M’Cheyne Bible Reading Plan
5 Nú syndgar einhver, með því að hann hefir heyrt formælingu og getur vitni borið, hvort sem hann hefir séð það sjálfur eða orðið þess vísari, en segir eigi til, og bakar sér þannig sekt,
2 eða einhver snertir einhvern óhreinan hlut, hvort það er heldur hræ af óhreinu villidýri eða hræ af óhreinum fénaði eða hræ af óhreinu skriðkvikindi og hann veit ekki af því og verður þannig óhreinn og sekur,
3 eða hann snertir mann óhreinan, hverrar tegundar sem óhreinleikinn er, sem hann er óhreinn af, og hann veit eigi af því, en verður þess síðar vís og verður þannig sekur,
4 eða fleipri einhver þeim eiði af munni fram, að hann skuli gjöra eitthvað, illt eða gott, hvað sem það nú kann að vera, sem menn fleipra út úr sér með eiði, og hann veit eigi af því, en verður þess síðar vís og verður sekur fyrir eitthvað af þessu, _
5 verði nokkur sekur fyrir eitthvað af þessu, þá skal hann játa synd sína.
6 Og hann skal til sektarbóta fyrir synd þá, sem hann hefir drýgt, færa Drottni ásauð úr hjörðinni, ásauð eða geit, í syndafórn. Og presturinn skal friðþægja fyrir hann vegna syndar hans.
7 En ef hann á ekki fyrir kind, þá skal hann í sektarbætur fyrir misgjörð sína færa Drottni tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur, aðra í syndafórn, en hina í brennifórn.
8 Hann skal færa þær prestinum, og hann skal fram bera þá fyrr, er til syndafórnar er ætluð. Skal hann klípa höfuðið af hálsinum, en slíta þó eigi frá,
9 stökkva nokkru af blóði syndafórnarinnar á hlið altarisins, en það, sem eftir er af blóðinu, skal kreist úr og látið drjúpa niður við altarið. Það er syndafórn.
10 En hina skal hann tilreiða í brennifórn að réttum sið. Og presturinn skal friðþægja fyrir hann vegna syndar þeirrar, sem hann hefir drýgt, og mun honum fyrirgefið verða.
11 En ef hann á ekki fyrir tveimur turtildúfum eða tveimur ungum dúfum, þá skal hann fram bera að fórnargjöf fyrir misgjörð sína tíunda part úr efu af fínu mjöli í syndafórn. Skal hann eigi hella olíu á það né heldur láta á það reykelsiskvoðu, því að það er syndafórn.
12 Hann skal færa það prestinum, og presturinn skal taka af því hnefafylli sína sem ilmhluta fórnarinnar og brenna á altarinu ofan á eldfórnum Drottins. Það er syndafórn.
13 Og presturinn skal friðþægja fyrir hann fyrir synd þá, er hann hefir drýgt með einhverju þessu, og honum mun fyrirgefið verða. En hitt fái presturinn, eins og matfórnina."
14 Drottinn talaði við Móse og sagði:
15 "Nú sýnir einhver þá sviksemi, að draga undan eitthvað af því, sem Drottni er helgað, þá skal hann í sektarbætur færa Drottni hrút gallalausan úr hjörðinni, sem að þínu mati sé eigi minna en tveggja sikla virði, eftir helgidóms sikli, til sektarfórnar.
16 Og það, sem hann hefir dregið undan af helgum hlutum, skal hann að fullu bæta og gjalda fimmtungi meira. Skal hann færa það prestinum, og presturinn skal friðþægja fyrir hann með sektarfórnarhrútnum, og mun honum fyrirgefið verða.
17 Nú syndgar einhver og gjörir eitthvað, sem Drottinn hefir bannað, og veit eigi af því og verður þannig sekur og misgjörð hvílir á honum,
18 þá skal hann færa prestinum hrút gallalausan úr hjörðinni, eftir mati þínu, til sektarfórnar. Og presturinn skal friðþægja fyrir hann fyrir vangæslusynd þá, er hann hefir óafvitandi drýgt, og mun honum fyrirgefið verða.
19 Það er sektarfórn. Hann er sannlega sekur orðinn við Drottin."
