M’Cheyne Bible Reading Plan
22 Ef maður stelur nauti eða sauð, og slátrar eða selur, þá gjaldi hann aftur fimm uxa fyrir einn uxa og fjóra sauði fyrir einn sauð.
2 Ef þjófur er staðinn að innbroti og lostinn til bana, þá er vegandinn eigi blóðsekur.
3 En ef sól er á loft komin, þá er hann blóðsekur. Þjófurinn skal greiða fullar bætur, en eigi hann ekkert til, skal selja hann í bætur fyrir stuldinn.
4 Ef hið stolna finnst lifandi hjá honum, hvort heldur það er uxi, asni eða sauður, þá skal hann gjalda tvöfalt aftur.
5 Ef maður beitir akur eða víngarð og lætur fénað sinn ganga lausan og hann gengur í akri annars manns, þá skal hann bæta með því, sem best er á akri hans eða í víngarði hans.
6 Ef eldur kviknar og kemst í þyrna og brennur kerfaskrúf, kornstangir eða akur, þá bæti sá fullum bótum, er eldinn kveikti.
7 Nú selur maður öðrum manni silfur eða nokkra gripi til varðveislu og því er stolið úr húsi hans, og finnist þjófurinn, þá skal hann gjalda tvöfalt aftur.
8 En finnist þjófurinn ekki, þá skal leiða húseigandann fram fyrir Guð, og synji hann fyrir með eiði að hann hafi lagt hendur á eign náunga síns.
9 Fari einhver óráðvandlega með uxa, asna, sauð, klæðnað eða hvað annað, er tapast hefir og einhver segir um: "Það er þetta," þá skal mál þeirra beggja koma fyrir Guð, og sá sem Guð dæmir sekan skal gjalda náunga sínum tvöfalt.
10 Ef maður selur öðrum manni asna eða naut eða sauð eða nokkra aðra skepnu til varðveislu, og hún deyr eða lestist eða er tekin svo að enginn sér,
11 þá skal til koma eiður við Drottinn þeirra í millum, að hann lagði ekki hönd á eign náunga síns, og skal eigandi þann eið gildan taka, en hinn bæti engu.
12 En hafi því verið stolið frá honum, þá gjaldi hann bætur eigandanum.
13 Ef það er dýrrifið, þá skal hann koma með það til sannindamerkis. Það sem dýrrifið er skal hann ekki bæta.
14 Ef maður hefir fengið einhvern grip léðan hjá öðrum manni og hann lestist eða deyr, sé eigandi ekki viðstaddur, þá bæti hinn fullum bótum,
15 en sé eigandi við, bæti hann engu. Ef það var leigugripur, þá eru bæturnar fólgnar í leigunni.
16 Ef maður glepur mey, sem ekki er föstnuð manni, og leggst með henni, þá skal hann hana mundi kaupa sér að eiginkonu.
17 En ef faðir hennar vill eigi gifta honum hana, þá skal hann greiða svo mikið silfur sem meyjarmundi svarar.
18 Eigi skalt þú láta galdrakonu lífi halda.
19 Hver sem hefir samlag við fénað skal líflátinn verða.
20 Hver sem færir fórnir nokkrum guði, öðrum en Drottni einum, skal bannfærður verða.
21 Útlendum manni skalt þú eigi sýna ójöfnuð né veita honum ágang, því að þér voruð sjálfir útlendingar í Egyptalandi.
22 Þér skuluð ekki leggjast á ekkjur eða munaðarleysingja.
23 Ef þú leggst á þau, og þau hrópa til mín, mun ég vissulega heyra neyðarkvein þeirra.
24 Þá skal reiði mín upptendrast, og ég skal drepa yður með sverði, svo að konur yðar verði ekkjur og börn yðar föðurlaus.
25 Ef þú lánar peninga fólki mínu, hinum fátæka, sem hjá þér er, þá skalt þú ekki vera við hann eins og okrari. Þér skuluð ekki taka leigu af honum.
26 Ef þú tekur yfirhöfn náunga þíns að veði, þá skila þú honum henni aftur áður sól sest,
27 því að hún er hið eina, sem hann hefir til að hylja sig með, hún skýlir líkama hans. Hvað á hann annars að hafa yfir sér, er hann leggst til hvíldar? Þegar hann hrópar til mín, skal ég heyra, því að ég er miskunnsamur.
