Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Önnur bók Móse 16

16 Því næst héldu þeir af stað frá Elím, og allur söfnuður Ísraelsmanna kom til Sín-eyðimerkur, sem liggur milli Elím og Sínaí, á fimmtánda degi hins annars mánaðar eftir burtför þeirra úr Egyptalandi.

Þá möglaði allur söfnuður Ísraelsmanna gegn Móse og Aroni í eyðimörkinni.

Og Ísraelsmenn sögðu við þá: "Betur að vér hefðum dáið fyrir hendi Drottins í Egyptalandi, er vér sátum við kjötkatlana og átum oss sadda af brauði, því að þið hafið farið með oss út á þessa eyðimörk til þess að láta allan þennan mannfjölda deyja af hungri."

Þá sagði Drottinn við Móse: "Sjá, ég vil láta rigna brauði af himni handa yður, og skal fólkið fara út og safna hvern dag svo miklu sem þarf þann daginn, svo að ég reyni það, hvort það vill breyta eftir mínu lögmáli eða ekki.

Og er þeir þá á hinum sjötta degi tilreiða það, sem þeir koma heim með, skal það vera tvöfalt við það, sem þeir annars safna daglega."

Þá sögðu Móse og Aron við alla Ísraelsmenn: "Í kveld skuluð þér viðurkenna, að Drottinn hefir leitt yður út af Egyptalandi.

Og á morgun skuluð þér sjá dýrð Drottins, með því að hann hefir heyrt möglanir yðar gegn Drottni. Því að hvað erum við, að þér möglið gegn okkur?"

Og Móse sagði: "Þetta verður, þegar Drottinn gefur yður að kveldi kjöt að eta og brauð til saðnings að morgni, því að Drottinn hefir heyrt möglanir yðar, sem þér beinið gegn honum. Því að hvað erum við? Þér möglið ekki gegn okkur, heldur gegn Drottni."

Og Móse sagði við Aron: "Seg við allan söfnuð Ísraelsmanna: ,Gangið nær í augsýn Drottins, því að hann hefir heyrt möglanir yðar."`

10 Og er Aron talaði þetta til alls safnaðar Ísraelsmanna, sneru þeir sér í móti eyðimörkinni, og sjá, dýrð Drottins birtist í skýinu.

11 Drottinn talaði við Móse og sagði:

12 "Ég hefi heyrt möglanir Ísraelsmanna. Tala til þeirra og seg: ,Um sólsetur skuluð þér kjöt eta, og að morgni skuluð þér fá saðning yðar af brauði, og þér skuluð viðurkenna, að ég er Drottinn, Guð yðar."`

13 Um kveldið bar svo við, að lynghæns komu og huldu búðirnar, en um morguninn var döggmóða umhverfis búðirnar.

14 En er upp létti döggmóðunni, lá eitthvað þunnt, smákornótt yfir eyðimörkinni, þunnt eins og héla á jörðu.

15 Þegar Ísraelsmenn sáu þetta, sögðu þeir hver við annan: "Hvað er þetta?" Því að þeir vissu ekki, hvað það var. Þá sagði Móse við þá: "Þetta er brauðið, sem Drottinn gefur yður til fæðu.

16 En þessi er skipun Drottins: ,Safnið því, eftir því sem hver þarf að eta. Þér skuluð taka einn gómer á mann eftir fólksfjölda yðar, hver handa þeim, sem hann hefir í tjaldi sínu."`

17 Og Ísraelsmenn gjörðu svo, og söfnuðu sumir meira, sumir minna.

18 En er þeir mældu það í gómer-máli, hafði sá ekkert afgangs, sem miklu hafði safnað, og þann skorti ekki, sem litlu hafði safnað, heldur hafði hver safnað eftir því sem hann þurfti sér til fæðu.

19 Móse sagði við þá: "Enginn má leifa neinu af því til morguns."

20 En þeir hlýddu ekki Móse, heldur leifðu sumir nokkru af því til morguns. En þá kviknuðu maðkar í því, svo að það fúlnaði, og varð Móse þá reiður þeim.

