Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Þriðja bók Móse 25

25 Drottinn talaði við Móse á Sínaífjalli og sagði:

"Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar þér komið í land það, sem ég mun gefa yður, þá skal landið halda Drottni hvíld.

Sex ár skalt þú sá akur þinn og sex ár skalt þú sniðla víngarð þinn og safna gróðrinum.

En sjöunda árið skal vera helgihvíld fyrir landið, hvíldartími Drottni til handa. Akur þinn skalt þú ekki sá og víngarð þinn skalt þú ekki sniðla.

Korn það, er vex sjálfsáið eftir uppskeru þína, skalt þú eigi skera, og vínber óskorins vínviðar þíns skalt þú eigi lesa. Það skal vera hvíldarár fyrir landið.

Gróður landsins um hvíldartímann skal vera yður til fæðu, þér, þræli þínum og ambátt, kaupamanni þínum og útlendum búanda, er hjá þér dvelja.

Og fénaði þínum og villidýrunum, sem í landi þínu eru, skal allur gróður þess vera til fæðu.

Þú skalt telja sjö hvíldarár, sjö ár sjö sinnum, svo að tími þeirra sjö hvíldarára verði fjörutíu og níu ár.

Og þá skaltu í sjöunda mánuðinum, tíunda dag mánaðarins, láta hvellilúðurinn gjalla. Friðþægingardaginn skuluð þér láta lúðurinn gjalla um gjörvallt land yðar,

10 og helga þannig hið fimmtugasta árið og boða frelsi í landinu fyrir alla íbúa þess. Það skal vera yður fagnaðarár. Þá skuluð þér hverfa aftur hver og einn til óðals síns, og þá skuluð þér hverfa aftur hver og einn til ættar sinnar.

11 Fagnaðarár skal fimmtugasta árið vera yður. Þér skuluð eigi sá og eigi uppskera það, sem vex sjálfsáið það ár, né heldur skuluð þér þá lesa vínber af óskornum vínviðum.

12 Því að það er fagnaðarár. Það sé yður heilagt. Skuluð þér eta af jörðinni það er á henni sprettur.

13 Á þessu fagnaðarári skuluð þér hverfa aftur hver og einn til óðals síns.

14 Þá er þú selur náunga þínum eitthvað eða þú kaupir eitthvað af náunga þínum, þá skuluð þér eigi sýna hver öðrum ójöfnuð.

15 Eftir því, hve mörg ár eru liðin frá fagnaðarári, skalt þú kaupa af náunga þínum, eftir því, hve uppskeruárin eru mörg, skal hann selja þér.

16 Því fleiri sem árin eru, því hærra skalt þú setja verðið, og því færri sem árin eru, því lægra skalt þú setja það, því að það er uppskerufjöldinn, sem hann selur þér.

17 Og þér skuluð eigi sýna hver öðrum ójöfnuð, heldur skalt þú óttast Guð þinn, því að ég er Drottinn, Guð yðar.

18 Fyrir því skuluð þér halda setningar mínar og varðveita lög mín og halda þau, svo að þér megið óhultir búa í landinu.

19 Þá mun landið gefa gróður sinn og þér eta yður sadda og búa óhultir í því.

20 Og ef þér segið: ,Hvað skulum vér eta sjöunda árið, þá er vér sáum eigi og hirðum eigi gróður vorn?`

21 þá vil ég senda yður blessun mína sjötta árið, og mun það leiða fram gróður til þriggja ára.

22 Og áttunda árið skuluð þér sá og eta af ávextinum, gamla forðanum. Til hins níunda árs, til þess er gróður þess fæst, skuluð þér eta gamla forðann.

23 Landið skal eigi selt fyrir fullt og allt, því að landið er mín eign, því að þér eruð dvalarmenn og hjábýlingar hjá mér.

24 Fyrir því skuluð þér í öllu eignarlandi yðar láta land falt til lausnar.

25 Ef bróðir þinn gjörist snauður og hann selur nokkuð af óðali sínu, þá skal lausnarmaður hans koma til, sá er það stendur næst, og leysa það, er bróðir hans hefir selt.

