Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Önnur bók Móse 34

34 Drottinn sagði við Móse: "Högg þér tvær töflur af steini, eins og hinar fyrri voru. Mun ég þá rita á töflurnar þau orð, sem stóðu á hinum fyrri töflunum, er þú braust í sundur.

Og ver búinn á morgun og stíg árla upp á Sínaífjall og kom þar til mín uppi á fjallstindinum.

Enginn maður má fara upp þangað með þér, og enginn má heldur láta sjá sig nokkurs staðar á fjallinu. Eigi mega heldur sauðir eða naut vera á beit uppi undir fjallinu."

Þá hjó Móse tvær töflur af steini, eins og hinar fyrri. Og hann reis árla næsta morgun og gekk upp á Sínaífjall eins og Drottinn hafði boðið honum og tók í hönd sér báðar steintöflurnar.

Þá steig Drottinn niður í skýi, en staðnæmdist þar hjá honum og kallaði nafn Drottins.

Drottinn gekk fram hjá honum og kallaði: "Drottinn, Drottinn, miskunnsamur og líknsamur Guð, þolinmóður, gæskuríkur og harla trúfastur,

sem auðsýnir gæsku þúsundum og fyrirgefur misgjörðir, afbrot og syndir, en lætur þeirra þó eigi með öllu óhegnt, heldur vitjar misgjörða feðranna á börnum og barnabörnum, já í þriðja og fjórða lið."

Móse féll þá skjótlega til jarðar og tilbað.

Og hann sagði: "Hafi ég, Drottinn, fundið náð í augum þínum, þá fari Drottinn með oss, því að þetta er harðsvíraður lýður. En fyrirgef oss misgjörðir vorar og syndir, og gjör oss að þinni eign."

10 Drottinn sagði: "Sjá, ég gjöri sáttmála. Í augsýn alls þíns fólks vil ég gjöra þau undur, að ekki hafa slík verið gjörð í nokkru landi eða hjá nokkurri þjóð, og skal allt fólkið, sem þú ert hjá, sjá verk Drottins, því að furðulegt er það, sem ég mun við þig gjöra.

11 Gæt þess, sem ég býð þér í dag: Sjá, ég vil stökkva burt undan þér Amorítum, Kanaanítum, Hetítum, Peresítum, Hevítum og Jebúsítum.

12 Varast þú að gjöra nokkurn sáttmála við íbúa lands þess, sem þú kemur til, svo að þeir verði þér ekki að tálsnöru, ef þeir búa á meðal þín,

13 heldur skuluð þér rífa niður ölturu þeirra, brjóta í sundur merkissteina þeirra og höggva niður asérur þeirra.

14 Þú skalt eigi tilbiðja neinn annan guð, því að Drottinn nefnist vandlætari. Vandlátur Guð er hann.

15 Varast að gjöra nokkurn sáttmála við íbúa landsins, því að þeir munu taka fram hjá með guðum sínum og þeir munu færa fórnir guðum sínum, og þér mun verða boðið og þú munt eta af fórnum þeirra.

16 Og þú munt taka dætur þeirra handa sonum þínum, og dætur þeirra munu taka fram hjá með guðum sínum og tæla syni þína til að taka fram hjá með guðum þeirra.

17 Þú skalt eigi gjöra þér steypta guði.

18 Þú skalt halda hátíð hinna ósýrðu brauða. Sjö daga skaltu eta ósýrð brauð, eins og ég hefi boðið þér, á ákveðnum tíma í abíb-mánuði, því að í abíb-mánuði fórst þú út af Egyptalandi.

19 Allt það, sem opnar móðurlíf, er mitt, sömuleiðis allur fénaður þinn, sem karlkyns er, frumburðir nauta og sauða.

20 En frumburði undan ösnum skaltu leysa með lambi. Leysir þú ekki, skaltu brjóta þá úr hálsliðum. Alla frumburði sona þinna skaltu leysa, og enginn skal tómhentur koma fyrir auglit mitt.

21 Sex daga skaltu vinna, en hvílast hinn sjöunda dag, þá skaltu hvílast, hvort heldur er plægingartími eða uppskeru.

22 Þú skalt halda viknahátíðina, hátíð frumgróða hveitiuppskerunnar, og uppskeruhátíðina við árslokin.

23 Þrem sinnum á ári skal allt þitt karlkyn birtast frammi fyrir Drottni Guði, Guði Ísraels.

24 Því að ég mun reka heiðingjana burt frá þér og færa út landamerki þín, og enginn skal áseilast land þitt, þegar þú fer upp til að birtast frammi fyrir Drottni Guði þínum þrem sinnum á ári.