21 Þeir söfnuðu því þá hvern morgun, hver eftir því sem hann þurfti sér til fæðu. En þegar sólin skein heitt, bráðnaði það.

22 En á sjötta deginum söfnuðu þeir tvöfalt meira af brauði, tvo gómera á mann. Komu þá allir foringjar lýðsins og sögðu Móse frá.

23 En hann sagði við þá: "Þetta er það, sem Drottinn sagði: ,Á morgun er hvíldardagur, heilagur hvíldardagur Drottins. Bakið það, sem þér viljið baka, og sjóðið það, sem þér viljið sjóða, en allt það, sem af gengur, skuluð þér leggja fyrir og geyma til morguns."`

24 Þeir lögðu það þá fyrir til næsta morguns, eins og Móse bauð, og fúlnaði það ekki né maðkaði.

25 Þá sagði Móse: "Í dag skuluð þér eta það, því að í dag er hvíldardagur Drottins. Í dag finnið þér það ekki á mörkinni.

26 Sex daga skuluð þér safna því, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur, þá mun ekkert finnast."

27 Og sjöunda daginn gengu nokkrir af fólkinu út til að safna, en fundu ekkert.

28 Drottinn sagði við Móse: "Hversu lengi tregðist þér við að varðveita boðorð mín og lög?

29 Lítið á! Vegna þess að Drottinn hefir gefið yður hvíldardaginn, þess vegna gefur hann yður sjötta daginn brauð til tveggja daga. Haldi hver maður kyrru fyrir á sínum stað, enginn fari að heiman á sjöunda deginum."

30 Og fólkið hvíldist á hinum sjöunda degi.

31 Ísraelsmenn kölluðu þetta brauð manna. Það líktist kóríanderfræi, var hvítt og á bragðið sem hunangskaka.

32 Móse sagði: "Þetta er það, sem Drottinn hefir boðið: ,Fyllið einn gómer af því til þess að geyma það handa eftirkomendum yðar, svo að þeir sjái það brauð, sem ég gaf yður að eta í eyðimörkinni, er ég leiddi yður út af Egyptalandi."`

33 Þá sagði Móse við Aron: "Tak eitt ker og lát í það fullan gómer af manna, og legg það til geymslu frammi fyrir Drottni, svo að það varðveitist handa eftirkomendum yðar."

34 Aron lagði það fyrir framan sáttmálið, til þess að það væri þar geymt, eins og Drottinn hafði boðið Móse.

35 Ísraelsmenn átu manna í fjörutíu ár, uns þeir komu í byggt land. Þeir átu manna, uns þeir komu að landamærum Kanaanlands.

36 En gómer er tíundi partur af efu.

Lúkasarguðspjall 19

19 Jesús kom til Jeríkó og gekk gegnum borgina.

En þar var maður, er Sakkeus hét. Hann var yfirtollheimtumaður og auðugur.

Langaði hann að sjá, hver Jesús væri, en tókst það ekki fyrir mannfjöldanum, því hann var lítill vexti.

Hann hljóp þá á undan og klifraði upp í mórberjatré til að sjá Jesú, en leið hans lá þar hjá.

Og er Jesús kom þar að, leit hann upp og sagði við hann: "Sakkeus, flýt þér ofan, í dag ber mér að vera í húsi þínu."

Hann flýtti sér ofan og tók á móti honum glaður.

Þeir er sáu þetta, létu allir illa við og sögðu: "Hann fer til að gista hjá bersyndugum manni."

En Sakkeus sté fram og sagði við Drottin: "Herra, helming eigna minna gef ég fátækum, og hafi ég haft nokkuð af nokkrum, gef ég honum ferfalt aftur."

Jesús sagði þá við hann: "Í dag hefur hjálpræði hlotnast húsi þessu, enda er þessi maður líka Abrahams sonur.

10 Því að Mannssonurinn er kominn að leita að hinu týnda og frelsa það."

11 Meðan þeir hlýddu á, bætti hann við dæmisögu, því að hann var í nánd við Jerúsalem, og þeir ætluðu, að Guðs ríki mundi þegar birtast.

