M’Cheyne Bible Reading Plan
26 Hallæri varð í landinu, annað hallæri en hið fyrra, sem var á dögum Abrahams. Fór þá Ísak til Abímeleks Filistakonungs í Gerar.
2 Og Drottinn birtist honum og mælti: "Far þú ekki til Egyptalands. Ver þú kyrr í því landi, sem ég segi þér.
3 Dvel þú um hríð í þessu landi, og ég mun vera með þér og blessa þig, því að þér og niðjum þínum mun ég gefa öll þessi lönd, og ég mun halda þann eið, sem ég sór Abraham, föður þínum.
4 Og ég mun margfalda niðja þína sem stjörnur himinsins og gefa niðjum þínum öll þessi lönd, og af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta,
5 af því að Abraham hlýddi minni röddu og varðveitti boðorð mín, skipanir mínar, ákvæði og lög."
6 Og Ísak staðnæmdist í Gerar.
7 Og er menn þar spurðu um konu hans, sagði hann: "Hún er systir mín," því að hann þorði ekki að segja: "Hún er kona mín." "Ella kynnu," hugsaði hann, "menn þar að myrða mig vegna Rebekku, af því að hún er fríð sýnum."
8 Og svo bar við, er hann hafði verið þar um hríð, að Abímelek Filistakonungur leit út um gluggann og sá, að Ísak lét vel að Rebekku konu sinni.
9 Þá kallaði Abímelek á Ísak og mælti: "Sjá, vissulega er hún kona þín. Og hvernig gast þú sagt: ,Hún er systir mín`?" Og Ísak sagði við hann: "Ég hugsaði, að ella mundi ég láta lífið fyrir hennar sakir."
10 Og Abímelek mælti: "Hví hefir þú gjört oss þetta? Hæglega gat það viljað til, að einhver af lýðnum hefði lagst með konu þinni, og hefðir þú þá leitt yfir oss syndasekt."
11 Síðan bauð Abímelek öllum landslýðnum og mælti: "Hver sem snertir þennan mann og konu hans, skal vissulega deyja."
12 Og Ísak sáði í þessu landi og uppskar hundraðfalt á því ári, því að Drottinn blessaði hann.
13 Og maðurinn efldist og auðgaðist meir og meir, uns hann var orðinn stórauðugur.
14 Og hann átti sauðahjarðir og nautahjarðir og margt þjónustufólk, svo að Filistar öfunduðu hann.
15 Alla þá brunna, sem þjónar föður Ísaks höfðu grafið á dögum Abrahams, föður hans, byrgðu Filistar og fylltu með mold.
16 Og Abímelek sagði við Ísak: "Far þú burt frá oss, því að þú ert orðinn miklu voldugri en vér."
17 Þá fór Ísak þaðan og tók sér bólfestu í Gerardal og bjó þar.
18 Og Ísak lét aftur grafa upp brunnana, sem þeir höfðu grafið á dögum Abrahams föður hans og Filistar höfðu aftur byrgt eftir dauða Abrahams, og gaf þeim hin sömu heiti sem faðir hans hafði gefið þeim.
19 Þrælar Ísaks grófu í dalnum og fundu þar brunn lifandi vatns.
20 En fjárhirðar í Gerar deildu við fjárhirða Ísaks og sögðu: "Vér eigum vatnið." Og hann nefndi brunninn Esek, af því að þeir höfðu þráttað við hann.
21 Þá grófu þeir annan brunn, en deildu einnig um hann, og hann nefndi hann Sitna.
22 Eftir það fór hann þaðan og gróf enn brunn. En um hann deildu þeir ekki, og hann nefndi hann Rehóbót og sagði: "Nú hefir Drottinn rýmkað um oss, svo að vér megum vaxa í landinu."
23 Og þaðan fór hann upp til Beerseba.
24 Þá hina sömu nótt birtist Drottinn honum og mælti: "Ég er Guð Abrahams, föður þíns. Óttast þú eigi, því að ég er með þér. Og ég mun blessa þig og margfalda afkvæmi þitt fyrir sakir Abrahams, þjóns míns."
