Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Þriðja bók Móse 24

24 Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Bjóð þú Ísraelsmönnum að færa þér tæra olíu af steyttum olífuberjum til ljósastikunnar, svo að lampar verði ávallt settir upp.

Fyrir utan fortjald sáttmálsins í samfundatjaldinu skal Aron tilreiða þá frá kveldi til morguns frammi fyrir Drottni stöðuglega. Það er ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns.

Hann skal raða lömpunum á gull-ljósastikuna frammi fyrir Drottni stöðuglega.

Þú skalt taka fínt mjöl og baka úr því tólf kökur. Skulu vera tveir tíundupartar úr efu í hverri köku.

Og þú skalt leggja þær í tvær raðir, sex í hvora röð, á gullborðið frammi fyrir Drottni.

Og þú skalt láta hjá hvorri röð hreina reykelsiskvoðu, og skal hún vera sem ilmhluti af brauðinu, eldfórn Drottni til handa.

Á hverjum hvíldardegi skal hann raða þessu frammi fyrir Drottni stöðuglega. Er það ævinlegur sáttmáli af hálfu Ísraelsmanna.

Skal Aron og synir hans fá það og eta það á helgum stað, því að það heyrir honum sem háhelgur hluti af eldfórnum Drottins eftir ævinlegu lögmáli."

10 Sonur ísraelskrar konu gekk út meðal Ísraelsmanna, en faðir hans var egypskur. Lenti þá sonur ísraelsku konunnar í deilu við ísraelskan mann í herbúðunum.

11 Og sonur ísraelsku konunnar lastmælti nafninu og formælti. Þeir leiddu hann fyrir Móse. En móðir hans hét Selómít Díbrísdóttir, af ættkvísl Dans.

12 Og þeir settu hann í varðhald, til þess að þeim kæmi úrskurður fyrir munn Drottins.

13 Og Drottinn talaði við Móse og sagði:

14 "Leið þú lastmælandann út fyrir herbúðirnar, og allir þeir, er heyrt hafa, skulu leggja hendur sínar á höfuð honum, og því næst skal allur söfnuðurinn grýta hann.

15 Og þú skalt tala við Ísraelsmenn og segja: ,Hver sá, er formælir Guði sínum, bakar sér synd.

16 Og sá er lastmælir nafni Drottins, skal líflátinn verða. Allur söfnuðurinn skal vægðarlaust grýta hann. Hvort heldur er útlendur maður eða innborinn, lastmæli hann nafninu, skal hann líflátinn.

17 Og ljósti einhver mann til bana, skal hann líflátinn verða.

18 Og sá, er lýstur skepnu til bana, skal bæta hana, líf fyrir líf.

19 Og veiti maður náunga sínum áverka, þá skal honum gjört hið sama, sem hann hefir gjört:

20 Beinbrot fyrir beinbrot, auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hinn sami áverki, er hann hefir veitt öðrum, skal honum veittur.

21 Og sá, er lýstur skepnu til bana, skal bæta hana, en sá, er lýstur mann til bana, skal líflátinn.

22 Þér skuluð hafa ein lög, hvort heldur útlendur maður eða innborinn á í hlut, því að ég er Drottinn, Guð yðar."`

23 Og Móse talaði við Ísraelsmenn, og þeir leiddu lastmælandann út fyrir herbúðirnar og lömdu hann grjóti. Og Ísraelsmenn gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

Sálmarnir 31

31 Til söngstjórans. Davíðssálmur.

Hjá þér, Drottinn, leita ég hælis, lát mig aldrei verða til skammar. Bjarga mér eftir réttlæti þínu,

hneig eyru þín til mín, frelsa mig í skyndi, ver mér verndarbjarg, vígi mér til hjálpar.

Því að þú ert bjarg mitt og vígi, og sakir nafns þíns munt þú leiða mig og stjórna mér.

Þú munt draga mig úr neti því, er þeir lögðu leynt fyrir mig, því að þú ert vörn mín.

Í þínar hendur fel ég anda minn, þú frelsar mig, Drottinn, þú trúfasti Guð!

