M’Cheyne Bible Reading Plan
15 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:
2 "Mælið til Ísraelsmanna og segið við þá: Nú hefir einhver rennsli úr hörundi sínu, og er hann óhreinn vegna rennslisins.
3 Og skal svo vera um óhreinleika hans, þá er hann hefir rennsli: Hvort sem rennslið úr hörundi hans gengur út eða stemmist, þá er hann óhreinn.
4 Sérhver hvíla skal óhrein vera, ef maður með rennsli hefir legið í henni, og sérhvað það skal óhreint vera, er hann situr á.
5 Og hver sem snertir hvílu hans, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.
6 Og sá er sest á nokkuð það, sem maður með rennsli hefir setið á, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.
7 Og sá sem snertir líkama þess, er rennsli hefir, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.
8 Hræki sá, er rennsli hefir, á hreinan mann, þá skal hann þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.
9 Sérhver söðull skal óhreinn vera, ef maður með rennsli ríður í honum.
10 Og hver sá, er snertir eitthvað það, sem hefir verið undir honum, skal vera óhreinn til kvelds, og sá, er ber það, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.
11 Og hver sá, er maður með rennsli hefir snortið, og hafi hann eigi skolað hendur sínar í vatni, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.
12 Og leirker skal brjóta, ef maður með rennsli snertir það, en tré-ílát öll skola í vatni.
13 Er sá, er rennsli hefir, verður hreinn af rennsli sínu, skal hann telja sjö daga frá hreinsun sinni og þvo klæði sín og lauga líkama sinn í rennandi vatni, og er þá hreinn.
14 Og á áttunda degi skal hann taka tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur og ganga fram fyrir Drottin að dyrum samfundatjaldsins og færa þær presti.
15 Og prestur skal fórna þeim, annarri í syndafórn og hinni í brennifórn, og prestur skal friðþægja fyrir hann frammi fyrir Drottni vegna rennslis hans.
16 Nú lætur einhver sæði, og skal hann lauga allan líkama sinn í vatni og vera óhreinn til kvelds.
17 Og hvert það fat eða skinn, sem sæðið hefir komið á, skal þvegið í vatni og vera óhreint til kvelds.
18 Og leggist maður með konu og hafi samfarir við hana, þá skulu þau lauga sig í vatni og vera óhrein til kvelds.
19 Nú hefir kona rennsli, og rennslið úr holdi hennar er blóð, þá skal hún vera óhrein sjö daga, og hver sem snertir hana, skal vera óhreinn til kvelds.
20 Allt það, sem hún liggur á, meðan hún er óhrein, skal vera óhreint, og allt, sem hún situr á, skal vera óhreint.
21 Og hver sem snertir hvílu hennar, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.
22 Og hver sem snertir nokkuð það, sem hún hefir setið á, skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.
23 Og snerti hann eitthvað, sem er í hvílunni eða á því, sem hún situr á, þá skal hann vera óhreinn til kvelds.
24 Og ef einhver samrekkir henni og tíðablóð hennar kemur á hann, þá er hann óhreinn sjö daga, og hver sú hvíla skal óhrein vera, er hann liggur í.
25 Nú missir kona blóð marga daga á öðrum tíma en þeim, er hún hefir tíðir, eða hún hefir rennsli fram yfir tíðir sínar, þá skal hún alla þá stund, er hún hefir óhreint rennsli, haga sér eins og þá daga, er hún hefir tíðir. Hún er óhrein.
26 Hverja hvílu, sem hún liggur í alla þá stund, sem hún hefir rennsli, skal hún fara með eins og hvílu sína, þá er hún hefir tíðir, og sérhvað það, er hún situr á, skal vera óhreint, eins og þegar hún er óhrein af klæðaföllum.
27 Hver sem snertir þetta, skal vera óhreinn, og hann skal þvo klæði sín og lauga sig í vatni og vera óhreinn til kvelds.
28 En þá er hún er hrein orðin af rennsli sínu, skal hún telja sjö daga, og eftir það er hún hrein.
29 Og á áttunda degi skal hún taka sér tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur og færa þær prestinum að dyrum samfundatjaldsins.
