Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Önnur bók Móse 24

24 Guð sagði við Móse: "Stíg upp til Drottins, þú og Aron, Nadab og Abíhú og sjötíu af öldungum Ísraels, og skuluð þér falla fram álengdar.

Móse einn skal koma í nálægð Drottins, en hinir skulu ekki nærri koma, og fólkið skal ekki heldur stíga upp með honum."

Og Móse kom og sagði fólkinu öll orð Drottins og öll lagaákvæðin. Svaraði þá fólkið einum munni og sagði: "Vér skulum gjöra allt það, sem Drottinn hefir boðið."

Og Móse skrifaði öll orð Drottins. En næsta morgun reis hann árla og reisti altari undir fjallinu og tólf merkissteina eftir tólf kynkvíslum Ísraels.

Síðan útnefndi hann unga menn af Ísraelsmönnum, og þeir færðu Drottni brennifórnir og slátruðu uxum til þakkarfórna.

Og Móse tók helming blóðsins og hellti því í fórnarskálarnar, en hinum helming blóðsins stökkti hann á altarið.

Því næst tók hann sáttmálsbókina og las upp fyrir lýðnum, en þeir sögðu: "Vér viljum gjöra allt það, sem Drottinn hefir boðið, og hlýðnast því."

Þá tók Móse blóðið, stökkti því á fólkið og sagði: "Þetta er blóð þess sáttmála, sem Drottinn hefir gjört við yður og byggður er á öllum þessum orðum."

Þá stigu þeir upp Móse og Aron, Nadab og Abíhú og sjötíu af öldungum Ísraels.

10 Og þeir sáu Ísraels Guð, og var undir fótum hans sem pallur væri, gjörður af safírhellum, og skær sem himinninn sjálfur.

11 En hann útrétti eigi hönd sína gegn höfðingjum Ísraelsmanna. Og þeir sáu Guð og átu og drukku.

12 Drottinn sagði við Móse: "Stíg upp á fjallið til mín og dvel þar, og skal ég fá þér steintöflur og lögmálið og boðorðin, er ég hefi skrifað, til þess að þú kennir þeim."

13 Þá lagði Móse af stað og Jósúa, þjónn hans, og Móse sté upp á Guðs fjall.

14 En við öldungana sagði hann: "Verið hér kyrrir, þar til er vér komum aftur til yðar, og sjá, Aron og Húr eru hjá yður. Hver sem mál hefir að kæra, snúi sér til þeirra."

15 Móse sté þá upp á fjallið, en skýið huldi fjallið.

16 Og dýrð Drottins hvíldi yfir Sínaífjalli, og skýið huldi það í sex daga, en á sjöunda degi kallaði hann á Móse mitt út úr skýinu.

17 Og dýrð Drottins var á að líta fyrir Ísraelsmenn sem eyðandi eldur á fjallstindinum.

18 En Móse gekk mitt inn í skýið og sté upp á fjallið, og var Móse á fjallinu í fjörutíu daga og fjörutíu nætur.

Jóhannesarguðspjall 3

Maður hét Nikódemus, af flokki farísea, ráðsherra meðal Gyðinga.

Hann kom til Jesú um nótt og sagði við hann: "Rabbí, vér vitum, að þú ert lærifaðir kominn frá Guði. Enginn getur gjört þessi tákn, sem þú gjörir, nema Guð sé með honum."

Jesús svaraði honum: "Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur séð Guðs ríki, nema hann fæðist að nýju."

Nikódemus segir við hann: "Hvernig getur maður fæðst, þegar hann er orðinn gamall? Skyldi hann geta komist aftur í líf móður sinnar og fæðst?"

Jesús svaraði: "Sannlega, sannlega segi ég þér: Enginn getur komist inn í Guðs ríki, nema hann fæðist af vatni og anda.

Það sem af holdinu fæðist, er hold, en það sem af andanum fæðist, er andi.

Undrast eigi, að ég segi við þig: Yður ber að fæðast að nýju.

Vindurinn blæs þar sem hann vill, og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki, hvaðan hann kemur né hvert hann fer. Svo er um þann, sem af andanum er fæddur."

Þá spurði Nikódemus: "Hvernig má þetta verða?"

10 Jesús svaraði honum: "Þú ert lærifaðir í Ísrael og veist ekki þetta?

11 Sannlega, sannlega segi ég þér: Vér tölum um það, sem vér þekkjum, og vitnum um það, sem vér höfum séð, en þér takið ekki á móti vitnisburði vorum.

12 Ef þér trúið eigi, þegar ég ræði við yður jarðnesk efni, hvernig skylduð þér þá trúa, er ég ræði við yður um hin himnesku?

13 Enginn hefur stigið upp til himins, nema sá er steig niður frá himni, Mannssonurinn.

14 Og eins og Móse hóf upp höggorminn í eyðimörkinni, þannig á Mannssonurinn að verða upp hafinn,

15 svo að hver sem trúir hafi eilíft líf í honum.

