M’Cheyne Bible Reading Plan
26 Tjaldbúðina skalt þú gjöra af tíu dúkum úr tvinnaðri baðmull, bláum purpura, rauðum purpura og skarlati. Skalt þú búa til kerúba á þeim með listvefnaði.
2 Hver dúkur skal vera tuttugu og átta álna langur og fjögra álna breiður; allir skulu dúkarnir vera jafnir að máli.
3 Fimm dúkarnir skulu tengjast saman hver við annan, og eins skal tengja saman hina fimm dúkana sín í milli.
4 Og þú skalt búa til lykkjur af bláum purpura á jaðri ysta dúksins í samfellunni, og eins skalt þú gjöra á jaðri ysta dúksins í hinni samfellunni.
5 Skalt þú búa til fimmtíu lykkjur á öðrum dúknum, og eins skalt þú gjöra fimmtíu lykkjur á jaðri þess dúksins, sem er í hinni samfellunni, svo að lykkjurnar standist á hver við aðra.
6 Og þú skalt gjöra fimmtíu króka af gulli og tengja saman dúkana hvern við annan með krókunum, svo að tjaldbúðin verði ein heild.
7 Þú skalt og gjöra dúka af geitahári til að tjalda með yfir búðina, ellefu að tölu.
8 Hver dúkur skal vera þrjátíu álna langur og fjögra álna breiður; allir ellefu dúkarnir skulu vera jafnir að máli.
9 Og þú skalt tengja saman fimm dúka sér og sex dúka sér, en sjötta dúkinn skalt þú brjóta upp á sig á framanverðu tjaldinu.
10 Og þú skalt búa til fimmtíu lykkjur á jaðri ysta dúksins í annarri samfellunni og eins fimmtíu lykkjur á dúkjaðri hinnar samfellunnar.
11 Og þú skalt gjöra fimmtíu eirkróka og krækja krókunum í lykkjurnar, og tengja svo saman tjaldið, að ein heild verði.
12 En afgangurinn, sem yfir hefir af tjalddúkunum, hálfi dúkurinn, sem er umfram, skal hanga niður af tjaldbúðinni baka til.
13 En sú eina alin beggja vegna, sem yfir hefir af tjalddúkunum á lengdina, skal hanga niður af hliðum tjaldbúðarinnar báðumegin til þess að byrgja hana.
14 Þú skalt enn gjöra þak yfir tjaldið af rauðlituðum hrútskinnum og enn eitt þak þar utan yfir af höfrungaskinnum.
15 Og þú skalt gjöra þiljuborðin í tjaldbúðina af akasíuviði, og standi þau upp og ofan.
16 Hvert borð skal vera tíu álnir á lengd og hálf önnur alin á breidd.
17 Á hverju borði skulu vera tveir tappar, báðir sameinaðir. Svo skalt þú gjöra á öllum borðum tjaldbúðarinnar.
18 Og þannig skalt þú gjöra borðin í tjaldbúðina: Tuttugu borð í suðurhliðina,
19 og skalt þú búa til fjörutíu undirstöður af silfri undir tuttugu borðin, tvær undirstöður undir hvert borð, sína fyrir hvorn tappa.
20 Og eins í hina hlið tjaldbúðarinnar, norðurhliðina: tuttugu borð
21 og fjörutíu undirstöður af silfri, tvær undirstöður undir hvert borð.
22 Í afturgafl búðarinnar, gegnt vestri, skalt þú gjöra sex borð.
23 Og tvö borð skalt þú gjöra í búðarhornin á afturgaflinum.
24 Og þau skulu vera tvöföld að neðan og sömuleiðis halda fullu máli upp úr allt til hins fyrsta hrings. Þannig skal þeim háttað vera hvorum tveggja, á báðum hornum skulu þau vera.
25 Borðin skulu vera átta og með undirstöðum af silfri, sextán undirstöðum, tveim undirstöðum undir hverju borði.
26 Því næst skalt þú gjöra slár af akasíuviði, fimm á borðin í annarri hlið búðarinnar
27 og fimm slár á borðin í hinni hlið búðarinnar og fimm slár á borðin í afturgafli búðarinnar, gegnt vestri.
