Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrsta bók Móse 24

24 Abraham var gamall og hniginn að aldri, og Drottinn hafði blessað Abraham í öllu.

Þá sagði Abraham við þjón sinn, þann er elstur var í húsi hans og umsjónarmaður yfir öllu, sem hann átti:

"Legg þú hönd þína undir lend mína, og vinn mér eið að því við Drottin, Guð himinsins og Guð jarðarinnar, að þú skulir ekki taka syni mínum til handa konu af dætrum Kanaaníta, er ég bý á meðal,

heldur skaltu fara til föðurlands míns og til ættfólks míns, og taka konu handa Ísak syni mínum."

Þjónninn svaraði honum: "En ef konan vill ekki fara með mér til þessa lands, á ég þá að fara með son þinn aftur í það land, sem þú fórst úr?"

Og Abraham sagði við hann: "Varastu að fara með son minn þangað!

Drottinn, Guð himinsins, sem tók mig úr húsi föður míns og úr ættlandi mínu, hann sem hefir talað við mig og svarið mér og sagt: ,Þínum niðjum mun ég gefa þetta land,` hann mun senda engil sinn á undan þér, að þú megir þaðan fá syni mínum konu.

Og vilji konan ekki fara með þér, þá ertu leystur af eiðnum. En með son minn mátt þú ekki fyrir nokkurn mun fara þangað aftur."

Þá lagði þjónninn hönd sína undir lend Abrahams húsbónda síns og vann honum eið að þessu.

10 Þá tók þjónninn tíu úlfalda af úlföldum húsbónda síns og lagði af stað, og hafði með sér alls konar dýrgripi húsbónda síns. Og hann tók sig upp og hélt til Mesópótamíu, til borgar Nahors.

11 Og hann áði úlföldunum utan borgar hjá vatnsbrunni að kveldi dags, í það mund, er konur voru vanar að ganga út að ausa vatn.

12 Og hann mælti: "Drottinn, Guð húsbónda míns Abrahams. Lát mér heppnast erindi mitt í dag og auðsýn miskunn húsbónda mínum Abraham.

13 Sjá, ég stend við vatnslind, og dætur bæjarmanna ganga út að ausa vatn.

14 Og ef sú stúlka, sem ég segi við: ,Tak niður skjólu þína, að ég megi drekka,` svarar: ,Drekk þú, og ég vil líka brynna úlföldum þínum,` _ hún sé sú, sem þú hefir fyrirhugað þjóni þínum Ísak, og af því mun ég marka, að þú auðsýnir miskunn húsbónda mínum."

15 Áður en hann hafði lokið máli sínu, sjá, þá kom Rebekka, dóttir Betúels, sonar Milku, konu Nahors, bróður Abrahams, og bar hún skjólu sína á öxlinni.

16 En stúlkan var einkar fríð sýnum, mey, og enginn maður hafði kennt hennar. Hún gekk niður að lindinni, fyllti skjólu sína og gekk aftur upp frá lindinni.

17 Þá hljóp þjónninn móti henni og mælti: "Gef mér vatnssopa að drekka úr skjólu þinni."

18 Og hún svaraði: "Drekk, herra minn!" Og hún tók jafnskjótt skjóluna niður af öxlinni í hönd sér og gaf honum að drekka.

19 Og er hún hafði gefið honum að drekka, mælti hún: "Líka skal ég ausa vatn úlföldum þínum, uns þeir hafa drukkið nægju sína."

20 Og hún flýtti sér og steypti úr skjólu sinni í vatnsstokkinn, og hljóp svo aftur að brunninum að ausa vatn. Og hún jós vatn öllum úlföldum hans.

21 En maðurinn starði á hana þegjandi, til þess að komast að raun um, hvort Drottinn hefði látið ferð hans heppnast eða ekki.

22 En er úlfaldar hans höfðu drukkið nægju sína, tók maðurinn nefhring úr gulli, sem vó hálfan sikil, og tvö armbönd og dró á hendur henni. Vógu þau tíu sikla gulls.

23 Því næst mælti hann: "Hvers dóttir ert þú? Segðu mér það. Er rúm í húsi föður þíns til að hýsa oss í nótt?"

