M’Cheyne Bible Reading Plan
18 Er Jetró prestur í Midíanslandi, tengdafaðir Móse, heyrði allt það, sem Guð hafði gjört Móse og lýð sínum Ísrael, að Drottinn hafði leitt Ísrael út af Egyptalandi,
2 þá tók Jetró, tengdafaðir Móse, Sippóru konu Móse, en hann hafði sent hana aftur,
3 og tvo sonu hennar. Hét annar Gersóm, því að hann hafði sagt: "Gestur er ég í ókunnu landi."
4 Hinn hét Elíeser, því að hann hafði sagt: "Guð föður míns var mín hjálp, og hann frelsaði mig frá sverði Faraós."
5 En er Jetró, tengdafaðir Móse, kom með sonu hans og konu til hans í eyðimörkina, þar sem hann hafði sett búðir sínar hjá Guðs fjalli,
6 þá lét hann segja Móse: "Ég, Jetró, tengdafaðir þinn, er kominn til þín, og kona þín og báðir synir hennar með henni."
7 Gekk þá Móse út á móti tengdaföður sínum, laut honum og kyssti hann. Og þegar þeir höfðu heilsast, gengu þeir inn í tjaldið.
8 Og Móse sagði tengdaföður sínum frá öllu því, sem Drottinn hafði gjört Faraó og Egyptum fyrir sakir Ísraels, frá öllum þeim þrautum, sem þeim höfðu mætt á leiðinni, og hversu Drottinn hafði frelsað þá.
9 Og Jetró gladdist af öllum þeim velgjörðum, sem Drottinn hafði auðsýnt Ísrael, þar sem hann hafði frelsað hann undan valdi Egypta.
10 Og Jetró sagði: "Lofaður sé Drottinn fyrir það, að hann frelsaði yður undan valdi Egypta og undan valdi Faraós, fyrir það, að hann frelsaði fólkið undan valdi Egypta.
11 Nú veit ég, að Drottinn er öllum guðum meiri, því að hann lét Egyptum hefnast fyrir ofdramb þeirra gegn Ísraelsmönnum."
12 Þá tók Jetró, tengdafaðir Móse, brennifórn og sláturfórnir Guði til handa. Kom þá Aron og allir öldungar Ísraels, til þess að matast með tengdaföður Móse frammi fyrir Guði.
13 Daginn eftir settist Móse til að mæla lýðnum lögskil, og stóð fólkið frammi fyrir Móse frá morgni til kvelds.
14 En er tengdafaðir Móse sá allt það, sem hann gjörði við fólkið, þá sagði hann: "Hvað er þetta, sem þú gjörir við fólkið? Hvers vegna situr þú einn saman, en allt fólkið stendur frammi fyrir þér frá morgni til kvelds?"
15 Móse svaraði tengdaföður sínum: "Fólkið kemur til mín til þess að leita Guðs atkvæða.
16 Þegar mál gjörist þeirra á milli, koma þeir á fund minn, og ég dæmi milli manna og kunngjöri lög Guðs og boðorð hans."
17 Þá sagði tengdafaðir Móse við hann: "Eigi er það gott, sem þú gjörir.
18 Bæði þreytist þú og eins fólkið, sem hjá þér er, því að þetta starf er þér um megn, þú fær því ekki afkastað einn saman.
19 Hlýð nú orðum mínum. Ég vil leggja þér ráð, og mun Guð vera með þér. Þú skalt ganga fram fyrir Guð í nafni fólksins og fram bera málin fyrir Guð.
20 Og þú skalt kenna þeim lögin og boðorðin, og sýna þeim þann veg, sem þeir skulu ganga, og þau verk, sem þeir skulu gjöra.
21 Og þú skalt velja meðal alls fólksins dugandi menn og guðhrædda, áreiðanlega menn og ósérplægna, og skipa þá foringja yfir lýðinn, suma yfir þúsund, suma yfir hundrað, suma yfir fimmtíu og suma yfir tíu.
22 Og þeir skulu mæla lýðnum lögskil á öllum tímum. Öll hin stærri mál skulu þeir láta koma fyrir þig, en sjálfir skulu þeir dæma í öllum smærri málum. Skaltu þannig gjöra þér hægra fyrir, og þeir skulu létta undir með þér.
23 Ef þú gjörir þetta, og Guð býður þér það, þá muntu fá risið undir því, og þá mun og allt þetta fólk fara ánægt til heimila sinna."
24 Móse hlýddi orðum tengdaföður síns og gjörði allt, sem hann hafði sagt.
25 Og Móse valdi dugandi menn af öllum Ísraels lýð og skipaði þá foringja yfir lýðinn, suma yfir þúsund, suma yfir hundrað, suma yfir fimmtíu, suma yfir tíu.
26 Og mæltu þeir lýðnum lögskil á öllum tímum. Vandamálunum skutu þeir til Móse, en sjálfir dæmdu þeir í hinum smærri málum.
27 Lét Móse síðan tengdaföður sinn frá sér fara, og hélt hann aftur heim í sitt land.
21 Þá leit hann upp og sá auðmenn leggja gjafir sínar í fjárhirsluna.
