Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrsta bók Móse 22

22 Eftir þessa atburði freistaði Guð Abrahams og mælti til hans: "Abraham!" Hann svaraði: "Hér er ég."

Hann sagði: "Tak þú einkason þinn, sem þú elskar, hann Ísak, og far þú til Móríalands og fórna honum þar að brennifórn á einu af fjöllunum, sem ég mun segja þér til."

Abraham var árla á fótum næsta morgun og lagði á asna sinn, og tók með sér tvo sveina sína og Ísak son sinn. Og hann klauf viðinn til brennifórnarinnar, tók sig upp og hélt af stað, þangað sem Guð sagði honum.

Á þriðja degi hóf Abraham upp augu sín og sá staðinn álengdar.

Þá sagði Abraham við sveina sína: "Bíðið hér hjá asnanum, en við smásveinninn munum ganga þangað til að biðjast fyrir, og komum svo til ykkar aftur."

Og Abraham tók brennifórnarviðinn og lagði syni sínum Ísak á herðar, en tók eldinn og hnífinn sér í hönd. Og svo gengu þeir báðir saman.

Þá mælti Ísak við Abraham föður sinn: "Faðir minn!" Hann svaraði: "Hér er ég, sonur minn!" Hann mælti: "Hér er eldurinn og viðurinn, en hvar er sauðurinn til brennifórnarinnar?"

Og Abraham sagði: "Guð mun sjá sér fyrir sauð til brennifórnarinnar, sonur minn." Og svo gengu þeir báðir saman.

En er þeir komu þangað, er Guð hafði sagt honum, reisti Abraham þar altari og lagði viðinn á, og batt son sinn Ísak og lagði hann upp á altarið, ofan á viðinn.

10 Og Abraham rétti út hönd sína og tók hnífinn til að slátra syni sínum.

11 Þá kallaði engill Drottins til hans af himni og mælti: "Abraham! Abraham!" Hann svaraði: "Hér er ég."

12 Hann sagði: "Legg þú ekki hönd á sveininn og gjör þú honum ekkert, því að nú veit ég, að þú óttast Guð, þar sem þú synjaðir mér ekki um einkason þinn."

13 Þá varð Abraham litið upp, og hann sá hrút bak við sig, sem var fastur á hornunum í hrísrunni. Og Abraham fór og tók hrútinn og bar hann fram að brennifórn í stað sonar síns.

14 Og Abraham kallaði þennan stað "Drottinn sér," svo að það er máltæki allt til þessa dags: "Á fjallinu, þar sem Drottinn birtist."

15 Engill Drottins kallaði annað sinn af himni til Abrahams

16 og mælti: "Ég sver við sjálfan mig," segir Drottinn, "að fyrst þú gjörðir þetta og synjaðir mér eigi um einkason þinn,

17 þá skal ég ríkulega blessa þig og stórum margfalda kyn þitt, sem stjörnur á himni, sem sand á sjávarströnd. Og niðjar þínir skulu eignast borgarhlið óvina sinna.

18 Og af þínu afkvæmi skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta, vegna þess að þú hlýddir minni röddu."

19 Eftir það fór Abraham aftur til sveina sinna, og þeir tóku sig upp og fóru allir saman til Beerseba. Og Abraham bjó enn um hríð í Beerseba.

20 Eftir þetta bar svo við, að Abraham var sagt: "Sjá, Milka hefir og fætt bróður þínum Nahor sonu:

21 Ús, frumgetning hans, og Bús, bróður hans, og Kemúel, ættföður Aramea,

22 og Kesed, Kasó, Píldas, Jídlaf og Betúel." En Betúel gat Rebekku.

23 Þessa átta fæddi Milka Nahor, bróður Abrahams.

24 Og hann átti hjákonu, sem hét Reúma. Hún ól honum og sonu, þá Teba, Gaham, Tahas og Maaka.

Matteusarguðspjall 21

21 Þegar þeir nálguðust Jerúsalem og komu til Betfage við Olíufjallið, sendi Jesús tvo lærisveina

og sagði við þá: "Farið í þorpið hér framundan ykkur, og jafnskjótt munuð þið finna ösnu bundna og fola hjá henni. Leysið þau og færið mér.

Ef einhver hefur orð um, þá svarið: ,Herrann þarf þeirra við,` og mun hann jafnskjótt senda þau."

Þetta varð, svo að rættist það, sem sagt er fyrir munn spámannsins:

Segið dótturinni Síon: Sjá, konungur þinn kemur til þín, hógvær er hann og ríður asna, fola undan áburðargrip.

