M’Cheyne Bible Reading Plan
25 Abraham tók sér enn konu. Hún hét Ketúra.
2 Og hún ól honum Símran, Joksan, Medan, Midían, Jísbak og Súa.
3 Og Joksan gat Séba og Dedan, og synir Dedans voru Assúrítar, Letúsítar og Leúmmítar.
4 Og synir Midíans voru: Efa, Efer, Hanok, Abída og Eldaa. Allir þessir eru niðjar Ketúru.
5 Abraham gaf Ísak allt, sem hann átti.
6 En sonum þeim, sem Abraham hafði átt með hjákonunum, gaf hann gjafir og lét þá, meðan hann enn var á lífi, fara burt frá Ísak syni sínum í austurátt, til austurlanda.
7 Þetta eru ævidagar Abrahams, sem hann lifði, hundrað sjötíu og fimm ár.
8 Og Abraham andaðist og dó í góðri elli, gamall og saddur lífdaga, og safnaðist til síns fólks.
9 Og Ísak og Ísmael synir hans jörðuðu hann í Makpelahelli í landi Efrons, sonar Hetítans Sóars, sem er gegnt Mamre,
10 í landi því, sem Abraham hafði keypt af Hetítum, þar var Abraham jarðaður og Sara kona hans.
11 Og eftir andlát Abrahams blessaði Guð Ísak son hans. En Ísak bjó hjá Beer-lahaj-róí.
12 Þetta er ættartal Ísmaels Abrahamssonar, sem Hagar hin egypska, ambátt Söru, ól honum.
13 Og þessi eru nöfn Ísmaels sona, samkvæmt nöfnum þeirra, eftir kynþáttum þeirra. Nebajót var hans frumgetinn son, þá Kedar, Adbeel, Míbsam,
14 Misma, Dúma, Massa,
15 Hadar, Tema, Jetúr, Nafis og Kedma.
16 Þessir eru synir Ísmaels, og þessi eru nöfn þeirra, eftir þorpum þeirra og tjaldbúðum, tólf höfðingjar, eftir ættkvíslum þeirra.
17 Og þetta voru æviár Ísmaels: hundrað þrjátíu og sjö ár, _ þá andaðist hann og dó, og safnaðist til síns fólks.
18 Og þeir bjuggu frá Havíla til Súr, sem er fyrir austan Egyptaland, í stefnu til Assýríu. Fyrir austan alla bræður sína tók hann sér bústað.
19 Þetta er saga Ísaks Abrahamssonar. Abraham gat Ísak.
20 Ísak var fertugur að aldri, er hann gekk að eiga Rebekku, dóttur Betúels hins arameíska frá Paddan-aram, systur Labans hins arameíska.
21 Ísak bað Drottin fyrir konu sinni, því að hún var óbyrja, og Drottinn bænheyrði hann, og Rebekka kona hans varð þunguð.
22 Og er börnin hnitluðust í kviði hennar, sagði hún: "Sé það svona, hví lifi ég þá?" Gekk hún þá til frétta við Drottin.
23 En Drottinn svaraði henni: Þú gengur með tvær þjóðir, og tveir ættleggir munu af skauti þínu kvíslast. Annar verður sterkari en hinn, og hinn eldri mun þjóna hinum yngri.
24 Er dagar hennar fullnuðust, að hún skyldi fæða, sjá, þá voru tvíburar í kviði hennar.
25 Og hinn fyrri kom í ljós, rauður að lit og allur sem loðfeldur, og var hann nefndur Esaú.
26 Og eftir það kom bróðir hans í ljós, og hélt hann um hælinn á Esaú, og var hann nefndur Jakob. En Ísak var sextíu ára, er hún ól þá.
27 Er sveinarnir voru vaxnir, gjörðist Esaú slyngur veiðimaður og hafðist við á heiðum, en Jakob var maður gæfur og bjó í tjöldum.