25 Og hann reisti þar altari og ákallaði nafn Drottins og setti þar tjald sitt, og þrælar Ísaks grófu þar brunn.
26 Þá kom Abímelek til hans frá Gerar og Akúsat, vinur hans, og Píkól, hershöfðingi hans.
27 Þá sagði Ísak við þá: "Hví komið þér til mín, þar sem þér þó hatið mig og hafið rekið mig burt frá yður?"
28 En þeir svöruðu: "Vér höfum berlega séð, að Drottinn er með þér. Fyrir því sögðum vér: ,Eiður sé milli vor, milli vor og þín,` og vér viljum gjöra við þig sáttmála:
29 Þú skalt oss ekki mein gjöra, svo sem vér höfum eigi snortið þig og svo sem vér höfum eigi gjört þér nema gott og látið þig fara í friði, því að þú ert nú blessaður af Drottni."
30 Eftir það gjörði hann þeim veislu, og þeir átu og drukku.
31 Og árla morguninn eftir unnu þeir hver öðrum eiða. Og Ísak lét þá í burt fara, og þeir fóru frá honum í friði.
32 Þann sama dag bar svo við, að þrælar Ísaks komu og sögðu honum frá brunninum, sem þeir höfðu grafið, og mæltu við hann: "Vér höfum fundið vatn."
33 Og hann nefndi hann Síba. Fyrir því heitir borgin Beerseba allt til þessa dags.
34 Er Esaú var fertugur að aldri, gekk hann að eiga Júdít, dóttur Hetítans Beerí, og Basmat, dóttur Hetítans Elons.
35 Og var þeim Ísak og Rebekku sár skapraun að þeim.
25 Þá er líkt um himnaríki og tíu meyjar, sem fóru til móts við brúðgumann með lampa sína.
2 Fimm þeirra voru fávísar, en fimm hyggnar.
3 Þær fávísu tóku lampa sína, en höfðu ekki olíu með sér,
4 en hinar hyggnu tóku olíu með á könnum ásamt lömpum sínum.
5 Nú dvaldist brúðgumanum, og urðu þær allar syfjaðar og sofnuðu.
6 Um miðnætti kvað við hróp: ,Sjá, brúðguminn kemur, farið til móts við hann.`
7 Þá vöknuðu meyjarnar allar og tóku til lampa sína.
8 En þær fávísu sögðu við þær hyggnu: ,Gefið oss af olíu yðar, það er að slokkna á lömpum vorum.`
9 Þær hyggnu svöruðu: ,Nei, hún nægir aldrei handa öllum. Farið heldur til kaupmanna og kaupið handa yður.`
10 Meðan þær voru að kaupa, kom brúðguminn, og þær sem viðbúnar voru, gengu með honum inn til brúðkaupsins, og dyrum var lokað.
11 Seinna komu hinar meyjarnar og sögðu: ,Herra, herra, ljúk upp fyrir oss.`
12 En hann svaraði: ,Sannlega segi ég yður, ég þekki yður ekki.`
13 Vakið því, þér vitið ekki daginn né stundina.
14 Svo er um himnaríki sem mann, er ætlaði úr landi. Hann kallaði þjóna sína og fól þeim eigur sínar.
15 Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi.
16 Sá sem fékk fimm talentur, fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm.
17 Eins gjörði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær.
18 En sá sem fékk eina, fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það.
19 Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gjöra skil.
20 Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: ,Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm.`
21 Húsbóndi hans sagði við hann: ,Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.`
22 Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: ,Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær.`
23 Og húsbóndi hans sagði við hann: ,Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.`
24 Loks kom sá er fékk eina talentu, og sagði: ,Herra, ég vissi, að þú ert maður harður, sem uppsker þar, sem þú sáðir ekki, og safnar þar, sem þú stráðir ekki.
25 Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt.`
26 Og húsbóndi hans sagði við hann: ,Illi og lati þjónn, þú vissir, að ég uppsker þar, sem ég sáði ekki, og safna þar, sem ég stráði ekki.
27 Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum, þegar ég kom heim.
28 Takið af honum talentuna, og fáið þeim, sem hefur tíu talenturnar.
29 Því að hverjum sem hefur, mun gefið verða, og hann mun hafa gnægð, en frá þeim, sem eigi hefur, mun tekið verða jafnvel það, sem hann hefur.
