M’Cheyne Bible Reading Plan
8 Drottinn talaði við Móse og sagði:
2 "Tak Aron og sonu hans með honum, klæðin og smurningarolíuna, syndafórnaruxann, báða hrútana og körfuna með ósýrðu brauðunum
3 og stefn þú saman öllum söfnuðinum við dyr samfundatjaldsins."
4 Og Móse gjörði eins og Drottinn bauð honum, og söfnuðurinn kom saman við dyr samfundatjaldsins.
5 Móse sagði við söfnuðinn: "Þetta er það sem Drottinn hefir boðið að gjöra."
6 Því næst leiddi Móse fram Aron og sonu hans og þvoði þá í vatni.
7 Og hann lagði yfir hann kyrtilinn, gyrti hann beltinu og færði hann í möttulinn, lagði yfir hann hökulinn og gyrti hann hökullindanum og batt hann þannig að honum.
8 Þá festi hann á hann brjóstskjöldinn og lét úrím og túmmím í brjóstskjöldinn.
9 Og hann setti vefjarhöttinn á höfuð honum, og framan á vefjarhöttinn setti hann gullspöngina, ennishlaðið helga, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
10 Móse tók smurningarolíuna og smurði tjaldbúðina og allt, sem í henni var, og helgaði það.
11 Og hann stökkti henni sjö sinnum á altarið og smurði altarið og öll áhöld þess, svo og kerið og stétt þess, til að helga það.
12 Því næst hellti hann smurningarolíu á höfuð Aroni og smurði hann til þess að helga hann.
13 Síðan leiddi Móse fram sonu Arons, færði þá í kyrtla, gyrti þá belti og batt á þá höfuðdúka, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
14 Þá leiddi hann fram syndafórnaruxann, og Aron og synir hans lögðu hendur sínar á höfuð syndafórnaruxans.
15 En Móse slátraði honum, tók blóðið og reið því með fingri sínum á horn altarisins allt í kring og syndhreinsaði altarið, en því, sem eftir var af blóðinu, hellti hann niður við altarið, og hann helgaði það með því að friðþægja fyrir það.
16 Því næst tók hann allan innýflamörinn, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn, og Móse brenndi það á altarinu.
17 En uxann sjálfan, bæði húðina af honum, kjötið og gorið, brenndi hann í eldi fyrir utan herbúðirnar, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
18 Því næst leiddi hann fram brennifórnarhrútinn, og Aron og synir hans lögðu hendur sínar á höfuð hrútsins.
19 Síðan slátraði Móse honum og stökkti blóðinu allt um kring á altarið.
20 Og hann hlutaði hrútinn sundur, og Móse brenndi höfuðið, stykkin og mörinn.
21 En innýflin og fæturna þvoði hann í vatni. Síðan brenndi Móse allan hrútinn á altarinu. Það var brennifórn þægilegs ilms, það var eldfórn Drottni til handa, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
22 Þessu næst leiddi hann fram hinn hrútinn, vígsluhrútinn, og Aron og synir hans lögðu hendur sínar á höfuð hrútsins.
23 Og Móse slátraði honum og tók nokkuð af blóði hans og reið því á hægri eyrnasnepil Arons, á þumalfingur hægri handar hans og á stórutá hægri fótar hans.
24 Þá leiddi Móse fram sonu Arons og reið nokkru af blóðinu á hægri eyrnasnepil þeirra og á þumalfingur hægri handar þeirra og á stórutá hægri fótar þeirra. Og Móse stökkti blóðinu allt um kring á altarið.
25 Og hann tók mörinn: rófuna, allan innýflamörinn, stærra lifrarblaðið, bæði nýrun og nýrnamörinn og hægra lærið.
26 Sömuleiðis tók hann úr körfunni með ósýrðu brauðunum, sem stóð frammi fyrir Drottni, eina ósýrða köku og eina olíuköku og eitt flatbrauð og lagði það ofan á mörinn og hægra lærið.
