M’Cheyne Bible Reading Plan
30 Þú skalt gjöra altari til að brenna á reykelsi. Það skalt þú búa til af akasíuviði.
2 Það skal vera álnarlangt og álnarbreitt, ferhyrnt, tveggja álna hátt og horn þess áföst við það.
3 Þú skalt leggja það skíru gulli, bæði að ofan og á hliðunum allt í kring, svo og horn þess, og þú skalt gjöra brún af gulli á því allt í kring.
4 Þú skalt gjöra á því tvo hringa af gulli fyrir neðan brúnina báðumegin. Þú skalt gjöra þá á báðum hliðum þess, þeir skulu vera til að smeygja í stöngum til að bera það á.
5 Og þú skalt gjöra stengurnar af akasíuviði og gullleggja þær.
6 Þú skalt setja það fyrir framan fortjaldið, sem er fyrir sáttmálsörkinni, fyrir framan lokið, sem er yfir sáttmálinu, þar sem ég vil eiga samfundi við þig.
7 Og Aron skal brenna ilmreykelsi á því, hann skal brenna því á hverjum morgni, þegar hann tilreiðir lampana.
8 Þegar Aron setur upp lampana um sólsetur, skal hann og brenna reykelsi. Það skal vera stöðug reykelsisfórn frammi fyrir Drottni hjá yður frá kyni til kyns.
9 Þér skuluð ekki fórna annarlegu reykelsi á því, né heldur brennifórn eða matfórn, og eigi megið þér dreypa dreypifórn á því.
10 Aron skal friðþægja fyrir horn þess einu sinni á ári. Með blóðinu úr syndafórn friðþægingarinnar skal hann friðþægja fyrir það einu sinni á ári hjá yður frá kyni til kyns. Það er háheilagt fyrir Drottni."
11 Drottinn talaði við Móse og sagði:
12 "Þegar þú tekur manntal meðal Ísraelsmanna við liðskönnun, þá skulu þeir hver um sig greiða Drottni gjald til lausnar lífi sínu, þegar þeir eru kannaðir, svo að engin plága komi yfir þá vegna liðskönnunarinnar.
13 Þetta skal hver sá gjalda, sem talinn er í liðskönnun: hálfan sikil eftir helgidómssikli _ tuttugu gerur í sikli, _ hálfan sikil sem fórnargjöf til Drottins.
14 Hver sem talinn er í liðskönnun, tvítugur og þaðan af eldri, skal greiða Drottni fórnargjöf.
15 Hinn ríki skal eigi greiða meira og hinn fátæki ekki minna en hálfan sikil, er þér færið Drottni fórnargjöf til þess að friðþægja fyrir sálir yðar.
16 Og þú skalt taka þetta friðþægingargjald af Ísraelsmönnum og leggja það til þjónustu samfundatjaldsins. Það skal vera Ísraelsmönnum til minningar frammi fyrir Drottni, að það friðþægi fyrir sálir yðar."
17 Drottinn talaði við Móse og sagði:
18 "Þú skalt gjöra eirker með eirstétt til þvottar, og þú skalt setja það milli samfundatjaldsins og altarisins og láta vatn í það,
19 og skulu þeir Aron og synir hans þvo hendur sínar og fætur úr því.
20 Þegar þeir ganga inn í samfundatjaldið, skulu þeir þvo sér úr vatni, svo að þeir deyi ekki; eða þegar þeir ganga að altarinu til þess að embætta, til þess að brenna eldfórn Drottni til handa,
21 þá skulu þeir þvo hendur sínar og fætur, svo að þeir deyi ekki. Þetta skal vera þeim ævarandi lögmál fyrir hann og niðja hans frá kyni til kyns."
22 Drottinn talaði við Móse og sagði:
23 "Tak þér hinar ágætustu kryddjurtir, fimm hundruð sikla af sjálfrunninni myrru, hálfu minna, eða tvö hundruð og fimmtíu sikla, af ilmandi kanelberki og tvö hundruð og fimmtíu sikla af ilmreyr,
24 og fimm hundruð sikla af kanelviði eftir helgidómssikli og eina hín af olífuberjaolíu.
25 Af þessu skalt þú gjöra heilaga smurningarolíu, ilmsmyrsl, til búin að hætti smyrslara. Skal það vera heilög smurningarolía.
26 Með þessu skalt þú smyrja samfundatjaldið og sáttmálsörkina,
27 borðið með öllum áhöldum þess, ljósastikuna með öllum áhöldum hennar og reykelsisaltarið,
28 brennifórnaraltarið með öllum áhöldum þess, kerið og stétt þess.
