M’Cheyne Bible Reading Plan
31 Nú frétti Jakob svofelld ummæli Labans sona: "Jakob hefir dregið undir sig aleigu föður vors, og af eigum föður vors hefir hann aflað sér allra þessara auðæfa."
2 Og Jakob sá á yfirbragði Labans, að hann bar ekki sama þel til sín sem áður.
3 Þá sagði Drottinn við Jakob: "Hverf heim aftur í land feðra þinna og til ættfólks þíns, og ég mun vera með þér."
4 Þá sendi Jakob og lét kalla þær Rakel og Leu út í hagann, þangað sem hjörð hans var.
5 Og hann sagði við þær: "Ég sé á yfirbragði föður ykkar, að hann ber ekki sama þel til mín sem áður; en Guð föður míns hefir verið með mér.
6 Og það vitið þið sjálfar, að ég hefi þjónað föður ykkar af öllu mínu megni.
7 En faðir ykkar hefir svikið mig og tíu sinnum breytt kaupi mínu, en Guð hefir ekki leyft honum að gjöra mér mein.
8 Þegar hann sagði: ,Hið flekkótta skal vera kaup þitt,` _ fæddi öll hjörðin flekkótt, og þegar hann sagði: ,Hið rílótta skal vera kaup þitt,` _ þá fæddi öll hjörðin rílótt.
9 Og þannig hefir Guð tekið fénaðinn frá föður ykkar og gefið mér hann.
10 Og um fengitíma hjarðarinnar hóf ég upp augu mín og sá í draumi, að hafrarnir, sem hlupu á féð, voru rílóttir, flekkóttir og dílóttir.
11 Og engill Guðs sagði við mig í draumnum: ,Jakob!` Og ég svaraði: ,Hér er ég.`
12 Þá mælti hann: ,Lít upp augum þínum og horfðu á: Allir hafrarnir, sem hlaupa á féð, eru rílóttir, flekkóttir og dílóttir; því að ég hefi séð allt, sem Laban hefir gjört þér.
13 Ég er Betels Guð, þar sem þú smurðir merkisstein, þar sem þú gjörðir mér heit. Tak þig nú upp, far burt úr þessu landi og hverf aftur til ættlands þíns."`
14 Þá svöruðu þær Rakel og Lea og sögðu við hann: "Höfum við nokkra hlutdeild og arf framar í húsi föður okkar?
15 Álítur hann okkur ekki vandalausar, þar sem hann hefir selt okkur? Og verði okkar hefir hann og algjörlega eytt.
16 Aftur á móti eigum við og börn okkar allan þann auð, sem Guð hefir tekið frá föður okkar. Og gjör þú nú allt, sem Guð hefir boðið þér."
17 Þá tók Jakob sig upp og setti börn sín og konur upp á úlfaldana
18 og hafði á burt allan fénað sinn og allan fjárhlut sinn, sem hann hafði aflað sér, fjáreign sína, sem hann hafði aflað sér í Mesópótamíu, og hóf ferð sína til Ísaks föður síns í Kanaanlandi.
19 Þegar Laban var farinn að klippa sauði sína, þá stal Rakel húsgoðum föður síns.
20 Og Jakob blekkti Laban hinn arameíska, með því að hann sagði honum eigi frá því, að hann mundi flýja.
21 Þannig flýði hann með allt, sem hann átti. Og hann tók sig upp og fór yfir fljótið og stefndi á Gíleaðsfjöll.
22 Laban var sagt það á þriðja degi, að Jakob væri flúinn.
23 Þá tók hann frændur sína með sér og elti hann sjö dagleiðir og náði honum á Gíleaðsfjöllum.
24 En Guð kom um nóttina til Labans hins arameíska í draumi og sagði við hann: "Gæt þín, að þú mælir ekkert styggðarorð til Jakobs."
25 Og Laban náði Jakob, sem hafði sett tjöld sín á fjöllunum, og Laban tjaldaði einnig á Gíleaðsfjöllum með frændum sínum.
