Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrsta bók Móse 35-36

35 Guð sagði við Jakob: "Tak þig upp og far upp til Betel og dvel þú þar og gjör þar altari Guði, sem birtist þér, þegar þú flýðir undan Esaú bróður þínum."

Jakob sagði við heimafólk sitt og alla, sem með honum voru: "Kastið burt þeim útlendu goðum, sem þér hafið hjá yður, og hreinsið yður og hafið fataskipti,

og skulum vér taka oss upp og fara upp til Betel. Vil ég reisa þar altari þeim Guði, sem bænheyrði mig á tíma neyðar minnar og hefir verið með mér á þeim vegi, sem ég hefi farið."

Og þeir fengu Jakob öll þau útlendu goð, sem þeir höfðu hjá sér, og hringana, sem þeir höfðu í eyrum sér, og gróf Jakob það undir eikinni, sem er hjá Síkem.

Því næst fóru þeir af stað. En ótti frá Guði var yfir öllum borgunum, sem voru umhverfis þá, svo að sonum Jakobs var ekki veitt eftirför.

Og Jakob kom til Lúz, sem er í Kanaanlandi (það er Betel), hann og allt fólkið, sem með honum var.

Og hann reisti þar altari og kallaði staðinn El-Betel, því að Guð hafði birst honum þar, þegar hann flýði undan bróður sínum.

Þar andaðist Debóra, fóstra Rebekku, og var jörðuð fyrir neðan Betel, undir eikinni, og fyrir því heitir hún Gráteik.

Enn birtist Guð Jakob, er hann var á heimleið frá Mesópótamíu, og blessaði hann.

10 Og Guð sagði við hann: "Nafn þitt er Jakob. Eigi skalt þú héðan af Jakob heita, heldur skal nafn þitt vera Ísrael." Og hann nefndi hann Ísrael.

11 Og Guð sagði við hann: "Ég er Almáttugur Guð. Ver þú frjósamur og auk kyn þitt. Þjóð, já fjöldi þjóða skal frá þér koma, og konungar skulu út ganga af lendum þínum.

12 Og landið, sem ég gaf Abraham og Ísak, mun ég gefa þér, og niðjum þínum eftir þig mun ég gefa landið."

13 Því næst sté Guð upp frá honum, þaðan sem hann talaði við hann.

14 Jakob reisti upp merki á þeim stað, sem Guð talaði við hann, merkisstein, og dreypti yfir hann dreypifórn og hellti yfir hann olíu.

15 Og Jakob nefndi staðinn, þar sem Guð talaði við hann, Betel.

16 Þeir tóku sig upp frá Betel. En er þeir áttu skammt eftir ófarið til Efrata, tók Rakel léttasótt og kom hart niður.

17 Og er hún kom svo hart niður í barnburðinum, sagði ljósmóðirin við hana: "Óttast þú ekki, því að nú eignast þú annan son."

18 Og er hún var í andlátinu, _ því að hún dó _, þá nefndi hún hann Benóní, en faðir hans nefndi hann Benjamín.

19 Því næst andaðist Rakel og var jörðuð við veginn til Efrata, það er Betlehem.

20 Jakob reisti minnismerki á leiði hennar. Þar er legsteinn Rakelar allt til þessa dags.

21 Ísrael hélt áfram ferðinni og sló tjöldum sínum hinumegin við Mígdal Eder.

22 Meðan Ísrael hafðist við í því byggðarlagi, bar svo við, að Rúben fór og lagðist með Bílu, hjákonu föður síns. Og Ísrael varð þess áskynja. Jakob átti tólf sonu.

23 Synir Leu: Rúben, frumgetinn son Jakobs, Símeon, Leví, Júda, Íssakar og Sebúlon.

24 Synir Rakelar: Jósef og Benjamín.

25 Synir Bílu, þernu Rakelar: Dan og Naftalí.

26 Synir Silpu, þernu Leu: Gað og Asser. Þetta eru synir Jakobs, sem honum fæddust í Mesópótamíu.

27 Og Jakob kom til Ísaks föður síns í Mamre við Kirjat Arba, það er Hebron, þar sem Abraham og Ísak höfðu dvalist sem útlendingar.

