M’Cheyne Bible Reading Plan
20 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 "Og þú skalt segja við Ísraelsmenn: Hver sá Ísraelsmanna, eða útlendra manna, er búa í Ísrael, sem færir Mólok nokkurt afkvæmi sitt, skal líflátinn verða. Landslýður skal lemja hann grjóti.
3 Og ég vil snúa augliti mínu gegn þeim manni og uppræta hann úr þjóð sinni, fyrir þá sök að hann hefir fært Mólok afkvæmi sitt til þess að saurga helgidóm minn og vanhelga heilagt nafn mitt.
4 En ef landslýður hylmir yfir með slíkum manni, er hann færir Mólok afkvæmi sitt, og líflætur hann ekki,
5 þá vil ég snúa augliti mínu gegn slíkum manni og gegn ætt hans. Og ég mun uppræta hann og alla þá, er verða honum samsekir í því að taka fram hjá með Mólok, úr þjóð þeirra.
6 Sá sem leitar til særingaranda og spásagnaranda til þess að taka fram hjá með þeim, gegn honum vil ég snúa augliti mínu og uppræta hann úr þjóð sinni.
7 Helgist og verið heilagir, því að ég er Drottinn, Guð yðar.
8 Fyrir því skuluð þér varðveita setningar mínar og halda þær. Ég er Drottinn, sá er yður helgar.
9 Hver sá, sem bölvar föður sínum eða móður sinni, skal líflátinn verða. Föður sínum eða móður sinni hefir hann bölvað, blóðsök hvílir á honum.
10 Þá er einhver drýgir hór með konu annars manns, drýgir hór með konu náunga síns, þá skal líflátinn verða bæði hórkarlinn og hórkonan.
11 Og leggist maður með konu föður síns, þá hefir hann berað blygðan föður síns. Þau skulu bæði líflátin verða, blóðsök hvílir á þeim.
12 Og leggist maður með tengdadóttur sinni, þá skulu þau bæði líflátin verða. Svívirðing hafa þau framið, blóðsök hvílir á þeim.
13 Og leggist maður með karlmanni sem kona væri, þá fremja þeir báðir viðurstyggð. Þeir skulu líflátnir verða, blóðsök hvílir á þeim.
14 Og taki maður bæði konu og móður hennar, þá er það óhæfa. Skal brenna hann í eldi ásamt þeim, svo að eigi gangist við óhæfa meðal yðar.
15 Og eigi maður samlag við skepnu, þá skal hann líflátinn verða, og skepnuna skuluð þér drepa.
16 Og ef kona kemur nærri einhverri skepnu til samræðis við hana, þá skalt þú deyða konuna og skepnuna. Þau skulu líflátin verða, blóðsök hvílir á þeim.
17 Nú tekur einhver systur sína, dóttur föður síns eða dóttur móður sinnar, og sér blygðan hennar og hún sér blygðan hans, þá er það skömm. Þau skulu upprætt verða í augsýn samlanda sinna. Blygðan systur sinnar hefir hann berað og bakað sér sekt.
18 Leggist maður með konu, sem hefir tíðir, og berar blygðan hennar _ hefir beran gjört brunn hennar og hún hefir sjálf berað brunn blóðs síns _, þá skulu þau bæði upprætt verða úr þjóð sinni.
19 Eigi skalt þú bera blygðan móðursystur þinnar eða föðursystur, því að sá maður hefir bert gjört náið skyldmenni sitt, þau hafa bakað sér sekt.
20 Og ef einhver leggst með sifkonu sinni, þá hefir hann berað blygðan föðurbróður síns. Þau hafa bakað sér synd, barnlaus skulu þau deyja.
21 Og ef einhver tekur konu bróður síns, þá er það saurgun. Blygðan bróður síns hefir hann berað, barnlaus skulu þau vera.
22 Varðveitið því allar setningar mínar og öll lög mín og haldið þau, svo að landið, sem ég mun leiða yður inn í, til þess að þér byggið það, spúi yður ekki.
23 Þér skuluð ekki breyta eftir setningum þeirrar þjóðar, sem ég rek burt undan yður, því að þeir frömdu allt þetta og þess vegna bauð mér við þeim.
24 Fyrir því sagði ég yður: ,Þér skuluð eignast land þeirra, og ég vil gefa yður það til eignar, land sem flýtur í mjólk og hunangi.` Ég er Drottinn, Guð yðar, sem hefi skilið yður frá þjóðunum.
25 Gjörið því grein hreinna ferfætlinga og óhreinna, og óhreinna fugla og hreinna, og gjörið yður eigi viðurstyggilega á skepnum, fuglum né neinu, sem hrærist á jörðinni, því sem ég hefi greint frá, til þess að það væri yður óhreint.
