Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Önnur bók Móse 40

40 Drottinn talaði við Móse og sagði:

"Á fyrsta degi hins fyrsta mánaðar skalt þú reisa búð samfundatjaldsins.

Þar skalt þú setja sáttmálsörkina og byrgja fyrir örkina með fortjaldinu.

Og þú skalt bera borðið þangað og raða því, sem á því skal vera. Síðan skalt þú bera þangað ljósastikuna og setja upp lampa hennar.

Og þú skalt setja hið gullna reykelsisaltari fyrir framan sáttmálsörkina og hengja dúkbreiðuna fyrir búðardyrnar.

Og þú skalt setja brennifórnaraltarið fyrir framan dyr samfundatjalds-búðarinnar.

Og kerið skalt þú setja milli samfundatjaldsins og altarisins og láta vatn í það.

Síðan skalt þú reisa forgarðinn umhverfis og hengja dúkbreiðu fyrir forgarðshliðið.

Þá skalt þú taka smurningarolíuna og smyrja búðina og allt, sem í henni er, og vígja hana með öllum áhöldum hennar, svo að hún sé heilög.

10 Og þú skalt smyrja brennifórnaraltarið og öll áhöld þess, og þú skalt vígja altarið, og skal altarið þá vera háheilagt.

11 Og þú skalt smyrja kerið og stétt þess og vígja það.

12 Þá skalt þú leiða Aron og sonu hans að dyrum samfundatjaldsins og þvo þá úr vatni.

13 Og þú skalt færa Aron í hin helgu klæði, smyrja hann og vígja, að hann þjóni mér í prestsembætti.

14 Þú skalt og leiða fram sonu hans og færa þá í kyrtlana,

15 og þú skalt smyrja þá, eins og þú smurðir föður þeirra, að þeir þjóni mér í prestsembætti, og skal smurning þeirra veita þeim ævinlegan prestdóm frá kyni til kyns."

16 Og Móse gjörði svo. Eins og Drottinn hafði boðið honum, svo gjörði hann í alla staði.

17 Búðin var reist í fyrsta mánuði hins annars árs, fyrsta dag mánaðarins.

18 Reisti Móse búðina, lagði undirstöðurnar, sló upp þiljunum, setti í slárnar og reisti upp stólpana.

19 Og hann þandi tjaldvoðina yfir búðina og lagði tjaldþökin þar yfir, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

20 Hann tók sáttmálið og lagði það í örkina, setti stengurnar í örkina og lét arkarlokið yfir örkina.

21 Og hann flutti örkina inn í búðina, setti upp fortjaldsdúkbreiðuna og byrgði fyrir sáttmálsörkina, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

22 Hann setti borðið inn í samfundatjaldið, við norðurhlið búðarinnar, fyrir utan fortjaldið,

23 og hann raðaði á það brauðunum frammi fyrir Drottni, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

24 Hann setti upp ljósastikuna í samfundatjaldinu gegnt borðinu við suðurhlið búðarinnar.

25 Og hann setti upp lampana frammi fyrir Drottni, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

26 Hann setti upp gullaltarið inni í samfundatjaldinu fyrir framan fortjaldið,

27 og brenndi á því ilmreykelsi, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

28 Síðan hengdi hann dúkbreiðuna fyrir dyr búðarinnar,

29 setti brennifórnaraltarið við dyr samfundatjalds-búðarinnar og fórnaði á því brennifórn og matfórn, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

30 Hann setti kerið milli samfundatjaldsins og altarisins og lét vatn í það til þvottar,

31 og þvoðu þeir Móse, Aron og synir hans hendur sínar og fætur úr því.

32 Hvert sinn er þeir gengu inn í samfundatjaldið og nálguðust altarið, þvoðu þeir sér, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.

33 Síðan reisti hann forgarðinn umhverfis búðina og altarið og hengdi dúkbreiðuna fyrir forgarðshliðið, og hafði Móse þá aflokið verkinu.

34 Þá huldi skýið samfundatjaldið, og dýrð Drottins fyllti búðina,

35 og mátti Móse ekki inn ganga í samfundatjaldið, því að skýið lá yfir því og dýrð Drottins fyllti búðina.

