Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Önnur bók Móse 9

Því næst sagði Drottinn við Móse: "Gakk fyrir Faraó og seg við hann: ,Svo segir Drottinn, Guð Hebrea: Gef fólki mínu fararleyfi, að þeir megi þjóna mér.

En synjir þú þeim fararleyfis, og haldir þú þeim enn lengur,

sjá, þá skal hönd Drottins koma yfir kvikfénað þinn, sem er í haganum, yfir hesta og asna og úlfalda, nautpening og sauðfé, með harla þungum faraldri.

Og Drottinn mun gjöra þann mun á kvikfénaði Ísraelsmanna og kvikfénaði Egypta, að engin skepna skal deyja af öllu því, sem Ísraelsmenn eiga."`

Og Drottinn tók til ákveðinn tíma og sagði: "Á morgun mun Drottinn láta þetta fram fara í landinu."

Og Drottinn lét þetta fram fara að næsta morgni. Dó þá allur kvikfénaður Egypta, en engin skepna dó af fénaði Ísraelsmanna.

Þá sendi Faraó menn, og sjá: Engin skepna hafði farist af fénaði Ísraelsmanna. En hjarta Faraós var ósveigjanlegt, og hann gaf fólkinu eigi fararleyfi.

Því næst sagði Drottinn við Móse og Aron: "Takið handfylli ykkar af ösku úr ofninum, og skal Móse dreifa henni í loft upp að Faraó ásjáandi.

Skal hún þá verða að dufti um allt Egyptaland, en af því skal koma bólga, sem brýst út í kýli, bæði á mönnum og fénaði um allt Egyptaland."

10 Þeir tóku þá ösku úr ofninum og gengu fyrir Faraó. Dreifði þá Móse öskunni í loft upp, og kom þá á menn og fénað bólga, sem braust út í kýli.

11 En spásagnamennirnir gátu ekki komið á fund Móse sökum bólgunnar, því að bólga kom á spásagnamennina, eins og á alla Egypta.

12 En Drottinn herti hjarta Faraós, og hann hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt Móse.

13 Þá mælti Drottinn við Móse: "Rís upp árla á morgun, gakk fyrir Faraó og seg við hann: ,Svo segir Drottinn, Guð Hebrea: Gef fólki mínu fararleyfi, að þeir megi þjóna mér.

14 Því að í þetta sinn ætla ég að senda allar plágur mínar yfir þig sjálfan, yfir þjóna þína og yfir fólk þitt, svo að þú vitir, að enginn er minn líki á allri jörðinni.

15 Því að ég hefði þegar getað rétt út hönd mína og slegið þig og fólk þitt með drepsótt, svo að þú yrðir afmáður af jörðinni.

16 En þess vegna hefi ég þig standa látið, til þess að ég sýndi þér mátt minn og til þess að nafn mitt yrði kunngjört um alla veröld.

17 Þú stendur enn í móti fólki mínu með því að vilja ekki gefa þeim fararleyfi.

18 Sjá, á morgun í þetta mund vil ég láta dynja yfir svo stórfellt hagl, að aldrei hefir slíkt komið á Egyptalandi, síðan landið varð til og allt til þessa dags.

19 Fyrir því send nú og tak sem skjótast inn fénað þinn og allt það, er þú átt úti. Allir menn og skepnur, sem úti verða staddar og ekki eru í hús inn látnar og fyrir haglinu verða, munu deyja."`

20 Sérhver af þjónum Faraós, sem óttaðist orð Drottins, hýsti inni hjú sín og fénað.

21 En þeir, sem ekki gáfu gaum að orðum Drottins, létu hjú sín og fénað vera úti.

22 Þá sagði Drottinn við Móse: "Rétt hönd þína til himins og þá skal hagl drífa yfir allt Egyptaland, yfir menn og skepnur, og yfir allan jarðargróða í Egyptalandi."

23 Þá lyfti Móse staf sínum til himins, og Drottinn lét þegar koma reiðarþrumur og hagl. Og eldingum laust á jörð niður, og Drottinn lét hagl dynja yfir Egyptaland.

24 Og haglið dundi og eldingunum laust í sífellu niður innan um haglið, er var svo geysistórt, að slíkt hafði ekki komið á öllu Egyptalandi síðan það byggðist.

25 Og haglið laust til bana allt það, sem úti var í öllu Egyptalandi, bæði menn og skepnur, og haglið lamdi allan jarðargróða og braut hvert tré merkurinnar.

26 Aðeins í Gósenlandi, þar sem Ísraelsmenn bjuggu, kom ekkert hagl.

27 Þá sendi Faraó og lét kalla þá Móse og Aron og sagði við þá: "Að þessu sinni hefi ég syndgað. Drottinn er réttlátur, en ég og mitt fólk höfum á röngu að standa.

