Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Önnur bók Móse 17

17 Allur söfnuður Ísraelsmanna tók sig nú upp frá Sín-eyðimörk, og fóru þeir í áföngum að boði Drottins og settu herbúðir sínar í Refídím. En þar var ekkert vatn handa fólkinu að drekka.

Þá þráttaði fólkið við Móse og sagði: "Gef oss vatn að drekka!" En Móse sagði við þá: "Hví þráttið þér við mig? Hví freistið þér Drottins?"

Og fólkið þyrsti þar eftir vatni, og fólkið möglaði gegn Móse og sagði: "Hví fórstu með oss frá Egyptalandi til þess að láta oss og börn vor og fénað deyja af þorsta?"

Þá hrópaði Móse til Drottins og sagði: "Hvað skal ég gjöra við þetta fólk? Það vantar lítið á að þeir grýti mig."

En Drottinn sagði við Móse: "Gakk þú fram fyrir fólkið og tak með þér nokkra af öldungum Ísraels, og tak í hönd þér staf þinn, er þú laust með ána, og gakk svo af stað.

Sjá, ég mun standa frammi fyrir þér þar á klettinum á Hóreb, en þú skalt ljósta á klettinn, og mun þá vatn spretta af honum, svo að fólkið megi drekka."

Og Móse gjörði svo í augsýn öldunga Ísraels. Og hann kallaði þennan stað Massa og Meríba sökum þráttanar Ísraelsmanna, og fyrir því að þeir höfðu freistað Drottins og sagt: "Hvort mun Drottinn vera meðal vor eður ekki?"

Þá komu Amalekítar og áttu orustu við Ísraelsmenn í Refídím.

Þá sagði Móse við Jósúa: "Vel oss menn og far út og berst við Amalekíta. Á morgun mun ég standa efst uppi á hæðinni og hafa staf Guðs í hendi mér."

10 Jósúa gjörði sem Móse hafði sagt honum og lagði til orustu við Amalekíta, en þeir Móse, Aron og Húr gengu efst upp á hæðina.

11 Þá gjörðist það, að alla þá stund, er Móse hélt uppi hendi sinni, veitti Ísraelsmönnum betur, en þegar er hann lét síga höndina, veitti Amalekítum betur.

12 En með því að Móse urðu þungar hendurnar, tóku þeir stein og létu undir hann, og settist hann á steininn, en þeir Aron og Húr studdu hendur hans, sinn á hvora hlið, og héldust þannig hendur hans stöðugar allt til sólarlags.

13 En Jósúa lagði Amalekíta og lið þeirra að velli með sverðseggjum.

14 Þá sagði Drottinn við Móse: "Rita þú þetta í bók til minningar og gjör Jósúa það hugfast, því að ég vil vissulega afmá nafn Amalekíta af jörðinni."

15 Og Móse reisti þar altari og nefndi það "Jahve-nisí".

16 Og hann sagði: "Með upplyftri hendi að hásæti Drottins sver ég: ,Ófrið mun Drottinn heyja við Amalekíta frá kyni til kyns."`

Lúkasarguðspjall 20

20 Svo bar við einn dag, er hann var að kenna lýðnum í helgidóminum og flutti fagnaðarerindið, að æðstu prestarnir og fræðimennirnir ásamt öldungunum gengu til hans

og sögðu: "Seg þú oss, með hvaða valdi gjörir þú þetta? Hver hefur gefið þér þetta vald?"

Hann svaraði þeim: "Ég vil og leggja spurningu fyrir yður. Segið mér:

Var skírn Jóhannesar frá himni eða frá mönnum?"

Þeir ráðguðust hver við annan um þetta og sögðu: "Ef vér svörum: Frá himni, spyr hann: Hví trúðuð þér honum þá ekki?

Ef vér svörum: Frá mönnum, mun allur lýðurinn grýta oss, því að hann er sannfærður um, að Jóhannes sé spámaður."

Þeir kváðust því ekki vita, hvaðan hún væri.

Jesús sagði við þá: "Ég segi yður þá ekki heldur, með hvaða valdi ég gjöri þetta."

Og hann tók að segja lýðnum dæmisögu þessa: "Maður nokkur plantaði víngarð og seldi hann vínyrkjum á leigu, fór síðan úr landi til langdvala.

10 Á settum tíma sendi hann þjón til vínyrkjanna, að þeir fengju honum hlut af ávexti víngarðsins, en vínyrkjarnir börðu hann og sendu burt tómhentan.

