M’Cheyne Bible Reading Plan
36 Og skulu þeir Besalel og Oholíab og allir hugvitsmenn, er Drottinn hefir gefið hugvit og kunnáttu, svo að þeir bera skyn á, hvernig gjöra skal allt það verk, er að helgidómsgjörðinni lýtur, gjöra allt eins og Drottinn hefir boðið."
2 Móse lét þá kalla Besalel og Oholíab og alla hugvitsmenn, er Drottinn hafði gefið hugvit, alla þá, sem af fúsum huga gengu að verkinu til að vinna það.
3 Tóku þeir við af Móse öllum gjöfunum, sem Ísraelsmenn höfðu fram borið til framkvæmda því verki, er að helgidómsgjörðinni laut. En þeir færðu honum á hverjum morgni eftir sem áður gjafir sjálfviljuglega.
4 Þá komu allir hugvitsmennirnir, sem störfuðu að helgidómsgjörðinni í smáu og stóru, hver frá sínu verki, sem þeir voru að vinna,
5 og sögðu við Móse á þessa leið: "Fólkið leggur til miklu meira en þörf gjörist til að vinna það verk, sem Drottinn hefur boðið að gjöra."
6 Þá bauð Móse að láta þetta boð út ganga um herbúðirnar: "Enginn, hvorki karl né kona, skal framar hafa nokkurn starfa með höndum í því skyni að gefa til helgidómsins." Lét fólkið þá af að færa gjafir.
7 Var þá gnógt verkefni fyrir þá til alls þess, er gjöra þurfti, og jafnvel nokkuð afgangs.
8 Gjörðu nú allir hugvitsmenn meðal þeirra, er að verkinu unnu, tjaldbúðina af tíu dúkum. Voru þeir gjörðir af tvinnaðri baðmull, bláum purpura, rauðum purpura og skarlati, og listofnir kerúbar á.
9 Hver dúkur var tuttugu og átta álna langur og fjögra álna breiður, og voru allir dúkarnir jafnir að máli.
10 Fimm dúkarnir voru tengdir saman hver við annan, og eins voru hinir fimm dúkarnir tengdir saman hver við annan.
11 Þá voru gjörðar lykkjur af bláum purpura á jaðri ysta dúksins í samfellunni. Eins var gjört á jaðri ysta dúksins í hinni samfellunni.
12 Fimmtíu lykkjur voru gjörðar á öðrum dúknum, og eins voru gjörðar fimmtíu lykkjur á jaðri þess dúksins, sem var í hinni samfellunni, svo að lykkjurnar stóðust á hver við aðra.
13 Þá voru gjörðir fimmtíu krókar af gulli og dúkarnir tengdir saman hver við annan með krókunum, svo að tjaldbúðin varð ein heild.
14 Því næst voru gjörðir dúkar af geitahári til að tjalda með yfir búðina, ellefu að tölu.
15 Hver dúkur var þrjátíu álna langur og fjögra álna breiður, og voru allir ellefu dúkarnir jafnir að máli.
16 Þá voru tengdir saman fimm dúkar sér og sex dúkar sér,
17 og síðan búnar til fimmtíu lykkjur á jaðri ysta dúksins í annarri samfellunni og eins fimmtíu lykkjur á dúkjaðri hinnar samfellunnar.
18 Þá voru gjörðir fimmtíu eirkrókar til að tengja saman tjaldið, svo að það varð ein heild.
19 Þá var enn gjört þak yfir tjaldið af rauðlituðum hrútskinnum og enn eitt þak þar utan yfir af höfrungaskinnum.
20 Því næst voru gjörð þiljuborðin í tjaldbúðina. Voru þau af akasíuviði og stóðu upp og ofan.
21 Var hvert borð tíu álnir á lengd og hálf önnur alin á breidd.
22 Á hverju borði voru tveir tappar, báðir sameinaðir. Var svo gjört á öllum borðum tjaldbúðarinnar.
23 Og þannig voru borðin í tjaldbúðina gjörð: Tuttugu borð í suðurhliðina,
24 og fjörutíu undirstöður af silfri voru búnar til undir tuttugu borðin, tvær undirstöður undir hvert borð, sín fyrir hvorn tappa.