3 Sálmur Davíðs, þá er hann flýði fyrir Absalon syni sínum.
2 Drottinn, hversu margir eru mótstöðumenn mínir, margir eru þeir er rísa upp í móti mér.
3 Margir segja um mig: "Hann fær enga hjálp hjá Guði!" [Sela]
4 En þú, Drottinn, ert hlífiskjöldur minn, þú ert sæmd mín og lætur mig bera höfuð mitt hátt.
5 Þá er ég hrópa til Drottins, svarar hann mér frá fjallinu sínu helga. [Sela]
6 Ég leggst til hvíldar og sofna, ég vakna aftur, því að Drottinn hjálpar mér.
7 Ég óttast eigi hinn óteljandi manngrúa, er fylkir sér gegn mér á allar hliðar.
8 Rís þú upp, Drottinn, hjálpa mér, Guð minn, því að þú hefir lostið fjandmenn mína kinnhest, brotið tennur illvirkjanna.
9 Hjá Drottni er hjálpin, blessun þín komi yfir lýð þinn! [Sela]
4 Til söngstjórans. Með strengjaleik. Davíðssálmur.
2 Svara mér, er ég hrópa, þú Guð réttlætis míns! Þá er að mér kreppti, rýmkaðir þú um mig, ver mér náðugur og heyr bæn mína.
3 Þér menn! Hversu lengi á sæmd mín að sæta smán? Hversu lengi ætlið þér að elska hégómann og leita til lyginnar? [Sela]
4 Þér skuluð samt komast að raun um, að Drottinn sýnir mér dásamlega náð, að Drottinn heyrir, er ég hrópa til hans.
5 Skelfist og syndgið ekki. Hugsið yður um í hvílum yðar og verið hljóðir. [Sela]
6 Færið réttar fórnir og treystið Drottni.
7 Margir segja: "Hver lætur oss hamingju líta?" Lyft yfir oss ljósi auglitis þíns, Drottinn.
8 Þú hefir veitt hjarta mínu meiri gleði en menn hafa af gnægð korns og vínlagar.
9 Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum.
20 Vínið er spottari, sterkur drykkur glaumsamur, og hver sá, er drukkinn reikar, er óvitur.
2 Konungsreiði er eins og ljónsöskur, sá sem egnir hann á móti sér, fyrirgjörir lífi sínu.
3 Það er manni sómi að halda sér frá þrætu, en hver afglapinn ygglir sig.
4 Letinginn plægir ekki á haustin, fyrir því leitar hann um uppskerutímann og grípur í tómt.
5 Ráðin í hjarta mannsins eru sem djúp vötn, og hygginn maður eys þar af.
6 Margir menn eru kallaðir kærleiksríkir, en tryggan vin, hver finnur hann?
7 Réttlátur maður gengur fram í ráðvendni sinni, sæl eru því börn hans eftir hann.
8 Þegar konungur situr á dómstóli, þá skilur hann allt illt úr með augnaráði sínu.
9 Hver getur sagt: "Ég hefi haldið hjarta mínu hreinu, ég er hreinn af synd?"
10 Tvenns konar vog og tvenns konar mál, það er hvort tveggja Drottni andstyggð.
11 Sveinninn þekkist þegar á verkum sínum, hvort athafnir hans eru hreinar og einlægar.
12 Eyrað sem heyrir, og augað sem sér, hvort tveggja hefir Drottinn skapað.
13 Elskaðu ekki svefninn, svo að þú verðir ekki fátækur, opnaðu augun, þá muntu mettast af brauði.
14 "Slæmt! Slæmt!" segir kaupandinn, en þegar hann gengur burt, hælist hann um.
15 Til er gull og gnægð af perlum, en hið dýrmætasta þing eru vitrar varir.
16 Tak þú skikkjuna af þeim manni, sem hefir gengið í ábyrgð fyrir ókunnugan, tak veð af þeim manni, sem hefir gengið í ábyrgð fyrir útlendinga.
17 Sætt er svikabrauðið, en eftir á fyllist munnurinn möl.
18 Vel ráðin áform fá framgang, haf því holl ráð, er þú heyr stríð.
19 Sá sem ljóstar upp leyndarmálum, gengur um sem rógberi, haf því engin mök við málugan mann.
20 Sá sem formælir föður og móður, á hans lampa slokknar í niðamyrkri.
21 Arfur, sem í upphafi var skjótfenginn, blessast eigi að lokum.
22 Seg þú ekki: "Ég vil endurgjalda illt!" Bíð þú Drottins, og hann mun hjálpa þér.
23 Tvenns konar vog er Drottni andstyggð, og svikavog er ekki góð.
24 Spor mannsins eru ákveðin af Drottni, en maðurinn _ hvernig fær hann skynjað veg sinn?
25 Það er manninum snara að hrópa í fljótfærni: "Helgað!" og hyggja fyrst að, þegar heitin eru gjörð.