11 Aftur sendi hann annan þjón. Þeir börðu hann einnig og svívirtu og sendu burt tómhentan.

12 Og enn sendi hann hinn þriðja, en þeir veittu honum einnig áverka og köstuðu honum út.

13 Þá sagði eigandi víngarðsins: ,Hvað á ég að gjöra? Ég sendi son minn elskaðan. Má vera, þeir virði hann.`

14 En er vínyrkjarnir sáu hann, báru þeir saman ráð sín og sögðu: ,Þetta er erfinginn. Drepum hann, þá fáum vér arfinn.`

15 Og þeir köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann. Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra við þá?

16 Hann mun koma, tortíma vínyrkjum þessum og fá öðrum víngarðinn." Þegar þeir heyrðu þetta, sögðu þeir: "Verði það aldrei."

17 Jesús horfði á þá og mælti: "Hvað merkir þá ritning þessi: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn?

18 Hver sem fellur á þennan stein, mun sundur molast, og þann sem hann fellur á, mun hann sundur merja."

19 Fræðimennirnir og æðstu prestarnir vildu leggja hendur á hann á sömu stundu, en óttuðust lýðinn. Þeir skildu, að hann átti við þá með dæmisögu þessari.

20 Þeir höfðu gætur á honum og sendu njósnarmenn, er létust vera einlægir. Þeir áttu að hafa á orðum hans, svo að þeir mættu framselja hann í hendur og á vald landstjórans.

21 Þeir spurðu hann: "Meistari, vér vitum, að þú talar og kennir rétt og gjörir þér engan mannamun, heldur kennir Guðs veg í sannleika.

22 Leyfist oss að gjalda keisaranum skatt eða ekki?"

23 En hann merkti flærð þeirra og sagði við þá:

24 "Sýnið mér denar. Hvers mynd og yfirskrift er á honum?" Þeir sögðu: "Keisarans."

25 En hann sagði við þá: "Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er."

26 Og þeir gátu ekki haft neitt á orðum hans í viðurvist lýðsins, en undruðust svar hans og þögðu.

27 Þá komu nokkrir saddúkear, en þeir neita því, að upprisa sé til, og sögðu við hann:

28 "Meistari, Móse segir oss í ritningunum, að deyi maður kvæntur, en barnlaus, skuli bróðir hans ganga að eiga ekkjuna og vekja honum niðja.

29 Nú voru sjö bræður. Sá fyrsti tók sér konu og dó barnlaus.

30 Gekk þá annar bróðirinn

31 og síðan hinn þriðji að eiga hana og eins allir sjö, og létu þeir engin börn eftir sig, er þeir dóu.

32 Síðast dó og konan.

33 Kona hvers þeirra verður hún í upprisunni? Allir sjö höfðu þeir átt hana."

34 Jesús svaraði þeim: "Börn þessarar aldar kvænast og giftast,

35 en þeir sem verðir þykja að fá hlutdeild í komandi veröld og upprisunni frá dauðum, kvænast hvorki né giftast.

36 Þeir geta ekki heldur dáið framar, þeir eru englum jafnir og börn Guðs, enda börn upprisunnar.

37 En að dauðir rísi upp, það hefur jafnvel Móse sýnt í sögunni um þyrnirunninn, er hann kallar ,Drottin Guð Abrahams, Guð Ísaks og Guð Jakobs.`

38 Ekki er hann Guð dauðra, heldur lifenda, því að honum lifa allir."

39 Þá sögðu nokkrir fræðimannanna: "Vel mælt, meistari."

40 En þeir þorðu ekki framar að spyrja hann neins.

41 Hann sagði við þá: "Hvernig geta menn sagt, að Kristur sé sonur Davíðs?

42 Davíð segir sjálfur í sálmunum: Drottinn sagði við minn drottin: Set þig mér til hægri handar,

43 þangað til ég gjöri óvini þína að fótskör þinni.

44 Davíð kallar hann drottin, hvernig getur hann þá verið sonur hans?"

45 Í áheyrn alls lýðsins sagði hann við lærisveina sína:

46 "Varist fræðimennina, sem fýsir að ganga í síðskikkjum og er ljúft að láta heilsa sér á torgum, vilja skipa æðsta bekk í samkundum og hefðarsæti í veislum.

47 Þeir eta upp heimili ekkna og flytja langar bænir að yfirskini. Þeir munu fá því þyngri dóm."

Jobsbók 35

35 Og Elíhú tók enn til máls og sagði:

Hyggur þú það vera rétt, kallar þú það "réttlæti mitt fyrir Guði,"

að þú spyr, hvað það stoði þig? "Hvaða gagn hefi ég af því, fremur en ef ég syndgaði?"

Ég ætla að veita þér andsvör í móti og vinum þínum með þér.

Horf þú á himininn og sjá, virtu fyrir þér skýin, sem eru hátt yfir þér.

