M’Cheyne Bible Reading Plan
11 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði við þá:
2 "Talið til Ísraelsmanna og segið: Þessi eru þau dýr, er þér megið eta af öllum ferfættum dýrum, sem eru á jörðinni:
3 Öll ferfætt dýr, sem hafa klaufir, og þær alklofnar, og jórtra, megið þér eta.
4 Af þeim, sem jórtra og klaufir hafa, megið þér þó ekki þessi eta: Úlfaldann, því að hann jórtrar að sönnu, en er eigi klaufhæfður; hann sé yður óhreinn;
5 stökkhérann, því að hann jórtrar að sönnu, en hefir eigi klaufir; hann sé yður óhreinn;
6 hérann, því að hann jórtrar að sönnu, en hefir eigi klaufir; hann sé yður óhreinn;
7 og svínið, því að það hefir að sönnu klaufir, og þær alklofnar, en jórtrar ekki; það sé yður óhreint.
8 Kjöt þeirra skuluð þér ekki eta, og hræ þeirra skuluð þér ekki snerta. Þau skulu vera yður óhrein.
9 Af lagardýrum megið þér eta þessi: Öll lagardýr, sem hafa sundugga og hreistur, hvort heldur er í sjó eða ám, megið þér eta.
10 En af öllu því, sem kvikt er í vötnunum, og af öllum lifandi skepnum, sem eru í vötnunum, séu öll þau dýr í sjó eða ám, sem eigi hafa sundugga og hreistur, yður viðurstyggð.
11 Viðurstyggð skulu þau vera yður. Ekki skuluð þér eta kjöt þeirra, og við hræjum þeirra skal yður stugga.
12 Öll lagardýr, sem ekki hafa sundugga og hreistur, skulu vera yður viðurstyggð.
13 Af fuglunum skal yður stugga við þessum, _ þér skuluð eigi eta þá, þeir eru viðurstyggð _: örninn, skegg-gammurinn og gammurinn,
14 gleðan og valakynið,
15 allt hrafnakynið,
16 strúturinn, svalan, mávurinn og haukakynið,
17 uglan, súlan og náttuglan,
18 hornuglan, pelíkaninn og hrægammurinn,
19 storkurinn og lóukynið, herfuglinn og leðurblakan.
20 Öll fleyg skriðkvikindi ferfætt séu yður viðurstyggð.
21 Af öllum fleygum skriðkvikindum ferfættum megið þér þau ein eta, er hafa leggi upp af afturfótunum til þess að stökkva með um jörðina.
22 Af þeim megið þér eta þessi: arbe-engisprettur, sólam-engisprettur, hargól-engisprettur og hagab-engisprettur.
23 En öll önnur fleyg skriðkvikindi ferfætt séu yður viðurstyggð.
24 Af þessum dýrum verðið þér óhreinir. Hver sem snertir hræ þeirra, verður óhreinn til kvelds.
25 En hver sá, sem ber hræ þeirra, hann skal þvo klæði sín og er óhreinn til kvelds.
26 Hvert það ferfætt dýr, sem hefir klaufir, þó eigi alklofnar, og eigi jórtrar, sé yður óhreint. Hver sem þau snertir verður óhreinn.
27 Og öll þau, sem ganga á hrömmum sínum, meðal allra dýra ferfættra, séu yður óhrein. Hver sem snertir hræ þeirra, er óhreinn til kvelds.
28 Og sá, sem ber hræ þeirra, skal þvo klæði sín og er óhreinn til kvelds. Þau skulu vera yður óhrein.
29 Þessi skulu vera yður óhrein á meðal skriðkvikindanna, sem skríða á jörðinni: hreysivislan, músin og eðlukynið,
30 skrækeðlan, kóah-eðlan, leta-eðlan, salamandran og kamelljónið.
31 Þessi skulu vera yður óhrein meðal allra skriðkvikindanna. Hver sem snertir þau, þegar þau eru dauð, verður óhreinn til kvelds.
