Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Önnur bók Móse 38

38 Þá gjörði hann brennifórnaraltarið af akasíuviði. Það var fimm álna langt og fimm álna breitt, ferhyrnt og þriggja álna hátt.

Og hann gjörði hornin á því upp af fjórum hyrningum þess, _ þau horn voru áföst við það _, og hann eirlagði það.

Og hann gjörði öll áhöld, sem altarinu skyldu fylgja: kerin, eldspaðana, fórnarskálirnar, soðkrókana og eldpönnurnar. Öll áhöld þess gjörði hann af eiri.

Enn fremur gjörði hann um altarið eirgrind, eins og riðið net, fyrir neðan umgjörð þess undir niðri allt upp að miðju þess.

Og hann steypti fjóra hringa í fjögur horn eirgrindarinnar til að smeygja í stöngunum.

En stengurnar gjörði hann af akasíuviði og eirlagði þær.

Og hann smeygði stöngunum í hringana á hliðum altarisins til að bera það á. Hann gjörði það af borðum, holt að innan.

Því næst gjörði hann eirkerið með eirstétt úr speglum kvenna þeirra, er gegndu þjónustu við dyr samfundatjaldsins.

Hann gjörði forgarðinn þannig: Á suðurhliðinni voru tjöld fyrir forgarðinum úr tvinnaðri baðmull, hundrað álna löng,

10 með tuttugu stólpum og tuttugu undirstöðum af eiri, en naglar í stólpunum og hringrandir á þeim voru af silfri.

11 Á norðurhliðinni voru og hundrað álna tjöld með tuttugu stólpum og tuttugu undirstöðum af eiri, en naglarnir í stólpunum og hringrandirnar á þeim voru af silfri.

12 Að vestanverðu voru fimmtíu álna löng tjöld með tíu stólpum og tíu undirstöðum, en naglarnir í stólpunum og hringrandirnar á þeim voru af silfri.

13 Og að austanverðu, mót uppkomu sólar, voru fimmtíu álna tjöld.

14 Voru fimmtán álna tjöld annars vegar með þremur stólpum og þremur undirstöðum,

15 og hins vegar, báðumegin við forgarðshliðið, sömuleiðis fimmtán álna tjöld með þremur stólpum og þremur undirstöðum.

16 Öll tjöld umhverfis forgarðinn voru úr tvinnaðri baðmull,

17 undirstöðurnar undir stólpunum af eiri, naglarnir í stólpunum og hringrandirnar á þeim af silfri og stólpahöfuðin silfurlögð, en á öllum stólpum forgarðsins voru hringrandir af silfri.

18 Dúkbreiðan fyrir hliði forgarðsins var glitofin af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, tuttugu álna löng og fimm álna há eftir dúkbreiddinni, eins og tjöld forgarðsins voru.

19 Og þar til heyrðu fjórir stólpar og fjórar undirstöður af eiri, en naglarnir í þeim voru af silfri, stólpahöfuðin silfurlögð og hringrandirnar á þeim af silfri.

20 Og allir hælarnir til tjaldbúðarinnar og forgarðsins hringinn í kring voru af eiri.

21 Þetta er kostnaðarreikningur tjaldbúðarinnar, sáttmálsbúðarinnar, sem gjörður var að boði Móse með aðstoð levítanna af Ítamar, syni Arons prests.

22 En Besalel Úríson, Húrssonar, af Júda ættkvísl gjörði allt það, sem Drottinn hafði boðið Móse,

23 og með honum var Oholíab Akísamaksson af Dans ættkvísl; hann var hagur á steingröft, listvefnað og glitvefnað af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og baðmull.

24 Allt það gull, sem haft var til smíðisins við alla helgidómsgjörðina og fært var að fórnargjöf, var tuttugu og níu talentur og sjö hundruð og þrjátíu siklar eftir helgidóms siklum.

25 Silfrið, sem þeir af söfnuðinum, er í manntali voru, lögðu til, var hundrað talentur og seytján hundruð sjötíu og fimm siklar eftir helgidóms siklum,

26 hálfsikill á mann, það er hálfur sikill eftir helgidóms sikli, á hvern þann, er talinn var í liðskönnun, tvítugur og þaðan af eldri, og voru það sex hundruð og þrjú þúsund, fimm hundruð og fimmtíu manns.