Lærisveinarnir fóru og gjörðu sem Jesús hafði boðið þeim,

komu með ösnuna og folann og lögðu á þau klæði sín, en hann steig á bak.

Fjöldamargir breiddu klæði sín á veginn, en aðrir hjuggu lim af trjánum og stráðu á veginn.

Og múgur sá, sem á undan fór og eftir fylgdi, hrópaði: "Hósanna syni Davíðs! Blessaður sé sá sem kemur, í nafni Drottins! Hósanna í hæstum hæðum!"

10 Þegar hann kom inn í Jerúsalem, varð öll borgin í uppnámi, og menn spurðu: "Hver er hann?"

11 Fólkið svaraði: "Það er spámaðurinn Jesús frá Nasaret í Galíleu."

12 Þá gekk Jesús í helgidóminn og rak út alla, sem voru að selja þar og kaupa, hratt um borðum víxlaranna og stólum dúfnasalanna

13 og mælti við þá: "Ritað er: ,Hús mitt á að vera bænahús,` en þér gjörið það að ræningjabæli."

14 Blindir og haltir komu til hans í helgidóminum, og hann læknaði þá.

15 Æðstu prestarnir og fræðimennirnir sáu dásemdarverkin, sem hann gjörði, og heyrðu börnin hrópa í helgidóminum: "Hósanna syni Davíðs!" Þeir urðu gramir við

16 og sögðu við hann: "Heyrir þú, hvað þau segja?" Jesús svaraði þeim: "Já, hafið þér aldrei lesið þetta: ,Af barna munni og brjóstmylkinga býrðu þér lof."`

17 Og hann fór frá þeim og úr borginni til Betaníu og hafði þar náttstað.

18 Árla morguns hélt hann aftur til borgarinnar og kenndi hungurs.

19 Hann sá fíkjutré eitt við veginn og gekk að því, en fann þar ekkert nema blöðin tóm. Hann segir við það: "Aldrei framar vaxi ávöxtur á þér að eilífu." En fíkjutréð visnaði þegar í stað.

20 Lærisveinarnir sáu þetta, undruðust og sögðu: "Hvernig gat fíkjutréð visnað svo fljótt?"

21 Jesús svaraði þeim: "Sannlega segi ég yður: Ef þér eigið trú og efist ekki, getið þér ekki aðeins gjört slíkt sem fram kom við fíkjutréð. Þér gætuð enda sagt við fjall þetta: ,Lyft þér upp, og steyp þér í hafið,` og svo mundi fara.

22 Allt sem þér biðjið í bæn yðar, munuð þér öðlast, ef þér trúið."

23 Hann gekk í helgidóminn. Þá komu æðstu prestarnir og öldungar lýðsins til hans, þar sem hann var að kenna, og spurðu: "Með hvaða valdi gjörir þú þetta? Hver gaf þér þetta vald?"

24 Jesús svaraði þeim: "Ég vil og leggja eina spurningu fyrir yður. Ef þér svarið mér, mun ég segja yður, með hvaða valdi ég gjöri þetta.

25 Hvaðan var skírn Jóhannesar? Frá himni eða frá mönnum?" Þeir ráðguðust hver við annan og sögðu: "Ef vér svörum: ,Frá himni,` spyr hann: ,Hví trúðuð þér honum þá ekki?`

26 Ef vér segjum: ,Frá mönnum,` megum vér óttast lýðinn, því að allir telja Jóhannes spámann."

27 Og þeir svöruðu Jesú: "Vér vitum það ekki." Hann sagði við þá: "Ég segi yður þá ekki heldur, með hvaða valdi ég gjöri þetta.

28 Hvað virðist yður? Maður nokkur átti tvo sonu. Hann gekk til hins fyrra og sagði: ,Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum.`

29 Hann svaraði: ,Það vil ég ekki.` En eftir á sá hann sig um hönd og fór.

30 Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: ,Já, herra,` en fór hvergi.

31 Hvor þeirra tveggja gjörði vilja föðurins?" Þeir svara: "Sá fyrri." Þá mælti Jesús: "Sannlega segi ég yður: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan yður inn í Guðs ríki.

32 Því að Jóhannes kom til yðar og vísaði veg réttlætis, og þér trúðuð honum ekki, en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum. Það sáuð þér, en snerust samt ekki síðar og trúðuð honum.

33 Heyrið aðra dæmisögu: Landeigandi nokkur plantaði víngarð. Hann hlóð garð um hann, gróf fyrir vínþröng og reisti turn, seldi hann síðan vínyrkjum á leigu og fór úr landi.

34 Þegar ávaxtatíminn nálgaðist, sendi hann þjóna sína til vínyrkjanna að fá ávöxt sinn.

