Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Önnur bók Móse 8

Því næst sagði Drottinn við Móse: "Gakk fyrir Faraó og seg við hann: ,Svo segir Drottinn: Gef lýð mínum fararleyfi, að þeir megi þjóna mér.

En ef þú synjar honum fararleyfis, þá skal ég þjá allt þitt land með froskum.

Áin skal mora af froskum. Þeir skulu fara á land upp og skríða inn í höll þína og í svefnherbergi þitt og upp í rekkju þína, inn í hús þjóna þinna og upp á fólk þitt, í bakstursofna þína og deigtrog.

Og froskarnir skulu skríða upp á þig og fólk þitt og upp á alla þjóna þína."`

Og Drottinn sagði við Móse: "Seg við Aron: ,Rétt út hönd þína og hald staf þínum uppi yfir fljótunum, ánum og tjörnunum, og lát froska koma yfir Egyptaland."`

Aron rétti út hönd sína yfir vötn Egyptalands. Komu þá upp froskar og huldu Egyptaland.

En spásagnamennirnir gjörðu slíkt hið sama með fjölkynngi sinni og létu froska koma yfir Egyptaland.

Þá lét Faraó kalla Móse og Aron og sagði: "Biðjið Drottin, að hann láti þessa froska víkja frá mér og frá þjóð minni. Þá skal ég láta fólkið fara, að það megi færa Drottni fórnir."

Móse sagði við Faraó: "Þér skal veitast sú virðing að ákveða, nær ég skuli biðja fyrir þér og fyrir þjónum þínum og fyrir fólki þínu, að froskarnir víki frá þér og úr húsum þínum og verði hvergi eftir nema í ánni."

10 Hann svaraði: "Á morgun." Og Móse sagði: "Svo skal vera sem þú mælist til, svo að þú vitir, að enginn er sem Drottinn, Guð vor.

11 Froskarnir skulu víkja frá þér og úr húsum þínum, frá þjónum þínum og frá fólki þínu. Hvergi nema í ánni skulu þeir eftir verða."

12 Síðan gengu þeir Móse og Aron burt frá Faraó og Móse ákallaði Drottin út af froskunum, sem hann hafði koma látið yfir Faraó.

13 Og Drottinn gjörði sem Móse beiddist, og dóu froskarnir í húsunum, í görðunum og á ökrunum.

14 Hrúguðu menn þeim saman í marga hauga, og varð af illur daunn í landinu.

15 En er Faraó sá að af létti, herti hann hjarta sitt og hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt.

16 Því næst sagði Drottinn við Móse: "Seg við Aron: ,Rétt út staf þinn og slá duft jarðarinnar, og skal það þá verða að mýi um allt Egyptaland."`

17 Þeir gjörðu svo. Rétti Aron út hönd sína og laust stafnum á duft jarðarinnar, og varð það að mýi á mönnum og fénaði. Allt duft jarðarinnar varð að mýi um allt Egyptaland.

18 Og spásagnamennirnir gjörðu slíkt hið sama með fjölkynngi sinni til þess að framleiða mý, en gátu ekki. En mýið lagðist bæði á menn og fénað.

19 Þá sögðu spásagnamennirnir við Faraó: "Þetta er Guðs fingur." En hjarta Faraós harðnaði, og hann hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt.

20 Þá sagði Drottinn við Móse: "Rís upp árla á morgun og far til fundar við Faraó, er hann gengur til vatns, og seg við hann: ,Svo segir Drottinn: Gef fólki mínu fararleyfi, að þeir megi þjóna mér.

21 En leyfir þú eigi fólki mínu að fara, skal ég láta flugur koma yfir þig og þjóna þína, yfir fólk þitt og í hús þín, og hús Egypta skulu full verða af flugum og jafnvel jörðin undir fótum þeirra.

22 En á þeim degi vil ég undan taka Gósenland, þar sem mitt fólk hefst við, svo að þar skulu engar flugur vera, til þess að þú vitir, að ég er Drottinn á jörðunni.

