M’Cheyne Bible Reading Plan
21 Drottinn vitjaði Söru, eins og hann hafði lofað, og Drottinn gjörði við Söru eins og hann hafði sagt.
2 Og Sara varð þunguð og fæddi Abraham son í elli hans, um þær mundir, sem Guð hafði sagt honum.
3 Og Abraham gaf nafn syni sínum, þeim er honum fæddist, sem Sara fæddi honum, og kallaði hann Ísak.
4 Abraham umskar Ísak son sinn, þá er hann var átta daga gamall, eins og Guð hafði boðið honum.
5 En Abraham var hundrað ára gamall, þegar Ísak sonur hans fæddist honum.
6 Sara sagði: "Guð hefir gjört mig að athlægi. Hver sem heyrir þetta, mun hlæja að mér."
7 Og hún mælti: "Hver skyldi hafa sagt við Abraham, að Sara mundi hafa börn á brjósti, og þó hefi ég alið honum son í elli hans."
8 Sveinninn óx og var vaninn af brjósti, og Abraham gjörði mikla veislu þann dag, sem Ísak var tekinn af brjósti.
9 En Sara sá son Hagar hinnar egypsku, er hún hafði fætt Abraham, að leik með Ísak, syni hennar.
10 Þá sagði hún við Abraham: "Rek þú burt ambátt þessa og son hennar, því að ekki skal sonur þessarar ambáttar taka arf með syni mínum, með Ísak."
11 En Abraham sárnaði þetta mjög vegna sonar síns.
12 Þá sagði Guð við Abraham: "Lát þig ekki taka sárt til sveinsins og ambáttar þinnar. Hlýð þú Söru í öllu því, er hún segir þér, því að afkomendur þínir munu verða kenndir við Ísak.
13 En ég mun einnig gjöra ambáttarsoninn að þjóð, því að hann er þitt afkvæmi."
14 Og Abraham reis árla næsta morgun, tók brauð og vatnsbelg og fékk Hagar, en sveininn lagði hann á herðar henni og lét hana í burtu fara. Hún hélt þá af stað og reikaði um eyðimörkina Beerseba.
15 En er vatnið var þrotið á leglinum, lagði hún sveininn inn undir einn runnann.
16 Því næst gekk hún burt og settist þar gegnt við, svo sem í örskots fjarlægð, því að hún sagði: "Ég get ekki horft á að barnið deyi." Og hún settist þar gegnt við og tók að gráta hástöfum.
17 En er Guð heyrði hljóð sveinsins, þá kallaði engill Guðs til Hagar af himni og mælti til hennar: "Hvað gengur að þér, Hagar? Vertu óhrædd, því að Guð hefir heyrt til sveinsins, þar sem hann liggur.
18 Statt þú upp, reistu sveininn á fætur og leiddu hann þér við hönd, því að ég mun gjöra hann að mikilli þjóð."
19 Og Guð lauk upp augum hennar, svo að hún sá vatnsbrunn. Fór hún þá og fyllti belginn vatni og gaf sveininum að drekka.
20 Og Guð var með sveininum, og hann óx upp og hafðist við í eyðimörkinni og gjörðist bogmaður.
21 Og hann hafðist við í Paraneyðimörk, og móðir hans tók honum konu af Egyptalandi.
22 Um sömu mundir bar svo til, að Abímelek og hershöfðingi hans Píkól mæltu þannig við Abraham: "Guð er með þér í öllu, sem þú gjörir.
23 Vinn mér nú eið að því hér við Guð, að þú skulir eigi breyta sviksamlega, hvorki við mig né afkomendur mína. Þú skalt auðsýna mér og landinu, sem þú dvelst í sem útlendingur, hina sömu góðsemi og ég hefi auðsýnt þér."
24 Og Abraham mælti: "Ég skal vinna þér eið að því."
25 En Abraham átaldi Abímelek fyrir vatnsbrunninn, sem þrælar Abímeleks höfðu tekið með ofríki.
26 Þá sagði Abímelek: "Ekki veit ég, hver það hefir gjört. Hvorki hefir þú sagt mér það né hefi ég heldur heyrt það fyrr en í dag."