12 Hann sagði: "Maður nokkur tiginborinn fór í fjarlægt land til þess að taka við konungdómi og koma síðan aftur.

13 Hann kallaði tíu þjóna sína, seldi þeim í hendur tíu pund og sagði við þá: ,Verslið með þetta, þangað til ég kem.`

14 En landar hans hötuðu hann og gerðu sendimann á eftir honum til að segja: ,Vér viljum ekki, að þessi maður verði konungur yfir oss.`

15 Nú kom hann aftur og hafði tekið konungdóm. Þá lét hann kalla fyrir sig þjóna þá er hann hafði selt féð í hendur, til þess að vita, hvað hver hefði grætt.

16 Hinn fyrsti kom og sagði: ,Herra, pund þitt hefur ávaxtast um tíu pund.`

17 Konungur sagði við hann: ,Gott, þú góði þjónn, þú varst trúr í mjög litlu og því skaltu ráða fyrir tíu borgum.`

18 Annar kom og sagði: ,Pund þitt, herra, hefur gefið af sér fimm pund.`

19 Hann sagði eins við hann: ,Þú skalt og vera yfir fimm borgum.`

20 Enn kom einn og sagði: ,Herra, hér er pund þitt. Ég hef haft það geymt í dúki,

21 því að ég var hræddur við þig, en þú ert maður strangur og tekur það út, sem þú lagðir ekki inn, og uppsker það, sem þú sáðir ekki.`

22 Hann segir við hann: ,Illi þjónn, eftir orðum þínum dæmi ég þig. Þú vissir, að ég er maður strangur, sem tek það út, sem ég lagði ekki inn, og uppsker það, sem ég sáði ekki.

23 Hvers vegna léstu þá ekki fé mitt í banka? Þá hefði ég fengið það með vöxtum, er ég kom heim.`

24 Og hann sagði við þá er hjá voru: ,Takið af honum pundið, og fáið þeim, sem hefur tíu pundin.`

25 En þeir sögðu við hann: ,Herra, hann hefur tíu pund.`

26 Ég segi yður: Hverjum sem hefur, mun gefið verða, og frá þeim sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur.

27 En þessa óvini mína, sem vildu ekki að ég yrði konungur yfir sér, færið þá hingað og höggvið þá frammi fyrir mér."

28 Þá er Jesús hafði þetta mælt, hélt hann á undan áfram upp til Jerúsalem.

29 Þegar hann nálgaðist Betfage og Betaníu við Olíufjallið, sem svo er nefnt, sendi hann tvo lærisveina sína

30 og mælti: "Farið í þorpið hér fram undan. Þegar þið komið þangað, munuð þið finna fola bundinn, sem enginn hefur enn komið á bak. Leysið hann og komið með hann.

31 Ef einhver spyr ykkur: ,Hvers vegna leysið þið hann?` þá svarið svo: ,Herrann þarf hans við`."

32 Þeir sem sendir voru, fóru og fundu svo sem hann hafði sagt þeim.

33 Og er þeir leystu folann, sögðu eigendur hans við þá: "Hvers vegna leysið þið folann?"

34 Þeir svöruðu: "Herrann þarf hans við,"

35 og fóru síðan með hann til Jesú. Þeir lögðu klæði sín á folann og settu Jesú á bak.

36 En þar sem hann fór, breiddu menn klæði sín á veginn.

37 Þegar hann var að koma þar að, sem farið er ofan af Olíufjallinu, hóf allur flokkur lærisveina hans að lofa Guð fagnandi hárri raustu fyrir öll þau kraftaverk, er þeir höfðu séð,

38 og segja: "Blessaður sé sá sem kemur, konungurinn, í nafni Drottins. Friður á himni og dýrð í upphæðum!"

39 Nokkrir farísear í mannfjöldanum sögðu við hann: "Meistari, hasta þú á lærisveina þína."

40 Hann svaraði: "Ég segi yður, ef þeir þegja, munu steinarnir hrópa."

41 Og er hann kom nær og sá borgina, grét hann yfir henni

42 og sagði: "Ef þú hefðir aðeins vitað á þessum degi, hvað til friðar heyrir! En nú er það hulið sjónum þínum.