32 Sérhvað það, er eitthvert af þeim fellur ofan á, þegar þau eru dauð, verður óhreint, hvort heldur er tréílát, klæði, skinn eða sekkur; öll þau áhöld, sem til einhvers eru notuð. Skal það í vatn leggja og er óhreint til kvelds, þá er það hreint.
33 Falli eitthvert af þeim ofan í leirker, þá verður allt, sem í því er, óhreint, og kerið skuluð þér brjóta.
34 Allur matur, sem etinn er og vatn er látið í, verður óhreinn, og allur drykkur, sem drukkinn er, verður óhreinn, í hvaða keri sem hann er.
35 Og sérhvað það, sem hræ þeirra fellur á, verður óhreint. Hvort heldur er ofn eða eldstó, skal það rifið niður. Það er óhreint, og óhreint skal það yður vera.
36 Lindir einar og brunnar, það er vatnsstæður, skulu hreinar vera, en sá, sem hræin snertir, verður óhreinn.
37 En þó að eitthvað af hræjunum falli á útsæði, sem á að sá, þá er það hreint.
38 En ef vatn er látið á sæðið og eitthvað af hræjunum fellur ofan í það, þá sé það yður óhreint.
39 Þegar einhver af þeim skepnum deyr, sem yður eru til fæðu, þá skal sá, er snertir dauðan skrokkinn, vera óhreinn til kvelds.
40 Og sá, sem etur af skrokknum, skal þvo klæði sín og er óhreinn til kvelds. Og sá, sem ber skrokkinn, skal þvo klæði sín og er óhreinn til kvelds.
41 Öll skriðkvikindi, sem skríða á jörðinni, skulu vera yður viðurstyggð. Eigi skal þau eta.
42 Öll þau, er skríða á kviðnum, og öll þau, er ganga á fjórum fótum, svo og allar margfætlur meðal allra skriðkvikinda, er skríða á jörðinni, þau skuluð þér eigi eta, því að þau eru viðurstyggð.
43 Látið eigi nokkurt skriðkvikindi gjöra yður sjálfa viðurstyggilega, og saurgið yður ekki á þeim, svo að þér verðið óhreinir af þeim.
44 Því að ég er Drottinn, Guð yðar. Og helgist og verið heilagir, því að ég er heilagur. Og þér skuluð ekki saurga sjálfa yður á nokkru því skriðkvikindi, sem skríður á jörðinni.
45 Því að ég er Drottinn, sem leiddi yður út af Egyptalandi til þess að vera yðar Guð. Þér skuluð vera heilagir, því að ég er heilagur."
46 Þessi eru ákvæðin um ferfættu dýrin, fuglana og allar lifandi skepnur, sem hrærast í vötnunum, og um allar lifandi skepnur, sem jörðin er kvik af,
47 svo að menn viti grein óhreinna og hreinna dýra, svo og ætra dýra og óætra.
12 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 "Tala þú til Ísraelsmanna og seg: Þegar kona verður léttari og elur sveinbarn, þá skal hún vera óhrein sjö daga. Skal hún vera óhrein, eins og þá daga, sem hún er saurug af klæðaföllum.
3 Og á áttunda degi skal umskera hold yfirhúðar hans.
4 En konan skal halda sér heima þrjátíu og þrjá daga, meðan á blóðhreinsuninni stendur. Hún skal ekkert heilagt snerta og eigi inn í helgidóminn koma, uns hreinsunardagar hennar eru úti.
5 En ef hún elur meybarn, þá skal hún vera óhrein hálfan mánuð, sem þá er hún er saurug af klæðaföllum, og hún skal halda sér heima sextíu og sex daga, meðan á blóðhreinsuninni stendur.
6 En þegar hreinsunardagar hennar eru úti, hvort heldur er fyrir son eða dóttur, þá skal hún færa prestinum að dyrum samfundatjaldsins sauðkind veturgamla í brennifórn og unga dúfu eða turtildúfu í syndafórn.
7 Skal hann fram bera það fyrir Drottin og friðþægja fyrir hana, og er hún þá hrein af blóðlátum sínum." Þessi eru ákvæðin um sængurkonuna, hvort heldur barnið er sveinbarn eða meybarn.
