M’Cheyne Bible Reading Plan
14 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 "Þetta skulu vera ákvæðin um líkþráan mann, þá er hann er hreinsaður: Skal leiða hann fyrir prest,
3 og prestur skal ganga út fyrir herbúðirnar, og prestur skal líta á. Og sjái hann að líkþrárskellan á hinum líkþráa er gróin,
4 þá skal presturinn bjóða að taka fyrir þann, er lætur hreinsa sig, tvo hreina fugla lifandi, sedrusvið, skarlat og ísópsvönd.
5 Og prestur skal bjóða að slátra öðrum fuglinum í leirker yfir rennandi vatni.
6 En lifandi fuglinn, sedrusviðinn, skarlatið og ísópsvöndinn skal hann taka og drepa því, ásamt lifandi fuglinum, í blóð fuglsins, er slátrað var yfir rennandi vatni.
7 Og hann skal stökkva sjö sinnum á þann, sem lætur hreinsa sig af líkþránni, og dæma hann hreinan, en sleppa lifandi fuglinum út á víðavang.
8 Sá er lætur hreinsa sig, skal þvo klæði sín, raka allt hár sitt og lauga sig í vatni, og er þá hreinn. Og síðan gangi hann í herbúðirnar, en skal þó sjö daga hafast við fyrir utan tjald sitt.
9 Og á sjöunda degi skal hann raka allt hár sitt, bæði höfuð sitt, skegg og augabrúnir, _ allt hár sitt skal hann raka. Og hann skal þvo klæði sín og lauga líkama sinn í vatni, og er þá hreinn.
10 Á áttunda degi skal hann taka tvö hrútlömb gallalaus og eina gimbur veturgamla gallalausa og þrjá tíunduparta úr efu af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn, og einn lóg af olíu.
11 Og presturinn, er hreinsar, skal færa manninn, er lætur hreinsa sig, ásamt þessu fram fyrir Drottin að dyrum samfundatjaldsins.
12 Og presturinn skal taka annað hrútlambið og fórna því í sektarfórn, ásamt olíu-lóginum, og veifa hvorutveggja að veififórn frammi fyrir Drottni.
13 Og lambinu skal slátra á þeim stað, þar sem syndafórninni er slátrað og brennifórninni, á helgum stað; því að eins og syndafórn heyrir presti, svo er og um sektarfórn. Hún er háheilög.
14 Prestur skal taka nokkuð af blóði sektarfórnarinnar, og prestur skal ríða því á hægri eyrnasnepil þess, er lætur hreinsa sig, og á þumalfingur hægri handar hans og á stórutá hægri fótar hans.
15 Og prestur skal taka nokkuð af olíu-lóginum og hella í vinstri lófa sér.
16 Og prestur skal drepa hægri fingri sínum í olíuna, sem er í vinstri lófa hans, og stökkva olíunni með fingri sínum sjö sinnum frammi fyrir Drottni.
17 Og af leifunum af olíunni, sem er í lófa hans, skal prestur ríða á hægri eyrnasnepil þess, er lætur hreinsa sig, og á þumalfingur hægri handar hans og á stórutá hægri fótar hans, ofan á blóðið úr sektarfórninni.
18 Og því, sem leift er af olíunni í lófa prestsins, skal hann ríða á höfuð þess, sem lætur hreinsa sig, og prestur skal friðþægja fyrir hann frammi fyrir Drottni.
19 Þá skal prestur fórna syndafórninni og friðþægja fyrir þann, er lætur hreinsa sig, vegna óhreinleika hans, og síðan skal hann slátra brennifórninni.
20 Og prestur skal fram bera á altarið brennifórnina og matfórnina. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir hann, og er hann þá hreinn.
21 En sé hann fátækur og á ekki fyrir þessu, þá skal hann taka eitt hrútlamb í sektarfórn til veifunar, til þess að friðþægt verði fyrir hann, og einn tíunda part úr efu af fínu mjöli, blönduðu við olíu, í matfórn, og lóg af olíu
22 og tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur, eftir því sem efni hans leyfa. Skal önnur vera til syndafórnar, en hin til brennifórnar.
23 Og hann skal færa þær prestinum á áttunda degi frá hreinsun sinni að dyrum samfundatjaldsins fram fyrir Drottin.
24 Og prestur skal taka sektarfórnarlambið og olíu-lóginn, og prestur skal veifa því til veififórnar frammi fyrir Drottni.