27 Hundrað talenturnar af silfri voru hafðar til að steypa úr undirstöður til helgidómsins og undirstöður til fortjaldsins, hundrað undirstöður úr hundrað talentum, ein talenta í hverja undirstöðu.

28 Af seytján hundruð sjötíu og fimm siklunum gjörði hann naglana í stólpana, silfurlagði stólpahöfuðin og bjó til hringrandir á þá.

29 Fórnargjafa-eirinn var sjötíu talentur og tvö þúsund og fjögur hundruð siklar.

30 Af honum gjörði hann undirstöðurnar til samfundatjalds-dyranna, eiraltarið, eirgrindina, sem því fylgdi, og öll áhöld altarisins,

31 undirstöðurnar til forgarðsins allt í kring, undirstöðurnar til forgarðshliðsins, alla hæla til tjaldbúðarinnar og alla hæla til forgarðsins allt í kring.

Jóhannesarguðspjall 17

17 Þetta hef ég talað til yðar, svo að þér fallið ekki frá.

Þeir munu gjöra yður samkunduræka. Já, sú stund kemur, að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu.

Þetta munu þeir gjöra, af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig.

Þetta hef ég talað til yðar, til þess að þér minnist þess, að ég sagði yður það, þegar stund þeirra kemur. Ég hef ekki sagt yður þetta frá öndverðu, af því ég var með yður.

En nú fer ég til hans, sem sendi mig, og enginn yðar spyr mig: ,Hvert fer þú?`

En hryggð hefur fyllt hjarta yðar, af því að ég sagði yður þetta.

En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs, að ég fari burt, því ef ég fer ekki, kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer, sendi ég hann til yðar.

Þegar hann kemur, mun hann sanna heiminum, hvað er synd og réttlæti og dómur, _

syndin er, að þeir trúðu ekki á mig,

10 réttlætið, að ég fer til föðurins, og þér sjáið mig ekki lengur,

11 og dómurinn, að höfðingi þessa heims er dæmdur.

12 Enn hef ég margt að segja yður, en þér getið ekki borið það nú.

13 En þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann. Hann mun ekki mæla af sjálfum sér, heldur mun hann tala það, sem hann heyrir, og kunngjöra yður það, sem koma á.

14 Hann mun gjöra mig dýrlegan, því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður.

15 Allt sem faðirinn á, er mitt. Því sagði ég, að hann tæki af mínu og kunngjörði yður.

16 Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig."

17 Þá sögðu nokkrir lærisveina hans sín á milli: "Hvað er hann að segja við oss: ,Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig,` og: ,Ég fer til föðurins`?"

18 Þeir spurðu: "Hvað merkir þetta: ,Innan skamms`? Vér vitum ekki, hvað hann er að fara."

19 Jesús vissi, að þeir vildu spyrja hann, og sagði við þá: "Eruð þér að spyrjast á um það, að ég sagði: ,Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig`?

20 Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð gráta og kveina, en heimurinn mun fagna. Þér munuð verða hryggir, en hryggð yðar mun snúast í fögnuð.

21 Þegar konan fæðir, er hún í nauð, því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið, minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því, að maður er í heiminn borinn.

22 Eins eruð þér nú hryggir, en ég mun sjá yður aftur, og hjarta yðar mun fagna, og enginn tekur fögnuð yðar frá yður.

23 Á þeim degi munuð þér ekki spyrja mig neins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður.

24 Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið, og þér munuð öðlast, svo að fögnuður yðar verði fullkominn.

25 Þetta hef ég sagt yður í líkingum. Sú stund kemur, að ég tala ekki framar við yður í líkingum, heldur mun ég berum orðum segja yður frá föðurnum.

26 Á þeim degi munuð þér biðja í mínu nafni. Ég segi yður ekki, að ég muni biðja föðurinn fyrir yður,

27 því sjálfur elskar faðirinn yður, þar eð þér hafið elskað mig og trúað, að ég sé frá Guði út genginn.

28 Ég er út genginn frá föðurnum og kominn í heiminn. Ég yfirgef heiminn aftur og fer til föðurins."