27 Þá tók Abraham sauði og naut og gaf Abímelek, og þeir gjörðu sáttmála sín í milli.
28 Og Abraham tók frá sjö gimbrar af hjörðinni.
29 Þá mælti Abímelek til Abrahams: "Hvað skulu þessar sjö gimbrar, sem þú hefir tekið frá?"
30 Hann svaraði: "Við þessum sjö gimbrum skalt þú taka af minni hendi, til vitnis um að ég hefi grafið þennan brunn."
31 Þess vegna heitir sá staður Beerseba, af því að þeir sóru þar báðir.
32 Þannig gjörðu þeir sáttmála í Beerseba. Síðan tók Abímelek sig upp og Píkól hershöfðingi hans og sneru aftur til Filistalands.
33 Abraham gróðursetti tamarisk-runn í Beerseba og ákallaði þar nafn Drottins, Hins Eilífa Guðs.
34 Og Abraham dvaldist lengi í Filistalandi.
20 Líkt er um himnaríki og húsbónda einn, sem gekk út árla morguns að ráða verkamenn í víngarð sinn.
2 Hann samdi við verkamennina um denar í daglaun og sendi þá í víngarð sinn.
3 Síðan gekk hann út um dagmál og sá aðra menn standa á torginu iðjulausa.
4 Hann sagði við þá: ,Farið þér einnig í víngarðinn, og ég mun greiða yður sanngjörn laun.`
5 Þeir fóru. Aftur gekk hann út um hádegi og nón og gjörði sem fyrr.
6 Og síðdegis fór hann enn út og sá menn standa þar. Hann spyr þá: ,Hví hímið þér hér iðjulausir allan daginn?`
7 Þeir svara: ,Enginn hefur ráðið oss.` Hann segir við þá: ,Farið þér einnig í víngarðinn.`
8 Þegar kvöld var komið, sagði eigandi víngarðsins við verkstjóra sinn: ,Kalla þú á verkamennina og greið þeim kaupið. Þú skalt byrja á þeim síðustu og enda á þeim fyrstu.`
9 Nú komu þeir, sem ráðnir voru síðdegis, og fengu hver sinn denar.
10 Þegar þeir fyrstu komu, bjuggust þeir við að fá meira, en fengu sinn denarinn hver.
11 Þeir tóku við honum og fóru að mögla gegn húsbónda sínum.
12 Þeir sögðu: ,Þessir síðustu hafa unnið aðeins eina stund, og þú gjörir þá jafna oss, er höfum borið hita og þunga dagsins.`
13 Hann sagði þá við einn þeirra: ,Vinur, ekki gjöri ég þér rangt til, sömdum við ekki um einn denar?
14 Taktu þitt og farðu leiðar þinnar. Ég vil gjalda þessum síðasta eins og þér.
15 Er ég ekki sjálfur fjár míns ráðandi? Eða sérðu ofsjónum yfir því, að ég er góðgjarn?`
16 Þannig verða hinir síðustu fyrstir og hinir fyrstu síðastir."
17 Jesús hélt nú upp til Jerúsalem, og á leiðinni tók hann þá tólf afsíðis og sagði við þá:
18 "Nú förum vér upp til Jerúsalem. Þar verður Mannssonurinn framseldur æðstu prestum og fræðimönnum. Þeir munu dæma hann til dauða
19 og framselja hann heiðingjum, að þeir hæði hann, húðstrýki og krossfesti. En á þriðja degi mun hann upp rísa."
20 Þá kom til hans móðir þeirra Sebedeussona með sonum sínum, laut honum og vildi biðja hann bónar.
21 Hann spyr hana: "Hvað viltu?" Hún segir: "Lát þú þessa tvo syni mína sitja þér við hlið í ríki þínu, annan til hægri handar þér og hinn til vinstri."
22 Jesús svarar: "Þið vitið ekki, hvers þið biðjið. Getið þið drukkið þann kaleik, sem ég á að drekka?" Þeir segja við hann: "Það getum við."