26 Vitur konungur skilur úr hina óguðlegu og lætur síðan hjólið yfir þá ganga.
27 Andi mannsins er lampi frá Drottni, sem rannsakar hvern afkima hjartans.
28 Kærleiki og trúfesti varðveita konunginn, og hann styður hásæti sitt með kærleika.
29 Krafturinn er ágæti ungra manna, en hærurnar prýði öldunganna.
30 Blóðugar skrámur hreinsa illmennið og högg, sem duglega svíða.
3 Fyrst þér því eruð uppvaktir með Kristi, þá keppist eftir því, sem er hið efra, þar sem Kristur situr við hægri hönd Guðs.
2 Hugsið um það, sem er hið efra, en ekki um það, sem á jörðinni er.
3 Því að þér eruð dánir og líf yðar er fólgið með Kristi í Guði.
4 Þegar Kristur, sem er líf yðar, opinberast, þá munuð þér og ásamt honum opinberast í dýrð.
5 Deyðið því hið jarðneska í fari yðar: Hórdóm, saurlifnað, losta, vonda fýsn og ágirnd, sem ekki er annað en skurðgoðadýrkun.
6 Af þessu kemur reiði Guðs [yfir þá, sem hlýða honum ekki].
7 Meðal þeirra voruð og þér áður, þegar þér lifðuð í þessum syndum.
8 En nú skuluð þér segja skilið við allt þetta: Reiði, bræði, vonsku, lastmæli, svívirðilegt orðbragð.
9 Ljúgið ekki hver að öðrum, því þér hafið afklæðst hinum gamla manni með gjörðum hans
10 og íklæðst hinum nýja, sem endurnýjast til fullkominnar þekkingar og verður þannig mynd skapara síns.
11 Þar er ekki grískur maður eða Gyðingur, umskorinn eða óumskorinn, útlendingur, Skýti, þræll eða frjáls maður, þar er Kristur allt og í öllum.
12 Íklæðist því eins og Guðs útvaldir, heilagir og elskaðir, hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð og langlyndi.
13 Umberið hver annan og fyrirgefið hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið yður, svo skuluð þér og gjöra.
14 En íklæðist yfir allt þetta elskunni, sem er band algjörleikans.
15 Látið frið Krists ríkja í hjörtum yðar, því að til friðar voruð þér kallaðir sem limir í einum líkama. Verðið þakklátir.
16 Látið orð Krists búa ríkulega hjá yður með allri speki. Fræðið og áminnið hver annan með sálmum, lofsöngum og andlegum ljóðum og syngið Guði sætlega lof í hjörtum yðar.
17 Hvað sem þér gjörið í orði eða verki, gjörið það allt í nafni Drottins Jesú og þakkið Guði föður fyrir hann.
18 Þér konur, verið undirgefnar mönnum yðar, eins og sómir þeim, er Drottni heyra til.
19 Þér menn, elskið eiginkonur yðar og verið ekki beiskir við þær.
20 Þér börn, verið hlýðin foreldrum yðar í öllu, því að það fer þeim vel, sem Drottni heyra til.
21 Þér feður, verið ekki vondir við börn yðar, svo að þau verði ekki ístöðulaus.
22 Þér þrælar, verið hlýðnir í öllu jarðneskum drottnum yðar, ekki með augnaþjónustu, eins og þeir er mönnum vilja þóknast, heldur í einlægni hjartans og í ótta Drottins.
23 Hvað sem þér gjörið, þá vinnið af heilum huga, eins og Drottinn ætti í hlut, en ekki menn.
24 Þér vitið og sjálfir, að Drottinn mun veita yður arfleifðina að launum. Þér þjónið Drottni Kristi.
25 Sá, sem rangt gjörir, skal fá það endurgoldið, sem hann gjörði rangt, og þar er ekki manngreinarálit.
by Icelandic Bible Society