24 Og hún sagði við hann: "Ég er dóttir Betúels, sonar Milku, sem hún ól Nahor."

25 Þá sagði hún við hann: "Vér höfum yfrið nóg bæði af hálmi og fóðri, og einnig húsrúm til gistingar."

26 Þá laut maðurinn höfði, bað til Drottins

27 og mælti: "Lofaður sé Drottinn, Guð Abrahams húsbónda míns, sem hefir ekki dregið í hlé miskunn sína og trúfesti við húsbónda minn. Mig hefir Drottinn leitt veginn til húss frænda húsbónda míns."

28 Stúlkan skundaði heim og sagði í húsi móður sinnar frá því, sem við hafði borið.

29 Rebekka átti bróður, sem Laban hét, og Laban hljóp til mannsins út að lindinni.

30 Og er hann sá hringinn og armböndin á höndum systur sinnar og heyrði orð Rebekku systur sinnar, sem sagði: "Svona talaði maðurinn við mig," þá fór hann til mannsins. Og sjá, hann stóð hjá úlföldunum við lindina.

31 Og hann sagði: "Kom þú inn, blessaður af Drottni. Hví stendur þú hér úti? Ég hefi rýmt til í húsinu, og staður er fyrir úlfalda þína."

32 Þá gekk maðurinn inn í húsið, og Laban spretti af úlföldunum og gaf þeim hálm og fóður, en færði honum vatn til að þvo fætur sína og fætur þeirra manna, sem voru með honum.

33 Og matur var fram borinn fyrir hann, en hann sagði: "Eigi vil ég matar neyta fyrr en ég hefi borið upp erindi mitt." Og menn svöruðu: "Tala þú!"

34 Hann mælti: "Ég er þjónn Abrahams.

35 Drottinn hefir ríkulega blessað húsbónda minn, svo að hann er orðinn auðmaður. Hann hefir gefið honum sauði og naut, silfur og gull, þræla og ambáttir, úlfalda og asna.

36 Og Sara, kona húsbónda míns, hefir alið húsbónda mínum son í elli sinni, og honum hefir hann gefið allt, sem hann á.

37 Og húsbóndi minn tók af mér eið og sagði: ,Þú mátt eigi konu taka syni mínum af dætrum Kanaaníta, er ég bý hjá,

38 heldur skalt þú fara í hús föður míns og til ættingja minna og taka syni mínum konu.`

39 Og ég sagði við húsbónda minn: ,Vera má, að konan vilji ekki fara með mér.`

40 Og hann svaraði mér: ,Drottinn, fyrir hvers augsýn ég hefi gengið, mun senda engil sinn með þér og láta ferð þína heppnast, svo að þú megir fá konu til handa syni mínum af ætt minni og úr húsi föður míns.

41 Þá skaltu vera laus við þann eið, sem þú vinnur mér, ef þú fer til ættingja minna, og vilji þeir ekki gefa þér hana, þá ertu laus við eiðinn, sem ég tek af þér.`

42 Og er ég í dag kom að lindinni, sagði ég: ,Drottinn, Guð Abrahams húsbónda míns. Ætlir þú að láta þá för lánast, sem ég nú er að fara,

43 þá sjá, ég stend við þessa lind, og fari svo, að sú stúlka, sem kemur hingað til að sækja vatn og ég segi við: Gef mér að drekka vatnssopa úr skjólu þinni, _

44 svarar mér: Drekk þú, og líka skal ég ausa úlföldum þínum vatn, _ hún sé sú kona, sem Drottinn hefir fyrirhugað syni húsbónda míns.`

45 En áður en ég hafði lokið þessu tali við sjálfan mig, sjá, þá kom Rebekka út þangað með skjólu sína á öxlinni og gekk niður að lindinni og bar upp vatn. Og ég sagði við hana: ,Gef mér að drekka!`

46 Og óðara tók hún skjóluna niður af öxlinni og sagði: ,Drekk þú, og líka skal ég brynna úlföldum þínum.` Og ég drakk, og hún brynnti líka úlföldunum.