26 Þá mælti Laban við Jakob: "Hvað hefir þú gjört, að þú skyldir blekkja mig og fara burt með dætur mínar, eins og þær væru herteknar?
27 Hví flýðir þú leynilega og blekktir mig og lést mig ekki af vita, svo að ég mætti fylgja þér á veg með fögnuði og söng, með bumbum og gígjum,
28 og leyfðir mér ekki að kyssa dætrasonu mína og dætur? Óviturlega hefir þér nú farist.
29 Það er á mínu valdi að gjöra yður illt, en Guð föður yðar mælti svo við mig í nótt, er var: ,Gæt þín, að þú mælir ekkert styggðarorð til Jakobs.`
30 Og nú munt þú burt hafa farið, af því að þig fýsti svo mjög heim til föður þíns, en hví hefir þú stolið goðum mínum?"
31 Þá svaraði Jakob og mælti til Labans: "Af því að ég var hræddur, því að ég hugsaði, að þú kynnir að slíta dætur þínar frá mér.
32 En sá skal ekki lífi halda, sem þú finnur hjá goð þín. Rannsaka þú í viðurvist frænda vorra, hvað hjá mér er af þínu, og tak það til þín." En Jakob vissi ekki, að Rakel hafði stolið þeim.
33 Laban gekk í tjald Jakobs og tjald Leu og í tjald beggja ambáttanna, en fann ekkert. Og hann fór út úr tjaldi Leu og gekk í tjald Rakelar.
34 En Rakel hafði tekið húsgoðin og lagt þau í úlfaldasöðulinn og setst ofan á þau. Og Laban leitaði vandlega í öllu tjaldinu og fann ekkert.
35 Og hún sagði við föður sinn: "Herra minn, reiðstu ekki, þótt ég geti ekki staðið upp fyrir þér, því að mér fer að eðlisháttum kvenna." Og hann leitaði og fann ekki húsgoðin.
36 Þá reiddist Jakob og átaldi Laban og sagði við Laban: "Hvað hefi ég misgjört, hvað hefi ég brotið, að þú eltir mig svo ákaflega?
37 Þú hefir leitað vandlega í öllum farangri mínum; hvað hefir þú fundið af öllum þínum búshlutum? Legg það hér fram í viðurvist frænda minna og frænda þinna, að þeir dæmi okkar í milli.
38 Ég hefi nú hjá þér verið í tuttugu ár. Ær þínar og geitur hafa ekki látið lömbunum, og hrúta hjarðar þinnar hefi ég ekki etið.
39 Það sem dýrrifið var, bar ég ekki heim til þín, það bætti ég sjálfur, þú krafðist þess af mér, hvort sem það hafði verið tekið á degi eða nóttu.
40 Ég átti þá ævi, að á daginn þjakaði mér hiti og á nóttinni kuldi, og eigi kom mér svefn á augu.
41 Í tuttugu ár hefi ég nú verið á heimili þínu. Hefi ég þjónað þér í fjórtán ár fyrir báðar dætur þínar og í sex ár fyrir hjörð þína, og þú hefir breytt kaupi mínu tíu sinnum.
42 Hefði ekki Guð föður míns, Abrahams Guð og Ísaks ótti, liðsinnt mér, þá hefðir þú nú látið mig tómhentan burt fara. En Guð hefir séð þrautir mínar og strit handa minna, og hann hefir dóm upp kveðið í nótt er var."
43 Þá svaraði Laban og sagði við Jakob: "Dæturnar eru mínar dætur og börnin eru mín börn og hjörðin er mín hjörð, og allt, sem þú sér, heyrir mér til. En hvað skyldi ég gjöra þessum dætrum mínum í dag, eða börnum þeirra, sem þær hafa alið?
44 Gott og vel, við skulum gjöra sáttmála, ég og þú, og hann skal vera vitnisburður milli mín og þín."
45 Þá tók Jakob stein og reisti hann upp til merkis.
46 Og Jakob sagði við frændur sína: "Berið að steina." Og þeir báru að steina og gjörðu grjótvörðu, og þeir mötuðust þar á grjótvörðunni.
