M’Cheyne Bible Reading Plan
37 Besalel gjörði örkina af akasíuviði. Var hún hálf þriðja alin á lengd, hálf önnur alin á breidd og hálf önnur alin á hæð.
2 Og hann lagði hana skíru gulli innan og utan og gjörði umhverfis á henni brún af gulli.
3 Og hann steypti til arkarinnar fjóra hringa af gulli til að festa þá við fjóra fætur hennar, sína tvo hringana hvorumegin.
4 Þá gjörði hann stengur af akasíuviði og gulllagði þær,
5 smeygði síðan stöngunum í hringana á hliðum arkarinnar, svo að bera mátti örkina.
6 Þá gjörði hann lok af skíru gulli. Var það hálf þriðja alin á lengd og hálf önnur alin á breidd.
7 Og hann gjörði tvo kerúba af gulli, af drifnu smíði gjörði hann þá á hvorum tveggja loksendanum.
8 Var annar kerúbinn á öðrum endanum, en hinn á hinum endanum. Gjörði hann kerúbana áfasta við lokið á báðum endum þess.
9 En kerúbarnir breiddu út vængina uppi yfir, svo að þeir huldu lokið með vængjum sínum, og andlit þeirra sneru hvort í móti öðru; að lokinu sneru andlit kerúbanna.
10 Þá gjörði hann borðið af akasíuviði, tvær álnir á lengd, alin á breidd og hálfa aðra alin á hæð.
11 Lagði hann það skíru gulli og gjörði umhverfis á því brún af gulli.
12 Umhverfis það gjörði hann lista þverhandar breiðan og bjó til brún af gulli umhverfis á listanum.
13 Og hann steypti til borðsins fjóra hringa af gulli og setti hringana í fjögur hornin, sem voru á fjórum fótum borðsins.
14 Voru hringarnir fast uppi við listann, svo að í þá yrði smeygt stöngunum til þess að bera borðið.
15 Og hann gjörði stengurnar af akasíuviði og gulllagði þær, svo að bera mátti borðið.
16 Þá bjó hann til ílátin, er á borðinu skyldu standa, föt þau, er því tilheyrðu, skálar og ker, og bolla þá, er til dreypifórnar eru hafðir, _ af skíru gulli.
17 Hann gjörði ljósastikuna af skíru gulli. Með drifnu smíði gjörði hann ljósastikuna, stétt hennar og legg. Blómbikarar hennar, knappar hennar og blóm, voru samfastir henni.
18 Og sex álmur lágu út frá hliðum hennar, þrjár álmur ljósastikunnar út frá annarri hlið hennar og þrjár álmur ljósastikunnar út frá hinni hlið hennar.
19 Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, voru á fyrstu álmunni, knappur og blóm. Þrír bikarar, í lögun sem möndlublóm, voru á næstu álmunni, knappur og blóm. Svo var á öllum sex álmunum, sem út gengu frá ljósastikunni.
20 Og á sjálfri ljósastikunni voru fjórir bikarar í lögun sem möndlublóm, knappar hennar og blóm:
21 einn knappur undir tveim neðstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og annar knappur undir tveim næstu álmunum, samfastur ljósastikunni, og enn knappur undir tveim efstu álmunum, samfastur ljósastikunni, svo var undir sex álmunum, er út gengu frá ljósastikunni.
22 Knapparnir og álmurnar voru samfastar henni. Allt var það gjört með drifnu smíði af skíru gulli.
23 Og hann gjörði lampa hennar sjö og ljósasöx þau og skarpönnur, er henni fylgdu af skíru gulli.
24 Af einni talentu skíragulls gjörði hann hana með öllum áhöldum hennar.
25 Þá gjörði hann reykelsisaltarið af akasíuviði. Það var álnarlangt og álnarbreitt, ferhyrnt, tveggja álna hátt og horn þess áföst við það.
26 Og hann lagði það skíru gulli, bæði að ofan og á hliðunum allt í kring, svo og horn þess, og hann gjörði brún af gulli á því allt í kring.
27 Og hann gjörði á því tvo hringa af gulli fyrir neðan brúnina báðumegin, á báðum hliðum þess, til að smeygja í stöngum til að bera það á.
28 Og stengurnar gjörði hann af akasíuviði og gulllagði þær.
29 Hann bjó og til hina helgu smurningarolíu og hreina ilmreykelsið á smyrslarahátt.
16 Þetta hef ég talað til yðar, svo að þér fallið ekki frá.
2 Þeir munu gjöra yður samkunduræka. Já, sú stund kemur, að hver sem líflætur yður þykist veita Guði þjónustu.
3 Þetta munu þeir gjöra, af því þeir þekkja hvorki föðurinn né mig.
4 Þetta hef ég talað til yðar, til þess að þér minnist þess, að ég sagði yður það, þegar stund þeirra kemur. Ég hef ekki sagt yður þetta frá öndverðu, af því ég var með yður.