25 Og í hina hlið tjaldbúðarinnar, norðurhliðina, voru gjörð tuttugu borð
26 og fjörutíu undirstöður af silfri, tvær undirstöður undir hvert borð.
27 Í afturgafl búðarinnar, gegnt vestri, voru gjörð sex borð.
28 Og tvö borð voru gjörð í búðarhornin á afturgaflinum.
29 Voru þau tvöföld að neðan og héldu sömuleiðis fullu máli upp úr allt til hins fyrsta hrings. Þannig var þeim háttað hvorum tveggja á báðum hornunum.
30 Borðin voru átta og með undirstöðum af silfri, sextán undirstöðum, tveim undirstöðum undir hverju borði.
31 Því næst voru gjörðar slár af akasíuviði, fimm á borðin í annarri hlið búðarinnar
32 og fimm slár á borðin í hinni hlið búðarinnar og fimm slár á borðin í afturgafli búðarinnar, gegnt vestri.
33 Þá var gjörð miðsláin og látin liggja á miðjum borðunum alla leið, frá einum enda til annars.
34 Og voru borðin gulllögð, en hringarnir á þeim, sem slárnar gengu í, gjörðir af gulli. Slárnar voru og gulllagðar.
35 Þá var fortjaldið gjört af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull. Var það til búið með listvefnaði og kerúbar á.
36 Til þess voru gjörðir fjórir stólpar af akasíuviði. Voru þeir gulllagðir og naglarnir í þeim af gulli, en undir stólpana voru steyptar fjórar undirstöður af silfri.
37 Dúkbreiða var og gjörð fyrir dyr tjaldsins, af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, og glitofin,
38 svo og fimm stólparnir er henni fylgdu og naglarnir í þeim. Voru stólpahöfuðin gulllögð og hringrandir þeirra, en fimm undirstöðurnar undir þeim voru af eiri.
15 "Ég er hinn sanni vínviður, og faðir minn er vínyrkinn.
2 Hverja þá grein á mér, sem ber ekki ávöxt, sníður hann af, og hverja þá, sem ávöxt ber, hreinsar hann, svo að hún beri meiri ávöxt.
3 Þér eruð þegar hreinir vegna orðsins, sem ég hef talað til yðar.
4 Verið í mér, þá verð ég í yður. Eins og greinin getur ekki borið ávöxt af sjálfri sér, nema hún sé á vínviðnum, eins getið þér ekki heldur borið ávöxt, nema þér séuð í mér.
5 Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt, sem er í mér og ég í honum, en án mín getið þér alls ekkert gjört.
6 Hverjum sem er ekki í mér, verður varpað út eins og greinunum, og hann visnar. Þeim er safnað saman og varpað á eld og brennt.
7 Ef þér eruð í mér og orð mín eru í yður, þá biðjið um hvað sem þér viljið, og yður mun veitast það.
8 Með því vegsamast faðir minn, að þér berið mikinn ávöxt, og verðið lærisveinar mínir.
9 Ég hef elskað yður, eins og faðirinn hefur elskað mig. Verið stöðugir í elsku minni.
10 Ef þér haldið boðorð mín, verðið þér stöðugir í elsku minni, eins og ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans.
11 Þetta hef ég talað til yðar, til þess að fögnuður minn sé í yður og fögnuður yðar sé fullkominn.
12 Þetta er mitt boðorð, að þér elskið hver annan, eins og ég hef elskað yður.
13 Enginn á meiri kærleik en þann að leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.
14 Þér eruð vinir mínir, ef þér gjörið það, sem ég býð yður.
15 Ég kalla yður ekki framar þjóna, því þjónninn veit ekki, hvað herra hans gjörir. En ég kalla yður vini, því ég hef kunngjört yður allt, sem ég heyrði af föður mínum.
16 Þér hafið ekki útvalið mig, heldur hef ég útvalið yður. Ég hef ákvarðað yður til að fara og bera ávöxt, ávöxt, sem varir, svo að faðirinn veiti yður sérhvað það sem þér biðjið hann um í mínu nafni.
17 Þetta býð ég yður, að þér elskið hver annan.