16 Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.

17 Guð sendi ekki soninn í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann.

18 Sá sem trúir á hann, dæmist ekki. Sá sem trúir ekki, er þegar dæmdur, því að hann hefur ekki trúað á nafn Guðs sonarins eina.

19 En þessi er dómurinn: Ljósið er komið í heiminn, en menn elskuðu myrkrið fremur en ljósið, því að verk þeirra voru vond.

20 Hver sem illt gjörir hatar ljósið og kemur ekki til ljóssins, svo að verk hans verði ekki uppvís.

21 En sá sem iðkar sannleikann kemur til ljóssins, svo að augljóst verði, að verk hans eru í Guði gjörð."

22 Eftir þetta fór Jesús og lærisveinar hans út í Júdeuhérað. Þar dvaldist hann með þeim og skírði.

23 Jóhannes var líka að skíra í Aínon nálægt Salím, en þar var mikið vatn. Menn komu þangað og létu skírast.

24 Þá var ekki enn búið að varpa Jóhannesi í fangelsi.

25 Nú varð deila um hreinsun milli lærisveina Jóhannesar og Gyðings eins.

26 Þeir komu til Jóhannesar og sögðu við hann: "Rabbí, sá sem var hjá þér handan við Jórdan og þú barst vitni um, hann er að skíra, og allir koma til hans."

27 Jóhannes svaraði þeim: "Enginn getur tekið neitt, nema honum sé gefið það af himni.

28 Þér getið sjálfir vitnað um, að ég sagði: ,Ég er ekki Kristur, heldur er ég sendur á undan honum.`

29 Sá er brúðguminn, sem á brúðina, en vinur brúðgumans, sem stendur hjá og hlýðir á hann, gleðst mjög við rödd hans. Þessi gleði er nú mín að fullu.

30 Hann á að vaxa, en ég að minnka.

31 Sá sem kemur að ofan, er yfir öllum. Sá sem er af jörðu, hann er af jörðu og talar af jörðu. Sá sem kemur af himni, er yfir öllum

32 og vitnar um það, sem hann hefur séð og heyrt, og enginn tekur á móti vitnisburði hans.

33 En sá sem hefur tekið á móti vitnisburði hans, hefur staðfest, að Guð sé sannorður.

34 Sá sem Guð sendi, talar Guðs orð, því ómælt gefur Guð andann.

35 Faðirinn elskar soninn og hefur lagt allt í hönd honum.

36 Sá sem trúir á soninn, hefur eilíft líf, en sá sem óhlýðnast syninum, mun ekki sjá líf, heldur varir reiði Guðs yfir honum."

Jobsbók 42

42 Þá svaraði Job Drottni og sagði:

Ég veit, að þú megnar allt, og engu ráði þínu verður varnað fram að ganga.

"Hver er sá, sem myrkvar ráðsályktun Guðs í hyggjuleysi?" Fyrir því hefi ég talað án þess að skilja, um hluti, sem mér voru of undursamlegir og ég þekkti eigi.

"Hlusta þú, ég ætla að tala. Ég mun spyrja þig, og þú skalt fræða mig."

Ég þekkti þig af afspurn, en nú hefir auga mitt litið þig!

Fyrir því tek ég orð mín aftur og iðrast í dufti og ösku.

Eftir að Drottinn hafði mælt þessum orðum til Jobs, sagði Drottinn við Elífas Temaníta: "Reiði mín er upptendruð gegn þér og báðum vinum þínum, því að þér hafið ekki talað rétt um mig eins og þjónn minn Job.

Takið yður því sjö naut og sjö hrúta og farið til þjóns míns Jobs og fórnið brennifórn fyrir yður, og Job þjónn minn skal biðja fyrir yður, því aðeins vegna hans mun ég ekki láta yður gjalda heimsku yðar, með því að þér hafið ekki talað rétt um mig eins og þjónn minn Job."

Þá fóru þeir Elífas Temaníti, Bildad Súíti og Sófar Naamíti og gjörðu svo sem Drottinn hafði boðið þeim. Og Drottinn lét að bæn Jobs.

10 Og Drottinn sneri við högum Jobs, þá er hann bað fyrir vinum sínum; og hann gaf Job allt sem hann hafði átt, tvöfalt aftur.

11 Þá komu til hans allir bræður hans og allar systur hans og allir þeir, er áður höfðu verið kunningjar hans, og neyttu máltíðar með honum í húsi hans, vottuðu honum samhryggð sína og hugguðu hann út af öllu því böli, sem Drottinn hafði látið yfir hann koma. Og þeir gáfu honum hver einn kesíta og hver einn hring af gulli.