26 Og þér skuluð vera heilagir fyrir mér, því að ég, Drottinn, er heilagur, og hefi skilið yður frá þjóðunum, til þess að þér skuluð vera mínir.
27 Hafi maður eða kona særingaranda eða spásagnaranda, þá skulu þau líflátin verða. Skal lemja þau grjóti, blóðsök hvílir á þeim."
25 Davíðssálmur.
2 Til þín, Drottinn, hef ég sál mína, Guð minn, þér treysti ég. Lát mig eigi verða til skammar, lát eigi óvini mína hlakka yfir mér.
3 Hver sá er á þig vonar, mun eigi heldur verða til skammar, þeir verða til skammar, er ótrúir eru að raunalausu.
4 Vísa mér vegu þína, Drottinn, kenn mér stigu þína.
5 Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér, því að þú ert Guð hjálpræðis míns, allan daginn vona ég á þig.
6 Minnst þú miskunnar þinnar, Drottinn, og kærleiksverka, því að þau eru frá eilífð.
7 Minnst eigi æskusynda minna og afbrota, minnst mín eftir elsku þinni sakir gæsku þinnar, Drottinn.
8 Góður og réttlátur er Drottinn, þess vegna vísar hann syndurum veginn.
9 Hann lætur hina hrjáðu ganga eftir réttlætinu og kennir hinum þjökuðu veg sinn.
10 Allir vegir Drottins eru elska og trúfesti fyrir þá er gæta sáttmála hans og vitnisburða.
11 Sakir nafns þíns, Drottinn, fyrirgef mér sekt mína, því að hún er mikil.
12 Ef einhver óttast Drottin, mun hann kenna honum veg þann er hann á að velja.
13 Sjálfur mun hann búa við hamingju, og niðjar hans eignast landið.
14 Drottinn sýnir trúnað þeim er óttast hann, og sáttmála sinn gjörir hann þeim kunnan.
15 Augu mín mæna ætíð til Drottins, því að hann greiðir fót minn úr snörunni.
16 Snú þér til mín og líkna mér, því að ég er einmana og hrjáður.
17 Angist sturlar hjarta mitt, leið mig úr nauðum mínum.
18 Lít á eymd mína og armæðu og fyrirgef allar syndir mínar.
19 Lít á, hversu margir óvinir mínir eru, með rangsleitnishatri hata þeir mig.
20 Varðveit líf mitt og frelsa mig, lát mig eigi verða til skammar, því að hjá þér leita ég hælis.
21 Lát ráðvendni og hreinskilni gæta mín, því að á þig vona ég.
22 Frelsa Ísrael, ó Guð, úr öllum nauðum hans.
3 Öllu er afmörkuð stund, og sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma.
2 Að fæðast hefir sinn tíma og að deyja hefir sinn tíma, að gróðursetja hefir sinn tíma og að rífa það upp, sem gróðursett hefir verið, hefir sinn tíma,
3 að deyða hefir sinn tíma og að lækna hefir sinn tíma, að rífa niður hefir sinn tíma og að byggja upp hefir sinn tíma,
4 að gráta hefir sinn tíma og að hlæja hefir sinn tíma, að kveina hefir sinn tíma og að dansa hefir sinn tíma,
5 að kasta steinum hefir sinn tíma og að tína saman steina hefir sinn tíma, að faðmast hefir sinn tíma og að halda sér frá faðmlögum hefir sinn tíma,
6 að leita hefir sinn tíma og að týna hefir sinn tíma, að geyma hefir sinn tíma og að fleygja hefir sinn tíma,
7 að rífa sundur hefir sinn tíma og að sauma saman hefir sinn tíma, að þegja hefir sinn tíma og að tala hefir sinn tíma,
8 að elska hefir sinn tíma og að hata hefir sinn tíma, ófriður hefir sinn tíma, og friður hefir sinn tíma.
9 Hvern ávinning hefir starfandinn af öllu striti sínu?
10 Ég virti fyrir mér þá þraut, sem Guð hefir fengið mönnunum að þreyta sig á.
11 Allt hefir hann gjört hagfellt á sínum tíma, jafnvel eilífðina hefir hann lagt í brjóst þeirra, aðeins fær maðurinn ekki skilið það verk, sem Guð gjörir, frá upphafi til enda.
12 Ég komst að raun um, að ekkert er betra með þeim en að vera glaður og gæða sér meðan ævin endist.
13 En það, að maður etur og drekkur og nýtur fagnaðar af öllu striti sínu, einnig það er Guðs gjöf.
14 Ég komst að raun um, að allt, sem Guð gjörir, stendur að eilífu, við það er engu að bæta, og af því verður ekkert tekið. Guð hefir gjört það svo, til þess að menn óttuðust hann.
15 Það sem er, var fyrir löngu, og það sem mun verða, hefir verið fyrir löngu, og Guð leitar aftur hins liðna.
