M’Cheyne Bible Reading Plan
19 Á þriðja mánuði eftir brottför Ísraelsmanna frá Egyptalandi, á þeim degi komu þeir í Sínaí-eyðimörk.
2 Þeir tóku sig upp frá Refídím og komu í Sínaí-eyðimörk og settu búðir sínar í eyðimörkinni. Og Ísrael setti búðir sínar þar gegnt fjallinu.
3 Gekk Móse þá upp til Guðs, og kallaði Drottinn til hans af fjallinu og sagði: "Svo skalt þú segja Jakobs niðjum og kunngjöra Ísraelsmönnum:
4 ,Þér hafið sjálfir séð, hvað ég hefi gjört Egyptum, og hversu ég hefi borið yður á arnarvængjum og flutt yður til mín.
5 Nú ef þér hlýðið minni röddu grandgæfilega og haldið minn sáttmála, þá skuluð þér vera mín eiginleg eign umfram allar þjóðir, því að öll jörðin er mín.
6 Og þér skuluð vera mér prestaríki og heilagur lýður.` Þetta eru þau orð, sem þú skalt flytja Ísraelsmönnum."
7 Og Móse fór og stefndi saman öldungum lýðsins og flutti þeim öll þau orð, er Drottinn hafði boðið honum.
8 Þá svaraði allur lýðurinn einum munni og sagði: "Vér viljum gjöra allt það, sem Drottinn býður." Og Móse flutti Drottni aftur orð fólksins.
9 Þá sagði Drottinn við Móse: "Sjá, ég vil koma til þín í dimmu skýi, svo að fólkið heyri, er ég tala við þig, og trúi þér ævinlega." Og Móse flutti Drottni orð lýðsins.
10 Þá mælti Drottinn við Móse: "Far til fólksins og helga þá í dag og á morgun, og lát þá þvo klæði sín,
11 og skulu þeir vera búnir á þriðja degi, því að á þriðja degi mun Drottinn ofan stíga á Sínaífjall í augsýn alls lýðsins.
12 En þú skalt marka fólkinu svið umhverfis og segja: ,Varist að ganga upp á fjallið eða snerta fjallsræturnar.` Hver sem snertir fjallið, skal vissulega láta líf sitt.
13 Engin mannshönd skal snerta hann, heldur skal hann grýttur eða skotinn til bana, hvort það er heldur skepna eða maður, þá skal það ekki lífi halda. Þegar lúðurinn kveður við, skulu þeir stíga upp á fjallið."
14 Þá gekk Móse ofan af fjallinu til fólksins og helgaði fólkið, og þeir þvoðu klæði sín.
15 Og hann sagði við fólkið: "Verið búnir á þriðja degi: Komið ekki nærri nokkurri konu."
16 Á þriðja degi, þegar ljóst var orðið, gengu reiðarþrumur og eldingar, og þykkt ský lá á fjallinu, og heyrðist mjög sterkur lúðurþytur. Skelfdist þá allt fólkið, sem var í búðunum.
17 Þá leiddi Móse fólkið út úr búðunum til móts við Guð, og tóku menn sér stöðu undir fjallinu.
18 Sínaífjall var allt í einum reyk, fyrir því að Drottinn sté niður á það í eldinum. Mökkurinn stóð upp af því, eins og reykur úr ofni, og allt fjallið lék á reiðiskjálfi.
19 Og lúðurþyturinn varð æ sterkari og sterkari. Móse talaði, og Guð svaraði honum hárri röddu.
20 Og Drottinn sté niður á Sínaífjall, á fjallstindinn. Og Drottinn kallaði Móse upp á fjallstindinn, og gekk Móse þá upp.
21 Þá sagði Drottinn við Móse: "Stíg ofan og legg ríkt á við fólkið, að það brjótist ekki upp hingað til Drottins fyrir forvitni sakir og fjöldi af þeim farist.