Syndgir þú, hvað getur þú gjört honum? Og séu afbrot þín mörg, hvaða skaða gjörir þú honum?

Sért þú ráðvandur, hvað gefur þú honum, eða hvað þiggur hann af þinni hendi?

Mann, eins og þig, varðar misgjörð þín og mannsins barn ráðvendni þín.

Menn æpa að sönnu undan hinni margvíslegu kúgan, kveina undan armlegg hinna voldugu,

10 en enginn þeirra segir: "Hvar er Guð, skapari minn, sá er leiðir fram lofsöngva um nótt,

11 sem fræðir oss meira en dýr merkurinnar og gjörir oss vitrari en fugla loftsins?"

12 Þá æpa menn _ en hann svarar ekki _ undan drambsemi hinna vondu.

13 Nei, hégómamál heyrir Guð eigi, og hinn Almáttki gefur því engan gaum,

14 hvað þá, er þú segir, að þú sjáir hann ekki. Málið er lagt fram fyrir hann, og þú átt að bíða eftir honum.

15 En nú, af því að reiði hans hefir eigi refsað, á hann alls eigi að hafa vitað neitt um yfirsjónina!

16 En Job opnar munninn til að mæla hégóma, heldur langar ræður í vanhyggju sinni.

Síðara bréf Páls til Kori 5

Vér vitum, að þótt vor jarðneska tjaldbúð verði rifin niður, þá höfum vér hús frá Guði, eilíft hús á himnum, sem eigi er með höndum gjört.

Á meðan andvörpum vér og þráum að íklæðast húsi voru frá himnum.

Þegar vér íklæðumst því, munum vér ekki standa uppi naktir.

En á meðan vér erum í tjaldbúðinni, stynjum vér mæddir, af því að vér viljum ekki afklæðast, heldur íklæðast, til þess að hið dauðlega uppsvelgist af lífinu.

En sá, sem hefur gjört oss færa einmitt til þessa, er Guð, sem hefur gefið oss anda sinn sem pant.

Vér erum því ávallt hughraustir, þótt vér vitum, að meðan vér eigum heima í líkamanum erum vér að heiman frá Drottni,

því að vér lifum í trú, en sjáum ekki.

Já, vér erum hughraustir og langar öllu fremur til að hverfa burt úr líkamanum og vera heima hjá Drottni.

Þess vegna kostum vér kapps um, hvort sem vér erum heima eða að heiman, að vera honum þóknanlegir.

10 Því að öllum oss ber að birtast fyrir dómstóli Krists, til þess að sérhver fái það endurgoldið, sem hann hefur aðhafst í líkamanum, hvort sem það er gott eða illt.

11 Með því að vér nú vitum, hvað það er að óttast Drottin, leitumst vér við að sannfæra menn. En Guði erum vér kunnir orðnir, já, ég vona, að vér séum einnig kunnir orðnir yður í hjörtum yðar.

12 Ekki erum vér enn að mæla með sjálfum oss við yður, heldur gefum vér yður tilefni til að miklast af oss, til þess að þér hafið eitthvað gagnvart þeim, er miklast af hinu ytra, en ekki af hjartaþelinu.

13 Því að hvort sem vér höfum orðið frávita, þá var það vegna Guðs, eða vér erum með sjálfum oss, þá er það vegna yðar.

14 Kærleiki Krists knýr oss,

15 því að vér höfum ályktað svo: Ef einn er dáinn fyrir alla, þá eru þeir allir dánir. Og hann er dáinn fyrir alla, til þess að þeir, sem lifa, lifi ekki framar sjálfum sér, heldur honum, sem fyrir þá er dáinn og upprisinn.

16 Þannig metum vér héðan í frá engan að mannlegum hætti. Þótt vér og höfum þekkt Krist að mannlegum hætti, þekkjum vér hann nú ekki framar þannig.

17 Ef einhver er í Kristi, er hann skapaður á ný, hið gamla varð að engu, sjá, nýtt er orðið til.

18 Allt er frá Guði, sem sætti oss við sig fyrir Krist og gaf oss þjónustu sáttargjörðarinnar.

19 Því að það var Guð, sem í Kristi sætti heiminn við sig, er hann tilreiknaði þeim ekki afbrot þeirra og fól oss að boða orð sáttargjörðarinnar.

20 Vér erum því erindrekar Krists, eins og það væri Guð, sem áminnti, þegar vér áminnum. Vér biðjum í Krists stað: Látið sættast við Guð.

21 Þann sem þekkti ekki synd, gjörði hann að synd vor vegna, til þess að vér skyldum verða réttlæti Guðs í honum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society