M’Cheyne Bible Reading Plan
20 Nú flutti Abraham sig þaðan til Suðurlandsins og settist að milli Kades og Súr og dvaldist um hríð í Gerar.
2 Og Abraham sagði um Söru konu sína: "Hún er systir mín." Þá sendi Abímelek konungur í Gerar menn og lét sækja Söru.
3 En Guð kom til Abímeleks í draumi um nóttina og sagði við hann: "Sjá, þú skalt deyja vegna konu þeirrar, sem þú hefir tekið, því að hún er gift kona."
4 En Abímelek hafði ekki komið nærri henni. Og hann sagði: "Drottinn, munt þú einnig vilja deyða saklaust fólk?
5 Hefir hann ekki sagt við mig: ,Hún er systir mín`? og hún sjálf hefir einnig sagt: ,Hann er bróðir minn?` Í einlægni hjarta míns og með hreinum höndum hefi ég gjört þetta."
6 Og Guð sagði við hann í draumnum: "Víst veit ég, að þú gjörðir þetta í einlægni hjarta þíns, og ég hefi einnig varðveitt þig frá að syndga gegn mér. Fyrir því leyfði ég þér ekki að snerta hana.
7 Fá því nú manninum konu hans aftur, því að hann er spámaður, og mun hann biðja fyrir þér, að þú megir lífi halda. En ef þú skilar henni ekki aftur, þá skalt þú vita, að þú munt vissulega deyja, þú og allir, sem þér tilheyra."
8 Abímelek reis árla um morguninn og kallaði til sín alla þjóna sína og greindi þeim frá öllu þessu. Og mennirnir urðu mjög óttaslegnir.
9 Og Abímelek lét kalla Abraham til sín og sagði við hann: "Hvað hefir þú gjört oss? Og hvað hefi ég misgjört við þig, að þú skyldir leiða svo stóra synd yfir mig og ríki mitt? Verk, sem enginn skyldi fremja, hefir þú framið gegn mér."
10 Og Abímelek sagði við Abraham: "Hvað gekk þér til að gjöra þetta?"
11 Þá mælti Abraham: "Ég hugsaði: ,Vart mun nokkur guðsótti vera á þessum stað, og þeir munu drepa mig vegna konu minnar.`
12 Og þar að auki er hún sannlega systir mín, samfeðra, þótt eigi séum við sammæðra, og hún varð kona mín.
13 Og þegar Guð lét mig fara úr húsi föður míns, sagði ég við hana: ,Þessa góðsemi verður þú að sýna mér: Hvar sem við komum, þá segðu um mig: Hann er bróðir minn."`
14 Þá tók Abímelek sauði, naut, þræla og ambáttir og gaf Abraham og fékk honum aftur Söru konu hans.
15 Og Abímelek sagði: "Sjá, land mitt stendur þér til boða. Bú þú þar sem þér best líkar."
16 Og við Söru sagði hann: "Sjá, ég gef bróður þínum þúsund sikla silfurs. Sjá, það sé þér uppreist í augum allra þeirra, sem með þér eru, og ert þú þannig réttlætt fyrir öllum."
17 Og Abraham bað til Guðs fyrir honum, og Guð læknaði Abímelek og konu hans og ambáttir, svo að þær ólu börn.
18 Því að Drottinn hafði lokað sérhverjum móðurkviði í húsi Abímeleks sakir Söru, konu Abrahams.
19 Þegar Jesús hafði mælt þessum orðum, fór hann úr Galíleu og hélt til byggða Júdeu handan Jórdanar.
2 Fjöldi manna fylgdi honum, og þar læknaði hann þá.
3 Þá komu til hans farísear og vildu freista hans. Þeir spurðu: "Leyfist manni að skilja við konu sína fyrir hvaða sök sem er?"