29 Lærisveinar hans sögðu: "Nú talar þú berum orðum og mælir enga líking.

30 Nú vitum vér, að þú veist allt og þarft eigi, að nokkur spyrji þig. Þess vegna trúum vér, að þú sért út genginn frá Guði."

31 Jesús svaraði þeim: "Trúið þér nú?

32 Sjá, sú stund kemur og er komin, að þér tvístrist hver til sín og skiljið mig einan eftir. Þó er ég ekki einn, því faðirinn er með mér.

33 Þetta hef ég talað við yður, svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn."

Orðskviðirnir 14

14 Viska kvennanna reisir húsið, en fíflskan rífur það niður með höndum sínum.

Sá sem framgengur í hreinskilni sinni, óttast Drottin, en sá sem fer krókaleiðir, fyrirlítur hann.

Í munni afglapans er vöndur á hroka hans, en varir hinna vitru varðveita þá.

Þar sem engin naut eru, þar er jatan tóm, en fyrir kraft uxans fæst mikill ágóði.

Sannorður vottur lýgur ekki, en falsvottur fer með lygar.

Spottarinn leitar visku, en finnur ekki, en hyggnum manni er þekkingin auðfengin.

Gakk þú burt frá heimskum manni, og þú hefir ekki kynnst þekkingar-vörum.

Viska hins kæna er í því fólgin, að hann skilur veg sinn, en fíflska heimskingjanna er svik.

Afglaparnir gjöra gys að sektarfórnum, en meðal hreinskilinna er velþóknun.

10 Hjartað eitt þekkir kvöl sína, og jafnvel í gleði þess getur enginn annar blandað sér.

11 Hús óguðlegra mun eyðileggjast, en tjald hreinskilinna mun blómgast.

12 Margur vegurinn virðist greiðfær, en endar þó á helslóðum.

13 Jafnvel þótt hlegið sé, kennir hjartað til, og endir gleðinnar er tregi.

14 Rangsnúið hjarta mettast af vegum sínum svo og góður maður af verkum sínum.

15 Einfaldur maður trúir öllu, en kænn maður athugar fótmál sín.

16 Vitur maður óttast hið illa og forðast það, en heimskinginn er framhleypinn og ugglaus.

17 Uppstökkur maður fremur fíflsku, en hrekkvís maður verður hataður.

18 Einfeldningarnir erfa fíflsku, en vitrir menn krýnast þekkingu.

19 Hinir vondu verða að lúta hinum góðu, og hinir óguðlegu að standa við dyr réttlátra.

20 Fátæklingurinn verður hvimleiður jafnvel vini sínum, en ríkismanninn elska margir.

21 Sá sem fyrirlítur vin sinn, drýgir synd, en sæll er sá, sem miskunnar sig yfir hina voluðu.

22 Vissulega villast þeir, er ástunda illt, en ást og trúfesti ávinna þeir sér, er gott stunda.

23 Af öllu striti fæst ágóði, en munnfleiprið eitt leiðir aðeins til skorts.

24 Vitrum mönnum er auður þeirra kóróna, en fíflska heimskingjanna er og verður fíflska.

25 Sannorður vottur frelsar líf, en sá sem fer með lygar, er svikari.

26 Í ótta Drottins er öruggt traust, og synir slíks manns munu athvarf eiga.

27 Ótti Drottins er lífslind til þess að forðast snörur dauðans.

28 Fólksmergðin er prýði konungsins, en mannaskorturinn steypir höfðingjanum.

29 Sá sem er seinn til reiði, er ríkur að skynsemd, en hinn bráðlyndi sýnir mikla fíflsku.

30 Rósamt hjarta er líf líkamans, en ástríða er eitur í beinum.

31 Sá sem kúgar snauðan mann, óvirðir þann er skóp hann, en sá heiðrar hann, er miskunnar sig yfir fátækan.

32 Hinn óguðlegi fellur á illsku sinni, en hinum réttláta er ráðvendnin athvarf.

33 Í hjarta hyggins manns heldur viskan kyrru fyrir, en á meðal heimskingja gerir hún vart við sig.