28 En dagar Ísaks voru hundrað og áttatíu ár.

29 Og Ísak andaðist og dó og safnaðist til síns fólks, gamall og saddur lífdaga, og Esaú og Jakob synir hans jörðuðu hann.

36 Þetta er ættartala Esaú, það er Edóms.

Esaú hafði tekið sér konur af dætrum Kanaaníta: Ada, dóttur Hetítans Elons, og Oholíbama, dóttur Ana, sonar Hórítans Síbeons,

og Basmat, dóttur Ísmaels, systur Nebajóts.

Og Ada ól Esaú Elífas, Basmat ól Regúel

og Oholíbama ól Jehús, Jaelam og Kóra. Þessir eru synir Esaú, sem honum fæddust í Kanaanlandi.

Esaú tók konur sínar, sonu sína og dætur og allar sálir í húsi sínu og hjörð sína og kvikfénað og allan þann fjárhlut, sem hann hafði aflað sér í Kanaanlandi, og fór í burtu frá Jakob bróður sínum til Seírlands.

Því að eign þeirra var meiri en svo, að þeir gætu saman verið, og landið, er þeir bjuggu í sem útlendingar, bar þá ekki sökum hjarða þeirra.

Esaú settist að á Seírfjöllum; en Esaú er Edóm.

Þetta er saga Esaú, ættföður Edómíta, á Seírfjöllum.

10 Þetta eru nöfn Esaú sona: Elífas, sonur Ada, konu Esaú; Regúel, sonur Basmat, konu Esaú.

11 Synir Elífas voru: Teman, Ómar, Sefó, Gaetam og Kenas.

12 Timna var hjákona Elífas, sonar Esaú, og hún ól Elífas Amalek. Þetta eru synir Ada, konu Esaú.

13 Þessir eru synir Regúels: Nahat, Sera, Samma og Missa. Þessir voru synir Basmat, konu Esaú.

14 Og þessir voru synir Oholíbama, dóttur Ana, sonar Síbeons, konu Esaú, hún ól Esaú Jehús, Jaelam og Kóra.

15 Þessir eru ætthöfðingjar meðal Esaú sona: Synir Elífas, frumgetins sonar Esaú: Höfðinginn Teman, höfðinginn Ómar, höfðinginn Sefó, höfðinginn Kenas,

16 höfðinginn Kóra, höfðinginn Gaetam, höfðinginn Amalek. Þessir eru þeir höfðingjar, sem komnir eru frá Elífas í Edómlandi, þessir eru synir Ada.

17 Þessir voru synir Regúels, sonar Esaú: Höfðinginn Nahat, höfðinginn Sera, höfðinginn Samma, höfðinginn Missa. Þessir eru þeir höfðingjar, sem komnir eru frá Regúel í Edómlandi, þessir eru synir Basmat, konu Esaú.

18 Þessir eru synir Oholíbama, konu Esaú: Höfðinginn Jehús, höfðinginn Jaelam, höfðinginn Kóra. Þessir eru þeir höfðingjar, sem komnir eru frá Oholíbama, dóttur Ana, konu Esaú.

19 Þessir eru synir Esaú og þessir eru höfðingjar þeirra, það er Edóm.

20 Þessir eru synir Hórítans Seírs, frumbyggjar landsins: Lótan, Sóbal, Síbeon, Ana,

21 Díson, Eser og Dísan. Þessir eru höfðingjar Hórítanna, synir Seírs í Edómlandi.

22 Synir Lótans voru Hórí og Hemam, og systir Lótans var Timna.

23 Þessir eru synir Sóbals: Alvan, Manahat, Ebal, Sefó og Ónam.

24 Þessir eru synir Síbeons: Aja og Ana, það er sá Ana, sem fann laugarnar á öræfunum, er hann gætti asna Síbeons föður síns.

25 Þessi eru börn Ana: Díson og Oholíbama, dóttir Ana.

26 Þessir eru synir Dísons: Hemdan, Esban, Jítran og Keran.