47 Og Laban kallaði hana Jegar Sahadúta, en Jakob kallaði hana Galeð.
48 Og Laban mælti: "Þessi varða skal vera vitni í dag milli mín og þín." Fyrir því kallaði hann hana Galeð,
49 og Mispa, með því að hann sagði: "Drottinn sé á verði milli mín og þín, þá er við skiljum.
50 Ef þú misþyrmir dætrum mínum og ef þú tekur þér fleiri konur auk dætra minna, þá gæt þess, að þótt enginn maður sé hjá okkur, er Guð samt vitni milli mín og þín."
51 Og Laban sagði við Jakob: "Sjá þessa vörðu og sjá þennan merkisstein, sem ég hefi reist upp milli mín og þín!
52 Þessi varða sé vitni þess og þessi merkissteinn vottur þess, að hvorki skal ég ganga fram hjá þessari vörðu til þín né þú ganga fram hjá þessari vörðu og þessum merkissteini til mín með illt í huga.
53 Guð Abrahams og Guð Nahors, Guð föður þeirra, dæmi milli okkar." Og Jakob sór við ótta Ísaks föður síns.
54 Og Jakob slátraði fórnardýrum á fjallinu og bauð frændum sínum til máltíðar, og þeir mötuðust og voru á fjallinu um nóttina.
55 Laban reis árla næsta morgun og minntist við sonu sína og dætur og blessaði þau. Því næst hélt Laban af stað og hvarf aftur heim til sín.
2 Nokkrum dögum síðar kom hann aftur til Kapernaum. Þegar fréttist, að hann væri heima,
2 söfnuðust þar svo margir, að hvergi var lengur rúm, ekki einu sinni fyrir dyrum úti. Og hann flutti þeim orðið.
3 Þá er komið með lama mann, og báru fjórir.
4 Þegar þeir gátu ekki komist með hann til Jesú fyrir fólkinu, rufu þeir þekjuna uppi yfir honum, grófu þar í gegn og létu síga ofan rekkjuna, sem hinn lami lá í.
5 Þá er Jesús sér trú þeirra, segir hann við lama manninn: "Barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar."
6 Þar sátu nokkrir fræðimenn og hugsuðu í hjörtum sínum:
7 "Hví mælir þessi maður svo? Hann guðlastar. Hver getur fyrirgefið syndir nema Guð einn?"
8 Samstundis skynjaði Jesús í anda sínum, að þeir hugsuðu þannig með sér, og hann sagði við þá: "Hví hugsið þér slíkt í hjörtum yðar?
9 Hvort er auðveldara að segja við lama manninn: ,Syndir þínar eru fyrirgefnar,` eða segja: ,Statt upp, tak rekkju þína og gakk?`
10 En til þess að þér vitið, að Mannssonurinn hefur vald til að fyrirgefa syndir á jörðu,
11 þá segi ég þér" _ og nú talar hann við lama manninn: _ "Statt upp, tak rekkju þína, og far heim til þín."
12 Hann stóð upp, tók jafnskjótt rekkjuna og gekk burt í allra augsýn, svo að allir voru furðu lostnir, lofuðu Guð og sögðu: "Aldrei áður höfum vér þvílíkt séð."
13 Aftur fór hann út og gekk með vatninu, og allur mannfjöldinn kom til hans, og hann kenndi þeim.
14 Og er hann gekk þar, sá hann Leví Alfeusson sitja hjá tollbúðinni, og hann segir við hann: "Fylg þú mér!" Og hann stóð upp og fylgdi honum.
15 Svo bar við, að Jesús sat að borði í húsi hans, og margir tollheimtumenn og bersyndugir sátu þar með honum og lærisveinum hans, en margir fylgdu honum.
16 Fræðimenn af flokki farísea, sem sáu, að hann samneytti bersyndugum og tollheimtumönnum, sögðu þá við lærisveina hans: "Hann etur með tollheimtumönnum og bersyndugum."
17 Jesús heyrði þetta og svaraði þeim: "Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir, sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara."