28 Og Ísak unni Esaú, því að villibráð þótti honum góð, en Rebekka unni Jakob.
29 Einu sinni hafði Jakob soðið rétt nokkurn. Kom þá Esaú af heiðum og var dauðþreyttur.
30 Þá sagði Esaú við Jakob: "Gef mér fljótt að eta hið rauða, þetta rauða þarna, því að ég er dauðþreyttur." Fyrir því nefndu menn hann Edóm.
31 En Jakob mælti: "Seldu mér fyrst frumburðarrétt þinn."
32 Og Esaú mælti: "Ég er kominn í dauðann, hvað stoðar mig frumburðarréttur minn?"
33 Og Jakob mælti: "Vinn þú mér þá fyrst eið að því!" Og hann vann honum eiðinn og seldi Jakob frumburðarrétt sinn.
34 En Jakob gaf Esaú brauð og baunarétt, og hann át og drakk og stóð upp og gekk burt. Þannig lítilsvirti Esaú frumburðarrétt sinn.
24 Jesús gekk út úr helgidóminum og hélt brott. Þá komu lærisveinar hans og vildu sýna honum byggingar helgidómsins.
2 Hann sagði við þá: "Þér sjáið allt þetta? Sannlega segi ég yður, hér mun ekki eftir látinn steinn yfir steini, er eigi sé niður brotinn."
3 Þá er hann sat á Olíufjallinu, gengu lærisveinarnir til hans og spurðu hann einslega: "Seg þú oss, hvenær verður þetta? Og hvert mun tákn komu þinnar og endaloka veraldar?"
4 Jesús svaraði þeim: "Varist að láta nokkurn leiða yður í villu.
5 Margir munu koma í mínu nafni og segja: ,Ég er Kristur!` og marga munu þeir leiða í villu.
6 Þér munuð spyrja hernað og ófriðartíðindi. Gætið þess, að skelfast ekki. Þetta á að verða, en endirinn er ekki þar með kominn.
7 Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki, þá verður hungur og landskjálftar á ýmsum stöðum.
8 Allt þetta er upphaf fæðingarhríðanna.
9 Þá munu menn framselja yður til pyndinga og taka af lífi, og allar þjóðir munu hata yður vegna nafns míns.
10 Margir munu þá falla frá og framselja hver annan og hata.
11 Fram munu koma margir falsspámenn og leiða marga í villu.
12 Og vegna þess að lögleysi magnast, mun kærleikur flestra kólna.
13 En sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.
14 Og þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.
15 Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar, sem Daníel spámaður talar um, standa á helgum stað," _ lesandinn athugi það _
16 "þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla.
17 Sá sem er uppi á þaki, fari ekki ofan að sækja neitt í hús sitt.
18 Og sá sem er á akri, skal ekki hverfa aftur að taka yfirhöfn sína.
19 Vei þeim sem þungaðar eru eða börn hafa á brjósti á þeim dögum.
20 Biðjið, að flótti yðar verði ekki um vetur eða á hvíldardegi.
21 Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða.
22 Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir, kæmist enginn maður af. En vegna hinna útvöldu munu þeir dagar styttir verða.
23 Ef einhver segir þá við yður: ,Hér er Kristur` eða ,þar`, þá trúið því ekki.
24 Því að fram munu koma falskristar og falsspámenn, og þeir munu gjöra stór tákn og undur til að leiða afvega jafnvel hina útvöldu, ef orðið gæti.
25 Sjá, ég hef sagt yður það fyrir.
26 Ef þeir segja við yður: ,Sjá, hann er í óbyggðum,` þá farið ekki þangað. Ef þeir segja: ,Sjá, hann er í leynum,` þá trúið því ekki.
27 Eins og elding sem leiftrar frá austri til vesturs, svo mun verða koma Mannssonarins.
28 Þar munu ernirnir safnast, sem hræið er.