28 Biðjið til Drottins. Nóg er komið af reiðarþrumum og hagli. Vil ég þá gefa yður fararleyfi, og skuluð þér ekki bíða lengur."

29 Móse svaraði honum: "Jafnskjótt sem ég er kominn út úr borginni, skal ég fórna höndum til Drottins, og mun þá reiðarþrumunum linna og hagl ekki framar koma, svo að þú vitir, að jörðin tilheyrir Drottni.

30 Og veit ég þó, að þú og þjónar þínir óttast ekki enn Drottin Guð."

31 Hör og bygg var niður slegið, því að öx voru komin á byggið og knappar á hörinn.

32 En hveiti og speldi var ekki niður slegið, því að þau koma seint upp.

33 Því næst gekk Móse burt frá Faraó og út úr borginni og fórnaði höndum til Drottins. Linnti þá reiðarþrumunum og haglinu, og regn streymdi ekki lengur niður á jörðina.

34 En er Faraó sá, að regninu, haglinu og reiðarþrumunum linnti, hélt hann áfram að syndga og herti hjarta sitt, hann og þjónar hans.

35 Og hjarta Faraós harðnaði, og hann gaf Ísraelsmönnum eigi fararleyfi, eins og Drottinn hafði sagt fyrir munn Móse.

Lúkasarguðspjall 12

12 Fólk hafði nú flykkst að í tugum þúsunda, svo að nærri tróð hver annan undir. Jesús tók þá að tala, fyrst til lærisveina sinna: "Varist súrdeig farísea, sem er hræsnin.

Ekkert er hulið, sem eigi verður opinbert, né leynt, er eigi verður kunnugt.

Því mun allt það, sem þér hafið talað í myrkri, heyrast í birtu, og það, sem þér hafið hvíslað í herbergjum, mun kunngjört á þökum uppi.

Það segi ég yður, vinir mínir: Hræðist ekki þá, sem líkamann deyða og fá að því búnu ekki meira að gjört.

Ég skal sýna yður, hvern þér eigið að hræðast. Hræðist þann, er hefur vald að deyða og að því búnu varpa í helvíti. Já, ég segi yður, hræðist hann.

Eru ekki fimm spörvar seldir fyrir tvo smápeninga? Og þó er ekki einn þeirra gleymdur Guði.

Hárin á höfði yðar eru jafnvel öll talin. Verið óhræddir, þér eruð meira verðir en margir spörvar.

En ég segi yður: Hvern þann sem kannast við mig fyrir mönnum, mun og Mannssonurinn kannast við fyrir englum Guðs.

En þeim sem afneitar mér fyrir mönnum, mun afneitað verða fyrir englum Guðs.

10 Hverjum sem mælir gegn Mannssyninum, verður það fyrirgefið, en þeim sem lastmælir gegn heilögum anda, verður ekki fyrirgefið.

11 Og þegar þeir leiða yður fyrir samkundur, höfðingja og yfirvöld, hafið þá ekki áhyggjur af því, hvernig eða með hverju þér eigið að verja yður eða hvað þér eigið að segja.

12 Því að heilagur andi mun kenna yður á þeirri stundu, hvað segja ber."

13 Einn úr mannfjöldanum sagði við hann: "Meistari, seg þú bróður mínum að skipta með mér arfinum."

14 Hann svaraði honum: "Maður, hver hefur sett mig dómara eða skiptaráðanda yfir ykkur?"

15 Og hann sagði við þá: "Gætið yðar, og varist alla ágirnd. Enginn þiggur líf af eigum sínum, þótt auðugur sé."

16 Þá sagði hann þeim dæmisögu þessa: "Maður nokkur ríkur átti land, er hafði borið mikinn ávöxt.

17 Hann hugsaði með sér: ,Hvað á ég að gjöra? Nú get ég hvergi komið fyrir afurðum mínum.`

18 Og hann sagði: ,Þetta gjöri ég: Ég ríf hlöður mínar og reisi aðrar stærri, og þangað safna ég öllu korni mínu og auðæfum.

19 Og ég segi við sálu mína: Sála mín, nú átt þú mikinn auð til margra ára, hvíl þig nú, et og drekk og ver glöð.`

20 En Guð sagði við hann: ,Heimskingi, á þessari nóttu verður sál þín af þér heimtuð, og hver fær þá það, sem þú hefur aflað?`

21 Svo fer þeim er safnar sér fé, en er ekki ríkur hjá Guði."

22 Og hann sagði við lærisveina sína: "Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast.

23 Lífið er meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin.

24 Hyggið að hröfnunum. Hvorki sá þeir né uppskera, eigi hafa þeir forðabúr eða hlöðu, og Guð fæðir þá. Hve miklum mun eruð þér fremri fuglunum!