18 Lærisveinar Jóhannesar og farísear héldu nú föstu. Þá koma menn til Jesú og spyrja hann: "Hví fasta lærisveinar Jóhannesar og lærisveinar farísea, en þínir lærisveinar fasta ekki?"
19 Jesús svaraði þeim: "Hvort geta brúðkaupsgestir fastað, meðan brúðguminn er hjá þeim? Alla þá stund, sem brúðguminn er hjá þeim, geta þeir ekki fastað.
20 En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn, þá munu þeir fasta, á þeim degi.
21 Enginn saumar bót af óþæfðum dúk á gamalt fat, því þá rífur nýja bótin af hinu gamla og verður af verri rifa.
22 Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi, því þá sprengir vínið belgina, og vínið ónýtist og belgirnir. Nýtt vín er látið á nýja belgi."
23 Svo bar við, að Jesús fór um sáðlönd á hvíldardegi, og lærisveinar hans tóku að tína kornöx á leiðinni.
24 Farísearnir sögðu þá við hann: "Lít á, hví gjöra þeir það, sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?"
25 Hann svaraði þeim: "Hafið þér aldrei lesið, hvað Davíð gjörði, er honum lá á, þegar hann hungraði og menn hans?
26 Hann fór inn í Guðs hús, þegar Abíatar var æðsti prestur, og át skoðunarbrauðin, en þau má enginn eta nema prestarnir, og gaf líka mönnum sínum."
27 Og hann sagði við þá: "Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins.
28 Því er Mannssonurinn einnig herra hvíldardagsins."
7 Þá er þeir konungur og Haman voru komnir til þess að drekka hjá Ester drottningu,
2 þá sagði konungur við Ester einnig þennan hinn annan dag, þá er þau voru setst að víndrykkjunni: "Hver er bón þín, Ester drottning? Hún mun veitast þér. Og hvers beiðist þú? Þótt það væri helmingur ríkisins, þá skal það í té látið."
3 Þá svaraði Ester drottning og sagði: "Hafi ég fundið náð í augum þínum, konungur, og þóknist konunginum svo, þá sé mér gefið líf mitt vegna bænar minnar og þjóð minni vegna beiðni minnar.
4 Því að vér erum seldir, ég og þjóð mín, til eyðingar, deyðingar og tortímingar. Og ef vér hefðum aðeins verið seldir að þrælum og ambáttum, þá mundi ég hafa þagað, þótt mótstöðumaðurinn hefði eigi verið fær um að bæta konungi skaðann."
5 Þá mælti Ahasverus konungur og sagði við Ester drottningu: "Hver er sá og hvar er sá, er dirfðist að gjöra slíkt?"
6 Ester mælti: "Mótstöðumaðurinn og óvinurinn er þessi vondi Haman!" En Haman varð hræddur við konung og drottningu.
7 Og konungur stóð upp frá víndrykkjunni í reiði og gekk út í hallargarðinn, en Haman stóð eftir til þess að biðja Ester drottningu um líf sitt, því að hann sá sér ógæfu búna af konungi.
8 En þegar konungur kom aftur utan úr hallargarðinum inn í veislusalinn, þá hafði Haman látið fallast á hvílubekk þann, sem Ester sat á. Þá sagði konungur: "Mun hann einnig ætla að nauðga drottningunni hjá mér hér í höllinni?" Óðara en þessi orð voru komin út af vörum konungs, huldu menn auglit Hamans.
9 Og Harbóna, einn af geldingum þeim, er þjónuðu konungi, mælti: "Sjá, gálginn, sem Haman lét gjöra handa Mordekai, sem þó hafði talað það, er konungi varð til heilla, stendur búinn í húsagarði Hamans, fimmtíu álna hár." Þá mælti konungur: "Festið hann á hann!"
10 Og þeir festu Haman á gálgann, sem hann hafði reisa látið handa Mordekai. Þá rann konungi reiðin.
2 Fyrir því hefur þú, maður, sem dæmir, hver sem þú ert, enga afsökun. Um leið og þú dæmir annan, dæmir þú sjálfan þig, því að þú, sem dæmir, fremur hið sama.