25 Þú skalt ekki fram bera blóð fórnar minnar með sýrðu brauði, og páskahátíðarfórnin má ekki liggja til morguns.

26 Hið fyrsta, frumgróða jarðar þinnar, skaltu færa til húss Drottins Guðs þíns. Þú skalt ekki sjóða kið í mjólk móður sinnar."

27 Drottinn sagði við Móse: "Skrifa þú upp þessi orð, því að samkvæmt þessum orðum hefi ég gjört sáttmála við þig og við Ísrael."

28 Og Móse var þar hjá Drottni fjörutíu daga og fjörutíu nætur og át ekki brauð og drakk ekki vatn. Og hann skrifaði á töflurnar orð sáttmálans, tíu boðorðin.

29 En er Móse gekk ofan af Sínaífjalli, og hann hafði báðar sáttmálstöflurnar í hendi sér, þegar hann gekk ofan af fjallinu, þá vissi Móse ekki að geislar stóðu af andlitshörundi hans, af því að hann hafði talað við Drottin.

30 Og Aron og allir Ísraelsmenn sáu Móse, og sjá: Geislar stóðu af andlitshörundi hans. Þorðu þeir þá ekki að koma nærri honum.

31 En Móse kallaði á þá, og sneru þeir þá aftur til hans, Aron og allir leiðtogar safnaðarins, og talaði Móse við þá.

32 Eftir það gengu allir Ísraelsmenn til hans, og bauð hann þeim að halda allt það, sem Drottinn hafði við hann talað á Sínaífjalli.

33 Er Móse hafði lokið máli sínu við þá, lét hann skýlu fyrir andlit sér.

34 En er Móse gekk fram fyrir Drottin til þess að tala við hann, tók hann skýluna frá, þar til er hann gekk út aftur. Því næst gekk hann út og flutti Ísraelsmönnum það, sem honum var boðið.

35 Sáu Ísraelsmenn þá andlit Móse, hversu geislar stóðu af andlitshörundi hans. Lét Móse þá skýluna aftur fyrir andlit sér, þar til er hann gekk inn til þess að tala við Guð.

Jóhannesarguðspjall 13

13 Hátíð páskanna var að ganga í garð. Jesús vissi, að stund hans var kominn og að hann færi burt úr þessum heimi til föðurins. Hann hafði elskað sína, þá sem í heiminum voru. Hann elskaði þá, uns yfir lauk.

Kvöldmáltíð stóð yfir. Djöfullinn hafði þegar blásið því í brjóst Júdasi Símonarsyni Ískaríots að svíkja Jesú.

Jesús vissi, að faðirinn hafði lagt allt í hendur honum, að hann var frá Guði kominn og var að fara til Guðs.

Hann stóð upp frá máltíðinni, lagði af sér yfirhöfnina, tók líndúk og batt um sig.

Síðan hellti hann vatni í mundlaug og tók að þvo fætur lærisveinanna og þerra með líndúknum, sem hann hafði um sig.

Hann kemur þá að Símoni Pétri, sem segir við hann: "Herra, ætlar þú að þvo mér um fæturna?"

Jesús svaraði: "Nú skilur þú ekki, hvað ég er að gjöra, en seinna muntu skilja það."

Pétur segir við hann: "Aldrei að eilífu skaltu þvo fætur mína." Jesús svaraði: "Ef ég þvæ þér ekki, áttu enga samleið með mér."

Símon Pétur segir við hann: "Herra, ekki aðeins fætur mína, líka hendurnar og höfuðið."

10 Jesús segir við hann: "Sá sem laugast hefur, þarf ekki að þvost nema um fætur. Hann er allur hreinn. Og þér eruð hreinir, þó ekki allir."

11 Hann vissi, hver mundi svíkja hann, og því sagði hann: "Þér eruð ekki allir hreinir."

12 Þegar hann hafði þvegið fætur þeirra, tekið yfirhöfn sína og setst aftur niður, sagði hann við þá: "Skiljið þér, hvað ég hef gjört við yður?

13 Þér kallið mig meistara og herra, og þér mælið rétt, því það er ég.

14 Fyrst ég, sem er herra og meistari, hef nú þvegið yður um fæturna, þá ber yður einnig að þvo hver annars fætur.

15 Ég hef gefið yður eftirdæmi, að þér breytið eins og ég breytti við yður.

16 Sannlega, sannlega segi ég yður: Þjónn er ekki meiri en herra hans né sendiboði meiri þeim, er sendi hann.

17 Þér vitið þetta, og þér eruð sælir, ef þér breytið eftir því.

