M’Cheyne Bible Reading Plan
17 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 "Tala þú við Aron og sonu hans og alla Ísraelsmenn og seg við þá: Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið og sagt:
3 Hver sá af húsi Ísraels, sem slátrar nautgrip eða sauðkind eða geitsauð í herbúðunum, eða slátrar því fyrir utan herbúðirnar,
4 og leiðir það ekki að dyrum samfundatjaldsins til þess að færa Drottni það að fórnargjöf fyrir framan búð Drottins, sá maður skal vera blóðsekur. Hann hefir úthellt blóði, og sá maður skal upprættur verða úr þjóð sinni,
5 til þess að Ísraelsmenn færi sláturfórnir sínar, er þeir eru vanir að fórna á bersvæði, _ að þeir færi þær prestinum að dyrum samfundatjaldsins Drottni til handa og fórni þeim í heillafórnir Drottni til handa.
6 Prestur skal stökkva blóðinu á altari Drottins við dyr samfundatjaldsins og brenna mörinn til þægilegs ilms fyrir Drottin.
7 Og þeir skulu eigi framar færa fórnir skógartröllunum, er þeir nú taka fram hjá með. Þetta skal vera þeim ævarandi lögmál frá kyni til kyns.
8 Og þú skalt segja við þá: Hver sá af húsi Ísraels eða af útlendum mönnum, er búa meðal þeirra, sem fórnar brennifórn eða sláturfórn
9 og færir hana ekki að dyrum samfundatjaldsins til þess að fórna Drottni henni, sá maður skal upprættur verða úr þjóð sinni.
10 Hver sá af húsi Ísraels og af útlendum mönnum, er búa meðal þeirra, sem neytir nokkurs blóðs, _ gegn þeim manni, sem neytir blóðs, vil ég snúa augliti mínu og uppræta hann úr þjóð sinni.
11 Því að líf líkamans er í blóðinu, og ég hefi gefið yður það á altarið, til þess að með því sé friðþægt fyrir yður, því að blóðið friðþægir með lífinu.
12 Fyrir því hefi ég sagt við Ísraelsmenn: ,Enginn maður meðal yðar skal blóðs neyta, né heldur skal nokkur útlendingur, er býr meðal yðar, neyta blóðs.`
13 Og hver sá Ísraelsmanna og þeirra manna útlendra, er meðal yðar búa, sem veiðir villidýr eða fugl ætan, hann skal hella niður blóðinu og hylja það moldu.
14 Því að svo er um líf alls holds, að saman fer blóð og líf, og fyrir því hefi ég sagt við Ísraelsmenn: ,Þér skuluð ekki neyta blóðs úr nokkru holdi, því að líf sérhvers holds, það er blóð þess. Hver sá, er þess neytir, skal upprættur verða.`
15 Og hver sá, er etur sjálfdauða skepnu eða dýrrifna, hvort heldur er innborinn maður eða útlendur, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds. Þá er hann hreinn.
16 En þvoi hann þau ekki og laugi ekki hold sitt, þá bakar hann sér sekt."
20 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Drottinn bænheyri þig á degi neyðarinnar, nafn Jakobs Guðs bjargi þér.
3 Hann sendi þér hjálp frá helgidóminum, styðji þig frá Síon.
4 Hann minnist allra fórnargjafa þinna og taki brennifórn þína gilda. [Sela]
5 Hann veiti þér það er hjarta þitt þráir, og veiti framgang öllum áformum þínum.
6 Ó að vér mættum fagna yfir sigri þínum og veifa fánanum í nafni Guðs vors. Drottinn uppfylli allar óskir þínar.
7 Nú veit ég, að Drottinn veitir hjálp sínum smurða, svarar honum frá sínum helga himni, í máttarverkum kemur fulltingi hægri handar hans fram.
8 Hinir stæra sig af vögnum sínum og stríðshestum, en vér af nafni Drottins, Guðs vors.
9 Þeir fá knésig og falla, en vér rísum og stöndum uppréttir.
10 Drottinn! Hjálpa konunginum og bænheyr oss, er vér hrópum.
21 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Drottinn, yfir veldi þínu fagnar konungurinn, hve mjög kætist hann yfir hjálp þinni!
3 Þú hefir gefið honum það er hjarta hans þráði, um það sem varir hans báðu, neitaðir þú honum eigi. [Sela]
4 Því að þú kemur í móti honum með hamingjublessunum, setur gullna kórónu á höfuð honum.
5 Um líf bað hann þig, það veittir þú honum, fjöld lífdaga um aldur og ævi.
6 Mikil er sæmd hans fyrir þína hjálp, vegsemd og heiður veittir þú honum.
7 Já, þú hefir veitt honum blessun að eilífu, þú gleður hann með fögnuði fyrir augliti þínu.
8 Því að konungurinn treystir Drottni, og vegna elsku Hins hæsta bifast hann eigi.
9 Hönd þín nær til allra óvina þinna, hægri hönd þín nær til allra hatursmanna þinna.
10 Þú gjörir þá sem glóandi ofn, er þú lítur á þá. Drottinn tortímir þeim í reiði sinni, og eldurinn eyðir þeim.