47 Þá spurði ég hana og mælti: ,Hvers dóttir ert þú?` Og hún sagði: ,Dóttir Betúels, sonar Nahors, sem Milka ól honum.` Lét ég þá hringinn í nef hennar og armböndin á hendur hennar.

48 Og ég laut höfði og bað til Drottins, og ég lofaði Drottin, Guð Abrahams húsbónda míns, sem hafði leitt mig hinn rétta veg til að taka bróðurdóttur húsbónda míns syni hans til handa.

49 Og nú, ef þér viljið sýna vináttu og tryggð húsbónda mínum, þá segið mér það. En viljið þér það ekki þá segið mér og það, svo að ég geti snúið mér hvort heldur væri til hægri eða vinstri."

50 Þá svöruðu þeir Laban og Betúel og sögðu: "Þetta er frá Drottni komið. Við getum ekkert við þig sagt, hvorki illt né gott.

51 Sjá, Rebekka er á þínu valdi, tak þú hana og far þína leið, að hún verði kona sonar húsbónda þíns, eins og Drottinn hefir sagt."

52 Og er þjónn Abrahams heyrði þessi orð, laut hann til jarðar fyrir Drottni.

53 Og þjónninn tók upp skartgripi af silfri og skartgripi af gulli og klæði, og gaf Rebekku, en bróður hennar og móður gaf hann gersemar.

54 Því næst átu þeir og drukku, hann og mennirnir, sem með honum voru, og gistu þar um nóttina. Er þeir voru risnir úr rekkju um morguninn, mælti hann: "Látið mig nú fara heim til húsbónda míns."

55 Þá svöruðu bróðir hennar og móðir: "Leyf þú stúlkunni að vera hjá oss enn nokkurn tíma eða eina tíu daga. Þá má hún fara."

56 En hann svaraði þeim: "Tefjið mig ekki! Drottinn hefir látið ferð mína heppnast. Leyfið mér að fara heim til húsbónda míns."

57 Þau sögðu þá: "Við skulum kalla á stúlkuna og spyrja hana sjálfa."

58 Þá kölluðu þau á Rebekku og sögðu við hana: "Vilt þú fara með þessum manni?" Og hún sagði: "Ég vil fara."

59 Þá létu þau Rebekku systur sína og fóstru hennar fara með þjóni Abrahams og mönnum hans.

60 Þau blessuðu Rebekku og sögðu við hana: "Systir vor, vaxi af þér þúsundir þúsunda og eignist niðjar þínir borgarhlið fjandmanna sinna!"

61 Þá tók Rebekka sig upp með þernum sínum, og þær riðu úlföldunum og fóru með manninum. Og þjónninn tók Rebekku og fór leiðar sinnar.

62 Ísak hafði gengið að Beer-lahaj-róí, því að hann bjó í Suðurlandinu.

63 Og Ísak hafði gengið út að áliðnum degi til að hugleiða úti á mörkinni, og hann hóf upp augu sín og sá úlfalda koma.

64 Og Rebekka leit upp og sá Ísak. Sté hún þá jafnskjótt niður af úlfaldanum.

65 Og hún sagði við þjóninn: "Hver er þessi maður, sem kemur á móti oss þarna á mörkinni?" Og þjónninn svaraði: "Það er húsbóndi minn." Þá tók hún skýluna og huldi sig.

66 Og þjónninn sagði Ísak frá öllu því, sem hann hafði gjört.

67 Og Ísak leiddi hana í tjald Söru móður sinnar, og tók Rebekku og hún varð kona hans og hann elskaði hana. Og Ísak huggaðist af harmi þeim, er hann bar eftir móður sína.

Matteusarguðspjall 23

23 Þá talaði Jesús til mannfjöldans og lærisveina sinna:

"Á stóli Móse sitja fræðimenn og farísear.

Því skuluð þér gjöra og halda allt, sem þeir segja yður, en eftir breytni þeirra skuluð þér ekki fara, því þeir breyta ekki sem þeir bjóða.

Þeir binda þungar byrðar og leggja mönnum á herðar, en sjálfir vilja þeir ekki snerta þær einum fingri.

Öll sín verk gjöra þeir til að sýnast fyrir mönnum, þeir breikka minnisborða sína og stækka skúfana.

