Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Önnur bók Móse 33

33 Drottinn sagði við Móse: "Far nú héðan með fólkið, sem þú leiddir burt af Egyptalandi, til þess lands, sem ég sór Abraham, Ísak og Jakob, er ég sagði: ,Niðjum þínum vil ég gefa það.`

Ég vil senda engil á undan þér og reka burt Kanaaníta, Amoríta, Hetíta, Peresíta, Hevíta og Jebúsíta, _

til þess lands, sem flýtur í mjólk og hunangi, því að ekki vil ég sjálfur fara þangað með þér, af því að þú ert harðsvíraður lýður, að eigi tortími ég þér á leiðinni."

En er fólkið heyrði þennan ófögnuð, urðu þeir hryggir, og enginn maður bjó sig í skart.

Þá sagði Drottinn við Móse: "Seg Ísraelsmönnum: ,Þér eruð harðsvíraður lýður. Væri ég eitt augnablik með þér á leiðinni, mundi ég tortíma þér. Legg nú af þér skart þitt, svo að ég viti, hvað ég á að gjöra við þig."`

Þá lögðu Ísraelsmenn niður skart sitt undir Hórebfjalli og báru það eigi upp frá því.

Móse tók tjaldið og reisti það fyrir utan herbúðirnar, spölkorn frá þeim, og kallaði það samfundatjald, og varð hver sá maður, er leita vildi til Drottins, að fara út til samfundatjaldsins, sem var fyrir utan herbúðirnar.

Og þegar Móse gekk út til tjaldsins, þá stóð upp allur lýðurinn og gekk hver út í sínar tjalddyr og horfði á eftir honum, þar til er hann var kominn inn í tjaldið.

Er Móse var kominn inn í tjaldið, steig skýstólpinn niður og nam staðar við tjalddyrnar, og Drottinn talaði við Móse.

10 Og allur lýðurinn sá skýstólpann standa við tjalddyrnar. Stóð þá allt fólkið upp og féll fram, hver fyrir sínum tjalddyrum.

11 En Drottinn talaði við Móse augliti til auglitis, eins og maður talar við mann. Því næst gekk Móse aftur til herbúðanna, en þjónn hans, sveinninn Jósúa Núnsson, vék ekki burt úr tjaldinu.

12 Móse sagði við Drottin: "Sjá, þú segir við mig: ,Far með fólk þetta.` En þú hefir ekki látið mig vita, hvern þú ætlar að senda með mér. Og þó hefir þú sagt: ,Ég þekki þig með nafni, og þú hefir einnig fundið náð í augum mínum.`

13 Hafi ég nú fundið náð í augum þínum, þá bið ég: Gjör mér kunna þína vegu, að ég megi þekkja þig, svo að ég finni náð í augum þínum, og gæt þess, að þjóð þessi er þinn lýður."

14 Drottinn sagði: "Auglit mitt mun fara með og búa þér hvíld."

15 Móse sagði við hann: "Fari auglit þitt eigi með, þá lát oss eigi fara héðan.

16 Af hverju mega menn ella vita, að ég og lýður þinn hafi fundið náð í augum þínum? Hvort eigi af því, að þú farir með oss, og ég og þinn lýður verðum ágættir framar öllum þjóðum, sem á jörðu búa?"

17 Þá sagði Drottinn við Móse: "Einnig þetta, er þú nú mæltir, vil ég gjöra, því að þú hefir fundið náð í augum mínum, og ég þekki þig með nafni."

18 En Móse sagði: "Lát mig þá sjá dýrð þína!"

19 Hann svaraði: "Ég vil láta allan minn ljóma líða fram hjá þér, og ég vil kalla nafnið Drottinn frammi fyrir þér. Og ég vil líkna þeim, sem ég vil líkna, og miskunna þeim, sem ég vil miskunna."

20 Og enn sagði hann: "Þú getur eigi séð auglit mitt, því að enginn maður fær séð mig og lífi haldið."

21 Drottinn sagði: "Sjá, hér er staður hjá mér, og skalt þú standa uppi á berginu.

22 En þegar dýrð mín fer fram hjá, vil ég láta þig standa í bergskorunni, og mun ég byrgja þig með hendi minni, uns ég er kominn fram hjá.

