Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Önnur bók Móse 20

20 Guð talaði öll þessi orð og sagði:

"Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.

Þú skalt ekki hafa aðra guði en mig.

Þú skalt engar líkneskjur gjöra þér né nokkrar myndir eftir því, sem er á himnum uppi, eður því, sem er á jörðu niðri, eður því, sem er í vötnunum undir jörðinni.

Þú skalt ekki tilbiðja þær og ekki dýrka þær, því að ég, Drottinn Guð þinn, er vandlátur Guð, sem vitja misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið, þeirra sem mig hata,

en auðsýni miskunn þúsundum, þeirra sem elska mig og varðveita boðorð mín.

Þú skalt ekki leggja nafn Drottins Guðs þíns við hégóma, því að Drottinn mun ekki láta þeim óhegnt, sem leggur nafn hans við hégóma.

Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan.

Sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk,

10 en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni Guði þínum. Þá skalt þú ekkert verk vinna og ekki sonur þinn eða dóttir þín, þræll þinn eða ambátt þín eða skepnur þínar, eða nokkur útlendingur, sem hjá þér er innan borgarhliða þinna,

11 því að á sex dögum gjörði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í þeim er, og hvíldist sjöunda daginn. Fyrir því blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann.

12 Heiðra föður þinn og móður þína, svo að þú verðir langlífur í því landi, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.

13 Þú skalt ekki morð fremja.

14 Þú skalt ekki drýgja hór.

15 Þú skalt ekki stela.

16 Þú skalt ekki bera ljúgvitni gegn náunga þínum.

17 Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Þú skalt ekki girnast konu náunga þíns, ekki þræl hans eða ambátt, ekki uxa hans eða asna, né nokkuð það, sem náungi þinn á."

18 Allt fólkið heyrði og sá reiðarþrumurnar og eldingarnar og lúðurþytinn og fjallið rjúkandi. Og er fólkið sá þetta, skelfdust þeir og stóðu langt í burtu.

19 Þeir sögðu þá við Móse: "Tala þú við oss og vér skulum hlýða, en lát ekki Guð tala við oss, að vér deyjum ekki."

20 Og Móse sagði við fólkið: "Óttist ekki, því að Guð er kominn til þess að reyna yður og til þess að hans ótti sé yður fyrir augum, svo að þér syndgið ekki."

21 Stóð fólkið þá kyrrt langt í burtu, en Móse gekk að dimma skýinu, sem Guð var í.

22 Drottinn mælti við Móse: "Svo skalt þú segja Ísraelsmönnum: ,Þér hafið sjálfir séð, að ég hefi talað til yðar af himnum.

23 Þér skuluð eigi til búa aðra guði jafnhliða mér. Guði af silfri eða guði af gulli skuluð þér ekki búa yður til.

24 Þú skalt gjöra mér altari af torfi, og á því skalt þú fórna brennifórnum þínum og þakkarfórnum, sauðum þínum og nautum. Alls staðar þar sem ég læt minnast nafns míns, mun ég koma til þín og blessa þig.

25 En gjörir þú mér altari af steinum, þá mátt þú ekki hlaða það af höggnu grjóti, því að berir þú meitil á það, þá vanhelgar þú það.

26 Og eigi mátt þú þrep upp ganga að altari mínu, svo að blygðun þín opinberist þar ekki.`

Lúkasarguðspjall 23

23 Þá stóð upp allur skarinn og færði hann fyrir Pílatus.

Þeir tóku að ákæra hann og sögðu: "Vér höfum komist að raun um, að þessi maður leiðir þjóð vora afvega, hann bannar að gjalda keisaranum skatt og segist sjálfur vera Kristur, konungur."

Pílatus spurði hann þá: "Ert þú konungur Gyðinga?" Jesús svaraði: "Þú segir það."

Pílatus sagði við æðstu prestana og fólkið: "Enga sök finn ég hjá þessum manni."

En þeir urðu því ákafari og sögðu: "Hann æsir upp lýðinn með því, sem hann kennir í allri Júdeu, hann byrjaði í Galíleu og er nú kominn hingað."

Þegar Pílatus heyrði þetta, spurði hann, hvort maðurinn væri Galílei.

Og er hann varð þess vís, að hann var úr umdæmi Heródesar, sendi hann hann til Heródesar, er þá var og í Jerúsalem á þeim dögum.

En Heródes varð næsta glaður, er hann sá Jesú, því hann hafði lengi langað að sjá hann, þar eð hann hafði heyrt frá honum sagt. Vænti hann nú að sjá hann gjöra eitthvert tákn.

Hann spurði Jesú á marga vegu, en hann svaraði honum engu.

10 Æðstu prestarnir og fræðimennirnir stóðu þar og ákærðu hann harðlega.

