Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Önnur bók Móse 23

23 Þú skalt ekki fara með lygikvittu. Þú skalt ekki leggja lið þeim, er með rangt mál fer, til að gjörast ljúgvottur.

Þú skalt ekki fylgja fjöldanum til illra verka. Ef þú átt svör að veita í sök nokkurri, þá skalt þú ekki á eitt leggjast með margnum til þess að halla réttu máli.

Ekki skalt þú vera hliðdrægur manni í máli hans, þótt fátækur sé.

Ef þú finnur uxa óvinar þíns eða asna hans, sem villst hefir, þá fær þú honum hann aftur.

Sjáir þú asna fjandmanns þíns liggja uppgefinn undir byrði sinni, þá skalt þú hverfa frá því að láta hann einan. Vissulega skalt þú hjálpa honum til að spretta af asnanum.

Þú skalt ekki halla rétti fátæks manns, sem hjá þér er, í máli hans.

Forðastu lygimál og ver eigi valdur að dauða saklauss manns og réttláts, því að eigi mun ég réttlæta þann, sem með rangt mál fer.

Eigi skalt þú mútu þiggja, því að mútan gjörir skyggna menn blinda og umhverfir máli hinna réttlátu.

Eigi skalt þú veita útlendum manni ágang. Þér vitið sjálfir, hvernig útlendum manni er innanbrjósts, því að þér voruð útlendingar í Egyptalandi.

10 Sex ár skalt þú sá jörð þína og safna gróða hennar,

11 en sjöunda árið skalt þú láta hana liggja ónotaða og hvílast, svo að hinir fátæku meðal fólks þíns megi eta. Það sem þeir leifa, mega villidýrin eta. Eins skalt þú fara með víngarð þinn og olíutré þín.

12 Sex daga skalt þú verk þitt vinna, en sjöunda daginn skalt þú halda heilagt, svo að uxi þinn og asni geti hvílt sig, og sonur ambáttar þinnar og útlendingurinn megi endurnærast.

13 Allt sem ég hefi sagt yður, skuluð þér halda. Nafn annarra guða megið þér ekki nefna. Eigi skal það heyrast af þínum munni.

14 Þrisvar á ári skalt þú mér hátíð halda.

15 Þú skalt halda hátíð hinna ósýrðu brauða. Sjö daga skalt þú eta ósýrt brauð, eins og ég hefi boðið þér, á ákveðnum tíma í abíb-mánuði, því að í þeim mánuði fórst þú út af Egyptalandi. Enginn skal koma tómhentur fyrir mitt auglit.

16 Þú skalt halda hátíð frumskerunnar, frumgróðans af vinnu þinni, af því sem þú sáðir í akurinn. Þú skalt halda uppskeruhátíðina við árslokin, er þú alhirðir afla þinn af akrinum.

17 Þrem sinnum á ári skal allt þitt karlkyn birtast frammi fyrir herra Drottni.

18 Eigi skalt þú fram bera blóð fórnar minnar með sýrðu brauði, og feitin af hátíðafórn minni skal ekki liggja til morguns.

19 Hið fyrsta, frumgróða jarðar þinnar, skalt þú færa til húss Drottins Guðs þíns. Þú skalt ekki sjóða kið í mjólk móður sinnar.

20 Sjá, ég sendi engil á undan þér til að varðveita þig á ferðinni og leiða þig til þess staðar, sem ég hefi fyrirbúið.

21 Haf gát á þér fyrir honum og hlýð hans röddu, móðga þú hann ekki, því að hann mun ekki fyrirgefa misgjörðir yðar, því að mitt nafn er í honum.

22 En ef þú hlýðir röddu hans rækilega og gjörir allt, sem ég segi, þá skal ég vera óvinur óvina þinna og mótstöðu veita þínum mótstöðumönnum.

23 Engill minn skal ganga á undan þér og leiða þig til Amoríta, Hetíta, Peresíta, Kanaaníta, Hevíta og Jebúsíta, og ég skal afmá þá.

24 Þú skalt ekki tilbiðja þeirra guði og ekki dýrka þá og ekki fara að háttum þeirra, heldur skalt þú gjöreyða þeim og með öllu sundur brjóta merkissteina þeirra.