2 Vér vitum, að dómur Guðs er sannarlega yfir þeim er slíkt fremja.
3 En hugsar þú það, maður, þú sem dæmir þá er slíkt fremja og gjörir sjálfur hið sama, að þú fáir umflúið dóm Guðs?
4 Eða lítilsvirðir þú ríkdóm gæsku hans og umburðarlyndis og langlyndis? Veist þú ekki, að gæska Guðs vill leiða þig til iðrunar?
5 Með harðúð þinni og iðrunarlausa hjarta safnar þú sjálfum þér reiði á reiðidegi, er réttlátur dómur Guðs verður opinber.
6 Hann mun gjalda sérhverjum eftir verkum hans:
7 Þeim eilíft líf, sem með staðfestu í góðu verki leita vegsemdar, heiðurs og ódauðleika,
8 en þeim reiði og óvild, sem leiðast af eigingirni og óhlýðnast sannleikanum, en hlýðnast ranglætinu.
9 Þrenging og angist kemur yfir sérhverja mannssál, er illt fremur, yfir Gyðinginn fyrst, en einnig hinn gríska.
10 En vegsemd, heiður og frið hlýtur sérhver sá er gjörir hið góða, Gyðingurinn fyrst, en einnig hinn gríski.
11 Því að Guð fer ekki í manngreinarálit.
12 Allir þeir, sem syndgað hafa án lögmáls, munu og án lögmáls tortímast, og allir þeir, sem syndgað hafa undir lögmáli, munu dæmast af lögmáli.
13 Og ekki eru heyrendur lögmálsins réttlátir fyrir Guði, heldur munu gjörendur lögmálsins réttlættir verða.
14 Þegar heiðingjar, sem hafa ekki lögmál, gjöra að eðlisboði það sem lögmálið býður, þá eru þeir, þótt þeir hafi ekki neitt lögmál, sjálfum sér lögmál.
15 Þeir sýna, að krafa lögmálsins er rituð í hjörtum þeirra, með því að samviska þeirra ber þessu vitni og hugrenningar þeirra, sem ýmist ásaka þá eða afsaka.
16 Það verður á þeim degi, er Guð, samkvæmt fagnaðarerindi mínu, er ég fékk fyrir Jesú Krist, dæmir hið dulda hjá mönnunum.
17 En nú ert þú Gyðingur að nafni og styðst við lögmál og ert hreykinn af Guði.
18 Þú þekkir vilja hans og kannt að meta rétt það, sem máli skiptir, þar eð lögmálið fræðir þig.
19 Þú treystir sjálfum þér til að vera leiðtogi blindra, ljós þeirra sem eru í myrkri,
20 kennari fávísra, fræðari óvita, þar sem þú hefur þekkinguna og sannleikann skýrum stöfum í lögmálinu.
21 Þú sem þannig fræðir aðra, hví fræðir þú ekki sjálfan þig? Prédikar þú, að ekki skuli stela, og stelur þó?
22 Segir þú, að ekki skuli drýgja hór, og drýgir þó hór? Hefur þú andstyggð á skurðgoðum og rænir þó helgidóma?
23 Hrósar þú þér af lögmáli, og óvirðir þó Guð með því að brjóta lögmálið?
24 Svo er sem ritað er: "Nafn Guðs verður yðar vegna fyrir lasti meðal heiðingjanna."
25 Umskurn er gagnleg ef þú heldur lögmálið, en ef þú brýtur lögmálið, er umskurn þín orðin að engu.
26 Ef því óumskorinn maður fer eftir kröfum lögmálsins, mun hann þá ekki metinn sem umskorinn væri?
27 Og mun þá ekki sá, sem er óumskorinn og heldur lögmálið, dæma þig, sem þrátt fyrir bókstaf og umskurn brýtur lögmálið?
28 Ekki er sá Gyðingur, sem er það hið ytra, og ekki það umskurn, sem er það hið ytra á holdinu.
29 En sá er Gyðingur, sem er það hið innra, og umskurnin er umskurn hjartans í anda, en ekki í bókstaf. Lofstír hans er ekki af mönnum, heldur frá Guði.
by Icelandic Bible Society