29 Og skalt þú vígja þau, svo að þau verði háheilög. Hver sem snertir þau, skal vera helgaður.
30 Þú skalt og smyrja Aron og sonu hans og vígja þá til að þjóna mér í prestsembætti.
31 Þú skalt tala til Ísraelsmanna og segja: ,Þetta skal vera mér heilög smurningarolía hjá yður frá kyni til kyns.`
32 Eigi má dreypa henni á nokkurs manns hörund, og með sömu gerð skuluð þér eigi til búa nein smyrsl. Helg er hún, og helg skal hún yður vera.
33 Hver sem býr til sams konar smyrsl eða ber nokkuð af þeim á óvígðan mann, skal upprættur verða úr þjóð sinni."
34 Drottinn sagði við Móse: "Tak þér ilmjurtir, balsam, marnögl og galbankvoðu, ilmjurtir ásamt hreinu reykelsi. Skal vera jafnt af hverju.
35 Og þú skalt búa til úr því ilmreykelsi að hætti smyrslara, salti kryddað, hreint og heilagt.
36 Og nokkuð af því skalt þú mylja smátt og leggja það fyrir framan sáttmálið í samfundatjaldinu, þar sem ég vil eiga samfundi við þig. Það skal vera yður háheilagt.
37 Reykelsi, eins og þú til býr með þessari gerð, megið þér ekki búa til handa yður sjálfum. Skalt þú meta það sem Drottni helgað.
38 Skyldi einhver búa til nokkuð þvílíkt til þess að gæða sér með ilm þess, skal hann upprættur verða úr þjóð sinni."
9 Á leið sinni sá hann mann, sem var blindur frá fæðingu.
2 Lærisveinar hans spurðu hann: "Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans, fyrst hann fæddist blindur?"
3 Jesús svaraði: "Hvorki er það af því, að hann hafi syndgað eða foreldrar hans, heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum.
4 Oss ber að vinna verk þess, er sendi mig, meðan dagur er. Það kemur nótt, þegar enginn getur unnið.
5 Meðan ég er í heiminum, er ég ljós heimsins."
6 Að svo mæltu skyrpti hann á jörðina, gjörði leðju úr munnvatninu, strauk leðju á augu hans
7 og sagði við hann: "Farðu og þvoðu þér í lauginni Sílóam." (Sílóam þýðir sendur.) Hann fór og þvoði sér og kom sjáandi.
8 Nágrannar hans og þeir, sem höfðu áður séð hann ölmusumann, sögðu þá: "Er þetta ekki sá, er setið hefur og beðið sér ölmusu?"
9 Sumir sögðu: "Sá er maðurinn," en aðrir sögðu: "Nei, en líkur er hann honum." Sjálfur sagði hann: "Ég er sá."
10 Þá sögðu þeir við hann: "Hvernig opnuðust augu þín?"
11 Hann svaraði: "Maður að nafni Jesús gjörði leðju og smurði á augu mín og sagði mér að fara til Sílóam og þvo mér. Ég fór og fékk sjónina, þegar ég var búinn að þvo mér."
12 Þeir sögðu við hann: "Hvar er hann?" Hann svaraði: "Það veit ég ekki."
13 Þeir fara til faríseanna með manninn, sem áður var blindur.
14 En þá var hvíldardagur, þegar Jesús bjó til leðjuna og opnaði augu hans.
15 Farísearnir spurðu hann nú líka, hvernig hann hefði fengið sjónina. Hann svaraði þeim: "Hann lagði leðju á augu mín, ég þvoði mér, og nú sé ég."
16 Þá sögðu nokkrir farísear: "Þessi maður er ekki frá Guði, fyrst hann heldur ekki hvíldardaginn." Aðrir sögðu: "Hvernig getur syndugur maður gjört þvílík tákn?" Og ágreiningur varð með þeim.
17 Þá segja þeir aftur við hinn blinda: "Hvað segir þú um hann, fyrst hann opnaði augu þín?" Hann sagði: "Hann er spámaður."
18 Gyðingar trúðu því ekki, að hann, sem sjónina fékk, hefði verið blindur, og kölluðu fyrst á foreldra hans
19 og spurðu þá: "Er þetta sonur ykkar, sem þið segið að hafi fæðst blindur? Hvernig er hann þá orðinn sjáandi?"
20 Foreldrar hans svöruðu: "Við vitum, að þessi maður er sonur okkar og að hann fæddist blindur.
21 En hvernig hann er nú orðinn sjáandi, vitum við ekki, né heldur vitum við, hver opnaði augu hans. Spyrjið hann sjálfan. Hann hefur aldur til. Hann getur svarað fyrir sig."
22 Þetta sögðu foreldrar hans af ótta við Gyðinga. Því Gyðingar höfðu þegar samþykkt, að ef nokkur játaði, að Jesús væri Kristur, skyldi hann samkundurækur.
