M’Cheyne Bible Reading Plan
15 Þá söng Móse og Ísraelsmenn Drottni þennan lofsöng: Ég vil lofsyngja Drottni, því að hann hefir sig dýrlegan gjört, hestum og riddurum steypti hann niður í hafið.
2 Drottinn er styrkur minn og lofsöngur, og hann varð mitt hjálpræði. Hann er minn Guð, og ég vil vegsama hann, Guð föður míns, og ég vil tigna hann.
3 Drottinn er stríðshetja, Drottinn er hans nafn.
4 Vögnum Faraós og herliði hans varpaði hann í hafið, og hinir völdustu kappar hans drukknuðu í Hafinu rauða.
5 Undirdjúpin huldu þá, þeir sukku niður í sjávardjúpið eins og steinn.
6 Þín hægri hönd, Drottinn, hefir sýnt sig dýrlega í krafti, þín hægri hönd, Drottinn, sundurkremur fjandmennina.
7 Og með mikilleik þinnar hátignar leggur þú mótstöðumenn þína að velli, þú útsendir þína reiði, og hún eyðir þeim eins og hálmleggjum.
8 Og fyrir blæstri nasa þinna hlóðust vötnin upp, rastirnar stóðu eins og veggur, öldurnar stirðnuðu mitt í hafinu.
9 Óvinurinn sagði: "Ég skal elta þá, ég skal ná þeim, ég skal skipta herfangi, ég skal skeyta skapi mínu á þeim, ég skal bregða sverði mínu, hönd mín skal eyða þeim."
10 Þú blést með þínum anda, hafið huldi þá, þeir sukku sem blý niður í hin miklu vötn.
11 Hver er sem þú, Drottinn, meðal guðanna? Hver er sem þú, dýrlegur að heilagleik, dásamlegur til lofsöngva, þú sem stórmerkin gjörir?
12 Þú útréttir þína hægri hönd, jörðin svalg þá.
13 Þú hefir leitt fólkið, sem þú frelsaðir, með miskunn þinni, þú fylgdir því með þínum krafti til þíns heilaga bústaðar.
14 Þjóðirnar heyrðu það og urðu felmtsfullar, ótti gagntók íbúa Filisteu.
15 Þá skelfdust ættarhöfðingjarnir í Edóm, hræðsla greip forystumennina í Móab, allir íbúar Kanaanlands létu hugfallast.
16 Skelfingu og ótta sló yfir þá. Fyrir mikilleik þíns armleggs urðu þeir hljóðir sem steinninn, meðan fólk þitt, Drottinn, fór leiðar sinnar, meðan fólkið, sem þú hefir aflað þér, fór leiðar sinnar.
17 Þú leiddir þá inn og gróðursettir þá á fjalli arfleifðar þinnar, þeim stað, sem þú, Drottinn, hefir gjört að þínum bústað, þeim helgidóm, sem þínar hendur, Drottinn, hafa reist.
18 Drottinn skal ríkja um aldur og að eilífu!
19 Þegar hestar Faraós ásamt vögnum hans og riddurum fóru út í hafið, lét Drottinn vötn sjávarins flæða yfir þá, en Ísraelsmenn gengu á þurru mitt í gegnum hafið.
20 Þá tók Mirjam spákona, systir Arons, bumbu í hönd sér, og allar konurnar gengu á eftir henni með bumbum og dansi.
21 Og Mirjam söng fyrir þeim: Lofsyngið Drottni, því að hann hefir sig dýrlegan gjört, hestum og riddurum steypti hann í hafið.
22 Móse lét Ísrael hefja ferð sína frá Sefhafinu, og héldu þeir til Súr-eyðimerkur. Gengu þeir þrjá daga um eyðimörkina og fundu ekkert vatn.
23 Þá komu þeir til Mara, en þeir gátu ekki drukkið vatnið fyrir beiskju, því að það var beiskt. Fyrir því var sá staður kallaður Mara.
24 Þá möglaði fólkið móti Móse og sagði: "Hvað eigum vér að drekka?"