25 Síðan skal sektarfórnarlambinu slátrað. Prestur skal taka nokkuð af blóði sektarfórnarinnar og ríða á hægri eyrnasnepil þess, er lætur hreinsa sig, og á þumalfingur hægri handar hans og á stórutá hægri fótar hans.
26 Og nokkru af olíunni skal prestur hella í vinstri lófa sér.
27 Og prestur skal stökkva nokkru af olíunni, sem er í vinstri lófa hans, með hægri fingri sínum sjö sinnum frammi fyrir Drottni.
28 Og prestur skal ríða nokkru af olíunni, sem er í lófa hans, á hægri eyrnasnepil þess, er lætur hreinsa sig, og á þumalfingur hægri handar hans og stórutá hægri fótar hans, á þann stað þar sem blóðið úr sektarfórninni er.
29 En því, sem leift er af olíunni í lófa prestsins, skal hann ríða á höfuð þess, er lætur hreinsa sig, til þess að friðþægja fyrir hann frammi fyrir Drottni.
30 Þá skal hann fórna annarri turtildúfunni eða annarri ungu dúfunni, eftir því sem hann hafði efnin til,
31 annarri í syndafórn og hinni í brennifórn, ásamt matfórninni. Þannig skal presturinn friðþægja fyrir þann, er lætur hreinsa sig, frammi fyrir Drottni."
32 Þetta eru ákvæðin um þann, sem hefir líkþrársótt og ekki á fyrir hreinsun sinni.
33 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:
34 "Þá er þér komið í Kanaanland, sem ég mun gefa yður til eignar, og ég læt koma líkþrárskellu á hús í eignarlandi yðar,
35 þá skal sá fara, sem húsið á, og greina presti frá og segja: ,Mér virðist sem skella sé á húsinu.`
36 Og prestur skal bjóða að láta ryðja húsið áður en prestur gengur inn til þess að líta á skelluna, svo að ekki verði allt óhreint, sem í húsinu er. Síðan skal prestur ganga inn til þess að skoða húsið.
37 Og hann skal líta á skelluna, og sjái hann, að skellan á veggjum hússins eru dældir grænleitar eða rauðleitar, og þær ber lægra en vegginn,
38 þá skal prestur ganga út úr húsinu að dyrum hússins og byrgja húsið sjö daga.
39 Og prestur skal koma aftur á sjöunda degi og líta á, og sjái hann að skellan hefir færst út á veggjum hússins,
40 þá skal prestur bjóða að brjóta þá steina úr, sem skellan er á, og varpa þeim á óhreinan stað utan borgar.
41 Og húsið skal hann láta skafa allt að innan, og skulu þeir steypa niður vegglíminu, er þeir skafa af, á óhreinan stað utan borgar.
42 Og þeir skulu taka aðra steina og setja í stað hinna steinanna, og annað vegglím skal taka og ríða á húsið.
43 En ef skellan kemur aftur og brýst út á húsinu, eftir að steinarnir hafa verið brotnir úr og eftir að húsið hefir verið skafið og síðan verið riðið á vegglími,
44 þá skal prestur koma og líta á. Og sjái hann að skellan hefir færst út á húsinu, þá er það skæð líkþrá á húsinu. Það er óhreint.
45 Og skal rífa húsið, steinana í því, viðina og allt vegglím hússins, og færa út fyrir borgina á óhreinan stað.
46 Hver sem gengur inn í húsið alla þá stund, sem það er byrgt, skal vera óhreinn til kvelds.
47 Og hver sem hvílir í húsinu, skal þvo klæði sín, og hver sem matar neytir í húsinu, skal þvo klæði sín.
48 En ef prestur kemur og lítur á og sér, að skellan hefir ekki færst út á húsinu eftir að riðið var vegglími á húsið, þá skal prestur dæma húsið hreint, því að skellan er þá læknuð.
49 Og hann skal taka tvo fugla, sedrusvið, skarlat og ísópsvönd til þess að syndhreinsa húsið.
50 Og hann skal slátra öðrum fuglinum í leirker yfir rennandi vatni.
51 En sedrusviðinn, ísópsvöndinn, skarlatið og lifandi fuglinn skal hann taka og drepa þeim í blóð fuglsins, er slátrað var, og í rennandi vatnið og stökkva á húsið sjö sinnum.
52 Og hann skal syndhreinsa húsið með blóði fuglsins og rennandi vatninu, með lifandi fuglinum, sedrusviðinum, ísópsvendinum og skarlatinu.
