M’Cheyne Bible Reading Plan
39 Af bláa purpuranum, rauða purpuranum og skarlatinu gjörðu þeir glitklæði til embættisgjörðar í helgidóminum, og þeir gjörðu hin helgu klæði Arons, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
2 Hann bjó til hökulinn af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull.
3 Þeir beittu út gullið í þynnur, en hann skar þynnurnar í þræði til að vefa þá inn í bláa purpurann, rauða purpurann, skarlatið og baðmullina með forkunnarlegu hagvirki.
4 Þeir gjörðu axlarhlýra á hökulinn, og voru þeir festir við hann. Á báðum endum var hann festur við þá.
5 Og hökullindinn, sem á honum var til að gyrða hann að sér, var áfastur honum og með sömu gerð: af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
6 Og þeir greyptu sjóamsteina inn í umgjarðir af gulli og grófu á þá nöfn Ísraels sona með innsiglisgrefti.
7 Festi hann þá á axlarhlýra hökulsins, svo að þeir væru minnissteinar fyrir Ísraelsmenn, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
8 Þá bjó hann til brjóstskjöldinn, gjörðan með listasmíði og með sömu gerð og hökullinn, af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull.
9 Var hann ferhyrndur. Gjörðu þeir brjóstskjöldinn tvöfaldan. Var hann spannarlangur og spannarbreiður og tvöfaldur.
10 Og þeir settu hann fjórum steinaröðum: Eina röð af karneól, tópas og smaragði, var það fyrsta röðin;
11 önnur röðin: karbunkull, safír og jaspis;
12 þriðja röðin: hýasint, agat og ametýst;
13 og fjórða röðin: krýsólít, sjóam og onýx. Voru þeir greyptir í gullumgjarðir, hver á sínum stað.
14 Og steinarnir voru tólf, eftir nöfnum Ísraels sona, og með nöfnum þeirra. Voru þeir grafnir með innsiglisgrefti, og var sitt nafn á hverjum þeirra, eftir þeim tólf kynkvíslum.
15 Og þeir gjörðu festar til brjóstskjaldarins, snúnar eins og fléttur, af skíru gulli.
16 Þeir gjörðu og tvær umgjarðir af gulli og tvo gullhringa, og þessa tvo hringa festu þeir á tvö horn brjóstskjaldarins;
17 festu síðan báðar gullflétturnar í þessa tvo hringa á hornum brjóstskjaldarins.
18 En tvo enda beggja snúnu festanna festu þeir við umgjarðirnar tvær og festu þær við axlarhlýra hökulsins, á hann framanverðan.
19 Þá gjörðu þeir enn tvo hringa af gulli og festu þá í tvö horn brjóstskjaldarins, innanvert í þá brúnina, sem að höklinum vissi.
20 Og enn gjörðu þeir tvo hringa af gulli og festu þá á báða axlarhlýra hökulsins, neðan til á hann framanverðan, þar sem hann var tengdur saman, fyrir ofan hökullindann.
21 Og knýttu þeir brjóstskjöldinn með hringum hans við hökulhringana með snúru af bláum purpura, svo að hann lægi fyrir ofan hökullindann og brjóstskjöldurinn losnaði ekki við hökulinn, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
22 Síðan gjörði hann hökulmöttulinn. Var hann ofinn og allur af bláum purpura,
23 og var hálsmál möttulsins á honum miðjum, eins og á brynju, og hálsmálið faldað með borða, svo að ekki skyldi rifna út úr.
24 Á möttulfaldinum gjörðu þeir granatepli af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull.
25 Þeir gjörðu og bjöllur af skíru gulli og festu bjöllurnar millum granateplanna á möttulfaldinum allt í kring, á millum granateplanna,
26 svo að fyrst kom bjalla og granatepli, og þá aftur bjalla og granatepli, allt í kring á möttulfaldinum, til þjónustugjörðar, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
27 Þá gjörðu þeir kyrtlana handa Aroni og sonum hans af baðmull, og voru þeir ofnir.
28 Sömuleiðis vefjarhöttinn af baðmull og höfuðdúkana prýðilegu af baðmull og línbrækurnar af tvinnaðri baðmull,
29 og beltið af tvinnaðri baðmull, bláum purpura, rauðum purpura og skarlati, glitofið, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
30 Síðan gjörðu þeir spöngina, hið helga ennishlað, af skíru gulli og letruðu á hana með innsiglisgrefti: "Helgaður Drottni."