30 Og prestur skal fórna annarri í syndafórn og hinni í brennifórn, og prestur skal friðþægja fyrir hana frammi fyrir Drottni vegna hins óhreina rennslis hennar.
31 Og þannig skuluð þér vara Ísraelsmenn við óhreinleika þeirra, að þeir deyi ekki í óhreinleika sínum, ef þeir saurga búð mína, sem er meðal þeirra."
32 Þetta eru ákvæðin um þann, sem hefir rennsli, og þann, sem hefir sáðlát, svo að hann verður óhreinn af,
33 og um konu, sem hefir tíðir, og þann, sem hefir rennsli, hvort heldur er karl eða kona, og um mann, sem samrekkir konu óhreinni.
18 Til söngstjórans. Eftir Davíð, þjón Drottins, er flutti Drottni orð þessara ljóða, þá er Drottinn frelsaði hann af hendi allra óvina hans og af hendi Sáls.
2 Hann mælti: Ég elska þig, Drottinn, þú styrkur minn.
3 Drottinn, bjarg mitt og vígi og frelsari minn, Guð minn, hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis, skjöldur minn og horn hjálpræðis míns, háborg mín!
4 Lofaður sé Drottinn, hrópa ég, og ég frelsast frá óvinum mínum.
5 Brimöldur dauðans umkringdu mig, elfur glötunarinnar skelfdu mig,
6 snörur Heljar luktu um mig, möskvar dauðans féllu yfir mig.
7 Í angist minni kallaði ég á Drottin, og til Guðs míns hrópaði ég. Hann heyrði raust mína í helgidómi sínum, og óp mitt barst til eyrna honum.
8 Jörðin bifaðist og nötraði, undirstöður fjallanna skulfu, þær bifuðust, því að hann var reiður,
9 reykur gekk fram úr nösum hans og eyðandi eldur af munni hans, glóðir brunnu út frá honum.
10 Hann sveigði himininn og steig niður, og skýsorti var undir fótum hans.
11 Hann steig á bak kerúb og flaug af stað og sveif á vængjum vindarins.
12 Hann gjörði myrkur að skýli sínu, regnsorta og skýþykkni að fylgsni sínu allt um kring.
13 Frá ljómanum fyrir honum brutust hagl og eldglæringar gegnum ský hans.
14 Þá þrumaði Drottinn á himnum, og Hinn hæsti lét raust sína gjalla.
15 Hann skaut örvum sínum og tvístraði óvinum sínum, lét eldingar leiftra og hræddi þá.
16 Þá sá í mararbotn, og undirstöður jarðarinnar urðu berar fyrir ógnun þinni, Drottinn, fyrir andgustinum úr nösum þínum.
17 Hann seildist niður af hæðum og greip mig, dró mig upp úr hinum miklu vötnum.
18 Hann frelsaði mig frá hinum sterku óvinum mínum, frá fjandmönnum mínum, er voru mér yfirsterkari.
19 Þeir réðust á mig á mínum óheilladegi, en Drottinn var mín stoð.
20 Hann leiddi mig út á víðlendi, frelsaði mig, af því að hann hafði þóknun á mér.
21 Drottinn fer með mig eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna geldur hann mér,
22 því að ég hefi varðveitt vegu Drottins og hefi ekki reynst ótrúr Guði mínum.
23 Allar skipanir hans hefi ég fyrir augum, og boðorðum hans þokaði ég eigi burt frá mér.
24 Ég var lýtalaus fyrir honum og gætti mín við misgjörðum.
25 Fyrir því galt Drottinn mér eftir réttlæti mínu, eftir hreinleik handa minna fyrir augliti hans.
26 Gagnvart ástríkum ert þú ástríkur, gagnvart ráðvöndum ráðvandur,
27 gagnvart hreinum hreinn, en gagnvart rangsnúnum ert þú afundinn.
28 Þú hjálpar þjáðum lýð, en gjörir hrokafulla niðurlúta.