25 Þér skuluð dýrka Drottin, Guð yðar, og hann mun blessa brauð þitt og vatn, og ég skal bægja sóttum burt frá þér.

26 Engin vanbyrja og engin óbyrja skal finnast í landi þínu. Ég skal fylla tal daga þinna.

27 Ógn mína mun ég senda á undan þér og gjöra felmtsfullar allar þær þjóðir, sem þú kemur til, og alla óvini þína mun ég flýja láta fyrir þér.

28 Ég skal senda skelfingu á undan þér, og hún skal í burt stökkva Hevítum, Kanaanítum og Hetítum úr augsýn þinni.

29 Þó vil ég ekki stökkva þeim burt úr augsýn þinni á einu ári, svo að landið fari ekki í auðn og villidýrunum fjölgi ekki þér til meins.

30 Smám saman vil ég stökkva þeim burt úr augsýn þinni, uns þér fjölgar og þú eignast landið.

31 Og ég vil setja landamerki þín frá Rauðahafinu til Filistahafs, og frá eyðimörkinni til Fljótsins. Ég mun gefa íbúa landsins á vald yðar, og þú skalt stökkva þeim burt undan þér.

32 Þú skalt eigi gjöra sáttmála við þá eða þeirra guði.

33 Þeir skulu ekki búa í landi þínu, svo að þeir komi þér ekki til þess að syndga gegn mér, því ef þú dýrkar þeirra guði, mun það verða þér að tálsnöru."

Jóhannesarguðspjall 2

Á þriðja degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar.

Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans.

En er vín þraut segir móðir Jesú við hann: "Þeir hafa ekki vín."

Jesús svarar: "Hvað varðar það mig og þig, kona? Minn tími er ekki enn kominn."

Móðir hans sagði þá við þjónana: "Gjörið það, sem hann kann að segja yður."

Nú voru þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun, og tók hvert þeirra tvo mæla eða þrjá.

Jesús segir við þá: "Fyllið kerin vatni." Þeir fylltu þau á barma.

Síðan segir hann: "Ausið nú af og færið veislustjóra." Þeir gjörðu svo.

Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, og vissi ekki, hvaðan það var, en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það. Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann

10 og sagði: "Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara, er menn gjörast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú."

11 Þetta fyrsta tákn sitt gjörði Jesús í Kana í Galíleu og opinberaði dýrð sína, og lærisveinar hans trúðu á hann.

12 Eftir þetta fór hann ofan til Kapernaum ásamt móður sinni, bræðrum og lærisveinum. Þar voru þau nokkra daga.

13 Nú fóru páskar Gyðinga í hönd, og Jesús hélt upp til Jerúsalem.

14 Þar sá hann í helgidóminum þá, er seldu naut, sauði og dúfur, og víxlarana, sem sátu þar.

15 Þá gjörði hann sér svipu úr köðlum og rak alla út úr helgidóminum, líka sauðina og nautin. Hann steypti niður peningum víxlaranna og hratt um borðum þeirra,

16 og við dúfnasalana sagði hann: "Burt með þetta héðan. Gjörið ekki hús föður míns að sölubúð."

17 Lærisveinum hans kom í hug, að ritað er: "Vandlæting vegna húss þíns mun tæra mig upp."

18 Gyðingar sögðu þá við hann: "Hvaða tákn getur þú sýnt oss um það, að þú megir gjöra þetta?"

19 Jesús svaraði þeim: "Brjótið þetta musteri, og ég skal reisa það á þrem dögum."

20 Þá sögðu Gyðingar: "Þetta musteri hefur verið fjörutíu og sex ár í smíðum, og þú ætlar að reisa það á þrem dögum!"

21 En hann var að tala um musteri líkama síns.

22 Þegar hann var risinn upp frá dauðum, minntust lærisveinar hans, að hann hafði sagt þetta, og trúðu ritningunni og orðinu, sem Jesús hafði talað.

23 Meðan hann var í Jerúsalem á páskahátíðinni, fóru margir að trúa á nafn hans, því þeir sáu þau tákn, sem hann gjörði.

24 En Jesús gaf þeim ekki trúnað sinn, því hann þekkti alla.

25 Hann þurfti þess ekki, að neinn bæri öðrum manni vitni; hann vissi sjálfur, hvað í manni býr.

Jobsbók 41

41 Getur þú veitt krókódílinn á öngul, getur þú heft tungu hans með snæri?

Dregur þú seftaug gegnum nasir hans og rekur þú krók gegnum kjálka honum?