29 En þegar eftir þrenging þessara daga mun sólin sortna og tunglið hætta að skína. Stjörnurnar munu hrapa af himni og kraftar himnanna bifast.
30 Þá mun tákn Mannssonarins birtast á himni, og allar kynkvíslir jarðarinnar hefja kveinstafi. Og menn munu sjá Mannssoninn koma á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð.
31 Hann mun senda út engla sína með hvellum lúðri, og þeir munu safna hans útvöldu úr áttunum fjórum, himinskauta milli.
32 Nemið líkingu af fíkjutrénu. Þegar greinar þess fara að mýkjast og laufið að springa út, þá vitið þér, að sumar er í nánd.
33 Eins skuluð þér vita, þegar þér sjáið allt þetta, að hann er í nánd, fyrir dyrum.
34 Sannlega segi ég yður: Þessi kynslóð mun ekki líða undir lok, uns allt þetta er komið fram.
35 Himinn og jörð munu líða undir lok, en orð mín munu aldrei undir lok líða.
36 En þann dag og stund veit enginn, hvorki englar á himnum né sonurinn, enginn nema faðirinn einn.
37 Eins og var á dögum Nóa, svo mun verða við komu Mannssonarins.
38 Dagana fyrir flóðið átu menn og drukku, kvæntust og giftust allt til þess dags, er Nói gekk í örkina.
39 Og þeir vissu ekki, fyrr en flóðið kom og hreif þá alla burt. Eins verður við komu Mannssonarins.
40 Þá verða tveir á akri, annar mun tekinn, hinn eftir skilinn.
41 Tvær munu mala á kvörn, önnur verður tekin, hin eftir skilin.
42 Vakið því, þér vitið eigi, hvaða dag Drottinn yðar kemur.
43 Það skiljið þér, að húsráðandi vekti og léti ekki brjótast inn í hús sitt, ef hann vissi á hvaða stundu nætur þjófurinn kæmi.
44 Verið þér og viðbúnir, því að Mannssonurinn kemur á þeirri stundu, sem þér ætlið eigi.
45 Hver er sá trúi og hyggni þjónn, sem húsbóndinn hefur sett yfir hjú sín að gefa þeim mat á réttum tíma?
46 Sæll er sá þjónn, er húsbóndinn finnur breyta svo, er hann kemur.
47 Sannlega segi ég yður: Hann mun setja hann yfir allar eigur sínar.
48 En ef illur þjónn segir í hjarta sínu: ,Húsbónda mínum dvelst,`
49 og hann tekur að berja samþjóna sína og eta og drekka með svöllurum,
50 þá mun húsbóndi þess þjóns koma á þeim degi, sem hann væntir ekki, á þeirri stundu, sem hann veit ekki,
51 höggva hann og láta hann fá hlut með hræsnurum. Þar verður grátur og gnístran tanna.
1 Það bar til á dögum Ahasverusar _ það er Ahasverusar þess, er ríkti frá Indlandi til Blálands yfir hundrað tuttugu og sjö skattlöndum _
2 í þá daga er Ahasverus konungur sat á konungsstóli sínum í borginni Súsa,
3 á þriðja ríkisári hans, að hann hélt veislu öllum höfðingjum sínum og þjónum. Sátu þá hershöfðingjarnir í Persíu og Medíu, tignarmennirnir og skattlandstjórarnir í boði hans.
4 Sýndi hann þá auðæfi síns veglega konungdóms og dýrðarskraut tignar sinnar í marga daga _ hundrað og áttatíu daga.
5 Og er þessir dagar voru liðnir, hélt konungur veislu öllu fólki, sem var í borginni Súsa, bæði háum og lágum, í sjö daga, í forgarðinum að hallargarði konungs.
6 Þar héngu hvítir baðmullardúkar og purpurabláir, festir með snúrum af býssus og rauðum purpura í silfurhringa og á marmarasúlum, legubekkirnir voru úr gulli og silfri, á gólfi lögðu alabastri, hvítum marmara, perlumóðursteini og svörtum marmara.