29 Já, þú lætur lampa minn skína, Drottinn, Guð minn, þú lýsir mér í myrkrinu.
30 Því að fyrir þína hjálp brýt ég múra, fyrir hjálp Guðs míns stekk ég yfir borgarveggi.
31 Vegur Guðs er lýtalaus, orð Drottins er hreint, skjöldur er hann öllum þeim sem leita hælis hjá honum.
32 Hver er Guð nema Drottinn, og hver er hellubjarg utan vor Guð?
33 Sá Guð sem gyrðir mig styrkleika og gjörir veg minn sléttan,
34 sem gjörir fætur mína sem hindanna og veitir mér fótfestu á hæðunum,
35 sem æfir hendur mínar til hernaðar, svo að armar mínir benda eirbogann.
36 Og þú gafst mér skjöld hjálpræðis þíns, og hægri hönd þín studdi mig, og lítillæti þitt gjörði mig mikinn.
37 Þú rýmdir til fyrir skrefum mínum, og ökklar mínir riðuðu ekki.
38 Ég elti óvini mína og náði þeim og sneri ekki aftur, fyrr en ég hafði gjöreytt þeim.
39 Ég molaði þá sundur, þeir máttu eigi upp rísa, þeir hnigu undir fætur mér.
40 Þú gyrtir mig styrkleika til ófriðarins, beygðir fjendur mína undir mig.
41 Þú lést mig sjá bak óvina minna, og fjendum mínum eyddi ég.
42 Þeir hrópuðu, en enginn kom til hjálpar, þeir hrópuðu til Drottins, en hann svaraði þeim ekki.
43 Og ég muldi þá sem mold á jörð, tróð þá fótum sem saur á strætum.
44 Þú frelsaðir mig úr fólkorustum, gjörðir mig að höfðingja þjóðanna, lýður sem ég þekkti ekki þjónar mér.
45 Óðara en þeir heyra mín getið, hlýða þeir mér, útlendingar smjaðra fyrir mér.
46 Útlendingar dragast upp og koma skjálfandi fram úr fylgsnum sínum.
47 Lifi Drottinn, lofað sé mitt bjarg, og hátt upp hafinn sé Guð hjálpræðis míns,
48 sá Guð sem veitti mér hefndir og braut þjóðir undir mig,
49 sem hreif mig úr höndum óvina minna. Og yfir mótstöðumenn mína hófst þú mig, frá ójafnaðarmönnum frelsaðir þú mig.
50 Fyrir því vil ég vegsama þig, Drottinn, meðal þjóðanna og lofsyngja þínu nafni.
51 Hann veitir konungi sínum mikla hjálp og auðsýnir miskunn sínum smurða, Davíð og niðjum hans að eilífu.
29 Sá sem oftlega hefir ávítaður verið, en þverskallast þó, mun skyndilega knosaður verða, og engin lækning fást.
2 Þegar réttlátum fjölgar, gleðst þjóðin, en þegar óguðlegir drottna, andvarpar þjóðin.
3 Sá sem elskar visku, gleður föður sinn, en sá sem leggur lag sitt við skækjur, glatar eigum sínum.
4 Konungurinn eflir landið með rétti, en sá sem þiggur mútur, eyðir það.
5 Sá maður, sem smjaðrar fyrir náunga sínum, hann leggur net fyrir fætur hans.
6 Í misgjörð vonds manns er fólgin snara, en réttlátur maður fagnar og gleðst.
7 Réttlátur maður kynnir sér málefni hinna lítilmótlegu, en óguðlegur maður hirðir ekkert um að kynna sér það.
8 Spottarar æsa upp borgina, en vitrir menn lægja reiðina.
9 Þegar vitur maður á í þrætumáli við afglapa, þá reiðist hann og hlær, en hvíld fæst engin.
10 Blóðvargarnir hata hinn ráðvanda, en réttvísir menn láta sér annt um líf hans.
11 Heimskinginn úthellir allri reiði sinni, en vitur maður sefar hana að lokum.
12 Þegar drottnarinn hlýðir á lygaorð, verða allir þjónar hans bófar.