27 Þessir eru synir Esers: Bílhan, Saavan og Akan.

28 Þessir eru synir Dísans: Ús og Aran.

29 Þessir eru höfðingjar Hórítanna: Höfðinginn Lótan, höfðinginn Sóbal, höfðinginn Síbeon, höfðinginn Ana,

30 höfðinginn Díson, höfðinginn Eser, höfðinginn Dísan. Þessir eru höfðingjar Hórítanna eftir höfðingjum þeirra í Seírlandi.

31 Þessir eru þeir konungar, sem ríktu í Edómlandi, áður en konungar ríktu yfir Ísraelsmönnum:

32 Bela, sonur Beórs, var konungur í Edóm, og hét borg hans Dínhaba.

33 Og er Bela dó, tók Jóbab, sonur Sera frá Bosra, ríki eftir hann.

34 Og er Jóbab dó, tók Húsam frá Temanítalandi ríki eftir hann.

35 Og er Húsam dó, tók Hadad, sonur Bedads, ríki eftir hann. Hann vann sigur á Midíanítum á Móabsvöllum, og borg hans hét Avít.

36 Og er Hadad dó, tók Samla frá Masreka ríki eftir hann.

37 Og er Samla dó, tók Sál frá Rehóbót hjá Efrat ríki eftir hann.

38 Og er Sál dó, tók Baal Hanan, sonur Akbórs, ríki eftir hann.

39 Og er Baal Hanan sonur Akbórs dó, tók Hadar ríki eftir hann, og hét borg hans Pagú, en kona hans Mehetabeel, dóttir Matredar, dóttur Me-Sahabs.

40 Þessi eru nöfn höfðingja þeirra, er frá Esaú eru komnir, eftir ættkvíslum þeirra, eftir bústöðum þeirra, eftir nöfnum þeirra: Höfðinginn Timna, höfðinginn Alva, höfðinginn Jetet,

41 höfðinginn Oholíbama, höfðinginn Ela, höfðinginn Pínon,

42 höfðinginn Kenas, höfðinginn Teman, höfðinginn Mibsar,

43 höfðinginn Magdíel, höfðinginn Íram. Þessir eru höfðingjar Edómíta, eftir bústöðum þeirra í landi því, sem þeir höfðu numið. Þessi Esaú er ættfaðir Edómíta.

Markúsarguðspjall 6

Þaðan fór Jesús og kom í ættborg sína, og lærisveinar hans fylgdu honum.

Þegar hvíldardagur var kominn, tók hann að kenna í samkundunni, og þeir mörgu, sem á hlýddu, undruðust stórum. Þeir sögðu: "Hvaðan kemur honum þetta? Hver er sú speki, sem honum er gefin, og þau kraftaverk, sem gjörast fyrir hendur hans?

Er þetta ekki smiðurinn, sonur Maríu, bróðir þeirra Jakobs, Jóse, Júdasar og Símonar? Og eru ekki systur hans hér hjá oss?" Og þeir hneyksluðust á honum.

Þá sagði Jesús: "Hvergi er spámaður minna metinn en í landi sínu, með frændum og heimamönnum."

Og hann gat ekki gjört þar neitt kraftaverk, nema hann lagði hendur yfir nokkra sjúka og læknaði þá.

Og hann undraðist vantrú þeirra. Hann fór nú um þorpin þar í kring og kenndi.

Og hann kallaði þá tólf til sín, tók að senda þá út, tvo og tvo, og gaf þeim vald yfir óhreinum öndum.

Hann bauð þeim að taka ekkert til ferðarinnar annað en staf, ekki brauð, mal né peninga í belti.

Þeir skyldu hafa skó á fótum, en ekki tvo kyrtla.

10 Og hann sagði við þá: "Hvar sem þér fáið inni, þar sé aðsetur yðar, uns þér leggið upp að nýju.

11 En hvar sem ekki er tekið við yður né á yður hlýtt, þaðan skuluð þér fara og hrista dustið af fótum yðar þeim til vitnisburðar."