53 En lifandi fuglinum skal hann sleppa út fyrir borgina, út á víðavang, og friðþægja þannig fyrir húsið, og er það þá hreint."
54 Þetta eru ákvæðin um hvers konar líkþrársótt og skurfu,
55 um líkþrá í fati og á húsi,
56 um þrota, hrúður og gljádíla,
57 til leiðbeiningar um það, hvenær eitthvað er óhreint og hvenær það er hreint. Þetta eru ákvæðin um líkþrá.
17 Bæn Davíðs. Heyr, Drottinn, á réttvíst málefni, hlýð á hróp mitt, ljá eyra bæn minni, er ég flyt með tállausum vörum.
2 Lát rétt minn út ganga frá augliti þínu, augu þín sjá hvað rétt er.
3 Þá er þú rannsakar hjarta mitt, prófar það um nætur, reynir mig í eldi, þá finnur þú engar illar hugsanir hjá mér, munnur minn heldur sér í skefjum.
4 Hvað sem aðrir gjöra, þá hefi ég eftir orði vara þinna forðast vegu ofbeldismannsins.
5 Skref mín fylgdu sporum þínum, mér skriðnaði ekki fótur.
6 Ég kalla á þig, því að þú svarar mér, ó Guð, hneig eyru þín til mín, hlýð á orð mín.
7 Veit mér þína dásamlegu náð, þú sem hjálpar þeim er leita hælis við þína hægri hönd fyrir ofsækjendum.
8 Varðveit mig sem sjáaldur augans, fel mig í skugga vængja þinna
9 fyrir hinum guðlausu, er sýna mér ofbeldi, fyrir gráðugum óvinum, er kringja um mig.
10 Mörhjörtum sínum hafa þeir lokað, með munni sínum mæla þeir drambsamleg orð.
11 Hvar sem ég geng, umkringja þeir mig, þeir beina augum sínum að því að varpa mér til jarðar.
12 Þeir líkjast ljóni er langar í bráð, ungu ljóni, er liggur í felum.
13 Rís upp, Drottinn! Far í móti óvininum og varpa honum niður, frelsa mig undan hinum óguðlega með sverði þínu.
14 Frelsa mig undan mönnunum með hendi þinni, Drottinn, undan mönnum heimsins, sem hafa hlutskipti sitt í lífinu og þú kviðfyllir gæðum þínum. Þeir eru ríkir að sonum og skilja börnum sínum eftir nægtir sínar.
15 En ég mun sakir réttlætisins skoða auglit þitt, þá er ég vakna, mun ég mettast af mynd þinni.
28 Hinir óguðlegu flýja, þótt enginn elti þá, en hinir réttlátu eru öruggir eins og ungt ljón.
2 Þegar land gengur undan drottnara sínum, gjörast þar margir höfðingjar, en meðal skynsamra og hygginna manna mun góð skipan lengi standa.
3 Maður sem er fátækur og kúgar snauða, er eins og regn, sem skolar burt korninu, en veitir ekkert brauð.
4 Þeir sem yfirgefa lögmálið, hrósa óguðlegum, en þeir sem varðveita lögmálið, eru æfir út af þeim.
5 Illmenni skilja ekki hvað rétt er, en þeir sem leita Drottins, skilja allt.
6 Betri er fátækur maður, sem framgengur í ráðvendni sinni, heldur en sá, sem beitir undirferli og er þó ríkur.
7 Sá sem varðveitir lögmálið, er hygginn sonur, en sá sem leggur lag sitt við óhófsmenn, gjörir föður sínum smán.
8 Sá sem eykur auð sinn með fjárleigu og okri, safnar honum handa þeim, sem líknsamur er við fátæka.
9 Sá sem snýr eyra sínu frá til þess að heyra ekki lögmálið, _ jafnvel bæn hans er andstyggð.
10 Sá sem tælir falslausa menn út á vonda leið, hann fellur sjálfur í gröf sína, en ráðvandir munu hljóta góða arfleifð.
11 Ríkur maður þykist vitur, en snauður maður, sem er hygginn, sér við honum.
12 Þegar hinir réttlátu fagna, er mikið um dýrðir, en þegar óguðlegir komast upp, fela menn sig.
