Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrsta bók Móse 30

30 En er Rakel sá, að hún ól Jakob ekki börn, öfundaði hún systur sína og sagði við Jakob: "Láttu mig eignast börn, ella mun ég deyja."

Jakob reiddist þá við Rakel og sagði: "Er ég þá Guð? Það er hann sem hefir synjað þér lífsafkvæmis."

Þá sagði hún: "Þarna er Bíla ambátt mín. Gakk þú inn til hennar, að hún megi fæða á skaut mitt og afla mér afkvæmis."

Og hún gaf honum Bílu ambátt sína fyrir konu, og Jakob gekk inn til hennar.

Og Bíla varð þunguð og ól Jakob son.

Þá sagði Rakel: "Guð hefir rétt hluta minn og einnig bænheyrt mig og gefið mér son." Fyrir því nefndi hún hann Dan.

Og Bíla, ambátt Rakelar, varð þunguð í annað sinn og ól Jakob annan son.

Þá sagði Rakel: "Mikið stríð hefi ég þreytt við systur mína og unnið sigur." Og hún nefndi hann Naftalí.

Er Lea sá, að hún lét af að eiga börn, tók hún Silpu ambátt sína og gaf Jakob hana fyrir konu.

10 Og Silpa, ambátt Leu, ól Jakob son.

11 Þá sagði Lea: "Til heilla!" Og hún nefndi hann Gað.

12 Og Silpa, ambátt Leu, ól Jakob annan son.

13 Þá sagði Lea: "Sæl er ég, því að allar konur munu mig sæla segja." Og hún nefndi hann Asser.

14 Rúben gekk eitt sinn út um hveitiskurðartímann og fann ástarepli á akrinum og færði þau Leu móður sinni. Þá sagði Rakel við Leu: "Gef þú mér nokkuð af ástareplum sonar þíns."

15 En hún svaraði: "Er það ekki nóg, að þú tekur bónda minn frá mér, viltu nú einnig taka ástarepli sonar míns?" Og Rakel mælti: "Hann má þá sofa hjá þér í nótt fyrir ástarepli sonar þíns."

16 Er Jakob kom heim um kveldið af akrinum, gekk Lea út á móti honum og sagði: "Þú átt að ganga inn til mín, því að ég hefi keypt þig fyrir ástarepli sonar míns." Og hann svaf hjá henni þá nótt.

17 En Guð bænheyrði Leu, og hún varð þunguð og ól Jakob hinn fimmta son og sagði:

18 "Guð hefir launað mér það, að ég gaf bónda mínum ambátt mína." Og hún nefndi hann Íssakar.

19 Og Lea varð enn þunguð og ól Jakob hinn sjötta son.

20 Þá sagði Lea: "Guð hefir gefið mér góða gjöf. Nú mun bóndi minn búa við mig, því að ég hefi alið honum sex sonu." Og hún nefndi hann Sebúlon.

21 Eftir það ól hún dóttur og nefndi hana Dínu.

22 Þá minntist Guð Rakelar og bænheyrði hana og opnaði móðurlíf hennar.

23 Og hún varð þunguð og ól son og sagði: "Guð hefir numið burt smán mína."

24 Og hún nefndi hann Jósef og sagði: "Guð bæti við mig öðrum syni!"

25 Er Rakel hafði alið Jósef, sagði Jakob við Laban: "Leyf þú mér nú að fara, að ég megi halda heim til átthaga minna og ættlands míns.

26 Fá mér konur mínar og börn mín, sem ég hefi þjónað þér fyrir, að ég megi fara, því að þú veist, hvernig ég hefi þjónað þér."

27 Þá sagði Laban við hann: "Hafi ég fundið náð í augum þínum, þá vertu kyrr. Ég hefi tekið eftir því, að Drottinn hefir blessað mig fyrir þínar sakir."

28 Og hann mælti: "Set sjálfur upp kaup þitt við mig, og skal ég gjalda það."

29 Jakob sagði við hann: "Þú veist sjálfur, hvernig ég hefi þjónað þér og hvað fénaður þinn er orðinn hjá mér.

30 Því að lítið var það, sem þú áttir, áður en ég kom, en það hefir aukist margfaldlega, og Drottinn hefir blessað þig við hvert mitt fótmál. Og auk þess, hvenær á ég þá að veita forsjá húsi sjálfs mín?"