26 Nú hefir einhver engan lausnarmann, en er kominn svo í efni, að hann á fyrir lausnargjaldinu.

27 Þá skal hann telja árin frá því, er hann seldi, en það, sem yfir hefir, skal hann endurgreiða manni þeim, er hann seldi, og hverfur hann þá aftur til óðals síns.

28 En hafi hann ekki efni til að leysa, þá skal það, er hann hefir selt, vera í höndum kaupanda til fagnaðarárs. En á fagnaðarárinu gengur það úr eigu hans, og hverfur hann þá aftur til óðals síns.

29 Nú selur einhver íbúðarhús í múrgirtri borg, og skal honum heimilt að leysa það í heilt ár frá því, er hann seldi. Lausnarréttur hans skal vera tímabundinn.

30 En sé það ekki leyst áður en fullt ár er liðið, þá skal hús í múrgirtri borg verða full eign kaupanda og niðja hans. Það skal eigi ganga úr eigu hans fagnaðarárið.

31 En hús í þorpum, sem eigi eru múrgirt allt í kring, skulu talin með landi sveitarinnar. Þau skal jafnan heimilt að leysa, og þau skulu ganga úr eigu kaupanda á fagnaðarárinu.

32 Borgir levítanna, húsin í eignarborgum þeirra, skal levítunum heimilt að leysa á hverjum tíma sem er.

33 Og ef einhver af levítunum leysir eigi, þá skal selt hús ganga úr eigu kaupanda á fagnaðarárinu, sé það í eignarborg hans, því að húsin í borgum levítanna eru óðalseign þeirra meðal Ísraelsmanna.

34 En landið, er liggur undir borgir þeirra, skal eigi selja, því að það er ævinleg eign þeirra.

35 Ef bróðir þinn kemst í fátækt og verður ósjálfbjarga hjá þér, þá skalt þú styðja hann sem dvalarmann og hjábýling, svo að hann geti lifað hjá þér.

36 Þú skalt eigi taka fjárleigu af honum né aukagjald, heldur skalt þú óttast Guð þinn, svo að bróðir þinn geti lifað hjá þér.

37 Þú skalt eigi ljá honum silfur þitt gegn leigu, né heldur hjálpa honum um matvæli þín gegn aukagjaldi.

38 Ég er Drottinn, Guð yðar, sem leiddi yður út af Egyptalandi til þess að gefa yður Kanaanland og vera Guð yðar.

39 Komist bróðir þinn í fátækt hjá þér og selur sig þér, þá skalt þú ekki láta hann vinna þrælavinnu.

40 Sem kaupamaður, sem hjábýlingur skal hann hjá þér vera. Hann skal vinna hjá þér til fagnaðarárs.

41 En þá skal hann fara frá þér, og börn hans með honum, og hverfa aftur til ættar sinnar, og hann skal hverfa aftur til óðals feðra sinna.

42 Því að þeir eru þjónar mínir, sem ég hefi leitt út af Egyptalandi. Eigi skulu þeir seldir mansali.

43 Þú skalt eigi drottna yfir honum með hörku, heldur skalt þú óttast Guð þinn.

44 Viljir þú fá þér þræla og ambáttir, þá skuluð þér kaupa þræla og ambáttir af þjóðunum, sem umhverfis yður búa.

45 Svo og af börnum hjábýlinga, er hjá yður dvelja, af þeim skuluð þér kaupa og af ættliði þeirra, sem hjá yður er og þeir hafa getið í landi yðar, og þau skulu verða eign yðar.

46 Og þér skuluð láta þá ganga í arf til barna yðar eftir yður, svo að þau verði eign þeirra. Þér skuluð hafa þau að ævinlegum þrælum. En yfir bræðrum yðar, Ísraelsmönnum, skuluð þér eigi drottna með hörku, einn yfir öðrum.

47 Komist dvalarmaður eða hjábýlingur í efni hjá þér, en bróðir þinn kemst í fátækt hjá honum og selur sig dvalarmanni eða hjábýlingi hjá þér eða afkomanda dvalarmanns ættar,

48 þá skal heimilt að leysa hann eftir að hann hefir selt sig. Heimilt skal einhverjum af bræðrum hans að leysa hann,

49 eða föðurbróður hans eða bræðrungi hans eða einhverjum náfrænda í ætt hans, eða komist hann sjálfur í efni, þá er honum heimilt að leysa sig.