Ætli hann beri fram fyrir þig margar auðmjúkar bænir eða mæli til þín blíðum orðum?

Mun hann gjöra við þig sáttmála, svo að þú takir hann að ævinlegum þræli?

Munt þú leika þér að honum eins og litlum fugli og getur þú bundið hann fastan fyrir smámeyjar þínar?

Manga fiskveiðafélagar um hann, skipta þeir honum meðal kaupmanna?

Getur þú fyllt húð hans broddum og haus hans skutlum?

Legg hönd þína á hann _ hugsaðu þér, hvílík viðureign! Þú gjörir það ekki aftur.

Já, von mannsins bregst, hann fellur þegar flatur fyrir sjóninni einni saman.

10 Enginn er svo fífldjarfur, að hann þori að egna hann, _ og hver er þá sá, er þori að ganga fram fyrir mitt auglit?

11 Hver hefir að fyrra bragði gefið mér, svo að ég ætti að endurgjalda? Allt sem undir himninum er, það er mitt!

12 Ég vil ekki þegja um limu hans, né um styrkleik og fegurð vaxtar hans.

13 Hver hefir flett upp skjaldkápu hans að framan, hver fer inn undir tvöfaldan tanngarð hans?

14 Hver hefir opnað hliðin að gini hans? Ógn er kringum tennur hans.

15 Tignarprýði eru skjaldaraðirnar, lokaðar með traustu innsigli.

16 Hver skjöldurinn liggur fast að öðrum, ekkert loft kemst á milli þeirra.

17 Þeir eru fastir hver við annan, eru svo samfelldir, að þeir verða eigi skildir sundur.

18 Þegar hann hnerrar, standa ljósgeislar úr nösum hans, og augu hans eru sem brágeislar morgunroðans.

19 Úr gini hans standa blys, eldneistar ganga fram úr honum.

20 Úr nösum hans stendur eimur, eins og upp úr sjóðandi potti, sem kynt er undir með sefgrasi.

21 Andi hans kveikir í kolum, og logi stendur úr gini hans.

22 Kraftur situr á hálsi hans, og angist stökkur á undan honum.

23 Vöðvar holds hans loða fastir við, eru steyptir á hann og hreyfast ekki.

24 Hjarta hans er hart sem steinn, já, hart sem neðri kvarnarsteinn.

25 Þegar hann stökkur upp, skelfast kapparnir, þeir verða ringlaðir af hræðslu.

26 Ráðist einhver að honum með sverði, þá vinnur það eigi á, eigi heldur lensa, skotspjót eða ör.

27 Hann metur járnið sem strá, eirinn sem maðksmoginn við.

28 Eigi rekur örin hann á flótta, slöngusteinarnir verða hálmur fyrir honum.

29 Kylfur metur hann sem hálmstrá, og að hvin spjótsins hlær hann.

30 Neðan á honum eru oddhvöss brot, hann markar för í aurinn sem för eftir þreskisleða.

31 Hann lætur vella í djúpinu sem í potti, gjörir hafið eins og smyrslaketil.

32 Aftur undan honum er ljósrák, ætla mætti, að sjórinn væri silfurhærur.

33 Enginn er hans maki á jörðu, hans sem skapaður er til þess að kunna ekki að hræðast.

34 Hann lítur niður á allt hátt, hann er konungur yfir öllum drembnum dýrum.

Síðara bréf Páls til Kori 11

11 Ó að þér vilduð umbera dálitla fávisku hjá mér! Jú, vissulega umberið þér mig.

Ég vakti yfir yður með afbrýði Guðs, því að ég hef fastnað yður einum manni, Kristi, og vil leiða fram fyrir hann hreina mey.

En ég er hræddur um, að eins og höggormurinn tældi Evu með flærð sinni, svo kunni og hugsanir yðar að spillast og leiðast burt frá einlægri og hreinni tryggð við Krist.

Því að ef einhver kemur og prédikar annan Jesú en vér höfum prédikað, eða þér fáið annan anda en þér hafið fengið, eða annað fagnaðarerindi en þér hafið tekið á móti, þá umberið þér það mætavel.