31 Og Laban mælti: "Hvað skal ég gefa þér?" En Jakob sagði: "Þú skalt ekkert gefa mér, en viljir þú gjöra þetta, sem ég nú segi, þá vil ég enn þá halda fé þínu til haga og gæta þess.

32 Ég ætla í dag að ganga innan um allt fé þitt og skilja úr því hverja flekkótta og spreklótta kind. Og hver svört kind meðal sauðanna og hið spreklótta og flekkótta meðal geitanna, það skal vera kaup mitt.

33 Og ráðvendni mín skal eftirleiðis bera mér vitni, er þú kemur að skoða kaup mitt: Allt sem ekki er flekkótt og spreklótt meðal minna geita og svart meðal minna sauða, skal teljast stolið."

34 Og Laban sagði: "Svo skal þá vera sem þú hefir sagt."

35 Á þeim degi skildi Laban frá alla rílóttu og spreklóttu hafrana, og allar flekkóttu og spreklóttu geiturnar _ allt það, sem hafði á sér einhvern hvítan díla, _ og allt hið svarta meðal sauðanna og fékk sonum sínum.

36 Og hann lét vera þriggja daga leið milli sín og Jakobs. En Jakob gætti þeirrar hjarðar Labans, sem eftir varð.

37 Jakob tók sér stafi af grænni ösp, möndluviði og hlyni og skóf á þá hvítar rákir með því að nekja hið hvíta á stöfunum.

38 Því næst lagði hann stafina, sem hann hafði birkt, í þrærnar, í vatnsrennurnar, sem féð kom að drekka úr, beint fyrir framan féð. En ærnar fengu, er þær komu að drekka.

39 Þannig fengu ærnar uppi yfir stöfunum, og ærnar áttu rílótt, flekkótt og spreklótt lömb.

40 Jakob skildi lömbin úr og lét féð horfa á hið rílótta og allt hið svarta í fé Labans. Þannig kom hann sér upp sérstökum fjárhópum og lét þá ekki saman við hjörð Labans.

41 Og um allan göngutíma vænu ánna lagði Jakob stafina í þrærnar fyrir framan féð, svo að þær skyldu fá uppi yfir stöfunum.

42 En er rýru ærnar gengu, lagði hann þá þar ekki. Þannig fékk Laban rýra féð, en Jakob hið væna.

43 Og maðurinn varð stórauðugur og eignaðist mikinn fénað, ambáttir og þræla, úlfalda og asna.

Markúsarguðspjall 1

Upphaf fagnaðarerindisins um Jesú Krist, Guðs son.

Svo er ritað hjá Jesaja spámanni: Sjá, ég sendi sendiboða minn á undan þér, er greiða mun veg þinn.

Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans.

Þannig kom Jóhannes skírari fram í óbyggðinni og prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda,

og menn streymdu til hans frá allri Júdeubyggð og allir Jerúsalembúar og létu skírast af honum í ánni Jórdan og játuðu syndir sínar.

En Jóhannes var í klæðum úr úlfaldahári, með leðurbelti um lendar sér og át engisprettur og villihunang.

Hann prédikaði svo: "Sá kemur eftir mig, sem mér er máttugri, og er ég ekki verður þess að krjúpa niður og leysa skóþveng hans.

Ég hef skírt yður með vatni, en hann mun skíra yður með heilögum anda."

Svo bar við á þeim dögum, að Jesús kom frá Nasaret í Galíleu og var skírður af Jóhannesi í Jórdan.

10 Um leið og hann sté upp úr vatninu, sá hann himnana ljúkast upp og andann stíga niður yfir sig eins og dúfu.

11 Og rödd kom af himnum: "Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun."

12 Þá knúði andinn hann út í óbyggðina,

13 og hann var í óbyggðinni fjörutíu daga, og Satan freistaði hans. Hann hafðist við meðal villidýra, og englar þjónuðu honum.