Ljúft er þeim að skipa hefðarsæti í veislum og æðsta bekk í samkundum,

láta heilsa sér á torgum og kallast meistarar af mönnum.

En þér skuluð ekki láta kalla yður meistara, því einn er yðar meistari og þér allir bræður.

Þér skuluð ekki kalla neinn föður yðar á jörðu, því einn er faðir yðar, sá sem er á himnum.

10 Þér skuluð ekki heldur láta kalla yður leiðtoga, því einn er leiðtogi yðar, Kristur.

11 Sá mesti meðal yðar sé þjónn yðar.

12 Hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.

13 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér læsið himnaríki fyrir mönnum. Sjálfir gangið þér ekki þar inn, og þeim, sem inn vilja ganga, leyfið þér eigi inn að komast. [

14 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér etið upp heimili ekkna og flytjið langar bænir að yfirskini. Þér munuð fá því þyngri dóm.]

15 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér farið um láð og lög til að snúa einum til yðar trúar, og þegar það tekst, gjörið þér hann hálfu verra vítisbarn en þér sjálfir eruð.

16 Vei yður, blindir leiðtogar! Þér segið: ,Ef einhver sver við musterið, þá er það ógilt, en sverji menn við gullið í musterinu, þá er það gildur eiður.`

17 Blindu heimskingjar, hvort er meira gullið eða musterið, sem helgar gullið?

18 Þér segið: ,Ef einhver sver við altarið, þá er það ógilt, en sverji menn við fórnina, sem á því er, þá er það gildur eiður.`

19 Blindu menn, hvort er meira fórnin eða altarið, sem helgar fórnina?

20 Sá sem sver við altarið, sver við það og allt, sem á því er.

21 Sá sem sver við musterið, sver við það og við þann, sem í því býr.

22 Og sá sem sver við himininn, sver við hásæti Guðs og við þann, sem í því situr.

23 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér gjaldið tíund af myntu, anís og kúmeni, en hirðið ekki um það, sem mikilvægast er í lögmálinu, réttlæti, miskunn og trúfesti. Þetta ber að gjöra og hitt eigi ógjört að láta.

24 Blindu leiðtogar, þér síið mýfluguna, en svelgið úlfaldann!

25 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér hreinsið bikarinn og diskinn utan, en innan eru þeir fullir yfirgangs og óhófs.

26 Blindi farísei, hreinsaðu fyrst bikarinn innan, að hann verði líka hreinn að utan.

27 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér líkist hvítum kölkuðum gröfum, sem sýnast fagrar utan, en innan eru fullar af dauðra manna beinum og alls kyns óþverra.

28 Þannig eruð þér, sýnist hið ytra réttlátir í augum manna, en eruð hið innra fullir hræsni og ranglætis.

29 Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér hlaðið upp grafir spámannanna og skreytið leiði hinna réttlátu

30 og segið: Ef vér hefðum lifað á dögum feðra vorra, hefðum vér ekki átt hlut með þeim í lífláti spámannanna.

31 Þannig vitnið þér sjálfir um yður, að þér eruð synir þeirra, sem myrtu spámennina.

32 Nú skuluð þér fylla mæli feðra yðar.

33 Höggormar og nöðru kyn, hvernig fáið þér umflúið helvítisdóm?

34 Þess vegna sendi ég til yðar spámenn, spekinga og fræðimenn. Suma þeirra munuð þér lífláta og krossfesta, aðra húðstrýkja í samkundum yðar og ofsækja borg úr borg.

35 Þannig kemur yfir yður allt saklaust blóð, sem úthellt hefur verið á jörðinni, frá blóði Abels hins réttláta til blóðs Sakaría Barakíasonar, sem þér drápuð milli musterisins og altarisins.

36 Sannlega segi ég yður: Allt mun þetta koma yfir þessa kynslóð.

37 Jerúsalem, Jerúsalem! Þú sem líflætur spámennina og grýtir þá, sem sendir eru til þín! Hversu oft vildi ég safna börnum þínum, eins og hænan safnar ungum sínum undir vængi sér, og þér vilduð eigi.