34 Réttlætið hefur upp lýðinn, en syndin er þjóðanna skömm.

35 Vitur þjónn hlýtur hylli konungsins, en sá hefir reiði hans, sem skammarlega breytir.

Bréf Páls til Filippímann 1

Páll og Tímóteus, þjónar Krists Jesú, heilsa öllum heilögum í Filippí, sem eru í Kristi Jesú, ásamt biskupum þeirra og djáknum.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Ég þakka Guði mínum í hvert skipti, sem ég hugsa til yðar,

og gjöri ávallt í öllum bænum mínum með gleði bæn fyrir yður öllum,

vegna samfélags yðar um fagnaðarerindið frá hinum fyrsta degi til þessa.

Og ég fulltreysti einmitt því, að hann, sem byrjaði í yður góða verkið, muni fullkomna það allt til dags Jesú Krists.

Víst er það rétt fyrir mig að bera þennan hug til yðar allra. Ég hef yður í hjarta mínu, og þér eigið allir hlutdeild með mér í náðinni, bæði í fjötrum mínum og þegar ég er að verja fagnaðarerindið og staðfesta það.

Guð er mér þess vitni, hvernig ég þrái yður alla með ástúð Krists Jesú.

Og þetta bið ég um, að elska yðar aukist enn þá meir og meir að þekkingu og allri dómgreind,

10 svo að þér getið metið þá hluti rétt, sem máli skipta, og séuð hreinir og ámælislausir til dags Krists,

11 auðugir að réttlætis ávexti þeim, er fæst fyrir Jesú Krist til dýrðar og lofs Guði.

12 En ég vil, bræður, að þér vitið, að það, sem fram við mig hefur komið, hefur í raun orðið fagnaðarerindinu til eflingar.

13 Því að það er augljóst orðið í allri lífvarðarhöllinni og fyrir öllum öðrum, að ég er í fjötrum vegna Krists,

14 og flestir af bræðrunum hafa öðlast meira traust á Drottni við fjötra mína og fengið meiri djörfung til að tala orð Guðs óttalaust.

15 Sumir prédika að sönnu Krist af öfund og þrætugirni, en sumir gjöra það líka af góðum hug.

16 Þeir gjöra það af kærleika, vegna þess að þeir vita, að ég er settur fagnaðarerindinu til varnar.

17 Hinir prédika Krist af eigingirni og ekki af hreinum hug, heldur í þeim tilgangi að bæta þrengingu ofan á fjötra mína.

18 En hvað um það! Kristur er allt að einu boðaður, hvort sem það heldur er af uppgerð eða heilum hug. Og þetta gleður mig. Já, það mun áfram gleðja mig.

19 Því að ég veit, að þetta verður mér til frelsunar fyrir bænir yðar og hjálpina, sem andi Jesú Krists veitir mér.

20 Og það er einlæg löngun mín og von, að ég í engu megi til skammar verða, heldur að Kristur megi í allra augum, nú eins og ávallt, vegsamlegur verða í mér, hvort sem það verður með lífi mínu eða dauða.

21 Því að lífið er mér Kristur og dauðinn ávinningur.

22 En eigi ég áfram að lifa á jörðinni, þá verður meiri árangur af starfi mínu. Veit ég eigi hvort ég á heldur að kjósa.

23 Ég á úr tvennu vöndu að ráða: Mig langar til að fara héðan og vera með Kristi, því að það væri miklu betra.

24 En yðar vegna er það nauðsynlegra, að ég haldi áfram að lifa hér á jörðu.

25 Og í trausti þess veit ég, að ég mun lifa og halda áfram að vera hjá yður öllum, yður til framfara og gleði í trúnni.

26 Þegar ég kem aftur til yðar, getið þér vegna mín enn framar hrósað yður í Kristi Jesú.

27 En hvað sem öðru líður, þá hegðið yður eins og samboðið er fagnaðarerindinu um Krist. Hvort sem ég kem og heimsæki yður eða ég er fjarverandi, skal ég fá að heyra um yður, að þér standið stöðugir í einum anda og berjist saman með einni sál fyrir trúnni á fagnaðarerindið

28 og látið í engu skelfast af mótstöðumönnunum. Fyrir þá er það merki frá Guði um glötun þeirra, en um hjálpræði yðar.

29 Því að yður er veitt sú náð fyrir Krists sakir, ekki einungis að trúa á hann, heldur og að þola þjáningar hans vegna.

30 Nú eigið þér í sömu baráttu sem þér sáuð mig heyja og heyrið enn um mig.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society