11 En Heródes óvirti hann og spottaði ásamt hermönnum sínum, lagði yfir hann skínandi klæði og sendi hann aftur til Pílatusar.

12 Á þeim degi urðu þeir Heródes og Pílatus vinir, en áður var fjandskapur með þeim.

13 Pílatus kallaði nú saman æðstu prestana, höfðingjana og fólkið

14 og mælti við þá: "Þér hafið fært mér þennan mann og sagt hann leiða fólkið afvega. Nú hef ég yfirheyrt manninn í yðar viðurvist, en enga þá sök fundið hjá honum, er þér ákærið hann um.

15 Ekki heldur Heródes, því hann sendi hann aftur til vor. Ljóst er, að hann hefur ekkert það drýgt, er dauða sé vert.

16 Ætla ég því að hirta hann og láta lausan." [

17 En skylt var honum að gefa þeim lausan einn bandingja á hverri hátíð.]

18 En þeir æptu allir: "Burt með hann, gef oss Barabbas lausan!"

19 En honum hafði verið varpað í fangelsi fyrir upphlaup nokkurt, sem varð í borginni, og manndráp.

20 Pílatus talaði enn til þeirra og vildi láta Jesú lausan.

21 En þeir æptu á móti: "Krossfestu, krossfestu hann!"

22 Í þriðja sinn sagði Pílatus við þá: "Hvað illt hefur þá þessi maður gjört? Enga dauðasök hef ég fundið hjá honum. Ætla ég því að hirta hann og láta hann lausan."

23 En þeir sóttu á með ópi miklu og heimtuðu, að hann yrði krossfestur. Og hróp þeirra tóku yfir.

24 Þá ákvað Pílatus, að kröfu þeirra skyldi fullnægt.

25 Hann gaf lausan þann, er þeir báðu um og varpað hafði verið í fangelsi fyrir upphlaup og manndráp, en Jesú framseldi hann, að þeir færu með hann sem þeir vildu.

26 Þegar þeir leiddu hann út, tóku þeir Símon nokkurn frá Kýrene, er kom utan úr sveit, og lögðu krossinn á hann, að hann bæri hann eftir Jesú.

27 En honum fylgdi mikill fjöldi fólks og kvenna, er hörmuðu hann og grétu.

28 Jesús sneri sér að þeim og mælti: "Jerúsalemsdætur, grátið ekki yfir mér, en grátið yfir sjálfum yður og börnum yðar.

29 Því þeir dagar koma, er menn munu segja: Sælar eru óbyrjur og þau móðurlíf, er aldrei fæddu, og þau brjóst, sem engan nærðu.

30 Þá munu menn segja við fjöllin: Hrynjið yfir oss! og við hálsana: Hyljið oss!

31 Því að sé þetta gjört við hið græna tréð, hvað mun þá verða um hið visna?"

32 Með honum voru og færðir til lífláts aðrir tveir, sem voru illvirkjar.

33 Og er þeir komu til þess staðar, sem heitir Hauskúpa, krossfestu þeir hann þar og illvirkjana, annan til hægri handar, hinn til vinstri.

34 Þá sagði Jesús: "Faðir, fyrirgef þeim, því að þeir vita ekki, hvað þeir gjöra." En þeir köstuðu hlutum um klæði hans og skiptu með sér.

35 Fólkið stóð og horfði á, og höfðingjarnir gjörðu gys að honum og sögðu: "Öðrum bjargaði hann, bjargi hann nú sjálfum sér, ef hann er Kristur Guðs, hinn útvaldi."

36 Eins hæddu hann hermennirnir, komu og báru honum edik

37 og sögðu: "Ef þú ert konungur Gyðinga, þá bjargaðu sjálfum þér."

38 Yfirskrift var yfir honum: ÞESSI ER KONUNGUR GYÐINGA.

39 Annar þeirra illvirkja, sem upp voru festir, hæddi hann og sagði: "Ert þú ekki Kristur? Bjargaðu sjálfum þér og okkur!"

40 En hinn ávítaði hann og sagði: "Hræðist þú ekki einu sinni Guð, og ert þó undir sama dómi?

41 Við erum það með réttu og fáum makleg gjöld fyrir gjörðir okkar, en þessi hefur ekkert illt aðhafst."

42 Þá sagði hann: "Jesús, minnst þú mín, þegar þú kemur í ríki þitt!"

43 Og Jesús sagði við hann: "Sannlega segi ég þér: Í dag skaltu vera með mér í Paradís."

44 Og nú var nær hádegi og myrkur varð um allt land til nóns,

45 því sólin missti birtu sinnar. En fortjald musterisins rifnaði sundur í miðju.