27 Og hann lagði það allt í hendur Aroni og í hendur sonum hans og veifaði því til veififórnar frammi fyrir Drottni.
28 Síðan tók Móse það af höndum þeirra og brenndi það á altarinu ofan á brennifórninni. Það var vígslufórn til þægilegs ilms, það var eldfórn Drottni til handa.
29 Því næst tók Móse bringuna og veifaði henni til veififórnar frammi fyrir Drottni. Fékk Móse hana í sinn hluta af vígsluhrútnum, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
30 Og Móse tók nokkuð af smurningarolíunni og nokkuð af blóðinu, sem var á altarinu, og stökkti því á Aron og klæði hans, og á sonu hans og á klæði sona hans ásamt honum. Og hann helgaði Aron og klæði hans, og sonu hans og klæði sona hans ásamt honum.
31 Og Móse sagði við Aron og sonu hans: "Sjóðið kjötið fyrir dyrum samfundatjaldsins og etið það þar ásamt brauðinu, sem er í vígslufórnarkörfunni, svo sem ég bauð, er ég sagði: ,Aron og synir hans skulu eta það.`
32 En leifarnar af kjötinu og brauðinu skuluð þér brenna í eldi.
33 Og sjö daga skuluð þér ekki ganga burt frá dyrum samfundatjaldsins, uns vígsludagar yðar eru á enda, því að sjö daga skal fylla hendur yðar.
34 Svo sem gjört hefir verið í dag hefir Drottinn boðið að gjöra til þess að friðþægja fyrir yður.
35 Og við dyr samfundatjaldsins skuluð þér vera sjö daga, bæði dag og nótt, og varðveita boðorð Drottins, svo að þér deyið ekki, því að svo hefir mér verið boðið."
36 Og Aron og synir hans gjörðu allt það, sem Drottinn hafði boðið og Móse flutt þeim.
9 Til söngstjórans. Almút labben. Davíðssálmur.
2 Ég vil lofa þig, Drottinn, af öllu hjarta, segja frá öllum þínum dásemdarverkum.
3 Ég vil gleðjast og kætast yfir þér, lofsyngja nafni þínu, þú Hinn hæsti.
4 Óvinir mínir hörfuðu undan, hrösuðu og fórust fyrir augliti þínu.
5 Já, þú hefir látið mig ná rétti mínum og flutt mál mitt, setst í hásætið sem réttlátur dómari.
6 Þú hefir hastað á þjóðirnar, tortímt hinum óguðlegu, afmáð nafn þeirra um aldur og ævi.
7 Óvinirnir eru liðnir undir lok _ rústir að eilífu _ og borgirnar hefir þú brotið, minning þeirra er horfin.
8 En Drottinn ríkir að eilífu, hann hefir reist hásæti sitt til dóms.
9 Hann dæmir heiminn með réttvísi, heldur réttlátan dóm yfir þjóðunum.
10 Og Drottinn er vígi orðinn hinum kúguðu, vígi á neyðartímum.
11 Þeir er þekkja nafn þitt, treysta þér, því að þú, Drottinn, yfirgefur eigi þá, er þín leita.
12 Lofsyngið Drottni, þeim er býr á Síon, gjörið stórvirki hans kunn meðal þjóðanna.
13 Því að hann sem blóðs hefnir hefir minnst þeirra, hann hefir eigi gleymt hrópi hinna hrjáðu:
14 "Líkna mér, Drottinn, sjá þú eymd mína, er hatursmenn mínir baka mér, þú sem lyftir mér upp frá hliðum dauðans,
15 að ég megi segja frá öllum lofstír þínum, fagna yfir hjálp þinni í hliðum Síonardóttur."