23 En þegar ég tek hönd mína frá, munt þú sjá á bak mér. En auglit mitt fær enginn maður séð."

Jóhannesarguðspjall 12

12 Sex dögum fyrir páska kom Jesús til Betaníu, þar sem Lasarus var, sá er hann vakti frá dauðum.

Þar var honum búinn kvöldverður, og Marta gekk um beina, en Lasarus var einn þeirra, sem að borði sátu með honum.

Þá tók María pund af ómenguðum, dýrum nardussmyrslum og smurði fætur Jesú og þerraði með hári sínu fætur hans. En húsið fylltist ilmi smyrslanna.

Segir þá Júdas Ískaríot, einn lærisveina hans, sá er mundi svíkja hann:

"Hví voru þessi smyrsl ekki seld fyrir þrjú hundruð denara og gefin fátækum?"

Ekki sagði hann þetta af því, að hann léti sér annt um fátæka, heldur af því, að hann var þjófur. Hann hafði pyngjuna og tók það, sem í hana var látið.

Þá sagði Jesús: "Lát hana í friði. Hún hefur geymt þetta til greftrunardags míns.

Fátæka hafið þér ætíð hjá yður, en mig hafið þér ekki ávallt."

Nú komst allur fjöldi Gyðinga að því, að Jesús væri þarna, og þeir komu þangað, ekki aðeins hans vegna, heldur og til að sjá Lasarus, sem hann hafði vakið frá dauðum.

10 Þá réðu æðstu prestarnir af að taka einnig Lasarus af lífi,

11 því vegna hans sneru margir Gyðingar baki við þeim og fóru að trúa á Jesú.

12 Sá mikli mannfjöldi, sem kominn var til hátíðarinnar, frétti degi síðar, að Jesús væri að koma til Jerúsalem.

13 Þeir tóku þá pálmagreinar, fóru út á móti honum og hrópuðu: "Hósanna! Blessaður sé sá, sem kemur, í nafni Drottins, konungur Ísraels!"

14 Jesús fann ungan asna og settist á bak honum, eins og skrifað er:

15 Óttast ekki, dóttir Síon. Sjá, konungur þinn kemur, ríðandi á ösnufola.

16 Lærisveinar hans skildu þetta ekki í fyrstu, en þegar Jesús var dýrlegur orðinn, minntust þeir þess, að þetta var ritað um hann og að þeir höfðu gjört þetta fyrir hann.

17 Nú vitnaði fólkið, sem með honum var, þegar hann kallaði Lasarus út úr gröfinni og vakti hann frá dauðum.

18 Vegna þess fór einnig mannfjöldinn á móti honum, því menn höfðu heyrt, að hann hefði gjört þetta tákn.

19 Því sögðu farísear sín á milli: "Þér sjáið, að þér ráðið ekki við neitt. Allur heimurinn eltir hann."

20 Grikkir nokkrir voru meðal þeirra, sem fóru upp eftir til að biðjast fyrir á hátíðinni.

21 Þeir komu til Filippusar frá Betsaídu í Galíleu, báðu hann og sögðu: "Herra, oss langar að sjá Jesú."

22 Filippus kemur og segir það Andrési. Andrés og Filippus fara og segja Jesú.

23 Jesús svaraði þeim: "Stundin er komin, að Mannssonurinn verði gjörður dýrlegur.

24 Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef hveitikornið fellur ekki í jörðina og deyr, verður það áfram eitt. En ef það deyr, ber það mikinn ávöxt.

25 Sá sem elskar líf sitt, glatar því, en sá sem hatar líf sitt í þessum heimi, mun varðveita það til eilífs lífs.

26 Sá sem þjónar mér, fylgi mér eftir, og hvar sem ég er, þar mun og þjónn minn vera. Þann sem þjónar mér, mun faðirinn heiðra.