2 Hann sá og ekkju eina fátæka leggja þar tvo smápeninga.
3 Þá sagði hann: "Ég segi yður með sanni, þessi fátæka ekkja gaf meira en allir hinir.
4 Hinir allir lögðu í sjóðinn af allsnægtum sínum, en hún gaf af skorti sínum, alla björg sína."
5 Einhverjir höfðu orð á, að helgidómurinn væri prýddur fögrum steinum og heitgjöfum. Þá sagði Jesús:
6 "Þér horfið á þetta, en þeir dagar munu koma, að hér stendur ekki eftir steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn."
7 En þeir spurðu hann: "Meistari, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn þess, að það sé að koma fram?"
8 Hann svaraði: "Varist að láta leiða yður í villu. Margir munu koma í mínu nafni og segja: ,Það er ég!` og ,Tíminn er í nánd!` Fylgið þeim ekki.
9 En þegar þér spyrjið hernað og upphlaup, þá skelfist ekki. Þetta á undan að fara, en endirinn kemur ekki samstundis."
10 Síðan sagði hann við þá: "Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki,
11 þá verða landskjálftar miklir og drepsóttir og hungur á ýmsum stöðum, en ógnir og tákn mikil á himni.
12 En á undan öllu þessu munu menn leggja hendur á yður, ofsækja yður, færa yður fyrir samkundur og í fangelsi og draga yður fyrir konunga og landshöfðingja sakir nafns míns.
13 Þetta veitir yður tækifæri til vitnisburðar.
14 En festið það vel í huga að vera ekki fyrirfram að hugsa um, hvernig þér eigið að verjast,
15 því ég mun gefa yður orð og visku, sem engir mótstöðumenn yðar fá staðið í gegn né hrakið.
16 Jafnvel foreldrar og bræður, frændur og vinir munu framselja yður, og sumir yðar munu líflátnir.
17 Og þér munuð hataðir af öllum vegna nafns míns,
18 en ekki mun týnast eitt hár á höfði yðar.
19 Verið þrautseigir og þér munuð ávinna sálir yðar.
20 En þegar þér sjáið herfylkingar umkringja Jerúsalem, þá vitið, að eyðing hennar er í nánd.
21 Þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla, þeir sem í borginni eru, flytjist burt, og þeir sem eru á ekrum úti, fari ekki inn í hana.
22 Því þetta eru refsingardagar, þá er allt það rætist, sem ritað er.
23 Vei þeim, sem þungaðar eru, og þeim sem börn hafa á brjósti á þeim dögum, því að mikil neyð mun þá verða í landinu og reiði yfir lýð þessum.
24 Þeir munu falla fyrir sverðseggjum og herleiddir verða til allra þjóða, og Jerúsalem verður fótum troðin af heiðingjum, þar til tímar heiðingjanna eru liðnir.
25 Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum og á jörðu angist þjóða, ráðalausra við dunur hafs og brimgný.
26 Menn munu gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina, því að kraftar himnanna munu bifast.
27 Þá munu menn sjá Mannssoninn koma í skýi með mætti og mikilli dýrð.
28 En þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd."
29 Hann sagði þeim og líkingu: "Gætið að fíkjutrénu og öðrum trjám.
30 Þegar þér sjáið þau farin að bruma, þá vitið þér af sjálfum yður, að sumarið er í nánd.
31 Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið þetta verða, að Guðs ríki er í nánd.
32 Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt er komið fram.
33 Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða.
34 Hafið gát á sjálfum yður, að hjörtu yðar þyngist ekki við svall og drykkju né áhyggjur þessa lífs og komi svo dagur sá skyndilega yfir yður
35 eins og snara. En koma mun hann yfir alla menn, sem byggja gjörvalla jörð.
36 Vakið því allar stundir og biðjið, svo að þér megið umflýja allt þetta, sem koma á, og standast frammi fyrir Mannssyninum."
37 Á daginn var hann að kenna í helgidóminum, en fór og dvaldist um nætur á Olíufjallinu, sem svo er nefnt.
38 Og allt fólkið kom árla á morgnana til hans í helgidóminn að hlýða á hann.
36 Og Elíhú hélt áfram og sagði:
2 Haf þolinmæði við mig enn stutta stund, að ég megi fræða þig, því að enn má margt segja Guði til varnar.
3 Ég ætla að sækja þekking mína langar leiðir og sanna, að skapari minn hafi á réttu að standa.
4 Því að vissulega fer ég eigi með ósannindi, maður með fullkominni þekking stendur frammi fyrir þér.
5 Sjá, Guð er voldugur, þó fyrirlítur hann engan, voldugur að andans krafti.
6 Hann viðheldur ekki lífi hins óguðlega, en veitir hinum voluðu rétt þeirra.
7 Hann hefir ekki augun af hinum réttláta, og hjá konungum í hásætinu lætur hann þá sitja að eilífu, til þess að þeir séu hátt upp hafnir.