22 Einnig prestarnir, sem annars nálgast Drottin, skulu helga sig, svo að Drottinn gjöri eigi skarð í hóp þeirra."
23 En Móse sagði við Drottin: "Fólkið getur ekki stigið upp á Sínaífjall, því að þú hefir lagt ríkt á við oss og sagt: ,Set vébönd umhverfis fjallið og helga það."`
24 Og Drottinn sagði við hann: "Far nú og stíg ofan, og kom því næst upp aftur og Aron með þér. En prestarnir og fólkið má ekki brjótast upp hingað til Drottins, að hann gjöri ekki skarð í hóp þeirra."
25 Móse gekk þá ofan til fólksins og sagði þeim þetta.
22 Nú fór í hönd hátíð ósýrðu brauðanna, sú er nefnist páskar.
2 Og æðstu prestarnir og fræðimennirnir leituðu fyrir sér, hvernig þeir gætu ráðið hann af dögum, því að þeir voru hræddir við lýðinn.
3 Þá fór Satan í Júdas, sem kallaður var Ískaríot og var í tölu þeirra tólf.
4 Hann fór og ræddi við æðstu prestana og varðforingjana um það, hvernig hann skyldi framselja þeim Jesú.
5 Þeir urðu glaðir við og hétu honum fé fyrir.
6 Hann gekk að því og leitaði færis að framselja hann þeim, þegar fólkið væri fjarri.
7 Þegar sá dagur ósýrðu brauðanna kom, er slátra skyldi páskalambinu,
8 sendi Jesús þá Pétur og Jóhannes og sagði: "Farið og búið til páskamáltíðar fyrir oss."
9 Þeir sögðu við hann: "Hvar vilt þú, að við búum hana?"
10 En hann sagði við þá: "Þegar þið komið inn í borgina, mætir ykkur maður, sem ber vatnsker. Fylgið honum inn þangað sem hann fer,
11 og segið við húsráðandann: ,Meistarinn spyr þig: Hvar er herbergið, þar sem ég get neytt páskamáltíðarinnar með lærisveinum mínum?`
12 Hann mun þá sýna ykkur loftsal mikinn, búinn hægindum. Hafið þar viðbúnað."
13 Þeir fóru og fundu allt eins og hann hafði sagt og bjuggu til páskamáltíðar.
14 Og er stundin var komin, gekk hann til borðs og postularnir með honum.
15 Og hann sagði við þá: "Hjartanlega hef ég þráð að neyta þessarar páskamáltíðar með yður, áður en ég líð.
16 Því ég segi yður: Eigi mun ég framar neyta hennar, fyrr en hún fullkomnast í Guðs ríki."
17 Þá tók hann kaleik, gjörði þakkir og sagði: "Takið þetta og skiptið með yður.
18 Því ég segi yður: Héðan í frá mun ég eigi drekka af ávexti vínviðarins, fyrr en Guðs ríki kemur."
19 Og hann tók brauð, gjörði þakkir, braut það, gaf þeim og sagði: "Þetta er líkami minn, sem fyrir yður er gefinn. Gjörið þetta í mína minningu."
20 Eins tók hann kaleikinn eftir kvöldmáltíðina og sagði: "Þessi kaleikur er hinn nýi sáttmáli í mínu blóði, sem fyrir yður er úthellt.
21 En sjá, hönd þess, er mig svíkur, er á borðinu hjá mér.
22 Mannssonurinn fer að sönnu þá leið, sem ákveðin er, en vei þeim manni, sem því veldur, að hann verður framseldur."
23 Og þeir tóku að spyrjast á um það, hver þeirra mundi verða til þess að gjöra þetta.
24 Og þeir fóru að metast um, hver þeirra væri talinn mestur.
25 En Jesús sagði við þá: "Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn.
26 En eigi sé yður svo farið, heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn.
27 Því hvort er sá meiri, sem situr til borðs, eða hinn, sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn.