43 Því að þeir dagar munu koma yfir þig, að óvinir þínir munu gjöra virki um þig, setjast um þig og þröngva þér á alla vegu.

44 Þeir munu leggja þig að velli og börn þín, sem í þér eru, og ekki láta standa stein yfir steini í þér, vegna þess að þú þekktir ekki þinn vitjunartíma."

45 Þá gekk hann inn í helgidóminn og tók að reka út þá er voru að selja

46 og mælti við þá: "Ritað er: Hús mitt á að vera bænahús, en þér hafið gjört það að ræningjabæli."

47 Daglega var hann að kenna í helgidóminum, en æðstu prestarnir og fræðimennirnir svo og fyrirmenn þjóðarinnar leituðust við að ráða hann af dögum,

48 en fundu eigi, hvað gjöra skyldi, því að allur lýðurinn vildi ákaft hlýða á hann.

Jobsbók 34

34 Og Elíhú tók aftur til máls og sagði:

Heyrið, þér vitrir menn, orð mín, og þér fróðir menn, hlustið á mig.

Því að eyrað prófar orðin, eins og gómurinn smakkar matinn.

Vér skulum rannsaka, hvað rétt er, komast að því hver með öðrum, hvað gott er.

Því að Job hefir sagt: "Ég er saklaus, en Guð hefir svipt mig rétti mínum.

Þótt ég hafi rétt fyrir mér, stend ég sem lygari, banvæn ör hefir hitt mig, þótt ég hafi í engu brotið."

Hvaða maður er eins og Job, sem drekkur guðlast eins og vatn

og gefur sig í félagsskap við þá, sem illt fremja, og er í fylgi við óguðlega menn?

Því að hann hefir sagt: "Maðurinn hefir ekkert gagn af því að vera í vinfengi við Guð."

10 Fyrir því, skynsamir menn, heyrið mig! Fjarri fer því, að Guð aðhafist illt og hinn Almáttki fremji ranglæti.

11 Nei, hann geldur manninum verk hans og lætur manninum farnast eftir breytni hans.

12 Já, vissulega fremur Guð ekki ranglæti, og hinn Almáttki hallar ekki réttinum.

13 Hver hefir fengið honum jörðina til varðveislu, og hver hefir grundvallað allan heiminn?

14 Ef hann hugsaði aðeins um sjálfan sig, ef hann drægi til sín anda sinn og andardrátt,

15 þá mundi allt hold gefa upp andann og maðurinn aftur verða að dufti.

16 Hafir þú vit, þá heyr þú þetta, hlusta þú á hljóm orða minna.

17 Getur sá stjórnað, sem hatar réttinn? Eða vilt þú dæma hinn réttláta, volduga?

18 þann sem segir við konunginn: "Þú varmenni!" við tignarmanninn: "Þú níðingur!"

19 sem ekki dregur taum höfðingjanna og gjörir ekki ríkum hærra undir höfði en fátækum, því að handaverk hans eru þeir allir.

20 Skyndilega deyja þeir, og það um miðja nótt, fólkið verður skelkað, og þeir hverfa, og hinn sterki er hrifinn burt, en eigi af manns hendi.

21 Því að augu Guðs hvíla yfir vegum hvers manns, og hann sér öll spor hans.

22 Ekkert það myrkur er til eða sú niðdimma, að illgjörðamenn geti falið sig þar.

23 Því að Guð þarf ekki fyrst að gefa manni gaum, til þess að hann komi fyrir dóm hans.

24 Hann brýtur hina voldugu sundur rannsóknarlaust og setur aðra í þeirra stað.

25 Þannig þekkir hann verk þeirra og steypir þeim um nótt, og þeir verða marðir sundur.

26 Hann hirtir þá sem misgjörðamenn í augsýn allra manna,

27 vegna þess að þeir hafa frá honum vikið og vanrækt alla vegu hans

28 og látið kvein hins fátæka berast til hans, en hann heyrði kvein hinna voluðu.