23 Og ég vil gjöra aðskilnað milli míns fólks og þíns fólks. Á morgun skal þetta tákn verða."`

24 Og Drottinn gjörði svo. Kom þá fjöldi flugna í hús Faraós og hús þjóna hans og yfir allt Egyptaland, svo að landið spilltist af flugunum.

25 Þá lét Faraó kalla þá Móse og Aron og sagði: "Farið og færið fórnir Guði yðar hér innanlands."

26 En Móse svaraði: "Ekki hæfir að vér gjörum svo, því að vér færum Drottni, Guði vorum, þær fórnir, sem eru Egyptum andstyggð. Ef vér nú bærum fram þær fórnir, sem eru Egyptum andstyggð, að þeim ásjáandi, mundu þeir þá ekki grýta oss?

27 Vér verðum að fara þrjár dagleiðir út á eyðimörkina til að færa fórnir Drottni, Guði vorum, eins og hann hefir boðið oss."

28 Þá mælti Faraó: "Ég vil leyfa yður að fara burt, svo að þér færið fórnir Drottni, Guði yðar, á eyðimörkinni. Aðeins megið þér ekki fara of langt í burt. Biðjið fyrir mér!"

29 Móse svaraði: "Sjá, þegar ég kem út frá þér, vil ég biðja til Drottins, að flugurnar víki frá Faraó og frá þjónum hans og frá fólki hans á morgun. En þá má Faraó ekki oftar prettast um að leyfa fólkinu að fara burt til að færa Drottni fórnir."

30 Þá gekk Móse út frá Faraó og bað til Drottins.

31 Og Drottinn gjörði sem Móse bað og lét flugurnar víkja frá Faraó og þjónum hans og fólki hans, svo að ekki ein varð eftir.

32 En Faraó herti þá enn hjarta sitt, og ekki leyfði hann fólkinu að fara.

Lúkasarguðspjall 11

11 Svo bar við, er Jesús var á stað einum að biðjast fyrir, að einn lærisveina hans sagði við hann, þá er hann lauk bæn sinni: "Herra, kenn þú oss að biðja, eins og Jóhannes kenndi lærisveinum sínum."

En hann sagði við þá: "Þegar þér biðjist fyrir, þá segið: Faðir, helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,

gef oss hvern dag vort daglegt brauð.

Fyrirgef oss vorar syndir, enda fyrirgefum vér öllum vorum skuldunautum. Og eigi leið þú oss í freistni."

Og hann sagði við þá: "Nú á einhver yðar vin og fer til hans um miðnætti og segir við hann: ,Vinur, lánaðu mér þrjú brauð,

því að vinur minn er kominn til mín úr ferð og ég hef ekkert að bera á borð fyrir hann.`

Mundi hinn þá svara inni: ,Gjör mér ekki ónæði. Það er búið að loka dyrum og börn mín og ég komin í rúmið. Ég get ekki farið á fætur að fá þér brauð`?

Ég segi yður, þótt hann fari ekki á fætur og fái honum brauð vegna vinfengis þeirra, þá fer hann samt fram úr sakir áleitni hans og fær honum eins mörg og hann þarf.

Og ég segi yður: Biðjið, og yður mun gefast, leitið, og þér munuð finna, knýið á, og fyrir yður mun upp lokið verða.

10 Því að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.

11 Er nokkur sá faðir yðar á meðal, að hann gefi syni sínum, er biður um fisk, höggorm í staðinn,

12 eða sporðdreka, ef hann biður um egg?

13 Fyrst þér, sem eruð vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann."

14 Jesús var að reka út illan anda, og var sá mállaus. Þegar illi andinn var út farinn, tók málleysinginn að mæla, og undraðist mannfjöldinn.