12 Þeir lögðu af stað og prédikuðu, að menn skyldu gjöra iðrun,

13 ráku út marga illa anda og smurðu marga sjúka með olíu og læknuðu þá.

14 Heródes konungur frétti þetta, enda var nafn Jesú orðið víðfrægt. Sögðu sumir: "Jóhannes skírari er risinn upp frá dauðum, þess vegna eru kraftarnir að verki í honum."

15 Aðrir sögðu: "Hann er Elía," enn aðrir: "Hann er spámaður eins og spámennirnir fornu."

16 Þegar Heródes heyrði þetta, sagði hann: "Jóhannes, sem ég lét hálshöggva, hann er upp risinn."

17 En Heródes hafði sent menn að taka Jóhannes höndum, fjötra hann og varpa í fangelsi vegna Heródíasar, konu Filippusar, bróður síns. Hann hafði gengið að eiga hana,

18 en Jóhannes hafði sagt við Heródes: "Þú mátt ekki eiga konu bróður þíns."

19 Þess vegna lagði Heródías fæð á Jóhannes og vildi deyða hann, en gat ekki,

20 því að Heródes hafði beyg af honum og verndaði hann, þar eð hann vissi, að hann var maður réttlátur og heilagur. Hann komst í mikinn vanda, þegar hann hlýddi á mál hans, en þó var honum ljúft að hlusta á hann.

21 En nú kom hentugur dagur; á afmæli sínu gjörði Heródes veislu gæðingum sínum, hershöfðingjum og fyrirmönnum Galíleu.

22 Dóttir Heródíasar gekk þar inn og sté dans. Hún hreif Heródes og gesti hans, og konungur sagði við stúlkuna: "Bið mig hvers þú vilt, og mun ég veita þér."

23 Og hann sór henni: "Hvað sem þú biður um, það mun ég veita þér, allt að helmingi ríkis míns."

24 Hún gekk þá út og spurði móður sína: "Um hvað á ég að biðja?" Hún svaraði: "Höfuð Jóhannesar skírara."

25 Jafnskjótt skundaði hún til konungs og bað hann: "Gef mér þegar á fati höfuð Jóhannesar skírara."

26 Konungur varð hryggur við, en vegna eiðsins og gesta sinna vildi hann ekki synja henni þessa,

27 heldur sendi þegar varðmann og bauð að færa sér höfuð Jóhannesar. Hann fór og hjó af höfuð Jóhannesar í fangelsinu,

28 kom með höfuð hans á fati og færði stúlkunni, en stúlkan móður sinni.

29 Þegar lærisveinar hans fréttu þetta, komu þeir, tóku lík hans og lögðu í gröf.

30 Postularnir komu nú aftur til Jesú og sögðu honum frá öllu því, er þeir höfðu gjört og kennt.

31 Hann sagði við þá: "Komið þér nú á óbyggðan stað, svo að vér séum einir saman, og hvílist um stund." En fjöldi fólks var stöðugt að koma og fara, svo að þeir höfðu ekki einu sinni næði til að matast.

32 Og þeir fóru á bátnum einir saman á óbyggðan stað.

33 Menn sáu þá fara, og margir þekktu þá, og nú streymdi fólk þangað gangandi úr öllum borgunum og varð á undan þeim.

34 Þegar Jesús steig á land, sá hann þar mikinn mannfjölda, og hann kenndi í brjósti um þá, því að þeir voru sem sauðir, er engan hirði hafa. Og hann kenndi þeim margt.

35 Þá er mjög var áliðið dags, komu lærisveinar hans að máli við hann og sögðu: "Hér er engin mannabyggð og langt á daginn liðið.

36 Lát þá fara, að þeir geti náð til býla og þorpa hér í kring og keypt sér eitthvað til matar."

37 En hann svaraði þeim: "Gefið þeim sjálfir að eta." Þeir svara honum: "Eigum vér að fara og kaupa brauð fyrir tvö hundruð denara og gefa þeim að eta?"

38 Jesús spyr þá: "Hve mörg brauð hafið þér? Farið og gætið að." Þeir hugðu að og svöruðu: "Fimm brauð og tvo fiska."

39 Þá bauð hann þeim að láta alla setjast í grængresið og skipta sér í hópa.

