Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrsta bók Móse 27

27 Svo bar til, er Ísak var orðinn gamall og augu hans döpruðust, svo að hann gat ekki séð, að hann kallaði á Esaú, eldri son sinn, og mælti til hans: "Sonur minn!" Og hann svaraði honum: "Hér er ég."

Og hann sagði: "Sjá, ég er orðinn gamall og veit ekki, nær ég muni deyja.

Tak þú nú veiðigögn þín, örvamæli þinn og boga, og far þú á heiðar og veið mér villidýr.

Og tilreið mér ljúffengan rétt, sem mér geðjast að, og fær mér hann, að ég megi eta, svo að sál mín blessi þig, áður en ég dey."

En Rebekka heyrði, hvað Ísak talaði við Esaú son sinn. Og er Esaú var farinn út á heiðar til að veiða villidýr og hafa heim með sér,

mælti Rebekka við Jakob son sinn á þessa leið: "Sjá, ég heyrði föður þinn tala við Esaú bróður þinn og segja:

,Fær þú mér villibráð og tilreið mér ljúffengan rétt, að ég megi eta og blessa þig í augsýn Drottins, áður en ég dey.`

Og hlýð þú mér nú, sonur minn, og gjör sem ég segi þér.

Far þú til hjarðarinnar og fær mér tvö væn hafurkið úr henni, að ég megi tilreiða föður þínum ljúffengan rétt, sem honum geðjast að,

10 og skalt þú færa hann föður þínum, að hann megi eta, svo að hann blessi þig, áður en hann deyr."

11 En Jakob sagði við Rebekku móður sína: "Gáðu að, Esaú bróðir minn er loðinn, en ég er snöggur.

12 Vera má að faðir minn þreifi á mér og þyki sem ég hafi viljað dára sig. Mun ég þá leiða yfir mig bölvun, en ekki blessun."

13 En móðir hans sagði við hann: "Yfir mig komi sú bölvun, sonur minn. Hlýð þú mér aðeins. Farðu og sæktu mér kiðin."

14 Þá fór hann og sótti þau og færði móður sinni. Og móðir hans tilreiddi ljúffengan rétt, sem föður hans geðjaðist að.

15 Og Rebekka tók klæðnað góðan af Esaú, eldri syni sínum, sem hún hafði hjá sér í húsinu, og færði Jakob, yngri son sinn, í hann.

16 En kiðskinnin lét hún um hendur hans og um hálsinn, þar sem hann var hárlaus.

17 Og hún fékk Jakob syni sínum í hendur hinn ljúffenga rétt og brauðið, sem hún hafði gjört.

18 Þá gekk hann inn til föður síns og mælti: "Faðir minn!" Og hann svaraði: "Hér er ég. Hver ert þú, son minn?"

19 Og Jakob sagði við föður sinn: "Ég er Esaú, sonur þinn frumgetinn. Ég hefi gjört sem þú bauðst mér. Sestu nú upp og et af villibráð minni, svo að sál þín blessi mig."

20 Og Ísak sagði við son sinn: "Hvernig máttir þú svo skjótlega finna nokkuð, son minn?" Og hann mælti: "Drottinn, Guð þinn, lét það verða á vegi mínum."

21 Þá sagði Ísak við Jakob: "Kom þú samt nær, að ég megi þreifa á þér, son minn, hvort þú sannlega ert Esaú sonur minn eða ekki."

22 Jakob gekk þá að Ísak föður sínum, og hann þreifaði á honum og mælti: "Röddin er rödd Jakobs, en hendurnar eru hendur Esaú."

23 Og hann þekkti hann ekki, því að hendur hans voru loðnar eins og hendur Esaú bróður hans, og hann blessaði hann.

24 Og hann mælti: "Ert þú þá Esaú sonur minn?" Og hann svaraði: "Ég er hann."

25 Þá sagði hann: "Kom þú þá með það, að ég eti af villibráð sonar míns, svo að sál mín megi blessa þig." Og hann færði honum það og hann át, og hann bar honum vín og hann drakk.

