Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Önnur bók Móse 27

27 Þú skalt gjöra altarið af akasíuviði, fimm álna langt og fimm álna breitt _ ferhyrnt skal altarið vera _ og þriggja álna hátt.

Og þú skalt gjöra hornin á því upp af fjórum hyrningum þess, _ þau horn skulu vera áföst við það _, og þú skalt eirleggja það.

Þú skalt gjöra ker undir öskuna, eldspaða þá, fórnarskálir, soðkróka og eldpönnur, sem altarinu fylgja. Öll áhöld þess skalt þú gjöra af eiri.

Þú skalt gjöra um altarið eirgrind, eins og riðið net, og setja fjóra eirhringa á netið, á fjögur horn altarisins.

Grindina skalt þú festa fyrir neðan umgjörð altarisins undir niðri, svo að netið taki upp á mitt altarið.

Og þú skalt gjöra stengur til altarisins, stengur af akasíuviði, og eirleggja þær.

Skal smeygja stöngunum í hringana, og skulu stengurnar vera á báðum hliðum altarisins, þegar það er borið.

Þú skalt gjöra altarið af borðum, holt að innan. Þeir skulu gjöra það eins og þér var sýnt uppi á fjallinu.

Þannig skalt þú gjöra forgarð tjaldbúðarinnar: Á suðurhliðinni skulu tjöld vera fyrir forgarðinum úr tvinnaðri baðmull, hundrað álna löng á þá hliðina,

10 og tuttugu stólpar með tuttugu undirstöðum af eiri, en naglar stólpanna og hringrandir þeirra skulu vera af silfri.

11 Sömuleiðis skulu að norðanverðu langsetis vera hundrað álna löng tjöld og tuttugu stólpar með tuttugu undirstöðum af eiri, en naglar í stólpunum og hringrandir á þeim skulu vera af silfri.

12 En á þverhlið forgarðsins að vestanverðu skulu vera fimmtíu álna löng tjöld og tíu stólpar með tíu undirstöðum.

13 Þverhlið forgarðsins að austanverðu, mót uppkomu sólar, skal vera fimmtíu álnir,

14 og skulu vera fimmtán álna tjöld annars vegar með þremur stólpum og þremur undirstöðum,

15 og hins vegar sömuleiðis fimmtán álna tjöld með þremur stólpum og þremur undirstöðum.

16 Fyrir hliði forgarðsins skal vera tuttugu álna dúkbreiða af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, glitofin, með fjórum stólpum og fjórum undirstöðum.

17 Allir stólpar umhverfis forgarðinn skulu vera með hringröndum af silfri og silfurnöglum og undirstöðurnar af eiri.

18 Lengd forgarðsins skal vera hundrað álnir og breiddin fimmtíu álnir og hæðin fimm álnir, úr tvinnaðri baðmull og undirstöðurnar af eiri.

19 Öll áhöld tjaldbúðarinnar, til hverrar þjónustugjörðar í henni sem vera skal, svo og allir hælar, sem henni tilheyra, og allir hælar, sem forgarðinum tilheyra, skulu vera af eiri.

20 Þú skalt bjóða Ísraelsmönnum að færa þér tæra olíu af steyttum olífuberjum til ljósastikunnar, svo að lampar verði ávallt settir upp.

21 Í samfundatjaldinu fyrir utan fortjaldið, sem er fyrir framan sáttmálið, skal Aron og synir hans tilreiða þá frammi fyrir Drottni, frá kveldi til morguns. Er það ævinleg skyldugreiðsla, er á Ísraelsmönnum hvílir frá kyni til kyns.

Jóhannesarguðspjall 6

Eftir þetta fór Jesús yfir um Galíleuvatn eða Tíberíasvatn.

Mikill fjöldi manna fylgdi honum, því þeir sáu þau tákn, er hann gjörði á sjúku fólki.

Þá fór Jesús upp á fjallið og settist þar niður með lærisveinum sínum.

Þetta var laust fyrir páska, hátíð Gyðinga.

Jesús leit upp og sá, að mikill mannfjöldi kom til hans. Hann segir þá við Filippus: "Hvar eigum vér að kaupa brauð, að þessir menn fái að eta?"