31 Og þeir festu við hana snúru af bláum purpura til að festa hana á vefjarhöttinn ofanverðan, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
32 Þannig var nú lokið öllu verki við búð samfundatjaldsins, og gjörðu Ísraelsmenn allt, sem Drottinn hafði boðið Móse.
33 Síðan fluttu þeir búðina til Móse: tjaldið með öllum áhöldum þess, krókana, þiljuborðin, slárnar, stólpana og undirstöðurnar,
34 þakið úr rauðlituðu hrútskinnunum, þakið úr höfrungaskinnunum og fortjaldsdúkbreiðuna,
35 sáttmálsörkina, stengurnar og arkarlokið,
36 borðið með öllum þess áhöldum og skoðunarbrauðin,
37 gullljósastikuna með lömpum, lömpunum, er raða skyldi, öll áhöld hennar og olíu ljósastikunnar,
38 gullaltarið, smurningarolíuna, ilmreykelsið og dúkbreiðuna fyrir tjalddyrnar,
39 eiraltarið ásamt eirgrindinni, stengur þess og öll áhöld, kerið og stétt þess,
40 forgarðstjöldin, stólpa hans og undirstöður, dúkbreiðuna fyrir hlið forgarðsins, stög þau og hæla, sem þar til heyra, og öll þau áhöld, sem heyra til þjónustugjörð í búðinni, í samfundatjaldinu,
41 glitklæðin til embættisgjörðar í helgidóminum, hin helgu klæði Arons prests og prestsþjónustuklæði sona hans.
42 Unnu Ísraelsmenn allt verkið, í alla staði svo sem Drottinn hafði boðið Móse.
43 Og Móse leit yfir allt verkið og sjá, þeir höfðu unnið það, svo sem Drottinn hafði fyrir lagt, svo höfðu þeir gjört það. Og Móse blessaði þá.
18 Þetta talaði Jesús, hóf augu sín til himins og sagði: "Faðir, stundin er komin. Gjör son þinn dýrlegan, til þess að sonurinn gjöri þig dýrlegan.
2 Þú gafst honum vald yfir öllum mönnum, að hann gefi eilíft líf öllum þeim, sem þú hefur gefið honum.
3 En það er hið eilífa líf að þekkja þig, hinn eina sanna Guð, og þann sem þú sendir, Jesú Krist.
4 Ég hef gjört þig dýrlegan á jörðu með því að fullkomna það verk, sem þú fékkst mér að vinna.
5 Faðir, gjör mig nú dýrlegan hjá þér með þeirri dýrð, sem ég hafði hjá þér, áður en heimur var til.
6 Ég hef opinberað nafn þitt þeim mönnum, sem þú gafst mér úr heiminum. Þeir voru þínir, og þú gafst mér þá, og þeir hafa varðveitt þitt orð.
7 Þeir vita nú, að allt, sem þú hefur gefið mér, er frá þér,
8 því ég hef flutt þeim þau orð, sem þú gafst mér. Þeir tóku við þeim og vita með sanni, að ég er frá þér út genginn, og trúa því, að þú hafir sent mig.
9 Ég bið fyrir þeim. Ég bið ekki fyrir heiminum, heldur fyrir þeim sem þú hefur gefið mér, því að þeir eru þínir,
10 og allt mitt er þitt og þitt er mitt. Í þeim er ég dýrlegur orðinn.
11 Ég er ekki lengur í heiminum. Þeir eru í heiminum, en ég kem til þín. Heilagi faðir, varðveit þá í þínu nafni, því nafni, sem þú hefur gefið mér, svo að þeir verði eitt eins og við.
12 Meðan ég var hjá þeim, varðveitti ég þá í nafni þínu, sem þú hefur gefið mér, og gætti þeirra, og enginn þeirra glataðist nema sonur glötunarinnar, svo að ritningin rættist.
13 Nú kem ég til þín. Þetta tala ég í heiminum, til þess að þeir eigi í sjálfum sér fögnuð minn fullkominn.
14 Ég hef gefið þeim orð þitt, og heimurinn hataði þá, af því að þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.
15 Ég bið ekki, að þú takir þá úr heiminum, heldur að þú varðveitir þá frá hinu illa.
16 Þeir eru ekki af heiminum, eins og ég er ekki af heiminum.
17 Helga þá í sannleikanum. Þitt orð er sannleikur.
18 Ég hef sent þá í heiminn, eins og þú sendir mig í heiminn.