14 Þegar Jóhannes hafði verið tekinn höndum, kom Jesús til Galíleu og prédikaði fagnaðarerindi Guðs

15 og sagði: "Tíminn er fullnaður og Guðs ríki í nánd. Gjörið iðrun og trúið fagnaðarerindinu."

16 Jesús var á gangi með Galíleuvatni og sá Símon og Andrés, bróður Símonar, vera að kasta netum í vatnið, en þeir voru fiskimenn.

17 Jesús sagði við þá: "Komið og fylgið mér, og mun ég láta yður menn veiða."

18 Og þegar í stað létu þeir eftir netin og fylgdu honum.

19 Hann gekk skammt þaðan og sá Jakob Sebedeusson og Jóhannes bróður hans, og voru þeir einnig á báti að búa net.

20 Jesús kallaði þá, og þeir yfirgáfu Sebedeus föður sinn hjá daglaunamönnunum í bátnum og fylgdu honum.

21 Þeir komu til Kapernaum. Og hvíldardaginn gekk Jesús í samkunduna og kenndi.

22 Undruðust menn mjög kenningu hans, því að hann kenndi þeim eins og sá er vald hefur, og ekki eins og fræðimennirnir.

23 Þar var í samkundu þeirra maður haldinn óhreinum anda. Hann æpti:

24 "Hvað vilt þú oss, Jesús frá Nasaret? Ert þú kominn að tortíma oss? Ég veit, hver þú ert, hinn heilagi Guðs."

25 Jesús hastaði þá á hann og mælti: "Þegi þú, og far út af honum."

26 Þá teygði óhreini andinn manninn, rak upp hljóð mikið og fór út af honum.

27 Sló felmtri á alla, og hver spurði annan: "Hvað er þetta? Ný kenning með valdi! Hann skipar jafnvel óhreinum öndum og þeir hlýða honum."

28 Og orðstír hans barst þegar um alla Galíleu.

29 Úr samkundunni fóru þeir rakleitt í hús Símonar og Andrésar og með þeim Jakob og Jóhannes.

30 Tengdamóðir Símonar lá með sótthita, og sögðu þeir Jesú þegar frá henni.

31 Hann gekk þá að, tók í hönd henni og reisti hana á fætur. Sótthitinn fór úr henni, og hún gekk þeim fyrir beina.

32 Þegar kvöld var komið og sólin setst, færðu menn til hans alla þá, er sjúkir voru og haldnir illum öndum,

33 og allur bærinn var saman kominn við dyrnar.

34 Hann læknaði marga, er þjáðust af ýmsum sjúkdómum, og rak út marga illa anda, en illu öndunum bannaði hann að tala, því að þeir vissu hver hann var.

35 Og árla, löngu fyrir dögun, fór hann á fætur og gekk út, vék burt á óbyggðan stað og baðst þar fyrir.

36 Þeir Símon leituðu hann uppi,

37 og þegar þeir fundu hann, sögðu þeir við hann: "Allir eru að leita að þér."

38 Hann sagði við þá: "Vér skulum fara annað, í þorpin hér í grennd, svo að ég geti einnig prédikað þar, því að til þess er ég kominn."

39 Og hann fór og prédikaði í samkundum þeirra í allri Galíleu og rak út illa anda.

40 Maður nokkur líkþrár kom til hans, féll á kné og bað hann: "Ef þú vilt, getur þú hreinsað mig."

41 Og hann kenndi í brjósti um manninn, rétti út höndina, snart hann og mælti: "Ég vil, verð þú hreinn!"

42 Jafnskjótt hvarf af honum líkþráin, og hann varð hreinn.

43 Og Jesús lét hann fara, lagði ríkt á við hann

44 og sagði: "Gæt þess að segja engum neitt, en far þú, sýn þig prestinum og fórna fyrir hreinsun þína því, sem Móse bauð, þeim til vitnisburðar."

45 En maðurinn gekk burt og ræddi margt um þetta og víðfrægði mjög, svo að Jesús gat ekki framar komið opinberlega í neina borg, heldur hafðist við úti á óbyggðum stöðum. En menn komu til hans hvaðanæva.

