Print Page Options
Previous Prev Day Next DayNext

M’Cheyne Bible Reading Plan

The classic M'Cheyne plan--read the Old Testament, New Testament, and Psalms or Gospels every day.
Duration: 365 days
Icelandic Bible (ICELAND)
Version
Fyrsta bók Móse 19

19 Englarnir tveir komu um kveldið til Sódómu. Sat Lot í borgarhliði. Og er hann sá þá, stóð hann upp í móti þeim og hneigði ásjónu sína til jarðar.

Því næst mælti hann: "Heyrið, herrar mínir, sýnið lítillæti og komið inn í hús þjóns ykkar, og verið hér í nótt og þvoið fætur ykkar. Getið þið þá risið árla á morgun og farið leiðar ykkar." En þeir sögðu: "Nei, við ætlum að hafast við á strætinu í nótt."

Þá lagði hann mikið að þeim, uns þeir fóru inn til hans og gengu inn í hús hans. Og hann bjó þeim máltíð og bakaði ósýrt brauð, og þeir neyttu.

En áður en þeir gengu til hvíldar, slógu borgarmenn, mennirnir í Sódómu, hring um húsið, bæði ungir og gamlir, allur múgurinn hvaðanæva.

Og þeir kölluðu á Lot og sögðu við hann: "Hvar eru mennirnir, sem komu til þín í kveld? Leið þú þá út til vor, að vér megum kenna þeirra."

Lot gekk þá út til þeirra, út fyrir dyrnar, og lokaði hurðinni að baki sér.

Og hann sagði: "Fyrir hvern mun, bræður mínir, fremjið ekki óhæfu.

Sjá, ég á tvær dætur, sem ekki hafa karlmanns kennt. Ég skal leiða þær út til yðar, gjörið við þær sem yður gott þykir. Aðeins megið þér ekkert gjöra þessum mönnum, úr því að þeir eru komnir undir skugga þaks míns."

Þá æptu þeir: "Haf þig á burt!" og sögðu: "Þessi náungi er hingað kominn sem útlendingur og vill nú stöðugt vera að siða oss. Nú skulum vér leika þig enn verr en þá." Og þeir gjörðu ákaflega þröng að honum, að Lot, og gengu nær til að brjóta upp dyrnar.

10 Þá seildust mennirnir út og drógu Lot til sín inn í húsið og lokuðu dyrunum.

11 En þá, sem voru úti fyrir dyrum hússins, slógu þeir með blindu, smáa og stóra, svo að þeir urðu að gefast upp við að finna dyrnar.

12 Mennirnir sögðu við Lot: "Átt þú hér nokkra fleiri þér nákomna? Tengdasyni, syni, dætur? Alla í borginni, sem þér eru áhangandi, skalt þú hafa á burt héðan,

13 því að við munum eyða þennan stað, af því að hrópið yfir þeim fyrir Drottni er mikið, og Drottinn hefir sent okkur til að eyða borgina."

14 Þá gekk Lot út og talaði við tengdasyni sína, sem ætluðu að ganga að eiga dætur hans, og mælti: "Standið upp skjótt og farið úr þessum stað, því að Drottinn mun eyða borgina." En tengdasynir hans hugðu, að hann væri að gjöra að gamni sínu.

15 En er dagur rann, ráku englarnir eftir Lot og sögðu: "Statt þú upp skjótt! Tak þú konu þína og báðar dætur þínar, sem hjá þér eru, svo að þú fyrirfarist ekki vegna syndar borgarinnar."

16 En er hann hikaði við, tóku mennirnir í hönd honum og í hönd konu hans og í hönd báðum dætrum hans, af því að Drottinn vildi þyrma honum, og leiddu hann út og létu hann út fyrir borgina.

17 Og er þeir höfðu leitt þau út, sögðu þeir: "Forða þér, líf þitt liggur við! Lít ekki aftur fyrir þig og nem hvergi staðar á öllu sléttlendinu, forða þér á fjöll upp, að þú farist eigi."

18 Þá sagði Lot við þá: "Æ nei, herra!