23 Hann segir við þá: "Kaleik minn munuð þið drekka. En mitt er ekki að veita, hver situr mér til hægri handar eða vinstri. Það veitist þeim, sem það er fyrirbúið af föður mínum."
24 Þegar hinir tíu heyrðu þetta, gramdist þeim við bræðurna tvo.
25 En Jesús kallaði þá til sín og mælti: "Þér vitið, að þeir, sem ráða fyrir þjóðum, drottna yfir þeim, og höfðingjar láta menn kenna á valdi sínu.
26 En eigi sé svo meðal yðar, heldur sé sá, sem mikill vill verða meðal yðar, þjónn yðar.
27 Og sá er vill fremstur vera meðal yðar, sé þræll yðar,
28 eins og Mannssonurinn er ekki kominn til þess að láta þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir marga."
29 Þegar þeir fóru frá Jeríkó, fylgdi honum mikill mannfjöldi.
30 Tveir menn blindir sátu þar við veginn. Þegar þeir heyrðu, að þar færi Jesús, hrópuðu þeir: "Herra, miskunna þú okkur, sonur Davíðs!"
31 Fólkið hastaði á þá, að þeir þegðu, en þeir hrópuðu því meir: "Herra, miskunna þú okkur, sonur Davíðs!"
32 Jesús nam staðar, kallaði á þá og sagði: "Hvað viljið þið að ég gjöri fyrir ykkur?"
33 Þeir mæltu: "Herra, lát augu okkar opnast."
34 Jesús kenndi í brjósti um þá og snart augu þeirra. Jafnskjótt fengu þeir sjónina og fylgdu honum.
10 Á hinum innsigluðu skjölum stóðu: Nehemía landstjóri Hakalíason og Sedekía,
2 Seraja, Asarja, Jeremía,
3 Pashúr, Amarja, Malkía,
4 Hattús, Sebanja, Mallúk,
5 Harím, Meremót, Óbadía,
6 Daníel, Ginnetón, Barúk,
7 Mesúllam, Abía, Míjamín,
8 Maasja, Bilgaí, Semaja, _ þetta voru prestarnir.
9 Levítarnir: Jesúa Asanjason, Binnúí, einn af niðjum Henadads, Kadmíel,
10 og bræður þeirra: Sebanja, Hódía, Kelíta, Pelaja, Hanan,
11 Míka, Rehób, Hasabja,
12 Sakkúr, Serebja, Sebanja,
13 Hódía, Baní, Benínú.
14 Höfðingjar lýðsins: Parós, Pahat Móab, Elam, Sattú, Baní,
15 Búní, Asgad, Bebaí,
16 Adónía, Bigvaí, Adín,
17 Ater, Hiskía, Assúr,
18 Hódía, Hasúm, Besaí,
19 Haríf, Anatót, Nóbaí,
20 Magpías, Mesúllam, Hesír,
21 Mesesabeel, Sadók, Jaddúa,
22 Pelatja, Hanan, Anaja,
23 Hósea, Hananja, Hassúb,
24 Hallóhes, Pílha, Sóbek,
25 Rehúm, Hasabna, Maaseja,
26 Ahía, Hanan, Anan,
27 Mallúk, Harím og Baana.
28 Og hinir af lýðnum _ prestarnir, levítarnir, hliðverðirnir, söngvararnir, musterisþjónarnir og allir þeir, sem skilið höfðu sig frá hinum heiðnu íbúum landsins og gengist undir lögmál Guðs, konur þeirra, synir og dætur, allir þeir er komnir voru til vits og ára,
29 _ gengu í flokk með bræðrum sínum, göfugmennum þeirra, og bundu það eiðum og svardögum, að þeir skyldu breyta eftir lögmáli Guðs, því er gefið var fyrir Móse, þjón Guðs, og varðveita og halda öll boðorð Drottins, herra vors, og skipanir hans og lög:
30 Að vér skyldum ekki gifta dætur vorar hinum heiðnu íbúum landsins, né heldur taka dætur þeirra sonum vorum til handa.
31 Enn fremur, að þegar hinir heiðnu íbúar landsins kæmu með torgvörur og alls konar korn á hvíldardegi til sölu, þá skyldum vér eigi kaupa það af þeim á hvíldardegi eða öðrum helgum degi. Og að vér skyldum láta landið hvílast sjöunda árið og gefa upp öll veðlán.
