M’Cheyne Bible Reading Plan
23 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 "Mæl þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Löghátíðir Drottins, er þér skuluð boða sem helgar samkomur _ þessar eru löghátíðir mínar.
3 Sex daga skal verk vinna, en sjöunda daginn skal vera helgihvíld, helg samkoma. Þér skuluð ekkert verk vinna. Það er hvíldardagur Drottins í öllum bústöðum yðar.
4 Þessar eru löghátíðir Drottins, helgar samkomur, er þér skuluð boða, hverja á sínum tíma.
5 Í fyrsta mánuðinum, hinn fjórtánda dag mánaðarins um sólsetur, hefjast páskar Drottins.
6 Og fimmtánda dag hins sama mánaðar skal halda Drottni hátíð hinna ósýrðu brauða. Sjö daga skuluð þér eta ósýrt brauð.
7 Fyrsta daginn skuluð þér halda helga samkomu. Eigi skuluð þér þá vinna neina stritvinnu.
8 Og þér skuluð færa Drottni eldfórn sjö daga. Sjöunda daginn er helg samkoma. Eigi skuluð þér þá fást við neina stritvinnu."
9 Drottinn talaði við Móse og sagði:
10 "Mæl þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þá er þér komið í land það, sem ég mun gefa yður, og þér skerið þar upp korn, skuluð þér færa presti fyrsta kornbundinið af uppskeru yðar.
11 Og hann skal veifa kornbundininu frammi fyrir Drottni, svo að það afli yður velþóknunar, daginn eftir hvíldardaginn skal presturinn veifa því.
12 Þann dag, er þér veifið bundininu, skuluð þér fórna veturgamalli sauðkind gallalausri í brennifórn Drottni til handa.
13 Og matfórnin með henni skal vera tveir tíundupartar úr efu af fínu mjöli, blönduðu við olíu, eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin, og dreypifórnin fjórðungur úr hín af víni.
14 Eigi skuluð þér eta brauð, bakað korn eða korn úr nýslegnum kornstöngum allt til þess dags, allt til þess er þér hafið fært fórnargjöf Guði yðar. Það skal vera yður ævarandi lögmál frá kyni til kyns í öllum bústöðum yðar.
15 Þér skuluð telja frá næsta degi eftir hvíldardaginn, frá þeim degi, er þér færið bundinið í veififórn. Sjö vikur fullar skulu það vera.
16 Til næsta dags eftir sjöunda hvíldardaginn skuluð þér telja fimmtíu daga. Þá skuluð þér færa Drottni nýja matfórn.
17 Frá bústöðum yðar skuluð þér færa tvö brauð til veififórnar. Skulu þau vera gjörð af tveim tíundupörtum úr efu af fínu mjöli. Þau skulu vera bökuð með súrdeigi _ frumgróðafórn Drottni til handa.
18 Og ásamt brauðinu skuluð þér fram bera sjö sauðkindur veturgamlar gallalausar, eitt ungneyti og tvo hrúta. Þau skulu vera brennifórn Drottni til handa ásamt matfórn og dreypifórnum þeim, er til þeirra heyra, eldfórn þægilegs ilms Drottni til handa.
19 Og þér skuluð fórna einum geithafri í syndafórn og tveim sauðkindum veturgömlum í heillafórn.
20 Og presturinn skal veifa þeim með frumgróðabrauðinu að veififórn frammi fyrir Drottni ásamt sauðkindunum tveimur. Skal það vera Drottni helgað handa prestinum.
21 Þennan sama dag skuluð þér láta boð út ganga, þér skuluð halda helga samkomu. Þér skuluð eigi vinna neina stritvinnu. Það er ævarandi lögmál fyrir yður í öllum bústöðum yðar frá kyni til kyns.
22 Er þér skerið upp jarðargróður yðar, þá skalt þú eigi skera akur þinn út í hvert horn, né heldur skalt þú tína eftirtíning uppskeru þinnar. Þú skalt skilja það eftir handa fátækum og útlendingum. Ég er Drottinn, Guð yðar."
23 Drottinn talaði við Móse og sagði:
24 "Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Í sjöunda mánuðinum, hinn fyrsta dag mánaðarins, skuluð þér halda helgihvíld, minningardag með básúnublæstri, helga samkomu.
25 Þér skuluð eigi vinna neina stritvinnu, og þér skuluð færa Drottni eldfórn."
26 Drottinn talaði við Móse og sagði:
27 "Tíunda dag þessa hins sjöunda mánaðar er friðþægingardagurinn. Skuluð þér þá halda helga samkomu og fasta og færa Drottni eldfórn.
28 Þennan sama dag skuluð þér ekkert verk vinna, því að hann er friðþægingardagur, til þess að friðþægja fyrir yður frammi fyrir Drottni Guði yðar.