23 Vegna þessa sögðu foreldrar hans: "Hann hefur aldur til, spyrjið hann sjálfan."
24 Nú kölluðu þeir í annað sinn á manninn, sem blindur hafði verið, og sögðu við hann: "Gef þú Guði dýrðina. Vér vitum, að þessi maður er syndari."
25 Hann svaraði: "Ekki veit ég, hvort hann er syndari. En eitt veit ég, að ég, sem var blindur, er nú sjáandi."
26 Þá sögðu þeir við hann: "Hvað gjörði hann við þig? Hvernig opnaði hann augu þín?"
27 Hann svaraði þeim: "Ég er búinn að segja yður það, og þér hlustuðuð ekki á það. Hví viljið þér heyra það aftur? Viljið þér líka verða lærisveinar hans?"
28 Þeir atyrtu hann og sögðu: "Þú ert lærisveinn hans, vér erum lærisveinar Móse.
29 Vér vitum, að Guð talaði við Móse, en um þennan vitum vér ekki, hvaðan hann er."
30 Maðurinn svaraði þeim: "Þetta er furðulegt, að þér vitið ekki, hvaðan hann er, og þó opnaði hann augu mín.
31 Vér vitum, að Guð heyrir ekki syndara. En ef einhver er guðrækinn og gjörir vilja hans, þann heyrir hann.
32 Frá alda öðli hefur ekki heyrst, að nokkur hafi opnað augu þess, sem blindur var borinn.
33 Ef þessi maður væri ekki frá Guði, gæti hann ekkert gjört."
34 Þeir svöruðu honum: "Þú ert syndum vafinn frá fæðingu og ætlar að kenna oss!" Og þeir ráku hann út.
35 Jesús heyrði, að þeir hefðu rekið hann út. Hann fann hann og sagði við hann: "Trúir þú á Mannssoninn?"
36 Hinn svaraði: "Herra, hver er sá, að ég megi trúa á hann?"
37 Jesús sagði við hann: "Þú hefur séð hann, hann er sá sem er nú að tala við þig."
38 En hann sagði: "Ég trúi, herra," og féll fram fyrir honum.
39 Jesús sagði: "Til dóms er ég kominn í þennan heim, svo að blindir sjái og hinir sjáandi verði blindir."
40 Þetta heyrðu þeir farísear, sem með honum voru, og spurðu: "Erum vér þá líka blindir?"
41 Jesús sagði við þá: "Ef þér væruð blindir, væruð þér án sakar. En nú segist þér vera sjáandi, því varir sök yðar."
6 Son minn, hafir þú gengið í ábyrgð fyrir náunga þinn, hafir þú gengið til handsala fyrir annan mann,
2 hafir þú ánetjað þig með orðum munns þíns, látið veiðast með orðum munns þíns,
3 þá gjör þetta, son minn, til að losa þig _ því að þú ert kominn á vald náunga þíns _ far þú, varpa þér niður og legg að náunga þínum.
4 Lát þér eigi koma dúr á auga, né blund á brá.
5 Losa þig eins og skógargeit úr höndum hans, eins og fugl úr höndum fuglarans.
6 Far þú til maursins, letingi! skoða háttu hans og verð hygginn.
7 Þótt hann hafi engan höfðingja, engan yfirboðara eða valdsherra,
8 þá aflar hann sér samt vista á sumrin og dregur saman fæðu sína um uppskerutímann.
9 Hversu lengi ætlar þú, letingi, að hvílast? hvenær ætlar þú að rísa af svefni?
10 Sofa ögn enn, blunda ögn enn, leggja saman hendurnar ögn enn til að hvílast!
11 Þá kemur fátæktin yfir þig eins og ræningi og skorturinn eins og vopnaður maður.
12 Varmenni, illmenni er sá, sem gengur um með fláttskap í munni,
13 sem deplar augunum, gefur merki með fótunum, bendir með fingrunum,
14 elur fláræði í hjarta sínu, upphugsar ávallt illt, kveikir illdeilur.
15 Fyrir því mun ógæfa skyndilega yfir hann koma, snögglega mun hann sundurmolast og engin lækning fást.
16 Sex hluti hatar Drottinn og sjö eru sálu hans andstyggð:
17 drembileg augu, lygin tunga og hendur sem úthella saklausu blóði,
18 hjarta sem bruggar glæpsamleg ráð, fætur sem fráir eru til illverka,
19 ljúgvottur sem lygar mælir, og sá er kveikir illdeilur meðal bræðra.