30 Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.`
31 Þegar Mannssonurinn kemur í dýrð sinni og allir englar með honum, þá mun hann sitja í dýrðarhásæti sínu.
32 Allar þjóðir munu safnast frammi fyrir honum, og hann mun skilja hvern frá öðrum, eins og hirðir skilur sauði frá höfrum.
33 Sauðunum skipar hann sér til hægri handar, en höfrunum til vinstri.
34 Og þá mun konungurinn segja við þá til hægri: ,Komið þér, hinir blessuðu föður míns, og takið að erfð ríkið, sem yður var búið frá grundvöllun heims.
35 Því hungraður var ég, og þér gáfuð mér að eta, þyrstur var ég, og þér gáfuð mér að drekka, gestur var ég, og þér hýstuð mig,
36 nakinn og þér klædduð mig, sjúkur og þér vitjuðuð mín, í fangelsi var ég, og þér komuð til mín.`
37 Þá munu þeir réttlátu segja: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka?
38 Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig?
39 Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín?`
40 Konungurinn mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér.`
41 Síðan mun hann segja við þá til vinstri handar: ,Farið frá mér, bölvaðir, í þann eilífa eld, sem búinn er djöflinum og árum hans.
42 Því hungraður var ég, en þér gáfuð mér ekki að eta, þyrstur var ég, en þér gáfuð mér ekki að drekka,
43 gestur var ég, en þér hýstuð mig ekki, nakinn, en þér klædduð mig ekki, ég var sjúkur og í fangelsi, en ekki vitjuðuð þér mín.`
44 Þá munu þeir svara: ,Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan eða þyrstan, gestkominn eða nakinn, sjúkan eða í fangelsi, og hjálpuðum þér ekki?`
45 Hann mun þá svara þeim: ,Sannlega segi ég yður: Það allt sem þér gjörðuð ekki einum hinna minnstu bræðra minna, það hafið þér ekki heldur gjört mér.`
46 Og þeir munu fara til eilífrar refsingar, en hinir réttlátu til eilífs lífs."
2 Eftir þessa atburði, þá er Ahasverusi konungi var runnin reiðin, minntist hann Vastí og þess, er hún hafði gjört, svo og þess, hver dómur hafði yfir hana gengið.
2 Þá sögðu menn konungs, þeir er honum þjónuðu: "Leiti menn að ungum, fríðum meyjum handa konunginum,
3 og konungur setji til menn um öll skattlönd ríkis síns, er safni saman öllum ungum, fríðum meyjum til borgarinnar Súsa, í kvennabúrið, undir umsjá Hegaí, geldings konungs, þess er geymir kvennanna, svo að hann annist um hreinsunarundirbúning þeirra.
4 Og sú stúlka, sem þóknast konungi, verði drottning í stað Vastí." Þetta líkaði konungi vel, og hann gjörði svo.
5 En í borginni Súsa var Gyðingur nokkur, að nafni Mordekai Jaírsson, Símeísonar, Kíssonar, Benjamíníti,
6 er fluttur hafði verið frá Jerúsalem með þeim hernumdu, er fluttir voru burt með Jekonja Júdakonungi, þeim er Nebúkadnesar Babel-konungur flutti burt.
7 Og hann var fósturfaðir Hadassa, það er Esterar, dóttur föðurbróður hans, því að hún var föður- og móðurlaus. Og stúlkan var fagurvaxin og fríð sýnum, og er faðir hennar og móðir önduðust, þá hafði Mordekai tekið hana sér í dóttur stað.
8 Er boð konungs og tilskipun hans varð kunn og safnað var saman mörgum stúlkum til borgarinnar Súsa undir umsjá Hegaí, þá var og Ester tekin til konungshallarinnar, undir umsjá Hegaí kvennavarðar.
9 Og stúlkan geðjaðist honum og fann náð fyrir augum hans. Fyrir því flýtti hann sér að fá henni það, er hún þurfti til hreinsunarundirbúnings síns, og þann mat, er henni bar, svo og að fá henni þær sjö þernur úr konungshöllinni, er henni voru ætlaðar. Og hann fór með hana og þernur hennar á besta staðinn í kvennabúrinu.