En þetta sagði hann til að reyna hann, því hann vissi sjálfur, hvað hann ætlaði að gjöra.

Filippus svaraði honum: "Brauð fyrir tvö hundruð denara nægðu þeim ekki, svo að hver fengi lítið eitt."

Annar lærisveinn hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, segir þá við hann:

"Hér er piltur, sem er með fimm byggbrauð og tvo fiska, en hvað er það handa svo mörgum?"

10 Jesús sagði: "Látið fólkið setjast niður." Þarna var gras mikið. Menn settust nú niður, um fimm þúsund karlmenn að tölu.

11 Nú tók Jesús brauðin, gjörði þakkir og skipti þeim út til þeirra, sem þar sátu, og eins af fiskunum, svo mikið sem þeir vildu.

12 Þegar þeir voru mettir, segir hann við lærisveina sína: "Safnið saman leifunum, svo ekkert spillist."

13 Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu tólf körfur með leifum byggbrauðanna fimm, sem af gengu hjá þeim, er neytt höfðu.

14 Þegar menn sáu táknið, sem hann gjörði, sögðu þeir: "Þessi maður er sannarlega spámaðurinn, sem koma skal í heiminn."

15 Jesús vissi nú, að þeir mundu koma og taka hann með valdi til að gjöra hann að konungi, og vék því aftur upp til fjallsins einn síns liðs.

16 Þegar kvöld var komið, fóru lærisveinar hans niður að vatninu,

17 stigu út í bát og lögðu af stað yfir um vatnið til Kapernaum. Myrkur var skollið á, og Jesús var ekki enn kominn til þeirra.

18 Vind gerði hvassan, og tók vatnið að æsast.

19 Þegar þeir höfðu róið hér um bil tuttugu og fimm eða þrjátíu skeiðrúm, sáu þeir Jesú gangandi á vatninu og nálgast bátinn. Þeir urðu hræddir,

20 en hann sagði við þá: "Það er ég, óttist eigi."

21 Þeir vildu þá taka hann í bátinn, en í sömu svifum rann báturinn að landi, þar sem þeir ætluðu að lenda.

22 Daginn eftir sá fólkið, sem eftir var handan vatnsins, að þar hafði ekki verið nema einn bátur og að Jesús hafði ekki stigið í bátinn með lærisveinum sínum, heldur höfðu þeir farið burt einir saman.

23 Aðrir bátar komu frá Tíberías í nánd við staðinn, þar sem þeir höfðu etið brauðið, þegar Drottinn gjörði þakkir.

24 Nú sáu menn, að Jesús var ekki þarna fremur en lærisveinar hans. Þeir stigu því í bátana og komu til Kapernaum í leit að Jesú.

25 Þeir fundu hann hinum megin við vatnið og spurðu hann: "Rabbí, nær komstu hingað?"

26 Jesús svaraði þeim: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér leitið mín ekki af því, að þér sáuð tákn, heldur af því, að þér átuð af brauðunum og urðuð mettir.

27 Aflið yður eigi þeirrar fæðu, sem eyðist, heldur þeirrar fæðu, sem varir til eilífs lífs og Mannssonurinn mun gefa yður. Því á hann hefur faðirinn, Guð sjálfur, sett innsigli sitt."

28 Þá sögðu þeir við hann: "Hvað eigum vér að gjöra, svo að vér vinnum verk Guðs?"

29 Jesús svaraði þeim: "Þetta er verk Guðs, að þér trúið á þann, sem hann sendi."

30 Þeir spurðu hann þá: "Hvaða tákn gjörir þú, svo að vér sjáum og trúum þér? Hvað afrekar þú?

31 Feður vorir átu manna í eyðimörkinni, eins og ritað er: ,Brauð af himni gaf hann þeim að eta."`

32 Jesús sagði við þá: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Móse gaf yður ekki brauðið af himni, heldur gefur faðir minn yður hið sanna brauð af himni.

33 Brauð Guðs er sá, sem stígur niður af himni og gefur heiminum líf."

34 Þá sögðu þeir við hann: "Herra, gef oss ætíð þetta brauð."