50 Og við þann, sem keypti hann, skal hann reikna frá árinu, er hann seldi sig honum, til fagnaðarársins, og söluverðið skal fara eftir árafjöldanum. Skal hann vera hjá honum ákveðinn tíma, svo sem kaupamaður væri.

51 Ef enn eru mörg ár eftir, þá skal hann að tiltölu við árafjöldann endurgreiða lausnargjald sitt af fé því, er hann var keyptur fyrir,

52 en ef fá ár eru eftir til fagnaðarárs, þá skal hann og reikna honum þau. Eftir áratölunni skal hann endurgreiða lausnargjald sitt.

53 Skal hann sæta sömu kjörum hjá honum eins og sá, sem er kaupamaður ár eftir ár. Hann skal eigi drottna yfir honum með hörku að þér ásjáandi.

54 En sé hann ekki leystur með þessum hætti, þá skal hann ganga úr eigu kaupanda fagnaðarárið, hann og börn hans með honum.

55 Því að Ísraelsmenn eru þjónar mínir, mínir þjónar eru þeir, sem ég hefi leitt út af Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð yðar.

Sálmarnir 32

32 Davíðsmaskíl. Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin.

Sæll er sá maður er Drottinn tilreiknar eigi misgjörð, sá er eigi geymir svik í anda.

Meðan ég þagði, tærðust bein mín, allan daginn kveinaði ég,

því að dag og nótt lá hönd þín þungt á mér, lífsvökvi minn þvarr sem í sumarbreiskju. [Sela]

Þá játaði ég synd mína fyrir þér og fól eigi misgjörð mína. Ég mælti: "Ég vil játa afbrot mín fyrir Drottni," og þú fyrirgafst syndasekt mína. [Sela]

Þess vegna biðji þig sérhver trúaður, meðan þig er að finna. Þótt vatnsflóðið komi, nær það honum eigi.

Þú ert skjól mitt, þú leysir mig úr nauðum, með frelsisfögnuði umkringir þú mig. [Sela]

Ég vil fræða þig og vísa þér veginn, er þú átt að ganga, ég vil kenna þér og hafa augun á þér:

Verið eigi sem hestar eða skynlausir múlar; með taum og beisli verður að temja þrjósku þeirra, annars nálgast þeir þig ekki.

10 Miklar eru þjáningar óguðlegs manns, en þann er treystir Drottni umlykur hann elsku.

11 Gleðjist yfir Drottni og fagnið, þér réttlátir, kveðið fagnaðarópi, allir hjartahreinir!

Prédikarinn 8

Hver er sem spekingurinn og hver skilur þýðingu hlutanna? Speki mannsins hýrgar andlit hans, og harkan í svipnum breytist.

Ég segi: Varðveit þú boð konungsins, og það vegna eiðsins við Guð.

Ver þú eigi fljótur til að ganga burt frá honum, gef þig eigi við illu málefni. Því að hann gjörir allt, sem hann vill,

af því að konungsorð er máttugt, og hver segir við hann: Hvað gjörir þú?

Sá sem varðveitir skipunina, mun ekki kenna á neinu illu, og hjarta viturs manns þekkir tíma og dóm.

Því að sérhvert fyrirtæki á sinn tíma og dóm, því að böl mannsins hvílir þungt á honum.

Hann veit ekki, hvað verða muni, því að hver segir honum, hvernig það muni verða?

Enginn maður ræður yfir vindinum, svo að hann geti stöðvað vindinn, og enginn maður hefir vald yfir dauðadeginum, og enginn fær sig lausan úr bardaganum, og óhæfan bjargar ekki þeim, er hana fremur.

Allt þetta hefi ég séð, og það með því að ég veitti athygli öllu því, sem gjörist undir sólinni, þegar einn maðurinn drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.

10 Þá hefi ég séð óguðlega menn jarðaða, en þeir er gjört höfðu það sem rétt var, máttu fara burt frá hinum heilaga stað og gleymdust í borginni. Einnig það er hégómi.

11 Af því að dómi yfir verkum illskunnar er ekki fullnægt þegar í stað, þá svellur mönnum móður til þess að gjöra það sem illt er.