25 Og hver yðar getur með áhyggjum aukið spönn við aldur sinn?

26 Fyrst þér nú orkið ekki svo litlu, hví látið þér allt hitt valda yður áhyggjum?

27 Hyggið að liljunum, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra.

28 Fyrst Guð skrýðir svo grasið á vellinum, sem í dag stendur, en á morgun verður í ofn kastað, hve miklu fremur mun hann þá klæða yður, þér trúlitlir!

29 Hafið ekki hugann við, hvað þér eigið að eta og hvað að drekka, og kvíðið engu.

30 Allt þetta stunda heiðingjar heimsins, en faðir yðar veit, að þér þarfnist þessa.

31 Leitið heldur ríkis hans, og þá mun þetta veitast yður að auki.

32 Vertu ekki hrædd, litla hjörð, því að föður yðar hefur þóknast að gefa yður ríkið.

33 Seljið eigur yðar og gefið ölmusu, fáið yður pyngjur, er fyrnast ekki, fjársjóð á himnum, er þrýtur ekki, þar sem þjófur fær eigi í nánd komist né mölur spillt.

34 Því hvar sem fjársjóður yðar er, þar mun og hjarta yðar vera.

35 Verið gyrtir um lendar, og látið ljós yðar loga,

36 og verið líkir þjónum, er bíða þess, að húsbóndi þeirra komi úr brúðkaupi og þeir geti lokið upp fyrir honum um leið og hann kemur og knýr dyra.

37 Sælir eru þeir þjónar, sem húsbóndinn finnur vakandi, er hann kemur. Sannlega segi ég yður, hann mun gyrða sig belti, láta þá setjast að borði og koma og þjóna þeim.

38 Og komi hann um miðnætti eða síðar og finni þá vakandi, sælir eru þeir þá.

39 Það skiljið þér, að húsráðandi léti ekki brjótast inn í hús sitt, ef hann vissi, á hvaða stundu þjófurinn kæmi.

40 Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi."

41 Þá spurði Pétur: "Herra, mælir þú þessa líkingu til vor eða til allra?"

42 Drottinn mælti: "Hver er sá trúi og hyggni ráðsmaður, sem húsbóndinn setur yfir hjú sín að gefa þeim skammtinn á réttum tíma?

43 Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur.

44 Ég segi yður með sanni: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.

45 En ef sá þjónn segir í hjarta sínu: ,Það dregst, að húsbóndi minn komi,` og tekur að berja þjóna og þernur, eta og drekka og verða ölvaður,

46 þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi, er hann væntir ekki, á þeirri stundu, er hann veit ekki, höggva hann og láta hann fá hlut með ótrúum.

47 Sá þjónn, sem veit vilja húsbónda síns og hefur ekki viðbúnað né gjörir vilja hans, mun barinn mörg högg.

48 En hinn, sem veit hann ekki, en vinnur til refsingar, mun barinn fá högg. Hver sem mikið er gefið, verður mikils krafinn, og af þeim verður meira heimtað, sem meira er léð.

49 Ég er kominn að varpa eldi á jörðu. Hversu vildi ég, að hann væri þegar kveiktur!

50 Skírn á ég að skírast. Hversu þungt er mér, uns hún er fullnuð.

51 Ætlið þér, að ég sé kominn að færa frið á jörðu? Nei, segi ég yður, heldur sundurþykki.

52 Upp frá þessu verða fimm í sama húsi sundurþykkir, þrír við tvo og tveir við þrjá,

53 faðir við son og sonur við föður, móðir við dóttur og dóttir við móður, tengdamóðir við tengdadóttur sína og tengdadóttir við tengdamóður."

54 Hann sagði og við fólkið: "Þá er þér sjáið ský draga upp í vestri, segið þér jafnskjótt: ,Nú fer að rigna.` Og svo verður.

55 Og þegar vindur blæs af suðri, segið þér: ,Nú kemur hiti.` Og svo fer.

56 Hræsnarar, útlit lofts og jarðar kunnið þér að ráða, en hvernig er því farið, að þér kunnið ekki að meta þennan tíma?

57 Hví dæmið þér ekki af sjálfum yður, hvað rétt sé?

58 Þegar þú ferð með andstæðingi þínum fyrir yfirvald, þá kostaðu kapps um það á leiðinni að ná sáttum við hann, til þess að hann dragi þig ekki fyrir dómarann, dómarinn afhendi þig böðlinum, og böðullinn varpi þér í fangelsi.

59 Ég segi þér, eigi munt þú komast út þaðan, fyrr en þú hefur borgað síðasta eyri."