7 En drykkir voru inn bornir í gullkerum, og voru hver kerin öðrum ólík, og þar var gnægð konunglegs víns, eins og konunglegu örlæti sómir.
8 Og drykkjan fór fram eftir því fyrirmæli, að enginn skyldi halda drykk að mönnum, því að konungur hafði lagt svo fyrir alla frammistöðumenn í höll sinni, að þeir skyldu svo gjöra sem hverjum manni þóknaðist.
9 Vastí drottning hélt og konum veislu í konunglegri höll, er Ahasverus konungur átti.
10 En á sjöunda degi, þá er konungur var hreifur af víni, bauð hann Mehúman, Bista, Harbóna, Bigta og Abagta, Setar og Karkas, þeim sjö hirðmönnum, er þjónuðu Ahasverusi konungi,
11 að sækja Vastí drottningu og leiða hana inn fyrir konung með konunglega kórónu á höfði, til þess að hann gæti sýnt þjóðunum og höfðingjunum fegurð hennar, því að hún var fríð sýnum.
12 En Vastí drottning vildi ekki koma eftir boði konungs, er hirðmennirnir fluttu. Þá reiddist konungur ákaflega, og heiftin brann honum í brjósti.
13 Og konungur sagði við vitringana, sem þekktu tímana _ því að þannig voru orð konungs lögð fyrir alla þá, er þekktu lög og rétt,
14 og þeir, sem stóðu honum næstir, voru Karsena, Setar, Admata, Tarsis, Meres, Marsena og Memúkan, sjö höfðingjar Persa og Meda, er litu auglit konungs og höfðu æðstu sætin í ríkinu _:
15 "Hverjum dómi skal Vastí drottning sæta að lögum fyrir það, að hún hlýddi eigi orðsending Ahasverusar konungs, þeirri er hirðmennirnir fluttu?"
16 Þá sagði Memúkan í áheyrn konungs og höfðingjanna: "Vastí drottning hefir ekki einungis brotið á móti konunginum, heldur einnig á móti öllum höfðingjunum og öllum þjóðunum, sem búa í öllum skattlöndum Ahasverusar konungs.
17 Því að athæfi drottningar mun berast út til allra kvenna og gjöra eiginmenn þeirra fyrirlitlega í augum þeirra, er sagt verður: ,Ahasverus konungur bauð að leiða Vastí drottningu fyrir sig, en hún kom ekki.`
18 Og þegar í dag munu hefðarfrúr Persa og Meda, þær er frétt hafa athæfi drottningar, segja þetta öllum höfðingjum konungs, og mun það valda fullnógri fyrirlitningu og reiði.
19 Ef konungi þóknast svo, þá láti hann konunglegt boð út ganga og sé það ritað í lög Persa og Meda, svo að því verði ekki breytt, að Vastí skuli ekki framar koma fyrir auglit Ahasverusar konungs, og konunglega tign hennar gefi konungur annarri, sem er betri en hún.
20 Þegar nú úrskurður konungs, er hann kveður upp, verður kunnur um allt ríki hans, sem er mjög stórt, þá munu allar konur sýna mönnum sínum virðingu, bæði háum og lágum."
21 Þessi tillaga geðjaðist bæði konunginum og höfðingjunum, og konungur fór að ráðum Memúkans.
22 Og hann sendi bréf til allra skattlanda konungs, í sérhvert land eftir skrift þess lands og til sérhverrar þjóðar á hennar tungu, að hver maður skyldi vera húsbóndi á sínu heimili og mæla allt það, er honum líkaði.
24 Fimm dögum síðar fór Ananías æðsti prestur ofan þangað og með honum nokkrir öldungar og Tertúllus nokkur málafærslumaður. Þeir báru sakir á Pál fyrir landstjóranum.