19 Sjá, þjónn þinn hefir fundið náð í augum þínum, og þú hefir sýnt á mér mikla miskunn að láta mig halda lífi. En ég get ekki forðað mér á fjöll upp, ógæfan getur komið yfir mig og ég dáið.

20 Sjá, þarna er borg í nánd, þangað gæti ég flúið, og hún er lítil. Ég vil forða mér þangað _ er hún ekki lítil? _ og ég mun halda lífi."

21 Drottinn sagði við hann: "Sjá, ég hefi einnig veitt þér þessa bæn, að leggja ekki í eyði borgina, sem þú talaðir um.

22 Flýt þér! Forða þér þangað, því að ég get ekkert gjört, fyrr en þú kemst þangað." Vegna þessa nefna menn borgina Sóar.

23 Sólin var runnin upp yfir jörðina, er Lot kom til Sóar.

24 Og Drottinn lét rigna yfir Sódómu og Gómorru brennisteini og eldi frá Drottni, af himni.

25 Og hann gjöreyddi þessar borgir og allt sléttlendið og alla íbúa borganna og gróður jarðarinnar.

26 En kona hans leit við að baki honum og varð að saltstöpli.

27 Abraham gekk snemma morguns þangað, er hann hafði staðið frammi fyrir Drottni.

28 Og hann horfði niður á Sódómu og Gómorru og yfir allt sléttlendið og sá, að reyk lagði upp af jörðinni, því líkast sem reykur úr ofni.

29 En er Guð eyddi borgirnar á sléttlendinu, minntist Guð Abrahams og leiddi Lot út úr eyðingunni, þá er hann lagði í eyði borgirnar, sem Lot hafði búið í.

30 Lot fór frá Sóar upp á fjöllin og staðnæmdist þar og báðar dætur hans með honum, því að hann óttaðist að vera kyrr í Sóar, og hann hafðist við í helli, hann og báðar dætur hans.

31 Þá sagði hin eldri við hina yngri: "Faðir okkar er gamall, og enginn karlmaður er eftir á jörðinni, sem samfarir megi við okkur hafa, eins og siðvenja er til alls staðar á jörðinni.

32 Kom þú, við skulum gefa föður okkar vín að drekka og leggjast hjá honum, að við megum kveikja kyn af föður okkar."

33 Síðan gáfu þær föður sínum vín að drekka þá nótt, og hin eldri fór og lagðist hjá föður sínum. En hann varð hvorki var við, að hún lagðist niður, né að hún reis á fætur.

34 Og morguninn eftir sagði hin eldri við hina yngri: "Sjá, í nótt lá ég hjá föður mínum. Við skulum nú einnig í nótt gefa honum vín að drekka. Far þú síðan inn og leggst hjá honum, að við megum kveikja kyn af föður okkar."

35 Síðan gáfu þær föður sínum vín að drekka einnig þá nótt, og hin yngri tók sig til og lagðist hjá honum. En hann varð hvorki var við, að hún lagðist niður, né að hún reis á fætur.

36 Þannig urðu báðar dætur Lots þungaðar af völdum föður síns.

37 Hin eldri ól son og nefndi hann Móab. Hann er ættfaðir Móabíta allt til þessa dags.

38 Og hin yngri ól einnig son og nefndi hann Ben-Ammí. Hann er ættfaðir Ammóníta allt til þessa dags.

Matteusarguðspjall 18

18 Á þeirri stundu komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu: "Hver er mestur í himnaríki?"

Hann kallaði til sín lítið barn, setti það meðal þeirra

og sagði: "Sannlega segi ég yður: Nema þér snúið við og verðið eins og börn, komist þér aldrei í himnaríki.

Hver sem auðmýkir sjálfan sig eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki.

Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni, tekur við mér.

En hverjum þeim, sem tælir til falls einn af þessum smælingjum, sem á mig trúa, væri betra að vera sökkt í sjávardjúp með mylnustein hengdan um háls.

Vei heiminum vegna ginninga hans. Hjá ginningum verður eigi komist, en vei þeim manni, sem veldur.

Ef hönd þín eða fótur tælir þig til falls, þá sníð hann af og kasta frá þér. Betra er þér handarvana eða höltum inn að ganga til lífsins en hafa báðar hendur og báða fætur og verða kastað í hinn eilífa eld.