15 En sumir þeirra sögðu: "Með fulltingi Beelsebúls, höfðingja illra anda, rekur hann út illu andana."

16 En aðrir vildu freista hans og kröfðu hann um tákn af himni.

17 En hann vissi hugrenningar þeirra og sagði við þá: "Hvert það ríki, sem er sjálfu sér sundurþykkt, leggst í auðn, og hús fellur á hús.

18 Sé nú Satan sjálfum sér sundurþykkur, hvernig fær ríki hans þá staðist _ fyrst þér segið, að ég reki illu andana út með fulltingi Beelsebúls?

19 En reki ég illu andana út með fulltingi Beelsebúls, með hverju reka þá yðar menn þá út? Því skulu þeir vera dómarar yðar.

20 En ef ég rek illu andana út með fingri Guðs, þá er Guðs ríki þegar yfir yður komið.

21 Þegar sterkur maður, alvopnaður, varðveitir hús sitt, þá er allt í friði, sem hann á,

22 en ráðist annar honum sterkari á hann og sigri hann, tekur sá alvæpni hans, er hann treysti á, og skiptir herfanginu.

23 Hver sem er ekki með mér, er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.

24 Þegar óhreinn andi fer út af manni, reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis. Og er hann finnur það ekki, segir hann: ,Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór.`

25 Og er hann kemur og finnur það sópað og prýtt,

26 fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri, og þeir fara inn og setjast þar að, og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður."

27 Er hann mælti þetta, hóf kona ein í mannfjöldanum upp rödd sína og sagði við hann: "Sæll er sá kviður, er þig bar, og þau brjóst, er þú mylktir."

28 Hann sagði: "Já, því sælir eru þeir, sem heyra Guðs orð og varðveita það."

29 Þegar fólkið þyrptist þar að, tók hann svo til orða: "Þessi kynslóð er vond kynslóð. Hún heimtar tákn, en eigi verður henni annað tákn gefið en tákn Jónasar.

30 Því Jónas varð Ninívemönnum tákn, og eins mun Mannssonurinn verða þessari kynslóð.

31 Drottning Suðurlanda mun rísa upp í dóminum ásamt mönnum þessarar kynslóðar og sakfella þá, því að hún kom frá endimörkum jarðar að heyra speki Salómons, og hér er meira en Salómon.

32 Ninívemenn munu koma fram í dóminum ásamt kynslóð þessari og sakfella hana, því að þeir gjörðu iðrun við prédikun Jónasar, og hér er meira en Jónas.

33 Enginn kveikir ljós og setur það í felur né undir mæliker, heldur á ljósastiku, svo að þeir, sem inn koma, sjái ljósið.

34 Auga þitt er lampi líkamans. Þegar auga þitt er heilt, þá er og allur líkami þinn bjartur, en sé það spillt, þá er og líkami þinn dimmur.

35 Gæt því þess, að ljósið í þér sé ekki myrkur.

36 Sé því líkami þinn allur bjartur og hvergi myrkur í honum, verður hann allur í birtu, eins og þegar lampi lýsir á þig með loga sínum."

37 Þá er hann hafði þetta mælt, bauð farísei nokkur honum til dagverðar hjá sér. Hann kom og settist til borðs.

38 Faríseinn sá, að hann tók ekki handlaugar á undan máltíðinni, og furðaði hann á því.

39 Drottinn sagði þá við hann: "Þér farísear, þér hreinsið bikarinn og fatið utan, en hið innra eruð þér fullir yfirgangs og illsku.

40 Þér heimskingjar, hefur sá, sem gjörði hið ytra, ekki einnig gjört hið innra?

41 En gefið fátækum það, sem í er látið, og þá er allt yður hreint.

42 En vei yður, þér farísear! Þér gjaldið tíund af myntu og rúðu og alls kyns matjurtum, en hirðið ekki um réttlæti og kærleika Guðs. Þetta ber að gjöra og hitt eigi ógjört að láta.

43 Vei yður, þér farísear! Yður er ljúft að skipa æðsta bekk í samkundum og láta heilsa yður á torgum.

44 Vei yður, því þér eruð eins og duldar grafir, sem menn ganga yfir án þess að vita."

45 Þá tók lögvitringur einn til orða: "Meistari, þú meiðir oss líka með því, sem þú segir."