10 Ester hafði ekki sagt, hverrar þjóðar hún væri né frá ætt sinni, því að Mordekai hafði boðið henni að segja eigi frá því.
11 En Mordekai gekk á degi hverjum fyrir framan forgarð kvennabúrsins til þess að vita, hvernig Ester liði og hvað um hana yrði.
12 Og er röðin kom að hverri stúlku um sig, að hún skyldi ganga inn fyrir Ahasverus konung, eftir tólf mánaða undirbúningsfrest samkvæmt kvennalögunum _ því að svo langur tími gekk til hreinsunarundirbúnings þeirra: sex mánuðir með myrruolíu og sex mánuðir með ilmsmyrslum og öðru því, er til undirbúnings kvenna heyrir _
13 þegar stúlkan þá gekk inn fyrir konung, var henni fengið allt, er hún bað um, að það færi með henni úr kvennabúrinu til konungshallarinnar.
14 Um kveldið gekk hún inn, en að morgni sneri hún aftur í hið annað kvennabúr, undir umsjá Saasgasar, geldings konungs, þess er geymdi hjákvennanna. Mátti hún þá eigi framar koma inn fyrir konung, nema ef konungi hefði geðjast vel að henni og hún væri sérstaklega kölluð.
15 Þegar nú röðin kom að Ester, dóttur Abíhaíls, föðurbróður Mordekai, er hann hafði tekið sér í dóttur stað, að hún skyldi inn ganga fyrir konung, þá bað hún ekki um neitt, nema það sem Hegaí geldingur konungs, kvennavörðurinn, tiltók. Og Ester fann náð í augum allra þeirra, er hana sáu.
16 Og Ester var tekin inn til Ahasverusar konungs, inn í hina konunglegu höll hans, í tíunda mánuðinum _ það er tebetmánuður _ á sjöunda ríkisstjórnarári hans.
17 Og konungur fékk meiri ást á Ester en öllum öðrum konum, og hún ávann sér náð hans og þokka, meir en allar hinar meyjarnar. Og hann setti hina konunglegu kórónu á höfuð henni og gjörði hana að drottningu í stað Vastí.
18 Og konungur hélt mikla veislu öllum höfðingjum sínum og þjónum, Esterar-veislu, lét halda hvíldardag í skattlöndunum og gaf gjafir með konunglegu örlæti.
19 Þá er meyjum var í annað sinn safnað og Mordekai sat í konungshliði _
20 en Ester hafði ekki sagt frá ætt sinni eða hverrar þjóðar hún væri, svo sem Mordekai hafði boðið henni, með því að Ester hlýddi fyrirmælum Mordekai, eins og þegar hún var í fóstri hjá honum _
21 í þann tíma, þá er Mordekai sat í konungshliði, reiddust Bigtan og Teres, tveir geldingar konungs, af þeim er geymdu dyranna, og leituðu eftir að leggja hendur á Ahasverus konung.
22 Þessa varð Mordekai áskynja og sagði Ester drottningu frá því, en Ester sagði konungi frá í nafni Mordekai.
23 Og er málið var rannsakað og þetta reyndist satt að vera, þá voru þeir báðir festir á gálga. Og þetta var ritað í árbókina í viðurvist konungs.
25 Þrem dögum eftir að Festus hafði tekið við umdæmi sínu, fór hann frá Sesareu upp til Jerúsalem.
2 Æðstu prestarnir og fyrirmenn Gyðinga báru þá sakir á Pál fyrir honum og báðu hann
3 að veita sér að málum gegn honum og gera sér þann greiða að senda hann til Jerúsalem. En þeir hugðust búa honum fyrirsát og vega hann á leiðinni.
4 Festus svaraði, að Páll væri í varðhaldi í Sesareu, en sjálfur mundi hann bráðlega fara þangað.
5 "Látið því," sagði hann, "ráðamenn yðar verða mér samferða ofan eftir og lögsækja manninn, ef hann er um eitthvað sekur."
6 Festus dvaldist þar ekki lengur en í átta daga eða tíu. Síðan fór hann ofan til Sesareu. Daginn eftir settist hann á dómstólinn og bauð að leiða Pál fram.