32 Enn fremur lögðum vér á oss þá föstu kvöð að gefa þriðjung sikils á ári til þjónustunnar í musteri Guðs vors,
33 til raðsettu brauðanna, hinnar stöðugu matfórnar og hinnar stöðugu brennifórnar, til fórnanna á hvíldardögum og tunglkomudögum, til hátíðafórnanna, þakkarfórnanna og syndafórnanna, til þess að friðþægja fyrir Ísrael, og til allra starfa í musteri Guðs vors.
34 Og vér, prestarnir, levítarnir og lýðurinn vörpuðum hlutum um viðargjöfina, um að færa viðinn í musteri Guðs vors eftir ættum vorum á tilteknum tíma á ári hverju til þess að brenna honum á altari Drottins Guðs vors, eins og fyrir er mælt í lögmálinu.
35 Vér skuldbundum oss og til að færa frumgróða akurlands vors og frumgróða allra aldina af hvers konar trjám á ári hverju í musteri Drottins,
36 og sömuleiðis frumburði sona vorra og fénaðar, eins og fyrir er mælt í lögmálinu, og að færa frumburði nauta vorra og sauðfjár í musteri Guðs vors, til prestanna, er gegna þjónustu í musteri Guðs vors.
37 Frumgróðann af deigi voru og fórnargjöfum vorum og aldinum allra trjáa, aldinlegi og olíu viljum vér og færa prestunum inn í herbergi musteris Guðs vors og levítunum tíund af akurlandi voru, því að þeir, levítarnir, heimta saman tíundina í öllum akuryrkjuborgum vorum.
38 Og prestur, Aronsniðji, skal vera hjá levítunum, þá er þeir heimta saman tíundina, og levítarnir skulu færa tíund tíundarinnar upp í musteri Guðs vors, inn í herbergi féhirslunnar.
39 Því að í þessi herbergi skulu Ísraelsmenn og levítarnir færa fórnargjöf korns og aldinlagar og olífuolíu, þar eð hin helgu ker, prestarnir, er þjónustu gegna, hliðverðirnir og söngvararnir eru þar. Og eigi viljum vér yfirgefa musteri Guðs vors.
20 Þegar þessum látum linnti, sendi Páll eftir lærisveinunum, uppörvaði þá og kvaddi síðan og lagði af stað til Makedóníu.
2 Hann fór nú um þau héruð og uppörvaði menn með mörgum orðum. Síðan hélt hann til Grikklands.
3 Dvaldist hann þar þrjá mánuði. Þá bjóst hann til að sigla til Sýrlands, en þar eð Gyðingar brugguðu honum launráð, tók hann til bragðs að hverfa aftur um Makedóníu.
4 Í för með honum voru þeir Sópater Pýrrusson frá Beroju, Aristarkus og Sekúndus frá Þessaloníku, Gajus frá Derbe, Tímóteus og Asíumennirnir Týkíkus og Trófímus.
5 Þeir fóru á undan og biðu vor í Tróas.
6 En vér sigldum eftir daga ósýrðu brauðanna frá Filippí og komum til þeirra í Tróas á fimmta degi. Þar stóðum vér við í sjö daga.
7 Fyrsta dag vikunnar, er vér vorum saman komnir til að brjóta brauðið, talaði Páll til þeirra. Hann var á förum daginn eftir. Entist ræða hans allt til miðnættis.
8 Mörg ljós voru í loftstofunni, þar sem vér vorum saman komnir.
9 Ungmenni eitt, Evtýkus að nafni, sat í glugganum. Seig á hann svefnhöfgi, er Páll ræddi svo lengi, og féll hann sofandi ofan af þriðja lofti. Hann var liðinn, þegar hann var tekinn upp.