2 Hann var nú kallaður fyrir, en Tertúllus hóf málsóknina og sagði: "Fyrir þitt tilstilli, göfugi Felix, sitjum vér í góðum friði, og þjóð vor hefur sakir þinnar forsjár öðlast umbætur í öllum greinum og alls staðar.
3 Þetta viðurkennum vér mjög þakksamlega.
4 En svo að ég tefji þig sem minnst, bið ég, að þú af mildi þinni viljir heyra oss litla hríð.
5 Vér höfum komist að raun um, að maður þessi er skaðræði, kveikir ófrið með öllum Gyðingum um víða veröld og er forsprakki villuflokks Nasarea.
6 Hann reyndi meira að segja að vanhelga musterið, og þá tókum vér hann höndum.
8 Með því að yfirheyra hann mátt þú sjálfur ganga úr skugga um öll sakarefni vor gegn honum."
9 Gyðingarnir tóku undir sakargiftirnar og kváðu þetta rétt vera.
10 Landstjórinn benti þá Páli að taka til máls. Hann sagði: "Kunnugt er mér um, að þú hefur verið dómari þessarar þjóðar í mörg ár. Mun ég því ótrauður verja mál mitt.
11 Þú getur og gengið úr skugga um, að ekki eru nema tólf dagar síðan ég kom upp til Jerúsalem að biðjast fyrir.
12 Og enginn hefur staðið mig að því að vera að stæla við neinn eða æsa fólk til óspekta, hvorki í samkunduhúsunum né neins staðar í borginni.
13 Þeir geta ekki heldur sannað þér það, sem þeir eru nú að kæra mig um.
14 En hitt skal ég játa þér, að ég þjóna Guði feðra vorra samkvæmt veginum, sem þeir kalla villu, og trúi öllu því, sem skrifað stendur í lögmálinu og spámönnunum.
15 Og þá von hef ég til Guðs, sem þeir og sjálfir hafa, að upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.
16 Því tem ég mér og sjálfur að hafa jafnan hreina samvisku fyrir Guði og mönnum.
17 Eftir margra ára fjarveru kom ég til að færa fólki mínu ölmusugjafir og til að fórna.
18 Þetta var ég að gjöra í helgidóminum og hafði látið hreinsast, og enginn var þá mannsöfnuður né uppþot, þegar menn komu að mér.
19 Þar voru Gyðingar nokkrir frá Asíu. Þeir hefðu átt að koma fyrir þig og bera fram kæru, hefðu þeir fundið mér eitthvað til saka.
20 Annars skulu þessir, sem hér eru, segja til, hvað saknæmt þeir fundu, þegar ég stóð fyrir ráðinu.
21 Nema það sé þetta eina, sem ég hrópaði, þegar ég stóð meðal þeirra: ,Fyrir upprisu dauðra er ég lögsóttur í dag frammi fyrir yður."`
22 Felix, sem var vel kunnugt um veginn, frestaði nú málinu, og mælti: "Þegar Lýsías hersveitarforingi kemur ofan hingað, skal ég skera úr máli yðar."
23 Hann bauð hundraðshöfðingjanum að hafa Pál í vægu varðhaldi og varna engum félaga hans að vitja um hann.
24 Nokkrum dögum seinna kom Felix með eiginkonu sinni, Drúsillu. Hún var Gyðingur. Hann lét sækja Pál og hlýddi á mál hans um trúna á Krist Jesú.
25 En er hann ræddi um réttlæti, sjálfsögun og komandi dóm, varð Felix skelkaður og mælti: "Far burt að sinni. Ég læt kalla þig, þegar ég fæ tóm til."
26 Meðfram gjörði hann sér von um, að Páll mundi gefa sér fé. Því var það, að hann lét alloft sækja hann og átti tal við hann.
27 Þegar tvö ár voru liðin, tók Porkíus Festus við landstjórn af Felix. Felix vildi koma sér vel við Gyðinga og lét því Pál eftir í haldi.
by Icelandic Bible Society