38 Hús yðar verður í eyði látið.

39 Ég segi yður: Héðan af munuð þér eigi sjá mig, fyrr en þér segið: ,Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins."`

Nehemíabók 13

13 Þann dag var lesið upp úr Mósebók fyrir lýðnum, og fannst þá skrifað í henni, að hvorki Ammóníti né Móabíti mættu nokkru sinni koma í söfnuð Guðs,

vegna þess að þeir komu ekki í móti Ísraelsmönnum með brauð og vatn og keyptu í móti þeim Bíleam til að bölva þeim, en Guð vor sneri bölvaninni í blessan.

Og er þeir heyrðu lögmálið, skildu þeir alla útlendinga úr Ísrael.

Áður en þetta varð, hafði Eljasíb prestur, frændi Tobía, sá er settur var yfir herbergi musteris Guðs vors,

látið útbúa stórt herbergi handa Tobía, en þar höfðu menn áður látið matfórnina, reykelsið og áhöldin og tíund af korni, aldinlegi og olíu, hið fyrirskipaða gjald til levíta, söngvara og hliðvarða, svo og fórnargjafir til prestanna.

Meðan allt þetta gjörðist, var ég ekki í Jerúsalem, því að á þrítugasta og öðru ríkisári Artahsasta konungs í Babýlon fór ég til konungsins. En að nokkrum tíma liðnum beiddist ég orlofs af konungi.

Og er ég kom til Jerúsalem, sá ég hvílíka óhæfu Eljasíb hafði gjört vegna Tobía með því að útbúa handa honum klefa í forgörðum Guðs musteris.

Mér mislíkaði þetta stórum, og kastaði ég öllum húsgögnum Tobía út úr herberginu

og bauð að hreinsa herbergin, bar síðan aftur inn þangað áhöld Guðs musteris, matfórnina og reykelsið.

10 Ég komst og að því, að greiðslurnar til levítanna höfðu eigi verið inntar af hendi, svo að levítarnir og söngvararnir, er þjónustunni áttu að gegna, voru allir flúnir út á lendur sínar.

11 Þá taldi ég á yfirmennina og sagði: "Hvers vegna er hús Guðs yfirgefið?" Og ég stefndi þeim saman og setti þá á sinn stað.

12 Þá færðu allir Júdamenn tíundina af korni, aldinlegi og olíu í forðabúrin,

13 og ég skipaði yfir forðabúrin þá Selemja prest og Sadók fræðimann, og Pedaja af levítunum, og þeim til aðstoðar Hanan Sakkúrsson, Mattanjasonar, því að þeir voru taldir áreiðanlegir og það var þeirra skylda að útdeila bræðrum sínum.

14 Mundu mér þetta, Guð minn, og afmá eigi góðverk mín, þau er ég hefi gjört fyrir hús Guðs míns og þjónustu hans.

15 Um sömu mundir sá ég í Júda menn vera að troða vínlagarþrær á hvíldardegi og flytja heim kornbundin og aðra vera að klyfja asna víni, vínberjum, fíkjum og alls konar þungavöru og koma með þá á hvíldardegi til Jerúsalem. Og ég áminnti þá, þegar þeir seldu matvæli.

16 Og Týrusmenn, sem setst höfðu þar að, fluttu þangað fisk og alls konar torgvöru og seldu Júdamönnum það á hvíldardögum í Jerúsalem.

17 Þá taldi ég á tignarmenn Júda og sagði við þá: "Hvílík óhæfa er það, sem þér hafið í frammi, að vanhelga hvíldardaginn!

18 Hafa eigi feður yðar breytt svo og Guð vor þess vegna látið alla þessa ógæfu yfir oss dynja og yfir þessa borg? En þér aukið enn meir á reiði hans við Ísrael með því að vanhelga hvíldardaginn."

19 Og þegar myrkt var orðið í borgarhliðum Jerúsalem og hvíldardagur fór í hönd, þá bauð ég að loka skyldi hliðunum, og enn fremur bauð ég að eigi skyldi opna þau aftur fyrr en að hvíldardeginum liðnum. Og ég setti nokkra af sveinum mínum við borgarhliðin, til þess að engin þungavara kæmi inn á hvíldardegi.