40 Þeir settust niður í flokkum, hundrað í sumum, en fimmtíu í öðrum.

41 Og hann tók brauðin fimm og fiskana tvo, leit upp til himins, þakkaði Guði, braut brauðin og gaf lærisveinunum til að bera fram fyrir mannfjöldann. Fiskunum tveim skipti hann og meðal allra.

42 Og þeir neyttu allir og urðu mettir.

43 Þeir tóku saman brauðbitana, er fylltu tólf körfur, svo og fiskleifarnar.

44 En þeir, sem brauðanna neyttu, voru fimm þúsund karlmenn.

45 Tafarlaust knúði hann lærisveina sína að fara í bátinn og halda á undan yfir til Betsaídu, meðan hann sendi fólkið brott.

46 Og þá er hann hafði kvatt það, fór hann til fjalls að biðjast fyrir.

47 Þegar kvöld var komið, var báturinn á miðju vatni, en hann einn á landi.

48 Hann sá, að þeim var þungur róðurinn, því að vindur var á móti þeim, og er langt var liðið nætur kemur hann til þeirra, gangandi á vatninu, og ætlar fram hjá þeim.

49 Þegar þeir sáu hann ganga á vatninu, hugðu þeir, að þar færi vofa, og æptu upp yfir sig.

50 Því að allir sáu þeir hann og varð þeim bilt við. En Jesús mælti jafnskjótt til þeirra: "Verið hughraustir, það er ég, verið óhræddir."

51 Og hann sté í bátinn til þeirra og lægði þá vindinn. Og þeir urðu öldungis agndofa,

52 enda höfðu þeir ekki skilið það, sem gjörst hafði með brauðin, hjörtu þeirra voru blind.

53 Þegar þeir höfðu náð yfir um, komu þeir að landi við Genesaret og lögðu þar að.

54 Um leið og þeir stigu úr bátnum, þekktu menn hann.

55 Og fólk tók að streyma fram og aftur um allt það hérað og bera sjúklinga í burðarrekkjum hvert þangað, sem þeir heyrðu, að hann væri.

56 Og hvar sem hann kom í þorp, borgir eða á bæi, lögðu menn sjúka á torgin og báðu hann, að þeir fengju rétt að snerta fald klæða hans, og allir þeir, sem snertu hann, urðu heilir.

Jobsbók 2

Nú bar svo til einn dag, að synir Guðs komu til þess að ganga fyrir Drottin, og kom Satan og meðal þeirra.

Mælti þá Drottinn til Satans: "Hvaðan kemur þú?" Og Satan svaraði Drottni og sagði: "Ég hefi verið að reika um jörðina og arka fram og aftur um hana."

Og Drottinn mælti til Satans: "Veittir þú athygli þjóni mínum Job? því að enginn er hans líki á jörðu, maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar. Og enn þá er hann staðfastur í ráðvendni sinni, og þó hefir þú egnt mig gegn honum til að vinna honum tjón án saka."

Og Satan svaraði Drottni og sagði: "Nær er skinnið en skyrtan, og fyrir líf sitt gefur maðurinn allt sem hann á.

En rétt þú út hönd þína og snert þú bein hans og hold, og þá mun hann formæla þér upp í opið geðið."

Þá mælti Drottinn til Satans: "Sjá, veri hann á þínu valdi, en þyrma skalt þú lífi hans."

Þá gekk Satan burt frá augliti Drottins og sló Job illkynjuðum kaunum frá hvirfli til ilja.

Og Job tók sér leirbrot til að skafa sig með, þar sem hann sat í öskunni.

Þá sagði kona hans við hann: "Heldur þú enn fast við ráðvendni þína? Formæltu Guði og farðu að deyja!"

10 En hann sagði við hana: "Þú talar svo sem heimskar konur tala. Fyrst vér höfum þegið hið góða af Guði, ættum vér þá ekki einnig að taka hinu vonda?" Í öllu þessu syndgaði Job ekki með vörum sínum.