26 Og Ísak faðir hans sagði við hann: "Kom þú nær og kyss þú mig, son minn!"

27 Og hann gekk að honum og kyssti hann. Kenndi hann þá ilm af klæðum hans og blessaði hann og mælti: Sjá, ilmurinn af syni mínum er sem ilmur af akri, sem Drottinn hefir blessað.

28 Guð gefi þér dögg af himni og feiti jarðar og gnægð korns og víns.

29 Þjóðir skulu þjóna þér og lýðir lúta þér. Þú skalt vera herra bræðra þinna, og synir móður þinnar skulu lúta þér. Bölvaður sé hver sá, sem bölvar þér, en blessaður sé hver sá, sem blessar þig!

30 Er Ísak hafði lokið blessuninni yfir Jakob og Jakob var nýgenginn út frá Ísak föður sínum, þá kom Esaú bróðir hans heim úr veiðiför sinni.

31 Og hann tilreiddi einnig ljúffengan rétt og bar föður sínum, og hann mælti við föður sinn: "Rístu upp, faðir minn, og et af villibráð sonar þíns, svo að sál þín blessi mig."

32 En Ísak faðir hans sagði við hann: "Hver ert þú?" Og hann mælti: "Ég er sonur þinn, þinn frumgetinn son Esaú."

33 Þá varð Ísak felmtsfullur harla mjög og mælti: "Hver var það þá, sem veiddi villidýr og færði mér, svo að ég át af því öllu, áður en þú komst, og blessaði hann? Blessaður mun hann og verða."

34 En er Esaú heyrði þessi orð föður síns, hljóðaði hann upp yfir sig hátt mjög og sáran og mælti við föður sinn: "Blessa þú mig líka, faðir minn!"

35 Og hann mælti: "Bróðir þinn kom með vélráðum og tók blessun þína."

36 Þá mælti hann: "Vissulega er hann réttnefndur Jakob, því að tvisvar sinnum hefir hann nú leikið á mig. Frumburðarrétt minn hefir hann tekið, og nú hefir hann einnig tekið blessun mína." Því næst mælti hann: "Hefir þú þá enga blessun geymt mér?"

37 Og Ísak svaraði og sagði við Esaú: "Sjá, ég hefi skipað hann herra yfir þig, og ég hefi gefið honum alla bræður sína að þrælum, og ég hefi séð honum fyrir korni og víni. Hvað get ég þá gjört fyrir þig, sonur minn?"

38 Og Esaú mælti við föður sinn: "Hefir þú ekki nema þessa einu blessun til, faðir minn? Blessa mig líka, faðir minn!" Og Esaú tók að gráta hástöfum.

39 Þá svaraði Ísak faðir hans og sagði við hann: Fjarri jarðarinnar feiti skal bústaður þinn vera og án daggar af himni ofan.

40 En af sverði þínu muntu lifa, og bróður þínum muntu þjóna. En svo mun fara, er þú neytir allrar orku þinnar, að þú munt brjóta sundur ok hans af hálsi þínum.

41 Esaú lagði hatur á Jakob sakir þeirrar blessunar, sem faðir hans hafði gefið honum. Og Esaú hugsaði með sjálfum sér: "Þess mun eigi langt að bíða, að menn munu syrgja föður minn látinn, og skal ég þá drepa Jakob bróður minn."

42 Og Rebekku bárust orð Esaú, eldri sonar hennar. Þá sendi hún og lét kalla Jakob, yngri son sinn, og mælti við hann: "Sjá, Esaú bróðir þinn hyggur á hefndir við þig og ætlar að drepa þig.