Og ef auga þitt tælir þig til falls, þá ríf það úr og kasta frá þér. Betra er þér eineygðum inn að ganga til lífsins en hafa bæði augu og verða kastað í eldsvítið.

10 Varist að forsmá nokkurn þessara smælingja. Ég segi yður, að englar þeirra á himnum sjá jafnan auglit míns himneska föður. [

11 Því að Mannssonurinn er kominn að frelsa hið týnda.]

12 Hvað virðist yður? Ef einhver á hundrað sauði og einn þeirra villist frá, skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í fjallinu og fer að leita þess, sem villtur er?

13 Og auðnist honum að finna hann, þá segi ég yður með sanni, að hann fagnar meir yfir honum en þeim níutíu og níu, sem villtust ekki frá.

14 Þannig er það eigi vilji yðar himneska föður, að nokkur þessara smælingja glatist.

15 Ef bróðir þinn syndgar [gegn þér], skaltu fara og tala um fyrir honum, og sé það ykkar einna í milli. Láti hann sér segjast, hefur þú unnið bróður þinn.

16 En láti hann sér ekki segjast, skaltu taka með þér einn eða tvo, að ,hvert orð sé staðfest með framburði tveggja eða þriggja vitna.`

17 Ef hann skeytir þeim ekki, þá seg það söfnuðinum, og skeyti hann ekki söfnuðinum heldur, þá sé hann þér sem heiðingi eða tollheimtumaður.

18 Sannlega segi ég yður: Hvað sem þér bindið á jörðu, mun bundið á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, mun leyst á himni.

19 Enn segi ég yður: Hverja þá bæn, sem tveir yðar verða einhuga um á jörðu, mun faðir minn á himnum veita þeim.

20 Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra."

21 Þá gekk Pétur til hans og spurði: "Herra, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum, ef hann misgjörir við mig? Svo sem sjö sinnum?"

22 Jesús svaraði: "Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö.

23 Því að líkt er um himnaríki og konung, sem vildi láta þjóna sína gjöra skil.

24 Hann hóf reikningsskilin, og var færður til hans maður, er skuldaði tíu þúsund talentur.

25 Sá gat ekkert borgað, og bauð konungur þá, að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu, sem hann átti, til lúkningar skuldinni.

26 Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: ,Haf biðlund við mig, og ég mun borga þér allt.`

27 Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina.

28 Þegar þjónn þessi kom út, hitti hann einn samþjón sinn, sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: ,Borga það, sem þú skuldar!`

29 Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: ,Haf biðlund við mig, og ég mun borga þér.`

30 En hann vildi ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi, uns hann hefði borgað skuldina.

31 Þegar samþjónar hans sáu, hvað orðið var, urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt, sem gjörst hafði.

32 Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: ,Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp, af því að þú baðst mig.

33 Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum, eins og ég miskunnaði þér?`

34 Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum, uns hann hefði goldið allt, sem hann skuldaði honum.

35 Þannig mun og faðir minn himneskur gjöra við yður, nema hver og einn yðar fyrirgefi af hjarta bróður sínum."

Nehemíabók 8

Allur lýðurinn safnaðist saman eins og einn maður á torginu fyrir framan Vatnshliðið. Og þeir báðu Esra fræðimann að sækja lögmálsbók Móse, er Drottinn hafði sett Ísrael.

Þá kom Esra prestur með lögmálið fram fyrir söfnuðinn, bæði karla og konur og alla þá, er vit höfðu á að taka eftir, á fyrsta degi hins sjöunda mánaðar.

Og hann las upp úr því á torginu, sem er fyrir framan Vatnshliðið, frá birtingu til hádegis, í viðurvist karla og kvenna og þeirra barna, er vit höfðu á, og eyru alls lýðsins hlýddu á lögmálsbókina.

Esra fræðimaður stóð á háum trépalli, er menn höfðu gjört til þessa, og hjá honum stóðu Mattitja, Sema, Anaja, Úría, Hilkía og Maaseja, honum til hægri hliðar, og honum til vinstri hliðar Pedaja, Mísael, Malkía, Hasúm, Hasbaddana, Sakaría og Mesúllam.