46 En Jesús mælti: "Vei yður líka, þér lögvitringar! Þér leggið á menn lítt bærar byrðar, og sjálfir snertið þér ekki byrðarnar einum fingri.

47 Vei yður! Þér hlaðið upp grafir spámannanna, sem feður yðar líflétu.

48 Þannig berið þér vitni um athafnir feðra yðar og samþykkið þær. Þeir líflétu þá, en þér hlaðið upp grafirnar.

49 Þess vegna hefur og speki Guðs sagt: ,Ég mun senda þeim spámenn og postula, og suma þeirra munu þeir lífláta og ofsækja.`

50 Þannig verður kynslóð þessi krafin um blóð allra spámannanna, er úthellt hefur verið frá grundvöllun heims,

51 frá blóði Abels til blóðs Sakaría, sem drepinn var milli altarisins og musterisins. Já, segi ég yður, þess mun krafist verða af þessari kynslóð.

52 Vei yður, þér lögvitringar! Þér hafið tekið brott lykil þekkingarinnar. Sjálfir hafið þér ekki gengið inn, og þeim hafið þér varnað, sem inn vildu ganga."

53 Og er hann var farinn út þaðan, tóku fræðimenn og farísear að ganga hart að honum og spyrja hann í þaula um margt

54 og sitja um að veiða eitthvað af vörum hans.

Jobsbók 25-26

25 Þá svaraði Bildad frá Súa og sagði:

Hans er drottinvald og ótti, hans sem lætur frið ríkja í hæðum sínum.

Verður tölu komið á hersveitir hans, og yfir hverjum rennur ekki upp ljós hans?

Hvernig ætti maðurinn þá að vera réttlátur hjá Guði, og hvernig ætti sá að vera hreinn, sem af konu er fæddur?

Sjá, jafnvel tunglið, það er ekki bjart, og stjörnurnar eru ekki hreinar í augum hans,

hvað þá maðurinn, maðkurinn, og mannssonurinn, ormurinn!

26 Þá svaraði Job og sagði:

En hvað þú hefir hjálpað hinum þróttlausa, stutt hinn máttvana armlegg!

En hvað þú hefir ráðið hinum óvitra og kunngjört mikla speki!

Fyrir hverjum hefir þú flutt ræðu þína, og hvers andi var það, sem gekk fram úr þér?

Andar hinna framliðnu í undirdjúpunum skelfast ásamt vötnunum og íbúum þeirra.

Naktir liggja undirheimar fyrir Guði og undirdjúpin skýlulaus.

Hann þenur norðrið út yfir auðninni og lætur jörðina svífa í tómum geimnum,

hann bindur vatnið saman í skýjum sínum, og þó brestur skýflókinn ekki undir því,

hann byrgir fyrir ásjónu hásætis síns með því að breiða ský sitt yfir hana.

10 Marklínu hefir hann dregið hringinn í kring á haffletinum, þar sem mætast ljós og myrkur.

11 Stoðir himinsins nötra og hræðast ógnun hans.

12 Með mætti sínum æsir hann hafið, og með hyggindum sínum sundurmolar hann hafdrekann.

13 Fyrir andgusti hans verður himinninn heiður, hönd hans leggur í gegn hinn flughraða dreka.

14 Sjá, þetta eru aðeins ystu takmörk vega hans, og hversu lágt hvísl er það, sem vér heyrum! En þrumu máttarverka hans _ hver skilur hana?

Fyrra bréf Páls til Korin 12

12 En svo ég minnist á gáfur andans, bræður, þá vil ég ekki að þér séuð fáfróðir um þær.

Þér vitið, að þegar þér voruð heiðingjar, þá létuð þér leiða yður til mállausra skurðgoðanna, rétt eins og verkast vildi.