4 Hann svaraði: "Hafið þér eigi lesið, að skaparinn gjörði þau frá upphafi karl og konu
5 og sagði: ,Fyrir því skal maður yfirgefa föður og móður og bindast konu sinni, og þau tvö skulu verða einn maður.`
6 Þannig eru þau ekki framar tvö, heldur einn maður. Það sem Guð hefur tengt saman, má maður eigi sundur skilja."
7 Þeir segja við hann: "Hvers vegna bauð þá Móse að gefa konu skilnaðarbréf og skilja svo við hana?"
8 Hann svarar: "Vegna harðúðar hjartna yðar leyfði Móse yður að skilja við konur yðar, en frá upphafi var þetta eigi þannig.
9 Ég segi yður: Sá sem skilur við konu sína nema sakir hórdóms og kvænist annarri, drýgir hór."
10 Þá sögðu lærisveinar hans: "Fyrst svo er háttað stöðu karls gagnvart konu, þá er ekki vænlegt að kvænast."
11 Hann svaraði þeim: "Þetta er ekki á allra færi, heldur þeirra einna, sem það er gefið.
12 Sumir eru vanhæfir til hjúskapar frá móðurlífi, sumir eru vanhæfir gjörðir af manna völdum, sumir hafa sjálfir gjört sig vanhæfa vegna himnaríkis. Sá höndli, sem höndlað fær."
13 Þá færðu menn til hans börn, að hann legði hendur yfir þau og bæði fyrir þeim, en lærisveinar hans átöldu þá.
14 En Jesús sagði: "Leyfið börnunum að koma til mín, varnið þeim eigi, því að slíkra er himnaríki."
15 Og hann lagði hendur yfir þau og fór þaðan.
16 Þá kom til hans maður og spurði: "Meistari, hvað gott á ég að gjöra til þess að öðlast eilíft líf?"
17 Jesús sagði við hann: "Hví spyr þú mig um hið góða? Einn er sá hinn góði. Ef þú vilt inn ganga til lífsins, þá haltu boðorðin."
18 Hann spurði: "Hver?" Jesús sagði: "Þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki bera ljúgvitni,
19 heiðra föður þinn og móður, og þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig."
20 Þá sagði ungi maðurinn: "Alls þessa hef ég gætt. Hvers er mér enn vant?"
21 Jesús sagði við hann: "Ef þú vilt vera fullkominn, skaltu fara, selja eigur þínar og gefa fátækum, og munt þú fjársjóð eiga á himnum. Kom síðan, og fylg mér."
22 Þegar ungi maðurinn heyrði þessi orð, fór hann brott hryggur, enda átti hann miklar eignir.
23 En Jesús sagði við lærisveina sína: "Sannlega segi ég yður: Torvelt verður auðmanni inn að ganga í himnaríki.
24 Enn segi ég: Auðveldara er úlfalda að fara gegnum nálarauga en auðmanni að komast inn í Guðs ríki."
25 Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta, urðu þeir steini lostnir og sögðu: "Hver getur þá orðið hólpinn?"
26 Jesús horfði á þá og sagði: "Fyrir mönnum eru engin ráð til þessa, en Guð megnar allt."
27 Þá sagði Pétur við hann: "Vér yfirgáfum allt og fylgdum þér. Hvað munum vér hljóta?"
28 Jesús sagði við þá: "Sannlega segi ég yður: Þegar allt er orðið endurfætt og Mannssonurinn situr í dýrðarhásæti sínu, munuð þér, sem fylgið mér, einnig sitja í tólf hásætum og dæma tólf ættkvíslir Ísraels.
29 Og hver sem hefur yfirgefið heimili, bræður eða systur, föður eða móður, börn eða akra sakir nafns míns, mun fá margfalt aftur og öðlast eilíft líf.
30 En margir hinir fyrstu munu verða síðastir og hinir síðustu fyrstir.
9 Á tuttugasta og fjórða degi þessa mánaðar söfnuðust Ísraelsmenn saman og föstuðu og klæddust hærusekk og jusu mold yfir höfuð sér.