Ég hata þá, er dýrka fánýt falsgoð, en Drottni treysti ég.

Ég vil gleðjast og fagna yfir miskunn þinni, því að þú hefir litið á eymd mína, gefið gætur að sálarneyð minni

og eigi ofurselt mig óvinunum, en sett fót minn á víðlendi.

10 Líkna mér, Drottinn, því að ég er í nauðum staddur, döpruð af harmi eru augu mín, sál mín og líkami.

11 Ár mín líða í harmi og líf mitt í andvörpum, mér förlast kraftur sakir sektar minnar, og bein mín tærast.

12 Ég er að spotti öllum óvinum mínum, til háðungar nábúum mínum og skelfing kunningjum mínum: þeir sem sjá mig á strætum úti flýja mig.

13 Sem dáinn maður er ég gleymdur hjörtum þeirra, ég er sem ónýtt ker.

14 Ég heyri illyrði margra, _ skelfing er allt um kring _ þeir bera ráð sín saman móti mér, hyggja á að svipta mig lífi.

15 En ég treysti þér, Drottinn, ég segi: "Þú ert Guð minn!"

16 Í þinni hendi eru stundir mínar, frelsa mig af hendi óvina minna og ofsækjenda.

17 Lát ásjónu þína lýsa yfir þjón þinn, hjálpa mér sakir elsku þinnar.

18 Ó Drottinn, lát mig eigi verða til skammar, því að ég ákalla þig. Lát hina guðlausu verða til skammar, hverfa hljóða til Heljar.

19 Lát lygavarirnar þagna, þær er mæla drambyrði gegn réttlátum með hroka og fyrirlitningu.

20 Hversu mikil er gæska þín, er þú hefir geymt þeim er óttast þig, og auðsýnir þeim er leita hælis hjá þér frammi fyrir mönnunum.

21 Þú hylur þá í skjóli auglitis þíns fyrir svikráðum manna, felur þá í leyni fyrir deilum tungnanna.

22 Lofaður sé Drottinn, því að hann hefir sýnt mér dásamlega náð í öruggri borg.

23 Ég hugsaði í angist minni: "Ég er burtrekinn frá augum þínum." En samt heyrðir þú grátraust mína, er ég hrópaði til þín.

24 Elskið Drottin, allir þér hans trúuðu, Drottinn verndar trúfasta, en geldur í fullum mæli þeim er ofmetnaðarverk vinna.

25 Verið öruggir og hughraustir, allir þér er vonið á Drottin.

Prédikarinn 7

Betra er gott mannorð en góð ilmsmyrsl og dauðadagur betri en fæðingardagur.

Betra er að ganga í sorgarhús en að ganga í veislusal, því að það eru endalok sérhvers manns, og sá sem lifir, hugfestir það.

Betri er hryggð en hlátur, því að þegar andlitið er dapurt, líður hjartanu vel.

Hjarta spekinganna er í sorgarhúsi, en hjarta heimskingjanna í gleðihúsi.

Betra er að hlýða á ávítur viturs manns en á söng heimskra manna.

Því að hlátur heimskingjans er eins og þegar snarkar í þyrnum undir potti. Einnig það er hégómi.

Kúgun gjörir vitran mann að heimskingja, og mútur spilla hjartanu.

Betri er endir máls en upphaf, betri er þolinmóður maður en þóttafullur.

Ver þú eigi fljótur til að láta þér gremjast, því að gremja hvílir í brjósti heimskra manna.

10 Seg ekki: Hvernig stendur á því, að hinir fyrri dagar voru betri en þessir? Því að eigi er það af skynsemi, að þú spyr um það.

11 Speki er eins góð og óðal, og ávinningur fyrir þá sem sólina líta.

12 Því að spekin veitir forsælu eins og silfrið veitir forsælu, en yfirburðir þekkingarinnar eru þeir, að spekin heldur lífinu í þeim sem hana á.