35 En vínyrkjarnir tóku þjóna hans, börðu einn, drápu annan og grýttu hinn þriðja.

36 Aftur sendi hann aðra þjóna, fleiri en þá fyrri, og eins fóru þeir með þá.

37 Síðast sendi hann til þeirra son sinn og sagði: "Þeir munu virða son minn.

38 Þegar vínyrkjarnir sáu soninn, sögðu þeir sín á milli: ,Þetta er erfinginn. Förum og drepum hann, og náum arfi hans.`

39 Og þeir tóku hann, köstuðu honum út fyrir víngarðinn og drápu hann.

40 Hvað mun nú eigandi víngarðsins gjöra við vínyrkja þessa, þegar hann kemur?"

41 Þeir svara: "Þeim vondu mönnum mun hann vægðarlaust tortíma og selja víngarðinn öðrum vínyrkjum á leigu, sem gjalda honum ávöxtinn á réttum tíma."

42 Og Jesús segir við þá: "Hafið þér aldrei lesið í ritningunum: Sá steinn, sem smiðirnir höfnuðu, er orðinn hyrningarsteinn. Þetta er verk Drottins, og undursamlegt er það í augum vorum.

43 Þess vegna segi ég yður: Guðs ríki verður frá yður tekið og gefið þeirri þjóð, sem ber ávexti þess. [

44 Sá sem fellur á þennan stein, mun sundur molast, og þann sem hann fellur á, mun hann sundur merja.]"

45 Þegar æðstu prestarnir og farísearnir heyrðu dæmisögur hans, skildu þeir, að hann átti við þá.

46 Þeir vildu taka hann höndum, en óttuðust fólkið, þar eð menn töldu hann vera spámann.

Nehemíabók 11

11 Höfðingjar lýðsins settust að í Jerúsalem, en hinir af lýðnum vörpuðu hlutkesti til þess að flytja einn af hverjum tíu inn, að hann tæki sér bústað í Jerúsalem, borginni helgu, en hinir níu tíundupartarnir bjuggu í borgunum.

Og lýðurinn blessaði alla þá menn, sem sjálfviljuglega réðu af að búa í Jerúsalem.

Þessir eru höfðingjar skattlandsins, þeir er bjuggu í Jerúsalem og í Júdaborgum _ þeir bjuggu í borgum sínum, hver á eign sinni: Ísrael, prestarnir, levítarnir, musterisþjónarnir og niðjar þræla Salómons.

Í Jerúsalem bjuggu bæði Júdamenn og Benjamínítar. Af Júdamönnum: Ataja Ússíason, Sakaríasonar, Amarjasonar, Sefatjasonar, Mahalaleelssonar, af niðjum Peres,

og Maaseja Barúksson, Kol-Hósesonar, Hasajasonar, Adajasonar, Jójaríbssonar, Sakaríasonar, sonar Sílónítans.

Allir niðjar Peres, þeir er bjuggu í Jerúsalem, voru samtals 468 vopnfærir menn.

Af Benjamínítum: Sallú Mesúllamsson, Jóedssonar, Pedajasonar, Kólajasonar, Maasejasonar, Ítíelssonar, Jesajasonar,

og eftir honum Gabbaí Sallaí, samtals 928.

Jóel Síkríson var yfirmaður þeirra, og Júda Hasnúason var annar maður æðstur yfir borginni.

10 Af prestunum: Jedaja, Jójaríb, Jakín,

11 Seraja Hilkíason, Mesúllamssonar, Sadókssonar, Merajótssonar, Ahítúbssonar, höfuðsmaður yfir musteri Guðs,

12 og bræður þeirra, sem önnuðust störfin við musterið, samtals 822, og Adaja Jeróhamsson, Pelaljasonar, Amsísonar, Sakaríasonar, Pashúrssonar, Malkíasonar,

13 og bræður hans, ætthöfðingjar, samtals 242, og Amassaí Asareelsson, Ahsaísonar, Mesillemótssonar, Immerssonar,

14 og bræður þeirra, dugandi menn, samtals 128. Yfirmaður þeirra var Sabdíel Haggedólímsson.

15 Af levítunum: Semaja Hassúbsson, Asríkamssonar, Hasabjasonar, Búnnísonar,

16 og Sabtaí og Jósabad, sem settir voru yfir utanhússverkin við musteri Guðs og báðir af flokki levítahöfðingjanna,

17 og Mattanja Míkason, Sabdísonar, Asafssonar, forsöngvarinn, sá er byrjaði lofsönginn við bænagjörðina, og Bakbúkja, annar maður æðstur af bræðrum hans, og Abda Sammúason, Galalssonar, Jedútúnssonar,

18 allir levítarnir í borginni helgu samtals 284.