18 Ef heimurinn hatar yður, þá vitið, að hann hefur hatað mig fyrr en yður.
19 Væruð þér af heiminum, mundi heimurinn elska sitt eigið. Heimurinn hatar yður af því að þér eruð ekki af heiminum, heldur hef ég útvalið yður úr heiminum.
20 Minnist orðanna, sem ég sagði við yður: Þjónn er ekki meiri en herra hans. Hafi þeir ofsótt mig, þá munu þeir líka ofsækja yður. Hafi þeir varðveitt orð mitt, munu þeir líka varðveita yðar.
21 En allt þetta munu þeir yður gjöra vegna nafns míns, af því að þeir þekkja eigi þann, sem sendi mig.
22 Hefði ég ekki komið og talað til þeirra, væru þeir ekki sekir um synd. En nú hafa þeir ekkert til afsökunar synd sinni.
23 Sá sem hatar mig, hatar og föður minn.
24 Hefði ég ekki unnið meðal þeirra þau verk, sem enginn annar hefur gjört, væru þeir ekki sekir um synd. En nú hafa þeir séð þau og hata þó bæði mig og föður minn.
25 Svo hlaut að rætast orðið, sem ritað er í lögmáli þeirra: ,Þeir hötuðu mig án saka.`
26 Þegar hjálparinn kemur, sem ég sendi yður frá föðurnum, sannleiksandinn, er út gengur frá föðurnum, mun hann vitna um mig.
27 Þér skuluð einnig vitni bera, því þér hafið verið með mér frá upphafi.
12 Sá sem elskar aga, elskar þekking, en sá sem hatar umvöndun, er heimskur.
2 Hinn góði hlýtur velþóknun af Drottni, en hrekkvísan mann fyrirdæmir hann.
3 Enginn maður nær fótfestu með óguðleika, en rót hinna réttlátu mun eigi bifast.
4 Væn kona er kóróna manns síns, en vond kona er sem rotnun í beinum hans.
5 Hugsanir réttlátra stefna að rétti, en ráðagjörðir óguðlegra að svikum.
6 Orð óguðlegra brugga banaráð, en munnur hreinskilinna frelsar þá.
7 Óguðlegir kollsteypast og eru eigi framar til, en hús réttlátra stendur.
8 Manninum verður hrósað eftir vitsmunum hans, en sá sem er rangsnúinn í hjarta, verður fyrirlitinn.
9 Betra er að láta lítið yfir sér og hafa þjón en að berast mikið á og hafa ekki ofan í sig.
10 Hinn réttláti er nærgætinn um þörf skepna sinna, en hjarta óguðlegra er hart.
11 Sá sem yrkir land sitt, mettast af brauði, en sá sem sækist eftir hégómlegum hlutum, er óvitur.
12 Hinn óguðlegi ágirnist feng hinna vondu, en rót réttlátra er varanleg.
13 Yfirsjón varanna er ill snara, en hinn réttláti bjargast úr nauðum.
14 Af ávexti munnsins mettast maðurinn gæðum, og það sem hendur hans hafa öðrum gjört, kemur aftur yfir hann.
15 Afglapanum finnst sinn vegur réttur, en vitur maður hlýðir á ráð.
16 Gremja afglapans kemur þegar í ljós, en kænn maður dylur smán sína.
17 Sá sem segir sannleikann hispurslaust, mælir fram það sem rétt er, en falsvotturinn svik.
18 Þvaður sumra manna er sem spjótsstungur, en tunga hinna vitru græðir.
19 Sannmálar varir munu ávallt standast, en lygin tunga aðeins stutta stund.
20 Yfir svikum búa þeir, er illt brugga, en gleði valda þeir, er ráða til friðar.
21 Réttlátum manni ber aldrei böl að hendi, en óhamingja hleðst á óguðlega.
22 Lygavarir eru Drottni andstyggð, en þeir sem sannleik iðka, eru yndi hans.
23 Kænn maður fer dult með þekking sína, en hjarta heimskingjanna fer hátt með flónsku sína.
24 Hönd hinna iðnu mun drottna, en hangandi höndin verður vinnuskyld.
25 Hugsýki beygir manninn, en vingjarnlegt orð gleður hann.
26 Hinum réttláta vegnar betur en öðrum, en vegur óguðlegra leiðir þá í villu.
27 Letinginn nær ekki villibráðinni, en iðnin er manninum dýrmætur auður.
28 Á vegi réttlætisins er líf, en glæpaleiðin liggur út í dauðann.