27 Nú er sál mín skelfd, og hvað á ég að segja? Faðir, frelsa mig frá þessari stundu? Nei, til þessa er ég kominn að þessari stundu:

28 Faðir, gjör nafn þitt dýrlegt!" Þá kom rödd af himni: "Ég hef gjört það dýrlegt og mun enn gjöra það dýrlegt."

29 Mannfjöldinn, sem hjá stóð og hlýddi á, sagði, að þruma hefði riðið yfir. En aðrir sögðu: "Engill var að tala við hann."

30 Jesús svaraði þeim: "Þessi rödd kom ekki mín vegna, heldur yðar vegna.

31 Nú gengur dómur yfir þennan heim. Nú skal höfðingja þessa heims út kastað.

32 Og þegar ég verð hafinn upp frá jörðu, mun ég draga alla til mín."

33 Þetta sagði hann til að gefa til kynna, með hvaða hætti hann átti að deyja.

34 Mannfjöldinn svaraði honum: "Lögmálið segir oss, að Kristur muni verða til eilífðar. Hvernig getur þú sagt, að Mannssonurinn eigi að verða upp hafinn? Hver er þessi Mannssonur?"

35 Þá sagði Jesús við þá: "Skamma stund er ljósið enn á meðal yðar. Gangið, meðan þér hafið ljósið, svo að myrkrið hremmi yður ekki. Sá sem gengur í myrkri, veit ekki, hvert hann fer.

36 Trúið á ljósið, meðan þér hafið ljósið, svo að þér verðið börn ljóssins." Þetta mælti Jesús og fór burt og duldist þeim.

37 Þótt hann hefði gjört svo mörg tákn fyrir augum þeirra, trúðu þeir ekki á hann,

38 svo að rættist orð Jesaja spámanns, er hann mælti: Drottinn, hver trúði boðun vorri, og hverjum varð armur Drottins opinber?

39 Þess vegna gátu þeir ekki trúað, enda segir Jesaja á öðrum stað:

40 Hann hefur blindað augu þeirra og forhert hjarta þeirra, að þeir sjái ekki með augunum né skilji með hjartanu og snúi sér og ég lækni þá.

41 Jesaja sagði þetta af því að hann sá dýrð hans og talaði um hann.

42 Samt trúðu margir á hann, jafnvel höfðingjar, en gengust ekki við því vegna faríseanna, svo að þeir yrðu ekki samkundurækir.

43 Þeir kusu heldur heiður manna en heiður frá Guði.

44 En Jesús hrópaði: "Sá sem trúir á mig, trúir ekki á mig, heldur þann sem sendi mig,

45 og sá sem sér mig, sér þann er sendi mig.

46 Ég er ljós í heiminn komið, svo að enginn, sem á mig trúir, sé áfram í myrkri.

47 Ef nokkur heyrir orð mín og gætir þeirra ekki, þá dæmi ég hann ekki. Ég er ekki kominn til að dæma heiminn, heldur til að frelsa heiminn.

48 Sá sem hafnar mér og tekur ekki við orðum mínum, hefur sinn dómara: Orðið, sem ég hef talað, verður dómari hans á efsta degi.

49 Því ég hef ekki talað af sjálfum mér, heldur hefur faðirinn, sem sendi mig, boðið mér, hvað ég skuli segja og hvað ég skuli tala.

50 Og ég veit, að boðorð hans er eilíft líf. Það sem ég tala, það tala ég því eins og faðirinn hefur sagt mér."

Orðskviðirnir 9

Spekin hefir reist sér hús, höggvið til sjö stólpa sína.

Hún hefir slátrað sláturfé sínu, byrlað vín sitt, já, hún hefir þegar búið borð sitt.

Hún hefir sent út þernur sínar, hún kallar á háum stöðum í borginni:

"Hver, sem óreyndur er, komi hingað!" Við þann, sem óvitur er, segir hún:

"Komið, etið mat minn og drekkið vínið, sem ég hefi byrlað.

Látið af heimskunni, þá munuð þér lifa, og fetið veg hyggindanna."

Sá sem áminnir spottara, bakar sér smán, og þeim sem ávítar óguðlegan, verður það til vansa.

Ávíta eigi spottarann, svo að hann hati þig eigi, ávíta hinn vitra, og hann mun elska þig.

Gef hinum vitra, þá verður hann að vitrari, fræð hinn réttláta, og hann mun auka lærdóm sinn.