46 Þá kallaði Jesús hárri röddu: "Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn!" Og er hann hafði þetta mælt, gaf hann upp andann.

47 Þegar hundraðshöfðinginn sá það, er við bar, vegsamaði hann Guð og sagði: "Sannarlega var þessi maður réttlátur."

48 Og fólkið allt, sem komið hafði saman að horfa á, sá nú, hvað gjörðist, og barði sér á brjóst og hvarf frá.

49 En vinir hans allir sem og konurnar, er fylgdu honum frá Galíleu, stóðu álengdar og horfðu á þetta.

50 Maður er nefndur Jósef. Hann var ráðsherra, góður maður og réttvís

51 og hafði ekki samþykkt ráð þeirra né athæfi. Hann var frá Arímaþeu, borg í Júdeu, og vænti Guðs ríkis.

52 Hann gekk til Pílatusar og bað hann um líkama Jesú,

53 tók hann síðan ofan, sveipaði línklæði og lagði í gröf, höggna í klett, og hafði þar enginn verið áður lagður.

54 Það var aðfangadagur og hvíldardagurinn fór í hönd.

55 Konur þær, er komið höfðu með Jesú frá Galíleu, fylgdu eftir og sáu gröfina og hvernig líkami hans var lagður.

56 Þær sneru aftur og bjuggu ilmjurtir og smyrsl. Hvíldardaginn héldu þær kyrru fyrir samkvæmt boðorðinu.

Jobsbók 38

38 Þá svaraði Drottinn Job úr stormviðrinu og sagði:

Hver er sá, sem myrkvar ráðsályktun Guðs með óskynsamlegum orðum?

Gyrð lendar þínar eins og maður, þá mun ég spyrja þig, og þú skalt fræða mig.

Hvar varst þú, þegar ég grundvallaði jörðina? Seg fram, ef þú hefir þekkingu til.

Hver ákvað mál hennar _ þú veist það! _ eða hver þandi mælivaðinn yfir hana?

Á hvað var stólpum hennar hleypt niður, eða hver lagði hornstein hennar,

þá er morgunstjörnurnar sungu gleðisöng allar saman og allir guðssynir fögnuðu?

Og hver byrgði hafið inni með hurðum, þá er það braust fram, gekk út af móðurkviði,

þá er ég fékk því skýin að klæðnaði og svartaþykknið að reifum?

10 þá er ég braut því takmörk og setti slagbranda fyrir og hurðir

11 og mælti: "Hingað skaltu komast og ekki lengra, hér skulu þínar hreyknu hrannir brotna!"

12 Hefir þú nokkurn tíma á ævi þinni boðið út morgninum, vísað morgunroðanum á stað hans,

13 til þess að hann gripi í jaðar jarðarinnar og hinir óguðlegu yrðu hristir af henni?

14 Hún breytist eins og leir undir signeti, og allt kemur fram eins og á klæði.

15 Og hinir óguðlegu verða sviptir ljósinu og hinn upplyfti armleggur sundur brotinn.

16 Hefir þú komið að uppsprettum hafsins og gengið á botni undirdjúpsins?

17 Hafa hlið dauðans opnast fyrir þér og hefir þú séð hlið svartamyrkursins?

18 Hefir þú litið yfir breidd jarðarinnar? Seg fram, fyrst þú veist það allt saman.

19 Hvar er vegurinn þangað sem ljósið býr, og myrkrið _ hvar á það heima,

20 svo að þú gætir flutt það heim í landareign þess og þekktir göturnar heim að húsi þess?

21 Þú veist það, því að þá fæddist þú, og tala daga þinna er há!

22 Hefir þú komið til forðabúrs snjávarins og séð forðabúr haglsins,

23 sem ég hefi geymt til tíma neyðarinnar, til orustu- og ófriðardagsins?

24 Hvar er vegurinn þangað sem ljósið skiptist og austanvindurinn dreifist yfir jörðina?

25 Hver hefir búið til rennu fyrir steypiregnið og veg fyrir eldingarnar

26 til þess að láta rigna yfir mannautt land, yfir eyðimörkina, þar sem enginn býr,

27 til þess að metta auðnir og eyðilönd og láta grængresi spretta?

28 Á regnið föður eða hver hefir getið daggardropana?

29 Af kviði hverrar er ísinn útgenginn, og hrím himinsins _ hver fæddi það?

30 Vötnin þéttast eins og steinn, og yfirborð fljótsins verður samfrosta.

31 Getur þú þrengt sjöstirnis-böndin eða fær þú leyst fjötra Óríons?

32 Lætur þú stjörnumerki dýrahringsins koma fram á sínum tíma og leiðir þú Birnuna með húnum hennar?

33 Þekkir þú lög himinsins eða ákveður þú yfirráð hans yfir jörðunni?