2 Og niðjar Ísraels skildu sig frá öllum útlendingum, og þeir gengu fram og játuðu syndir sínar og misgjörðir feðra sinna.
3 Og þeir stóðu upp þar sem þeir voru, og menn lásu upp úr lögmálsbók Drottins, Guðs þeirra, fjórða hluta dagsins, og annan fjórða hluta dagsins játuðu þeir syndir sínar og féllu fram fyrir Drottni, Guði sínum.
4 Á levíta-pallinum stóðu þeir Jesúa, Baní, Kadmíel, Sebanja, Búnní, Serebja, Banní og Kenaní og hrópuðu með hárri röddu til Drottins, Guðs þeirra.
5 Og levítarnir Jesúa, Kadmíel, Baní, Hasabneja, Serebja, Hódía, Sebanja, Petahja sögðu: "Standið upp og vegsamið Drottin, Guð yðar, frá eilífð til eilífðar! Menn vegsami þitt dýrlega nafn, sem hafið er yfir alla vegsaman og lofgjörð!
6 Þú, Drottinn, þú einn ert Drottinn! Þú hefir skapað himininn, himnanna himna og allan þeirra her, jörðina og allt, sem á henni er, hafið og allt, sem í því er, og þú gefur því öllu líf, og himinsins her hneigir þér.
7 Það ert þú, Drottinn Guð, sem kjörið hefir Abram og leitt hann út frá Úr í Kaldeu og gefið honum nafnið Abraham.
8 Og með því að þú reyndir hann að trúmennsku gagnvart þér, þá gjörðir þú sáttmála við hann um að gefa niðjum hans land Kanaaníta, Hetíta, Amóríta, Peresíta, Jebúsíta og Gírgasíta. Og þú efndir orð þín, því að þú ert réttlátur.
9 Og er þú sást eymd feðra vorra í Egyptalandi og heyrðir neyðaróp þeirra við Rauðahafið,
10 þá gjörðir þú tákn og undur á Faraó og á öllum þjónum hans og á öllum lýð í landi hans, því að þú vissir að þeir höfðu sýnt þeim ofstopa. Og þannig afrekaðir þú þér mikið nafn fram á þennan dag.
11 Og þú klaufst hafið fyrir þeim, svo að þeir gengu á þurru mitt í gegnum hafið. En þeim, sem eltu þá, steyptir þú í sjávardjúpið eins og steini, í ströng vötn.
12 Og þú leiddir þá í skýstólpa um daga og í eldstólpa um nætur, til þess að lýsa þeim á veginum, sem þeir áttu að fara.
13 Og þú steigst niður á Sínaífjall og talaðir við þá af himnum og gafst þeim sanngjörn ákvæði, réttlát lög og góða setninga og boðorð.
14 Og þú gjörðir þeim kunnugan hinn heilaga hvíldardag þinn, og boðorð, setninga og lögmál settir þú þeim fyrir þjón þinn Móse.
15 Og þú gafst þeim brauð af himni við hungri þeirra og leiddir vatn af hellunni handa þeim við þorsta þeirra, og þú bauðst þeim að koma til þess að taka landið til eignar, sem þú hafðir svarið að gefa þeim.
16 En feður vorir urðu ofstopafullir og þverskölluðust og hlýddu ekki boðorðum þínum.
17 Þeir vildu ekki hlýða og minntust ekki dásemdarverka þinna, þeirra er þú hafðir á þeim gjört, en gjörðust harðsvíraðir og völdu sér í þverúð sinni fyrirliða til að snúa aftur til ánauðar sinnar. En þú ert Guð, sem fús er á að fyrirgefa, náðugur og miskunnsamur, þolinmóður og elskuríkur, og yfirgafst þá ekki.