43 Og far þú nú að ráðum mínum, sonur minn! Tak þig upp og flý til Labans, bróður míns í Harran,

44 og dvel hjá honum nokkurn tíma, þangað til heift bróður þíns sefast,

45 þangað til bróður þínum er runnin reiðin við þig og hann hefir gleymt því, sem þú hefir honum í móti gjört. Þá mun ég senda eftir þér og láta sækja þig þangað. Hví skyldi ég missa ykkur báða á einum degi?"

46 Rebekka mælti við Ísak: "Ég er orðin leið á lífinu vegna Hets dætra. Ef Jakob tæki sér konu slíka sem þessar eru, meðal Hets dætra, meðal hérlendra kvenna, hví skyldi ég þá lengur lifa?"

Matteusarguðspjall 26

26 Þegar Jesús hafði lokið öllum þessum orðum, sagði hann við lærisveina sína:

"Þér vitið, að eftir tvo daga eru páskar. Þá verður Mannssonurinn framseldur til krossfestingar."

Æðstu prestarnir og öldungar lýðsins söfnuðust nú saman í höll æðsta prestsins, er Kaífas hét,

og réðu með sér að handsama Jesú með svikum og taka hann af lífi.

En þeir sögðu: "Ekki á hátíðinni, annars verður uppþot með lýðnum."

En Jesús var í Betaníu, í húsi Símonar líkþráa.

Kom þá til hans kona og hafði alabastursbuðk með dýrum smyrslum og hellti yfir höfuð honum, þar sem hann sat að borði.

Við þessa sjón urðu lærisveinarnir gramir og sögðu: "Til hvers er þessi sóun?

Þetta hefði mátt selja dýru verði og gefa fátækum."

10 Jesús varð þess vís og sagði við þá: "Hvað eruð þér að angra konuna? Gott verk gjörði hún mér.

11 Fátæka hafið þér jafnan hjá yður, en mig hafið þér ekki ávallt.

12 Þegar hún hellti þessum smyrslum yfir líkama minn, var hún að búa mig til greftrunar.

13 Sannlega segi ég yður: Hvar sem fagnaðarerindi þetta verður flutt, um heim allan, mun þess og getið verða, sem hún gjörði, til minningar um hana."

14 Þá fór einn þeirra tólf, Júdas Ískaríot að nafni, til æðstu prestanna

15 og sagði: "Hvað viljið þér gefa mér fyrir að framselja yður Jesú?" En þeir greiddu honum þrjátíu silfurpeninga.

16 Upp frá þessu leitaði hann færis að framselja hann.

17 Á fyrsta degi ósýrðu brauðanna komu lærisveinarnir til Jesú og sögðu: "Hvar vilt þú, að vér búum þér páskamáltíðina?"

18 Hann mælti: "Farið til ákveðins manns í borginni, og segið við hann: ,Meistarinn segir: Minn tími er í nánd, hjá þér vil ég halda páska með lærisveinum mínum."`

19 Lærisveinarnir gjörðu sem Jesús bauð þeim og bjuggu til páskamáltíðar.

20 Um kvöldið sat hann til borðs með þeim tólf.

21 Og er þeir mötuðust, sagði hann: "Sannlega segi ég yður: Einn af yður mun svíkja mig."

22 Þeir urðu mjög hryggir og sögðu við hann, einn af öðrum: "Ekki er það ég, herra?"

23 Hann svaraði þeim: "Sá sem dýfði hendi í fatið með mér, mun svíkja mig.

24 Mannssonurinn fer að sönnu héðan, svo sem um hann er ritað, en vei þeim manni, sem því veldur, að Mannssonurinn verður framseldur. Betra væri þeim manni að hafa aldrei fæðst."

25 En Júdas, sem sveik hann, sagði: "Rabbí, ekki er það ég?" Jesús svaraði: "Þú sagðir það."

26 Þá er þeir mötuðust, tók Jesús brauð, þakkaði Guði, braut það og gaf lærisveinunum og sagði: "Takið og etið, þetta er líkami minn."