36 Hvert sinn er skýið hófst upp frá búðinni, lögðu Ísraelsmenn upp, alla þá stund er þeir voru á ferðinni.

37 En er skýið hófst ekki upp, lögðu Ísraelsmenn ekki af stað fyrr en þann dag er skýið hófst upp.

Jóhannesarguðspjall 19

19 Þegar Jesús hafði þetta mælt, fór hann út með lærisveinum sínum og yfir um lækinn Kedron. Þar var grasgarður, sem Jesús gekk inn í og lærisveinar hans.

Júdas, sem sveik hann, þekkti líka þennan stað, því Jesús og lærisveinar hans höfðu oft komið þar saman.

Júdas tók með sér flokk hermanna og verði frá æðstu prestum og faríseum. Þeir koma þar með blysum, lömpum og vopnum.

Jesús vissi allt, sem yfir hann mundi koma, gekk fram og sagði við þá: "Að hverjum leitið þér?"

Þeir svöruðu honum: "Að Jesú frá Nasaret." Hann segir við þá: "Ég er hann." En Júdas, sem sveik hann, stóð líka hjá þeim.

Þegar Jesús sagði við þá: "Ég er hann," hopuðu þeir á hæl og féllu til jarðar.

Þá spurði hann þá aftur: "Að hverjum leitið þér?" Þeir svöruðu: "Að Jesú frá Nasaret."

Jesús mælti: "Ég sagði yður, að ég væri hann. Ef þér leitið mín, þá lofið þessum að fara."

Þannig rættist orð hans, er hann hafði mælt: "Engum glataði ég af þeim, sem þú gafst mér."

10 Símon Pétur hafði sverð, brá því og hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum hægra eyrað. Þjónninn hét Malkus.

11 Þá sagði Jesús við Pétur: "Sting sverðinu í slíðrin. Á ég ekki að drekka kaleikinn, sem faðirinn hefur fengið mér?"

12 Hermennirnir, foringinn og varðmenn Gyðinga tóku nú Jesú höndum og bundu hann

13 og færðu hann fyrst til Annasar. Hann var tengdafaðir Kaífasar, sem var æðsti prestur það ár.

14 En Kaífas var sá sem gefið hafði Gyðingum það ráð, að betra væri, að einn maður dæi fyrir lýðinn.

15 Símon Pétur fylgdi Jesú og annar lærisveinn. Sá lærisveinn var kunnugur æðsta prestinum og fór með Jesú inn í hallargarð æðsta prestsins.

16 En Pétur stóð utan dyra. Hinn lærisveinninn, sem var kunnugur æðsta prestinum, kom út aftur, talaði við þernuna, sem dyra gætti, og fór inn með Pétur.

17 Þernan við dyrnar sagði þá við Pétur: "Ert þú ekki líka einn af lærisveinum þessa manns?" Hann sagði: "Ekki er ég það."

18 Þjónarnir og varðmennirnir höfðu kveikt kolaeld, því kalt var, og stóðu við hann og vermdu sig. Pétur stóð hjá þeim og ornaði sér.

19 Nú spurði æðsti presturinn Jesú um lærisveina hans og kenningu hans.

20 Jesús svaraði honum: "Ég hef talað opinskátt í áheyrn heimsins. Ég hef ætíð kennt í samkundunni og í helgidóminum, þar sem allir Gyðingar safnast saman, en í leynum hef ég ekkert talað.

21 Hví spyr þú mig? Spyrðu þá, sem heyrt hafa, hvað ég hef við þá talað. Þeir vita hvað ég hef sagt."

22 Þegar Jesús sagði þetta, rak einn varðmaður, sem þar stóð, honum löðrung og sagði: "Svarar þú æðsta prestinum svona?"

23 Jesús svaraði honum: "Hafi ég illa mælt, þá sanna þú, að svo hafi verið, en hafi ég rétt að mæla, hví slær þú mig?"

24 Þá sendi Annas hann bundinn til Kaífasar æðsta prests.

25 En Símon Pétur stóð og vermdi sig. Hann var þá spurður: "Ert þú ekki líka einn af lærisveinum hans?" Hann neitaði því og sagði: "Ekki er ég það."

26 Þá sagði einn af þjónum æðsta prestsins, frændi þess, sem Pétur sneið af eyrað: "Sá ég þig ekki í grasgarðinum með honum?"

27 Aftur neitaði Pétur, og um leið gól hani.

28 Nú var Jesús fluttur frá Kaífasi til hallar landshöfðingjans. Það var snemma morguns. Gyðingar fóru ekki sjálfir inn í höllina, svo að þeir saurguðust ekki, heldur mættu neyta páskamáltíðar.