29 Haldi hann kyrru fyrir, hver vill þá sakfella hann? og byrgi hann auglitið, hver fær þá séð hann? Þó vakir hann yfir þjóð og einstaklingi,

30 til þess að guðlausir menn skuli ekki drottna, til þess að þeir séu ekki snörur lýðsins.

31 Því að segir nokkur við Guð: "Mér hefir verið hegnt og breyti þó ekki illa.

32 Kenn þú mér það, sem ég sé ekki. Hafi ég framið ranglæti, skal ég eigi gjöra það framar"?

33 Á hann að endurgjalda eftir geðþótta þínum, af því að þú hafnar? því að þú átt að velja, en ekki ég. Og seg nú fram það, er þú veist!

34 Skynsamir menn munu segja við mig, og vitur maður, sem á mig hlýðir:

35 "Job talar ekki hyggilega, og orð hans eru ekki skynsamleg."

36 Ó að Job mætti reyndur verða æ að nýju, af því að hann svarar eins og illir menn svara.

37 Því að hann bætir misgjörð ofan á synd sína, hann klappar saman höndunum framan í oss og heldur langar ræður móti Guði.

Síðara bréf Páls til Kori 4

Með því að vér höfum þessa þjónustu á hendi fyrir miskunn Guðs, þá látum vér ekki hugfallast.

Vér höfnum allri skammarlegri launung, vér framgöngum ekki með fláttskap né fölsum Guðs orð, heldur birtum vér sannleikann, og fyrir augliti Guðs skírskotum vér til samvisku hvers manns um sjálfa oss.

En ef fagnaðarerindi vort er hulið, þá er það hulið þeim, sem glatast.

Því guð þessarar aldar hefur blindað huga hinna vantrúuðu, til þess að þeir sjái ekki ljósið frá fagnaðarerindinu um dýrð Krists, hans, sem er ímynd Guðs.

Ekki prédikum vér sjálfa oss, heldur Krist Jesú sem Drottin, en sjálfa oss sem þjóna yðar vegna Jesú.

Því að Guð, sem sagði: "Ljós skal skína fram úr myrkri!" _ hann lét það skína í hjörtu vor, til þess að birtu legði af þekkingunni á dýrð Guðs, eins og hún skín frá ásjónu Jesú Krists.

En þennan fjársjóð höfum vér í leirkerum, til þess að ofurmagn kraftarins sé Guðs, en ekki frá oss.

Á allar hliðar erum vér aðþrengdir, en þó ekki ofþrengdir, vér erum efablandnir, en örvæntum þó ekki,

ofsóttir, en þó ekki yfirgefnir, felldir til jarðar, en tortímumst þó ekki.

10 Jafnan berum vér með oss á líkamanum dauða Jesú, til þess að einnig líf Jesú verði opinbert í líkama vorum.

11 Því að vér, sem lifum, erum jafnan framseldir til dauða vegna Jesú, til þess að líf Jesú verði opinbert í dauðlegu holdi voru.

12 Þannig er dauðinn að verki í oss, en lífið í yður.

13 Vér höfum sama anda trúarinnar sem skrifað er um í ritningunni: "Ég trúði, þess vegna talaði ég." Vér trúum líka og þess vegna tölum vér.

14 Vér vitum, að hann, sem vakti upp Drottin Jesú, mun einnig uppvekja oss ásamt Jesú og leiða oss fram ásamt yður.

15 Allt er þetta yðar vegna, til þess að náðin verði sem mest og láti sem flesta flytja þakkargjörð Guði til dýrðar.

16 Fyrir því látum vér ekki hugfallast. Jafnvel þótt vor ytri maður hrörni, þá endurnýjast dag frá degi vor innri maður.

17 Þrenging vor er skammvinn og léttbær og aflar oss eilífrar dýrðar sem stórum yfirgnæfir allt.

18 Vér horfum ekki á hið sýnilega, heldur hið ósýnilega. Hið sýnilega er stundlegt, en hið ósýnilega eilíft.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society