34 Getur þú lyft raust þinni upp til skýsins, svo að vatnaflaumurinn hylji þig?

35 Getur þú sent eldingarnar, svo að þær fari og segi við þig: "Hér erum vér!"

36 Hver hefir lagt vísdóm í hin dimmu ský eða hver hefir gefið loftsjónunum vit?

37 Hver telur skýin með visku, og vatnsbelgir himinsins _ hver hellir úr þeim,

38 þegar moldin rennur saman í kökk og hnausarnir loða hver við annan?

39 Veiðir þú bráðina fyrir ljónynjuna, og seður þú græðgi ungljónanna,

40 þá er þau kúra í bæli sínu og vaka yfir veiði í þéttum runni?

41 Hver býr hrafninum fæðu hans, þá er ungar hans hrópa til Guðs, flögra til og frá ætislausir?

Síðara bréf Páls til Kori 8

En svo viljum vér, bræður, skýra yður frá þeirri náð, sem Guð hefur sýnt söfnuðunum í Makedóníu.

Þrátt fyrir þær miklu þrengingar, sem þeir hafa orðið að reyna, hefur ríkdómur gleði þeirra og hin djúpa fátækt leitt í ljós gnægð örlætis hjá þeim.

Ég get vottað það, hversu þeir hafa gefið eftir megni, já, um megn fram. Af eigin hvötum

lögðu þeir fast að oss og báðu um að mega vera í félagi við oss um samskotin til hinna heilögu.

Og þeir gjörðu betur en vér höfðum vonað, þeir gáfu sjálfa sig, fyrst og fremst Drottni, og síðan oss, að vilja Guðs.

Það varð til þess, að vér báðum Títus, að hann skyldi og leiða til lykta hjá yður þessa líknarþjónustu, eins og hann hefur byrjað.

Þér eruð auðugir í öllu, í trú, í orði og þekkingu, í allri alúð og í elsku yðar sem vér höfum vakið. Þannig skuluð þér og vera auðugir í þessari líknarþjónustu.

Ég segi þetta ekki sem skipun, heldur bendi ég á áhuga annarra til þess að reyna, hvort kærleiki yðar er einnig einlægur.

Þér þekkið náð Drottins vors Jesú Krists. Hann gjörðist fátækur yðar vegna, þótt ríkur væri, til þess að þér auðguðust af fátækt hans.

10 Og ráð vil ég gefa í þessu máli, því að þetta er yður til gagns, yður sem í fyrra voruð á undan öðrum, ekki aðeins í verkinu, heldur og í viljanum.

11 En fullgjörið nú og verkið. Þér voruð fúsir að hefjast handa, fullgjörið það nú eftir því sem efnin leyfa.

12 Því að ef viljinn er góður, þá er hver þóknanlegur með það, sem hann á til, og ekki farið fram á það, sem hann á ekki til.

13 Ekki svo að skilja, að öðrum sé hlíft, en þrengt sé að yður, heldur er það til þess að jöfnuður verði. Nú sem stendur bætir gnægð yðar úr skorti hinna,

14 til þess að einnig gnægð hinna geti bætt úr skorti yðar og þannig verði jöfnuður,

15 eins og skrifað er: Sá, sem miklu safnaði, hafði ekki afgangs, og þann skorti ekki, sem litlu safnaði.

16 En þökk sé Guði, sem vakti í hjarta Títusar þessa sömu umhyggju fyrir yður.

17 Reyndar fékk hann áskorun frá mér, en áhugi hans var svo mikill, að hann fór til yðar af eigin hvötum.

18 En með honum sendum vér þann bróður, sem orð fer af í öllum söfnuðunum fyrir starf hans í þjónustu fagnaðarerindisins.

19 Og ekki það eitt, heldur er hann og af söfnuðunum kjörinn samferðamaður vor með líknargjöf þessa, sem vér höfum unnið að, Drottni til dýrðar og til að sýna fúsleika vorn.

20 Vér höfum gjört þessa ráðstöfun til þess að enginn geti lastað meðferð vora á hinni miklu gjöf, sem vér höfum gengist fyrir.

21 Því að vér ástundum það sem gott er, ekki aðeins fyrir Drottni, heldur og fyrir mönnum.

22 Með þeim sendum vér annan bróður vorn, sem vér oftsinnis og í mörgu höfum reynt kostgæfinn, en nú miklu fremur en ella vegna hans mikla trausts til yðar.

23 Títus er félagi minn og starfsbróðir hjá yður, og bræður vorir eru sendiboðar safnaðanna og Kristi til vegsemdar.

24 Sýnið því söfnuðunum merki elsku yðar, svo að það verði þeim ljóst, að það var ekki að ástæðulausu, að vér hrósuðum yður við þá.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society