12 Syndarinn gjörir það sem illt er hundrað sinnum og verður samt gamall, þótt ég hins vegar viti, að guðhræddum mönnum, er óttast Guð, muni vel vegna.

13 En hinum guðlausa mun ekki vel vegna, og hann mun ekki verða langlífur fremur en skugginn, af því að hann óttast ekki Guð.

14 Það er hégómi, sem gjörist á jörðinni, að til eru réttlátir menn, sem verða fyrir því, er óguðlegir eiga skilið, og til eru óguðlegir menn, sem verða fyrir því, er réttlátir eiga skilið. Ég sagði: Einnig það er hégómi.

15 Fyrir því lofaði ég gleðina, því að ekkert betra er til fyrir manninn undir sólinni en að eta og drekka og vera glaður. Og það fylgi honum í striti hans um ævidagana, sem Guð hefir gefið honum undir sólinni.

16 Þegar ég lagði allan hug á að kynna mér speki og að sjá það starf, sem framið er á jörðinni _ því að hvorki dag né nótt kemur manni blundur á auga _

17 þá sá ég, að maðurinn getur ekki skilið til fulls allt Guðs verk, það verk sem gjörist undir sólinni, því að hversu mjög sem maðurinn gjörir sér far um að leita, fær hann þó ekki skilið það til fulls, og enda þótt spekingurinn hyggist að þekkja það, þá fær hann eigi skilið það til fulls.

Síðara bréf Páls til Tímó 4

Fyrir augliti Guðs og Krists Jesú, sem dæma mun lifendur og dauða, með endurkomu hans fyrir augum og ríki hans heiti ég á þig:

Prédika þú orðið, gef þig að því í tíma og ótíma. Vanda um, ávíta, áminn með öllu langlyndi og fræðslu.

Því að þann tíma mun að bera, er menn þola ekki hina heilnæmu kenning, heldur hópa þeir að sér kennurum eftir eigin fýsnum sínum til þess að heyra það, sem kitlar eyrun.

Þeir munu snúa eyrum sínum burt frá sannleikanum og hverfa að ævintýrum.

En ver þú algáður í öllu, þol illt, gjör verk trúboða, fullna þjónustu þína.

Nú er svo komið, að mér verður fórnfært, og tíminn er kominn, að ég taki mig upp.

Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna.

Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins, sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi. Og ekki einungis mér, heldur og öllum, sem þráð hafa endurkomu hans.

Reyndu að koma sem fyrst til mín,

10 því að Demas hefur yfirgefið mig vegna þess að hann elskaði þennan heim. Hann er farinn til Þessaloníku. Kreskes er farinn til Galatíu og Títus til Dalmatíu.

11 Lúkas er einn hjá mér. Tak þú Markús og lát hann koma með þér, því að hann er mér þarfur til þjónustu.

12 Týkíkus hef ég sent til Efesus.

13 Fær þú mér, þegar þú kemur, möttulinn, sem ég skildi eftir í Tróas hjá Karpusi, og bækurnar, einkanlega skinnbækurnar.

14 Alexander koparsmiður gjörði mér margt illt. Drottinn mun gjalda honum eftir verkum hans.

15 Gæt þín líka fyrir honum, því að mjög stóð hann í gegn orðum vorum.

16 Í fyrstu málsvörn minni kom enginn mér til aðstoðar, heldur yfirgáfu mig allir. Verði þeim það ekki tilreiknað!

17 En Drottinn stóð með mér og veitti mér kraft, til þess að ég yrði til að fullna prédikunina og allar þjóðir fengju að heyra. Og ég varð frelsaður úr gini ljónsins.

18 Drottinn mun frelsa mig frá öllu illu og mig hólpinn leiða inn í sitt himneska ríki. Honum sé dýrð um aldir alda! Amen.

19 Heilsa þú Prisku og Akvílasi og heimili Ónesífórusar.

20 Erastus varð eftir í Korintu, en Trófímus skildi ég eftir sjúkan í Míletus.

21 Flýt þér að koma fyrir vetur. Evbúlus sendir þér kveðju og Púdes og Línus og Kládía og allir bræðurnir.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society