7 Þegar hann kom, umkringdu hann Gyðingar þeir, sem komnir voru ofan frá Jerúsalem, og báru á hann margar þungar sakir, sem þeir gátu ekki sannað.
8 En Páll varði sig og sagði: "Ekkert hef ég brotið, hvorki gegn lögmáli Gyðinga, helgidóminum né keisaranum."
9 Festus vildi koma sér vel við Gyðinga og mælti við Pál: "Vilt þú fara upp til Jerúsalem og hlíta þar dómi mínum í máli þessu?"
10 Páll svaraði: "Ég stend nú fyrir dómstóli keisarans, og hér á ég að dæmast. Gyðingum hef ég ekkert rangt gjört, það veistu fullvel.
11 Sé ég sekur og hafi framið eitthvað, sem dauða sé vert, mæli ég mig ekki undan því að deyja. En ef ekkert er hæft í því, sem þessir menn kæra mig um, á enginn með að selja mig þeim á vald. Ég skýt máli mínu til keisarans."
12 Festus ræddi þá við ráðunauta sína og mælti síðan: "Til keisarans hefur þú skotið máli þínu, til keisarans skaltu fara."
13 Eftir nokkra daga komu Agrippa konungur og Berníke til Sesareu að bjóða Festus velkominn.
14 Þegar þau höfðu dvalist þar nokkra daga, lagði Festus mál Páls fyrir konung og sagði: "Hér er fangi nokkur, sem Felix skildi eftir.
15 Þegar ég kom til Jerúsalem, báru æðstu prestar og öldungar Gyðinga á hann sakir og heimtuðu hann dæmdan.
16 Ég svaraði þeim, að það væri ekki venja Rómverja að selja fram nokkurn sakborning fyrr en hann hefði verið leiddur fyrir ákærendur sína og átt þess kost að bera fram vörn gegn sakargiftinni.
17 Þeir urðu nú samferða hingað, og lét ég engan drátt á verða, heldur settist daginn eftir á dómstólinn og bauð að leiða fram manninn.
18 Þegar ákærendurnir komu fram, báru þeir ekki á hann sakir fyrir nein þau illræði, sem ég hafði búist við,
19 heldur áttu þeir í einhverjum deilum við hann um átrúnað sjálfra þeirra og um Jesú nokkurn, látinn mann, sem Páll segir lifa.
20 Fannst mér vandi fyrir mig að fást við þetta og spurði Pál, hvort hann vildi fara til Jerúsalem og láta dæma málið þar.
21 En hann skaut máli sínu til keisarans og krafðist þess að vera hafður í haldi, þar til hans hátign hefði skorið úr. Því bauð ég að hafa hann í haldi, þangað til ég gæti sent hann til keisarans."
22 Agrippa sagði þá við Festus: "Ég vildi sjálfur fá að heyra manninn." Hinn svaraði: "Á morgun skalt þú hlusta á hann."
23 Daginn eftir komu Agrippa og Berníke með mikilli viðhöfn og gengu ásamt hersveitarforingjum og æðstu mönnum borgarinnar inn í málstofuna. Var þá Páll leiddur inn að boði Festusar.
24 Festus mælti: "Agrippa konungur og þér menn allir, sem hjá oss eruð staddir. Þarna sjáið þér mann, sem veldur því, að allir Gyðingar, bæði í Jerúsalem og hér, hafa leitað til mín. Þeir heimta hástöfum, að hann sé tekinn af lífi.
25 Mér varð ljóst, að hann hefur ekkert það framið, er dauða sé vert, en sjálfur skaut hann máli sínu til hans hátignar, og þá ákvað ég að senda hann þangað.
26 Nú hef ég ekkert áreiðanlegt að skrifa herra vorum um hann. Þess vegna hef ég leitt hann fram fyrir yður og einkum fyrir þig, Agrippa konungur, svo að ég hafi eitthvað að skrifa að lokinni yfirheyrslu.
27 Því það líst mér fráleitt að senda fanga og tjá eigi um leið sakargiftir gegn honum."
by Icelandic Bible Society