27 Og hann tók kaleik, gjörði þakkir, gaf þeim og sagði: "Drekkið allir hér af.

28 Þetta er blóð mitt, blóð sáttmálans, úthellt fyrir marga til fyrirgefningar synda.

29 Ég segi yður: Héðan í frá mun ég eigi drekka af þessum vínviðar ávexti til þess dags, er ég drekk hann nýjan með yður í ríki föður míns."

30 Þegar þeir höfðu sungið lofsönginn, fóru þeir til Olíufjallsins.

31 Þá segir Jesús við þá: "Á þessari nóttu munuð þér allir hneykslast á mér, því að ritað er: ,Ég mun slá hirðinn, og sauðir hjarðarinnar munu tvístrast.`

32 En eftir að ég er upp risinn, mun ég fara á undan yður til Galíleu."

33 Þá segir Pétur: "Þótt allir hneykslist á þér, skal ég aldrei hneykslast."

34 Jesús sagði við hann: "Sannlega segi ég þér: Á þessari nóttu, áður en hani galar, muntu þrisvar afneita mér."

35 Pétur svarar: "Þótt ég ætti að deyja með þér, þá mun ég aldrei afneita þér." Eins töluðu allir lærisveinarnir.

36 Þá kemur Jesús með þeim til staðar, er heitir Getsemane, og hann segir við lærisveinana: "Setjist hér, meðan ég fer og biðst fyrir þarna."

37 Hann tók með sér þá Pétur og báða sonu Sebedeusar. Og nú setti að honum hryggð og angist.

38 Hann segir við þá: "Sál mín er hrygg allt til dauða. Bíðið hér og vakið með mér."

39 Þá gekk hann lítið eitt áfram, féll fram á ásjónu sína, baðst fyrir og sagði: "Faðir minn, ef verða má, þá fari þessi kaleikur fram hjá mér. Þó ekki sem ég vil, heldur sem þú vilt."

40 Hann kemur aftur til lærisveinanna og finnur þá sofandi. Þá sagði hann við Pétur: "Þér gátuð þá ekki vakað með mér eina stund?

41 Vakið og biðjið, að þér fallið ekki í freistni. Andinn er reiðubúinn, en holdið veikt."

42 Aftur vék hann brott annað sinn og bað: "Faðir minn, ef eigi verður hjá því komist, að ég drekki þennan kaleik, þá verði þinn vilji."

43 Þegar hann kom aftur, fann hann þá enn sofandi, því drungi var á augum þeirra.

44 Þá fór hann enn frá þeim og baðst fyrir þriðja sinn með sömu orðum og fyrr.

45 Og hann kom til lærisveinanna og sagði við þá: "Sofið þér enn og hvílist? Sjá, stundin er komin og Mannssonurinn er framseldur í hendur syndugra manna.

46 Standið upp, förum! Í nánd er sá, er mig svíkur."

47 Meðan hann var enn að tala, kom Júdas, einn þeirra tólf, og með honum mikill flokkur frá æðstu prestunum og öldungum lýðsins, og höfðu þeir sverð og barefli.

48 Svikarinn hafði sagt þeim þetta til marks: "Sá sem ég kyssi, hann er það. Takið hann höndum."

49 Hann gekk beint að Jesú og sagði: "Heill, rabbí!" og kyssti hann.

50 Jesús sagði við hann: "Vinur, hví ertu hér?" Þá komu hinir, lögðu hendur á Jesú og tóku hann.

51 Einn þeirra, sem með Jesú voru, greip til sverðs og brá því, hjó til þjóns æðsta prestsins og sneið af honum eyrað.

52 Jesús sagði við hann: "Slíðra sverð þitt! Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla.

53 Hyggur þú, að ég geti ekki beðið föður minn að senda mér nú meira en tólf sveitir engla?

54 Hvernig ættu þá ritningarnar að rætast, sem segja, að þetta eigi svo að verða?"

55 Á þeirri stundu sagði Jesús við flokkinn: "Eruð þér að fara að mér með sverðum og bareflum eins og gegn ræningja til að handtaka mig? Daglega sat ég í helgidóminum og kenndi, og þér tókuð mig ekki höndum.