20 Varðveit þú, son minn, boðorð föður þíns og hafna eigi viðvörun móður þinnar.
21 Fest þau á hjarta þitt stöðuglega, bind þau um háls þinn.
22 Þegar þú ert á gangi, þá leiði þau þig, þegar þú hvílist, vaki þau yfir þér, og þegar þú vaknar, þá ræði þau við þig.
23 Því að boðorð er lampi og viðvörun ljós og agandi áminningar leið til lífsins,
24 með því að þær varðveita þig fyrir vondri konu, fyrir hálli tungu hinnar lauslátu.
25 Girnst eigi fríðleik hennar í hjarta þínu og lát hana eigi töfra þig með augnahárum sínum.
26 Því að skækja fæst fyrir einn brauðhleif, og hórkona sækist eftir dýru lífi.
27 Getur nokkur borið svo eld í barmi sínum, að föt hans sviðni ekki?
28 Eða getur nokkur gengið á glóðum án þess að brenna sig á fótunum?
29 Svo fer þeim, sem hefir mök við konu náunga síns, enginn sá kemst klakklaust af, sem hana snertir.
30 Fyrirlíta menn eigi þjófinn, þó að hann steli til þess að seðja hungur sitt?
31 Og náist hann, verður hann að borga sjöfalt, verður að láta allar eigur húss síns.
32 En sá sem drýgir hór með giftri konu, er vitstola, sá einn gjörir slíkt, er tortíma vill sjálfum sér.
33 Högg og smán mun hann hljóta, og skömm hans mun aldrei afmáð verða.
34 Því að afbrýði er karlmanns-reiði, og hann hlífir ekki á hefndarinnar degi.
35 Hann lítur ekki við neinum bótum og friðast eigi, þótt þú ryðjir í hann gjöfum.
5 Til frelsis frelsaði Kristur oss. Standið því stöðugir og látið ekki aftur leggja á yður ánauðarok.
2 Takið eftir því, sem ég, Páll, segi yður: Ef þér látið umskerast, þá gagnar Kristur yður ekkert.
3 Og enn vitna ég fyrir hverjum manni, sem lætur umskerast: Hann er skyldur til að halda allt lögmálið.
4 Þér eruð orðnir viðskila við Krist, þér sem ætlið að réttlætast með lögmáli. Þér eruð fallnir úr náðinni.
5 En vér væntum í andanum að öðlast af trúnni réttlætinguna, sem er von vor.
6 Í Kristi Jesú er ekkert komið undir umskurn né yfirhúð, heldur undir trú, sem starfar í kærleika.
7 Þér hlupuð vel. Hver hefur hindrað yður í að hlýða sannleikanum?
8 Þær fortölur voru ekki frá honum, sem kallaði yður.
9 Lítið súrdeig sýrir allt deigið.
10 Ég hef það traust til yðar í Drottni, að þér verðið sama sinnis og ég. Sá sem truflar yður mun bera sinn dóm, hver sem hann svo er.
11 En hvað mig snertir, bræður, ef ég er enn þá að prédika umskurn, hví er þá enn verið að ofsækja mig? Þá væri hneyksli krossins tekið burt.
12 Vel mættu þeir, sem koma yður í uppnám, aflima sig.
13 Þér voruð, bræður, kallaðir til frelsis. Notið aðeins ekki frelsið til færis fyrir holdið, heldur þjónið hver öðrum í kærleika.
14 Allt lögmálið er uppfyllt með þessu eina boðorði: "Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig."
15 En ef þér bítist og etið hver annan upp, þá gætið þess, að þér tortímist ekki hver fyrir öðrum.
16 En ég segi: Lifið í andanum, og þá fullnægið þér alls ekki girnd holdsins.
17 Holdið girnist gegn andanum, og andinn gegn holdinu. Þau standa hvort gegn öðru, til þess að þér gjörið ekki það, sem þér viljið.
18 En ef þér leiðist af andanum, þá eruð þér ekki undir lögmáli.
19 Holdsins verk eru augljós: Frillulífi, óhreinleiki, saurlífi,
20 skurðgoðadýrkun, fjölkynngi, fjandskapur, deilur, metingur, reiði, eigingirni, tvídrægni, flokkadráttur,
21 öfund, ofdrykkja, svall og annað þessu líkt. Og það segi ég yður fyrir, eins og ég hef áður sagt, að þeir, sem slíkt gjöra, munu ekki erfa Guðs ríki.
22 En ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska,
23 hógværð og bindindi. Gegn slíku er lögmálið ekki.
24 En þeir, sem tilheyra Kristi Jesú, hafa krossfest holdið með ástríðum þess og girndum.
25 Fyrst andinn er líf vort skulum vér lifa í andanum!
26 Verum ekki hégómagjarnir, svo að vér áreitum hver annan og öfundum hver annan.
by Icelandic Bible Society