M’Cheyne Bible Reading Plan
21 Þetta eru þau lög, sem þú skalt leggja fyrir þá:
2 Þegar þú kaupir hebreskan þræl, skal hann þjóna þér sex ár, en á sjöunda ári skal hann frjáls burt fara án endurgjalds.
3 Hafi hann komið einhleypur, skal hann og einhleypur burt fara, en hafi hann kvongaður verið, skal kona hans fara burt með honum.
4 Hafi húsbóndi hans fengið honum konu og hafi hún fætt honum sonu eða dætur, þá skal konan og börn hennar heyra húsbónda sínum til, en hann skal fara burt einhleypur.
5 En ef þrællinn segir skýlaust: "Ég elska húsbónda minn, konu mína og börn mín, ég vil ekki frjáls í burtu fara,"
6 þá skal húsbóndi hans færa hann til Guðs og leiða hann að dyrunum eða að dyrastafnum, og skal húsbóndi hans stinga al í gegnum eyra honum, og skal hann síðan vera þræll hans ævinlega.
7 Þegar maður selur dóttur sína að ambátt, skal hún ekki burt fara á sama hátt sem þrælar.
8 Geðjist hún eigi húsbónda sínum, sem ætlað hefir hana sjálfum sér, þá skal hann leyfa að hún sé leyst. Ekki skal hann hafa vald til að selja hana útlendum lýð, með því að hann hefir brugðið heiti við hana.
9 En ef hann ætlar hana syni sínum, þá skal hann gjöra við hana sem dóttur sína.
10 Taki hann sér aðra konu, skal hann ekki minnka af við hana í kosti eða klæðnaði eða sambúð.
11 Veiti hann henni ekki þetta þrennt, þá fari hún burt ókeypis, án endurgjalds.
12 Hver sem lýstur mann, svo að hann fær bana af, skal líflátinn verða.
13 En hafi hann ekki setið um líf hans, en Guð látið hann verða fyrir honum, þá skal ég setja þér griðastað, sem hann megi í flýja.
14 En fremji nokkur þá óhæfu að drepa náunga sinn með svikum, þá skalt þú taka hann, jafnvel frá altari mínu, að hann verði líflátinn.
15 Hver sem lýstur föður sinn eða móður sína skal líflátinn verða.
16 Hver sem stelur manni og selur hann, eða hann finnst í hans vörslu, hann skal líflátinn verða.
17 Hver sem bölvar föður sínum eða móður sinni skal líflátinn verða.
18 Þegar menn deila og annar lýstur hinn steini eða hnefa, og fær hann ekki bana af, heldur leggst í rekkju,
19 ef hann þá kemst á fætur og gengur úti við staf sinn, þá sé sá sýkn saka, er laust. En bæta skal hann honum verkfallið og láta græða hann til fulls.
20 Ef maður lýstur þræl sinn eða ambátt með staf, svo að hann deyr undir hendi hans, þá skal hann refsingu sæta.
21 En sé hann með lífi einn dag eða tvo, þá skal hann þó eigi refsingu sæta, því að þrællinn er eign hans verði keypt.
22 Ef menn fljúgast á og stjaka við þungaðri konu, svo að henni leysist höfn, en verður ekki annað mein af, þá haldi hann bótum uppi, slíkum sem bóndi konunnar kveður á hann, og greiði eftir mati gjörðarmanna.
23 En ef skaði hlýst af, þá skalt þú láta líf fyrir líf,
24 auga fyrir auga, tönn fyrir tönn, hönd fyrir hönd, fót fyrir fót,
25 bruna fyrir bruna, sár fyrir sár, skeinu fyrir skeinu.
26 Ef maður slær þræl sinn eða ambátt á auga og skemmir það, þá skal hann gefa honum frelsi sitt fyrir augað,
27 og ef hann lýstur tönn úr þræli sínum eða ambátt, þá gefi hann honum frelsi fyrir tönn sína.
28 Ef uxi stangar mann eða konu til bana, þá skal grýta uxann og ekki neyta kjötsins, og er eigandi uxans þá sýkn saka.
29 En hafi uxinn verið mannýgur áður og eigandinn verið látinn vita það, og geymir hann ekki uxans að heldur, svo að hann verður manni eða konu að bana, þá skal grýta uxann, en eigandi skal og líflátinn verða.
30 En gjörist honum að bæta með fé, þá leysi hann líf sitt með svo miklum bótum sem honum verður gjört að greiða.
31 Hvort sem uxinn stangar son eða dóttur, skal með hann fara eftir þessu lagaákvæði.
32 Ef uxinn stangar þræl manns eða ambátt, þá skal eigandi gjalda húsbónda þeirra þrjátíu sikla silfurs, og skal grýta uxann.