10 Ótti Drottins er upphaf viskunnar og að þekkja Hinn heilaga eru hyggindi.

11 Því að fyrir mitt fulltingi munu dagar þínir verða margir og ár lífs þíns aukast.

12 Sért þú vitur, þá ert þú vitur þér til góðs, en sért þú spottari, þá mun það bitna á þér einum.

13 Frú Heimska er óhemja, einföld og veit ekkert.

14 Hún situr úti fyrir húsdyrum sínum, á stól uppi á háu stöðunum í borginni

15 til þess að kalla á þá, sem um veginn fara, þá er ganga beint áfram leið sína:

16 "Hver sem óreyndur er, komi hingað!" og við þann sem óvitur er, segir hún:

17 "Stolið vatn er sætt, og lostætt er launetið brauð."

18 Og hann veit ekki, að þar eru hinir framliðnu, að þeir sem hún hefir boðið heim, eru í djúpum Heljar.

Bréf Páls til Efesusmanna 2

Þér voruð eitt sinn dauðir vegna afbrota yðar og synda,

sem þér lifðuð í samkvæmt aldarhætti þessa heims, að vilja valdhafans í loftinu, anda þess, sem nú starfar í þeim, sem ekki trúa.

Vér lifðum fyrrum allir eins og þeir í mannlegum girndum vorum. Þá lutum vér vilja holdsins og hugsana vorra og vorum að eðli til reiðinnar börn alveg eins og hinir.

En Guð er auðugur að miskunn. Af mikilli elsku sinni, sem hann gaf oss,

hefur hann endurlífgað oss með Kristi, þegar vér vorum dauðir vegna misgjörða vorra. Af náð eruð þér hólpnir orðnir.

Guð hefur uppvakið oss í Kristi Jesú og búið oss stað í himinhæðum með honum.

Þannig vildi hann á komandi öldum sýna hinn yfirgnæfandi ríkdóm náðar sinnar með gæsku sinni við oss í Kristi Jesú.

Því að af náð eruð þér hólpnir orðnir fyrir trú. Þetta er ekki yður að þakka. Það er Guðs gjöf.

Ekki byggt á verkum, enginn skal geta miklast af því.

10 Vér erum smíð Guðs, skapaðir í Kristi Jesú til góðra verka, sem hann hefur áður fyrirbúið, til þess að vér skyldum leggja stund á þau.

11 Þér skuluð því minnast þessa: Þér voruð forðum fæddir heiðingjar og kallaðir óumskornir af mönnum, sem kalla sig umskorna og eru umskornir á holdi með höndum manna.

12 Sú var tíðin, er þér voruð án Krists, lokaðir úti frá þegnrétti Ísraelsmanna. Þér stóðuð fyrir utan sáttmálana og fyrirheit Guðs, vonlausir og guðvana í heiminum.

13 Nú þar á móti eruð þér, sem eitt sinn voruð fjarlægir, orðnir nálægir í Kristi, fyrir blóð hans.

14 Því að hann er vor friður. Hann gjörði báða að einum og reif niður vegginn, sem skildi þá að, fjandskapinn milli þeirra. Með líkama sínum

15 afmáði hann lögmálið með boðorðum þess og skipunum til þess að setja frið og skapa í sér einn nýjan mann úr báðum.

16 Í einum líkama sætti hann þá báða við Guð á krossinum, þar sem hann deyddi fjandskapinn.

17 Og hann kom og boðaði frið yður, sem fjarlægir voruð, og frið hinum, sem nálægir voru.

18 Því að fyrir hann eigum vér hvorir tveggja aðgang til föðurins í einum anda.

19 Þess vegna eruð þér ekki framar gestir og útlendingar, heldur eruð þér samþegnar hinna heilögu og heimamenn Guðs.

20 Þér eruð bygging, sem hefur að grundvelli postulana og spámennina, en Krist Jesú sjálfan að hyrningarsteini.

21 Í honum er öll byggingin samantengd og vex svo, að hún verður heilagt musteri í Drottni.

22 Í honum verðið þér líka bústaður handa Guði fyrir anda hans.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society