M’Cheyne Bible Reading Plan
35 Móse stefndi saman öllum söfnuði Ísraelsmanna og sagði við þá: "Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið að gjöra:
2 ,Sex daga skal verk vinna, en sjöundi dagurinn skal vera yður helgur hvíldardagur, hátíðarhvíld Drottins. Hver sem verk vinnur á þeim degi, skal líflátinn verða.
3 Hvergi skuluð þér kveikja upp eld í híbýlum yðar á hvíldardegi."`
4 Móse talaði til alls safnaðar Ísraelsmanna og mælti: "Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið:
5 ,Færið Drottni gjöf af því, sem þér eigið. Hver sá, er gefa vill af fúsum huga, beri fram gjöf Drottni til handa: gull, silfur og eir;
6 bláan purpura, rauðan purpura, skarlat, baðmull og geitahár;
7 rauðlituð hrútskinn, höfrungaskinn og akasíuvið;
8 olíu til ljósastikunnar, kryddjurtir til smurningarolíu og ilmreykelsis;
9 sjóamsteina og steina til legginga á hökulinn og brjóstskjöldinn.
10 Og allir hagleiksmenn meðal yðar komi og búi til allt það, sem Drottinn hefir boðið:
11 búðina, tjöldin yfir hana, þak hennar, króka, borð, slár, stólpa og undirstöður,
12 örkina og stengurnar, er henni fylgja, lokið og fortjaldsdúkbreiðuna,
13 borðið og stengurnar, er því fylgja, öll áhöld þess og skoðunarbrauðin,
14 ljósastikuna, áhöld þau og lampa, er henni fylgja, og olíu til ljósastikunnar,
15 reykelsisaltarið og stengurnar, er því fylgja, smurningarolíuna, ilmreykelsið og dúkbreiðuna fyrir dyrnar, fyrir dyr búðarinnar,
16 brennifórnaraltarið og eirgrindina, sem því fylgir, stengur þess og öll áhöld, og kerið með stétt þess,
17 tjöld forgarðsins, stólpa hans með undirstöðum og dúkbreiðuna fyrir hlið forgarðsins,
18 hæla búðarinnar og hæla forgarðsins og þau stög, sem þar til heyra,
19 glitklæðin til embættisgjörðar í helgidóminum, hin helgu klæði Arons prests og prestsþjónustuklæði sona hans."`
20 Því næst gekk allur söfnuður Ísraelsmanna burt frá Móse.
21 Komu þá allir, sem gáfu af fúsum huga og með ljúfu geði, og færðu Drottni gjafir til að gjöra af samfundatjaldið og allt það, sem þurfti til þjónustugjörðarinnar í því og til hinna helgu klæða.
22 Og þeir komu, bæði menn og konur, allir þeir, sem fúsir voru að gefa, og færðu spangir, eyrnagull, hringa, hálsmen og alls konar gullgripi, svo og hver sá, er færa vildi Drottni gull að fórnargjöf.
23 Og hver maður, sem átti í eigu sinni bláan purpura, rauðan purpura, skarlat, baðmull, geitahár, rauðlituð hrútskinn og höfrungaskinn, bar það fram.
24 Og hver sem bar fram silfur og eir að fórnargjöf, færði það Drottni að fórnargjöf, og hver sem átti í eigu sinni akasíuvið til hvers þess smíðis, er gjöra skyldi, bar hann fram.
25 Og allar hagvirkar konur spunnu með höndum sínum og báru fram spuna sinn: bláan purpura, rauðan purpura, skarlat og baðmull.
26 Og allar konur, sem til þess voru fúsar og höfðu kunnáttu til, spunnu geitahár.
27 En foringjarnir færðu sjóamsteina og steina til legginga á hökulinn og brjóstskjöldinn,
28 og kryddjurtir og olíu til ljósastikunnar og til smurningarolíu og ilmreykelsis.
29 Ísraelsmenn færðu Drottni þessar gjafir sjálfviljuglega, hver maður og hver kona, er fúslega vildi láta eitthvað af hendi rakna til alls þess verks, er Drottinn hafði boðið Móse að gjöra.
