 Allir hlutir eru hreinum hreinir, en flekkuðum og vantrúuðum er ekkert hreint, heldur er bæði hugur þeirra flekkaður og samviska.
16 Þeir segjast þekkja Guð, en afneita honum með verkum sínum. Þeir eru viðbjóðslegir og óhlýðnir, óhæfir til hvers góðs verks.
by Icelandic Bible Society