16 Og enn fremur sá ég undir sólinni: Þar sem rétturinn átti að vera, þar var ranglæti, og þar sem réttlætið átti að vera, þar var ranglæti.
17 Ég sagði við sjálfan mig: Hinn ráðvanda og hinn óguðlega mun Guð dæma, því að hann hefir sett tíma öllum hlutum og öllum gjörðum.
18 Ég sagði við sjálfan mig: Það er mannanna vegna, til þess að Guð geti reynt þá, og til þess að þeir sjái, að þeir eru sjálfir ekki annað en skepnur.
19 Því að örlög mannanna og örlög skepnunnar _ örlög þeirra eru hin sömu: Eins og skepnan deyr, svo deyr og maðurinn, og allt hefir sama andann, og yfirburði hefir maðurinn enga fram yfir skepnuna, því að allt er hégómi.
20 Allt fer sömu leiðina: Allt er af moldu komið, og allt hverfur aftur til moldar.
21 Hver veit, hvort andi mannanna fer upp á við, en andi skepnunnar niður á við til jarðar?
22 Þannig sá ég, að ekkert betra er til en að maðurinn gleðji sig við verk sín, því að það er hlutdeild hans. Því að hver kemur honum svo langt, að hann sjái það sem verður eftir hans dag?
5 Ávíta þú ekki aldraðan mann harðlega, heldur áminn hann sem föður, yngri menn sem bræður,
2 aldraðar konur sem mæður, ungar konur sem systur í öllum hreinleika.
3 Heiðra ekkjur, sem í raun og veru eru ekkjur.
4 En ef einhver ekkja á börn eða barnabörn, þá læri þau fyrst og fremst að sýna rækt eigin heimili og endurgjalda foreldrum sínum, því að það er þóknanlegt fyrir augliti Guðs.
5 Sú sem er í raun og veru ekkja og er orðin munaðarlaus, festir von sína á Guði og er stöðug í ákalli og bænum nótt og dag.
6 En hin bílífa er dauð, þó að hún lifi.
7 Brýn þetta fyrir þeim, til þess að þær séu óaðfinnanlegar.
8 En ef einhver sér eigi fyrir sínum, sérstaklega heimilismönnum, þá hefur hann afneitað trúnni og er verri en vantrúaður.
9 Ekkja sé ekki tekin á skrá yfir ekkjur nema hún sé orðin fullra sextíu ára, eingift
10 og lofsamlega kunn að góðum verkum. Hún verður að hafa fóstrað börn, sýnt gestrisni, þvegið fætur heilagra, hjálpað bágstöddum og lagt stund á hvert gott verk.
11 En tak ekki við ungum ekkjum. Þegar þær verða gjálífar afrækja þær Krist, vilja giftast
12 og gerast þá sekar um að brjóta sitt fyrra heit.
13 Og jafnframt temja þær sér iðjuleysi, rápandi hús úr húsi, ekki einungis iðjulausar, heldur einnig málugar og hlutsamar og tala það, sem eigi ber að tala.
14 Ég vil því að ungar ekkjur giftist, ali börn, stjórni heimili og gefi mótstöðumanninum ekkert tilefni til illmælis.
15 Nokkrar hafa þegar horfið frá til fylgis við Satan.
16 Ef trúuð kona á fyrir ekkjum að sjá, skal hún sjá fyrir þeim, og eigi hafi söfnuðurinn þyngsli af, til þess að hann geti veitt hjálpina þeim, sem ekkjur eru og einstæðar.
17 Öldungar þeir, sem veita góða forstöðu, séu hafðir í tvöföldum metum, allra helst þeir sem erfiða í orðinu og í kennslu.
18 Því að ritningin segir: "Þú skalt ekki múlbinda uxann, er hann þreskir" og "verður er verkamaðurinn launa sinna."
19 Tak þú ekki við kæru gegn öldungi, nema tveir eða þrír vottar beri.
20 Ávíta brotlega í viðurvist allra, til þess að hinir megi hafa ótta.
21 Ég heiti á þig fyrir augliti Guðs og Krists Jesú og hinna útvöldu engla, að þú gætir þessa án nokkurs fordóms og gjörir ekkert af vilfylgi.
22 Eigi skalt þú fljótráðið leggja hendur yfir nokkurn mann. Tak eigi heldur þátt í annarra syndum, varðveit sjálfan þig hreinan.
23 Ver þú ekki lengur að drekka vatn, heldur skalt þú neyta lítils eins af víni vegna magans og veikinda þinna, sem eru svo tíð.
24 Syndirnar hjá sumum mönnum eru í augum uppi og eru komnar á undan, þegar dæma skal. En hjá sumum koma þær líka á eftir.
25 Á sama hátt eru góðverkin augljós, og þau, sem eru það ekki, munu ekki geta dulist.
by Icelandic Bible Society