Og Esra lauk upp bókinni í augsýn alls fólksins, því að hann stóð hærra en allur lýðurinn, og þegar hann lauk henni upp, stóð allur lýðurinn upp.

Og Esra lofaði Drottin, hinn mikla Guð, og allur lýðurinn svaraði: "Amen! amen!" og fórnuðu þeir um leið upp höndunum og beygðu sig og féllu fram á ásjónur sínar til jarðar fyrir Drottni.

Og levítarnir Jesúa, Baní, Serebja, Jamín, Akkúb, Sabtaí, Hódía, Maaseja, Kelíta, Asarja, Jósabad, Hanan og Pelaja skýrðu lögmálið fyrir lýðnum, en fólkið var kyrrt á sínum stað.

Þeir lásu skýrt upp úr bókinni, lögmáli Guðs, og útskýrðu það, svo að menn skildu hið upplesna.

Og Nehemía _ það er landstjórinn _ og Esra prestur, fræðimaðurinn, og levítarnir, sem fræddu lýðinn, sögðu við gjörvallan lýðinn: "Þessi dagur er helgaður Drottni, Guði yðar. Sýtið eigi né grátið!" Því að allur lýðurinn grét, þegar þeir heyrðu orð lögmálsins.

10 Og Esra sagði við þá: "Farið og etið feitan mat og drekkið sæt vín og sendið þeim skammta, sem ekkert er tilreitt fyrir, því að þessi dagur er helgaður Drottni vorum. Verið því eigi hryggir, því að gleði Drottins er hlífiskjöldur yðar."

11 Og levítarnir sefuðu allan lýðinn með því að segja: "Verið hljóðir, því að þessi dagur er heilagur. Verið því eigi hryggir."

12 Þá fór allt fólkið til þess að eta og drekka og senda skammta og halda mikla gleðihátíð, því að þeir höfðu skilið þau orð, er menn höfðu kunngjört þeim.

13 Daginn eftir söfnuðust ætthöfðingjar alls lýðsins, prestarnir og levítarnir saman hjá Esra fræðimanni til þess að gefa gaum að orðum lögmálsins.

14 Þá fundu þeir ritað í lögmálinu, er Drottinn hafði sett þeim fyrir Móse, að Ísraelsmenn skyldu búa í laufskálum á hátíðinni í sjöunda mánuðinum,

15 og að þeir ættu að kunngjöra og láta boð út ganga í öllum borgum sínum og í Jerúsalem á þessa leið: "Farið upp í fjöll og komið með greinar af olíuviði og greinar af villi-olíuviði og greinar af mýrtusviði og greinar af pálmaviði og greinar af þéttlaufguðum trjám, til þess að gjöra af laufskála, eins og skrifað er."

16 Og fólkið fór og sótti greinar, og þeir gjörðu sér laufskála hver á sínu húsþaki og í forgörðum sínum og í forgörðum Guðs húss og á torginu fyrir framan Vatnshliðið og á torginu fyrir framan Efraímhliðið.

17 Og allur söfnuðurinn, þeir er aftur voru heim komnir úr herleiðingunni, byggðu laufskála og bjuggu í laufskálunum. Því að Ísraelsmenn höfðu eigi gjört það síðan á dögum Jósúa Núnssonar allt til þessa dags, og varð þar því mjög mikil gleði.

18 Og það var lesið upp úr lögmálsbók Guðs á degi hverjum, frá fyrsta degi til hins síðasta dags. Og þeir héldu hátíð í sjö daga, og áttunda daginn var hátíðasamkoma, eins og fyrirskipað var.

Postulasagan 18

18 Eftir þetta fór Páll frá Aþenu og kom til Korintu.

Þar hitti hann Gyðing nokkurn, Akvílas að nafni, ættaðan frá Pontus, nýkominn frá Ítalíu, og Priskillu konu hans, en Kládíus hafði skipað svo fyrir, að allir Gyðingar skyldu fara burt úr Róm. Páll fór til þeirra,

og af því hann stundaði sömu iðn, settist hann að hjá þeim og vann með þeim. Þeir voru tjaldgjörðarmenn að iðn.