56 En allt verður þetta til þess, að ritningar spámannanna rætist." Þá yfirgáfu hann lærisveinarnir allir og flýðu.

57 Þeir sem tóku Jesú höndum, færðu hann til Kaífasar, æðsta prests, en þar voru saman komnir fræðimennirnir og öldungarnir.

58 Pétur fylgdi honum álengdar, allt að garði æðsta prestsins. Þar gekk hann inn og settist hjá þjónunum til að sjá, hver yrði endir á.

59 Æðstu prestarnir og allt ráðið leituðu ljúgvitnis gegn Jesú til að geta líflátið hann,

60 en fundu ekkert, þótt margir ljúgvottar kæmu. Loks komu tveir

61 og sögðu: "Þessi maður sagði: ,Ég get brotið niður musteri Guðs og reist það aftur á þrem dögum."`

62 Þá stóð æðsti presturinn upp og sagði: "Svarar þú því engu, sem þessir vitna gegn þér?"

63 En Jesús þagði. Þá sagði æðsti presturinn við hann: "Ég særi þig við lifandi Guð, segðu oss: Ertu Kristur, sonur Guðs?"

64 Jesús svarar honum: "Þú sagðir það. En ég segi yður: Upp frá þessu munuð þér sjá Mannssoninn sitja til hægri handar máttarins og koma á skýjum himins."

65 Þá reif æðsti presturinn klæði sín og sagði: "Hann guðlastar, hvað þurfum vér nú framar votta við? Þér heyrðuð guðlastið.

66 Hvað líst yður?" Þeir svöruðu: "Hann er dauðasekur."

67 Og þeir hræktu í andlit honum og slógu hann með hnefunum, en aðrir börðu hann með stöfum

68 og sögðu: "Spáðu nú, Kristur, hver var að slá þig?"

69 En Pétur sat úti í garðinum. Þar kom að honum þerna ein og sagði: "Þú varst líka með Jesú frá Galíleu."

70 Því neitaði hann svo allir heyrðu og sagði: "Ekki veit ég, hvað þú ert að fara."

71 Hann gekk út í fordyrið. Þar sá hann önnur þerna og sagði við þá, sem þar voru: "Þessi var með Jesú frá Nasaret."

72 En hann neitaði sem áður og sór þess eið, að hann þekkti ekki þann mann.

73 Litlu síðar komu þeir, er þar stóðu, og sögðu við Pétur: "Víst ertu líka einn af þeim, enda segir málfæri þitt til þín."

74 En hann sór og sárt við lagði, að hann þekkti ekki manninn. Um leið gól hani.

75 Og Pétur minntist þess, er Jesús hafði mælt: "Áður en hani galar, muntu þrisvar afneita mér." Og hann gekk út og grét beisklega.

Esterarbók 3

Eftir þessa atburði veitti Ahasverus konungur Haman Hamdatasyni Agagíta mikinn frama og hóf hann til vegs og setti stól hans ofar öllum stólum höfðingja þeirra, er með honum voru.

Og allir þjónar konungs, þeir er voru í hliði konungs, féllu á kné og lutu Haman, því að svo hafði konungur um hann boðið. En Mordekai féll hvorki á kné né laut honum.

Þá sögðu þjónar konungs, þeir er voru í konungshliði, við Mordekai: "Hví brýtur þú boð konungs?"

Höfðu þeir daglega orð á þessu við hann, en hann hlýddi þeim ekki. Sögðu þeir þá Haman frá því til þess að sjá, hvort orð Mordekai yrðu tekin gild, því að hann hafði sagt þeim, að hann væri Gyðingur.

Og er Haman sá, að Mordekai féll eigi á kné né laut honum, þá fylltist Haman reiði.