18 Jafnvel þá, er þeir gjörðu sér steyptan kálf og sögðu: ,Þetta er guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi,` og frömdu miklar guðlastanir,
19 þá yfirgafst þú þá ekki á eyðimörkinni vegna þinnar miklu miskunnar. Skýstólpinn veik ekki frá þeim um daga, til þess að leiða þá á veginum, né eldstólpinn um nætur, til þess að lýsa þeim á veginum, sem þeir áttu að fara.
20 Og þú gafst þeim þinn góða anda til þess að fræða þá, og þú hélst ekki manna þínu frá munni þeirra og gafst þeim vatn við þorsta þeirra.
21 Fjörutíu ár ólst þú önn fyrir þeim á eyðimörkinni, svo að þá skorti ekkert. Föt þeirra slitnuðu ekki og fætur þeirra þrútnuðu ekki.
22 Og þú gafst þeim konungsríki og þjóðir og skiptir þeim til ystu takmarka, og þeir lögðu undir sig land Síhons og land konungsins í Hesbon og land Ógs, konungs í Basan.
23 Og þú gjörðir niðja þeirra svo marga sem stjörnur á himni og leiddir þá inn í það land, er þú hafðir heitið feðrum þeirra, að þeir skyldu komast inn í til þess að taka það til eignar.
24 Og niðjarnir komust þangað og tóku landið til eignar, og þú lagðir íbúa landsins, Kanaanítana, undir þá og gafst þá á þeirra vald, bæði konunga þeirra og íbúa landsins, svo að þeir gætu með þá farið eftir geðþótta sínum.
25 Og þeir unnu víggirtar borgir og feitt land og tóku til eignar hús, full af öllum góðum hlutum, úthöggna brunna, víngarða og olífugarða og ógrynni af aldintrjám. Og þeir átu og urðu saddir og feitir og lifðu í sællífi fyrir þína miklu gæsku.
26 En þeir gjörðust þverbrotnir og gjörðu uppreisn gegn þér og vörpuðu lögmáli þínu að baki sér, og spámenn þína, þá er áminntu þá til þess að snúa þeim aftur til þín, þá drápu þeir og frömdu miklar guðlastanir.
27 Þá gafst þú þá í hendur óvina þeirra, og þeir þjáðu þá. En þegar þeir voru í nauðum staddir, hrópuðu þeir til þín, og þú heyrðir þá af himnum og gafst þeim frelsara af mikilli miskunn þinni, er frelsuðu þá úr höndum óvina þeirra.
28 En er þeir höfðu fengið hvíld, tóku þeir aftur að gjöra það sem illt var fyrir augliti þínu. Þá ofurseldir þú þá óvinum þeirra, svo að þeir drottnuðu yfir þeim. Þá hrópuðu þeir aftur til þín, og þú heyrðir þá af himnum og bjargaðir þeim af miskunn þinni mörgum sinnum.
29 Og þú áminntir þá til þess að snúa þeim aftur til lögmáls þíns. En þeir voru hrokafullir og hlýddu ekki boðorðum þínum og syndguðu gegn skipunum þínum, þeim er hver sá skal af lifa, er breytir eftir þeim. Þeir þverskölluðust, gjörðust harðsvíraðir og hlýddu ekki.
30 Og þú umbarst þá í mörg ár og áminntir þá með anda þínum fyrir spámenn þína, en þeir heyrðu ekki. Þá ofurseldir þú þá á vald heiðinna þjóða,
31 en sökum þinnar miklu miskunnar gjörðir þú eigi alveg út af við þá og yfirgafst þá eigi, því að þú ert náðugur og miskunnsamur Guð.
32 Og nú, Guð vor, þú mikli, voldugi og ógurlegi Guð, þú sem heldur sáttmálann og miskunnsemina, lát þér eigi litlar þykja allar þær þrautir, er vér höfum orðið að sæta: konungar vorir, höfðingjar vorir, prestar vorir, spámenn vorir, feður vorir og gjörvallur lýður þinn, frá því á dögum Assýríukonunga og fram á þennan dag.