28 Miðsláin skal vera á miðjum borðunum og liggja alla leið, frá einum enda til annars.
29 Og borðin skalt þú gullleggja, en hringana á þeim, sem slárnar ganga í, skalt þú gjöra af gulli. Þú skalt og gullleggja slárnar.
30 Og þú skalt reisa tjaldbúðina eins og hún á að vera og þér var sýnt á fjallinu.
31 Þú skalt og gjöra fortjald af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull. Skal það til búið með listvefnaði og kerúbar á.
32 Og þú skalt festa það á fjóra stólpa af akasíuviði, gulli lagða, með nöglum í af gulli, á fjórum undirstöðum af silfri.
33 En þú skalt hengja fortjaldið undir krókana og flytja sáttmálsörkina þangað, inn fyrir fortjaldið, og skal fortjaldið skilja milli hins heilaga og hins allrahelgasta hjá yður.
34 Þú skalt setja lokið yfir sáttmálsörkina í hinu allrahelgasta.
35 En borðið skalt þú setja fyrir utan fortjaldið og ljósastikuna gagnvart borðinu við suðurhliðvegg búðarinnar, en lát borðið vera við norðurhliðvegginn.
36 Þú skalt og gjöra dúkbreiðu fyrir dyr tjaldsins af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, og glitofna.
37 Og fyrir dúkbreiðuna skalt þú gjöra stólpa af akasíuviði og gullleggja þá. Naglarnir í þeim skulu vera af gulli, og þú skalt steypa fimm undirstöður af eiri undir þá.
5 Þessu næst var hátíð Gyðinga. Þá fór Jesús upp til Jerúsalem.
2 Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug, sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng.
3 Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins.
4 En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins, varð heill, hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.]
5 Þarna var maður nokkur, sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár.
6 Jesús sá hann, þar sem hann lá, og vissi, að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: "Viltu verða heill?"
7 Hinn sjúki svaraði honum: "Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina, þegar vatnið hrærist, og meðan ég er að komast, fer annar ofan í á undan mér."
8 Jesús segir við hann: "Statt upp, tak rekkju þína og gakk!"
9 Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk. En þessi dagur var hvíldardagur,
10 og Gyðingarnir sögðu við hinn læknaða: "Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna."
11 Hann svaraði þeim: "Sá sem læknaði mig, sagði við mig: ,Tak rekkju þína og gakk!"`
12 Þeir spurðu hann: "Hver er sá maður, sem sagði þér: ,Tak hana og gakk`?"
13 En læknaði maðurinn vissi ekki, hver hann var, því að Jesús hafði leynst brott, enda var þröng á staðnum.
14 Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: "Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar, svo að eigi hendi þig annað verra."
15 Maðurinn fór og sagði Gyðingum, að Jesús væri sá sem læknaði hann.
16 Nú tóku Gyðingar að ofsækja Jesú fyrir það, að hann gjörði þetta á hvíldardegi.
17 En hann svaraði þeim: "Faðir minn starfar til þessarar stundar, og ég starfa einnig."
18 Nú sóttu Gyðingar enn fastar að taka hann af lífi, þar sem hann braut ekki aðeins hvíldardagshelgina, heldur kallaði líka Guð sinn eigin föður og gjörði sjálfan sig þannig Guði jafnan.
19 Þessu svaraði Jesús og sagði við þá: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Ekkert getur sonurinn gjört af sjálfum sér, nema það sem hann sér föðurinn gjöra. Því hvað sem hann gjörir, það gjörir sonurinn einnig.
20 Faðirinn elskar soninn og sýnir honum allt, sem hann gjörir sjálfur. Hann mun sýna honum meiri verk en þessi, svo að þér verðið furðu lostnir.
21 Eins og faðirinn vekur upp dauða og lífgar, þannig lífgar og sonurinn þá, sem hann vill.
22 Enda dæmir faðirinn engan, heldur hefur hann falið syninum allan dóm,
23 svo að allir heiðri soninn eins og þeir heiðra föðurinn. Sá sem heiðrar ekki soninn, heiðrar ekki föðurinn, sem sendi hann.
24 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem heyrir orð mitt og trúir þeim, sem sendi mig, hefur eilíft líf og kemur ekki til dóms, heldur er hann stiginn yfir frá dauðanum til lífsins.