En honum þótti einskis vert að leggja hendur á Mordekai einan, því að menn höfðu sagt honum frá, hverrar þjóðar Mordekai var, og leitaðist Haman því við að gjöreyða öllum Gyðingum, sem voru í öllu ríki Ahasverusar, samlöndum Mordekai.

Í fyrsta mánuðinum _ það er í mánuðinum nísan _ á tólfta ríkisári Ahasverusar konungs var varpað púr, það er hlutkesti, í viðurvist Hamans, frá einum degi til annars og frá einum mánuði til annars, og féll hlutkestið á þrettánda dag hins tólfta mánaðar _ það er mánaðarins adar.

Og Haman sagði við Ahasverus konung: "Ein er sú þjóð, sem lifir dreifð og fráskilin meðal þjóðanna í öllum skattlöndum ríkis þíns. Og lög þeirra eru frábrugðin lögum allra annarra þjóða, og lög konungs halda þeir ekki, og hlýðir eigi að konungur láti þá afskiptalausa.

Ef konungi þóknast svo, þá verði skriflega fyrirskipað að afmá þá. En tíu þúsund talentur silfurs skal ég vega í hendur fjárgæslumönnunum, svo að þeir flytji það í féhirslur konungs."

10 Þá dró konungur innsiglishring sinn af hendi sér og fékk hann Haman Hamdatasyni Agagíta, fjandmanni Gyðinga.

11 Síðan sagði konungur við Haman: "Silfrið er þér gefið, og með þjóðina mátt þú fara svo sem þér vel líkar."

12 Þá var skrifurum konungs stefnt saman, þrettánda dag hins fyrsta mánaðar, og var nú skrifað með öllu svo sem Haman mælti fyrir til jarla konungs og til landstjóranna í öllum skattlöndunum og til höfðingja allra þjóðanna, í hvert skattland með skrift þess lands og til hverrar þjóðar á hennar tungu. Var þetta skrifað í nafni Ahasverusar konungs og innsiglað með innsiglishring konungs.

13 Og bréfin voru send með hraðboðum í öll skattlönd konungs, þess efnis, að eyða skyldi, deyða og tortíma öllum Gyðingum, bæði ungum og gömlum, börnum og konum, á einum degi, þrettánda dag hins tólfta mánaðar _ það er mánaðarins adar _ og ræna fjármunum þeirra.

14 Eftirrit af bréfinu skyldi gefið út sem lög í hverju skattlandi, til þess að gjöra þetta kunnugt öllum þjóðunum, svo að þær gætu verið viðbúnar þennan dag.

15 Hraðboðarnir fóru af stað í skyndi að boði konungs, þegar er lögin voru útgefin í borginni Súsa. Og konungur og Haman settust að drykkju, en felmt sló á bæinn Súsa.

Postulasagan 26

26 En Agrippa sagði við Pál: "Nú er þér leyft að tala þínu máli." Páll rétti þá út höndina og bar fram vörn sína:

"Lánsamur þykist ég, Agrippa konungur, að eiga í dag í þinni áheyrn að verja mig gegn öllu því, sem Gyðingar saka mig um,

því heldur sem þú þekkir alla siðu Gyðinga og ágreiningsmál. Því bið ég þig að hlýða þolinmóður á mig.

Allir Gyðingar þekkja líf mitt frá upphafi, hvernig ég hef lifað með þjóð minni, fyrst í æsku og síðan í Jerúsalem.

Það vita þeir um mig, vilji þeir unna mér sannmælis, að ég var farísei frá fyrstu tíð, fylgdi strangasta flokki trúarbragða vorra.

Og hér stend ég nú lögsóttur vegna vonarinnar um fyrirheitið, sem Guð gaf feðrum vorum

og vorar tólf kynkvíslir vona að öðlast með því að dýrka Guð án afláts nótt sem dag. Fyrir þessa von er ég nú ákærður, konungur, og það af Gyðingum.

Hvers vegna teljið þér það ótrúlegt, að Guð veki upp dauða?