28 Þú skalt ekki lastmæla Guði og ekki bölva höfðingja þíns fólks.
29 Lát eigi undan dragast að færa fórn af korngnótt þinni og aldinsafa. Frumgetning sona þinna skalt þú mér gefa.
30 Hið sama skalt þú gjöra af nautum þínum og sauðum. Sjö daga skal frumburðurinn vera hjá móður sinni, en hinn áttunda dag skalt þú færa mér hann.
31 Helgir menn skuluð þér vera fyrir mér. Það kjöt, sem rifið er af dýrum úti á víðavangi, skuluð þér eigi eta, heldur kasta því fyrir hunda.
1 Í upphafi var Orðið, og Orðið var hjá Guði, og Orðið var Guð.
2 Hann var í upphafi hjá Guði.
3 Allir hlutir urðu fyrir hann, án hans varð ekki neitt, sem til er.
4 Í honum var líf, og lífið var ljós mannanna.
5 Ljósið skín í myrkrinu, og myrkrið tók ekki á móti því.
6 Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes.
7 Hann kom til vitnisburðar, til að vitna um ljósið, svo að allir skyldu trúa fyrir hann.
8 Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið.
9 Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn.
10 Hann var í heiminum, og heimurinn var orðinn til fyrir hann, en heimurinn þekkti hann ekki.
11 Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum.
12 En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.
13 Þeir eru ekki af blóði bornir, ekki að holds vild né manns vilja, heldur af Guði fæddir.
14 Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika, og vér sáum dýrð hans, dýrð, sem sonurinn eini á frá föðurnum.
15 Jóhannes vitnar um hann og hrópar: "Þetta er sá sem ég átti við, þegar ég sagði: Sá sem kemur eftir mig, var á undan mér, enda fyrri en ég."
16 Af gnægð hans höfum vér allir þegið, náð á náð ofan.
17 Lögmálið var gefið fyrir Móse, en náðin og sannleikurinn kom fyrir Jesú Krist.
18 Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Sonurinn eini, Guð, sem er í faðmi föðurins, hann hefur birt hann.
19 Þessi er vitnisburður Jóhannesar, þegar Gyðingar sendu til hans presta og levíta frá Jerúsalem að spyrja hann: "Hver ert þú?"
20 Hann svaraði ótvírætt og játaði: "Ekki er ég Kristur."
21 Þeir spurðu hann: "Hvað þá? Ertu Elía?" Hann svarar: "Ekki er ég hann." "Ertu spámaðurinn?" Hann kvað nei við.
22 Þá sögðu þeir við hann: "Hver ertu? Vér verðum að svara þeim, er sendu oss. Hvað segir þú um sjálfan þig?"
23 Hann sagði: "Ég er rödd hrópanda í eyðimörk: Gjörið beinan veg Drottins, eins og Jesaja spámaður segir."
24 Sendir voru menn af flokki farísea.
25 Þeir spurðu hann: "Hvers vegna skírir þú, fyrst þú ert hvorki Kristur, Elía né spámaðurinn?"
26 Jóhannes svaraði: "Ég skíri með vatni. Mitt á meðal yðar stendur sá, sem þér þekkið ekki,
27 hann, sem kemur eftir mig, og skóþveng hans er ég ekki verður að leysa."
28 Þetta bar við í Betaníu, handan Jórdanar, þar sem Jóhannes var að skíra.
29 Daginn eftir sér hann Jesú koma til sín og segir: "Sjá, Guðs lamb, sem ber synd heimsins.
30 Þar er sá er ég sagði um: ,Eftir mig kemur maður, sem var á undan mér, því hann er fyrri en ég.`
31 Sjálfur þekkti ég hann ekki. En til þess kom ég og skíri með vatni, að hann opinberist Ísrael."
32 Og Jóhannes vitnaði: "Ég sá andann koma af himni ofan eins og dúfu, og hann nam staðar yfir honum.
33 Sjálfur þekkti ég hann ekki, en sá er sendi mig að skíra með vatni, sagði mér: ,Sá sem þú sérð andann koma yfir og nema staðar á, hann er sá sem skírir með heilögum anda.`
34 Þetta sá ég, og ég vitna, að hann er sonur Guðs."