11 Þegar vinir Jobs þrír fréttu, að öll þessi ógæfa væri yfir hann komin, þá komu þeir hver frá sínum stað, þeir Elífas Temaníti, Bildad Súíti og Sófar Naamíti, og töluðu sig saman um að fara og votta honum samhryggð sína og hugga hann.

12 En er þeir hófu upp augu sín álengdar, þekktu þeir hann ekki. Tóku þeir þá að gráta hástöfum, rifu skikkjur sínar og jusu mold yfir höfuð sér hátt í loft upp.

13 Og þannig sátu þeir hjá honum á jörðu sjö daga og sjö nætur, og enginn þeirra yrti á hann, því að þeir sáu, hversu mikil kvöl hans var.

Bréf Páls til Rómverja 6

Hvað eigum vér þá að segja? Eigum vér að halda áfram í syndinni til þess að náðin aukist?

Fjarri fer því. Vér sem dóum syndinni, hvernig ættum vér framar að lifa í henni?

Eða vitið þér ekki, að allir vér, sem skírðir erum til Krists Jesú, erum skírðir til dauða hans?

Vér erum því dánir og greftraðir með honum í skírninni, til þess að lifa nýju lífi, eins og Kristur var upp vakinn frá dauðum fyrir dýrð föðurins.

Því að ef vér erum orðnir samgrónir honum í líkingu dauða hans, munum vér einnig vera það í líkingu upprisu hans.

Vér vitum, að vor gamli maður er með honum krossfestur, til þess að líkami syndarinnar skuli að engu verða og vér ekki framar þjóna syndinni.

Því að sá, sem dauður er, er leystur frá syndinni.

Ef vér erum með Kristi dánir, trúum vér því, að vér og munum með honum lifa.

Vér vitum að Kristur, upp vakinn frá dauðum, deyr ekki framar. Dauðinn drottnar ekki lengur yfir honum.

10 Með dauða sínum dó hann syndinni í eitt skipti fyrir öll, en með lífi sínu lifir hann Guði.

11 Þannig skuluð þér líka álíta yður sjálfa vera dauða syndinni, en lifandi Guði í Kristi Jesú.

12 Látið því ekki syndina ríkja í dauðlegum líkama yðar, svo að þér hlýðnist girndum hans.

13 Ljáið ekki heldur syndinni limi yðar að ranglætisvopnum, heldur bjóðið sjálfa yður Guði sem lifnaða frá dauðum og limi yðar Guði sem réttlætisvopn.

14 Synd skal ekki drottna yfir yður, því að ekki eruð þér undir lögmáli, heldur undir náð.

15 Hvað þá? Eigum vér að syndga, af því að vér erum ekki undir lögmáli, heldur undir náð? Fjarri fer því.

16 Vitið þér ekki, að ef þér bjóðið öðrum sjálfa yður fyrir þjóna og hlýðið honum, þá eruð þér þjónar þess, sem þér hlýðið, hvort heldur er syndar til dauða eða hlýðni til réttlætis?

17 En þökk sé Guði! Þér voruð þjónar syndarinnar, en urðuð af hjarta hlýðnir þeirri kenningu, sem þér voruð á vald gefnir.

18 Og þér gjörðust þjónar réttlætisins eftir að hafa verið leystir frá syndinni.

19 Ég tala á mannlegan hátt, sökum veikleika yðar. Því að eins og þér hafið boðið limi yðar óhreinleikanum og ranglætinu fyrir þjóna til ranglætis, svo skuluð þér nú bjóða limi yðar réttlætinu fyrir þjóna til helgunar.

20 Þegar þér voruð þjónar syndarinnar, þá voruð þér lausir við réttlætið.

21 Hvaða ávöxtu höfðuð þér þá? Þá sem þér nú blygðist yðar fyrir, því að þeir leiða að lokum til dauða.

22 En nú, með því að þér eruð leystir frá syndinni, en eruð orðnir þjónar Guðs, þá hafið þér ávöxt yðar til helgunar og eilíft líf að lokum.

23 Laun syndarinnar er dauði, en náðargjöf Guðs er eilíft líf í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society