29 Því að hver sá, er eigi fastar þennan dag, skal upprættur verða úr þjóð sinni.
30 Og hvern þann, er eitthvert verk vinnur þennan dag, hann vil ég afmá úr þjóð hans.
31 Þér skuluð ekkert verk vinna. Það er ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns í öllum bústöðum yðar.
32 Það skal vera yður helgihvíld og þér skuluð fasta. Hinn níunda dag mánaðarins að kveldi, frá aftni til aftans, skuluð þér halda hvíldardag yðar."
33 Drottinn talaði við Móse og sagði:
34 "Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Á fimmtánda degi þessa hins sjöunda mánaðar skal halda Drottni laufskálahátíð sjö daga.
35 Fyrsta daginn skal vera helg samkoma, þá skuluð þér eigi vinna neina stritvinnu.
36 Sjö daga skuluð þér færa Drottni eldfórn. Áttunda daginn skuluð þér halda helga samkomu og færa Drottni eldfórn. Það er hátíðafundur, þá skuluð þér eigi vinna neina stritvinnu.
37 Þetta eru löghátíðir Drottins, er þér skuluð boða sem helgar samkomur til þess að færa Drottni eldfórn, brennifórn og matfórn, sláturfórn og dreypifórnir, hverja fórn á sínum degi,
38 auk hvíldardaga Drottins og auk gjafa yðar og auk allra heitfórna yðar og auk allra sjálfviljafórna yðar, er þér færið Drottni.
39 Á fimmtánda degi hins sjöunda mánaðar, er þér hafið hirt gróður landsins, skuluð þér halda hátíð Drottins sjö daga. Fyrsta daginn skal vera helgihvíld og áttunda daginn skal vera helgihvíld.
40 Og fyrsta daginn skuluð þér taka yður aldin af fögrum trjám, pálmviðargreinar og lim af þéttlaufguðum trjám og lækjarpíl, og þér skuluð fagna frammi fyrir Drottni, Guði yðar, í sjö daga.
41 Og þér skuluð halda hana helga sem hátíð Drottins sjö daga á ári. Það er ævarandi lögmál fyrir yður frá kyni til kyns: Í sjöunda mánuðinum skuluð þér halda hana.
42 Skuluð þér búa í laufskálum sjö daga. Allir innbornir menn í Ísrael skulu þá búa í laufskálum,
43 svo að niðjar yðar viti, að ég lét Ísraelsmenn búa í laufskálum, þá er ég leiddi þá út af Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð yðar."
44 Og Móse sagði Ísraelsmönnum löghátíðir Drottins.
30 Musterisvígsluljóð. Davíðssálmur.
2 Ég tigna þig, Drottinn, því að þú hefir bjargað mér og eigi látið óvini mína hlakka yfir mér.
3 Drottinn, Guð minn, ég hrópaði til þín og þú læknaðir mig.
4 Drottinn, þú heimtir sál mína úr Helju, lést mig halda lífi, er aðrir gengu til grafar.
5 Syngið Drottni lof, þér hans trúuðu, vegsamið hans heilaga nafn.
6 Andartak stendur reiði hans, en alla ævi náð hans. Að kveldi gistir oss grátur, en gleðisöngur að morgni.
7 En ég uggði eigi að mér og hugsaði: "Aldrei skriðnar mér fótur."
8 Drottinn, af náð þinni hafðir þú gjört bjarg mitt stöðugt, en nú huldir þú auglit þitt og ég skelfdist.
9 Til þín, Drottinn, kallaði ég, og Drottin grátbændi ég:
10 "Hver ávinningur er í dauða mínum, í því að ég gangi til grafar? Getur duftið lofað þig, kunngjört trúfesti þína?
11 Heyr, Drottinn, og líkna mér, ó Drottinn, ver þú hjálpari minn!"
12 Þú breyttir grát mínum í gleðidans, leystir af mér hærusekkinn og gyrtir mig fögnuði,
13 að sál mín megi lofsyngja þér og eigi þagna. Drottinn, Guð minn, ég vil þakka þér að eilífu.
6 Til er böl, sem ég hefi séð undir sólinni, og það liggur þungt á mönnunum:
2 Þegar Guð gefur einhverjum manni ríkidæmi, auðæfi og heiður, svo að hann skortir ekkert af því er hann girnist, en Guð gjörir hann ekki færan um að njóta þess, heldur nýtur annar maður þess _ það er hégómi og vond þjáning.
3 Þótt einhver eignaðist hundrað börn og lifði mörg ár, og ævidagar hans yrðu margir, en sál hans mettaðist ekki af gæðum og hann fengi heldur enga greftrun, þá segi ég: Ótímaburðurinn er sælli en hann.
4 Því að hann er kominn í hégóma og fer burt í myrkur, og nafn hans er myrkri hulið.