5 En nú fer ég til hans, sem sendi mig, og enginn yðar spyr mig: ,Hvert fer þú?`
6 En hryggð hefur fyllt hjarta yðar, af því að ég sagði yður þetta.
7 En ég segi yður sannleikann: Það er yður til góðs, að ég fari burt, því ef ég fer ekki, kemur hjálparinn ekki til yðar. En ef ég fer, sendi ég hann til yðar.
8 Þegar hann kemur, mun hann sanna heiminum, hvað er synd og réttlæti og dómur, _
9 syndin er, að þeir trúðu ekki á mig,
10 réttlætið, að ég fer til föðurins, og þér sjáið mig ekki lengur,
11 og dómurinn, að höfðingi þessa heims er dæmdur.
12 Enn hef ég margt að segja yður, en þér getið ekki borið það nú.
13 En þegar hann kemur, andi sannleikans, mun hann leiða yður í allan sannleikann. Hann mun ekki mæla af sjálfum sér, heldur mun hann tala það, sem hann heyrir, og kunngjöra yður það, sem koma á.
14 Hann mun gjöra mig dýrlegan, því af mínu mun hann taka og kunngjöra yður.
15 Allt sem faðirinn á, er mitt. Því sagði ég, að hann tæki af mínu og kunngjörði yður.
16 Innan skamms sjáið þér mig ekki lengur, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig."
17 Þá sögðu nokkrir lærisveina hans sín á milli: "Hvað er hann að segja við oss: 'Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig,' og: 'Ég fer til föðurins'?"
18 Þeir spurðu: "Hvað merkir þetta: ,Innan skamms`? Vér vitum ekki, hvað hann er að fara."
19 Jesús vissi, að þeir vildu spyrja hann, og sagði við þá: "Eruð þér að spyrjast á um það, að ég sagði: ,Innan skamms sjáið þér mig ekki, og aftur innan skamms munuð þér sjá mig`?
20 Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð gráta og kveina, en heimurinn mun fagna. Þér munuð verða hryggir, en hryggð yðar mun snúast í fögnuð.
21 Þegar konan fæðir, er hún í nauð, því stund hennar er komin. Þegar hún hefur alið barnið, minnist hún ekki framar þrauta sinna af fögnuði yfir því, að maður er í heiminn borinn.
22 Eins eruð þér nú hryggir, en ég mun sjá yður aftur, og hjarta yðar mun fagna, og enginn tekur fögnuð yðar frá yður.
23 Á þeim degi munuð þér ekki spyrja mig neins. Sannlega, sannlega segi ég yður: Hvað sem þér biðjið föðurinn um í mínu nafni, mun hann veita yður.
24 Hingað til hafið þér einskis beðið í mínu nafni. Biðjið, og þér munuð öðlast, svo að fögnuður yðar verði fullkominn.
25 Þetta hef ég sagt yður í líkingum. Sú stund kemur, að ég tala ekki framar við yður í líkingum, heldur mun ég berum orðum segja yður frá föðurnum.
26 Á þeim degi munuð þér biðja í mínu nafni. Ég segi yður ekki, að ég muni biðja föðurinn fyrir yður,
27 því sjálfur elskar faðirinn yður, þar eð þér hafið elskað mig og trúað, að ég sé frá Guði út genginn.
28 Ég er út genginn frá föðurnum og kominn í heiminn. Ég yfirgef heiminn aftur og fer til föðurins."
29 Lærisveinar hans sögðu: "Nú talar þú berum orðum og mælir enga líking.
30 Nú vitum vér, að þú veist allt og þarft eigi, að nokkur spyrji þig. Þess vegna trúum vér, að þú sért út genginn frá Guði."
31 Jesús svaraði þeim: "Trúið þér nú?
32 Sjá, sú stund kemur og er komin, að þér tvístrist hver til sín og skiljið mig einan eftir. Þó er ég ekki einn, því faðirinn er með mér.
33 Þetta hef ég talað við yður, svo að þér eigið frið í mér. Í heiminum hafið þér þrenging. En verið hughraustir. Ég hef sigrað heiminn."