16 Lýðirnir eru fallnir í gryfju þá, er þeir gjörðu, fætur þeirra festust í neti því, er þeir lögðu leynt.
17 Drottinn er kunnur orðinn: Hann hefir háð dóm, hinn óguðlegi festist í því, er hendur hans höfðu gjört. [Strengjaleikur. Sela]
18 Hinir óguðlegu hrapa til Heljar, allar þjóðir er gleyma Guði.
19 Hinum snauða verður eigi ávallt gleymt, von hinna hrjáðu bregst eigi sífellt.
20 Rís þú upp, Drottinn! Lát eigi dauðlega menn verða yfirsterkari, lát þjóðirnar hljóta dóm fyrir augliti þínu.
21 Skjót lýðunum skelk í bringu, Drottinn! Lát þá komast að raun um, að þeir eru dauðlegir menn. [Sela]
23 Þegar þú situr til borðs með valdsherra, þá gæt þess vel, hvern þú hefir fyrir framan þig,
2 og set þér hníf á barka, ef þú ert matmaður.
3 Lát þig ekki langa í kræsingar hans, því að þær eru svikul fæða.
4 Streist þú ekki við að verða ríkur, hættu að verja viti þínu til þess.
5 Hvort skulu augu þín hvarfla til auðsins, sem er svo stopull? Því að sannlega gjörir hann sér vængi eins og örn, sem flýgur til himins.
6 Et eigi brauð hjá nískum manni og lát þig ekki langa í kræsingar hans,
7 því að hann er eins og maður, sem reiknar með sjálfum sér. "Et og drekk!" segir hann við þig, en hjarta hans er eigi með þér.
8 Bitanum, sem þú hefir etið, verður þú að æla upp aftur, og blíðmælum þínum hefir þú á glæ kastað.
9 Tala þú eigi fyrir eyrum heimskingjans, því að hann fyrirlítur hyggindi ræðu þinnar.
10 Fær þú eigi úr stað landamerki ekkjunnar og gakk þú eigi inn á akra munaðarleysingjanna,
11 því að lausnari þeirra er sterkur _ hann mun flytja mál þeirra gegn þér.
12 Snú þú hjarta þínu að umvöndun og eyrum þínum að vísdómsorðum.
13 Spara eigi aga við sveininn, því ekki deyr hann, þótt þú sláir hann með vendinum.
14 Þú slær hann að sönnu með vendinum, en þú frelsar líf hans frá Helju.
15 Son minn, þegar hjarta þitt verður viturt, þá gleðst ég líka í hjarta mínu,
16 og nýru mín fagna, er varir þínar mæla það sem rétt er.
17 Lát eigi hjarta þitt öfunda syndara, heldur ástunda guðsótta á degi hverjum,
18 því að vissulega er enn framtíð fyrir hendi, og von þín mun eigi að engu verða.
19 Heyr þú, son minn, og ver vitur og stýr hjarta þínu rétta leið.
20 Ver þú ekki með drykkjurútum, með þeim, sem hvoma í sig kjöt,
21 því að drykkjurútar og mathákar verða snauðir, og svefnmók klæðir í tötra.
22 Hlýð þú föður þínum, sem hefir getið þig, og fyrirlít ekki móður þína, þótt hún sé orðin gömul.
23 Kaup þú sannleika, og sel hann ekki, visku, aga og hyggindi.
24 Faðir réttláts manns fagnar, og sá sem gat vitran son, gleðst af honum.
25 Gleðjist faðir þinn og móðir þín og fagni hún, sem fæddi þig.
26 Son minn, gef mér hjarta þitt, og lát vegu mína vera þér geðfellda.
27 Því að skækja er djúp gröf og léttúðardrós þröngur pyttur.
28 Já, hún liggur í leyni eins og ræningi og fjölgar hinum ótrúu meðal mannanna.
29 Hver æjar? hver veinar? hver á í deilum? hver kvartar? hver fær sár að þarflausu? hver rauð augu?
30 Þeir sem sitja við vín fram á nætur, þeir sem koma saman til að bergja á krydduðum drykkjum.