29 Pílatus kom út til þeirra og sagði: "Hvaða ákæru berið þér fram gegn þessum manni?"

30 Þeir svöruðu: "Ef þetta væri ekki illvirki, hefðum vér ekki selt hann þér í hendur."

31 Pílatus segir við þá: "Takið þér hann, og dæmið hann eftir yðar lögum." Gyðingar svöruðu: "Oss leyfist ekki að taka neinn af lífi."

32 Þannig rættist orð Jesú, þegar hann gaf til kynna, með hvaða hætti hann átti að deyja.

33 Pílatus gekk þá aftur inn í höllina, kallaði Jesú fyrir sig og sagði við hann: "Ert þú konungur Gyðinga?"

34 Jesús svaraði: "Mælir þú þetta af sjálfum þér, eða hafa aðrir sagt þér frá mér?"

35 Pílatus svaraði: "Er ég þá Gyðingur? Þjóð þín og æðstu prestarnir hafa selt þig mér í hendur. Hvað hefur þú gjört?"

36 Jesús svaraði: "Mitt ríki er ekki af þessum heimi. Væri mitt ríki af þessum heimi, hefðu þjónar mínir barist, svo ég yrði ekki framseldur Gyðingum. En nú er ríki mitt ekki þaðan."

37 Þá segir Pílatus við hann: "Þú ert þá konungur?" Jesús svaraði: "Rétt segir þú. Ég er konungur. Til þess er ég fæddur og til þess er ég kominn í heiminn, að ég beri sannleikanum vitni. Hver sem er af sannleikanum, heyrir mína rödd."

38 Pílatus segir við hann: "Hvað er sannleikur?" Að svo mæltu gekk hann aftur út til Gyðinga og sagði við þá: "Ég finn enga sök hjá honum.

39 Þér eruð vanir því, að ég gefi yður einn mann lausan á páskunum. Viljið þér nú, að ég gefi yður lausan konung Gyðinga?"

40 Þeir hrópuðu á móti: "Ekki hann, heldur Barabbas." En Barabbas var ræningi.

Orðskviðirnir 16

16 Fyrirætlanir hjartans eru á mannsins valdi, en svar tungunnar kemur frá Drottni.

Manninum þykja allir sínir vegir hreinir, en Drottinn prófar hugarþelið.

Fel þú Drottni verk þín, þá mun áformum þínum framgengt verða.

Allt hefir Drottinn skapað til síns ákveðna marks, svo og guðleysingjann til óheilladagsins.

Sérhver hrokafullur maður er Drottni andstyggð, hér er höndin upp á það: hann sleppur ekki óhegndur!

Með elsku og trúfesti er friðþægt fyrir misgjörð, og fyrir ótta Drottins forðast menn hið illa.

Þegar Drottinn hefir þóknun á breytni einhvers manns, þá sættir hann og óvini hans við hann.

Betra er lítið með réttu en miklar tekjur með röngu.

Hjarta mannsins upphugsar veg hans, en Drottinn stýrir gangi hans.

10 Goðsvar er á vörum konungsins, í dómi mun munni hans ekki skeika.

11 Rétt vog og reisla koma frá Drottni, lóðin á vogarskálunum eru hans verk.

12 Að fremja ranglæti er konungum andstyggð, því að hásætið staðfestist fyrir réttlæti.

13 Réttlátar varir eru yndi konunga, og þeir elska þann, er talar hreinskilni.

14 Konungsreiði er sem sendiboði dauðans, en vitur maður sefar hana.

15 Í mildilegu augnaráði konungs er líf, og hylli hans er sem vorregns-ský.