Jobsbók 27

27 Og Job hélt áfram að flytja ræðu sína og mælti:

Svo sannarlega sem Guð lifir, sá er svipt hefir mig rétti mínum, og hinn Almáttki, er hryggt hefir sálu mína:

meðan lífsönd er í mér og andi Guðs í nösum mínum,

skulu varir mínar ekki tala ranglæti og tunga mín ekki mæla svik.

Fjarri sé mér að játa, að þér hafið rétt að mæla. Þar til er ég gef upp andann, læt ég ekki taka frá mér sakleysi mitt.

Ég held fast í réttlæti mitt og sleppi því ekki, hjarta mitt átelur mig ekki fyrir neinn daga minna.

Fyrir óvini mínum fari eins og hinum óguðlega og fyrir mótstöðumanni mínum eins og hinum rangláta.

Því að hvaða von hefir guðlaus maður, þegar skorið er á þráðinn, þá er Guð hrífur burt líf hans?

Ætli Guð heyri óp hans, þá er neyð kemur yfir hann?

10 Eða getur hann haft yndi af hinum Almáttka, hrópað til Guðs, hvenær sem vera skal?

11 Ég vil fræða yður um hönd Guðs, eigi leyna því, er hinn Almáttki hefir í hyggju.

12 Sjá, þér hafið allir séð það sjálfir, hví farið þér þá með slíka heimsku?

13 Þetta er hlutskipti óguðlegs manns hjá Guði, arfleifð ofbeldismanns, sú er hann fær frá hinum Almáttka:

14 Eignist hann mörg börn, þá er það handa sverðinu, og afkvæmi hans mettast eigi af brauði.

15 Þeir af fólki hans er af komast, verða jarðaðir af drepsóttinni, og ekkjur þeirra halda engan harmagrát.

16 Þegar hann hrúgar saman silfri eins og sandi og hleður saman klæðum sem leir,

17 þá hleður hann þeim saman, en hinn réttláti klæðist þeim, og silfrinu deilir hinn saklausi.

18 Hann hefir byggt hús sitt eins og köngulló og svo sem skála, er varðmaður reisir sér.

19 Ríkur leggst hann til hvíldar _ hann gjörir það eigi oftar, hann lýkur upp augunum, og þá er allt farið.

20 Skelfingar ná honum eins og vatnaflaumur, um nótt hrífur stormurinn hann burt.

21 Austanvindurinn hefur hann á loft, svo að hann þýtur áfram, og feykir honum burt af stað hans.

22 Vægðarlaust sendir hann skeyti sín á hann, fyrir hendi hans flýr hann í skyndi _

23 þá skella menn saman lófum yfir honum og blístra hann burt frá bústað hans.

Fyrra bréf Páls til Korin 13

13 Þótt ég talaði tungum manna og engla, en hefði ekki kærleika, væri ég hljómandi málmur eða hvellandi bjalla.

Og þótt ég hefði spádómsgáfu og vissi alla leyndardóma og ætti alla þekking, og þótt ég hefði svo takmarkalausa trú, að færa mætti fjöll úr stað, en hefði ekki kærleika, væri ég ekki neitt.

Og þótt ég deildi út öllum eigum mínum, og þótt ég framseldi líkama minn, til þess að verða brenndur, en hefði ekki kærleika, væri ég engu bættari.

Kærleikurinn er langlyndur, hann er góðviljaður. Kærleikurinn öfundar ekki. Kærleikurinn er ekki raupsamur, hreykir sér ekki upp.

Hann hegðar sér ekki ósæmilega, leitar ekki síns eigin, hann reiðist ekki, er ekki langrækinn.

Hann gleðst ekki yfir óréttvísinni, en samgleðst sannleikanum.

Hann breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt.

Kærleikurinn fellur aldrei úr gildi. En spádómsgáfur, þær munu líða undir lok, og tungur, þær munu þagna, og þekking, hún mun líða undir lok.

Því að þekking vor er í molum og spádómur vor er í molum.

10 En þegar hið fullkomna kemur, þá líður það undir lok, sem er í molum.

11 Þegar ég var barn, talaði ég eins og barn, hugsaði eins og barn og ályktaði eins og barn. En þegar ég var orðinn fulltíða maður, lagði ég niður barnaskapinn.

12 Nú sjáum vér svo sem í skuggsjá, í ráðgátu, en þá munum vér sjá augliti til auglitis. Nú er þekking mín í molum, en þá mun ég gjörþekkja, eins og ég er sjálfur gjörþekktur orðinn.

13 En nú varir trú, von og kærleikur, þetta þrennt, en þeirra er kærleikurinn mestur.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society