19 Hliðverðirnir: Akkúb, Talmón og bræður þeirra, þeir er héldu vörð við hliðin, samtals 172.

20 Aðrir Ísraelsmenn, prestarnir og levítarnir, bjuggu í öllum hinum borgum Júda, hver á eign sinni.

21 Musterisþjónarnir bjuggu á Ófel, og Síha og Gispa voru settir yfir musterisþjónana.

22 Yfirmaður levítanna í Jerúsalem var Ússí Baníson, Hasabjasonar, Mattanjasonar, Míkasonar, af niðjum Asafs, söngvurunum við þjónustuna í musteri Guðs.

23 Því að konungleg skipun hafði verið gefin út um þá, og var visst gjald ákveðið handa söngvurunum, það er þeir þurftu með á degi hverjum.

24 Petaja Mesesabeelsson, einn af niðjum Sera Júdasonar, var umboðsmaður konungsins í öllu því, er lýðinn varðaði.

25 Að því er snertir þorpin í sveitum þeirra, þá bjuggu nokkrir af Júdamönnum í Kirjat Arba og smáborgunum þar í kring, í Díbon og smáborgunum þar í kring, í Jekabeel og þorpunum þar í kring,

26 í Jesúa, í Mólada, í Bet Pelet,

27 í Hasar Súal og í Beerseba og smáborgunum þar í kring,

28 í Siklag og í Mekóna og smáborgunum þar í kring,

29 í En Rimmon, í Sorea, í Jarmút,

30 Sanóa, Adúllam og þorpunum þar í kring, í Lakís og sveitunum þar í kring, í Aseka og smáborgunum þar í kring. Þeir höfðu tekið sér bólfestu frá Beerseba allt norður að Hinnomsdal.

31 Benjamínítar bjuggu allt frá Geba, í Mikmas, Aja, Betel og smáborgunum þar í kring,

32 í Anatót, Nób, Ananja,

33 Hasór, Rama, Gittaím,

34 Hadíd, Sebóím, Neballat,

35 Lód og Ónó, í Smiðadal.

36 Og af levítunum bjuggu sumar Júda-deildirnar í Benjamín.

Postulasagan 21

21 Þegar vér höfðum slitið oss frá þeim, létum vér í haf og héldum beina leið til Kós, næsta dag til Ródus og þaðan til Patara.

Þar hittum vér á skip, er fara átti til Fönikíu. Stigum vér á það og létum í haf.

Vér höfðum landsýn af Kýpur, létum hana á bakborða og sigldum til Sýrlands og tókum höfn í Týrus. Þar átti skipið að leggja upp farminn.

Vér fundum lærisveinana og dvöldumst þar sjö daga. Þeir sögðu Páli af gift andans, að hann skyldi ekki halda áfram til Jerúsalem.

Að þessum dögum liðnum lögðum vér af stað. Fylgdu þeir oss allir á veg með konum og börnum út fyrir borgina. Vér féllum á kné í fjörunni og báðumst fyrir.

Þar kvöddumst vér. Vér stigum á skip, en hinir sneru aftur heim til sín.

Vér komum til Ptólemais frá Týrus og lukum þar sjóferðinni. Vér heilsuðum bræðrunum og dvöldumst hjá þeim einn dag.

Daginn eftir fórum vér þaðan og komum til Sesareu, gengum inn í hús Filippusar trúboða, sem var einn af þeim sjö, og dvöldumst hjá honum.

Hann átti fjórar ógiftar dætur, gæddar spádómsgáfu.

10 Þegar vér höfðum dvalist þar nokkra daga, kom spámaður einn ofan frá Júdeu, Agabus að nafni.

11 Hann kom til vor, tók belti Páls, batt fætur sína og hendur og mælti: "Svo segir heilagur andi: ,Þannig munu Gyðingar í Jerúsalem binda þann mann, sem þetta belti á, og selja hann í hendur heiðingjum."`

12 Þegar vér heyrðum þetta, lögðum vér og heimamenn að Páli að fara ekki upp til Jerúsalem.

13 En hann sagði: "Hví grátið þér og hrellið hjarta mitt? Ég er eigi aðeins reiðubúinn að láta binda mig, heldur og að deyja í Jerúsalem fyrir nafn Drottins Jesú."