13 Vitur sonur hlýðir umvöndun föður síns, en spottarinn sinnir engum átölum.
2 Maðurinn nýtur góðs af ávexti munnsins, en svikarana þyrstir í ofbeldi.
3 Sá sem gætir munns síns, varðveitir líf sitt, en glötun er búin þeim, er ginið glennir.
4 Sál letingjans girnist og fær ekki, en sál hinna iðnu mettast ríkulega.
5 Réttlátur maður hatar fals, en hinn óguðlegi fremur skömm og svívirðu.
6 Réttlætið verndar grandvara breytni, en guðleysið steypir syndaranum.
7 Einn þykist ríkur, en á þó ekkert, annar læst vera fátækur, en á þó mikinn auð.
8 Auðæfi mannsins eru lausnargjald fyrir líf hans, en hinn fátæki hlýðir ekki á neinar ávítur.
9 Ljós réttlátra logar skært, en á lampa óguðlegra slokknar.
10 Með hroka vekja menn aðeins þrætur, en hjá ráðþægnum mönnum er viska.
11 Skjótfenginn auður minnkar, en sá sem safnar smátt og smátt, verður ríkur.
12 Langdregin eftirvænting gjörir hjartað sjúkt, en uppfyllt ósk er lífstré.
13 Sá sem fyrirlítur áminningarorð, býr sér glötun, en sá sem óttast boðorðið, hlýtur umbun.
14 Kenning hins vitra er lífslind til þess að forðast snöru dauðans.
15 Góðir vitsmunir veita hylli, en vegur svikaranna leiðir í glötun.
16 Kænn maður gjörir allt með skynsemd, en heimskinginn breiðir út vitleysu.
17 Óguðlegur sendiboði steypir í ógæfu, en trúr sendimaður er meinabót.
18 Fátækt og smán hlýtur sá, er lætur áminning sem vind um eyrun þjóta, en sá sem tekur umvöndun, verður heiðraður.
19 Uppfyllt ósk er sálunni sæt, en að forðast illt er heimskingjunum andstyggð.
20 Haf umgengni við vitra menn, þá verður þú vitur, en illa fer þeim, sem leggur lag sitt við heimskingja.
21 Óhamingjan eltir syndarana, en gæfan nær hinum réttlátu.
22 Góður maður lætur eftir sig arf handa barnabörnunum, en eigur syndarans eru geymdar hinum réttláta.
23 Nýbrotið land fátæklinganna gefur mikla fæðu, en mörgum er burtu kippt fyrir ranglæti sitt.
24 Sá sem sparar vöndinn, hatar son sinn, en sá sem elskar hann, agar hann snemma.
25 Hinn réttláti etur nægju sína, en kviður óguðlegra líður skort.
6 Þér börn, hlýðið foreldrum yðar vegna Drottins, því að það er rétt.
2 "Heiðra föður þinn og móður," _ það er hið fyrsta boðorð með fyrirheiti:
3 "til þess að þér vegni vel og þú verðir langlífur á jörðinni."
4 Og þér feður, reitið ekki börn yðar til reiði, heldur alið þau upp með aga og umvöndun Drottins.
5 Þér þrælar, hlýðið yðar jarðnesku herrum með lotningu og ótta, í einlægni hjartans, eins og það væri Kristur.
6 Ekki með augnaþjónustu, eins og þeir er mönnum vilja þóknast, heldur eins og þjónar Krists, er gjöra vilja Guðs af heilum huga.
7 Veitið þjónustu yðar af fúsu geði, eins og Drottinn ætti í hlut og ekki menn.
8 Þér vitið og sjálfir, að sérhver mun fá aftur af Drottni það góða, sem hann gjörir, hvort sem hann er þræll eða frjáls maður.
9 Og þér, sem eigið þræla, breytið eins við þá. Hættið að ógna þeim. Þér vitið, að þeir eiga í himnunum sama Drottin og þér og hjá honum er ekkert manngreinarálit.
10 Að lokum: Styrkist nú í Drottni og í krafti máttar hans.
11 Klæðist alvæpni Guðs, til þess að þér getið staðist vélabrögð djöfulsins.
12 Því að baráttan, sem vér eigum í, er ekki við menn af holdi og blóði, heldur við tignirnar og völdin, við heimsdrottna þessa myrkurs, við andaverur vonskunnar í himingeimnum.
13 Takið því alvæpni Guðs, til þess að þér getið veitt mótstöðu á hinum vonda degi og haldið velli, þegar þér hafið sigrað allt.
14 Standið því gyrtir sannleika um lendar yðar og klæddir brynju réttlætisins
15 og skóaðir á fótunum með fúsleik til að flytja fagnaðarboðskap friðarins.
16 Takið umfram allt skjöld trúarinnar, sem þér getið slökkt með öll hin eldlegu skeyti hins vonda.
17 Takið við hjálmi hjálpræðisins og sverði andans, sem er Guðs orð.
18 Gjörið það með bæn og beiðni og biðjið á hverri tíð í anda. Verið því árvakrir og staðfastir í bæn fyrir öllum heilögum.
19 Biðjið fyrir mér, að mér verði gefin orð að mæla, þá er ég lýk upp munni mínum, til þess að ég kunngjöri með djörfung leyndardóm fagnaðarerindisins.
20 Þess boðberi er ég í fjötrum mínum. Biðjið, að ég geti flutt það með djörfung, eins og mér ber að tala.
21 En til þess að þér fáið einnig að vita um hagi mína, hvernig mér líður, þá mun Týkíkus, minn elskaði bróðir og trúi aðstoðarmaður í þjónustu Drottins, skýra yður frá öllu.
22 Ég sendi hann til yðar einkum í því skyni, að þér fáið að vita, hvernig oss líður, og til þess að hann uppörvi yður.
23 Friður sé með bræðrunum og kærleikur, samfara trú frá Guði föður og Drottni Jesú Kristi.
by Icelandic Bible Society