31 Horf þú ekki á vínið, hve rautt það er, hversu það glóir í bikarnum og rennur ljúflega niður.
32 Að síðustu bítur það sem höggormur og spýtir eitri sem naðra.
33 Augu þín munu sjá kynlega hluti, og hjarta þitt mun mæla fláræði.
34 Og þú munt vera eins og sá, sem liggur úti í miðju hafi, já, eins og sá, er liggur efst uppi á siglutré.
35 "Þeir hafa slegið mig, ég kenndi ekkert til, þeir hafa barið mig, ég varð þess ekki var. Hvenær mun ég vakna? Ég vil meira vín!"
2 Sjálfir vitið þér, bræður, að koma vor til yðar varð ekki árangurslaus.
2 Yður er kunnugt, að vér höfðum áður þolað illt og verið misþyrmt í Filippí, en Guð gaf oss djörfung til að tala til yðar fagnaðarerindi Guðs, þótt baráttan væri mikil.
3 Boðun vor er ekki sprottin af villu né af óhreinum hvötum og vér reynum ekki að blekkja neinn.
4 En Guð hefur talið oss maklega þess að trúa oss fyrir fagnaðarerindinu. Því er það, að vér tölum ekki eins og þeir, er þóknast vilja mönnum, heldur Guði, sem rannsakar hjörtu vor.
5 Aldrei höfðum vér nein smjaðuryrði á vörum, það vitið þér. Og ekki bjó þar ásælni að baki, _ Guð er vottur þess.
6 Ekki leituðum vér vegsemdar af mönnum, hvorki yður né öðrum, þótt vér hefðum getað beitt myndugleika sem postular Krists.
7 Nei, vér vorum mildir yðar á meðal, eins og móðir, sem hlúir að börnum sínum.
8 Slíkt kærleiksþel bárum vér til yðar, að vér vildum glaðir gefa yður ekki einungis fagnaðarerindi Guðs, heldur og vort eigið líf því að þér voruð orðnir oss ástfólgnir.
9 Þér munið, bræður, eftir erfiði voru og striti: Vér unnum nótt og dag, til þess að vera ekki neinum yðar til þyngsla, um leið og vér prédikuðum fyrir yður fagnaðarerindi Guðs.
10 Þér og Guð, eruð vottar þess, hversu heilaglega, réttvíslega og óaðfinnanlega vér hegðuðum oss hjá yður, sem trúið.
11 Þér vitið, hvernig vér áminntum og hvöttum og grátbændum hvern og einn yðar, eins og faðir börn sín,
12 til þess að þér skylduð breyta eins og samboðið er Guði, er kallar yður til ríkis síns og dýrðar.
13 Og þess vegna þökkum vér líka Guði án afláts, því að þegar þér veittuð viðtöku því orði Guðs, sem vér boðuðum, þá tókuð þér ekki við því sem manna orði, heldur sem Guðs orði, _ eins og það í sannleika er. Og það sýnir kraft sinn í yður, sem trúið.
14 Þér hafið, bræður, tekið yður til fyrirmyndar söfnuði Guðs í Júdeu, sem eru í Kristi Jesú. Því að þér hafið þolað hið sama af löndum yðar sem þeir urðu að þola af Gyðingum,
15 er bæði líflétu Drottin Jesú og spámennina og hafa ofsótt oss. Þeir eru Guði eigi þóknanlegir og öllum mönnum mótsnúnir.
16 Þeir vilja meina oss að tala til heiðingjanna, til þess að þeir megi verða hólpnir. Þannig fylla þeir stöðugt mæli synda sinna. En reiðin er þá líka yfir þá komin um síðir.
17 En vér, bræður, sem um stundarsakir höfum verið skildir frá yður að líkamanum til en ekki huganum, höfum þráð yður mjög og gjört oss allt far um að fá að sjá yður aftur.
18 Þess vegna ætluðum vér að koma til yðar, ég, Páll, oftar en einu sinni, en Satan hefur hamlað því.
19 Hver er von vor eða gleði vor eða sigursveigurinn, sem vér hrósum oss af? Eruð það ekki einmitt þér, frammi fyrir Drottni vorum Jesú við komu hans?
20 Jú, þér eruð vegsemd vor og gleði.
by Icelandic Bible Society