19 Ég helga mig fyrir þá, svo að þeir séu einnig helgaðir í sannleika.
20 Ég bið ekki einungis fyrir þessum, heldur og fyrir þeim, sem á mig trúa fyrir orð þeirra,
21 að allir séu þeir eitt, eins og þú, faðir, ert í mér og ég í þér, svo séu þeir einnig í okkur, til þess að heimurinn trúi, að þú hefur sent mig.
22 Og ég hef gefið þeim þá dýrð, sem þú gafst mér, svo að þeir séu eitt, eins og við erum eitt,
23 ég í þeim og þú í mér, svo að þeir verði fullkomlega eitt, til þess að heimurinn viti, að þú hefur sent mig og að þú hefur elskað þá, eins og þú hefur elskað mig.
24 Faðir, ég vil að þeir, sem þú gafst mér, séu hjá mér, þar sem ég er, svo að þeir sjái dýrð mína, sem þú hefur gefið mér, af því að þú elskaðir mig fyrir grundvöllun heims.
25 Réttláti faðir, heimurinn þekkir þig ekki, en ég þekki þig, og þessir vita, að þú sendir mig.
26 Ég hef kunngjört þeim nafn þitt og mun kunngjöra, svo að kærleikur þinn, sem þú hefur auðsýnt mér, sé í þeim og ég sé í þeim."
15 Mjúklegt andsvar stöðvar bræði, en meiðandi orð vekur reiði.
2 Af tungu hinna vitru drýpur þekking, en munnur heimskingjanna eys úr sér vitleysu.
3 Augu Drottins eru alls staðar, vakandi yfir vondum og góðum.
4 Hógværð tungunnar er lífstré, en fals hennar veldur hugarkvöl.
5 Afglapinn smáir aga föður síns, en sá sem tekur umvöndun, verður hygginn.
6 Í húsi hins réttláta er mikill auður, en glundroði er í gróðafé hins óguðlega.
7 Varir hinna vitru dreifa út þekkingu, en hjarta heimskingjanna er rangsnúið.
8 Fórn óguðlegra er Drottni andstyggð, en bæn hreinskilinna er honum þóknanleg.
9 Vegur hins óguðlega er Drottni andstyggilegur, en þann sem stundar réttlæti, elskar hann.
10 Slæm hirting bíður þess, sem yfirgefur rétta leið, sá sem hatar umvöndun, hlýtur að deyja.
11 Dánarheimur og undirdjúpin eru opin fyrir Drottni, hversu miklu fremur hjörtu mannanna barna!
12 Spottaranum er ekki vel við, að vandað sé um við hann, til viturra manna fer hann ekki.
13 Glatt hjarta gjörir andlitið hýrlegt, en sé hryggð í hjarta, er hugurinn dapur.
14 Hjarta hins vitra leitar að þekking, en munnur heimskingjanna gæðir sér á fíflsku.
15 Hinn volaði sér aldrei glaðan dag, en sá sem vel liggur á, er sífellt í veislu.
16 Betra er lítið í ótta Drottins en mikill fjársjóður með áhyggjum.
17 Betri er einn skammtur kálmetis með kærleika en alinn uxi með hatri.
18 Bráðlyndur maður vekur deilur, en sá sem seinn er til reiði, stillir þrætu.
19 Vegur letingjans er eins og þyrnigerði, en gata hreinskilinna er brautarvegur.
20 Vitur sonur gleður föður sinn, en heimskur maður fyrirlítur móður sína.
21 Óvitrum manni er fíflskan gleði, en skynsamur maður gengur beint áfram.
22 Áformin verða að engu, þar sem engin er ráðagerðin, en ef margir leggja á ráðin, fá þau framgang.
23 Gleði hlýtur maðurinn af svari munns síns, og hversu fagurt er orð í tíma talað!
24 Lífsins vegur liggur upp á við fyrir hinn hyggna, til þess að hann lendi ekki niður í Helju.
25 Drottinn rífur niður hús dramblátra, en setur föst landamerki ekkjunnar.
26 Ill áform eru Drottni andstyggð, en hrein eru vingjarnleg orð.
27 Sá kemur ólagi á heimilishag sinn, sem fíkinn er í rangfenginn gróða, en sá sem hatar mútugjafir, mun lifa.
28 Hjarta hins réttláta íhugar, hverju svara skuli, en munnur óguðlegra eys úr sér illsku.
29 Drottinn er fjarlægur óguðlegum, en bæn réttlátra heyrir hann.
30 Vingjarnlegt augnaráð gleður hjartað, góðar fréttir feita beinin.
31 Eyra sem hlýðir á holla umvöndun, mun búa meðal hinna vitru.
32 Sá sem aga hafnar, fyrirlítur sjálfan sig, en sá sem hlýðir á umvöndun, aflar sér hygginda.
33 Ótti Drottins er ögun til visku, og auðmýkt er undanfari virðingar.