Fyrir því læt ég yður vita, að enginn, sem talar af Guðs anda, segir: "Bölvaður sé Jesús!" og enginn getur sagt: "Jesús er Drottinn!" nema af heilögum anda.

Mismunur er á náðargáfum, en andinn er hinn sami,

og mismunur er á embættum, en Drottinn hinn sami,

og mismunur er á hæfileikum að framkvæma, en Guð hinn sami, sem öllu kemur til leiðar í öllum.

Andinn opinberast í sérhverjum til þess, sem gagnlegt er.

Einum er fyrir andann gefið að mæla af speki, öðrum að mæla af þekkingu í krafti sama anda.

Hinn sami andi veitir einum trú, öðrum lækningagáfu

10 og öðrum kraft til að framkvæma undur. Einn fær spádómsgáfu, annar hæfileika að greina anda, einn að tala tungum og annar að útleggja tungutal.

11 En öllu þessu kemur til leiðar eini og sami andinn, og hann útbýtir hverjum einum eftir vild sinni.

12 Því að eins og líkaminn er einn og hefur marga limi, en allir limir líkamans, þótt margir séu, eru einn líkami, þannig er og Kristur.

13 Í einum anda vorum vér allir skírðir til að vera einn líkami, hvort sem vér erum Gyðingar eða Grikkir, þrælar eða frjálsir, og allir fengum vér einn anda að drekka.

14 Því að líkaminn er ekki einn limur, heldur margir.

15 Ef fóturinn segði: "Fyrst ég er ekki hönd, heyri ég ekki líkamanum til," þá er hann ekki fyrir það líkamanum óháður.

16 Og ef eyrað segði: "Fyrst ég er ekki auga, heyri ég ekki líkamanum til," þá er það ekki þar fyrir líkamanum óháð.

17 Ef allur líkaminn væri auga, hvar væri þá heyrnin? Ef hann væri allur heyrn, hvar væri þá ilmanin?

18 En nú hefur Guð sett hvern einstakan lim á líkamann eins og honum þóknaðist.

19 Ef allir limirnir væru einn limur, hvar væri þá líkaminn?

20 En nú eru limirnir margir, en líkaminn einn.

21 Augað getur ekki sagt við höndina: "Ég þarfnast þín ekki!" né heldur höfuðið við fæturna: "Ég þarfnast ykkar ekki!"

22 Nei, miklu fremur eru þeir limir á líkamanum nauðsynlegir, sem virðast vera í veikbyggðara lagi.

23 Og þeim, sem oss virðast vera í óvirðulegra lagi á líkamanum, þeim veitum vér því meiri sæmd, og þeim, sem vér blygðumst vor fyrir, sýnum vér því meiri blygðunarsemi.

24 Þess þarfnast hinir ásjálegu limir vorir ekki. En Guð setti líkamann svo saman, að hann gaf þeim, sem síðri var, því meiri sæmd,

25 til þess að ekki yrði ágreiningur í líkamanum, heldur skyldu limirnir bera sameiginlega umhyggju hver fyrir öðrum.

26 Og hvort heldur einn limur þjáist, þá þjást allir limirnir með honum, eða einn limur er í hávegum hafður, samgleðjast allir limirnir honum.

27 Þér eruð líkami Krists og limir hans hver um sig.

28 Guð hefur sett nokkra í kirkjunni, fyrst postula, í öðru lagi spámenn, í þriðja lagi fræðara, sumum hefur hann veitt gáfu að gjöra kraftaverk, lækna, vinna líknarstörf, stjórna og tala tungum.

29 Hvort eru allir postular? Hvort eru allir spámenn? Hvort eru allir fræðarar? Hvort eru allir kraftaverkamenn?

30 Hvort hafa allir hlotið lækningagáfu? Hvort tala allir tungum? Hvort útlista allir tungutal?

31 Nei, sækist heldur eftir náðargáfunum, þeim hinum meiri. Og nú bendi ég yður á enn þá miklu ágætari leið.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society