30 Móse sagði við Ísraelsmenn: "Sjáið, Drottinn hefir kvatt til Besalel Úríson, Húrssonar, af Júda ættkvísl
31 og fyllt hann Guðs anda, bæði vísdómi, skilningi, kunnáttu og hvers konar hagleik,
32 til þess að upphugsa listaverk og smíða úr gulli, silfri og eiri
33 og skera steina til greypingar og til tréskurðar, til þess að vinna að hvers konar hagvirki.
34 Hann hefir og gefið honum þá gáfu að kenna öðrum, bæði honum og Oholíab Akísamakssyni af Dans ættkvísl.
35 Hann hefir fyllt þá hugviti til alls konar útskurðar, listvefnaðar, glitvefnaðar af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og baðmull, og til dúkvefnaðar, svo að þeir geta framið alls konar iðn og upphugsað listaverk.
14 "Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig.
2 Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo, hefði ég þá sagt yður, að ég færi burt að búa yður stað?
3 Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað, kem ég aftur og tek yður til mín, svo að þér séuð einnig þar sem ég er.
4 Veginn þangað, sem ég fer, þekkið þér."
5 Tómas segir við hann: "Herra, vér vitum ekki, hvert þú ferð, hvernig getum vér þá þekkt veginn?"
6 Jesús segir við hann: "Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins, nema fyrir mig.
7 Ef þér hafið þekkt mig, munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann."
8 Filippus segir við hann: "Herra, sýn þú oss föðurinn. Það nægir oss."
9 Jesús svaraði: "Ég hef verið með yður allan þennan tíma, og þú þekkir mig ekki, Filippus? Sá sem hefur séð mig, hefur séð föðurinn. Hvernig segir þú þá: ,Sýn þú oss föðurinn`?
10 Trúir þú ekki, að ég er í föðurnum og faðirinn í mér? Orðin, sem ég segi við yður, tala ég ekki af sjálfum mér. Faðirinn, sem í mér er, vinnur sín verk.
11 Trúið mér, að ég er í föðurnum og faðirinn í mér. Ef þér gerið það ekki, trúið þá vegna sjálfra verkanna.
12 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir á mig, mun einnig gjöra þau verk, sem ég gjöri. Og hann mun gjöra meiri verk en þau, því ég fer til föðurins.
13 Og hvers sem þér biðjið í mínu nafni, það mun ég gjöra, svo að faðirinn vegsamist í syninum.
14 Ef þér biðjið mig einhvers í mínu nafni, mun ég gjöra það.
15 Ef þér elskið mig, munuð þér halda boðorð mín.
16 Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu,
17 anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann, því hann er hjá yður og verður í yður.
18 Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlausa. Ég kem til yðar.
19 Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar. Þér munuð sjá mig, því ég lifi og þér munuð lifa.
20 Á þeim degi munuð þér skilja, að ég er í föður mínum og þér í mér og ég í yður.
21 Sá sem hefur boðorð mín og heldur þau, hann er sá sem elskar mig. En sá sem elskar mig, mun elskaður verða af föður mínum, og ég mun elska hann og birta honum sjálfan mig."
22 Júdas _ ekki Ískaríot _ sagði við hann: "Herra, hverju sætir það, að þú vilt birtast oss, en eigi heiminum?"
23 Jesús svaraði: "Sá sem elskar mig, varðveitir mitt orð, og faðir minn mun elska hann. Til hans munum við koma og gjöra okkur bústað hjá honum.
24 Sá sem elskar mig ekki, varðveitir ekki mín orð. Orðið, sem þér heyrið, er ekki mitt, heldur föðurins, sem sendi mig.
25 Þetta hef ég talað til yðar, meðan ég var hjá yður.
26 En hjálparinn, andinn heilagi, sem faðirinn mun senda í mínu nafni, mun kenna yður allt og minna yður á allt það, sem ég hef sagt yður.
27 Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.