Esterarbók 6

En þessa nótt gat konungur ekki sofið. Bauð hann þá að koma með Annálabókina, og var hún lesin fyrir konungi.

Þá fannst þar skrifað, hversu Mordekai hefði komið upp um þá Bigtan og Teres, tvo geldinga konungs, af þeim er geymdu dyranna, sem höfðu leitast við að leggja hönd á Ahasverus konung.

Þá sagði konungur: "Hverja sæmd og upphefð hefir Mordekai hlotið fyrir þetta?" Þá sögðu sveinar konungs, þeir er þjónuðu honum: "Hann hefir ekkert hlotið fyrir."

Og konungur sagði: "Hver er í forgarðinum?" Í sama bili hafði Haman komið inn í ytri forgarð konungshallarinnar til þess að tala um það við konung að láta festa Mordekai á gálga þann, er hann hafði reist handa honum.

Og sveinar konungs sögðu við hann: "Sjá, Haman stendur í forgarðinum." Konungur mælti: "Látið hann koma inn."

En er Haman var inn kominn, sagði konungur við hann: "Hvað á að gjöra við þann mann, er konungur vill heiður sýna?" Þá hugsaði Haman með sjálfum sér: "Hverjum mun konungur vilja heiður sýna öðrum en mér?"

Og Haman sagði við konung: "Ef konungur vill sýna einhverjum heiður,

þá skal sækja konunglegan skrúða, sem konungur hefir klæðst, og hest, sem konungur hefir riðið, og konungleg kóróna er sett á höfuð hans.

Og skrúðann og hestinn skal fá í hendur einum af höfðingjum konungs, tignarmönnunum, og færa þann mann, sem konungur vill sýna heiður, í skrúðann og láta hann ríða hestinum um borgartorgið og hrópa fyrir honum: Þannig er gjört við þann mann, er konungur vill heiður sýna."

10 Þá sagði konungur við Haman: "Sæk sem skjótast skrúðann og hestinn, svo sem þú hefir sagt, og gjör þannig við Mordekai Gyðing, sem situr hér í konungshliði. Lát ekkert niður falla af öllu því, er þú hefir sagt."

11 Þá sótti Haman skrúðann og hestinn, færði Mordekai í og lét hann ríða um borgartorgið og hrópaði fyrir honum: "Þannig er gjört við þann mann, er konungurinn vill heiður sýna."

12 Síðan sneri Mordekai aftur í konungshliðið. En Haman skundaði heim til sín, hryggur og með huldu höfði.

13 Og Haman sagði Seres konu sinni og öllum vinum sínum frá öllu því, er fyrir hann hafði komið. Þá sögðu vitringar hans við hann og Seres kona hans: "Ef Mordekai, sem þú ert tekinn að falla fyrir, er af ætt Gyðinga, þá megnar þú ekkert á móti honum, heldur munt þú gjörsamlega falla fyrir honum."

14 Meðan þeir voru enn við hann að tala, komu geldingar konungs, og fóru þeir í skyndi með Haman til veislunnar, er Ester hafði búið.

Bréf Páls til Rómverja 1

Páll heilsar yður, þjónn Jesú Krists, kallaður til postula, kjörinn til að boða fagnaðarerindi Guðs,

sem hann gaf áður fyrirheit um fyrir munn spámanna sinna í helgum ritningum,

fagnaðarerindið um son hans, Jesú Krist, Drottin vorn, sem að holdinu er fæddur af kyni Davíðs,

en að anda heilagleikans með krafti auglýstur að vera sonur Guðs fyrir upprisu frá dauðum.

Fyrir hann hef ég öðlast náð og postuladóm til að vekja hlýðni við trúna meðal allra heiðingjanna, vegna nafns hans.

Meðal þeirra eruð þér einnig, þér sem Jesús Kristur hefur kallað sér til eignar.

Ég heilsa öllum Guðs elskuðu í Róm, sem heilagir eru samkvæmt köllun. Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.

Fyrst þakka ég Guði mínum sakir Jesú Krists fyrir yður alla, af því að orð fer af trú yðar í öllum heiminum.