12 En Drottinn blessaði síðari æviár Jobs enn meir en hin fyrri, og hann eignaðist fjórtán þúsund sauða, sex þúsund úlfalda, þúsund sameyki nauta og þúsund ösnur.

13 Hann eignaðist og sjö sonu og þrjár dætur.

14 Og hann nefndi eina Jemímu, aðra Kesíu og hina þriðju Keren Happúk.

15 Og eigi fundust svo fríðar konur í öllu landinu sem dætur Jobs, og faðir þeirra gaf þeim arf með bræðrum þeirra.

16 Og Job lifði eftir þetta hundrað og fjörutíu ár og sá börn sín og barnabörn, fjóra ættliði.

Síðara bréf Páls til Kori 12

12 Hrósa mér verð ég, þótt gagnlegt sé það ekki. En ég mun nú snúa mér að vitrunum og opinberunum Drottins.

Mér er kunnugt um mann, hann tilheyrir Kristi, sem fyrir fjórtán árum, _ hvort það var í líkamanum eða utan líkamans, veit ég ekki, Guð veit það _, var hrifinn burt allt til þriðja himins.

Og mér er kunnugt um þennan mann, _ hvort það var í líkamanum eða án líkamans, veit ég ekki, Guð veit það _,

að hann var hrifinn upp í Paradís og heyrði ósegjanleg orð, sem engum manni er leyft að mæla.

Af slíku vil ég hrósa mér, en af sjálfum mér vil ég ekki hrósa mér, nema þá af veikleika mínum.

Þótt ég vildi hrósa mér, væri ég ekki frávita, því að ég mundi segja sannleika. En ég veigra mér við því, til þess að enginn skuli ætla mig meiri en hann sér mig eða heyrir.

Og til þess að ég skuli ekki hrokast upp af hinum miklu opinberunum, er mér gefinn fleinn í holdið, Satans engill, sem slær mig, til þess að ég skuli ekki hrokast upp.

Þrisvar hef ég beðið Drottin þess að láta hann fara frá mér.

Og hann hefur svarað mér: "Náð mín nægir þér; því að mátturinn fullkomnast í veikleika." Því vil ég helst hrósa mér af veikleika mínum, til þess að kraftur Krists megi taka sér bústað í mér.

10 Þess vegna uni ég mér vel í veikleika, í misþyrmingum, í nauðum, í ofsóknum, í þrengingum vegna Krists. Þegar ég er veikur, þá er ég máttugur.

11 Ég hef gjörst frávita. Þér hafið neytt mig til þess. Ég átti heimtingu á að hljóta meðmæli af yður. Því að í engu stóð ég hinum stórmiklu postulum að baki, enda þótt ég sé ekki neitt.

12 Postulatákn voru gjörð á meðal yðar af mikilli þrautseigju, tákn, undur og kraftaverk.

13 Í hverju voruð þér settir lægra en hinir söfnuðirnir, nema ef vera skyldi í því, að ég sjálfur hef ekki verið yður til byrði? Fyrirgefið mér þennan órétt.

14 Þetta er nú í þriðja sinn, að ég er ferðbúinn að koma til yðar, og ætla ég ekki að verða yður til byrði. Ég sækist ekki eftir eigum yðar, heldur yður sjálfum. Því að ekki eiga börnin að safna fé handa foreldrunum, heldur foreldrarnir handa börnunum.

15 Ég er fús til að verja því, sem ég á, já, leggja sjálfan mig í sölurnar fyrir yður. Ef ég elska yður heitar, verð ég þá elskaður minna?

16 En látum svo vera, að ég hafi ekki verið yður til byrði, en hafi verið slægur og veitt yður með brögðum.

17 Hef ég notað nokkurn þeirra, sem ég hef sent til yðar, til þess að hafa eitthvað af yður?

18 Ég bað Títus að fara og sendi bróðurinn með honum. Hefur þá Títus haft eitthvað af yður? Komum við ekki fram í einum og sama anda? Fetuðum við ekki í sömu fótsporin?

19 Fyrir löngu eruð þér farnir að halda, að vér séum að verja oss gagnvart yður. Nei, vér tölum fyrir augliti Guðs, eins og þeir, sem tilheyra Kristi. Allt er það yður til uppbyggingar, mínir elskuðu.

20 Ég er hræddur um, að mér muni þykja þér öðruvísi en ég óska, er ég kem, og að yður muni þykja ég öðruvísi en þér óskið og á meðal yðar kunni að vera deilur, öfund, reiði, eigingirni, bakmælgi, rógburður, hroki og óeirðir.

21 Ég er hræddur um, að Guð minn muni auðmýkja mig hjá yður, þegar ég kem aftur, og að ég muni hryggjast yfir mörgum þeirra, sem áður hafa syndgað og ekki hafa snúið sér frá saurlífi, frillulífi og ólifnaði, sem þeir hafa drýgt.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society