8 En ef hún á ekki fyrir sauðkind, þá færi hún tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur, aðra í brennifórn, en hina í syndafórn, og skal presturinn friðþægja fyrir hana, og er hún þá hrein.
13 Til söngstjórans. Davíðssálmur.
2 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að gleyma mér með öllu? Hversu lengi ætlar þú að hylja auglit þitt fyrir mér?
3 Hversu lengi á ég að bera sút í sál, harm í hjarta dag frá degi? Hversu lengi á óvinur minn að hreykja sér upp yfir mig?
4 Lít til, svara mér, Drottinn, Guð minn, hýrga augu mín, að ég sofni ekki svefni dauðans,
5 að óvinur minn geti ekki sagt: "Ég hefi borið af honum!" að fjandmenn mínir geti ekki fagnað yfir því, að mér skriðni fótur.
6 Ég treysti á miskunn þína; hjarta mitt fagnar yfir hjálp þinni. Ég vil syngja fyrir Drottni, því að hann hefir gjört vel til mín.
14 Til söngstjórans. Davíðssálmur. Heimskinginn segir í hjarta sínu: "Guð er ekki til." Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.
2 Drottinn lítur af himni niður á mennina til þess að sjá, hvort nokkur sé hygginn, nokkur sem leiti Guðs.
3 Allir eru viknir af leið, allir spilltir, enginn gjörir það sem gott er _ ekki einn.
4 Skyldu þeir ekki fá að kenna á því, allir illgjörðamennirnir, þeir er eta lýð minn sem brauð væri og ákalla eigi Drottin?
5 Þá skulu þeir verða mjög óttaslegnir, því að Guð er hjá kynslóð réttlátra.
6 Þér megið láta ráð hinna hrjáðu til skammar verða, því að Drottinn er samt athvarf þeirra.
7 Ó að hjálpræði Ísraels komi frá Síon! Þegar Drottinn snýr við hag lýðs síns, skal Jakob fagna og Ísrael gleðjast.
26 Eins og snjór um sumar og eins og regn um uppskeru, eins illa á sæmd við heimskan mann.
2 Eins og spörfugl flögrar, eins og svala flýgur, eins er um óverðskuldaða formæling _ hún verður eigi að áhrínsorðum.
3 Svipan hæfir hestinum og taumurinn asnanum _ en vöndurinn baki heimskingjanna.
4 Svara þú ekki heimskingjanum eftir fíflsku hans, svo að þú verðir ekki honum jafn.
5 Svara þú heimskingjanum eftir fíflsku hans, svo að hann haldi ekki, að hann sé vitur.
6 Sá höggur af sér fæturna og fær að súpa á ranglæti, sem sendir orð með heimskingja.
7 Eins og lærleggir hins lama hanga máttlausir, svo er spakmæli í munni heimskingjanna.
8 Sá sem sýnir heimskum manni sæmd, honum fer eins og þeim, er bindur stein í slöngvu.
9 Eins og þyrnir, sem stingst upp í höndina á drukknum manni, svo er spakmæli í munni heimskingjanna.
10 Eins og skytta, sem hæfir allt, svo er sá sem leigir heimskingja, og sá er leigir vegfarendur.
11 Eins og hundur, sem snýr aftur til spýju sinnar, svo er heimskingi, sem endurtekur fíflsku sína.
12 Sjáir þú mann, sem þykist vitur, þá er meiri von um heimskingja en hann.
13 Letinginn segir: "Óargadýr er á veginum, ljón á götunum."
14 Hurðin snýst á hjörunum og letinginn í hvílu sinni.
15 Latur maður dýfir hendinni ofan í skálina, en honum verður þungt um að bera hana aftur upp að munninum.
16 Latur maður þykist vitrari en sjö, sem svara hyggilega.
17 Sá, sem kemst í æsing út af deilu, sem honum kemur ekki við, hann er eins og sá, sem tekur um eyrun á hundi, er hleypur fram hjá.
18 Eins og óður maður, sem kastar tundurörvum, banvænum skeytum,
19 eins er sá maður, er svikið hefir náunga sinn og segir síðan: "Ég er bara að gjöra að gamni mínu."