10 Páll gekk ofan, varpaði sér yfir hann, tók utan um hann og sagði: "Verið stilltir, það er líf með honum."
11 Fór hann síðan upp, braut brauðið og neytti og talaði enn lengi, allt fram í dögun. Að svo búnu hélt hann brott.
12 En þeir fóru með sveininn lifandi og hugguðust mikillega.
13 Vér fórum á undan til skips og sigldum til Assus. Þar ætluðum vér að taka Pál. Svo hafði hann fyrir lagt, því hann vildi fara landveg.
14 Þegar hann hafði hitt oss í Assus, tókum vér hann á skip og héldum til Mitýlene.
15 Þaðan sigldum vér daginn eftir og komumst til móts við Kíos. Á öðrum degi fórum vér til Samos og komum næsta dag til Míletus.
16 En Páll hafði sett sér að sigla fram hjá Efesus, svo að hann tefðist ekki í Asíu. Hann hraðaði ferð sinni, ef verða mætti, að hann kæmist til Jerúsalem á hvítasunnudag.
17 Frá Míletus sendi hann til Efesus og boðaði til sín öldunga safnaðarins.
18 Þegar þeir komu til hans, sagði hann við þá: "Þér vitið, hvernig ég hef hagað mér hjá yður alla tíð frá þeim degi, er ég kom fyrst til Asíu.
19 Ég þjónaði Drottni í allri auðmýkt, með tárum og í raunum, sem að mér hafa steðjað af launráðum Gyðinga.
20 Þér vitið, að ég dró ekkert undan, sem yður mátti að gagni verða, heldur boðaði yður það og kenndi opinberlega og í heimahúsum
21 og vitnaði bæði fyrir Gyðingum og Grikkjum um afturhvarf til Guðs og trú á Drottin vorn Jesú.
22 Og nú er ég á leið til Jerúsalem, knúinn af andanum. Ekki veit ég, hvað þar mætir mér,
23 nema að heilagur andi birtir mér í hverri borg, að fjötrar og þrengingar bíði mín.
24 En mér er líf mitt einskis virði, fái ég aðeins að fullna skeið mitt og þá þjónustu, sem Drottinn Jesús fól mér: Að bera vitni fagnaðarerindinu um Guðs náð.
25 Nú veit ég, að þér munuð ekki framar sjá mig, engir þér, sem ég hef komið til og boðað ríkið.
26 Þess vegna vitna ég fyrir yður nú í dag, að ekki er mig um að saka, þótt einhver glatist,
27 því að ég hef boðað yður allt Guðs ráð og ekkert dregið undan.
28 Hafið gát á sjálfum yður og allri hjörðinni, sem heilagur andi fól yður til umsjónar. Verið hirðar Guðs kirkju, sem hann hefur unnið sér með sínu eigin blóði.
29 Ég veit, að skæðir vargar munu koma inn á yður, þegar ég er farinn, og eigi þyrma hjörðinni.
30 Og úr hópi sjálfra yðar munu koma fram menn, sem flytja rangsnúna kenningu til að tæla lærisveinana á eftir sér.
31 Vakið því og verið þess minnugir, að ég áminnti stöðugt sérhvern yðar með tárum dag og nótt í þrjú ár.
32 Og nú fel ég yður Guði og orði náðar hans, sem máttugt er að uppbyggja yður og gefa yður arfleifð með öllum þeim, sem helgaðir eru.
33 Eigi girntist ég silfur né gull né klæði nokkurs manns.
34 Sjálfir vitið þér, að þessar hendur unnu fyrir öllu því, er ég þurfti með og þeir, er með mér voru.
35 Í öllu sýndi ég yður, að með því að vinna þannig ber oss að annast óstyrka og minnast orða Drottins Jesú, að hann sjálfur sagði: ,Sælla er að gefa en þiggja."`
36 Þegar hann hafði þetta mælt, féll hann á kné og baðst fyrir ásamt þeim öllum.
37 Allir tóku að gráta sáran, féllu um háls Páli og kysstu hann.
38 Mest varð þeim um þau orð hans, að þeir mundu aldrei framar sjá hann. Síðan fylgdu þeir honum til skips.
by Icelandic Bible Society