25 En hann hrópaði til Drottins, og vísaði Drottinn honum þá á tré nokkurt. Kastaði hann því í vatnið, og varð vatnið þá sætt. Þar setti hann þeim lög og rétt, og þar reyndi hann þá.
26 Og hann sagði: "Ef þú hlýðir gaumgæfilega raust Drottins Guðs þíns og gjörir það, sem rétt er fyrir honum, gefur gaum boðorðum hans og heldur allar skipanir hans, þá vil ég engan þann sjúkdóm á þig leggja, sem ég lagði á Egypta, því ég er Drottinn, græðari þinn."
27 Síðan komu þeir til Elím. Þar voru tólf vatnslindir og sjötíu pálmar, og settu þeir búðir sínar þar við vatnið.
18 Þá sagði hann þeim dæmisögu um það, hvernig þeir skyldu stöðugt biðja og eigi þreytast:
2 "Í borg einni var dómari, sem hvorki óttaðist Guð né skeytti um nokkurn mann.
3 Í sömu borg var ekkja, sem kom einlægt til hans og sagði: ,Lát þú mig ná rétti á mótstöðumanni mínum.`
4 Það vildi hann ekki lengi vel. En að lokum sagði hann við sjálfan sig: ,Ekki óttast ég Guð að sönnu né skeyti um nokkurn mann.
5 En þessi ekkja lætur mig aldrei í friði. Því vil ég rétta hlut hennar, áður en hún gjörir út af við mig með nauði sínu."`
6 Og Drottinn mælti: "Heyrið, hvað rangláti dómarinn segir.
7 Mun Guð þá ekki rétta hlut sinna útvöldu, sem hrópa til hans dag og nótt? Mun hann draga að hjálpa þeim?
8 Ég segi yður: Hann mun skjótt rétta hlut þeirra. En mun Mannssonurinn finna trúna á jörðu, þegar hann kemur?"
9 Hann sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því, að sjálfir væru þeir réttlátir, en fyrirlitu aðra:
10 "Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður.
11 Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir með sjálfum sér: ,Guð, ég þakka þér, að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður.
12 Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu, sem ég eignast.`
13 En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins, heldur barði sér á brjóst og sagði: ,Guð, vertu mér syndugum líknsamur!`
14 Ég segi yður: Þessi maður fór réttlættur heim til sín, en hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða."
15 Menn færðu og til hans ungbörnin, að hann snerti þau. Lærisveinarnir sáu það og átöldu þá.
16 En Jesús kallaði þau til sín og mælti: "Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er Guðs ríki.
17 Sannlega segi ég yður: Hver sem tekur ekki við Guðs ríki eins og barn, mun aldrei inn í það koma."
18 Höfðingi nokkur spurði hann: "Góði meistari, hvað á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?"
19 Jesús sagði við hann: "Hví kallar þú mig góðan? Enginn er góður nema Guð einn.
20 Þú kannt boðorðin: ,Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni, heiðra föður þinn og móður."`
21 Hann sagði: "Alls þessa hef ég gætt frá æsku."
22 Þegar Jesús heyrði þetta, sagði hann við hann: "Enn er þér eins vant: Sel allt, sem þú átt, og skipt meðal fátækra, og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan og fylg mér."
23 En er hann heyrði þetta, varð hann hryggur við, enda auðugur mjög.
24 Jesús sá það og sagði: "Hve torvelt er þeim, sem auðinn hafa, að ganga inn í Guðs ríki.
25 Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki."
26 En þeir, sem á hlýddu, spurðu: "Hver getur þá orðið hólpinn?"
27 Hann mælti: "Það sem mönnum er um megn, það megnar Guð."
28 Þá sagði Pétur: "Vér yfirgáfum allt, sem vér áttum, og fylgdum þér."
29 Jesús sagði við þá: "Sannlega segi ég yður, að enginn hefur yfirgefið heimili, konu, bræður, foreldra eða börn Guðs ríkis vegna
30 án þess að hann fái margfalt aftur á þessum tíma og í hinum komandi heimi eilíft líf."