Ég álít mig þó ekki í neinu standa hinum stórmiklu postulum að baki.

Þótt mig bresti mælsku, brestur mig samt ekki þekkingu og vér höfum á allan hátt birt yður hana í öllum greinum.

Eða drýgði ég synd, er ég lítillækkaði sjálfan mig til þess að þér mættuð upphafnir verða og boðaði yður ókeypis fagnaðarerindi Guðs?

Aðra söfnuði rúði ég og tók mála af þeim til þess að geta þjónað yður, og er ég var hjá yður og leið þröng, varð ég þó ekki neinum til byrði,

því að úr skorti mínum bættu bræðurnir, er komu frá Makedóníu. Og í öllu varaðist ég að verða yður til þyngsla og mun varast.

10 Svo sannarlega sem sannleiki Krists er í mér, skal þessi hrósun um mig ekki verða þögguð niður í héruðum Akkeu.

11 Hvers vegna? Er það af því að ég elska yður ekki? Nei, Guð veit að ég gjöri það.

12 En það, sem ég gjöri, mun ég og gjöra til þess að svipta þá tækifærinu, sem færis leita til þess að vera jafnokar vorir í því, sem þeir stæra sig af.

13 Því að slíkir menn eru falspostular, svikulir verkamenn, er taka á sig mynd postula Krists.

14 Og ekki er það undur, því að Satan sjálfur tekur á sig ljósengilsmynd.

15 Það er því ekki mikið, þótt þjónar hans taki á sig mynd réttlætisþjóna. Afdrif þeirra munu verða samkvæmt verkum þeirra.

16 Enn segi ég: Ekki álíti neinn mig fávísan. En þó svo væri, þá takið samt við mér sem fávísum, til þess að ég geti líka hrósað mér dálítið.

17 Það sem ég tala nú, þegar ég tek upp á að hrósa mér, tala ég ekki að hætti Drottins, heldur eins og í heimsku.

18 Með því að margir hrósa sér af sínum mannlegu afrekum, vil ég einnig hrósa mér svo,

19 því að fúslega umberið þér hina fávísu, svo vitrir sem þér eruð.

20 Þér umberið það, þótt einhver hneppi yður í ánauð, þótt einhver eti yður upp, þótt einhver hremmi yður, þótt einhver lítilsvirði yður, þótt einhver slái yður í andlitið.

21 Ég segi það mér til minnkunar, að í þessu höfum vér sýnt oss veika. En þar sem aðrir láta drýgindalega, _ ég tala fávíslega _, þar gjöri ég það líka.

22 Eru þeir Hebrear? Ég líka. Eru þeir Ísraelítar? Ég líka. Eru þeir Abrahams niðjar? Ég líka.

23 Eru þeir þjónar Krists? _ Nú tala ég eins og vitfirringur! _ Ég fremur. Meira hef ég unnið, oftar verið í fangelsi, fleiri högg þolað og oft dauðans hættu.

24 Af Gyðingum hef ég fimm sinnum fengið höggin þrjátíu og níu,

25 þrisvar verið húðstrýktur, einu sinni verið grýttur, þrisvar beðið skipbrot, verið sólarhring í sjó.

26 Ég hef verið á sífelldum ferðalögum, komist í hann krappan í ám, lent í háska af völdum ræningja, í háska af völdum samlanda og af völdum heiðingja, í háska í borgum og í óbyggðum, á sjó og meðal falsbræðra.

27 Ég hef stritað og erfiðað, átt margar svefnlausar nætur, verið hungraður og þyrstur og iðulega fastað, og ég hef verið kaldur og klæðlaus.

28 Og ofan á allt annað bætist það, sem mæðir á mér hvern dag, áhyggjan fyrir öllum söfnuðunum.

29 Hver er sjúkur, án þess að ég sé sjúkur? Hver hrasar, án þess að ég líði?

30 Ef ég á að hrósa mér, vil ég hrósa mér af veikleika mínum.

31 Guð og faðir Drottins Jesú, hann sem blessaður er að eilífu, veit að ég lýg ekki.

32 Í Damaskus setti landshöfðingi Areta konungs vörð um borgina til þess að handtaka mig.

33 En gegnum glugga var ég látinn síga út fyrir múrinn í körfu og slapp þannig úr höndum hans.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society