20 Þegar eldsneytið þrýtur, slokknar eldurinn, og þegar enginn er rógberinn, stöðvast deilurnar.
21 Eins og kol þarf til glóða og við til elds, svo þarf þrætugjarnan mann til að kveikja deilur.
22 Orð rógberans eru eins og sælgæti, og þau læsa sig inn í innstu fylgsni hjartans.
23 Eldheitir kossar og illt hjarta, það er sem sorasilfur utan af leirbroti.
24 Með vörum sínum gjörir hatursmaðurinn sér upp vinalæti, en í hjarta sínu hyggur hann á svik.
25 Þegar hann mælir fagurt, þá trú þú honum ekki, því að sjö andstyggðir eru í hjarta hans.
26 Þótt hatrið hylji sig hræsni, þá verður þó illska þess opinber á dómþinginu.
27 Sá sem grefur gröf, fellur í hana, og steinninn fellur aftur í fang þeim, er veltir honum.
28 Lygin tunga hatar þá, er hún hefir sundur marið, og smjaðrandi munnur veldur glötun.
5 En um tíma og tíðir hafið þér, bræður, ekki þörf á að yður sé skrifað.
2 Þér vitið það sjálfir gjörla, að dagur Drottins kemur sem þjófur á nóttu.
3 Þegar menn segja: "Friður og engin hætta", þá kemur snögglega tortíming yfir þá, eins og jóðsótt yfir þungaða konu. Og þeir munu alls ekki undan komast.
4 En þér, bræður, eruð ekki í myrkri, svo að dagurinn geti komið yfir yður sem þjófur.
5 Þér eruð allir synir ljóssins og synir dagsins. Vér heyrum ekki nóttunni til né myrkrinu.
6 Vér skulum þess vegna ekki sofa eins og aðrir, heldur vökum og verum algáðir.
7 Þeir, sem sofa, sofa á nóttunni og þeir, sem drekka sig drukkna, drekka á nóttunni.
8 En vér, sem heyrum deginum til, skulum vera algáðir, klæddir brynju trúar og kærleika og von hjálpræðis sem hjálmi.
9 Guð hefur ekki ætlað oss til að verða reiðinni að bráð, heldur til að öðlast sáluhjálp fyrir Drottin vorn Jesú Krist,
10 sem dó fyrir oss, til þess að vér mættum lifa með honum, hvort sem vér vökum eða sofum.
11 Áminnið því hver annan og uppbyggið hver annan, eins og þér og gjörið.
12 Vér biðjum yður, bræður, að sýna þeim viðurkenningu, sem erfiða á meðal yðar og veita yður forstöðu í Drottni og áminna yður.
13 Auðsýnið þeim sérstaka virðingu og kærleika fyrir verk þeirra. Lifið í friði yðar á milli.
14 Vér áminnum yður, bræður: Vandið um við þá, sem óreglusamir eru, hughreystið ístöðulitla, takið að yður þá, sem óstyrkir eru, verið langlyndir við alla.
15 Gætið þess, að enginn gjaldi neinum illt með illu, en keppið ávallt eftir hinu góða, bæði hver við annan og við alla aðra.
16 Verið ætíð glaðir.
17 Biðjið án afláts.
18 Þakkið alla hluti, því að það er vilji Guðs með yður í Kristi Jesú.
19 Slökkvið ekki andann.
20 Fyrirlítið ekki spádómsorð.
21 Prófið allt, haldið því, sem gott er.
22 En forðist allt illt, í hvaða mynd sem er.
23 En sjálfur friðarins Guð helgi yður algjörlega og andi yðar, sál og líkami varðveitist alheil og vammlaus við komu Drottins vors Jesú Krists.
24 Trúr er sá, er yður kallar, hann mun koma þessu til leiðar.
25 Bræður, biðjið fyrir oss!
26 Heilsið öllum bræðrunum með heilögum kossi.
27 Ég bið og brýni yður í Drottins nafni, að þér látið lesa bréf þetta upp fyrir öllum bræðrunum.
by Icelandic Bible Society