31 Hann tók þá tólf til sín og sagði við þá: "Nú förum vér upp til Jerúsalem, og mun allt það koma fram við Mannssoninn, sem skrifað er hjá spámönnunum.
32 Hann verður framseldur heiðingjum, menn munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann.
33 Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta, en á þriðja degi mun hann upp rísa."
34 En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin, og þeir skynjuðu ekki það, sem sagt var.
35 Svo bar við, er hann nálgaðist Jeríkó, að blindur maður sat þar við veginn og betlaði.
36 Hann heyrði, að mannfjöldi gekk hjá, og spurði, hvað um væri að vera.
37 Var honum sagt, að Jesús frá Nasaret færi hjá.
38 Þá hrópaði hann: "Jesús, sonur Davíðs, miskunna þú mér!"
39 En þeir sem á undan fóru, höstuðu á hann, að hann þegði. En hann hrópaði því meir: "Sonur Davíðs, miskunna þú mér!"
40 Jesús nam staðar og bauð að leiða hann til sín. Er hann kom nær, spurði Jesús hann:
41 "Hvað vilt þú, að ég gjöri fyrir þig?" Hinn svaraði: "Herra, að ég fái aftur sjón."
42 Jesús sagði við hann: "Fá þú aftur sjónina. Trú þín hefur bjargað þér."
43 Jafnskjótt fékk hann sjónina. Og hann fylgdi honum og lofaði Guð. En allt fólkið, er sá þetta, vegsamaði Guð.
33 En heyr þú, Job, ræðu mína, og hlýð þú á öll orð mín.
2 Sjá, ég opna munn minn, og tunga mín talar í gómi mínum.
3 Orð mín eru hjartans hreinskilni, og það sem varir mínar vita, mæla þær í einlægni.
4 Andi Guðs hefir skapað mig, og andblástur hins Almáttka gefur mér líf.
5 Ef þú getur, þá svara þú mér, bú þig út í móti mér og gakk fram.
6 Sjá, ég stend eins og þú gagnvart Guði, ég er og myndaður af leiri.
7 Sjá, hræðsla við mig þarf eigi að skelfa þig og þungi minn eigi þrýsta þér niður.
8 En þú hefir sagt í eyru mér, og ég heyrði hljóm orðanna:
9 "Hreinn er ég, laus við afbrot, saklaus er ég, og hjá mér er engin misgjörð.
10 En Guð reynir að finna tilefni til fjandskapar við mig og ætlar að ég sé óvinur hans.
11 Hann setur fætur mína í stokk og aðgætir alla vegu mína."
12 Sjá, í þessu hefir þú rangt fyrir þér, svara ég þér, því að Guð er meiri en maður.
13 Hví hefir þú þráttað við hann, að hann svaraði engu öllum orðum þínum?
14 Því að vissulega talar Guð einu sinni, já, tvisvar, en menn gefa því ekki gaum.
15 Í draumi, í nætursýn, þá er þungur svefnhöfgi er fallinn yfir mennina, í blundi á hvílubeði,
16 opnar hann eyru mannanna og innsiglar viðvörunina til þeirra
17 til þess að fá manninn til þess að láta af gjörðum sínum og forða manninum við drambsemi.
18 Hann hlífir sálu hans við gröfinni og lífi hans frá því að farast fyrir skotvopni.
19 Maðurinn er og agaður með kvölum á sæng sinni, og stríðið geisar stöðuglega í beinum hans.
20 Þá vekur lífshvötin óbeit hjá honum á brauðinu og sál hans á uppáhaldsfæðunni.
21 Hold hans eyðist og verður óásjálegt, og beinin, sem sáust ekki áður, verða ber,
22 svo að sál hans nálgast gröfina og líf hans engla dauðans.