28 En þér eruð þeir sem hafið verið stöðugir með mér í freistingum mínum.
29 Og yður fæ ég ríki í hendur, eins og faðir minn hefur fengið mér,
30 að þér megið eta og drekka við borð mitt í ríki mínu, sitja í hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.
31 Símon, Símon, Satan krafðist yðar að sælda yður eins og hveiti.
32 En ég hef beðið fyrir þér, að trú þín þrjóti ekki. Og styrk þú bræður þína, þegar þú ert snúinn við."
33 En Símon sagði við hann: "Herra, reiðubúinn er ég að fylgja þér bæði í fangelsi og dauða."
34 Jesús mælti: "Ég segi þér, Pétur: Áður en hani galar í dag, munt þú þrisvar hafa neitað því, að þú þekkir mig."
35 Og hann sagði við þá: "Þegar ég sendi yður út án pyngju og mals og skólausa, brast yður þá nokkuð?" Þeir svöruðu: "Nei, ekkert."
36 Þá sagði hann við þá: "En nú skal sá, er pyngju hefur, taka hana með sér og eins sá, er mal hefur, og hinn, sem ekkert á, selji yfirhöfn sína og kaupi sverð.
37 Því ég segi yður, að þessi ritning á að rætast á mér: ,með illvirkjum var hann talinn.` Og nú er að fullnast það sem um mig er ritað."
38 En þeir sögðu: "Herra, hér eru tvö sverð." Og hann sagði við þá: "Það er nóg."
39 Síðan fór hann út og gekk, eins og hann var vanur, til Olíufjallsins. Og lærisveinarnir fylgdu honum.
40 Þegar hann kom á staðinn, sagði hann við þá: "Biðjið, að þér fallið ekki í freistni."
41 Og hann vék frá þeim svo sem steinsnar, féll á kné, baðst fyrir og sagði:
42 "Faðir, ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér! En verði þó ekki minn heldur þinn vilji." [
43 Þá birtist honum engill af himni, sem styrkti hann.
44 Og hann komst í dauðans angist og baðst enn ákafar fyrir, en sveiti hans varð eins og blóðdropar, er féllu á jörðina.]
45 Hann stóð upp frá bæn sinni, kom til lærisveinanna og fann þá sofandi, örmagna af hryggð.
46 Og hann sagði við þá: "Hví sofið þér? Rísið upp og biðjið, að þér fallið ekki í freistni."
47 Meðan hann var enn að tala, kom flokkur manna, og fremstur fór einn hinna tólf, Júdas, áður nefndur. Hann gekk að Jesú til að kyssa hann.
48 Jesús sagði við hann: "Júdas, svíkur þú Mannssoninn með kossi?"
49 Þeir sem með honum voru, sáu að hverju fór og sögðu: "Herra, eigum vér ekki að bregða sverði?"
50 Og einn þeirra hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum hægra eyrað.
51 Þá sagði Jesús: "Hér skal staðar nema." Og hann snart eyrað og læknaði hann.
52 Þá sagði Jesús við æðstu prestana, varðforingja helgidómsins og öldungana, sem komnir voru á móti honum: "Eruð þér að fara að mér með sverðum og bareflum eins og gegn ræningja?
53 Daglega var ég með yður í helgidóminum, og þér lögðuð ekki hendur á mig. En þetta er yðar tími og máttur myrkranna."
54 En þeir tóku hann höndum og leiddu brott og fóru með hann í hús æðsta prestsins. Pétur fylgdi eftir álengdar.
55 Menn höfðu kveikt eld í miðjum garðinum og sátu við hann, og Pétur settist meðal þeirra.
56 En þerna nokkur sá hann sitja í bjarmanum, hvessti á hann augun og sagði: "Þessi maður var líka með honum."
57 Því neitaði hann og sagði: "Kona, ég þekki hann ekki."