25 Sannlega, sannlega segi ég yður: Sú stund kemur og er þegar komin, að hinir dauðu munu heyra raust Guðs sonarins, og þeir, sem heyra, munu lifa.
26 Eins og faðirinn hefur líf í sjálfum sér, þannig hefur hann og veitt syninum að hafa líf í sjálfum sér.
27 Og hann hefur veitt honum vald til að halda dóm, því að hann er Mannssonur.
28 Undrist þetta ekki. Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust hans
29 og ganga fram, þeir, sem gjört hafa hið góða, munu rísa upp til lífsins, en þeir, sem drýgt hafa hið illa, til dómsins.
30 Ég megna eigi að gjöra neitt af sjálfum mér. Ég dæmi samkvæmt því, sem ég heyri, og dómur minn er réttvís, því að ég leita ekki míns vilja, heldur vilja þess, sem sendi mig.
31 Ef ég vitna sjálfur um mig, er vitnisburður minn ekki gildur.
32 Annar er sá sem vitnar um mig, og ég veit, að sá vitnisburður er sannur, sem hann ber mér.
33 Þér hafið sent til Jóhannesar. Hann bar sannleikanum vitni.
34 Ekki þarf ég vitnisburð manns, en ég segi þetta til þess, að þér megið frelsast.
35 Hann var logandi og skínandi lampi. Þér vilduð um stund gleðjast við ljós hans.
36 Ég hef þann vitnisburð, sem er meiri en Jóhannesar, því verkin, sem faðir minn fékk mér að fullna, verkin, sem ég vinn, bera mér það vitni, að faðirinn hefur sent mig.
37 Faðirinn, sem sendi mig, hann hefur sjálfur vitnað um mig. Þér hafið aldrei heyrt rödd hans né séð ásýnd hans.
38 Og orð hans býr ekki í yður, því að þér trúið ekki þeim, sem hann sendi.
39 Þér rannsakið ritningarnar, því í þeim hyggist þér eiga eilíft líf. Og það eru þær, sem vitna um mig,
40 en þér viljið ekki koma til mín og öðlast lífið.
41 Ég þigg ekki heiður af mönnum,
42 en ég þekki yður að þér hafið ekki í yður kærleika Guðs.
43 Ég er kominn í nafni föður míns, og þér takið ekki við mér. Ef annar kæmi í sínu eigin nafni, tækjuð þér við honum.
44 Hvernig getið þér trúað, þegar þér þiggið heiður hver af öðrum, en leitið ekki þess heiðurs, sem er frá einum Guði?
45 Ætlið eigi, að ég muni ákæra yður fyrir föðurnum. Sá sem ákærir yður, er Móse, og á hann vonið þér.
46 Ef þér tryðuð Móse, munduð þér líka trúa mér, því um mig hefur hann ritað.
47 Fyrst þér trúið ekki því, sem hann skrifaði, hvernig getið þér þá trúað orðum mínum?"
2 Son minn, ef þú veitir orðum mínum viðtöku og geymir boðorð mín hjá þér,
2 svo að þú ljáir spekinni athygli þína, hneigir hjarta þitt að hyggindum,
3 já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin,
4 ef þú leitar að þeim sem að silfri og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum,
5 þá munt þú skilja, hvað ótti Drottins er, og öðlast þekking á Guði.
6 Því að Drottinn veitir speki, af munni hans kemur þekking og hyggindi.
7 Hann geymir hinum ráðvöndu gæfuna, er skjöldur þeirra, sem breyta grandvarlega,
8 með því að hann vakir yfir stigum réttarins og varðveitir veg sinna guðhræddu.
9 Þá munt þú og skilja, hvað réttlæti er og réttur og ráðvendni, _ í stuttu máli, sérhverja braut hins góða.
10 Því að speki mun koma í hjarta þitt, og þekking verða sálu þinni yndisleg.