20 Þá náttuðu kaupmenn og þeir, er seldu alls konar torgvöru, fyrir utan Jerúsalem, einu sinni eða tvisvar.

21 Þá áminnti ég þá og sagði við þá: "Hví náttið þér úti fyrir borgarmúrunum? Ef þér gjörið það oftar, legg ég hendur á yður." Upp frá því komu þeir ekki á hvíldardegi.

22 Þá bauð ég levítunum, að þeir skyldu hreinsa sig og koma síðan og gæta borgarhliðanna, til þess að helga þannig hvíldardaginn. Mundu mér og þetta, Guð minn, og þyrm mér af mikilli miskunn þinni.

23 Um þær mundir sá ég og Gyðinga, sem gengið höfðu að eiga konur frá Asdód eða ammónítískar eða móabítískar konur.

24 Og börn þeirra töluðu að hálfu leyti asdódsku eða tungu sinnar þjóðar, en kunnu ekki að tala Júda-tungu.

25 Og ég taldi á þá og bað þeim bölbæna, já, barði nokkra af þeim og hárreytti þá, og ég særði þá við Guð: "Þér skuluð ekki gifta dætur yðar sonum þeirra, né taka nokkra af dætrum þeirra til handa sonum yðar eða sjálfum yður.

26 Syndgaði ekki Salómon, konungur Ísraels, í þessu? Meðal allra hinna mörgu þjóða var enginn konungur slíkur sem hann, og svo elskaður var hann af Guði, að Guð gjörði hann að konungi yfir öllum Ísrael. En einnig hann teygðu útlendar konur til syndar.

27 Og eigum vér nú að heyra það um yður, að þér fremjið alla þessa miklu óhæfu, að sýna Guði vorum ótrúmennsku með því að ganga að eiga útlendar konur?"

28 Og einn af sonum Jójada, Eljasíbssonar æðsta prests, var tengdasonur Sanballats Hóroníta. Fyrir því rak ég hann frá mér.

29 Mundu þeim það, Guð minn, að þeir hafa saurgað prestdóminn og hið heilaga heit prestdómsins og levítanna.

30 Og þannig hreinsaði ég þá af öllu útlendu, og ég ákvað, hvaða þjónustu prestarnir og levítarnir skyldu inna af hendi, hver í sínu verki,

Postulasagan 23

23 En Páll hvessti augun á ráðið og mælti: "Bræður, ég hef í öllu breytt með góðri samvisku fyrir Guði fram á þennan dag."

En Ananías æðsti prestur skipaði þeim, er hjá stóðu, að ljósta hann á munninn.

Þá sagði Páll við hann: "Guð mun ljósta þig, kalkaði veggur. Hér situr þú til að dæma mig samkvæmt lögmálinu og skipar þó þvert ofan í lögmálið að slá mig."

Þeir, sem hjá stóðu sögðu: "Smánar þú æðsta prest Guðs?"

Páll svaraði: "Ekki vissi ég, bræður, að hann væri æðsti prestur, því ritað er: ,Þú skalt ekki illmæla höfðingja lýðs þíns."`

Nú vissi Páll, að sumir þeirra voru saddúkear, en aðrir farísear, og hann hrópaði upp í ráðinu: "Bræður, ég er farísei, af faríseum kominn. Ég er lögsóttur fyrir vonina um upprisu dauðra."

Þegar hann sagði þetta, varð deila milli farísea og saddúkea, og þingheimur skiptist í flokka.

Því saddúkear segja, að ekki sé til upprisa, englar né andar, en farísear játa allt þetta.

Nú varð hróp mikið, og nokkrir fræðimenn af flokki farísea risu upp og fullyrtu: "Vér sjáum ekki, að þessi maður hafi brotið af sér. Gæti ekki hugsast, að andi hafi talað við hann eða engill?"

10 Deilan harðnaði og hersveitarforinginn fór að óttast, að þeir ætluðu að rífa Pál í sundur. Því skipaði hann herliðinu að koma ofan, taka hann af þeim og færa hann inn í kastalann.