11 Ávöxtu þeirra afmáir þú af jörðunni og afkvæmi þeirra úr mannheimi,
12 því að þeir hafa stofnað ill ráð í gegn þér, búið fánýtar vélar.
13 Því að þú rekur þá á flótta, miðar á andlit þeirra með boga þínum.
14 Hef þig, Drottinn, í veldi þínu! Vér viljum syngja og kveða um máttarverk þín!
31 Orð Lemúels konungs í Massa, er móðir hans kenndi honum.
2 Hvað á ég að segja þér, sonur minn? og hvað, sonur kviðar míns? og hvað, sonur áheita minna?
3 Gef ekki konum kraft þinn, né ástarhót þín þeim er spilla konungum.
4 Ekki sæmir konungum, Lemúel, ekki sæmir konungum að drekka vín, né höfðingjum áfengur drykkur.
5 Þeir kynnu að drekka og gleyma lögunum og rangfæra málefni allra aumra manna.
6 Gefið áfengan drykk þeim, sem kominn er í örþrot, og vín þeim, sem sorgbitnir eru.
7 Drekki hann og gleymi fátækt sinni og minnist ekki framar mæðu sinnar.
8 Ljúk þú upp munni þínum fyrir hinn mállausa, fyrir málefni allra þeirra manna, sem eru að örmagnast.
9 Ljúk þú upp munni þínum, dæm með réttvísi og rétt þú hlut hinna voluðu og snauðu.
10 Væna konu, hver hlýtur hana? hún er miklu meira virði en perlur.
11 Hjarta manns hennar treystir henni, og ekki vantar að honum fénist.
12 Hún gjörir honum gott og ekkert illt alla ævidaga sína.
13 Hún sér um ull og hör og vinnur fúslega með höndum sínum.
14 Hún er eins og kaupförin, sækir björgina langt að.
15 Hún fer á fætur fyrir dag, skammtar heimilisfólki sínu og segir þernum sínum fyrir verkum.
16 Hún hefir augastað á akri og kaupir hann, af ávexti handa sinna plantar hún víngarð.
17 Hún gyrðir lendar sínar krafti og tekur sterklega til armleggjunum.
18 Hún finnur, að atvinna hennar er arðsöm, á lampa hennar slokknar eigi um nætur.
19 Hún réttir út hendurnar eftir rokknum, og fingur hennar grípa snælduna.
20 Hún breiðir út lófann móti hinum bágstadda og réttir út hendurnar móti hinum snauða.
21 Hún er ekki hrædd um heimilisfólk sitt, þótt snjói, því að allt heimilisfólk hennar er klætt skarlati.
22 Hún býr sér til ábreiður, klæðnaður hennar er úr baðmull og purpura.
23 Maður hennar er mikils metinn í borgarhliðunum, þá er hann situr með öldungum landsins.
24 Hún býr til skyrtur og selur þær, og kaupmanninum fær hún belti.
25 Kraftur og tign er klæðnaður hennar, og hún hlær að komandi degi.
26 Hún opnar munninn með speki, og ástúðleg fræðsla er á tungu hennar.
27 Hún vakir yfir því, sem fram fer á heimili hennar, og etur ekki letinnar brauð.
28 Synir hennar ganga fram og segja hana sæla, maður hennar gengur fram og hrósar henni:
29 "Margar konur hafa sýnt dugnað, en þú tekur þeim öllum fram!"
30 Yndisþokkinn er svikull og fríðleikinn hverfull, en sú kona, sem óttast Drottin, á hrós skilið.
2 Fyrst af öllu áminni ég um að bera fram ákall, bænir, fyrirbænir og þakkargjörðir fyrir öllum mönnum,
2 fyrir konungum og öllum þeim, sem hátt eru settir, til þess að vér fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í allri guðhræðslu og siðprýði.
3 Þetta er gott og þóknanlegt fyrir frelsara vorum Guði,
4 sem vill að allir menn verði hólpnir og komist til þekkingar á sannleikanum.
5 Einn er Guð. Einn er og meðalgangarinn milli Guðs og manna, maðurinn Kristur Jesús,
6 sem gaf sig sjálfan til lausnargjalds fyrir alla. Það var vitnisburður hans á settum tíma.
7 Til að boða hann er ég skipaður prédikari og postuli, _ ég tala sannleika, lýg ekki _, kennari heiðingja í trú og sannleika.
8 Ég vil, að karlmenn biðjist hvarvetna fyrir, með upplyftum heilögum höndum, án reiði og þrætu.
9 Sömuleiðis vil ég, að konur skrýði sig sæmandi búningi, með blygð og hóglæti, ekki með fléttum og gulli eða perlum og skartklæðum,
10 heldur með góðum verkum, eins og sómir konum, er Guð vilja dýrka.
11 Konan á að læra í kyrrþey, í allri undirgefni.
12 Ekki leyfi ég konu að kenna eða taka sér vald yfir manninum, heldur á hún að vera kyrrlát.
13 Því að Adam var fyrst myndaður, síðan Eva.
14 Adam lét ekki tælast, heldur lét konan tælast og gjörðist brotleg.
15 En hún mun hólpin verða, sakir barnburðarins, ef hún stendur stöðug í trú, kærleika og helgun, samfara hóglæti.
by Icelandic Bible Society