11 Aðgætni mun vernda þig, og hyggindin varðveita þig,
12 til þess að frelsa þig frá vegi hins illa, frá þeim mönnum, sem fara með fals,
13 sem yfirgefa stigu einlægninnar og ganga á vegum myrkursins
14 sem hafa gleði af því að gjöra illt, fagna yfir illsku hrekkjum,
15 sem gjöra vegu sína hlykkjótta og komnir eru út á glapstigu í breytni sinni,
16 til þess að frelsa þig frá léttúðarkonu, frá blíðmálugri konu sem annar á,
17 sem yfirgefið hefir unnusta æsku sinnar og gleymt sáttmála Guðs síns,
18 því að hús hennar hnígur í dauðann, og brautir hennar liggja niður til framliðinna,
19 þeir sem inn til hennar fara, snúa engir aftur, og aldrei komast þeir á lífsins stigu, _
20 til þess að þú gangir á vegi góðra manna og haldir þig á stigum réttlátra.
21 Því að hinir hreinskilnu munu byggja landið, og hinir grandvöru verða eftir í því.
22 En hinir óguðlegu munu upprættir verða úr landinu, og hinum svikulu verða útrýmt þaðan.
1 Páll postuli _ ekki sendur af mönnum né að tilhlutun manns, heldur að tilhlutun Jesú Krists og Guðs föður, sem uppvakti hann frá dauðum _
2 og allir bræðurnir, sem með mér eru, heilsa söfnuðunum í Galatalandi.
3 Náð sé með yður og friður frá Guði föður og Drottni vorum Jesú Kristi,
4 sem gaf sjálfan sig fyrir syndir vorar, til þess að frelsa oss frá hinni yfirstandandi vondu öld, samkvæmt vilja Guðs vors og föður.
5 Honum sé dýrð um aldir alda, amen.
6 Mig furðar, að þér svo fljótt látið snúast frá honum, sem kallaði yður í náð Krists, til annars konar fagnaðarerindis,
7 sem þó er ekki til; heldur eru einhverjir að trufla yður og vilja umhverfa fagnaðarerindinu um Krist.
8 En þótt jafnvel vér eða engill frá himni færi að boða yður annað fagnaðarerindi en það, sem vér höfum boðað yður, þá sé hann bölvaður.
9 Eins og vér höfum áður sagt, eins segi ég nú aftur: Ef nokkur boðar yður annað fagnaðarerindi en það, sem þér hafið veitt viðtöku, þá sé hann bölvaður.
10 Er ég nú að reyna að sannfæra menn eða Guð? Er ég að leitast við að þóknast mönnum? Ef ég væri enn að þóknast mönnum, þá væri ég ekki þjónn Krists.
11 Það læt ég yður vita, bræður, að fagnaðarerindið, sem ég hef boðað, er ekki mannaverk.
12 Ekki hef ég tekið við því af manni né látið kenna mér það, heldur fengið það fyrir opinberun Jesú Krists.
13 Þér hafið heyrt um háttsemi mína áður fyrri í Gyðingdóminum, hversu ákaflega ég ofsótti söfnuð Guðs og vildi eyða honum.
14 Ég fór lengra í Gyðingdóminum en margir jafnaldrar mínir meðal þjóðar minnar og var miklu vandlætingasamari um erfikenningu forfeðra minna.
15 En þegar Guði, sem hafði útvalið mig frá móðurlífi og af náð sinni kallað,
16 þóknaðist að opinbera mér son sinn, til þess að ég boðaði fagnaðarerindið um hann meðal heiðingjanna, þá ráðgaðist ég eigi við neinn mann,
17 ekki fór ég heldur upp til Jerúsalem til þeirra, sem voru postular á undan mér, heldur fór ég jafnskjótt til Arabíu og sneri svo aftur til Damaskus.
18 Síðan fór ég eftir þrjú ár upp til Jerúsalem til að kynnast Kefasi og dvaldist hjá honum hálfan mánuð.
19 Engan af hinum postulunum sá ég, heldur aðeins Jakob, bróður Drottins.
20 Guð veit, að ég lýg því ekki, sem ég skrifa yður.
21 Síðan kom ég í héruð Sýrlands og Kilikíu.
22 Ég var persónulega ókunnur kristnu söfnuðunum í Júdeu.
23 Þeir höfðu einungis heyrt sagt: "Sá sem áður ofsótti oss, boðar nú trúna, sem hann áður vildi eyða."
24 Og þeir vegsömuðu Guð vegna mín.
by Icelandic Bible Society