18 Ég tala ekki um yður alla. Ég veit, hverja ég hef útvalið. En ritningin verður að rætast: ,Sá sem etur brauð mitt, lyftir hæli sínum móti mér.`

19 Ég segi yður þetta núna, áður en það verður, svo að þér trúið, þegar það er orðið, að ég er sá sem ég er.

20 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem tekur við þeim, sem ég sendi, hann tekur við mér, og sá sem tekur við mér, tekur við þeim er sendi mig."

21 Þegar Jesús hafði sagt þetta, varð honum mjög þungt um hjarta og hann sagði beinum orðum: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Einn af yður mun svíkja mig."

22 Lærisveinarnir litu hver á annan og skildu ekki, við hvern hann ætti.

23 Sá lærisveinn Jesú, sem hann elskaði, sat næstur honum.

24 Símon Pétur benti honum og bað hann spyrja, hver sá væri, sem Jesús talaði um.

25 Hann laut þá að Jesú og spurði: "Herra, hver er það?"

26 Jesús svaraði: "Það er sá sem ég fæ bita þann, er ég dýfi nú í." Þá dýfði hann í bitanum, tók hann og fékk Júdasi Símonarsyni Ískaríots.

27 Og eftir þann bita fór Satan inn í hann. Jesús segir við hann: "Það sem þú gjörir, það gjör þú skjótt!"

28 En enginn þeirra, sem sátu til borðs, vissi til hvers hann sagði þetta við hann.

29 En af því að Júdas hafði pyngjuna, héldu sumir þeirra, að Jesús hefði sagt við hann: "Kauptu það, sem vér þurfum til hátíðarinnar," _ eða að hann skyldi gefa eitthvað fátækum.

30 Þá er hann hafði tekið við bitanum, gekk hann jafnskjótt út. Þá var nótt.

31 Þegar hann var farinn út, sagði Jesús: "Nú er Mannssonurinn dýrlegur orðinn, og Guð er orðinn dýrlegur í honum.

32 Fyrst Guð er orðinn dýrlegur í honum, mun Guð og gjöra hann dýrlegan í sér, og skjótt mun hann gjöra hann dýrlegan.

33 Börnin mín, stutta stund verð ég enn með yður. Þér munuð leita mín, og eins og ég sagði Gyðingum, segi ég yður nú: Þangað sem ég fer, getið þér ekki komist.

34 Nýtt boðorð gef ég yður, að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan.

35 Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars."

36 Símon Pétur segir við hann: "Herra, hvert ferðu?" Jesús svaraði: "Þú getur ekki fylgt mér nú þangað sem ég fer, en síðar muntu fylgja mér."

37 Pétur segir við hann: "Herra, hví get ég ekki fylgt þér nú? Ég vil leggja líf mitt í sölurnar fyrir þig."

38 Jesús svaraði: "Viltu leggja líf þitt í sölurnar fyrir mig? Sannlega, sannlega segi ég þér: Ekki mun hani gala fyrr en þú hefur afneitað mér þrisvar."

Orðskviðirnir 10

10 Orðskviðir Salómons. Vitur sonur gleður föður sinn, en heimskur sonur er móður sinni til mæðu.

Rangfenginn auður stoðar ekki, en réttlæti frelsar frá dauða.

Drottinn lætur ekki réttlátan mann þola hungur, en græðgi guðlausra hrindir hann frá sér.

Snauður verður sá, er með hangandi hendi vinnur, en auðs aflar iðin hönd.

Hygginn er sá, er á sumri safnar, en skammarlega fer þeim, er um kornsláttinn sefur.

Blessun kemur yfir höfuð hins réttláta, en munnur óguðlegra hylmir yfir ofbeldi.

Minning hins réttláta verður blessuð, en nafn óguðlegra fúnar.

Sá sem er vitur í hjarta, þýðist boðorðin, en sá sem er afglapi í munninum, steypir sér í glötun.

Sá sem gengur ráðvandlega, gengur óhultur, en sá sem gjörir vegu sína hlykkjótta, verður uppvís.