35 Jesús sagði þeim: "Ég er brauð lífsins. Þann mun ekki hungra, sem til mín kemur, og þann aldrei þyrsta, sem á mig trúir.

36 En ég hef sagt við yður: Þér hafið séð mig og trúið þó ekki.

37 Allt sem faðirinn gefur mér, mun koma til mín, og þann sem kemur til mín, mun ég alls eigi brott reka.

38 Ég er stiginn niður af himni, ekki til að gjöra vilja minn, heldur vilja þess, er sendi mig.

39 En sá er vilji þess, sem sendi mig, að ég glati engu af öllu því, sem hann hefur gefið mér, heldur reisi það upp á efsta degi.

40 Því sá er vilji föður míns, að hver sem sér soninn og trúir á hann, hafi eilíft líf, og ég mun reisa hann upp á efsta degi."

41 Nú kom upp kurr meðal Gyðinga út af því, að hann sagði: "Ég er brauðið, sem niður steig af himni,"

42 og þeir sögðu: "Er þetta ekki hann Jesús, sonur Jósefs? Vér þekkjum bæði föður hans og móður. Hvernig getur hann sagt, að hann sé stiginn niður af himni?"

43 Jesús svaraði þeim: "Verið ekki með kurr yðar á meðal.

44 Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann, og ég mun reisa hann upp á efsta degi.

45 Hjá spámönnunum er skrifað: ,Þeir munu allir verða af Guði fræddir.` Hver sem hlýðir á föðurinn og lærir af honum, kemur til mín.

46 Ekki er það svo, að nokkur hafi séð föðurinn. Sá einn, sem er frá Guði, hefur séð föðurinn.

47 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir, hefur eilíft líf.

48 Ég er brauð lífsins.

49 Feður yðar átu manna í eyðimörkinni, en þeir dóu.

50 Þetta er brauðið, sem niður stígur af himni. Sá sem etur af því, deyr ekki.

51 Ég er hið lifandi brauð, sem steig niður af himni. Hver sem etur af þessu brauði, mun lifa að eilífu. Og brauðið, sem ég mun gefa, er hold mitt, heiminum til lífs."

52 Nú deildu Gyðingar sín á milli og sögðu: "Hvernig getur þessi maður gefið oss hold sitt að eta?"

53 Þá sagði Jesús við þá: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Ef þér etið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans, hafið þér ekki lífið í yður.

54 Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, hefur eilíft líf, og ég reisi hann upp á efsta degi.

55 Hold mitt er sönn fæða, og blóð mitt er sannur drykkur.

56 Sá sem etur hold mitt og drekkur blóð mitt, er í mér og ég í honum.

57 Eins og hinn lifandi faðir sendi mig og ég lifi fyrir föðurinn, svo mun sá lifa fyrir mig, sem mig etur.

58 Þetta er það brauð, sem niður steig af himni. Það er ekki eins og brauðið, sem feðurnir átu og dóu. Sá sem etur þetta brauð, mun lifa að eilífu."

59 Þetta sagði hann, þegar hann var að kenna í samkundunni í Kapernaum.

60 Margir af lærisveinum hans, er á hlýddu, sögðu: "Þung er þessi ræða. Hver getur hlustað á hana?"

61 Jesús vissi með sjálfum sér, að kurr var með lærisveinum hans út af þessu, og sagði við þá: "Hneykslar þetta yður?

62 En ef þér sæjuð Mannssoninn stíga upp þangað, sem hann áður var?

63 Það er andinn, sem lífgar, holdið megnar ekkert. Orðin, sem ég hef talað til yðar, þau eru andi og þau eru líf.

64 En meðal yðar eru nokkrir, sem ekki trúa." Jesús vissi frá upphafi, hverjir þeir voru, sem trúðu ekki, og hver sá var, sem mundi svíkja hann.

65 Og hann bætti við: "Vegna þess sagði ég við yður: Enginn getur komið til mín, nema faðirinn veiti honum það."

66 Upp úr þessu hurfu margir af lærisveinum hans frá og voru ekki framar með honum.

67 Þá sagði Jesús við þá tólf: "Ætlið þér að fara líka?"