28 Þér heyrðuð, að ég sagði við yður: ,Ég fer burt og kem til yðar.` Ef þér elskuðuð mig, yrðuð þér glaðir af því, að ég fer til föðurins, því faðirinn er mér meiri.
29 Nú hef ég sagt yður það, áður en það verður, svo að þér trúið, þegar það gerist.
30 Ég mun ekki framar tala margt við yður, því höfðingi heimsins kemur. Í mér á hann ekki neitt.
31 En heimurinn á að sjá, að ég elska föðurinn og gjöri eins og faðirinn hefur boðið mér. Standið upp, vér skulum fara héðan."
11 Svikavog er Drottni andstyggð, en full vog yndi hans.
2 Komi hroki, kemur smán, en hjá lítillátum er viska.
3 Ráðvendni hreinskilinna leiðir þá, en undirferli svikulla tortímir þeim.
4 Auðæfi stoða ekki á degi reiðinnar, en réttlæti frelsar frá dauða.
5 Réttlæti hins ráðvanda gjörir veg hans sléttan, en hinn óguðlegi fellur um guðleysi sitt.
6 Réttlæti hinna hreinskilnu frelsar þá, en hinir svikulu ánetjast í eigin græðgi.
7 Þegar óguðlegur maður deyr, verður von hans að engu, og eftirvænting glæpamannanna er að engu orðin.
8 Hinn réttláti frelsast úr nauðum, og hinn óguðlegi kemur í hans stað.
9 Með munninum steypir hinn guðlausi náunga sínum í glötun, en hinir réttlátu frelsast fyrir þekkingu.
10 Borgin fagnar yfir gæfu réttlátra, og þegar óguðlegir farast, gjalla gleðiópin.
11 Borgin hefst fyrir blessun hreinskilinna, en fyrir munn óguðlegra steypist hún.
12 Óvitur maður sýnir náunga sínum fyrirlitningu, en hygginn maður þegir.
13 Sá er gengur um sem rógberi, lýstur upp leyndarmálum, en sá sem er staðfastur í lund, leynir sökinni.
14 Þar sem engin stjórn er, þar fellur þjóðin, en þar sem margir ráðgjafar eru, fer allt vel.
15 Hrapallega fer fyrir þeim, er gengur í ábyrgð fyrir annan mann, en sá sem hatar handsöl, er óhultur.
16 Yndisleg kona hlýtur sæmd, og hinir sterku hljóta auðæfi.
17 Kærleiksríkur maður gjörir sálu sinni gott, en hinn grimmi kvelur sitt eigið hold.
18 Hinn óguðlegi aflar sér svikuls ávinnings, en sá er réttlæti sáir, sannra launa.
19 Iðki einhver réttlæti, þá leiðir það til lífs, en ef hann eltir hið illa, leiðir það hann til dauða.
20 Andstyggð fyrir Drottni eru þeir, sem hafa rangsnúið hjarta, en yndi hans þeir, er breyta ráðvandlega.
21 Hér er höndin upp á það: Hinn vondi sleppur ekki óhegndur! en niðjar réttlátra komast undan.
22 Eins og gullhringur í svínstrýni, svo er fríð kona, sem enga siðprýði kann.
23 Óskir hinna réttlátu leiða aðeins til góðs, en vonir óguðlegra leiða yfir sig reiðidóm.
24 Sumir miðla öðrum mildilega, og eignast æ meira, aðrir halda í meira en rétt er, og verða þó fátækari.
25 Velgjörðasöm sál mettast ríkulega, og sá sem gefur öðrum að drekka, mun og sjálfur drykk hljóta.
26 Fólkið formælir þeim, sem heldur í kornið, en blessun kemur yfir höfuð þess, er selur það.
27 Sá sem leitar góðs, stundar það, sem velþóknanlegt er, en sá sem sækist eftir illu, verður fyrir því.
28 Sá sem treystir á auð sinn, hann fellur, en hinir réttlátu munu grænka eins og laufið.
29 Sá sem kemur ólagi á heimilishag sinn, erfir vind, og afglapinn verður þjónn hins vitra.
30 Ávöxtur hins réttláta er lífstré, og hinn vitri hyllir að sér hjörtun.