10 Sá sem deplar með auganu, veldur skapraun, en sá sem finnur að með djörfung, semur frið.

11 Munnur hins réttláta er lífslind, en munnur óguðlegra hylmir yfir ofbeldi.

12 Hatur vekur illdeilur, en kærleikurinn breiðir yfir alla bresti.

13 Viska er á vörum hyggins manns, en á baki hins óvitra hvín vöndurinn.

14 Vitrir menn geyma þekking sína, en munnur afglapans er yfirvofandi hrun.

15 Auður ríks manns er honum öflugt vígi, en fátækt hinna snauðu verður þeim að falli.

16 Afli hins réttláta verður til lífs, gróði hins óguðlega til syndar.

17 Sá fer lífsins leið, er varðveitir aga, en sá villist, er hafnar umvöndun.

18 Sá er leynir hatri, er lygari, en sá sem ber út óhróður, er heimskingi.

19 Málæðinu fylgja yfirsjónir, en sá breytir hyggilega, sem hefir taum á tungu sinni.

20 Tunga hins réttláta er úrvals silfur, vit hins óguðlega er lítils virði.

21 Varir hins réttláta fæða marga, en afglaparnir deyja úr vitleysu.

22 Blessun Drottins, hún auðgar, og erfiði mannsins bætir engu við hana.

23 Heimskingjanum er ánægja að fremja svívirðing, en viskan er hyggnum manni gleði.

24 Það sem hinn óguðlegi óttast, kemur yfir hann, en réttlátum gefst það, er þeir girnast.

25 Þegar vindbylurinn skellur á, er úti um hinn óguðlega, en hinn réttláti stendur á eilífum grundvelli.

26 Það sem edik er tönnunum og reykur augunum, það er letinginn þeim, er hann senda.

27 Ótti Drottins lengir lífdagana, en æviár óguðlegra verða stytt.

28 Eftirvænting réttlátra endar í gleði, en von óguðlegra verður að engu.

29 Vegur Drottins er athvarf sakleysisins, en hrun þeim, er aðhafast illt.

30 Hinn réttláti bifast ekki að eilífu, en hinir óguðlegu munu ekki byggja landið.

31 Munnur hins réttláta framleiðir visku, en fláráð tunga verður upprætt.

32 Varir hins réttláta vita, hvað geðfellt er, en munnur óguðlegra er eintóm flærð.

Bréf Páls til Efesusmanna 3

Þess vegna er það, að ég, Páll, bandingi Krists Jesú vegna yðar, heiðinna manna, beygi kné mín.

Víst hafið þér heyrt um þá ráðstöfun Guðs náðar, sem hann fól mér hjá yður:

Að birta mér með opinberun leyndardóminn. Ég hef stuttlega skrifað um það áður.

Þegar þér lesið það, getið þér skynjað, hvað ég veit um leyndardóm Krists.

Hann var ekki birtur mannanna sonum fyrr á tímum. Nú hefur hann verið opinberaður heilögum postulum hans og spámönnum í andanum:

Heiðingjarnir eru í Kristi Jesú fyrir fagnaðarerindið orðnir erfingjar með oss, einn líkami með oss, og eiga hlut í sama fyrirheiti og vér.

Ég varð þjónn þessa fagnaðarerindis, af því að Guð gaf mér gjöf náðar sinnar með krafti máttar síns.

Mér, sem minnstur er allra heilagra, var veitt sú náð að boða heiðingjunum fagnaðarerindið um hinn órannsakanlega ríkdóm Krists

og að upplýsa alla um það, hvernig Guð hefur ráðstafað þessum leyndardómi. Hann hefur frá eilífð verið hulinn í Guði, sem allt hefur skapað.

10 Nú skyldi kirkjan látin kunngjöra tignunum og völdunum í himinhæðum, hve margháttuð speki Guðs er.

11 Þetta er Guðs eilífa fyrirætlun, sem hann hefur framkvæmt í Kristi Jesú, Drottni vorum.

12 Á honum byggist djörfung vor. Í trúnni á hann eigum vér öruggan aðgang að Guði.

13 Fyrir því bið ég, að þér látið eigi hugfallast út af þrengingum mínum yðar vegna. Þær eru yður til vegsemdar.

14 Þess vegna beygi ég kné mín fyrir föðurnum,

15 sem hvert faðerni fær nafn af á himni og jörðu.

16 Megi hann gefa yður af ríkdómi dýrðar sinnar að styrkjast fyrir anda sinn að krafti hið innra með yður,

17 til þess að Kristur megi fyrir trúna búa í hjörtum yðar og þér verða rótfestir og grundvallaðir í kærleika.

18 Þá fáið þér ásamt öllum heilögum skilið, hve kærleikur Krists er víður og langur, hár og djúpur, og komist að raun um hann,

19 sem gnæfir yfir alla þekkingu, og náið að fyllast allri Guðs fyllingu.

20 En honum, sem í oss verkar með krafti sínum og megnar að gjöra langt fram yfir allt það, sem vér biðjum eða skynjum,

21 honum sé dýrð í kirkjunni og í Kristi Jesú um öll æviskeið, öld eftir öld. Amen.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society