33 Ef maður opnar brunn eða grefur brunn og byrgir eigi aftur, og uxi eða asni fellur í hann,
34 þá skal eigandi brunnsins bæta. Hann skal greiða eigandanum fé fyrir, en hafa sjálfur hið dauða.
35 Ef uxi manns stangar uxa annars manns til bana, þá skulu þeir selja þann uxann, sem lifir, og skipta verði hans, og einnig skulu þeir skipta dauða uxanum.
36 En ef það var kunnugt, að uxinn var mannýgur áður, og eigandi gætti hans ekki að heldur, þá bæti hann uxa fyrir uxa, en hafi sjálfur hinn dauða.
24 En í afturelding fyrsta dag vikunnar komu þær til grafarinnar með ilmsmyrslin, sem þær höfðu búið.
2 Þær sáu þá, að steininum hafði verið velt frá gröfinni,
3 og þegar þær stigu inn, fundu þær ekki líkama Drottins Jesú.
4 Þær skildu ekkert í þessu, en þá brá svo við, að hjá þeim stóðu tveir menn í leiftrandi klæðum.
5 Þær urðu mjög hræddar og hneigðu andlit til jarðar. En þeir sögðu við þær: "Hví leitið þér hins lifanda meðal dauðra?
6 Hann er ekki hér, hann er upp risinn. Minnist þess, hvernig hann talaði við yður, meðan hann var enn í Galíleu.
7 Hann sagði, að Mannssonurinn skyldi framseldur verða í hendur syndugra manna og krossfestur, en rísa upp á þriðja degi."
8 Og þær minntust orða hans,
9 sneru frá gröfinni og kunngjörðu allt þetta þeim ellefu og öllum hinum.
10 Þessar konur voru þær María Magdalena, Jóhanna og María móðir Jakobs og hinar, sem voru með þeim. Þær sögðu postulunum frá þessu.
11 En þeir töldu orð þeirra markleysu eina og trúðu þeim ekki.
12 Pétur stóð þó upp og hljóp til grafarinnar, skyggndist inn og sá þar líkklæðin ein. Fór hann heim síðan og undraðist það, sem við hafði borið.
13 Tveir þeirra fóru þann sama dag til þorps nokkurs, sem er um sextíu skeiðrúm frá Jerúsalem og heitir Emmaus.
14 Þeir ræddu sín á milli um allt þetta, sem gjörst hafði.
15 Þá bar svo við, er þeir voru að tala saman og ræða þetta, að Jesús sjálfur nálgaðist þá og slóst í för með þeim.
16 En augu þeirra voru svo haldin, að þeir þekktu hann ekki.
17 Og hann sagði við þá: "Hvað er það, sem þið ræðið svo mjög á göngu ykkar?" Þeir námu staðar, daprir í bragði,
18 og annar þeirra, Kleófas að nafni, sagði við hann: "Þú ert víst sá eini aðkomumaður í Jerúsalem, sem veist ekki, hvað þar hefur gjörst þessa dagana."
19 Hann spurði: "Hvað þá?" Þeir svöruðu: "Þetta um Jesú frá Nasaret, sem var spámaður, máttugur í verki og orði fyrir Guði og öllum lýð,
20 hvernig æðstu prestar og höfðingjar vorir framseldu hann til dauðadóms og krossfestu hann.
21 Vér vonuðum, að hann væri sá, er leysa mundi Ísrael. En nú er þriðji dagur síðan þetta bar við.
22 Þá hafa og konur nokkrar úr vorum hóp gjört oss forviða. Þær fóru árla til grafarinnar,
23 en fundu ekki líkama hans og komu og sögðust enda hafa séð engla í sýn, er sögðu hann lifa.
24 Nokkrir þeirra, sem með oss voru, fóru til grafarinnar og fundu allt eins og konurnar höfðu sagt, en hann sáu þeir ekki."
25 Þá sagði hann við þá: "Ó, þér heimskir og tregir í hjarta til þess að trúa öllu því, sem spámennirnir hafa talað!
26 Átti ekki Kristur að líða þetta og ganga svo inn í dýrð sína?"
27 Og hann byrjaði á Móse og öllum spámönnunum og útlagði fyrir þeim það, sem um hann er í öllum ritningunum.
28 Þeir nálguðust nú þorpið, sem þeir ætluðu til, en hann lét sem hann vildi halda lengra.