23 En ef þar er hjá honum árnaðarengill, talsmaður, einn af þúsund til þess að boða manninum skyldu hans,
24 og miskunni hann sig yfir hann og segi: "Endurleys hann og lát hann eigi stíga niður í gröfina, ég hefi fundið lausnargjaldið,"
25 þá svellur hold hans af æskuþrótti, hann snýr aftur til æskudaga sinna.
26 Hann biður til Guðs, og Guð miskunnar honum, lætur hann líta auglit sitt með fögnuði og veitir manninum aftur réttlæti hans.
27 Hann syngur frammi fyrir mönnum og segir: "Ég hafði syndgað og gjört hið beina bogið, og þó var mér ekki goldið líku líkt.
28 Guð hefir leyst sálu mína frá því að fara ofan í gröfina, og líf mitt gleður sig við ljósið."
29 Sjá, allt þetta gjörir Guð tvisvar eða þrisvar við manninn
30 til þess að hrífa sál hans frá gröfinni, til þess að lífsins ljós megi leika um hann.
31 Hlýð á, Job, heyr þú mig, ver þú hljóður og lát mig tala.
32 Hafir þú eitthvað að segja, þá svara mér, tala þú, því að gjarnan vildi ég, að þú reyndist réttlátur.
33 Ef svo er eigi þá heyr þú mig, ver hljóður, að ég megi kenna þér speki.
3 Erum vér nú aftur teknir að mæla með sjálfum oss? Eða mundum vér þurfa, eins og sumir, meðmælabréf til yðar eða frá yður?
2 Þér eruð vort bréf, ritað á hjörtu vor, þekkt og lesið af öllum mönnum.
3 Þér sýnið ljóslega, að þér eruð bréf Krists, sem vér höfum unnið að, ekki skrifað með bleki, heldur með anda lifanda Guðs, ekki á steinspjöld, heldur á hjartaspjöld úr holdi.
4 En þetta traust höfum vér til Guðs fyrir Krist.
5 Ekki svo, að vér séum sjálfir hæfir og eitthvað komi frá oss sjálfum, heldur er hæfileiki vor frá Guði,
6 sem hefur gjört oss hæfa til að vera þjóna nýs sáttmála, ekki bókstafs, heldur anda. Því að bókstafurinn deyðir, en andinn lífgar.
7 En ef þjónusta dauðans, sem letruð var og höggvin á steina, kom fram í dýrð, svo að Ísraelsmenn gátu ekki horft framan í Móse vegna ljómans af ásýnd hans, sem þó varð að engu,
8 hversu miklu fremur mun þá þjónusta andans koma fram í dýrð?
9 Ef þjónustan, sem sakfellir, var dýrleg, þá er þjónustan, sem réttlætir, enn þá miklu auðugri að dýrð.
10 Í þessu efni verður jafnvel það, sem áður var dýrlegt, ekki dýrlegt í samanburði við hina yfirgnæfandi dýrð.
11 Því að ef það, sem að engu verður, kom fram með dýrð, þá hlýtur miklu fremur hið varanlega að koma fram í dýrð.
12 Þar eð vér nú höfum slíka von, þá komum vér fram með mikilli djörfung
13 og gjörum ekki eins og Móse, sem setti skýlu fyrir andlit sér, til þess að Ísraelsmenn skyldu ekki horfa á endalok ljóma þess, sem var að hverfa.
14 En hugur þeirra varð forhertur. Því allt til þessa dags hvílir sama skýlan yfir upplestri hins gamla sáttmála og henni hefur ekki verið svipt burt, því að aðeins í Kristi hverfur hún.
15 Já, allt til þessa dags hvílir skýla yfir hjörtum þeirra, hvenær sem Móse er lesinn.
16 En "þegar einhver snýr sér til Drottins, verður skýlan burtu tekin."
17 Drottinn er andinn, og þar sem andi Drottins er, þar er frelsi.
18 En allir vér, sem með óhjúpuðu andliti endurspeglum dýrð Drottins, ummyndumst til hinnar sömu myndar, frá dýrð til dýrðar. Þetta gjörir andi Drottins.
by Icelandic Bible Society