13 Fátæklingurinn og kúgarinn mætast, Drottinn ljær ljós augum beggja.
14 Sá konungur, sem dæmir hina lítilmótlegu með réttvísi, hásæti hans mun stöðugt standa að eilífu.
15 Vöndur og umvöndun veita speki, en agalaus sveinn gjörir móður sinni skömm.
16 Þegar óguðlegum fjölgar, fjölgar og misgjörðum, en réttlátir munu horfa á fall þeirra.
17 Aga þú son þinn, þá mun hann láta þig hafa ró og veita unað sálu þinni.
18 Þar sem engar vitranir eru, kemst fólkið á glapstigu, en sá sem varðveitir lögmálið, er sæll.
19 Þræll verður eigi agaður með orðum, því að hann skilur þau að vísu, en fer ekki eftir þeim.
20 Sjáir þú mann, sem er fljótfær í orðum, þá er meiri von um heimskingja en hann.
21 Dekri maður við þræl sinn frá barnæsku, vill hann að lokum verða ungherra.
22 Reiðigjarn maður vekur deilur, og bráðlyndur maður drýgir marga synd.
23 Hroki mannsins lægir hann, en hinn lítilláti mun virðing hljóta.
24 Þjófsnauturinn hatar líf sitt, hann hlýðir á bölvunina, en segir þó ekki frá.
25 Ótti við menn leiðir í snöru, en þeim er borgið, sem treystir Drottni.
26 Margir leita hylli drottnarans, en réttur mannsins kemur frá Drottni.
27 Andstyggð réttlátra er sá, sem ranglæti fremur, og andstyggð óguðlegra sá, sem ráðvandlega breytir.
3 Að endingu, bræður: Biðjið fyrir oss, að orð Drottins megi hafa framgang og vegsamast eins og hjá yður,
2 og að vér mættum frelsast frá spilltum og vondum mönnum. Því að ekki er trúin allra.
3 En trúr er Drottinn og hann mun styrkja yður og vernda fyrir hinum vonda.
4 En vér höfum það traust til yðar vegna Drottins, að þér bæði gjörið og munuð gjöra það, sem vér leggjum fyrir yður.
5 En Drottinn leiði hjörtu yðar til kærleika Guðs og þolgæðis Krists.
6 En vér bjóðum yður, bræður, í nafni Drottins vors Jesú Krists, að þér sneiðið hjá hverjum þeim bróður, er lifir óreglulega og ekki eftir þeirri kenningu, sem þeir hafa numið af oss.
7 Því að sjálfir vitið þér, hvernig á að breyta eftir oss. Ekki hegðuðum vér oss óreglulega hjá yður,
8 neyttum ekki heldur brauðs hjá neinum fyrir ekkert, heldur unnum vér með erfiði og striti nótt og dag, til þess að vera ekki neinum yðar til þyngsla.
9 Ekki af því að vér höfum ekki rétt til þess, heldur til þess að vér gæfum yður sjálfa oss sem fyrirmynd til eftirbreytni.
10 Því var og það, að þegar vér vorum hjá yður, buðum vér yður: Ef einhver vill ekki vinna, þá á hann heldur ekki mat að fá.
11 Vér heyrum, að nokkrir meðal yðar lifi óreglulega, vinni ekkert, heldur gefi sig alla að því, sem þeim kemur eigi við.
12 Slíkum mönnum bjóðum vér og áminnum þá vegna Drottins Jesú Krists, að vinna kyrrlátlega og eta eigið brauð.
13 En þér, bræður, þreytist ekki gott að gjöra.
14 En ef einhver hlýðir ekki orðum vorum í bréfi þessu, þá merkið yður þann mann. Hafið ekkert samfélag við hann, til þess að hann blygðist sín.
15 En álítið hann þó ekki óvin, heldur áminnið hann sem bróður.
16 En sjálfur Drottinn friðarins gefi yður friðinn, ætíð á allan hátt. Drottinn sé með yður öllum.
17 Kveðjan er með minni, Páls, eigin hendi, og það er merki á hverju bréfi. Þannig skrifa ég.
by Icelandic Bible Society