8 Og þótt þeir verði viðjum reyrðir, veiddir í snörur eymdarinnar,
9 og hann setur þeim fyrir sjónir gjörðir þeirra og afbrot þeirra að þeir breyttu drambsamlega,
10 og hann opnar eyru þeirra fyrir umvönduninni og segir að þeir skuli snúa sér frá ranglæti, _
11 ef þeir þá hlýða og þjóna honum, þá eyða þeir dögum sínum í velgengni og árum sínum í unaði.
12 En hlýði þeir ekki, þá farast þeir fyrir skotvopnum, gefa upp andann í vanhyggju sinni.
13 Því að vonskufullir í hjarta ala þeir með sér reiði, hrópa eigi á hjálp, þegar hann fjötrar þá.
14 Önd þeirra deyr í æskublóma og líf þeirra eins og hórsveina.
15 En hann frelsar hinn bágstadda með bágindum hans og opnar eyru þeirra með þrengingunni.
16 Einnig þig ginnir hann út úr gini neyðarinnar út á víðlendi, þar sem engin þrengsli eru, og það sem kemur á borð þitt, er fullt af feiti.
17 En ef þú vinnur til dóms hins óguðlega, þá munu dómur og réttur hremma þig.
18 Lát því eigi reiðina ginna þig til spotts, og lát eigi stærð lausnargjaldsins tæla þig.
19 Mun hróp þitt koma þér úr nauðunum eða nokkur áreynsla krafta þinna?
20 Þráðu eigi nóttina, þá er þjóðir sópast burt af stöðvum sínum.
21 Gæt þín, snú þér eigi að ranglæti, því að það kýst þú heldur en að líða.
22 Sjá, Guð er háleitur í framkvæmdum máttar síns, hver er slíkur kennari sem hann?
23 Hver hefir fyrirskipað honum veg hans, og hver dirfist að segja: "Þú hefir gjört rangt"?
24 Minnstu þess, að þú vegsamir verk hans, það er mennirnir syngja um lofkvæði.
25 Allir menn horfa með fögnuði á það, dauðlegur maðurinn lítur það úr fjarska.
26 Já, Guð er mikill og vér þekkjum hann ekki, tala ára hans órannsakanleg.
27 Því að hann dregur upp vatnsdropana og lætur ýra úr þoku sinni,
28 regnið, sem skýin láta niður streyma, drjúpa yfir marga menn.
29 Og hver skilur útbreiðslu skýjanna og dunurnar í tjaldi hans?
30 Sjá, hann breiðir ljós sitt út kringum sig og hylur djúp hafsins.
31 Því að með því dæmir hann þjóðirnar, með því veitir hann fæðu í ríkum mæli.
32 Hendur sínar hylur hann ljósi og býður því út gegn fjandmanni sínum.
33 Þruma hans boðar komu hans, hans sem lætur reiði sína geisa gegn ranglætinu.
6 Sem samverkamenn hans áminnum vér yður einnig, að þér látið ekki náð Guðs, sem þér hafið þegið, verða til einskis.
2 Hann segir: Á hagkvæmri tíð bænheyrði ég þig, og á hjálpræðis degi hjálpaði ég þér. Nú er hagkvæm tíð, nú er hjálpræðis dagur.
3 Í engu viljum vér vera neinum til ásteytingar, til þess að þjónustan verði ekki fyrir lasti.
4 Á allan hátt sýnum vér, að vér erum þjónar Guðs, með miklu þolgæði í þrengingum, í nauðum, í angist,
5 undir höggum, í fangelsi, í upphlaupum, í erfiði, í vökum, í föstum,
6 með grandvarleik, með þekkingu, með langlyndi, með góðvild, með heilögum anda, með falslausum kærleika,
7 með sannleiksorði, með krafti Guðs, með vopnum réttlætisins til sóknar og varnar,
8 í heiðri og vanheiðri, í lasti og lofi. Vér erum álitnir afvegaleiðendur, en erum sannorðir,
9 óþekktir, en þó alþekktir, komnir í dauðann og samt lifum vér, tyftaðir og þó ekki deyddir,
10 hryggir, en þó ávallt glaðir, fátækir, en auðgum þó marga, öreigar, en eigum þó allt.
11 Frjálslega tölum vér við yður, Korintumenn. Rúmt er um yður í hjarta voru.
12 Ekki er þröngt um yður hjá oss, en í hjörtum yðar er þröngt.
13 En svo að sama komi á móti, _ ég tala eins og við börn mín _, þá látið þér líka verða rúmgott hjá yður.
14 Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum. Hvað er sameiginlegt með réttlæti og ranglæti? Hvaða samfélag hefur ljós við myrkur?
15 Hver er samhljóðan Krists við Belíar? Hver hlutdeild er trúuðum með vantrúuðum?
16 Hvernig má sætta musteri Guðs við skurðgoð? Vér erum musteri lifanda Guðs, eins og Guð hefur sagt: Ég mun búa hjá þeim og ganga um meðal þeirra, og ég mun vera Guð þeirra, og þeir munu vera lýður minn.
17 Þess vegna segir Drottinn: Farið burt frá þeim, og skiljið yður frá þeim. Snertið ekki neitt óhreint, og ég mun taka yður að mér
18 og ég mun vera yður faðir, og þér munuð vera mér synir og dætur, segir Drottinn alvaldur.
by Icelandic Bible Society