5 Hann hefir ekki heldur séð sólina né þekkt hana, hann hefir meiri ró en hinn.
6 Og þótt hann lifi tvenn þúsund ár, en njóti einskis fagnaðar, fer ekki allt sömu leiðina?
7 Allt strit mannsins er fyrir munn hans, og þó seðst girndin aldrei.
8 Því að hvaða yfirburði hefir spekingurinn fram yfir heimskingjann? hvaða yfirburði hinn snauði, er kann að ganga frammi fyrir þeim sem lifa?
9 Betri er sjón augnanna en reik girndarinnar. Einnig það er hégómi og eftirsókn eftir vindi.
10 Það sem við ber, hefir fyrir löngu hlotið nafn sitt, og það er ákveðið, hvað menn eiga að verða, og maðurinn getur ekki deilt við þann sem honum er máttkari.
11 Og þótt til séu mörg orð, sem auka hégómann _ hvað er maðurinn að bættari?
12 Því að hver veit, hvað gott er fyrir manninn í lífinu, alla daga hans fánýta lífs, er hann lifir sem skuggi? Því að hver segir manninum, hvað bera muni við eftir hans dag undir sólinni?
2 Styrkst þú þá, sonur minn, í náðinni, sem fæst fyrir Krist Jesú.
2 Og það sem þú heyrðir mig tala í margra votta viðurvist, það skalt þú fá í hendur trúum mönnum, sem líka munu færir um að kenna öðrum.
3 Þú skalt og að þínu leyti illt þola, eins og góður hermaður Krists Jesú.
4 Enginn hermaður bendlar sig við atvinnustörf. Þá þóknast hann ekki þeim, sem hefur tekið hann á mála.
5 Og sá sem keppir í íþróttum fær ekki sigursveiginn, nema hann keppi löglega.
6 Bóndinn, sem erfiðar, á fyrstur að fá sinn hlut af ávöxtunum.
7 Tak eftir því, sem ég segi. Drottinn mun gefa þér skilning á öllu.
8 Minnst þú Jesú Krists, hans sem risinn er upp frá dauðum, af kyni Davíðs, eins og boðað er í fagnaðarerindi mínu.
9 Fyrir það líð ég illt og það jafnvel að vera í fjötrum eins og illvirki. En orð Guðs verður ekki fjötrað.
10 Fyrir því þoli ég allt sakir hinna útvöldu, til þess að þeir einnig hljóti hjálpræðið, í Kristi Jesú með eilífri dýrð.
11 Það orð er satt: Ef vér höfum dáið með honum, þá munum vér og lifa með honum.
12 Ef vér stöndum stöðugir, þá munum vér og með honum ríkja. Ef vér afneitum honum, þá mun hann og afneita oss.
13 Þótt vér séum ótrúir, þá verður hann samt trúr, því að ekki getur hann afneitað sjálfum sér.
14 Minn á þetta og heit á þá fyrir augliti Guðs að eiga ekki í orðastælum til einskis gagns, áheyrendum til falls.
15 Legg kapp á að reynast hæfur fyrir Guði sem verkamaður, er ekki þarf að skammast sín og fer rétt með orð sannleikans.
16 Forðast þú hinar vanheilögu hégómaræður, því að þeim, er leggja stund á þær, skilar lengra áfram í guðleysi,
17 og lærdómur þeirra etur um sig eins og helbruni. Í hópi þeirra eru þeir Hýmeneus og Fíletus.
18 Þeir hinir sömu hafa villst frá sannleikanum, þar sem þeir segja upprisuna þegar um garð gengna og umhverfa trú sumra manna.
19 En Guðs styrki grundvöllur stendur. Hann hefur þetta innsigli: "Drottinn þekkir sína" og "hver sá, sem nefnir nafn Drottins, haldi sér frá ranglæti."
20 Á stóru heimili eru ekki einungis gullker og silfurker, heldur og tréker og leirker. Sum eru til viðhafnar, önnur til óþriflegri nota.
21 Sá sem fær sig hreinan gjört af slíku, mun verða ker til viðhafnar, helgað og hagfellt húsbóndanum, hæfilegt til sérhvers góðs verks.
22 Flý þú æskunnar girndir, en stunda réttlæti, trú, kærleika og frið við þá, sem ákalla Drottin af hreinu hjarta.
23 En hafna þú heimskulegum og óskynsamlegum þrætum. Þú veist, að þær leiða af sér ófrið.
24 Þjónn Drottins á ekki að eiga í ófriði, heldur á hann að vera ljúfur við alla, góður fræðari, þolinn í þrautum,
25 hógvær er hann agar þá, sem skipast í móti. Guð kynni að gefa þeim sinnaskipti, sem leiddi þá til þekkingar á sannleikanum,
26 þá gætu þeir endurvitkast og losnað úr snöru djöfulsins, sem hefur veitt þá til að gjöra hans vilja.
by Icelandic Bible Society