58 Litlu síðar sá hann annar maður og sagði: "Þú ert líka einn af þeim." En Pétur svaraði: "Nei, maður minn, það er ég ekki."
59 Og að liðinni um það bil einni stund fullyrti enn annar þetta og sagði: "Víst var þessi líka með honum, enda Galíleumaður."
60 Pétur mælti: "Ekki skil ég, hvað þú átt við, maður." Og jafnskjótt sem hann sagði þetta, gól hani.
61 Og Drottinn vék sér við og leit til Péturs. Þá minntist Pétur orða Drottins, er hann mælti við hann: "Áður en hani galar í dag, muntu þrisvar afneita mér."
62 Og hann gekk út og grét beisklega.
63 En þeir menn, sem gættu Jesú, hæddu hann og börðu,
64 huldu andlit hans og sögðu: "Spáðu nú, hver það var, sem sló þig?"
65 Og marga aðra svívirðu sögðu þeir við hann.
66 Þegar dagur rann, kom öldungaráð lýðsins saman, bæði æðstu prestar og fræðimenn, og létu færa hann fyrir ráðsfund sinn.
67 Þeir sögðu: "Ef þú ert Kristur, þá seg oss það." En hann sagði við þá: "Þótt ég segi yður það, munuð þér ekki trúa,
68 og ef ég spyr yður, svarið þér ekki.
69 En upp frá þessu mun Mannssonurinn sitja til hægri handar Guðs kraftar."
70 Þá spurðu þeir allir: "Ert þú þá sonur Guðs?" Og hann sagði við þá: "Þér segið, að ég sé sá."
71 En þeir sögðu: "Hvað þurfum vér nú framar vitnis við? Vér höfum sjálfir heyrt það af munni hans."
37 Já, yfir þessu titrar hjarta mitt og hrökkur upp úr stað sínum.
2 Heyrið, heyrið drunur raddar hans og hvininn, sem út fer af munni hans.
3 Undir öllum himninum lætur hann eldinguna þjóta og leiftur sitt út á jaðra jarðarinnar.
4 Á eftir því kemur öskrandi skrugga, hann þrumar með sinni tignarlegu raust og heldur eldingunum ekki aftur, þá er raust hans lætur til sín heyra.
5 Guð þrumar undursamlega með raust sinni, hann sem gjörir mikla hluti, er vér eigi skiljum.
6 Því að hann segir við snjóinn: "Fall þú á jörðina," og eins við hellirigninguna og hennar dynjandi helliskúrir.
7 Hann innsiglar hönd sérhvers manns, til þess að allir menn viðurkenni verk hans.
8 Þá fara villidýrin í fylgsni sín og hvílast í bælum sínum.
9 Stormurinn kemur úr forðabúrinu og kuldinn af norðanvindunum.
10 Fyrir andgust Guðs verður ísinn til, og víð vötnin eru lögð í læðing.
11 Hann hleður skýin vætu, tvístrar leifturskýi sínu víðsvegar.
12 En það snýst í allar áttir, eftir því sem hann leiðir það, til þess að það framkvæmi allt það er hann býður því, á yfirborði allrar jarðarinnar.
13 Hann lætur því ljósta niður, hvort sem það er til hirtingar eða til að vökva jörðina eða til að blessa hana.
14 Hlýð þú á þetta, Job, stattu kyrr og gef gaum að dásemdum Guðs.
15 Skilur þú, hvernig Guð felur þeim hlutverk þeirra og lætur leiftur skýja sinna skína?
16 Skilur þú, hvernig skýin svífa, dásemdir hans, sem fullkominn er að vísdómi,
17 þú, sem fötin hitna á, þá er jörðin mókir í sunnanmollu?
18 Þenur þú út með honum heiðhimininn, sem fastur er eins og steyptur spegill?