14 Honum varð eigi talið hughvarf. Þá létum vér kyrrt og sögðum: "Verði Drottins vilji."

15 Að þessum dögum liðnum bjuggumst vér til ferðar og héldum upp til Jerúsalem.

16 Nokkrir lærisveinar frá Sesareu urðu oss samferða. Þeir fóru með oss til Mnasons nokkurs frá Kýpur, lærisveins frá elstu tíð, og skyldum vér gista hjá honum.

17 Þegar vér komum til Jerúsalem, tóku bræðurnir oss feginsamlega.

18 Næsta dag gekk Páll með oss til Jakobs, og allir öldungarnir komu þangað.

19 Páll heilsaði þeim og lýsti síðan nákvæmlega öllu, sem Guð hafði gjört meðal heiðingjanna með þjónustu hans.

20 Þeir vegsömuðu Guð fyrir það, sem þeir heyrðu, og sögðu við hann: "Þú sérð, bróðir hve margir tugir þúsunda það eru meðal Gyðinga, sem trú hafa tekið, og allir eru þeir vandlátir um lögmálið.

21 En þeim hefur verið sagt, að þú kennir öllum Gyðingum, sem eru meðal heiðingja, að hverfa frá Móse og segir, að þeir skuli hvorki umskera börn sín né fylgja siðum vorum.

22 Hvað á nú að gjöra? Víst mun það spyrjast, að þú ert kominn.

23 Gjör því þetta, sem vér nú segjum þér. Hjá oss eru fjórir menn, sem heit hvílir á.

24 Tak þá með þér, lát hreinsast með þeim og ber kostnaðinn fyrir þá, að þeir geti látið raka höfuð sín. Þá mega allir sjá, að ekkert er hæft í því, sem þeim hefur verið sagt um þig, heldur gætir þú lögmálsins sjálfur í breytni þinni.

25 En um heiðingja, sem trú hafa tekið, höfum vér gefið út bréf og ályktað, að þeir skuli varast kjöt fórnað skurðgoðum, blóð, kjöt af köfnuðum dýrum og saurlifnað."

26 Páll tók að sér mennina og lét hreinsast með þeim daginn eftir. Síðan gekk hann inn í helgidóminn og gjörði kunnugt, hvenær hreinsunardagarnir væru á enda og fórnin fyrir hvern þeirra skyldi fram borin.

27 Þegar dagarnir sjö voru nær liðnir, sáu Gyðingar frá Asíu Pál í helgidóminum. Þeir komu öllu fólkinu í uppnám, lögðu hendur á hann

28 og hrópuðu: "Ísraelsmenn, veitið nú lið. Þetta er maðurinn, sem alls staðar kennir öllum það, sem er andstætt lýðnum, lögmálinu og þessum stað. Og nú hefur hann auk heldur farið með Grikki inn í helgidóminn og saurgað þennan heilaga stað."

29 En þeir höfðu áður séð Trófímus frá Efesus með honum í borginni og hugðu, að Páll hefði farið með hann inn í helgidóminn.

30 Öll borgin varð uppvæg, fólk þusti að, þeir tóku Pál og drógu hann út úr helgidóminum. Jafnskjótt var dyrunum læst.

31 Þeir ætluðu að lífláta hann, en hersveitarforingjanum var tjáð, að öll Jerúsalem væri í uppnámi.

32 Hann brá við og tók með sér hermenn og hundraðshöfðingja og hljóp niður til þeirra. Þegar þeir sáu hersveitarforingjann og hermennina, hættu þeir að berja Pál.

33 Hersveitarforinginn kom þá að, tók hann og skipaði að binda hann tvennum fjötrum og spurði, hver hann væri og hvað hann hefði gjört.

34 En sitt kallaði hver í mannfjöldanum. Þegar hann gat ekki orðið neins vísari sökum óróans, bauð hann að fara með hann upp í kastalann.

35 Þegar komið var að þrepunum, urðu hermennirnir að bera hann vegna ofsans í fólkinu,

36 en múgur manns fylgdi eftir og æpti: "Burt með hann!"

37 Um leið og fara átti með Pál inn í kastalann, segir hann við hersveitarforingjann: "Leyfist mér að tala nokkur orð við þig?" Hann svaraði: "Kannt þú grísku?

38 Ekki ert þú þá Egyptinn, sem æsti til uppreisnar á dögunum og fór með morðvargana fjögur þúsund út í óbyggðir."

39 Páll sagði: "Ég er Gyðingur, frá Tarsus í Kilikíu, borgari í ekki ómerkum bæ. Ég bið þig, leyf mér að tala til fólksins."

40 Hann leyfði það. Páll bandaði hendi til fólksins, þar sem hann stóð á þrepunum. Þegar hann hafði fengið gott hljóð, mælti hann til þeirra á hebreska tungu:

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society