29 Þeir lögðu þá fast að honum og sögðu: "Vertu hjá oss, því að kvölda tekur og degi hallar." Og hann fór inn til að vera hjá þeim.
30 Og svo bar við, er hann sat til borðs með þeim, að hann tók brauðið, þakkaði Guði, braut það og fékk þeim.
31 Þá opnuðust augu þeirra, og þeir þekktu hann, en hann hvarf þeim sjónum.
32 Og þeir sögðu hvor við annan: "Brann ekki hjartað í okkur, meðan hann talaði við okkur á veginum og lauk upp fyrir okkur ritningunum?"
33 Þeir stóðu samstundis upp og fóru aftur til Jerúsalem. Þar fundu þeir þá ellefu og þá, er með þeim voru, saman komna,
34 og sögðu þeir: "Sannarlega er Drottinn upp risinn og hefur birst Símoni."
35 Hinir sögðu þá frá því, sem við hafði borið á veginum, og hvernig þeir höfðu þekkt hann, þegar hann braut brauðið.
36 Nú voru þeir að tala um þetta, og þá stendur hann sjálfur meðal þeirra og segir við þá: "Friður sé með yður!"
37 En þeir skelfdust og urðu hræddir og hugðust sjá anda.
38 Hann sagði við þá: "Hví eruð þér óttaslegnir og hvers vegna vakna efasemdir í hjarta yðar?
39 Lítið á hendur mínar og fætur, að það er ég sjálfur. Þreifið á mér, og gætið að. Ekki hefur andi hold og bein eins og þér sjáið að ég hef."
40 Þegar hann hafði þetta mælt, sýndi hann þeim hendur sínar og fætur.
41 Enn gátu þeir ekki trúað fyrir fögnuði og voru furðu lostnir. Þá sagði hann við þá: "Hafið þér hér nokkuð til matar?"
42 Þeir fengu honum stykki af steiktum fiski,
43 og hann tók það og neytti þess frammi fyrir þeim.
44 Og hann sagði við þá: "Þessi er merking orða minna, sem ég talaði við yður, meðan ég var enn meðal yðar, að rætast ætti allt það, sem um mig er ritað í lögmáli Móse, spámönnunum og sálmunum."
45 Síðan lauk hann upp huga þeirra, að þeir skildu ritningarnar.
46 Og hann sagði við þá: "Svo er skrifað, að Kristur eigi að líða og rísa upp frá dauðum á þriðja degi,
47 og að prédika skuli í nafni hans öllum þjóðum iðrun til fyrirgefningar synda og byrja í Jerúsalem.
48 Þér eruð vottar þessa.
49 Sjá, ég sendi fyrirheit föður míns yfir yður, en verið þér kyrrir í borginni, uns þér íklæðist krafti frá hæðum."
50 Síðan fór hann með þá út í nánd við Betaníu, hóf upp hendur sínar og blessaði þá.
51 En það varð, meðan hann var að blessa þá, að hann skildist frá þeim og var upp numinn til himins.
52 En þeir féllu fram og tilbáðu hann og sneru aftur til Jerúsalem með miklum fögnuði.
39 Veist þú tímann, nær steingeiturnar bera? Gefur þú gaum að fæðingarhríðum hindanna?
2 Telur þú mánuðina, sem þær ganga með, og veist þú tímann, nær þær bera?
3 Þær leggjast á knén, fæða kálfa sína, þær losna fljótt við kvalir sínar.
4 Kálfar þeirra verða sterkir, vaxa í haganum, fara burt og koma ekki aftur til þeirra.
5 Hver hefir látið skógarasnann ganga lausan og hver hefir leyst fjötra villiasnans,
6 sem ég hefi gefið eyðivelli að bústað og saltsléttu að heimkynni?
7 Hann hlær að hávaða borgarinnar, hann heyrir ekki köll rekstrarmannsins.
8 Það sem hann leitar uppi á fjöllunum, er haglendi hans, og öllu því sem grænt er, sækist hann eftir.
9 Mun vísundurinn vera fús til að þjóna þér eða mun hann standa um nætur við stall þinn?
10 Getur þú bundið vísundinn með bandinu við plógfarið eða mun hann herfa dalgrundirnar á eftir þér?
11 Reiðir þú þig á hann, af því að kraftur hans er mikill, og trúir þú honum fyrir arði þínum?
12 Treystir þú honum til að flytja sáð þitt heim og til að safna því á þreskivöll þinn?
13 Strúthænan baðar glaðlega vængjunum, en er nokkurt ástríki í þeim vængjum og flugfjöðrum?
14 Nei, hún fær jörðinni egg sín og lætur þau hitna í moldinni
15 og gleymir, að fótur getur brotið þau og dýr merkurinnar troðið þau sundur.