2 Ef nokkurs má sín upphvatning í nafni Krists, ef kærleiksávarp, ef samfélag andans, ef ástúð og meðaumkun má sín nokkurs,
2 þá gjörið gleði mína fullkomna með því að vera samhuga, hafa sama kærleika, einn hug og eina sál.
3 Gjörið ekkert af eigingirni eða hégómagirnd. Verið lítillátir og metið aðra meira en sjálfa yður.
4 Lítið ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig annarra.
5 Verið með sama hugarfari sem Jesús Kristur var.
6 Hann var í Guðs mynd. En hann fór ekki með það sem feng sinn að vera Guði líkur.
7 Hann svipti sig öllu, tók á sig þjóns mynd og varð mönnum líkur.
8 Hann kom fram sem maður, lægði sjálfan sig og varð hlýðinn allt til dauða, já, dauðans á krossi.
9 Fyrir því hefur og Guð hátt upp hafið hann og gefið honum nafnið, sem hverju nafni er æðra,
10 til þess að fyrir nafni Jesú skuli hvert kné beygja sig á himni, jörðu og undir jörðu
11 og sérhver tunga játa Guði föður til dýrðar: Jesús Kristur er Drottinn.
12 Þess vegna, mínir elskuðu, þér sem ætíð hafið verið hlýðnir, vinnið nú að sáluhjálp yðar með ugg og ótta eins og þegar ég var hjá yður, því fremur nú, þegar ég er fjarri.
13 Því að það er Guð, sem verkar í yður bæði að vilja og framkvæma sér til velþóknunar.
14 Gjörið allt án þess að mögla og hika,
15 til þess að þér verðið óaðfinnanlegir og hreinir, flekklaus Guðs börn meðal rangsnúinnar og gjörspilltrar kynslóðar. Þér skínið hjá þeim eins og ljós í heiminum.
16 Haldið fast við orð lífsins, mér til hróss á degi Krists. Þá hef ég ekki hlaupið til einskis né erfiðað til ónýtis.
17 Og enda þótt blóði mínu verði úthellt við fórnarþjónustu mína, þegar ég ber trú yðar fram fyrir Guð, þá gleðst ég og samgleðst yður öllum.
18 Af hinu sama skuluð þér einnig gleðjast og samgleðjast mér.
19 En ég hef þá von til Drottins Jesú, að ég muni bráðum geta sent Tímóteus til yðar, til þess að mér verði einnig hughægra, þá er ég fæ að vita um hagi yðar.
20 Ég hef engan honum líkan, sem lætur sér eins einlæglega annt um hagi yðar. _
21 Allir leita þess, sem sjálfra þeirra er, en ekki þess, sem Krists Jesú er. _
22 En þér vitið, hvernig hann hefur reynst, að hann hefur þjónað að boðun fagnaðarerindisins með mér eins og barn með föður sínum.
23 Hann vona ég þá að geta sent, jafnskjótt og ég sé, hvað um mig verður.
24 En ég ber það traust til Drottins, að ég muni og bráðum koma sjálfur.
25 Ég taldi það og nauðsynlegt að senda til yðar Epafrodítus, bróður minn, samverkamann og samherja, en sendimann yðar og erindreka í því að bæta úr þörf minni.
26 Hann hefur þráð yður alla og liðið illa út af því, að þér höfðuð heyrt, að hann hefði orðið sjúkur.
27 Því sjúkur varð hann, að dauða kominn, en Guð miskunnaði honum og ekki einungis honum, heldur og mér, til þess að ég skyldi eigi hafa hryggð á hryggð ofan.
28 Fyrir því læt ég mér enn annara um að senda hann heim, til þess að þér verðið aftur glaðir, er þér sjáið hann, og mér verði hughægra.
29 Takið því á móti honum í nafni Drottins með öllum fögnuði, og hafið slíka menn í heiðri.
30 Hann var að vinna fyrir Krist. Þess vegna var hann að dauða kominn. Hann lagði líf sitt í hættu til þess að bæta upp það, sem brast á hjálp yðar mér til handa.
by Icelandic Bible Society