35 Daginn eftir var Jóhannes þar aftur staddur og tveir lærisveinar hans.
36 Hann sér Jesú á gangi og segir: "Sjá, Guðs lamb."
37 Lærisveinar hans tveir heyrðu orð hans og fóru á eftir Jesú.
38 Jesús sneri sér við, sá þá koma á eftir sér og sagði við þá: "Hvers leitið þið?" Þeir svara: "Rabbí (það þýðir meistari), hvar dvelst þú?"
39 Hann segir: "Komið og sjáið." Þeir komu og sáu, hvar hann dvaldist, og voru hjá honum þann dag. Þetta var síðdegis.
40 Annar þessara tveggja, sem heyrðu orð Jóhannesar og fóru á eftir Jesú, var Andrés, bróðir Símonar Péturs.
41 Hann finnur fyrst bróður sinn, Símon, og segir við hann: "Við höfum fundið Messías!" (Messías þýðir Kristur, Hinn smurði.)
42 Hann fór með hann til Jesú. Jesús horfði á hann og sagði: "Þú ert Símon Jóhannesson, þú skalt heita Kefas" (Pétur, það þýðir klettur).
43 Næsta dag hugðist Jesús fara til Galíleu. Hann hitti þá Filippus og sagði við hann: "Fylg þú mér!"
44 Filippus var frá Betsaídu, sömu borg og Andrés og Pétur.
45 Filippus fann Natanael og sagði við hann: "Vér höfum fundið þann, sem Móse skrifar um í lögmálinu og spámennirnir, Jesú frá Nasaret, son Jósefs."
46 Natanael sagði: "Getur nokkuð gott komið frá Nasaret?" Filippus svaraði: "Kom þú og sjá."
47 Jesús sá Natanael koma til sín og sagði við hann: "Hér er sannur Ísraelíti, sem engin svik eru í."
48 Natanael spyr: "Hvaðan þekkir þú mig?" Jesús svarar: "Ég sá þig undir fíkjutrénu, áður en Filippus kallaði á þig."
49 Þá segir Natanael: "Rabbí, þú ert sonur Guðs, þú ert konungur Ísraels."
50 Jesús spyr hann: "Trúir þú, af því að ég sagði við þig: ,Ég sá þig undir fíkjutrénu`? Þú munt sjá það, sem þessu er meira."
51 Og hann segir við hann: "Sannlega, sannlega segi ég yður: Þér munuð sjá himininn opinn og engla Guðs stíga upp og stíga niður yfir Mannssoninn."
40 Og Drottinn mælti til Jobs og sagði:
2 Vill ámælismaðurinn þrátta við hinn Almáttka? Sá er sakir ber á Guð, svari hann þessu!
3 Þá svaraði Job Drottni og sagði:
4 Sjá, ég er of lítilmótlegur, hverju á ég að svara þér? Ég legg hönd mína á munninn.
5 Einu sinni hefi ég talað, og endurtek það eigi, _ tvisvar, og gjöri það ekki oftar.
6 Þá svaraði Drottinn Job úr stormviðrinu og sagði:
7 Gyrð lendar þínar eins og maður. Ég mun spyrja þig, og þú skalt fræða mig.
8 Ætlar þú jafnvel að gjöra rétt minn að engu, dæma mig sekan, til þess að þú standir réttlættur?
9 Hefir þú þá armlegg eins og Guð, og getur þú þrumað með slíkri rödd sem hann?
10 Skrýð þig vegsemd og tign, íklæð þig dýrð og ljóma!
11 Lát úthellast strauma reiði þinnar og varpa til jarðar með einu tilliti sérhverjum dramblátum.
12 Auðmýk þú sérhvern dramblátan með einu tilliti, og troð þú hina óguðlegu niður þar sem þeir standa.
13 Byrg þú þá í moldu alla saman, loka andlit þeirra inni í myrkri,
14 þá skal ég líka lofa þig, fyrir það að hægri hönd þín veitir þér fulltingi.