16 Hún er hörð við unga sína, eins og hún ætti þá ekki, þótt fyrirhöfn hennar sé árangurslaus, þá er hún laus við ótta,
17 því að Guð synjaði henni um visku og veitti henni enga hlutdeild í hyggindum.
18 En þegar hún sveiflar sér í loft upp, þá hlær hún að hestinum og þeim sem á honum situr.
19 Gefur þú hestinum styrkleika, klæðir þú makka hans flaksandi faxi?
20 Lætur þú hann stökkva eins og engisprettu? Fagurlega frýsar hann, en hræðilega!
21 Hann krafsar upp grundina og kætist af styrkleikanum, hann fer út á móti hertygjunum.
22 Hann hlær að hræðslunni og skelfist ekki og hopar ekki fyrir sverðinu.
23 Á baki hans glamrar í örvamælinum, spjót og lensa leiftra.
24 Með hávaða og harki hendist hann yfir jörðina og eigi verður honum haldið, þá er lúðurinn gellur.
25 Í hvert sinn er lúðurinn gellur, hvíar hann, og langar leiðir nasar hann bardagann, þrumurödd fyrirliðanna og herópið.
26 Er það fyrir þín hyggindi að haukurinn lyftir flugfjöðrunum, breiðir út vængi sína í suðurátt?
27 Er það eftir þinni skipun að örninn flýgur svo hátt og byggir hreiður sitt hátt uppi?
28 Á klettunum á hann sér býli og ból, á klettasnösum og fjallatindum.
29 Þaðan skyggnist hann að æti, augu hans sjá langar leiðir.
30 Og ungar hans svelgja blóð, og hvar sem vegnir menn liggja, þar er hann.
9 Um hjálpina til hinna heilögu er sem sé óþarft fyrir mig að skrifa yður,
2 því að ég þekki góðan vilja yðar og hrósa mér af yður meðal Makedóna og segi, að Akkea hefur verið reiðubúin síðan í fyrra. Áhugi yðar hefur verið hvatning fyrir fjöldamarga.
3 En bræðurna hef ég sent, til þess að hrós vort um yður skyldi ekki reynast fánýtt í þessu efni og til þess að þér, eins og ég sagði, mættuð vera reiðubúnir.
4 Annars gæti svo farið, að vér, _ að vér ekki segjum þér _, þyrftum að bera kinnroða fyrir þetta traust, ef Makedónar skyldu koma með mér og finna yður óviðbúna.
5 Vér töldum því nauðsynlegt að biðja bræðurna að fara á undan til yðar og undirbúa þá gjöf yðar, sem heitin var áður, svo að hún mætti vera á reiðum höndum eins og blessun, en ekki nauðung.
6 En þetta segi ég: Sá sem sáir sparlega mun og sparlega uppskera, og sá sem sáir ríflega mun og ríflega uppskera.
7 Sérhver gefi eins og hann hefur ásett sér í hjarta sínu, ekki með ólund eða með nauðung, því að Guð elskar glaðan gjafara.
8 Guð er þess megnugur að veita yður allar góðar gjafir ríkulega, til þess að þér í öllu og ávallt hafið allt sem þér þarfnist og getið sjálfir veitt ríkulega til sérhvers góðs verks.
9 Eins og ritað er: Hann miðlaði mildilega, gaf hinum snauðu, réttlæti hans varir að eilífu.
10 Sá sem gefur sáðmanninum sæði og brauð til fæðu, hann mun og gefa yður sáð og margfalda það og auka ávexti réttlætis yðar.
11 Þér verðið í öllu auðugir og getið jafnan sýnt örlæti sem kemur til leiðar þakklæti við Guð fyrir vort tilstilli.
12 Því að þessi þjónusta, sem þér innið af hendi, bætir ekki aðeins úr skorti hinna heilögu, heldur ber hún og ríkulega ávexti við að margir menn þakka Guði.
13 Þegar menn sjá, hvers eðlis þessi þjónusta er, munu þeir lofa Guð fyrir að þér haldið játningu yðar við fagnaðarerindi Krists og gefið með yður af örlæti, bæði þeim og öllum.
14 Og þeir munu biðja fyrir yður og þrá yður vegna yfirgnæfanlegrar náðar Guðs við yður.
15 Þökk sé Guði fyrir sína óumræðilegu gjöf!
by Icelandic Bible Society