33 En þú ert réttlátur í öllu því, sem yfir oss hefir komið, því að þú hefir auðsýnt trúfesti, en vér höfum breytt óguðlega.
34 Konungar vorir, höfðingjar vorir, prestar vorir og feður vorir hafa ekki heldur haldið lögmál þitt né hlýtt skipunum þínum og aðvörunum, er þú hefir aðvarað þá með.
35 Og þótt þeir byggju í sínu eigin konungsríki og við mikla velsæld, er þú veittir þeim, og í víðlendu og frjósömu landi, er þú gafst þeim, þá þjónuðu þeir þér ekki og létu eigi af illskubreytni sinni.
36 Sjá, nú erum vér þrælar, og landið, sem þú gafst feðrum vorum, til þess að þeir nytu ávaxta þess og gæða, _ sjá, í því erum vér þrælar.
37 Það veitir konungunum sinn mikla ávöxt, þeim er þú settir yfir oss vegna synda vorra. Þeir drottna yfir líkömum vorum og fénaði eftir eigin hugþótta, og vér erum í miklum nauðum."
38 Sakir alls þessa gjörðum vér fasta skuldbindingu og skrifuðum undir hana. Og á hinu innsiglaða skjali stóðu nöfn höfðingja vorra, levíta og presta.
19 Meðan Apollós var í Korintu, fór Páll um upplöndin og kom til Efesus. Þar hitti hann fyrir nokkra lærisveina.
2 Hann sagði við þá: "Fenguð þér heilagan anda, er þér tókuð trú?" Þeir svöruðu: "Nei, vér höfum ekki einu sinni heyrt, að heilagur andi sé til."
3 Hann sagði: "Upp á hvað eruð þér þá skírðir?" Þeir sögðu: "Skírn Jóhannesar."
4 Þá mælti Páll: "Jóhannes skírði iðrunarskírn og sagði lýðnum að trúa á þann, sem eftir sig kæmi, það er á Jesú."
5 Þegar þeir heyrðu þetta, létu þeir skírast til nafns Drottins Jesú.
6 Er Páll hafði lagt hendur yfir þá, kom heilagur andi yfir þá, og þeir töluðu tungum og spáðu.
7 Þessir menn voru alls um tólf.
8 Páll sótti nú samkunduna í þrjá mánuði og talaði þar djarflega og reyndi að sannfæra menn um Guðs ríki.
9 En nokkrir brynjuðu sig og vildu ekki trúa. Þegar þeir tóku að illmæla veginum í áheyrn fólksins, sagði Páll skilið við þá, greindi lærisveinana frá þeim, og síðan talaði hann daglega í skóla Týrannusar.
10 Þessu fór fram í tvö ár, svo að allir þeir, sem í Asíu bjuggu, heyrðu orð Drottins, bæði Gyðingar og Grikkir.
11 Guð gjörði óvenjuleg kraftaverk fyrir hendur Páls.
12 Það bar við, að menn lögðu dúka og flíkur af Páli á sjúka, og hurfu þá veikindi þeirra, og illir andar fóru út af þeim.
13 En nokkrir Gyðingar, er fóru um og frömdu andasæringar, tóku og fyrir að nefna nafn Drottins Jesú yfir þeim, er höfðu illa anda. Þeir sögðu: "Ég særi yður við Jesú þann, sem Páll prédikar."
14 Þeir er þetta frömdu, voru sjö synir Gyðings nokkurs, Skeva æðsta prests.
15 En illi andinn sagði við þá: "Jesú þekki ég, og Pál kannast ég við, en hverjir eruð þér?"
16 Og maðurinn, sem illi andinn var í, flaug á þá, keyrði þá alla undir sig og lék þá svo hart, að þeir flýðu naktir og særðir úr húsinu.
17 Þetta varð kunnugt öllum Efesusbúum, bæði Gyðingum og Grikkjum, og ótta sló á þá alla, og nafn Drottins Jesú varð miklað.