Hann ræddi við menn í samkunduhúsinu hvern hvíldardag og reyndi að sannfæra bæði Gyðinga og Grikki.

Þegar þeir Sílas og Tímóteus komu norðan frá Makedóníu, gaf Páll sig allan að boðun orðsins og vitnaði fyrir Gyðingum, að Jesús væri Kristur.

En er þeir stóðu í gegn og lastmæltu, hristi hann dustið af klæðum sínum og sagði við þá: "Blóð yðar komi yfir höfuð yðar. Ekki er mér um að kenna. Upp frá þessu fer ég til heiðingjanna."

Og hann fór þaðan og kom í hús manns nokkurs, er hét Títus Jústus og dýrkaði Guð. Hús hans var hjá samkunduhúsinu.

Krispus samkundustjóri tók trú á Drottin og allt heimili hans, og margir Korintumenn, sem á hlýddu, tóku trú og létu skírast.

En Drottinn sagði við Pál um nótt í sýn: "Óttast þú eigi, heldur tala þú og þagna ekki,

10 ég er með þér. Enginn skal ráðast að þér og vinna þér mein, því að ég á margt fólk í þessari borg."

11 Hann var þar um kyrrt þrjú misseri og kenndi þeim orð Guðs.

12 En þegar Gallíón var landstjóri í Akkeu, bundust Gyðingar samtökum gegn Páli, drógu hann fyrir dómstólinn

13 og sögðu: "Maður þessi tælir menn til að dýrka Guð gagnstætt lögmálinu."

14 Páll bjóst til að svara, og þá sagði Gallíón við Gyðingana: "Væri hér um einhver lögbrot eða illvirki að ræða, bæri mér að sinna yður, Gyðingar.

15 En fyrst það eru þrætur um orð og nöfn og lögmál yðar, þá ráðið sjálfir fram úr því. Dómari í þeim sökum vil ég ekki vera."

16 Og hann rak þá burt frá dómstólnum.

17 Þá tóku þeir allir Sósþenes samkundustjóra og fóru að berja hann fyrir framan dómstólinn, og lét Gallíón sig það engu skipta.

18 Páll var þar enn um kyrrt allmarga daga, kvaddi síðan bræðurna og sigldi til Sýrlands og með honum Priskilla og Akvílas. Lét hann áður skera hár sitt í Kenkreu, því að heit hafði hvílt á honum.

19 Þeir komu til Efesus. Þar skildi hann við þá, en gekk sjálfur inn í samkunduhúsið og ræddi við Gyðinga.

20 Þeir báðu hann að standa lengur við, en hann varð ekki við því,

21 heldur kvaddi þá og sagði: "Ég skal koma aftur til yðar, ef Guð lofar." Síðan lét hann í haf frá Efesus,

22 lenti í Sesareu, fór upp eftir til Jerúsalem og heilsaði söfnuðinum. Síðan hélt hann norður til Antíokkíu.

23 Þegar hann hafði dvalist þar um hríð, hélt hann af stað og fór eins og leið liggur um Galataland og Frýgíu og styrkti alla lærisveinana.

24 En Gyðingur nokkur, Apollós að nafni, ættaður frá Alexandríu, kom til Efesus. Hann var maður vel máli farinn og fær í ritningunum.

25 Hann hafði verið fræddur um veg Drottins, og brennandi í andanum talaði hann og kenndi kostgæfilega um Jesú. Þó þekkti hann aðeins skírn Jóhannesar.

26 Þessi maður tók nú að tala djarflega í samkunduhúsinu. Priskilla og Akvílas heyrðu til hans, tóku hann að sér og skýrðu nánar fyrir honum Guðs veg.

27 Hann fýsti að fara yfir til Akkeu. Bræðurnir hvöttu hann til þess og rituðu lærisveinunum þar að taka honum vel. Hann kom þangað og varð til mikillar hjálpar þeim, sem fyrir Guðs náð höfðu tekið trú,

28 því hann hrakti skarplega rök Gyðinga í allra áheyrn og sannaði af ritningunum, að Jesús væri Kristur.

Icelandic Bible (ICELAND)

by Icelandic Bible Society