16 Hversu miklu betra er að afla sér visku en gulls og ákjósanlegra að afla sér hygginda en silfurs.

17 Braut hreinskilinna er að forðast illt, að varðveita sálu sína er að gæta breytni sinnar.

18 Drambsemi er undanfari tortímingar, og oflæti veit á fall.

19 Betra er að vera lítillátur með auðmjúkum en að skipta herfangi með dramblátum.

20 Sá sem gefur gætur að orðinu, hreppir hamingju, og sæll er sá, sem treystir Drottni.

21 Sá sem er vitur í hjarta, verður hygginn kallaður, og sætleiki varanna eykur fræðslu.

22 Lífslind er hyggnin þeim, sem hana á, en ögun afglapanna er þeirra eigin flónska.

23 Hjarta spekingsins gjörir munn hans hygginn og eykur fræðsluna á vörum hans.

24 Vingjarnleg orð eru hunangsseimur, sæt fyrir sálina, lækning fyrir beinin.

25 Margur vegurinn virðist greiðfær, en endar þó á helslóðum.

26 Hungur erfiðismannsins erfiðar með honum, því að munnur hans rekur á eftir honum.

27 Varmennið grefur óheillagröf, og á vörum hans er sem brennandi eldur.

28 Vélráður maður kveikir illdeilur, og rógberinn veldur vinaskilnaði.

29 Ofbeldismaðurinn ginnir náunga sinn og leiðir hann á vondan veg.

30 Sá sem lokar augunum, upphugsar vélræði, sá sem kreistir saman varirnar, er albúinn til ills.

31 Gráar hærur eru heiðurskóróna, á vegi réttlætis öðlast menn hana.

32 Sá sem seinn er til reiði, er betri en kappi, og sá sem stjórnar geði sínu, er meiri en sá sem vinnur borgir.

33 Í skikkjufellingum eru teningarnir hristir, en Drottinn ræður, hvað upp kemur.

Bréf Páls til Filippímann 3

Að endingu, bræður mínir, verið glaðir í Drottni. Ég tel ekki eftir mér að endurtaka það, sem ég hef skrifað, en yður er það til öryggis.

Gefið gætur að hundunum, gefið gætur að hinum vondu verkamönnum, gefið gætur að hinum sundurskornu.

Vér erum hinir umskornu, vér sem dýrkum Guð í anda hans og miklumst af Kristi Jesú og treystum ekki ytri yfirburðum,

jafnvel þótt ég hafi einnig þá ytri yfirburði, sem ég gæti treyst. Ef einhver annar þykist geta treyst ytri yfirburðum, þá get ég það fremur.

Ég var umskorinn á áttunda degi, af kyni Ísraels, ættkvísl Benjamíns, Hebrei af Hebreum, farísei í afstöðunni til lögmálsins,

svo ákafur, að ég ofsótti kirkjuna. Ef litið er á réttlætið, sem fæst með lögmálinu, var ég vammlaus.

En það, sem var mér ávinningur, met ég nú vera tjón sakir Krists.

Já, meira að segja met ég allt vera tjón hjá þeim yfirburðum að þekkja Krist Jesú, Drottin minn. Sakir hans hef ég misst allt og met það sem sorp, til þess að ég geti áunnið Krist

og reynst vera í honum. Nú á ég ekki eigið réttlæti, það er fæst af lögmáli, heldur það er fæst fyrir trú á Krist, réttlætið frá Guði með trúnni. _

10 Ég vil þekkja Krist og kraft upprisu hans og samfélag písla hans með því að mótast eftir honum í dauða hans.

11 Mætti mér auðnast að ná til upprisunnar frá dauðum.

12 Ekki er svo, að ég hafi þegar náð því eða sé þegar fullkominn. En ég keppi eftir því, ef ég skyldi geta höndlað það, með því að ég er höndlaður af Kristi Jesú.

13 Bræður, ekki tel ég sjálfan mig enn hafa höndlað það.

14 En eitt gjöri ég. Ég gleymi því, sem að baki er, en seilist eftir því, sem framundan er, og keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur kallað oss til fyrir Krist Jesú.

15 Þetta hugarfar skulum vér því allir hafa, sem fullkomnir erum. Og ef þér hugsið í nokkru öðruvísi, þá mun Guð einnig opinbera yður þetta.

16 Fyrir alla muni skulum vér ganga þá götu, sem vér höfum komist á.

17 Bræður, breytið allir eftir mér og festið sjónir yðar á þeim, sem breyta eftir þeirri fyrirmynd, er vér höfum yður gefið.

18 Margir breyta, _ ég hef oft sagt yður það og nú segi ég það jafnvel grátandi _, eins og óvinir kross Krists.

19 Afdrif þeirra eru glötun. Guð þeirra er maginn, þeim þykir sómi að skömminni og þeir hafa hugann á jarðneskum munum.

20 En föðurland vort er á himni og frá himni væntum vér frelsarans, Drottins Jesú Krists.

21 Hann mun breyta veikum og forgengilegum líkama vorum og gjöra hann líkan dýrðarlíkama sínum. Því hann hefur kraftinn til að leggja allt undir sig.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society