31 Sjá, hinn réttláti fær endurgjald hér á jörðu, hvað þá hinn óguðlegi og syndarinn?
4 Ég, bandinginn vegna Drottins, áminni yður þess vegna um að hegða yður svo sem samboðið er þeirri köllun, sem þér hafið hlotið.
2 Verið í hvívetna lítillátir og hógværir. Verið þolinmóðir, langlyndir og umberið hver annan í kærleika.
3 Kappkostið að varðveita einingu andans í bandi friðarins.
4 Einn er líkaminn og einn andinn, eins og þér líka voruð kallaðir til einnar vonar.
5 Einn er Drottinn, ein trú, ein skírn,
6 einn Guð og faðir allra, sem er yfir öllum, með öllum og í öllum.
7 Sérhverjum af oss var náðin veitt eftir því, sem Kristur úthlutaði honum.
8 Því segir ritningin: "Hann steig upp til hæða, hertók fanga og gaf mönnunum gjafir." (
9 En "steig upp", hvað merkir það annað en að hann hefur einnig stigið niður í djúp jarðarinnar?
10 Sá, sem steig niður, er og sá, sem upp sté, upp yfir alla himna til þess að fylla allt.)
11 Og frá honum er sú gjöf komin, að sumir eru postular, sumir spámenn, sumir trúboðar, sumir hirðar og kennarar.
12 Þeir eiga að fullkomna hina heilögu og láta þeim þjónustu í té, líkama Krists til uppbyggingar,
13 þangað til vér verðum allir einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs, verðum fullþroska og náum vaxtartakmarki Krists fyllingar.
14 Vér eigum ekki að halda áfram að vera börn, sem hrekjast og berast fram og aftur af hverjum kenningarvindi, tæld af slægum mönnum með vélabrögðum villunnar.
15 Vér eigum heldur að ástunda sannleikann í kærleika og vaxa í öllu upp til hans, sem er höfuðið, _ Kristur.
16 Hann tengir líkamann saman og heldur honum saman með því að láta sérhverja taug inna sína þjónustu af hendi, allt eftir þeim krafti, sem hann úthlutar hverri þeirra. Þannig lætur hann líkamann vaxa og byggjast upp í kærleika.
17 Þetta segi ég þá og vitna í nafni Drottins: Þér megið ekki framar hegða yður eins og heiðingjarnir hegða sér. Hugsun þeirra er allslaus,
18 skilningur þeirra blindaður og þeir eru fjarlægir lífi Guðs vegna vanþekkingarinnar, sem þeir lifa í, og síns harða hjarta.
19 Þeir eru tilfinningalausir og hafa ofurselt sig lostalífi, svo að þeir fremja alls konar siðleysi af græðgi.
20 En svo hafið þér ekki lært að þekkja Krist.
21 Því að ég veit, að þér hafið heyrt um hann og hafið verið um hann fræddir eins og sannleikurinn er í Jesú:
22 Þér eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni, sem er spilltur af tælandi girndum,
23 en endurnýjast í anda og hugsun og
24 íklæðast hinum nýja manni, sem skapaður er eftir Guði í réttlæti og heilagleika sannleikans.
25 Leggið nú af lygina og talið sannleika hver við sinn náunga, því að vér erum hver annars limir.
26 Ef þér reiðist, þá syndgið ekki. Sólin má ekki setjast yfir reiði yðar.
27 Gefið djöflinum ekkert færi.
28 Hinn stelvísi hætti að stela, en leggi hart að sér og gjöri það sem gagnlegt er með höndum sínum, svo að hann hafi eitthvað að miðla þeim, sem þurfandi er.
29 Látið ekkert skaðlegt orð líða yður af munni, heldur það eitt, sem er gott til uppbyggingar, þar sem þörf gjörist, til þess að það verði til góðs þeim, sem heyra.
30 Hryggið ekki Guðs heilaga anda, sem þér eruð innsiglaðir með til endurlausnardagsins.
31 Látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt.
32 Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.
by Icelandic Bible Society