68 Símon Pétur svaraði honum: "Herra, til hvers ættum vér að fara? Þú hefur orð eilífs lífs,

69 og vér trúum og vitum, að þú ert hinn heilagi Guðs."

70 Jesús svaraði þeim: "Hef ég eigi sjálfur útvalið yður tólf? Þó er einn yðar djöfull."

71 En hann átti við Júdas Símonarson Ískaríots, sem varð til að svíkja hann, einn þeirra tólf.

Orðskviðirnir 3

Son minn, gleym eigi kenning minni, og hjarta þitt varðveiti boðorð mín,

því að langa lífdaga og farsæl ár og velgengni munu þau veita þér í ríkum mæli.

Kærleiki og trúfesti munu aldrei yfirgefa þig. Bind þau um háls þér, rita þau á spjald hjarta þíns,

þá munt þú ávinna þér hylli og fögur hyggindi, bæði í augum Guðs og manna.

Treystu Drottni af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit.

Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.

Þú skalt ekki þykjast vitur, óttast Drottin og forðast illt,

það mun verða heilnæmt fyrir líkama þinn og hressandi fyrir bein þín.

Tigna Drottin með eigum þínum og með frumgróða allrar uppskeru þinnar,

10 þá munu hlöður þínar verða nægtafullar og vínberjalögurinn flóa út af vínlagarþróm þínum.

11 Son minn, lítilsvirð eigi ögun Drottins og lát þér eigi gremjast umvöndun hans,

12 því að Drottinn agar þann, sem hann elskar, og lætur þann son kenna til, sem hann hefir mætur á.

13 Sæll er sá maður, sem öðlast hefir speki, sá maður, sem hyggindi hlotnast.

14 Því að betra er að afla sér hennar en að afla silfurs, og arðurinn af henni ágætari en gull.

15 Hún er dýrmætari en perlur, og allir dýrgripir þínir jafnast ekki á við hana.

16 Langir lífdagar eru í hægri hendi hennar, auður og mannvirðingar í vinstri hendi hennar.

17 Vegir hennar eru yndislegir vegir og allar götur hennar velgengni.

18 Hún er lífstré þeim, sem grípa hana, og sæll er hver sá, er heldur fast í hana.

19 Drottinn grundvallaði jörðina með visku, festi himininn af hyggjuviti.

20 Fyrir þekking hans mynduðust hafdjúpin og drýpur döggin úr skýjunum.

21 Son minn, varðveit þú visku og gætni, lát þær eigi víkja frá augum þínum,

22 þá munu þær verða líf sálu þinni og prýði fyrir háls þinn.

23 Þá muntu ganga óhultur veg þinn og eigi drepa við fæti.

24 Þegar þú leggst til hvíldar, þarft þú ekki að hræðast, og hvílist þú, mun svefninn verða vær.

25 Þú þarft ekki að óttast skyndilega hræðslu, né eyðilegging hinna óguðlegu, þegar hún dynur yfir.

26 Því að Drottinn mun vera athvarf þitt og varðveita fót þinn, að hann verði eigi fanginn.

27 Synja eigi góðs þeim, er þarfnast þess, ef það er á þínu valdi að gjöra það.

28 Seg þú ekki við náunga þinn: "Far og kom aftur! á morgun skal ég gefa þér" _ ef þú þó átt það til.

29 Brugga eigi illt gegn náunga þínum, þegar hann býr öruggur hjá þér.

30 Deil ekki við neinn að ástæðulausu, ef hann hefir ekki gjört þér neitt mein.

31 Öfunda ekki ofbeldismanninn og haf engar mætur á neinum gjörðum hans.

32 Því að andstyggð er sá Drottni, er afvega fer, en ráðvandir menn alúðarvinir hans.

33 Bölvun Drottins er yfir húsi hins óguðlega, en bústað réttlátra blessar hann.

34 Spottsama spottar hann, en lítillátum veitir hann náð.

35 Vitrir menn munu heiður hljóta, en heimskingjar bera smán úr býtum.

Bréf Páls til Galatamanna 2

Síðan fór ég að fjórtán árum liðnum aftur upp til Jerúsalem ásamt Barnabasi og tók líka Títus með mér.