13 Sá sem dylur yfirsjónir sínar, verður ekki lángefinn, en sá sem játar þær og lætur af þeim, mun miskunn hljóta.
14 Sæll er sá maður, sem ávallt er var um sig, en sá sem herðir hjarta sitt, fellur í ógæfu.
15 Eins og grenjandi ljón og gráðugur björn, svo er óguðlegur drottnari yfir lítilsigldum lýð.
16 Höfðingi, sem hefir litlar tekjur, er ríkur að kúgun, sá sem hatar rangfenginn ávinning, mun langlífur verða.
17 Sá maður, sem blóðsök hvílir þungt á, er á flótta fram á grafarbarminn; enginn dvelji hann.
18 Sá sem breytir ráðvandlega, mun frelsast, en sá sem beitir undirferli, fellur í gryfju.
19 Sá sem yrkir land sitt, mettast af brauði, en sá sem sækist eftir hégómlegum hlutum, mettast af fátækt.
20 Áreiðanlegur maður blessast ríkulega, en sá sem fljótt vill verða ríkur, sleppur ekki við refsingu.
21 Hlutdrægni er ljót, en þó fremja menn ranglæti fyrir einn brauðbita.
22 Öfundsjúkur maður flýtir sér að safna auði og veit ekki að örbirgð muni yfir hann koma.
23 Sá sem ávítar mann, mun á síðan öðlast meiri hylli heldur er tungumjúkur smjaðrari.
24 Sá sem rænir foreldra sína og segir: "Það er engin synd!" hann er stallbróðir eyðandans.
25 Ágjarn maður vekur deilur, en sá sem treystir Drottni, mettast ríkulega.
26 Sá sem treystir eigin hyggjuviti, er heimskingi, en sá sem breytir viturlega, mun undan komast.
27 Sá sem gefur fátækum, líður engan skort, en þeim sem byrgir augu sín, koma margar óbænir.
28 Þegar hinir óguðlegu komast upp, fela menn sig, en þegar þeir tortímast, fjölgar réttlátum.
2 En að því er snertir komu Drottins vors Jesú Krists og það, að vér söfnumst til hans, biðjum vér yður, bræður,
2 að þér séuð ekki fljótir til að komast í uppnám eða láta hræða yður, hvorki af nokkrum anda né við orð eða bréf, sem væri það frá oss, eins og dagur Drottins væri þegar fyrir höndum.
3 Látið engan villa yður á nokkurn hátt. Því að ekki kemur dagurinn nema fráhvarfið komi fyrst og maður syndarinnar birtist. Hann er sonur glötunarinnar,
4 sem setur sig á móti Guði og rís gegn öllu því, sem kallast Guð eða helgur dómur. Hann sest í musteri Guðs og gjörir sjálfan sig að Guði.
5 Minnist þér ekki þess, að ég sagði yður þetta, meðan ég enn þá var hjá yður?
6 Og þér vitið, hvað aftrar honum nú, til þess að hann opinberist á sínum tíma.
7 Því að lögleysið er þegar farið að starfa í leyndum og stendur ekki á öðru en að þeim verði burt rýmt, sem nú heldur aftur af.
8 Þá mun lögleysinginn opinberast, _ og honum mun Drottinn Jesús tortíma með anda munns síns og að engu gjöra þegar hann birtist við endurkomu sína.
9 Lögleysinginn kemur fyrir tilverknað Satans með miklum krafti, lygatáknum og undrum
10 og með alls konar ranglætisvélum, sem blekkja þá, sem glatast, af því að þeir veittu ekki viðtöku og elskuðu ekki sannleikann, svo að þeir mættu verða hólpnir.
11 Þess vegna sendir Guð þeim megna villu, til þess að þeir trúi lyginni.
12 Þannig munu allir þeir verða dæmdir, sem hafa ekki trúað sannleikanum, en haft velþóknun á ranglætinu.
13 En alltaf hljótum vér að þakka Guði fyrir yður, bræður, sem Drottinn elskar. Guð hefur frá upphafi útvalið yður til frelsunar í helgun andans og trú á sannleikann.
14 Til þess kallaði hann yður fyrir fagnaðarboðskap vorn, að þér skylduð öðlast dýrð Drottins vors Jesú Krists.
15 Bræður, standið því stöðugir og haldið fast við þær kenningar, er vér höfum flutt yður munnlega eða með bréfi.
16 En sjálfur Drottinn vor Jesús Kristur og Guð, faðir vor, sem elskaði oss og gaf oss í náð eilífa huggun og góða von,
17 huggi hjörtu yðar og styrki í sérhverju góðu verki og orði.
by Icelandic Bible Society