15 Sjá, nykurinn sem ég hefi skapað eins og þig, hann etur gras eins og naut.
16 Sjá, kraftur hans er í lendum hans og afl hans í kviðvöðvunum.
17 Hann sperrir upp stertinn eins og sedrustré, lærsinar hans eru ofnar saman.
18 Leggir hans eru eirpípur, beinin eins og járnstafur.
19 Hann er frumgróði Guðs verka, sá er skóp hann, gaf honum sverð hans.
20 Fjöllin láta honum grasbeit í té, og þar leika sér dýr merkurinnar.
21 Hann liggur undir lótusrunnum í skjóli við reyr og sef.
22 Lótusrunnarnir breiða skugga yfir hann, lækjarpílviðirnir lykja um hann.
23 Sjá, þegar vöxtur kemur í ána, skelfist hann ekki, hann er óhultur, þótt fljót belji á skolti hans.
24 Getur nokkur veitt hann með því að ganga framan að honum, getur nokkur dregið taug gegnum nasir hans?
10 Nú áminni ég sjálfur, Páll, yður með hógværð og mildi Krists, ég, sem í návist yðar á að vera auðmjúkur, en fjarverandi djarfmáll við yður.
2 Ég bið yður þess, að láta mig ekki þurfa að vera djarfmálan, þegar ég kem, og beita þeim myndugleika, sem ég ætla mér að beita gagnvart nokkrum, er álíta, að vér látum stjórnast af mannlegum hvötum.
3 Þótt vér lifum jarðnesku lífi, þá berjumst vér ekki á jarðneskan hátt, _
4 því að vopnin, sem vér berjumst með, eru ekki jarðnesk, heldur máttug vopn Guðs til að brjóta niður vígi.
5 Vér brjótum niður hugsmíðar og allt, sem hreykir sér gegn þekkingunni á Guði, og hertökum hverja hugsun til hlýðni við Krist.
6 Og vér erum þess albúnir að refsa sérhverri óhlýðni, þegar hlýðni yðar er fullkomin orðin.
7 Þér horfið á hið ytra. Ef einhver treystir því, að hann sé Krists, þá hyggi hann betur að og sjái, að eins og hann er Krists, þannig erum vér það einnig.
8 Jafnvel þótt ég vildi hrósa mér í frekara lagi af valdi voru, sem Drottinn hefur gefið til að uppbyggja, en ekki til að niðurbrjóta yður, þá yrði ég mér ekki til skammar.
9 Ekki má líta svo út sem ég vilji hræða yður með bréfunum.
10 "Bréfin," segja menn, "eru þung og ströng, en sjálfur er hann lítill fyrir mann að sjá og enginn tekur mark á ræðu hans."
11 Sá, sem slíkt segir, festi það í huga sér, að eins og vér fjarstaddir tölum til yðar í bréfunum, þannig munum vér koma fram, þegar vér erum hjá yður.
12 Ekki dirfumst vér að telja oss til þeirra eða bera oss saman við suma af þeim, er mæla með sjálfum sér. Þeir mæla sig við sjálfa sig og bera sig saman við sjálfa sig og eru óskynsamir.
13 En vér viljum ekki hrósa oss án viðmiðunar, heldur samkvæmt þeirri mælistiku, sem Guð hefur úthlutað oss: Að ná alla leið til yðar.
14 Því að vér teygjum oss ekki of langt fram, ella hefðum vér ekki komist til yðar. En vér vorum fyrstir til yðar með fagnaðarerindið um Krist.
15 Vér höfum vora viðmiðun og stærum oss ekki af erfiði annarra. Vér höfum þá von, að eftir því sem trú yðar vex, verðum vér miklir á meðal yðar, já, stórmiklir samkvæmt mælistiku vorri.
16 Þá getum vér boðað fagnaðarerindið í löndum handan við yður án þess að nota annarra mælistikur eða stæra oss af því, sem þegar er gjört.
17 En "sá sem hrósar sér, hann hrósi sér í Drottni."
18 Því að fullgildur er ekki sá, er mælir með sjálfum sér, heldur sá, er Drottinn mælir með.
by Icelandic Bible Society