Ég fór þangað eftir opinberun og lagði fram fyrir þá fagnaðarerindið, sem ég prédika meðal heiðingjanna. Ég lagði það einslega fyrir þá, sem í áliti voru; það mátti eigi henda, að ég hlypi og hefði hlaupið til einskis.

En ekki var einu sinni Títus, sem með mér var og var grískur maður, neyddur til að láta umskerast.

Það hefði þá verið fyrir tilverknað falsbræðranna, er illu heilli hafði verið hleypt inn og laumast höfðu inn til að njósna um frelsi vort, það er vér höfum í Kristi Jesú, til þess að þeir gætu hneppt oss í þrældóm.

Undan þeim létum vér ekki einu sinni eitt andartak, til þess að sannleiki fagnaðarerindisins skyldi haldast við hjá yður.

Og þeir, sem í áliti voru, _ hvað þeir einu sinni voru, skiptir mig engu, Guð fer ekki í manngreinarálit, _ þeir, sem í áliti voru, lögðu ekkert frekara fyrir mig.

Þvert á móti, þeir sáu, að mér var trúað fyrir fagnaðarerindinu til óumskorinna manna, eins og Pétri til umskorinna,

því að sá, sem hefur eflt Pétur til postuladóms meðal hinna umskornu, hefur einnig eflt mig til postuladóms meðal heiðingjanna.

Og er þeir höfðu komist að raun um, hvílík náð mér var veitt, þá réttu þeir Jakob, Kefas og Jóhannes, sem álitnir voru máttarstólparnir, mér og Barnabasi hönd sína til bræðralags: Við skyldum fara til heiðingjanna, en þeir til hinna umskornu.

10 Það eitt var til skilið, að við skyldum minnast hinna fátæku, og einmitt þetta hef ég líka kappkostað að gjöra.

11 En þegar Kefas kom til Antíokkíu, andmælti ég honum upp í opið geðið, því hann var sannur að sök.

12 Áður en menn nokkrir komu frá Jakob, hafði hann setið að borði með heiðingjunum, en er þeir komu, dró hann sig í hlé og tók sig út úr af ótta við þá, sem héldu fram umskurninni.

13 Hinir Gyðingarnir tóku einnig að hræsna með honum, svo að jafnvel Barnabas lét dragast með af hræsni þeirra.

14 En þegar ég sá, að þeir gengu ekki beint eftir sannleika fagnaðarerindisins, sagði ég við Kefas í allra áheyrn: "Úr því að þú, sem ert Gyðingur, lifir að heiðingja siðum, en eigi Gyðinga, hvernig ferst þér þá að neyða heiðingja til að lifa að Gyðinga siðum?"

15 Vér erum fæddir Gyðingar, ekki syndarar af heiðnu bergi brotnir.

16 En vér vitum, að maðurinn réttlætist ekki af lögmálsverkum, heldur fyrir trú á Jesú Krist. Og vér tókum trú á Krist Jesú, til þess að vér réttlættumst af trú á Krist, en ekki af lögmálsverkum. Enda réttlætist enginn lifandi maður af lögmálsverkum.

17 En ef vér nú sjálfir reynumst syndarar þegar vér leitumst við að réttlætast í Kristi, er þá Kristur orðinn þjónn syndarinnar? Fjarri fer því.

18 Fari ég að byggja upp aftur það, sem ég braut niður, þá sýni ég og sanna, að ég er sjálfur brotlegur.

19 Því að af völdum lögmálsins er ég dáinn lögmálinu til þess að lifa Guði.

20 Ég er krossfestur með Kristi. Sjálfur lifi ég ekki framar, heldur lifir Kristur í mér. Lífinu, sem ég lifi nú hér á jörð, lifi ég í trúnni á Guðs son, sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.

21 Ég ónýti ekki náð Guðs. Ef réttlæting fæst fyrir lögmál, þá hefur Kristur dáið til einskis.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society