5 Verðið því eftirbreytendur Guðs, svo sem elskuð börn hans.
2 Lifið í kærleika, eins og Kristur elskaði oss og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir oss svo sem fórnargjöf, Guði til þægilegs ilms.
3 En frillulífi og óhreinleiki yfirleitt eða ágirnd á ekki einu sinni að nefnast á nafn meðal yðar. Svo hæfir heilögum.
4 Ekki heldur svívirðilegt hjal eða ósæmandi spé. Þess í stað komi miklu fremur þakkargjörð.
5 Því að það skuluð þér vita og festa yður í minni, að enginn frillulífismaður eða saurugur eða ágjarn, _ sem er sama og að dýrka hjáguði _, á sér arfsvon í ríki Krists og Guðs.
6 Enginn tæli yður með marklausum orðum, því að vegna þessa kemur reiði Guðs yfir þá, sem hlýða honum ekki.
7 Verðið þess vegna ekki lagsmenn þeirra.
8 Eitt sinn voruð þér myrkur, en nú eruð þér ljós í Drottni. Hegðið yður eins og börn ljóssins. _
9 Því að ávöxtur ljóssins er einskær góðvild, réttlæti og sannleikur. _
10 Metið rétt, hvað Drottni þóknast.
11 Eigið engan hlut í verkum myrkursins, sem ekkert gott hlýst af, heldur flettið miklu fremur ofan af þeim.
12 Því að það, sem slíkir menn fremja í leyndum, er jafnvel svívirðilegt um að tala.
13 En allt það, sem ljósið flettir ofan af, verður augljóst. Því að allt, sem er augljóst, er ljós.
14 Því segir svo: Vakna þú, sem sefur, og rís upp frá dauðum, og þá mun Kristur lýsa þér.
15 Hafið því nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir.
16 Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir.
17 Verið því ekki óskynsamir, heldur reynið að skilja, hver sé vilji Drottins.
18 Drekkið yður ekki drukkna af víni, það leiðir aðeins til spillingar. Fyllist heldur andanum,
19 og ávarpið hver annan með sálmum, lofsöngum og andlegum ljóðum. Syngið og leikið fyrir Drottin í hjörtum yðar,
20 og þakkið jafnan Guði, föðurnum, fyrir alla hluti í nafni Drottins vors Jesú Krists.
21 Verið hver öðrum undirgefnir í ótta Krists:
22 Konurnar eiginmönnum sínum eins og það væri Drottinn.
23 Því að maðurinn er höfuð konunnar, eins og Kristur er höfuð kirkjunnar, hann er frelsari líkama síns.
24 En eins og kirkjan er undirgefin Kristi, þannig séu og konurnar mönnum sínum undirgefnar í öllu.
25 Þér menn, elskið konur yðar eins og Kristur elskaði kirkjuna og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir hana,
26 til þess að helga hana og hreinsa í laug vatnsins með orði.
27 Hann vildi leiða hana fram fyrir sig í dýrð án þess hún hefði blett eða hrukku né neitt þess háttar. Heilög skyldi hún og lýtalaus.
28 Þannig skulu eiginmennirnir elska konur sínar eins og eigin líkami. Sá, sem elskar konu sína, elskar sjálfan sig.
29 Enginn hefur nokkru sinni hatað eigið hold, heldur elur hann það og annast, eins og Kristur kirkjuna,
30 því vér erum limir á líkama hans.
31 "Þess vegna skal maður yfirgefa föður og móður og búa við eiginkonu sína, og munu þau tvö verða einn maður."
32 Þetta er mikill leyndardómur. Ég hef í huga Krist og kirkjuna.
33 En sem sagt, þér skuluð hver og einn elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig, en konan beri lotningu fyrir manni sínum.
by Icelandic Bible Society