Sjálfur taldi ég mér skylt að vinna af öllu megni gegn nafni Jesú frá Nasaret.

10 Það gjörði ég og í Jerúsalem, hneppti marga hinna heilögu í fangelsi með valdi frá æðstu prestunum og galt því jákvæði, að þeir væru teknir af lífi.

11 Og í öllum samkundunum reyndi ég þrásinnis með pyndingum að neyða þá til að afneita trú sinni. Svo freklega æddi ég gegn þeim, að ég fór til borga erlendis að ofsækja þá.

12 Þá er ég var á leið til Damaskus slíkra erinda með vald og umboð frá æðstu prestunum,

13 sá ég, konungur, á veginum um miðjan dag ljós af himni sólu bjartara leiftra um mig og þá, sem mér voru samferða.

14 Vér féllum allir til jarðar, og ég heyrði rödd, er sagði við mig á hebresku: ,Sál, Sál, hví ofsækir þú mig? Erfitt verður þér að spyrna móti broddunum.`

15 En ég sagði: ,Hver ert þú, herra?` Og Drottinn sagði: ,Ég er Jesús, sem þú ofsækir.

16 Rís nú upp og statt á fætur þína. Til þess birtist ég þér, að ég vel þig til þess að vera þjónn minn og vitni þess, að þú hefur séð mig bæði nú og síðar, er ég mun birtast þér.

17 Ég mun frelsa þig frá lýðnum og frá heiðingjunum, og til þeirra sendi ég þig

18 að opna augu þeirra og snúa þeim frá myrkri til ljóss, frá Satans valdi til Guðs, svo að þeir öðlist fyrir trú á mig fyrirgefningu syndanna og arf með þeim, sem helgaðir eru.`

19 Fyrir því gjörðist ég, Agrippa konungur, eigi óhlýðinn hinni himnesku vitrun,

20 heldur boðaði ég fyrst þeim í Damaskus og í Jerúsalem, síðan um alla Júdeubyggð og heiðingjunum að iðrast og snúa sér til Guðs og vinna verk samboðin iðruninni.

21 Sakir þessa gripu Gyðingar mig í helgidóminum og reyndu að ráða mér bana.

22 En Guð hefur hjálpað mér, og því stend ég allt til þessa dags og vitna bæði fyrir háum og lágum. Mæli ég ekki annað en það, sem bæði spámennirnir og Móse hafa sagt að verða mundi,

23 að Kristur ætti að líða og fyrstur rísa upp frá dauðum og boða bæði lýðnum og heiðingjunum ljósið."

24 Þegar Páll var hér kominn í vörn sinni, segir Festus hárri raustu: "Óður ert þú, Páll. Þitt mikla bókvit gjörir þig óðan."

25 Páll svaraði: "Ekki er ég óður, göfugi Festus, heldur mæli ég sannleiks orð af fullu viti.

26 Konungur kann skil á þessu, og við hann tala ég djarflega. Eigi ætla ég, að honum hafi dulist neitt af þessu, enda hefur það ekki gjörst í neinum afkima.

27 Trúir þú, Agrippa konungur, spámönnunum? Ég veit, að þú gjörir það."

28 Þá sagði Agrippa við Pál: "Þú þykist ekki vera lengi að gjöra mig kristinn."

29 En Páll sagði: "Þess bið ég Guð, hvort sem lengur dregst eða skemur, að ekki einungis þú, heldur og allir, sem til mín heyra í dag, verði slíkir sem ég er, að frátöldum fjötrum mínum."

30 Þá stóð konungur upp og landstjórinn, svo og Berníke og þeir, er þar sátu með þeim.

31 Þegar þau voru farin, sögðu þau sín á milli: "Þessi maður fremur ekkert, sem varðar dauða eða fangelsi."

32 En Agrippa sagði við Festus: "Þennan mann hefði mátt láta lausan, ef hann hefði ekki skotið máli sínu til keisarans."

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society