11 Nóttina eftir kom Drottinn til hans og sagði: "Vertu hughraustur! Svo sem þú hefur vitnað um mig í Jerúsalem eins ber þér og að vitna í Róm."

12 Þegar dagur rann, bundust Gyðingar samtökum og sóru þess eið að eta hvorki né drekka, fyrr en þeir hefðu ráðið Pál af dögum.

13 Voru þeir fleiri en fjörutíu, sem þetta samsæri gjörðu.

14 Þeir fóru til æðstu prestanna og öldunganna og sögðu: "Vér höfum svarið þess dýran eið að neyta einskis, fyrr en vér höfum ráðið Pál af dögum.

15 Nú skuluð þér og ráðið leggja til við hersveitarforingjann, að hann láti senda hann niður til yðar, svo sem vilduð þér kynna yður mál hans rækilegar. En vér erum við því búnir að vega hann, áður en hann kemst alla leið."

16 En systursonur Páls heyrði um fyrirsátina. Hann gekk inn í kastalann og sagði Páli frá.

17 Páll kallaði til sín einn hundraðshöfðingjann og mælti: "Far þú með þennan unga mann til hersveitarforingjans, því að hann hefur nokkuð að segja honum."

18 Hundraðshöfðinginn tók hann með sér, fór með hann til hersveitarforingjans og sagði: "Fanginn Páll kallaði mig til sín og bað mig fara til þín með þennan unga mann. Hann hefur eitthvað að segja þér."

19 Hersveitarforinginn tók í hönd honum, leiddi hann afsíðis og spurði: "Hvað er það, sem þú hefur að segja mér?"

20 Hinn svaraði: "Gyðingar hafa komið sér saman um að biðja þig að senda Pál niður í ráðið á morgun, þar eð þeir ætli að rannsaka mál hans rækilegar.

21 En lát þú ekki að vilja þeirra, því að menn þeirra, fleiri en fjörutíu, sitja fyrir honum og hafa svarið þess eið að eta hvorki né drekka fyrr en þeir hafi vegið hann. Nú eru þeir viðbúnir og bíða eftir, að svarið komi frá þér."

22 Hersveitarforinginn lét piltinn fara og bauð honum: "Þú mátt engum segja, að þú hafir gjört mér viðvart um þetta."

23 Hann kallaði fyrir sig tvo hundraðshöfðingja og sagði: "Látið tvö hundruð hermenn vera tilbúna að fara til Sesareu eftir náttmál, auk þess sjötíu riddara og tvö hundruð léttliða.

24 Hafið og til fararskjóta handa Páli, svo að þér komið honum heilum til Felixar landstjóra."

25 Og hann ritaði bréf, svo hljóðandi:

26 "Kládíus Lýsías sendir kveðju hinum göfuga Felix landstjóra.

27 Mann þennan höfðu Gyðingar tekið höndum og voru í þann veginn að taka af lífi, er ég kom að með hermönnum. Ég komst að því, að hann var rómverskur, og bjargaði honum.

28 En ég vildi vita, fyrir hverja sök þeir ákærðu hann, og fór með hann niður í ráð þeirra.

29 Komst ég þá að raun um, að hann var kærður vegna ágreinings um lögmál þeirra, en engin sök var honum gefin, er sætir dauða eða fangelsi.

30 En þar sem ég hef fengið bendingu um, að setið sé um líf mannsins, sendi ég hann tafarlaust til þín. Ég hef jafnframt boðið ákærendum hans að flytja mál sitt gegn honum fyrir þér."

31 Hermennirnir tóku þá Pál, eins og þeim var boðið, og fóru með hann um nótt til Antípatris.

32 Daginn eftir sneru þeir aftur til kastalans, en létu riddarana fara með honum.

33 Þeir fóru inn í Sesareu, skiluðu bréfinu til landstjórans og færðu Pál fyrir hann.

34 Hann las bréfið og spurði, úr hvaða skattlandi hann væri. Var honum tjáð, að hann væri frá Kilikíu.

35 Þá mælti hann: "Ég mun rannsaka mál þitt, þegar kærendur þínir koma." Og hann bauð að geyma hann í höll Heródesar.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society