18 Margir þeirra, sem trú höfðu tekið, komu, gjörðu játningu og sögðu frá athæfi sínu.
19 Og allmargir er farið höfðu með kukl, komu með bækur sínar og brenndu þær að öllum ásjáandi. Þær voru samtals virtar á fimmtíu þúsundir silfurpeninga.
20 Þannig breiddist orð Drottins út og efldist í krafti hans.
21 Þá er þetta var um garð gengið, tók Páll þá ákvörðun að ferðast um Makedóníu og Akkeu og fara síðan til Jerúsalem. Hann sagði: "Þegar ég hef verið þar, ber mér líka að sjá Róm."
22 Hann sendi tvo aðstoðarmenn sína, þá Tímóteus og Erastus, til Makedóníu, en dvaldist sjálfur um tíma í Asíu.
23 Í þann tíma urðu miklar æsingar út af veginum.
24 Demetríus hét maður og var silfursmiður. Bjó hann til Artemisar-musteri úr silfri og veitti smiðum eigi litla atvinnu.
25 Hann stefndi þeim saman og öðrum, sem að slíku unnu, og sagði: "Góðir menn, þér vitið, að velmegun vor hvílir á þessari atvinnu.
26 Og þér sjáið og heyrið, að Páll þessi hefur með fortölum sínum snúið fjölda fólks, ekki einungis í Efesus, heldur nær um gjörvalla Asíu. Hann segir, að eigi séu það neinir guðir, sem með höndum eru gjörðir.
27 Nú horfir þetta ekki einungis iðn vorri til smánar, heldur einnig til þess, að helgidómur hinnar miklu gyðju, Artemisar, verði einskis virtur og að hún, sem öll Asía og heimsbyggðin dýrkar, verði svipt tign sinni."
28 Er þeir heyrðu þetta, urðu þeir afar reiðir og æptu: "Mikil er Artemis Efesusmanna!"
29 Og öll borgin komst í uppnám, menn þustu hver um annan til leikvangsins og þrifu með sér þá Gajus og Aristarkus, förunauta Páls úr Makedóníu.
30 En er Páll vildi ganga inn í mannþröngina, leyfðu lærisveinarnir honum það ekki.
31 Nokkrir höfðingjar skattlandsins, sem voru vinir hans, sendu einnig til hans og báðu hann að hætta sér ekki inn á leikvanginn.
32 Menn hrópuðu nú sitt hver, því að mannsöfnuðurinn var í uppnámi, og vissu fæstir, hvers vegna þeir voru saman komnir.
33 Nokkrir í mannþrönginni töldu það vera vegna Alexanders, því að Gyðingar ýttu honum fram, en Alexander benti til hljóðs með hendinni og vildi verja mál sitt fyrir fólkinu.
34 Þegar menn urðu þess vísir, að hann var Gyðingur, lustu allir upp einu ópi og hrópuðu í nærfellt tvær stundir: "Mikil er Artemis Efesusmanna!"
35 En borgarritarinn gat sefað fólkið og mælti: "Efesusmenn, hver er sá maður, að hann viti ekki, að borg Efesusmanna geymir musteri hinnar miklu Artemisar og steininn helga af himni?
36 Þar sem enginn má gegn því mæla, ber yður að vera stilltir og hrapa ekki að neinu.
37 Þér hafið dregið þessa menn hingað, þótt þeir hafi hvorki framið helgispjöll né lastmælt gyðju vorri.
38 Eigi nú Demetríus og smiðirnir, sem honum fylgja, sök við nokkurn, þá eru þingdagar haldnir, og til eru landstjórar. Eigist þeir lög við.
39 En ef þér hafið annars að krefja, má gjöra út um það á löglegu þingi.
40 Vér eigum á hættu að verða sakaðir um uppreisn fyrir þetta í dag og getum ekki bent á neitt tilefni, sem gæti afsakað slík ólæti." Að svo mæltu lét hann mannsöfnuðinn fara.
by Icelandic Bible Society