Guð, sem ég þjóna í anda mínum með fagnaðarerindinu um son hans, er mér vottur þess, hve óaflátanlega ég minnist yðar

10 í bænum mínum. Ég bið stöðugt um það, að mér mætti loks einhvern tíma auðnast, ef Guð vildi svo verða láta, að koma til yðar.

11 Því að ég þrái að sjá yður, til þess að ég fái veitt yður hlutdeild í andlegri náðargjöf, svo að þér styrkist,

12 eða réttara sagt: Svo að vér getum uppörvast saman fyrir hina sameiginlegu trú, yðar og mína.

13 Ég vil ekki, bræður, að yður sé ókunnugt um, að ég hef oftsinnis ásett mér að koma til yðar, en hef verið hindraður allt til þessa. Ég vildi fá einhvern ávöxt einnig á meðal yðar, eins og með öðrum heiðnum þjóðum.

14 Ég er í skuld bæði við Grikki og útlendinga, vitra og fávísa.

15 Svo er ég og fyrir mitt leyti fús til að boða fagnaðarerindið, einnig yður, sem eruð í Róm.

16 Ég fyrirverð mig ekki fyrir fagnaðarerindið. Það er kraftur Guðs til hjálpræðis hverjum þeim sem trúir, Gyðingum fyrst, en einnig Grikkjum.

17 Því að réttlæti Guðs opinberast í því fyrir trú til trúar, eins og ritað er: "Hinn réttláti mun lifa fyrir trú."

18 Reiði Guðs opinberast af himni yfir öllu guðleysi og rangsleitni þeirra manna, er kefja sannleikann með rangsleitni,

19 með því að það, er vitað verður um Guð, er augljóst á meðal þeirra. Guð hefur birt þeim það.

20 Því að hið ósýnilega eðli hans, bæði hans eilífi kraftur og guðdómleiki, er sýnilegt frá sköpun heimsins, með því að það verður skilið af verkum hans. Mennirnir eru því án afsökunar.

21 Þeir þekktu Guð, en hafa samt ekki vegsamað hann eins og Guð né þakkað honum, heldur hafa þeir gjörst hégómlegir í hugsunum sínum, og hið skynlausa hjarta þeirra hefur hjúpast myrkri.

22 Þeir þóttust vera vitrir, en urðu heimskingjar.

23 Þeir skiptu á vegsemd hins ódauðlega Guðs og myndum, sem líktust dauðlegum manni, fuglum, ferfætlingum og skriðkvikindum.

24 Þess vegna hefur Guð ofurselt þá fýsnum hjartna þeirra til saurlifnaðar, til þess að þeir svívirtu líkami sína hver með öðrum.

25 Þeir hafa skipt á sannleika Guðs og lyginni og göfgað og dýrkað hið skapaða í stað skaparans, hans sem er blessaður að eilífu. Amen.

26 Þess vegna hefur Guð ofurselt þá svívirðilegum girndum. Bæði hafa konur breytt eðlilegum mökum í óeðlileg,

27 og eins hafa líka karlar hætt eðlilegum mökum við konur og brunnið í losta hver til annars, karlmenn frömdu skömm með karlmönnum og tóku út á sjálfum sér makleg málagjöld villu sinnar.

28 Þar eð þeir hirtu ekki um að varðveita þekkinguna á Guði, ofurseldi Guð þá ósæmilegu hugarfari, svo að þeir gjörðu það sem ekki er tilhlýðilegt,

29 fylltir alls konar rangsleitni, vonsku, ágirnd, illsku, fullir öfundar, manndrápa, deilu, sviksemi, illmennsku. Þeir eru rógberar,

30 bakmálugir, guðshatarar, smánarar, hrokafullir, gortarar, hrekkvísir, foreldrum óhlýðnir,

31 óskynsamir, óáreiðanlegir, kærleikslausir, miskunnarlausir,

32 þeir eru menn, sem þekkja réttdæmi Guðs og vita að þeir er slíkt fremja eru dauðasekir. Samt fremja þeir þetta og gjöra að auki góðan róm að slíkri breytni hjá öðrum.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society