19 Kenn oss, hvað vér eigum að segja við hann! Vér megnum ekkert fram að færa fyrir myrkri.
20 Á að segja honum, að ég ætli að tala? Eða hefir nokkur sagt, að hann óski að verða gjöreyddur?
21 Og nú sjá menn að sönnu ekki ljósið, sem skín skært að skýjabaki, en vindurinn þýtur áfram og sópar skýjunum burt.
22 Gullið kemur úr norðri, um Guð lykur ógurlegur ljómi.
23 Vér náum eigi til hins Almáttka, til hans, sem er mikill að mætti. En réttinn og hið fulla réttlæti vanrækir hann ekki.
24 Fyrir því óttast mennirnir hann, en hann lítur ekki við neinum sjálfbirgingum.
7 Þar eð vér því höfum þessi fyrirheit, elskaðir, þá hreinsum oss af allri saurgun á líkama og sál og fullkomnum helgun vora í guðsótta.
2 Gefið oss rúm í hjörtum yðar. Engum höfum vér gjört rangt til, engan skaðað, engan féflett.
3 Ég segi það ekki til að áfellast yður. Ég hef áður sagt, að þér eruð í hjörtum vorum, og vér deyjum saman og lifum saman.
4 Mikla djörfung hef ég gagnvart yður, mikillega get ég hrósað mér af yður. Ég er fullur af huggun, ég er stórríkur af gleði í allri þrenging vorri.
5 Því var og það, er vér komum til Makedóníu, að vér höfðum enga eirð, heldur vorum vér á alla vegu aðþrengdir, barátta hið ytra, ótti hið innra.
6 En Guð, sem huggar hina beygðu, hann huggaði oss með komu Títusar,
7 já, ekki aðeins með komu hans, heldur og með þeirri huggun, sem hann hafði fengið hjá yður. Hann skýrði oss frá þrá yðar, gráti yðar, áhuga yðar mín vegna, svo að ég gladdist við það enn frekar.
8 Að vísu hef ég hryggt yður með bréfinu, en ég iðrast þess ekki nú, þótt ég iðraðist þess áður, þar sem ég sá að þetta bréf hafði hryggt yður, þótt ekki væri nema um stund.
9 Nú er ég glaður, ekki yfir því, að þér urðuð hryggir, heldur yfir því, að þér urðuð hryggir til iðrunar. Þér urðuð hryggir Guði að skapi og biðuð því ekki í neinu tjón af oss.
10 Sú hryggð, sem er Guði að skapi, vekur afturhvarf til hjálpræðis, sem engan iðrar, en hryggð heimsins veldur dauða.
11 Einmitt þetta, að þér hryggðust Guði að skapi, _ hvílíka alvöru vakti það hjá yður, já, hvílíkar afsakanir, hvílíka gremju, hvílíkan ótta, hvílíka þrá, hvílíkt kapp, hvílíka refsingu! Í öllu hafið þér nú sannað, að þér voruð vítalausir um þetta.
12 Þótt ég því hafi skrifað yður, þá var það ekki vegna hans, sem óréttinn gjörði, ekki heldur vegna hans, sem fyrir óréttinum varð, heldur til þess að yður yrði ljóst fyrir augliti Guðs hversu heilshugar þér standið með oss.
13 Þess vegna höfum vér huggun hlotið. En auk huggunar vorrar gladdi það oss allra mest, hve Títus varð glaður. Þér hafið allir róað huga hans.
14 Því að hafi ég í nokkru hrósað mér af yður við hann, þá hef ég ekki þurft að blygðast mín. Já, eins og allt var sannleika samkvæmt, sem vér höfum talað við yður, þannig hefur og hrós vort um yður við Títus reynst sannleikur.
15 Og hjartaþel hans til yðar er því hlýrra sem hann minnist hlýðni yðar allra, hversu þér tókuð á móti honum með ugg og ótta.
16 Það gleður mig, að ég get í öllu borið traust til yðar.
by Icelandic Bible Society