13 Skoða þú verk Guðs. Hver getur gjört það beint, er hann hefir gjört bogið?

14 Ver þú í góðu skapi á hinum góða degi, og hugleið þetta á hinum vonda degi: Guð hefir gjört þennan alveg eins og hinn, til þess að maðurinn verði einskis vísari um það sem síðar kemur.

15 Allt hefi ég séð á mínum fánýtu ævidögum: Margur réttlátur maður ferst í réttlæti sínu, og margur guðlaus maður lifir lengi í illsku sinni.

16 Ver þú ekki of réttlátur og sýn þig ekki frábærlega vitran _ hví vilt þú tortíma sjálfum þér?

17 Breyttu eigi of óguðlega og ver þú eigi heimskingi _ hví vilt þú deyja áður en þinn tími er kominn?

18 Það er gott, að þú sért fastheldinn við þetta, en sleppir þó ekki hendinni af hinu, því að sá sem óttast Guð, kemst hjá því öllu.

19 Spekin veitir vitrum manni meiri kraft en tíu valdhafar, sem eru í borginni.

20 Enginn réttlátur maður er til á jörðinni, er gjört hafi gott eitt og aldrei syndgað.

21 Gef þú heldur ekki gaum öllum þeim orðum sem töluð eru, til þess að þú heyrir eigi þjón þinn bölva þér.

22 Því að þú ert þér þess meðvitandi, að þú hefir og sjálfur oftsinnis bölvað öðrum.

23 Allt þetta hefi ég rannsakað með speki. Ég hugsaði: Ég vil verða vitur, en spekin er fjarlæg mér.

24 Fjarlægt er það, sem er, og djúpt, já djúpt. Hver getur fundið það?

25 Ég sneri mér og beindi huga mínum að því að þekkja og rannsaka og leita visku og hygginda og að gera mér ljóst, að guðleysi er heimska og heimska vitleysa.

26 Og ég fann að konan er bitrari en dauðinn, því að hún er net og hjarta hennar snara, hendur hennar fjötrar. Sá sem Guði þóknast, kemst undan henni, en syndarinn verður fanginn af henni.

27 Sjá, þetta hefi ég fundið, segir prédikarinn, með því að leggja eitt við annað til þess að komast að hyggindum.

28 Það sem ég hefi stöðugt leitað að, en ekki fundið, það er þetta: Einn mann af þúsundi hefi ég fundið, en konu á meðal allra þessara hefi ég ekki fundið.

29 Sjá, þetta eitt hefi ég fundið, að Guð hefir skapað manninn beinan, en þeir leita margra bragða.

Síðara bréf Páls til Tímó 3

Vita skalt þú þetta, að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir.

Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir,

kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er,

sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð.

Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar. Snú þér burt frá slíkum!

Úr hópi þeirra eru mennirnir, sem smeygja sér inn á heimilin og ná á band sitt kvensniftum, sem syndum eru hlaðnar og leiðast af margvíslegum fýsnum.

Þær eru alltaf að reyna að læra, en geta aldrei komist til þekkingar á sannleikanum.

Eins og þeir Jannes og Jambres stóðu í gegn Móse, þannig standa og þessir menn í gegn sannleikanum. Þeir eru menn hugspilltir og óhæfir í trúnni.

En þeim mun ekki verða ágengt, því að heimska þeirra mun verða hverjum manni augljós, eins og líka heimska hinna varð.

10 Þú hefur breytt eftir mér í kenningu, hegðun, ásetningi, trú, langlyndi, kærleika, þolgæði,

11 í ofsóknum og þjáningum, slíkum sem fyrir mig komu í Antíokkíu, í Íkóníum og í Lýstru. Slíkar ofsóknir þoldi ég, og Drottinn frelsaði mig úr þeim öllum.

12 Já, allir, sem lifa vilja guðrækilega í samfélagi við Krist Jesú, munu ofsóttir verða.

13 En vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni, villandi aðra og villuráfandi sjálfir.

14 En halt þú stöðuglega við það, sem þú hefur numið og hefur fest trú á, þar eð þú veist af hverjum þú hefur numið það.

15 Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú.

16 Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti,

17 til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society